Merki LMFÍ

Reglur um notkun merkis Lögmannafélags Íslands

1. gr.

Markmið reglna þessara er að tryggja að samræmi sé í notkun merkis LMFÍ og að koma í veg fyrir misnotkun þess.

Merki Lögmannafélags Íslands er fornt grískt tákn fyrir vogina.

logo LMFÍ

Litur þess er blár, nánar tiltekið Pantone 286. Einnig er heimilt að prenta merkið í svörtum lit.

2. gr.

Merkinu er ætlað að vera hluti af ímynd félagsins og lögmannastéttarinnar bæði inn á við og út á við. Þannig er merkinu ætlað að stuðla að samstöðu stéttarinnar um innri málefni hennar og félagsins og að vera tákn um fagleg vinnubrögð og góða lögmannshætti út á við.

3. gr.

Einungis félagið sjálft, félagsdeild LMFÍ og lögmenn mega nota merkið og verða að hlíta þeim reglum, sem gilda um meðferð þess.

4. gr.

Lögmannafélag Íslands auðkennir sig með merkinu á prentgripum félagsins (bréfsefni, félagsblöðum o.s.frv.) og á annan hátt, sem viðeigandi þykir að mati stjórnarinnar.

Á prentgripum félagsdeildar LMFÍ með merki félagsins skal deildin auðkennd sérstaklega.

5. gr.

Lögmönnum skal heimilt að nota merkið til kynningar á starfsemi sinni enda sé fylgt ákvæðum siðareglna LMFÍ um auglýsingar lögmanna og landslögum.

Merkið skal notað og borið þannig að ekki sé varpað rýrð á það.

Óheimilt er með öllu að nota eða láta gera skrumskældar útgáfur merkisins.

6. gr.

Félagsdeild LMFÍ er heimilt að láta framleiða vörur með merkinu, sem félagsmenn og aðrir geta keypt, svo sem barmmerki, bindisnælur, borðfána, penna o.s.frv.

7. gr.

Stjórn LMFÍ er heimilt að takmarka og jafnvel banna einstökum mönnum notkun merkisins ef notkun þeirra á því samrýmist ekki ákvæðum reglna þessara og ekki er orðið við tilmælum um úrbætur.

8. gr.

Framanskráðar reglur má ekki skoða sem tæmandi um notkun og meðferð merkisins. Í vafatilvikum skal haft samráð við stjórn LMFÍ.

Þannig samþykkt á fundi stjórnar LMFÍ (9. september 1999) samkvæmt heimild í 22. gr. samþykkta LMFÍ.