Framundan

Undirbúningur hluthafafunda og fundarstjórn - 3. febrúar 2022 - ath ný tímasetning

Farið verður yfir helstu atriði varðandi undirbúning hluthafafunda og fundarstjórn, þar á meðal boðun funda, efni tillagna til breytinga á samþykktum, rafræna þátttöku í fundum, reglur um atkvæðagreiðslur og framkvæmd fundarins.   

Nánari upplýsingar og skráning

Fyrir starfsmenn lögmannsstofa: Nokkur hugtök lögfræðinnar – 21. febrúar 2022

Fjallað verður um meðferð mála hjá dómstólum og stjórnsýsluaðilum. Er einhver munur á grunnreglum einkamálaréttarfarsins og málsmeðferðarreglum hjá kærunefndum? Hvað eru kærunefndir og hvernig eru mál borin undir þær? Hver er munur á einkamálum og opinberum málum?  Hvernig fara opinber skipti fram og af hverju?  Hver er þýðing gjaldþrotaskipta? 

Farið verður stuttlega yfir innheimtuferli skulda frá upphafi til enda, svo sem greiðsluáskorun, aðfararbeiðni, undanfara og framkvæmd uppboðs. Að lokum verður rætt um kaupmála, sambúðarslit og hver er munur á réttarstöðu í sambúð eða hjónabandi. 

Nánari upplýsingar og skráning

Net- og tölvubrot – 22. febrúar 2022

Með síaukinni tæknivæðingu samfélagsins hefur umfang net- og tölvubrota breyst og tíðni aukist á síðustu árum. Á námskeiðinu verður fjallað um ýmsar birtingarmyndir þessa, bæði í íslensku og alþjóðlegu samhengi. Fjallað verður um flokka, tegundir og einkenni net- og tölvubrota, og yfirsýn gefin yfir helstu lagareglur sem gilda um þannig brot í íslenskum rétti.  

Nánari upplýsingar og skráning

Stofnun eignarréttar að fasteignum fyrir traustfang og hefð – 10. mars 2022

Fjallað verður um stofnun eignarréttar að fasteignum fyrir traustfang og hefð. Í tilviki traustfangsreglna um fasteignir eru þær reglur fyrst og fremst lögfestar, sbr. 1. mgr. 29. gr. þinglýsingarlaga, en á ýmsum öðrum sviðum traustfangs eru þær ólögfestar og mótaðar í dómaframkvæmd. Gerð verður nánari grein fyrir grundvelli og þróun réttarins á þessu sviði. Lögin um hefð nr. 46/1905 voru mikil tímamóta löggjöf og hafa haft verulega þýðingu fyrir mótun réttarumhverfis á þeirri rúmu öld sem þau hafa gilt.

Á námskeiðinu verða knappar en efnismiklar reglur laganna skýrðar með hliðsjón af ríkulegri dómaframkvæmd Hæstaréttar. Fjallað verður um tilbrigði hefðar, eignarréttindi sem byggð verða á hefð, huglæg og hlutlæg skilyrði hefðar, þ.m.t. hefðartíma, kröfuna um óslitið eignarnám, o.fl. Þá verður í þessu samhengi vikið að réttmætum væntingum og þýðingu þeirra að íslenskum rétti með hliðsjón af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu.

Nánari upplýsingar og skráning

Rekstur máls fyrir héraðsdómi – 8. og 11. mars 2022

Námskeiðslína í einkamálaréttarfari

Farið verður yfir helstu þætti og snertifleti við rekstur máls fyrir héraðsdómi, þ.á m. gerð stefnu og greinargerðar, sönnunarfærslu og munnlegan málflutning.

Leitast verður við að nálgast viðfangsefnin bæði frá fræðilegum og hagnýtum sjónarhóli. Sérstök áhersla verður meðal annars á meginreglur einkamálaréttarfars og þýðingu og samspil þeirra á öllum stigum málsmeðferðar. Í því sambandi verður lögð sérstök áhersla á dómaframkvæmd síðustu ára, hvar meginreglurnar skipa æ ríkari sess. Þá er einnig fjallað um ýmis álitaefni sem geta komið upp á öllum stigum máls og hvernig best getur reynst að bregðast við þeim.

