Umsögn laganefndar LMFÍ um frumvarp til laga um meðferð sakamála

Umsögn laganefndar LMFÍ um frumvarp til laga um meðferð sakamála. 135. lög­gjafarþing 2007-2008, þskj. 252– 233. mál.

Laganefnd LMFÍ („laganefnd“) hefur haft ofangreint frumvarp til umsagnar og lýsir yfir ánægju með að frumvarpið skuli komið fram. Frumvarpið, sem er mikið að vöxtum, er í heild sinni vandað og vel samið að mati nefndarinnar. Gildir það jafnt um meginefni frumvarpsins, lagagreinarnar sjálfar, sem og þær röksemdir sem fram eru færðar í athugasemdum með frum­varpinu og einstökum greinum þess. Þótt gerðar séu alvarlegar athugasemdir við einstaka efnisþætti frumvarpsins af hálfu laganefndar er framsetning þess engu að síður til mikillar fyrirmyndar að mati nefndarinnar.

Frumvarpið felur í sér margvíslegar réttarbætur sem ástæða er til að fagna. Þeim verða þó ekki gerð frekari skil í umsögn þessari, heldur verður einkum vikið að atriðum sem laganefnd telur ástæðu til að gera athugasemdir við að svo komnu máli. Laganefnd hefur notið aðstoðar valin­kunnra lögmanna, með mikla og margbreytilega reynslu af meðferð sakamála, við undirbún­ing umsagnar þessarar.

Árið 1991 voru sett ný lög um meðferð opinberra mála, lög nr. 19/1991, sem tóku gildi þann 1. júlí 1992. Lögin leiddu til mikilla breytinga á meðferð opinberra mála, ekki hvað síst fyrir dómi. Með lögunum var að meginstefnu til horfið frá eldra fyrirkomulagi, sem tók að tals­verðu leyti mið af svonefndu rannsóknarréttarfari, og þess í stað miðað við ákæruréttarfar, án þess þó að innleitt væri hreinræktað ákæruréttarfar. Þá var að fullu skilið á milli rannsóknar- og ákæruvalds annars vegar og dómsvalds hins vegar og hlutur ákæruvaldsins aukinn við meðferð opinberra mála fyrir dómi. Með fyrirliggjandi frumvarpi er gengið enn lengra í þessa átt og að mestu horfið frá síðustu einkennum rannsóknarréttarfarsins.

Lögum nr. 19/1991 hefur margsinnis verið breytt frá gildistöku þeirra eða alls í átján skipti. Breytingar þessar hafa verið misjafnlega viðamiklar. Reglum um meðferð mála fyrir Hæsta­rétti var til að mynda breytt með lögum nr. 37/1994, veigamiklar breytingar voru gerðar á skipan ákæruvalds með lögum nr. 84/1996, réttarstaða brotaþola var styrkt umtalsvert með lögum nr. 36/1999, reglur um sérstaka vitnaleynd voru innleiddar með lögum nr. 86/2004 og svo má áfram telja. Til samanburðar má nefna að mun færri breytingar hafa verið gerðar á lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem tóku gildi á sama tíma og lögin um meðferð opinberra mála, eða í alls sjö skipti.

Þótt það sé mat laganefndar að margar af þeim breytingum sem gerðar hafa verið á lögum nr. 19/1991 á undanförnum sextán árum hafi verið til bóta, ekki hvað síst þær breytingar sem gerðar voru á réttarstöðu brotaþola, er það álit nefndarinnar að breytingar á lögum nr. 19/1991 hafi verið of tíðar. Stöðugleiki og gagnsæ lög eru almennt til þess fallin að skapa sátt meðal borgaranna og stuðla að jafnræði við úrlausn mála og um leið efla réttaröryggi. Það er sérstak­lega þýðingarmikið þegar réttarfarslög eiga í hlut að almenn sátt ríki um efni laganna og beitingu þeirra, að minnsta kosti í grundvallaratriðum, og tíðar breytingar eru að sama skapi óæskilegar.

Laganefnd hefur áður vakið athygli á nauðsyn þess að stöðugleiki ríki um skipan lögreglu og ákæruvalds (sjá umsögn nefndarinnar til nefndasviðs Alþingis frá 24. mars 2006 varðandi frumvarp til laga um breyting á lögreglulögum, nr. 90 13. júní 1996, og lögum um fram­kvæmdarvald ríkisins í héraði, nr. 92 1. júní 1989, sem lagt var fyrir 132. löggjafarþing 2005-2006, þskj. 759 – 520. mál). Sömu sjónarmið eiga að mati nefndarinnar við um lög um með­ferð sakamála almennt séð.

Í athugasemdum frumvarpshöfunda er vikið að hugmyndum sem uppi hafa verið meðal lög­fræðinga, annars vegar um stofnsetningu sérstaks millidómstigs í sakamálum, sem dómstóla­ráð hefur meðal annars beitt sér fyrir, og hins vegar varðandi sérstaka úrskurðarnefnd er tæki á óskum um endurupptöku dæmdra mála í Hæstarétti. Hefur verið á það bent varðandi fyrri hugmyndina að núverandi fyrirkomulag, þar sem ekki hefur tíðkast að skýrslur séu teknar við meðferð mála fyrir Hæstarétti, standist hvorki ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu, sem hef­ur lagagildi hér á landi, sbr. lög nr. 62/1994, né meginreglu opinbers réttarfars um beina og milliliðalausa sönnunarfærslu. Jafnframt hefur verið á það bent að óheppilegt sé að Hæsti­réttur taki sjálfur afstöðu til þess hvort mál sem rétturinn hefur dæmt skuli endurupptekið. Telja margir réttara að slíkt vald verði falið sérstakri og óháðri nefnd. Laganefnd er sammála þessari gagnrýni og telur miður að ekki hafi verið við henni brugðist við samningu frumvarps til laga um meðferð sakamála.

Athugasemdir laganefndar við einstaka þætti, kafla og greinar frumvarpsins eru svohljóðandi:

1. þáttur - almennar reglur um meðferð sakamála

I. kafli - gildissvið laganna og dómendur í héraði

4. mgr. 3. gr.  Ákvæðið felur í sér þversögn, þar sem mat á því hvort þörf er á þremur dómurum í máli er í höndum þess dómara sem fer með málið, en vald til að taka ákvörðun um það hvort þrír héraðsdómarar skuli skipa dóm í málinu er í höndum dómstjóra. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar metur dómari það sjálfur hvort þörf sé á sérfróðum meðdómendum og kveður þá til setu í dómi.

II. kafli - þinghöld, þingbækur o.fl.

11. gr.  Athygli er vakin á því að ákvæði frumvarpsins taka ekki á myndatökum og hljóðrit­unum utan við dómsali og dómhús dómstóla. Nokkrar umræður hafa verið meðal lögmanna og dómara um það hvort takmarka eigi með lögum myndatökur af einstaklingum, sem ákærðir hafa verið, á leið þeirra til og frá dómhúsi. Slík sjónarmið hafa sömuleiðis verið til umræðu í nágrannalöndum okkar, svo sem í Danmörku. Hér vegast á persónubundnir hagsmunir þess einstaklings sem í hlut á hverju sinni og hagsmunir annarra. Gagnrýnendur þess háttar tak­markana hafa bent á að frekari takmarkanir á myndatökum og myndbirtingum feli í sér skerð­ingu á stjórnarskrárvörðum réttindum annarra, þ.m.t. tjáningarfrelsinu, sbr. 73. gr. stjórnar­skrárinnar, og séu þar af leiðandi óásættanlegar. Án þess að taka afstöðu til þess hvort mæla eigi fyrir um frekari takmarkanir að þessu leyti í lögum eða ekki hvetur laganefnd löggjafann til að taka þessi atriði til athugunar.

16. gr.  Í greininni er meðal annars mælt fyrir um rétt aðila, sem ekki eiga beina aðild að sakamáli, til aðgangs að gögnum er málið varða. Er það til bóta að skýrt verði kveðið á um þann rétt í lögum. Laganefnd bendir hins vegar á að réttur annarra en málsaðila til aðgangs að gögnum sakamáls er mjög takmarkaður samkvæmt ákvæðinu. Er það skiljanlegt að því er varðar aðgang að málsskjölum á meðan mál er enn til meðferðar hjá ákæruvaldinu eða innan dómskerfisins. Á hinn bóginn telur laganefnd þörf á að opna fyrir rýmri aðgang að gögnum máls eftir að máli er lokið, þannig að til að mynda aðstandendur látins brotaþola og fræðimenn geti kynnt sér efni þeirra, svo fremi sem það brjóti ekki í bága við persónulega hagsmuni annarra, svo sem sakbornings.

