Samþykktir LMFÍ

fyrir Lögmannafélag Íslands

1. KAFLI

Heiti félagsins

1. gr.

Félagið heitir Lögmannafélag Íslands og er það skammstafað LMFÍ. Heimili þess er í Reykjavík.

  

  

2. KAFLI

Tilgangur

 2. gr.

Tilgangur félagsins er

a)         að sinna lögboðnu eftirlits- og agavaldi,

b)         að gæta hagsmuna lögmannastéttarinnar,

c)         að stuðla að samheldni og góðri samvinnu félagsmanna,

d)        að standa vörð um sjálfstæði lögmannastéttarinnar,

e)         að stuðla að framþróun réttarins og réttaröryggis.

 

 

3. KAFLI

Deildir - félagsaðild

3. gr.

Allir lögmenn eiga aðild að Lögmannafélagi Íslands.

Afsali lögmaður sér málflutningsleyfi sínu eða falli leyfi hans niður af öðrum ástæðum, fellur hann af félagaskrá.

Félagsmenn bera réttindi og skyldur samkvæmt lögmannalögum nr. 77/1998 og öðrum lögum. Um réttindi þeirra og skyldur fer einnig eftir samþykktum félagsins og öðrum reglum þess, svo sem siðareglum.

Sérstök skrá skal haldin um lögaðila sem reka lögmannsstofur. Tilkynna skal til stjórnar LMFÍ hverjir eigi og reki lögmannsstofur.

Lögmaður, sem öðlast hefur málflutningsréttindi hér á landi samkvæmt reglugerð nr. 900/2004, getur fengið aðild að LMFÍ.

Innan LMFÍ er starfrækt sérstök félagsdeild og geta allir lögmenn átt aðild að henni. Um félagsdeildina er nánar kveðið á í 10. kafla samþykkta þessara.

  

  

4. KAFLI

Félagsfundir - aðalfundur

4. gr.

Félagsfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins.

Félagsfundi, aðra en aðalfundi, skal halda, þegar stjórn félagsins þykir við þurfa, samkvæmt fundarályktun, eða þegar minnst 50 félagsmenn krefjast þess skriflega, enda segi þeir til um, hvers vegna þeir æskja fundar. Félagsfund skal halda innan mánaðar frá því lögmæt krafa um fundarhald er fram komin.

Til félagsfunda skal stjórnin boða með hæfilegum fyrirvara. Í fundarboði skal stuttlega geta þeirra mála, er fyrir eiga að koma á fundinum.

5. gr.

Hverjum félagsfundi stýrir kjörinn fundarstjóri. Atkvæðagreiðsla um málefni á félagsfundi fer eftir því sem fundarstjóri kveður nákvæmar á um. Skrifleg atkvæðagreiðsla skal fara fram ef einhver fundarmanna krefst þess.

6. gr.

Í gerðabók félagsins skal rita stutta skýrslu um það, sem gerist á félagsfundum, einkum allar fundarsamþykktir. Fundargerðir skulu lesnar upp í fundarlok og bornar undir atkvæði. Fundarstjóra er þó heimilt, með samþykki fundarins, að fela fundarritara að ganga síðar frá fundargerðinni. Fundarstjóri og fundarritari undirskrifa síðan fundargerðirnar. Þessi fundarskýrsla skal vera full sönnun þess, er farið hefur fram á fundinum.

Í gerðabók skal einnig skrá skýrslu um stjórnarfundi með sama hætti og undirrita hana allir viðstaddir stjórnarmenn.

7. gr.

Aðalfundur LMFÍ skal haldinn fyrir lok maímánaðar ár hvert. Hann er lögmætur, ef löglega er til hans boðað.

Aðalfund skal boða með rafrænni tilkynningu til sérhvers félagsmanns með minnst hálfs mánaðar fyrirvara, talið frá og með útsendingardegi fundarboðs. Félagsmenn geta þó óskað eftir að fá sent fundarboð í pósti. Aðalfund skal jafnframt auglýsa innan sömu tímamarka á heimasíðu félagsins.

8. gr.

Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:

1.         Ársskýrsla stjórnar félagsins fyrir liðið starfsár.

2.         Ársskýrsla úrskurðarnefndar lögmanna fyrir liðið starfsár.

3.         Endurskoðaðir reikningar fyrir hið liðna reikningsár, með athugasemdum endurskoðanda, eru lagðir fram til úrskurðar.

4.         Ákvörðun um ávöxtun sjóða félagsins.

5.         Stjórnarkosning.

6.         Kjör skoðunarmanna reikninga.

7.         Kjör fulltrúa félagsins í úrskurðarnefnd lögmanna og varamanna þeirra samkvæmt 3. gr. lögmannalaga.

8.         Kjör laganefndar.

9.         Önnur mál, er upp kunna að verða borin.