Jafnframt verður farið yfir grundvallaratriði í kröfugerð, bæði til sóknar og varnar. Síðast en ekki síst verður fjallað um sönnunarfærslu, þ.á m. öflun sérfræðilegra gagna og skýrslutökur fyrir dómi.

Námskeiðið er ekki eingöngu ætlað þeim sem sinna málflutningi fyrir dómi, heldur líka lögfræðingum og lögmönnum sem fela öðrum lögmönnum málflutningsstörf. Verður meðal annars brugðið ljósi á hvað þarf einkum að hafa í huga í slíku samstarfi þannig að bestu niðurstöðu skili.

Nánari upplýsingar og skráning

Peningaþvættisbrot skv. 264. gr. hegningarlaga – 15. mars 2022

Fjallað verður um hlutræn og hugræn skilyrði peningaþvættisbrots skv. 264. gr. hgl. með hliðsjón af dómaframkvæmd. Meðal annars verður leitast við að greina hvar skilin liggja milli frumbrots og peningaþvættis, ekki síst þegar um er að ræða sjálfsþvætti (sami aðili fremur bæði frumbrot og þvættisbrot). Til að setja efnið í samhengi verður fjallað um sögulegar rætur 264. gr. hgl. og þróun ákvæðisins á undanförnum áratugum, sem einkennist af mikilli rýmkun á verknaðarlýsingu peningaþvættisbrotsins. Vikið verður stuttlega að norrænni réttarþróun til samanburðar. Lögð verður áhersla á hagnýta nálgun á efnið.

Nánari upplýsingar og skráning

Matsgerðir – 17. mars 2022

Námskeiðslína í einkamálaréttarfari

Matsgerðir skipa veigamikinn sess í rekstri dómsmála. Á námskeiðinu verður farið ítarlega yfir helstu lög og reglur og álitaefni sem á reynir í tengslum við öflun matsgerða í einkamálum, svo sem form og gerð matsbeiðni, matsspurningar, yfirmöt og ný möt.

Varpað verður ljósi á fjölmörg réttarfarsleg álitaefni sem á getur reynt í tengslum við dómkvaðningu matsmanna, með sérstaka áherslu á dómaframkvæmd síðustu ára.

Leitast er við að nálgast viðfangsefnin frá hagnýtum sjónarhóli.

Nánari upplýsingar og skráning

Má ekkert lengur? – Um ærumeiðingar á internetinu 24. mars 2022

Fjallað verður um mörk tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífs með áherslu á heimildir og takmarkanir almennra borgara til þess að tjá sig á internetinu. Nýleg dómaframkvæmd hér á landi og frá Mannréttindadómstól Evrópu verður til umfjöllunar og leitast við að draga fram hversu langt einstaklingum er heimilt að ganga á þessum vettvangi. Þá verður skoðað hvenær ummæli fela í sér meiðyrði og hvenær þau teljast heimilir gildisdómar eða endursögn og sönnunarkröfur til ummæla. Loks verður skoðað hvað dæmigerðar bætur eru í málaflokknum.

Nánari upplýsingar og skráning

Rekstur mála fyrir áfrýjunardómi – 29. mars 2022

Námskeiðslína í einkamálaréttarfari

Farið verður yfir helstu reglur og álitaefni sem á reynir í tengslum við málskot í einkamálum, bæði hvað varðar áfrýjanir og kærur. Jafnframt verður fjallað um beiðnir um áfrýjunar- og kæruleyfi til Hæstaréttar, þ.á m. hvaða sjónarmið hafa vegið þyngst á metum í málskotsákvörðunum Hæstaréttar og eru þannig vænlegust til að bera árangur.

Rík áhersla verður jafnframt lögð á sönnunarfærslu fyrir æðri dómi, þ.á m. öflun matsgerða fyrir Landsrétti og hvaða hömlur geta verið á slíkri sönnunarfærslu. Í því sambandi verður meðal annars brugðið ljósi á dómaframkvæmd og ákvarðanir sem Landsréttur hefur tekið undir rekstri einstakra mála. Jafnframt verður fjallað um skýrslutökur fyrir Landsrétti.

Einnig verður fjallað um málflutning fyrir æðri dómi, þ.á m. hvað skilur helst á milli hans og málflutnings á fyrsta dómstigi.

Leitast verður við að nálgast viðfangsefnin frá hagnýtum og fræðilegum sjónarhóli, þ.á m. hvað ber helst að varast.

Nánari upplýsingar og skráning