III. kafli - ákæruvaldið

Hlutverk ákæruvalds í réttarríki er afar þýðingarmikið en ákæruvaldið er ein af meginstoðum refsivörslukerfisins. Störf ákæruvaldsins eru ekki hafin yfir gagnrýni, fremur en verk annarra, en þótt deila megi um afstöðu ákæruvaldsins í einstökum máli skiptir afar miklu að ákæru­valdið njóti á hverjum tíma trausts og virðingar meðal borgaranna og þeirra sem að meðferð sakamála koma, þar með talið dómenda og lögmanna. Enginn vafi má því vera um hlutverk, skipan eða valdheimildir ákæruvaldsins, auk þess sem brýnt er að búa svo um hnútana að sem minnstur ágreiningur ríki um einstakar ákvarðanir ákæruvaldsins og störf þess í heild sinni. Öllum er ljóst að ákæruvaldið hefur átt undir högg að sækja hér á landi á undanförnum árum. Á sama tíma og niðurstöður dómstóla í stórum málum hafa verið ákæruvaldinu óhagfelldar hefur gagnrýnis- og efasemdarmönnum fjölgað, almenn umræða um ákæruvaldið hefur verið neikvæð og tiltrú almennings á verkum þess hefur farið dvínandi. Við þessu þarf að bregðast sem fyrst og breytinga er sannarlega þörf.

Að mati laganefndar er nauðsynlegt að styrkja ákæruvaldið svo það geti betur sinnt þeim verkefnum sem því er ætlað að sinna og verið það sterka afl sem því er ætlað að vera í íslensku refsivörslukerfi. Það er jafnframt mat nefndarinnar að sú breyting sem gerð var á skipan ákæruvalds með lögum nr. 84/1996 hafi ekki gefist nægilega vel, en með þeim lögum voru saksóknarheimildir lögreglustjóra auknar á kostnað ákæruvalds ríkissaksóknara og saksóknarvaldið þar með í auknum mæli fært á sömu hendi og rannsóknarvaldið.

Helstu breytingar á ákæruvaldinu, sem tillaga er gerð um í fyrirliggjandi frumvarpi, felast í því að sett verður á stofn sérstakt embætti héraðssaksóknara, sem tekur yfir saksókn á fyrsta stjórnsýslustigi í öllum meiriháttar sakamálum. Kæruréttur borgaranna er jafnframt styrktur. Laganefnd tekur undir það sjónarmið frumvarpshöfunda, að fjölgun stjórnsýslustiga ákæru­valdsins, úr tveimur í þrjú, er til þess fallin að efla ákæruvaldið og styrkja sjálfstæði þess, auk þess sem réttaröryggi borgaranna verður betur tryggt en nú er. Á hinn bóginn er það mat laga­nefndarinnar að ákvæði frumvarpsins um skipan ákæruvaldsins, eins og þau eru sett fram, séu verulegum annmörkum háð, eins og vikið verður að hér að neðan. Hvorki er nægilega ljóst að mati nefndarinnar, út frá ákvæðum frumvarpsins, hverjir skuli fara með ákæruvald í landinu né heldur hvert skuli vera innbyrðis samband þeirra.

Laganefnd styður heilshugar þá tillögu frumvarpshöfunda að stofnsett verði sérstakt embætti héraðssaksóknara, sem taki yfir saksókn á fyrsta stjórnsýslustigi í meiriháttar sakamálum og að starfsvæði embættisins skuli ná til landsins alls. Það er hins vegar mat laganefndar að ákvæði frumvarpsins um ákæruvald héraðssaksóknara séu ónákvæm og misvísandi. Í því samhengi telur laganefnd rétt að vekja athygli á ákvæði 1. mgr. 18. gr., þar sem fram kemur að ákæruvald sé í höndum ríkissaksóknara, héraðssaksóknara og lögreglustjóra, svo og ákvæði 1. mgr. 22. gr. frumvarpsins, sem hljóðar svo:

Dómsmálaráðherra skipar héraðssaksóknara ótímabundið og skulu þeir full­nægja skilyrðum til skipunar í embætti héraðsdómara. Ráðherra ákveður fjölda héraðssaksóknara að höfðu samráði við ríkissaksóknara og er embættisskrifstofa þeirra í Reykjavík. (leturbreyting er laganefndarinnar)

Með 2. mgr. 22. gr. frumvarpsins er ráðherra falið að skipa forstöðumann héraðssaksóknara til fimm ára í senn og er honum falið það hlutverk að skipta verkum með héraðssaksóknurum og úthluta þeim málum, auk annarra starfa sem nefnd eru í greininni.

Samkvæmt framansögðu er gert ráð fyrir því að jafnvel þótt embætti héraðssaksóknara verði einungis eitt, þá verði héraðssaksóknarar fleiri og er þá ekki verið að vísa til sérstakrar heimildar dómsmálaráðherra til að skipa sérstaka héraðssaksóknara í tilteknum málaflokkum, sbr. 3. mgr. 22. gr. frumvarpsins. Embætti héraðssaksóknara verður þannig ekki embætti eins ákæruvaldshafa, eins og tíðkast hefur til þessa og gildir um aðra ákæruvaldshafa samkvæmt frumvarpinu, þ.e. ríkissaksóknara og lögreglustjóra, heldur munu margir ákæruvaldshafar fara með ákæruvald í krafti eins embættis héraðssaksóknara. Slík tilhögun gengur engan veginn upp að mati laganefndar og er alls ekki til þess fallin að styrkja ákæruvaldið.

Í athugasemdum við 1. mgr. 22. gr. frumvarpsins segir meðal annars:

Það að máli sé úthlutað til saksóknara (sic) þýðir hins vegar ekki að þeir starfi sjálfstætt að þeim málum á hliðstæðan hátt og héraðsdómarar, heldur er skýrt tekið fram í upphafi 2. mgr. að forstöðumaðurinn beri ábyrgð á ákvörðunum þeirra sem við embætti hans starfa, jafnt héraðssaksóknara sem annarra starfs­manna.  

Greinar frumvarpsins endurspegla ekki þessa hugsun frumvarpshöfunda, enda verður ekki betur séð samkvæmt framansögðu, en að aðrir héraðssaksóknarar við hið almenna embætti héraðssaksóknara en forstöðumaður þess embættis fari með ákæruvald til jafns við hann, sbr. 1. mgr. 18. gr. Þess háttar fyrirkomulag, sem ekki á sér hliðstæðu í núverandi fyrirkomulagi, er óskilvirkt, óskýrt og til þess fallið að valda ágreiningi síðar meir um ákvarðanir í einstökum málum.

Laganefnd telur það heppilegri tilhögun að héraðssaksóknari verði einungis einn, þ.e. sá er forstöðumaður embættis héraðssaksóknara, á sama hátt og ríkisaksóknari er forstöðumaður síns embættis og æðsti handhafi ákæruvalds í landinu, en héraðssaksóknara til aðstoðar yrðu saksóknarar (ekki héraðssaksóknarar) og eftir atvikum aðstoðarsaksóknarar og saksóknarfull­trúar, sem færu með ákæruvald í umboði héraðssaksóknara. Að sama skapi væri óheppilegt að mati laganefndar og til þess fallið að valda misskilningi, að aðrir starfsmenn embættis héraðs­saksóknaraembættisins bæru sama starfsheiti og hinn raunverulegi ákæruvaldshafi, héraðs­saksóknarinn.

Sé það ekki ætlun frumvarpshöfunda, sbr. áður tilvitnuð ummæli í athugasemdum með frumvarpinu, að aðrir héraðssaksóknarar en forstöðumaður þess emættis fari með ákæru- og úrskurðarvald, til að mynda vegna kæru á ákvörðun lögreglustjóra, er hvað sem öðru líður ástæða til að skýra ákvæði frumvarpsins frekar þannig að þessi skilningur komi berlega fram í ákvæðunum sjálfum. Þannig væri rétt að undirstrika að forstöðumaður embættis héraðssak­sóknara færi með það ákæru- og úrskurðarvald, sem héraðssaksóknara væri fengið með ákvæðum frumvarpsins, en ekki aðrir héraðssaksóknarar við embætti héraðssaksóknara. Staða annarra héraðssaksóknara við embættið yrði þannig í raun áþekk stöðu saksóknara samkvæmt núverandi kerfi, sem ekki fara með eiginlegt ákæruvald, heldur vinna störf sín í nafni hins eiginlega ákæruvaldshafa, ríkissaksóknara eða lögreglustjóra.