Þrátt fyrir áskilnað 7. tl. 1. mgr. getur stjórn félagsins tilnefnt fulltrúa félagsins ad hoc í úr­skurðarnefnd lögmanna.

9. gr.

Hverjum aðalfundi stýrir kjörinn fundarstjóri. Hann rannsakar í fundarbyrjun hvort löglega hafi verið til fundarins boðað og lýsir því síðan, hvort svo sé.

Atkvæðagreiðsla fer eftir því, sem fundarstjóri kveður nákvæmar á um. Þó skal skrifleg atkvæðagreiðsla fara fram, ef einhver fundarmanna krefst þess.

 

 

5. KAFLI

Stjórn LMFÍ

 10. gr.

Stjórn félagsins skipa fimm menn og skulu a.m.k. tveir þeirra vera hæstaréttarlögmenn.

Formaður skal kosinn til eins árs í senn. Meðstjórnendur skulu kosnir til tveggja ára í senn, tveir ár hvert. Í varastjórn skulu kjörnir þrír menn til eins árs. Þeir sem hyggjast gefa kost á sér til setu í stjórn félagsins eða varastjórn skulu tilkynna það til stjórnar ekki síðar en 7 dögum fyrir aðalfund.

Óheimilt er að endurkjósa sama mann til formanns oftar en tvisvar í röð. Óheimilt er að endurkjósa meðstjórnendur fyrr en ár er liðið frá því þeir gengu úr stjórn. Engar hömlur eru á endurkosningu varamanna.

Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum, kýs sér varaformann, gjaldkera og ritara.

11. gr.

Hlutverk stjórnar er m.a.

a)         að veita umsagnir og hafa eftirlit samkvæmt ákvæðum lögmannalaga,

b)         að tilnefna í ráð og nefndir eftir því sem kveðið er á um í lögum,

c)         að koma fram fyrir hönd lögmannastéttarinnar,

d)         að miðla upplýsingum til lögmanna og annarra, eftir því sem þörf er á, um það er varðar lögmannastéttina og hlutverk og starfsemi stjórnarinnar samkvæmt lögmannalögum,

e)         að leysa úr ágreiningsmálum milli félagsmanna innbyrðis og gæta þess að fylgt sé góðum lögmannsháttum.

f)         að vinna að hagsmunamálum félagsmanna.

Stjórnin ræður félaginu framkvæmdastjóra og eftir þörfum annað starfsfólk, sem annast daglegan rekstur þess og framfylgir ákvörðunum stjórnarinnar hverju sinni.

  

  

6. KAFLI

Nefndir

12. gr.

Á aðalfundi skal kjósa sjö manna nefnd, laganefnd.

Hlutverk laganefndar er að fylgjast með lögum, lagaframkvæmd, lagafrumvörpum og öðrum lögfræðilegum erindum frá Alþingi og ráðuneytum og veita umsögn um þau f.h. félagsins. Í málum sem varða lögmannastéttina og störf lögmanna, skal nefndin hafa samráð við stjórn félagsins um gerð umsagna.

Nefndin skal starfa að málum að eigin frumkvæði en jafnframt getur félagsstjórnin leitað umsagnar hennar um einstök mál ef henta þykir.

Við veitingu umsagnar um einstök mál er laganefnd heimilt að leita til lögmanna og/eða annarra sérfræðinga, sem búa yfir yfirgripsmikilli þekkingu á því sviði sem um ræðir.

Laganefnd skal setja sér starfsreglur.

Innan Lögmannafélags Íslands skal starfa þriggja manna siðareglunefnd sem stjórn félagsins tilnefnir.

Hlutverk siðareglunefndar er að fylgjast með þróun siðareglna og sjá til þess að siða­reglum LMFÍ verði við haldið.

Félagsfundir eða stjórn LMFÍ geta skipað nefndir ad hoc þegar fjalla þarf um sérstök málefni, sem ekki falla undir verksvið laganefndar.

  

  

7. KAFLI

Úrskurðarnefnd lögmanna

13. gr.

Úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt lögmannalögum.

Nefndin setur sér sérstakar málsmeðferðarreglur, sbr. 4. gr. lögmannalaga.

LMFÍ ber kostnað af störfum nefndarinnar.

 

8. KAFLI

Reikningsár - endurskoðun

14. gr.

Reikningsár félagsins er almanaksárið.

15. gr.

Tveir skoðunarmenn skulu rannsaka reikninga félagsins fyrir liðið reikningsár og gera athugasemdir sínar um þá.

Skoðunarmenn eru kosnir á aðalfundi og einn til vara.

16. gr.

