Framundan

Veiðiréttur: Bæði fugl og fiskur 29. okt

Fjallað verður um rétt til veiða á fugli og fiski á eignarlöndum og í þjóðlendum. Annars vegar mun yfirferðin beinast að löggjöf um veiði og nytjar ferskvatnsfiska þar sem lög nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði verða í forgrunni. Vikið verður að nýlegum dómum á þessu réttarsviði, m.a. um svonefnt aðskilnaðarbann sem nú má finna í 9. gr. núgildandi laga. Þá verður einnig vikið að öðrum þýðingarmiklum atriðum, eins og t.d. skylduaðild að veiðifélögum og fyrirkomulagi þeirra. Hins vegar verður sjónum beint að reglum um veiði og nytjar fugla og spendýra en á því sviði rísa t.d. iðulega álitaefni í aðdraganda rjúpnaveiðitíma, sem hefst 1. nóvember, um það hvar heimilt sé að stunda veiðar.   

Námskeiðið er hluti af námskeiðslínu í eignarétti 

Nánari upplýsingar og skráning

Þríleikur: Kaup og sala fyrirtækja 3. nóv

Farið verður yfir aðdraganda og undirbúning við kaup og sölu fyrirtækja sem og helstu skjöl sem útbúin eru og nýtt í tengslum við slík kaup. Þá verður einnig farið yfir uppbyggingu kaupsamninga um hlutabréf, og samspil helstu ákvæða þeirra, en áhersla verður lögð á þau atriði sem oftast valda ágreiningi við samningsgerð eða eftir undirritun kaupsamnings. Í lokin verður farið yfir helstu leiðir samningsaðila til að minnka líkur á að ágreiningur komi upp eftir undirritun samnings eða afhendingu hlutafjárins, ásamt aðferðum aðila til leiðréttingar kaupverðs eftir afhendingu.  

Nánari upplýsingar og skráning

Þríleikur: Helstu atriði í verðmati fyrirtækja 10. nóv

Tilgangur námskeiðsins er að aðilar skilji helstu aðferðir til að leggja mat á virði fyrirtækja. Þar sem námskeiðið er stutt verður áhersla lögð á skilning á sjóðsstreymisverðmati umfram kennslu á framkvæmd verðmats.  

Nánari upplýsingar og skráning

Skiptastjórn þrotabúa – 5. og 12. nóv.

Fjallað verður starf og meginskyldur skiptastjóra frá skipun til skiptaloka. Lögð verður áhersla á þau praktísku álitaefni sem koma upp við skipti þrotabúa, meðferð og ráðstöfun veðsettra og óveðsettra eigna  og aðkomu kröfuhafa að málefnum þrotabús.  Þá verður fjallað um meðferð krafna og ágreiningsmála,  riftun ráðstafana, úthlutun og lok gjaldþrotaskipta.

Nánari upplýsingar og skráning

Þríleikur: Skattaleg álitaefni við endurskipulagningu fyrirtækja 17. nóv

Fjallað verður um skattaleg álitaefni við eftirgjöf á skuldum, nauðasamninga, breytingu á kröfum í hlutafé, slit félaga, yfirtöku rekstrar við kaup og önnur aðilaskipti að rekstri. Farið verður yfir helstu dóma, úrskurði yfirskattanefndar og ákvarðanir skattyfirvalda um efnið auk álitaefna sem framkvæmd enn sem komið er veitir ekki svör við.  

Nánari upplýsingar og skráning

Hugtakið fasteign, stofnun þeirra, skráning og mat 19. nóv.

Fjallað verður um hugtakið fasteign og þær reglur sem gilda um stofnun þeirra, skráningu og mat. Hvaða skilyrði þurfa mannvirki að uppfylla til þess að teljast fasteignir og hvaða lagareglur gilda um fasteignarréttindi sem hafa verið skilin frá fasteign? Til viðbótar við umfjöllun um hið hefðbundna fasteignarhugtak verður fjallað um það hvernig skipta má þeim upp (þ.e. stofna nýjar fasteignir) og hvernig þær eru skráðar og metnar. Nokkuð hefur reynt á álitaefni af þessu tagi fyrir dómstólum síðustu árin, m.a. varðandi fasteignamat Hörpunnar og vatnsréttindi vegna Kárahnjúkavirkjunar.

Námskeiðið er hluti af námskeiðslínu í eignarétti   

Nánari upplýsingar og skráning

Flatskalli, fuglsbringa og maður á hesti - Merki fasteigna utan skipulagðra þéttbýlissvæða 24. nóv

Reglur um merki fasteigna verða efni þessa námskeiðs þar sem farið verður yfir náttúruleg og manngerð landamerki utan þéttbýlissvæða og úrlausn deilumála þar um. Landamerkjalögin frá 1919 eru um sumt barn síns tíma en þó í fullu gildi. Heimildir um merki fasteigna utan þéttbýlissvæða sækjum við m.a. til náttúrunnar, í aldagamlar landamerkjalýsingar, sem sumar hafa reynst æði forgengilegar, og í öðrum tilvikum í hnitsetta uppdrætti eða loftmyndir sem gerðar eru á grundvelli tækni okkar tíma. Það er ekki tilviljun að landamerkjamál hafa stundum verið talin til þjóðaríþrótta Íslendinga. Hvernig rekum við slík mál fyrir dómi? Hvaða kröfur verða gerðar til framtíðar litið um merkjasetningu þessara fasteigna?

Námskeiðið er hluti af námskeiðslínu í eignarétti 

Nánari upplýsingar og skráning

Námskeið fyrir matsmenn - Athugið nýjar dagsetningar í nóvember

Lögmannafélag Íslands og dómstólasýslan standa fyrir námskeiði fyrir dómkvadda matsmenn. Farið verður yfir hlutverk matsmanna og starf þeirra frá dómkvaðningu og þar til þeir skila matsgerð og/eða mæta fyrir dóm. Þá verður farið yfir ákvæði einkamálalaga sem varða störf matsmanna og samningu og uppsetningu matsgerða, undirbúning matsfunda og störf á vettvangi. Í lok síðari námskeiðsdags verður farið í Héraðsdóm Reykjavíkur þar sem nánar er upplýst um samskipti dómkvaddra matsmanna við dómstólana.

Nánari upplýsingar og skráning