Með framangreindum hætti væri samræmi í tilhögun ákæruvalds á öllum stigum ákæruvalds­ins. Ríkissaksóknari færi með ákæruvald á efsta stigi ákæruvalds, sbr. 20. gr. frumvarpsins, en honum til aðstoðar yrðu vararíkissaksóknari, saksóknarar og saksóknarfulltrúar. Héraðssak­sóknari færi með ákæruvald á miðstigi ákæruvalds og tæki ákvarðanir í öllum meiriháttar mál­um á fyrsta stjórnsýslustigi, sbr. 22. gr. frumvarpsins, en honum til aðstoðar yrðu eftir at­vikum saksóknarar, aðstoðarsaksóknarar og saksóknarfulltrúar. Loks myndu lögreglustjórar fara með ákæruvald á lægsta stigi ákæruvalds, hver í sínu umdæmi, sbr. 24. gr. frumvarpsins, en þeim til aðstoðar væru saksóknarar, aðstoðarsaksóknarar og saksóknarfulltrúar. Með þessum hætti væri öllum vafa eytt um það hver færi með ákæruvald í landinu á hverju stigi og um innbyrðis samband þeirra.

Laganefnd bendir ennfremur á að í mörgum ákvæðum frumvarpsins er vitnað til héraðssak­sóknara án þess að sérstaklega sé að því vikið að átt sé við forstöðumann hérðssaksóknara. Þannig mætti til að mynda túlka 3. og 4. mgr. 23. gr. með þeim hætti að hvaða héraðssak­sóknari sem er gæti tekið saksókn í sínar hendur, þ.á m. gefið út ákæru, hvenær sem hann telur þess þörf, eða gefið lögreglustjórum bindandi fyrirmæli um einstök mál. Á sama hátt er áskilið samkvæmt 4. mgr. 25. gr. að ríkissaksóknari skuli leita samþykkis héraðssaksóknara áður en hann felur saksóknara við embætti héraðssaksóknara flutning máls fyrir Hæstarétti. Samkvæmt því er óskýrt hvort hér sé átt við forstöðumann þess embættis eða almennan héraðssaksóknara við embættið. Fleiri dæmi mætti nefna.

Laganefnd er andvíg þeim hugmyndum, sem fram eru settar í 3. mgr. 22. gr. frumvarpsins, þar sem dómsmálaráðherra er veitt heimild, að fenginni umsögn ríkissaksóknara, til að setja á stofn embætti sérstaks héraðssaksóknara til að fara með ákæruvald í tilteknum málaflokkum. Slík tilhögun er ekki til bóta að mati laganefndar, heldur er hún þvert á móti til þess fallin að veikja ákæruvaldið sem eina heild. Nefndin telur æskilegra að hinn almenni héraðssaksóknari fari með ákæruvald í öllum málaflokkum, rétt eins og valdsvið dómstóla nær til allra málaflokka. Ekkert er því til fyrirstöðu að nauðsynlegri sérhæfingu verði komið á undir yfir­stjórn héraðssaksóknara, að því gefnu að embætti hans verði nægilega öflugt.

Laganefnd telur samkvæmt þessu að málum verði betur fyrir komið með þeim hætti að hinn almenni héraðssaksóknari fari með ákæruvald í öllum málaflokkum, enda tryggir sú tilhögun nauðsynlega yfirsýn ákæruvaldshafa og jafnræði við afgreiðslu mála. Með stærra og öflugra embætti skapast einnig sveigjanleiki og tækifæri til að færa til starfsmenn innan embættisins, ef nauðsyn krefur, sem leiðir til þess að embættið verður betur í stakk búið til að sinna auknu álagi, eftir atvikum tímabundnu, til að mynda vegna stærri mála eða skyndilegrar fjölgunar mála á tilteknu sviði. Með deildaskiptingu innan embættisins, sbr. 4. málslið 2. mgr. 22. gr. frumvarpsins, má svo tryggja nauðsynlega sérhæfingu í einstökum málaflokkum.

Það er álit laganefndar að stefna beri að því að skilja alveg á milli rannsóknar sakamála og ákvörðunar um útgáfu ákæru. Telur laganefnd því koma til álita að lögreglustjórar fari ekki með ákæruvald, nema e.t.v. varðandi einföld sérrefsilagabrot, og að það vald, sem þeim er ætlað í frumvarpinu, verði fært til embættis héraðssaksóknara. Slíkt myndi stuðla að enn frek­ari eflingu ákæruvalds og sjálfstæði, í samræmi við almenna stefnu frumvarpsins. Leggur laganefnd því til að héraðssaksóknari, en ekki lögreglustjóri, fari með ákæruvald vegna skjala­brota, manndráps og líkamsmeiðinga af gáleysi, líkamsárása samkvæmt 217. gr. og 1. mgr. 218. gr. alm. hgl., brota gegn 231.-233 gr. sömu laga, og þjófnaðar, gripdeildar og ólögmætrar meðferðar fundins fjár, sbr. 244.-246. gr. laganna, sbr. hins vegar 1. mgr. 23. gr. frumvarps­ins.

Laganefnd áréttar að lokum mikilvægi þess að nægilegt fjármagn verði tryggt til að ákæru­valdinu verði gert kleift að sinna hlutverki sínu og skyldum. Meginregla opinbers réttarfars um hæfilegan málshraða er afar þýðingarmikil, ekki hvað síst séð frá sjónarhorni sakbornings. Meðferðartími opinberra mála hjá dómstólum er ekki jafn langur og áður var, en tafir á rann­sókn mála og ákvörðun um saksókn hafa í sumum tilvikum leitt til réttarspjalla, skilorðs­bindingar refsinga eða skaðabótaskyldu. Breytt samfélagsmynstur og hnattvæðing hefur einnig leitt til þess að skipulögð glæpastarfsemi er orðin umfangsmeiri og landamæri ríkja hafa ekki sömu þýðingu og áður. Þróun viðskiptalífs og efling fyrirtækja kallar sömuleiðis á styrkingu ákæruvaldsins, aukna sérhæfingu, fjölgun starfa og rýmri fjárveitingar.  

1. mgr. 18. gr. Sjá almennar athugasemdir um ákæruvaldið hér að framan.

22. gr. Sjá almennar athugasemdir um ákæruvaldið hér að framan.

IV.  kafli - sakborningur og verjandi

27. gr.   Laganefnd telur það til mikilla bóta að skilgreina hugtakið „sakborningur“ í lögum um meðferð sakamála, svo og að kveðið sé á um réttarstöðu lögráðamanns sakbornings og fyrirsvarsmanna lögaðila, þar sem það á við. Laganefnd telur það þó umhugsunarefni, hvort ekki hefði verið rétt að greina á milli þess sem borinn hefur verið sökum í eiginlegri merk­ingu, þ.e. kærður eða ákærður, og hins sem einungis liggur undir grun, þ.e. telst grunaður um að hafa framið refsivert brot, líkt og gert er í dönskum rétti.

Sakborningi eru auk þess veitt ákveðin úrræði, bæði samkvæmt núgildandi lögum og ákvæð­um frumvarpsins, sem bundin eru við þau tilvik þar sem sakborningur er þekktur. Má þar helst nefna rétt til tilnefnds eða skipaðs verjanda sem gætir hagsmuna sakbornings við rannsókn og meðferð mála. Laganefnd telur æskilegt að skilgreining á hugtakinu „sakborningur“ og ákvæði um réttindi sakbornings verði rýmkuð með þeim hætti að þau taki einnig til tilvika þar sem sakborningur er óþekktur, t.a.m. þegar hans er leitað, að minnsta kosti ef um alvarleg brot er að ræða. Þannig verði lögmaður kallaður til á upphafsstigi rannsóknar í ákveðnum tilvikum, jafnvel áður en grunur fellur á ákveðinn mann, til þess að gæta hagsmuna hins brotlega. 

37. gr.  Laganefnd leggst gegn þeirri takmörkun sem lögð er til í þessari grein á aðgangi verjanda að gögnum máls samanborið við 1. mgr. 43. gr. núgildandi laga nr. 19/1991. Sam­kvæmt þeirri grein á verjandi rétt á því að fá endurrit af öllum skjölum sem málið varða jafnskjótt og unnt er og aðstöðu til að kynna sér önnur gögn sem ekki verða endurrituð. Í 37. gr. frumvarpsins er lagt til að réttur verjanda til endurrits af gögnum verði takmarkaður við skjöl málsins sem varða skjólstæðing hans í stað allra gagna eins og nú er. Laganefnd telur óásættanlegt að verjendur þurfi að una mati lögreglu á því hvaða skjöl varði skjólstæðinga þeirra og varar við því að þetta ákvæði kunni að leiða til hrinu dómsmála, verði það óbreytt að lögum, þar sem verjendur láti reyna á mat lögreglu í þessu efni.

Hagsmunir ákæruvaldsins ættu að mati laganefndar að vera nægilega tryggðir með öðrum takmörkunum sem mælt er fyrir um í lögum, svo sem þeirri undantekningu að lögregla geti haldið einstökum gögnum frá verjanda í tiltekinn tíma og meinað honum um endurrit einstakra skjala allt þar til að rannsókn lýkur. Sú viðbótartakmörkun sem lögð er til í 1. mgr. 37. gr. frumvarpsins er þar af leiðandi ástæðulaus að mati nefndarinnar.