Fyrir lok marsmánaðar ár hvert skal gjaldkeri félagsins hafa lokið við samning reikningsins fyrir liðið reikningsár og sent hann skoðunarmönnum, en þeir skulu aftur hafa sent stjórninni reikninginn með athugasemdum sínum innan tveggja vikna.

 

  

9. KAFLI

Árgjald

17. gr.

Félagsmenn greiða árgjald sem rennur í félagssjóð og er ætlað að standa straum af rekstri félagsins. Gjalddagi árgjalds er 1. janúar ár hvert.

Stjórn félagsins er heimilt að veita afslátt af árgjaldi þeirra félagsmanna, sem sérstaklega stendur á um, enda verði um það sótt skriflega.

Árgjaldi verður aðeins breytt á aðalfundi og þurfa 2/3 fundarmanna að greiða atkvæði með breytingunni.

Félagsmenn, 70 ára og eldri, greiða ekki árgjald. Enn­fremur greiða nýir félagar ekki árgjald á því almanaksári, sem þeir verða félagsmenn.

 

  

10. KAFLI

Félagsdeild

18. gr.

Á vegum LMFÍ skal rekin sérstök deild, félagsdeild, sem allir lögmenn geta átt aðild að. Félagsdeildin hefur aðsetur í húsnæði LMFÍ.

Hlutverk félagsdeildar er að annast þau verkefni, sem henni eru falin af aðalfundi deildarinnar eða samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni og ekki falla undir lögbundin verkefni LMFÍ.

Stjórn LMFÍ er jafnframt stjórn félagsdeildar. 

19. gr.

Aðalfund félagsdeildar skal halda í tengslum við aðalfund LMFÍ.

20. gr.

Fjárhagur félagsdeildar skal aðskilinn frá fjárhag LMFÍ.

 Um skipulag félagsdeildar, verkefni, fjárhag og annað það, er lýtur að málefnum hennar, skal nánar kveðið í reglum um hana.

 

11. KAFLI

Ýmis ákvæði

 21. gr.

Firma félagsins rita formaður þess og einn stjórnarmanna. Framkvæmdastjóri félagsins hefur prókúruumboð.

22. gr.

Stjórn LMFÍ setur reglur um kjör heiðursfélaga og um merki félagsins. Val á heiðursfélaga skal staðfest á félagsfundi.

23. gr.

LMFÍ tekur því aðeins við gjöfum að það samrýmist tilgangi félagsins og stöðu lög­manna. Öðrum gjöfum en hefðbundnum tækifærisgjöfum eða dánargjöfum, skal beint til Námssjóðs. Stjórn Námssjóðs tekur ákvarðanir um hvort tekið skuli við slíkum gjöfum og hvernig þeim er ráðstafað í samræmi við samþykktir félagsins og skipu­lagsskrá Námssjóðs.

24. gr.

Samþykktum þessum verður ekki breytt nema á lögmætum aðalfundi, enda greiði 2/3 fundarmanna atkvæði með breytingunni. Tillögur að breytingum þurfa að hafa borist stjórninni svo tímanlega að þeirra sé hægt að geta í fundarboði.

25. gr.

Samþykktir þessar öðlast gildi 21. mars 2003.

- - - o 0 o - - -

Samþykktir þessar voru fyrst gerðar á aukaaðalfundi félagsins 15. desember 1944, en í þær síðan bætt breytingum, er staðfestar hafa verið af dómsmálaráðherra 14. júlí 1965, 19. júní 1967, 21. maí 1970, 18. okt. 1976, 19. apríl 1978, 11. apríl 1979, 30. júní 1980, 21. apríl 1981, 6. apríl 1989, 26. mars 1993 (breyting á 2. mgr. 6. gr.) og 29. júní 1993 (breyting á 1. mgr. 4. gr.). Heildarendurskoðun fór fram á árinu 1998 og á framhaldsaðalfundi 12. nóvember það ár samþykktar viðamiklar breytingar á þeim. Breytingar voru gerðar á sam­þykktunum á aðalfundi 15. mars 2002 (2. mgr. 7. gr., 1. og 4. mgr. 17. gr.), á aðalfundi 21. mars 2003 (2. ml. 2. mgr. 10. gr.), á aðlafundi 11. mars 2005 (4. og 5. mgr. 12. gr.) á aðalfundi 10. mars 2006 (12. gr., 23. gr., 24. og 25. gr.), á aðalfundi 13. mars 2008 (5. mgr. 3. gr., 1. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 16. gr.), á aðalfundi 30. maí 2012 (1. mgr. 17. gr.) á aðalfundi 30. apríl 2014 (2. mgr. 8. gr.) og aðalfundi 24. maí 2017 (2. mgr. 4. gr. og 2. mgr. 7. gr.).