Að því er varðar efni þessarar greinar áréttar laganefnd að öðru leyti sjónarmið sín, sem sett voru fram í meðfylgjandi umsögn nefndarinnar frá 29. apríl 2004 til nefndasviðs Alþingis varðandi frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 með síðari breytingum, sem lagt var fyrir 130. löggjafarþing 2003-2004, þskj. 1329 - 871. mál. 

38. gr. Dómstólaráð hefur samið viðmiðunarreglur um þóknun verjenda þar sem tímagjald vinnustundar verjanda er meðal annars ákvarðað. Margir verjendur leggja metnað sinn í að halda nákvæma tímaskrá, sem þeir framvísa við aðalmeðferð máls, þannig að dómari geti byggt ákvörðun sína um málsvarnarlaun á traustum grunni. Mörg dæmi eru um að dómendur hafi horft framhjá ítarlegum og vönduðum tímaskýrslum verjenda við ákvörðun málsvarnar­launa þeim til handa, án nokkurs rökstuðnings. Það er afstaða laganefndar og lögmanna al­mennt að tryggja verði með lögum, að dómarar taki mið af tímaskráningu verjenda, svo fremi sem hún geti að þeirra mati talist eðlileg, en rökstyðji að öðrum kosti niðurstöðu sína um að víkja þar frá.  

V. kafli - brotaþoli og réttargæslumaður

39. gr. Laganefnd telur það til mikilla bóta að skilgreina hugtakið „brotaþoli“ í lögum, en bendir þó á að skilgreining hugtaksins er heldur þröng. Miðað við skilgreiningu 39. gr. frum­varpsins á hugtakinu brotaþoli, teljast aðstandendur látins brotaþola ekki brotaþolar í skilningi ákvæða frumvarpsins. Þessir aðilar, maki, börn og foreldrar, eiga í sumum tilvikum kröfur á hendur sakborningi, sbr. til dæmis 13. gr., 14. gr. og 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þessir aðilar teljast þó ekki brotaþolar í skilningi laganna þar sem brot hefur ekki beinst að þeim með beinum hætti. Þeir munu því hvorki eiga rétt á því að fá sér skipaðan réttargæslumann né heldur eiga rétt á því að fá aðgang að gögnum máls, sbr. hins vegar 47. gr. frumvarpsins, sem tekur til réttargæslumanns og brotaþola. Missir aðstandenda látins brota­þola er auk þess aðeins að litlu leyti fjárhagslegs eðlis og þeim er gjarnan mikið í mun að standa vörð um minningu hins látna, á sama hátt og aðstandendum látins sakbornings er annt um mannorð hans.

Aðstandendum látins brotaþola er samkvæmt framansögðu ekki heimiluð neins konar aðkoma að meðferð sakamáls, nema sem almennir bótakrefjendur, hafi þeir orðið fyrir bótaskyldu tjóni. Laganefnd telur sérstaka ástæðu til að huga að aðstæðum þessa hóps og að til álita komi að taka upp sérstök ákvæði um sérstök réttindi hans, á sama hátt og gert er varðandi rétt aðstandenda látins sakbornings til áfrýjunar dóms að honum látnum, sbr. 2. málslið 2. mgr. 197. gr. frumvarpsins.

Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. frumvarpsins kemur lögráðamaður fram sem fyrirsvarsmaður ólög­ráða brotaþola. Er sérstaklega tekið fram að lögráðamaður skuli taka ákvarðanir fyrir hönd hins ólögráða. Er þetta óheppilegt í sumum tilvikum, að mati laganefndar, enda er sakborn­ingur oft lögráðamaður brotaþola ellegar nátengdur bæði sakborningi og brotaþola. Koma því oft upp aðstæður þar sem unnt er að draga í efa hæfi og hæfni lögráðamanns til að taka ákvarðanir fyrir hönd hins ólögráða brotaþola.

Hingað til hafa réttargæslumenn átt þann kost að fá skipaðan sérstakan lögráðamann til að reka tiltekið erindi í þágu brotaþola samkvæmt 53. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, þ.e. þegar hlutleysi lögráðamanns er ekki tryggt. Laganefnd telur rétt að jafnframt verði vikið að þessu úrræði í lögum um meðferð sakamála.

48. gr. Vitnað er til þess sem að framan segir varðandi athugasemdir við 38. gr. frumvarpsins, en sömu sjónarmið eiga við um ákvörðun þóknunar skipaðs réttargæslumanns og áður voru rakin varðandi ákvörðun þóknunar skipaðs verjanda, sbr. 38. gr. frumvarpsins.

Jafnframt er bent á að misræmi er varðandi þóknun réttargæslumanns annars vegar og þóknun verjanda hins vegar, þar sem ráð er fyrir því gert í 3. málslið 2. mgr. 38. gr. frumvarpsins að heimilt sé að greiða verjanda hluta áætlaðrar þóknunar áður en rannsókn máls lýkur, en sams konar heimild er ekki að finna í 2. mgr. 48. gr. frumvarpsins varðandi réttargæslumann. Telur laganefnd brýnt að úr þessu verði bætt.

Loks vill laganefnd láta þess getið að störfum réttargæslumanns í þágu brotaþola lýkur sjaldnast við uppkvaðningu dóms í máli, enda þarfnast brotaþoli gjarnan aðstoðar réttargæslu­manns við innheimtu skaðabóta sem brotaþola hafa verið dæmdar. Nauðsynlegt er að tryggja réttargæslumanni þóknun fyrir þá vinnu sem hann innir af hendi í þágu brotaþola eftir upp­kvaðningu dóms.

VI. kafli - varnarþing

Ekki eru gerðar athugasemdir við ákvæði þessa kafla.

2. þáttur - rannsókn

VII. kafli - almennar reglur um rannsókn

52. gr.  Í frumvarpinu er ekki lengur að finna ákvæði sambærilegt við 4. mgr. 66. gr. núgildandi laga, en þar er mælt fyrir um að ríkissaksóknari geti fyrirskipað rannsókn þótt ætla megi að refsingu verði ekki komið við, t.d. ef sök er fyrnd, ef ríkir almanna- og einkahags­munir mæla með því.  Um ástæður þess að umrætt ákvæði er fellt niður er ekki annað sagt í greinargerð en að ekki þyki ástæða til að taka upp þá heimild sem nú sé að finna í 3. mgr. 66. gr.  Það má hugsa sér ýmis tilvik þar sem það væri þjóðfélagslega nauðsynlegt að halda í slíka heimild til rannsóknar og því bagalegt að mati laganefndar að afnám slíkrar heimildar sé ekki rökstutt.

2. mgr. 58. gr.  Í þessu ákvæði er kveðið á um skyldu hvers manns sem spurður er af lögreglu til að skýra frá nafni sínu, kennitölu og heimili.  Í greinargerð er að finna nánari útskýringar á því hvenær slík tilvik geta komið upp, þ.e. „hvort sem það gerist í upphafi formlegrar skýrslu­töku eða við önnur tækifæri, t.d. á vettvangi brots“.  Telja verður að skylda þessi til að skýra frá nafni, kennitölu og heimili, eins og hún er sett fram í ákvæðinu, sé allt of víðtæk og geti því brotið gegn friðhelgi einkalífs einstaklinga og þar með 71. gr. stjórnarskrárinnar, enda er ekki að finna í ákvæði þessu neinn fyrirvara varðandi það við hvaða aðstæður skylda þessi verði virk, heldur virðist af almennu orðalagi ákvæðisins að dæma, að öllum sé ávallt við allar aðstæður skylt að gefa lögreglu ofangreindar upplýsingar. Samkvæmt a-lið 3. mgr. 90. gr. frumvarpsins má handtaka þann sem neitar að gefa slíkar upplýsingar en sú handtaka er þó aðeins heimil í þágu rannsóknar máls. Telja verður að nauðsynlegt sé að hafa sams konar fyrirvara á 58. gr. þannig að alls ekki sé um opna heimild að ræða enda brýtur slíkt gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar.

4. mgr. 52. gr.  Laganefnd telur að lögreglu sé veitt of víðtækt vald til að fella niður rannsókn ef „brot er smávægilegt og fyrirsjáanlegt er að rannsóknin muni hafa í för með sér óeðlilega mikla fyrirhöfn eða kostnað“, eins og segir í niðurlagi ákvæðisins. Inntak orðalags ákvæðisins er afstætt eftir því hver túlkar ákvæðið og telur laganefnd af þeim sökum nauðsynlegt að skýra og takmarka nánar orðalag þessa ákvæðis. 

2. mgr. 54. gr.  Laganefnd telur nauðsynlegt að lög um meðferð sakamála hafi að geyma reglur um varðveislu og eyðingu persónulegra upplýsinga um sakborning sjálfan eftir að meðferð á máli hans lýkur fyrir dómstólum.

2. mgr. 56. gr. Laganefnd áréttar sjónarmið sín, sem sett voru fram í áður tilvitnaðri umsögn nefndarinnar frá 29. apríl 2004 varðandi frumvarp til laga um breyting á lögum um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 með síðari breytingum, lagt fyrir 130. löggjafarþing 2003-2004, þskj. 1329 - 871. mál. 

VIII. kafli - skýrslutaka við rannsókn

60. gr.  Laganefnd vekur athygli á því að sönnunargildi óformlegra og óundirritaðra skýrslna hlýtur ávallt að teljast minna en formlegra og undirritaðra skýrslna.

2. mgr. 61. gr. Orðalag þessa ákvæðis gefur til kynna að lögregla geti ákveðið að una við frumskýrslu lögreglu samkvæmt 1. mgr. 60. gr., eða upplýsingaskýrslu samkvæmt 2. mgr. sömu greinar, þannig að ekki verði tekin formleg vitnaskýrsla af vitninu. Laganefnd varar við því að dómur verði byggður á slíkum gögnum eða að þau geti komið í stað formlegrar skýrslu af vitni, a.m.k. ef framburður vitnisins gæti ráðið úrslitum í máli, enda kemur óformleg og óstaðfest skýrsla vitnis ekki í stað skýrslu sem undirrituð er af því.

Þá er það jafnframt álit laganefndar að óformleg viðtöl lögreglu við vitni í viðkvæmum málum, svo sem kynferðisbrotamálum, séu beinlínis til þess fallin að draga úr trúverðugleika frásagnar vitnisins og þar af leiðandi skaðleg fyrir framhald málsins, séð frá sjónarhorni brotaþola.

3. mgr. 63. gr. Með því að niðurlag 3. mgr. 63. gr. frumvarpsins sé tekið lítið breytt upp úr niðurlagi 2. mgr. 33. gr. núgildandi laga og nú látin gilda bæði um sakborning og vitni, en ekki bara sakborning eins og áður, hefur orðalag ákvæðisins orðið eilítið óheppilegt.  Það sem hingað til hefur verið kallað að „meðganga“, þ.e. viðurkenna sök, er nú kallað að bera á ákveðinn hátt, enda aðeins sakborningur sem „meðgengur“ og því nauðsynlegt að breyta því orðavali fyrst ákvæðið á einnig að gilda um vitni. 

Samkvæmt frumvarpinu er lögreglu bannað að lofa ólöglegum ívilnunum eða fríðindum og bannað að lofa slíku ef það er ekki á valdi lögreglu, gegn því að borið sé á ákveðinn hátt.  Ákvæði 1. mgr. 65. gr. frumvarpsins skyldar vitni til að segja satt og rétt frá að viðlagðri refsiábyrgð. Að mati laganefndar er bagalegt að hægt sé að túlka niðurlag 2. mgr. 63. gr. frumvarpsins með þeim hætti að fyrir hendi sé einhver annars konar framburður, um ein­hverjar fyrirfram ákveðnar hugmyndir rannsóknara, og að hann geti hugsanlega boðið lögleg fríðindi/ívilnanir sem er á valdi lögreglu að bjóða, ef borið er á tiltekinn máta.  Slíkar athafnir lögreglu væru að sjálfsögðu ólögmætar, auk þess sem vitni sem léti undan slíkum þrýstingi gerðist brotlegt við 1. mgr. 65. gr. frumvarpsins. Þrátt fyrir það verður að telja óþarfi að laga­texti sé útbúinn með þeim hætti að skilja megi ákvæðið þannig að lögregla geti boðið fríðindi fyrir tiltekinn framburð, þrátt fyrir að vitni sé ólöglegt að þiggja slík fríðindi. 

Aðstaða vitnis er að þessu leyti ólík aðstöðu sakbornings, þar sem vitni getur aðeins borið á einn hátt samkvæmt 1. mgr. 65. gr. frumvarpsins, þ.e. sannleikanum samkvæmt. Sakborn­ingur getur hins vegar neitað að tjá sig, auk þess sem honum verður ekki refsað fyrir rangan framburð, sbr. 1. mgr. 143. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til þess er það mat laganefndar að núverandi orðalag 2. mgr. 33. gr. laga nr. 19/1991 geti átt rétt á sér, en órökrétt er að láta sömu reglu ná til vitna, þar sem þau hafa ekkert svigrúm eða val um að bera með öðrum hætti en sannleikanum samkvæmt, án þess að vinna sér til refsingar samkvæmt 1. mgr. 142. gr. almennra hegningarlaga.

64. gr.  Samkvæmt ákvæðinu er sakborningi bannað að ráðfæra sig við verjanda sinn um svör við einstökum spurningum yfirheyranda. Vakin er athygli á því að í sumum tilfellum getur orðalag framburðar haft áhrif á réttarstöðu sakbornings og skal ávallt gjalda varhug við því að kveða á um að sakborningi sé í einhverjum tilfellum ekki heimilt að ráðfæra sig við verjanda sinn.

3. mgr. 65. gr. Vitnað er til þess sem að framan segir varðandi 2. mgr. 56. gr. frumvarpsins.

2. mgr. 66. gr. og 67. gr. Laganefnd vísar til sjónarmiða sinna, sem sett voru fram í áður tilvitnaðri umsögn nefndarinnar frá 26. apríl 2004. Nefndin telur eðlilegt að stefnt verði að því að allar yfirheyrslur á rannsóknarstigi verði teknar upp á hljóðband, myndband eða mynddisk. Áréttuð eru sjónarmið um nauðsyn lagareglna um framkvæmd upptöku, framlagningu og vörslu hljóðbanda, myndbanda og mynddiska, aðgang verjanda, sakbornings, réttargæslu­manns og brotaþola að slíkum gögnum og eftir atvikum annarra, eyðingu slíkra gagna o.s.frv.

IX. kafli - hald á munum

3. mgr. 69. gr.  Orðalag ákvæðisins er óskýrt m.t.t. uppbyggingar lagagreinarinnar í heild og færi betur á því, að mati laganefndar, að þar stæði: „Nú vill eigandi eða vörsluhafi munar, sem hald er lagt á, ekki hlíta ákvörðun um haldlagningu“” í stað þess að þar standi „þeirri ákvörðun“.

X. kafli - leit og líkamsrannsókn

75. gr.  Í ákvæðinu er kveðið á um það nýmæli að m.a. megi leita án dómsúrskurðar á svæðum sem hver og einn getur átölulaust gengið um. Í greinargerð kemur fram að tún eða afgirt svæði geti fallið hér undir. Með vísan til þess hversu íþyngjandi aðgerð hér er um að ræða þykir vafasamt að hafa svo opið ákvæði sem hér um ræðir enda hægt að ganga átölulaust um ýmsa staði sem þó eru m.a. háðir einkaeignarrétti.

76. gr.  Laganefnd telur eðlilegt að gera sömu skilyrði til líkamsleitar hvort leitað er á sak­borningi eða öðrum, þannig að rökstuddan grun þurfi í öllum tilvikum til að ætla að við­komandi hafi tiltekna muni á sér.

Einnig er gerð athugasemd við þá fyrirætlan að heimila lögreglu, án dómsúrskurðar, að taka og varðveita fingraför allra sem gætu átt fingraför á brotavettvangi, án þess að um grunaða einstaklinga sé að ræða.  Er hér um íþyngjandi aðgerðir að ræða gegn almennum borgurum sem ekki eru grunaðir um afbrot, en aðgerðirnar takmarka mannréttindi þeirra, þ.á m. rétt til friðhelgi einkalífs. Slíkar aðgerðir ætti að mati laganefndar ekki að heimila án dómsúrskurðar, nema fyrir liggi samþykki viðkomandi.  Einnig er gerð athugasemd við að ekkert er kveðið á um vörslu þeirra fingrafara sem aflað er á grundvelli ákvæðisins.

77. gr.  Gerð er athugasemd við að það sé skilyrði að álits læknis sé aflað ef taka á lífsýni úr öðrum en sakborningi en samkvæmt sama ákvæði þarf ekki að afla álits læknis ef taka á lífsýni úr sakborningi. Verður ekki fallist á að ástæða sé til slíkrar mismununar.

3. mgr. 79. gr.  Af athugasemdum í greinargerð mætti helst skilja að stefnt sé að því að herða skilyrði fyrir húsleit að næturþeli.  Sé lagaákvæðið hins vegar skoðað og borið saman við eldra ákvæði 3. mgr. 94. gr. núgildandi laga kemur hins vegar í ljós að í raun er með frum­varpinu verið að slaka á skilyrðum húsleitar að næturþeli. Samkvæmt núgildandi lögum má einungis gera húsleit að næturþeli ef „mjög brýn  nauðsyn sé á og sakarefni stórfellt“. Frum­varpið gerir hins vegar einungis að skilyrði að brýnir rannsóknarhagsmunir séu í húfi.  Vel er hægt að hugsa sér að rannsóknarhagsmunir séu brýnir í máli þar sem sakarefni er ekki stórfellt og í slíkum tilvikum er verið að lögfesta heimild til húsleitar að næturlagi sem ekki var áður fyrir hendi í lögum.  Því verður að gera sérstakar athugasemdir við þetta ákvæði enda verður ekki séð að ástæða sé til að slaka á kröfunum að þessu leyti.

XI. kafli - símahlustun og önnur sambærileg úrræði

Laganefnd getur ekki fallist á þau rök fyrir því að sakborningum sé ekki skipaður verjandi vegna aðgerða samkvæmt þessum kafla að það sé nægt aðhald fyrir lögreglu og dómara að lögreglustjórum sé gert að tilkynna þeim sem aðgerð beinist að um hana eftir á, sbr. 2. mgr. 85. gr. frumvarpsins. 

80. gr.  Laganefnd er andvíg þeirri fullyrðingu, sem fram er sett í greinargerð með ákvæðinu, þess efnis að það, að fá upplýsingar um símtal og önnur fjarskipti sem átt hafa sér stað, án þess að aðgangur sé veittur að efni þeirra, sé væg skerðing á friðhelgi einkalífs. Benda má á fjöldamörg tilvik þar sem tilvist samskipta við ákveðna aðila eru mun viðkvæmari en efni velflestra samskipta. Mætti m.a. lesa út kynhneigð viðkomandi úr upplýsingum um tilvist símtala í erótískar símaþjónustur o.s.frv. Verður því ekki fallist á að með þessum rökum megi skilyrði fyrir aðgangi að slíkum upplýsingum vera vægari en fyrir öðrum aðgerðum sem kveðið er á um í sama kafla. Er því lagt til að ákvæði 2. mgr. 83. gr. frumvarpsins gildi einnig um rannsóknaraðgerðir og gagnaöflun á grundvelli 80. gr. frumvarpsins þannig að sömu skilyrði gildi um allar aðgerðir þessa kafla frumvarpsins.

83. gr.  Gerð er athugasemd við að orðalagið „ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir“ er of opið og óljóst og lagt til að því verði breytt.

XII. kafli - ýmsar rannsóknaraðgerðir

89. gr. Laganefnd leggst mjög eindregið gegn því framsali lagasetningarvalds, sem mælt er fyrir um í 89. gr. frumvarpsins. Heimild þessi er óæskileg að mati laganefndar og hún gengur jafnframt allt of langt. Laganefnd telur mikilvægt að reglur af þessum toga séu í senn opinberar og gagnsæar. Nefndin telur einnig eðlilegt að mælt sé fyrir um slíkar reglur í lögum um meðferð sakamála, fremur en í reglum settum af ríkissaksóknara.

Með þessu ákvæði er ríkissaksóknara heimilað að setja reglur um sérstakar aðferðir og aðgerðir lögreglu við rannsókn sakamála sem ekki er kveðið á í lögunum. Í reglunum á m.a. að koma fram hvaða skilyrði þurfi að vera fyrir hendi til þess að gripið verði til tiltekinnar aðferðar eða aðgerðar, hverjir séu bærir til að taka ákvörðun um hana og hvernig staðið skuli að framkvæmd hennar. 

Gera verður alvarlegar athugasemdir við téð ákvæði enda verður vart séð að það fái staðist ákvæði stjórnarskrár.  Telja verður augljóst að til að heimildir til „sérstakra aðferða eða aðgerða“ fái staðist þurfi ótvíræða lagaheimild. Í flestum eða öllum tilvikum verður um að ræða einhvers konar ágang á mannréttindi og takmarkanir á þeim þurfa m.a. að eiga sér skýra lagastoð, þ.e. í settum lögum og myndu reglur settar af ríkissaksóknara alls ekki nægja.  Laganefnd dregur í efa að dómstólar muni fallast á reglur frá ríkissaksóknara án leiðbeininga í lögum sem lagagrundvöll takmörkunar á mannréttindum. Jafnvel mætti skilja ákvæðið sem svo að ríkissaksóknari, sem samkvæmt ákvæðinu skal ákveða skilyrði fyrir aðgerðunum, gæti sett reglur sem kvæðu á um að dómsúrskurður væri ekki nauðsynlegur fyrir aðgerðunum.  Það er þannig augljóst að ákvæðið er fráleitt og fær ekki staðist skoðun. Mælst er eindregið til þess að það verði fellt úr frumvarpinu.

Þá er vakin athygli á því að ákvæði 89. gr. frumvarpsins er ekki til samræmis því markmiði sem kveðið er á um í greinargerð við 2. þátt frumvarpsins, neðst á bls. 126:

Enn fremur hefur verið leitast við að kveða nánar á um málsmeðferð á rannsókn­arstigi og sér í lagi um skilyrði fyrir einstökum þvingunarráðstöfunum sem hafa í för með sér skerðingu á mannréttindum þeirra er þær beinast gegn.  Markmiðið er fyrst og fremst að gera heimildir lögreglu til að grípa til slíkra aðgerða skýrari og binda þær um leið frekari skilyrðum að lögum, svo að réttindi sakborninga og annarra verði ekki skert umfram það sem nauðsyn ber til í viðleitni lögreglu til að upplýsa brot. 

Telja verður ákvæði 89. gr. frumvarpsins á algerri skjön við ofangreinda tilvitnun í athuga­semdir í greinargerð frumvarpsins.

Verði ekki á það fallist að þörf sé á því að mæla fyrir um slíkar reglur í lögum er að minnsta kosti eðlilegt að sérstakar aðferðir og aðgerðir lögreglu við rannsókn mála grundvallist á ákvæðum í reglugerð settri af dómsmálaráðherra, fremur en reglum sem ríkissaksóknari ákveður.

XIII. kafli - handtaka

90. gr.  Gerð er athugasemd við a-lið 3. mgr. ákvæðisins þar sem heimiluð er handtaka ef einstaklingur neitar að segja til nafns og deili á sér að öðru leyti enda sé það nauðsynlegt í þágu rannsóknar. Telja verður að hér sé um of opna heimild til handtöku að ræða og að skilyrðið um nauðsyn í þágu rannsóknar sé of óljóst orðað.  Gera verður miklar kröfur til skýrleika heimildar til handtöku í tilvikum sem þessum enda er verið að kveða á um heimild til handtöku aðila sem er ekki sakborningur heldur vitni. Handtaka er í eðli sínu frelsissvipting og því afar íþyngjandi aðgerð. Minnt er á að skv. 67. gr. stjórnarskrárinnar má engan svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum og því augljóst að sú heimild þarf að vera afar skýr. Um það er ekki að ræða í a-lið 3. mgr. 90. gr. frumvarpsins heldur er heimildin allt of opin og óljós og of háð mati rannsóknara til að hún standist skoðun.

91. gr.  Um borgaralega handtöku mætti að ósekju vísa einnig í 2. mgr. 93. gr. um meðalhóf að mati laganefndar.

XIV kafli - gæsluvarðhald og aðrar sambærilegar ráðstafanir

3. mgr. 95. gr.  Þar sem gæsluvarðhaldi lýkur lögum samkvæmt þegar héraðsdómur hefur verið kveðinn upp í máli má telja óeðlilegt að mati laganefndar, að ákærandi geti að föllnum sýknudómi í héraði krafist þess að gæsluvarðhald skuli haldast á meðan á áfrýjunarfresti stendur, nema mjög brýnar og sérstakar aðstæður séu fyrir hendi og þá í algerum undan­tekningartilfellum.  Í ákvæðinu er ekki mælt fyrir um neinar slíkar takmarkanir og því gerð athugasemd við efni þess.

4. mgr. 95. gr. Laganefnd fagnar því að settar verði reglur um hámarkstíma gæsluvarðhalds sakbornings, hafi ákæra ekki verið gefin út á hendur honum. Nefndin telur nauðsynlegt að lögreglu og ákæruvaldi verði settar tilteknar skorður varðandi framvindu rannsóknar máls við þær aðstæður er sakborningur sætir gæsluvarðhaldi, þótt efalaust megi deila um hæfileg tímamörk í því sambandi.

2. mgr. 98. gr. Laganefnd fagnar því að settar verði reglur um hámarkstíma einangrunar sakbornings, sem situr í gæsluvarðhaldi, sem og því að slík einangrun skuli ákveðin af dómara. Nefndin telur þó að átta vikur séu of langur tími, enda er reynslan sú að einangrun stendur almennt séð ekki lengur en í eina til tvær vikur í senn. Laganefnd telur eðlilegra að viðmiðunin verði fremur tvær til þrjár vikur, í allra lengsta lagi fjórar vikur og alls ekki lengur.

4. mgr. 100. gr.  Samkvæmt þessu ákvæði er sakborningi heimilað að bera atriði sem varða framkvæmd farbanns og annarra ráðstafana undir dómara. Laganefnd telur vert að hugleiða hvort ekki ætti að setja í lög ákvæði sem heimila sakborningi að krefjast fyrir dómi afléttingar farbanns eða annarra ráðstafana samkvæmt kaflanum ef aðstæður breytast verulega.

101. gr.  Gerð er athugasemd við orðalagið að tryggingarfé skuli vera „fyrirgert til ríkis­sjóðs“. Samkvæmt almennri málnotkun væri skýrara, eðlilegra og þjálla að kveða á um að tryggingarfé „renni til ríkissjóðs“.

XV. kafli - meðferð rannsóknarmála fyrir dómi

3. mgr. 103. gr.  Telja verður varhugavert að þetta ákvæði frumvarpsins feli í sér heimild fyrir ákæranda til breyta kröfugerð til íþyngingar fyrir þann sem krafan beinist að, enda gætu slíkar breytingar, til íþyngingar fyrir sakborning, jafnvel brotið gegn ákvæði b-lið 3. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu um rétt sakbornings, þar sem kveðið er á um að þess skuli gætt að sakborningur fái nægan tíma og aðstöðu til að undirbúa vörn sína.

4. mgr. 106. gr. Laganefnd mælist sem fyrr segir til þess að það verði meginregla við rannsókn sakamála að skýrsla verði tekin upp á myndband eða mynddisk og gildir það einnig um skýrslu samkvæmt þessari grein.

3. þáttur - sönnun og sönnunargögn

XVI. kafli - almennar reglur um sönnun

3. mgr. 111. gr. Laganefnd leggst gegn því að dómur verði byggður á skýrslu sem gefin var við rannsókn máls hjá lögreglu eða öðrum stjórnvöldum, hafi vitni ekki komið fyrir dóm við meðferð málsins fyrir dómi og staðfest þar skýrslu sína. Að mati nefndarinnar samrýmist slík tilhögun ekki meginreglu opinbers réttarfars um beina og milliliðalausa sönnunarfærslu. Einnig er á það bent að sakborningur, eða verjandi hans fyrir hans hönd, hefur í fæstum tilvikum haft tök á því að gæta hagsmuna sakbornings við rannsókn lögreglu, þ.m.t. með því að beina spurningum til þess sem yfirheyrður er, sbr. d-lið 3. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Það er mat laganefndar að dómur verði ekki byggður á sönnun­argögnum sem þannig eru til komin, nema því aðeins að málsaðilar hafi orðið sammála um að byggja dóm á slíku gagni, án þess að viðkomandi yrði yfirheyrður að nýju.

1. mgr. 112. gr.  Laganefnd leggur áherslu á að sú heimild sem mælt er fyrir um í þessu ákvæði feli í sér algera undantekningu frá þeirri meginreglu að sönnunarfærsla skuli fara fram fyrir þeim dómara sem mál dæmir. Það er mat nefndarinnar að þessari heimild verði því aðeins beitt í undantekningartilvikum og einungis varðandi upplýsingar eða gögn sem ekki verða talin geta ráðið úrslitum í máli, þ.m.t. um sekt eða sakleysi sakbornings.

XVII. kafli - skýrslugjöf ákærða fyrir dómi

Ekki eru gerðar athugasemdir við ákvæði þessa kafla.

XVIII. - vitni

8. mgr. 122. gr. Vitnað er til þess sem að framan segir varðandi 2. mgr. 56. gr. og 3. mgr. 65. gr. frumvarpsins.

3. málsliður 2. mgr. 123. gr. Vitnað er til athugasemda við 8. mgr. 122. gr. frumvarpsins.

3. málsliður 3. mgr. 123. gr. Laganefnd telur eðlilegra að dómsmálaráðherra setji reglur um tilhögun skýrslutöku samkvæmt þessari grein, fremur en dómstólaráð.

124. gr.  Laganefnd telur það vera álitamál hvort þörf sé á þeim reglum um eið og dreng­skaparheit sem mælt er fyrir um í þessari grein, þar sem lítið hefur reynt á þær í framkvæmd undanfarin ár.

XIX. kafli - matsgerðir

2. mgr. 130. gr. Laganefnd varar við því að undantekningarregla 2. mgr. 130. gr. frum­varpsins, sem heimilar munnlega skýrslugjöf matsmanns í stað skriflegrar matsgerðar, kunni í reynd að verða meginregla í framkvæmd. Slíkt yrði ekki vænleg þróun að mati nefndarinnar.

131. gr. Með þessu ákvæði er dómara fengið vald til að meta hvort ástæða sé til yfirmats eða ekki. Laganefnd telur orðalag ákvæðisins að þessu leyti óheppilegt og óþarft. Nægir í því sambandi að vitna til hinnar almennu heimildar dómara til að meta þörf á sönnunarfærslu hverju sinni, sbr. 3. mgr. 110. gr. frumvarpsins. Verður ekki annað séð en að 2. málsliður 131. gr. frumvarpsins geti fallið niður, án þess að um efnislega breytingu verði að ræða.

XX. kafli - skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn

Ekki eru gerðar athugasemdir við ákvæði þessa kafla.

XXI. kafli - öflun sönnunargagna fyrir öðrum dómi

Ekki eru gerðar athugasemdir við ákvæði þessa kafla.

4. þáttur - saksókn og meðferð máls fyrir héraðsdómi

XXII. kafli - almennar reglur um saksókn

144. gr. / 145. gr.  Laganefnd sýnist efnislega réttara að efnisregla 144. gr. komi á undan efnisreglu 145. gr.

2. málsliður 2. mgr. 144. gr. Laganefnd gerir athugasemd við það hversu víðtæka aftur­köllunarheimild sá er misgert hefur við hefur samkvæmt ákvæðinu, en samkvæmt því getur sá er misgert hefur verið við afturkallað kröfu sína um málshöfðun allt þar til dómur er kveðinn upp í málinu í héraði. Það er einkum þrennt sem mælir gegn svo víðtækri afturköllunar­heimild:

(1)  Svo víðtæk heimild eykur líkur á misnotkun. Brotaþoli gæti nýtt heimild þessa til að ná fram einkaréttarlegum kröfum sínum, t.d. bótakröfum, þ.e. með því notfæra sér ákæruvaldið í þeim tilgangi að skapa þrýsting á hinn brotlega og freista þess að fá hann til að efna einkaréttarlegar kröfur brotaþolans. Í verstu tilvikum gæti jafnvel verið um kúgun að ræða af hálfu brotaþola.

(2)  Svo víðtæk afturköllunarheimild gæti einnig verið sakborningi tilefni til að beita brotaþola óeðlilegum þrýstingi eftir að ákæra er komin fram og mál hefur verið höfðað, þ.e. sakborningur gæti freistast til þess að þvinga brotaþola, beint eða óbeint, til að draga kröfu sína til baka.

(3)  Það er og á að vera meiriháttar atburður að bera mann sökum í sakamáli með þeim réttarverkunum sem af því leiðir, þ.m.t. meðferð sakamáls fyrir dómi. Brýnt er að heimildir til þess séu ekki misnotaðar. Komi fram krafa þess sem misgert er við um að hinum seka verði refsað, þar sem slíkt er áskilið í lögum, ber ákæruvaldinu engu að síður að leggja mat á málið með hliðsjón af almennum reglum um saksókn. Telji ákæruvaldið rök til þess að ákæra hinn brotlega er gefin út ákæra, sbr. 142. gr. og 152. gr. frumvarpsins. Málið telst upp frá því vera mál ákæruvaldsins gegn meintum brotamanni, en ekki mál þess sem misgert hefur verið við gegn meintum brotamanni. Það er órökrétt að mati laganefndar að afstaða þess sem misgert hefur verið við, sem á enga beina aðild að málinu, geti ráðið úrslitum um framhald þess. Einstaklingnum, eða lögaðilum, er með þessu veitt of víðtækt vald, sem ekki verður réttlætt með nokkrum hætti að mati nefndarinnar. Eðlilegra sýnist að veita svigrúm til afturköllunar kröfu fram til þess tímamarks er ákæra er gefin út, í síðasta lagi, en frá því tímamarki sé málið úr höndum þess sem misgert hefur verið við.   

b-liður 3. mgr. 146. gr.  Hugtakið „sáttamiðlun“ er hvergi skilgreint í ákvæðum frumvarps­ins og því óljóst hvað í því felst samkvæmt íslenskum lögum.

XXIII. kafli - lok máls án ákæru

Ekki eru gerðar athugasemdir við ákvæði þessa kafla.

XXIV. kafli - ákæra, fyrirkall og birting

1. mgr. 152. gr. Laganefnd leggst gegn því að opnað verði fyrir skriflega greinargerð ákæruvalds í ákæru, sbr. d-lið 1. mgr. 152. gr. frumvarpsins. Telur laganefnd eðlilegra að áfram verði miðað við þá reglu, sem hingað til hefur verið talin gildandi réttur á Íslandi, sbr. dóm Hæstaréttar frá 21. júlí 2006, í málinu nr. 353/2006, að skrifleg greinargerð ákæruvalds í ákæru sé óheimil, sbr. einnig til hliðsjónar 3. mgr. 115. gr. eldri laga um meðferð opinberra mála nr. 74/1974. Samsvarandi regla gildir í dönskum rétti, sbr. 2. mgr. 831. gr. dönsku réttarfarslaganna (d. Lov om rettens pleje).

Laganefnd dregur í efa að þörf sé á skriflegri greinargerð til skýringar í ákæru umfram það sem heimilt er samkvæmt c-lið sömu greinar. Nefndin telur einnig vafasamt að skrifleg greinargerð í ákæru leiði til skýrari málatilbúnaðar af hálfu ákæruvalds. Laganefnd hefur skilning á því markmiði frumvarpshöfunda, að jafna þurfi aðstöðu ákæruvalds og verjanda, sem heimilað er að skila skriflegri greinargerð í máli sem ekki verður lokið með útivistar­dómi, viðurlagaákvörðun eða játningardómi, sbr. 1. mgr. 165. gr. frumvarpsins. Telur nefndin að þennan aðstöðumun megi jafna með heimild ákæruvalds til að skila skriflegri greinargerð í héraði, til jafns við verjanda og með áþekkum hætti og hingað til hefur tíðkast fyrir Hæstarétti Íslands, sbr. 155. gr. núgildandi laga nr. 19/1991, sbr. 15. gr. laga nr. 37/1994.

156. gr.  Laganefnd telur að það eigi að vera skilyrðislaus regla að ákæra skuli birt fyrir ákærða sjálfum eða þeim sem hefur skriflegt umboð frá honum til að taka við ákæru fyrir hans hönd. Samkvæmt þessu kemur ekki til álita að mati laganefndar að birting ákæru fyrir verjanda sakbornings jafngildi birtingu ákæru fyrir honum sjálfum, nema því aðeins að verjandinn hafi fengið til þess skriflegt umboð frá ákærða, enda er það réttur hvers lögmanns að vera ekki lagður að jöfnu við umbjóðanda sinn eða skjólstæðing.

Þá er engan veginn víst að verjandi hafi nokkra möguleika á því að ná sambandi við sakborning. Lögregla og ákæruvald eru alla jafna í mun betri aðstöðu en verjandinn til að hafa upp á viðkomandi til að birta fyrir honum ákæru.  

XXV. kafli - almenn meðferð máls fyrir dómi

1. mgr. 161. gr. Ákvæðið lýtur að meðferð útivistarmála. Í athugasemdum við þetta ákvæði er engar leiðbeiningar að finna að öðru leyti en því að þess er getið reglan sé óbreytt frá 1. mgr. 126. gr. laga nr. 19/1991, þótt orða­lagi hafi verið hnikað til. Ekki er þá tekið tillit til þess að með frumvarpinu er stefnt að því að slaka á reglum um birtingu ákæru og fyrirkalls annars vegar, sbr. 156. gr. frumvarpsins, og dóms hins vegar, sbr. 3. mgr. 185. gr. frumvarpsins, og því er engan veginn tryggt að ákærður maður fái ákæruskjal yfirhöfuð í hendur, né heldur dóm í málinu. Þannig er ekki loku fyrir það skotið að maður verði dæmdur samkvæmt þessu ákvæði án þess að hafa nokkra hugmynd um að hann hafi verið ákærður og möguleikar hans til að knýja fram endurupptöku innan þess frests sem ákveðinn er í 1. mgr. 187. gr., telji hann ástæðu til hennar, er að sama skapi takmarkaður, þar sem ekki er tryggt að hann fái dóm í hendur innan þess frests sem þar er gefinn. Laganefnd leggst því gegn þeim breytingum sem hér eru lagðar til.

162. gr. Í þessu ákvæði er innleidd sú regla að lögreglu sé skylt að verða við fyrirmælum ákæranda um að færa ákærða fyrir dóm ef hann sinnir ekki fyrirkalli og ekki er um að ræða lögmæt forföll. Engin ástæða er til að breyta ríkjandi fyrirkomulagi, enda eðlilegast að dómari kveði á um handtöku sakbornings, annað hvort að eigin frum­kvæði eða eftir kröfu ákæranda.

164. gr. Með þessu ákvæði frumvarpsins er ákvæði núgildandi 125. gr. laga nr. 19/1991 rýmkað með þeim hætti að heimilt verður að ljúka máli sem játningarmáli, jafnvel þótt brotið varði lengra fangelsi en átta árum, en slíkt hefur ekki verið mögulegt til þessa. Breytingin er sakborningi í hag og því styður laganefnd hana.

165. gr. Eitt helsta nýmæli XXV. kafla kemur fram í þessu ákvæði, en með því er veitt heimild fyrir því að ákærði leggi fram greinargerð sem einhvers konar andsvar við ákæru­skjali, þar sem greindar skuli kröfur og röksemdir ákærða, svo og þau gögn sem hann leggi fram og þau vitni sem hann hyggist leiða fram. Markmið frumvarpshöfunda er að jafna að­stöðu aðila að sakamáli, til samræmis við aðstöðu stefnanda og stefnda í einkamáli.

Samkvæmt lögum um meðferð einkamála á stefndi alltaf rétt á að skila greinargerð í máli, en í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að dómari geti gefið ákærða kost á því að leggja fram, innan hæfilegs frests, skriflega greinargerð, enda sé málið flókið og umfangsmikið. Ekki er skýrt hvað felst í orðunum „ gefa ákærða kost“, orðunum „innan hæfilegs frests“ og orðunum „enda sé málið flókið eða umfangsmikið“. Af orðalaginu að ráða virðist það vaka fyrir löggjafanum að leggja það alfarið í ákvörðunarvald dómara hvenær ákærði geti lagt fram slíka greinargerð.

Laganefnd telur ekki réttlætanlegt að meina sakborningi að leggja fram skriflega greinargerð í máli sem ákæruvaldið hefur höfðað gegn honum, kjósi hann að gera slíkt, og allra síst í mál­um er varða sakborning miklu, t.a.m. ef hann er ákærður fyrir brot gegn almennum hegning­arlögum, brot í starfi o.s.frv. Ákvæðið er því of þröngt að mati nefndarinnar. Jafnframt telur nefndin rétt að í stað orðalagsins „innan hæfilegs tíma" verði sakborningi veittur ákveðinn frestur til að setja fram greinargerð, t.d. þrjár eða fjórar vikur frá þingfestingu, en dómara verði veitt heimild til að framlengja þann rétt, telji hann það réttlætanlegt. Er slík tilhögun einnig í samræmi við ákvæði b-liðar 3. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, þar sem mælt er fyrir um að sakborningur skuli fá nægan tíma og aðstöðu til að undirbúa vörn sína. .

2. mgr. 166. gr. Samkvæmt 2. mgr. 166. gr. er gert ráð fyrir óbreyttu fyrirkomulagi 3. mgr. 129. gr. laga nr. 19/1991, að ákærandi geri stuttlega grein fyrir ákæru í upphafi aðalmeðferðar og hvaða gögnum hún sé studd, en að því búnu verði tekin skýrsla af ákærða. Í samræmi við meginhugsun frumvarpsins um að jafna aðstöðu aðila að sakamáli telur laganefnd  eðlilegt að ákærða eða verjanda hans verði gefinn kostur á að svara forflutningi ákæranda og gera grein fyrir eigin sönnunargögnum, sbr. 1. mgr. 110. gr. frumvarpsins. Myndi slík jafnræðisregla sam­rýmast fyllilega reglum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

3. mgr. 166. gr. Laganefnd telur að fyrirmæli 3. málsliðar þessarar greinar um að málflutn­ingur skuli vera glöggur og innan þeirra marka sem sæmandi geta talist séu ekki nægilega skýr, en enga leiðbeiningu í því efni er að finna í athugasemdum við þessa grein. Úr þessu þarf að bæta að mati laganefndar.

Laganefnd mótmælir því einnig að dómara verði veitt heimild til að takmarka málfrelsi málflytjanda, sbr. 4. málslið þessarar greinar. Slík heimild samrýmist illa 1. mgr. 70. gr. og 73. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 8. og 11. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, og 1. og 3. mgr. 6. gr. og 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Telur nefndin eðlilegra að öðrum úrræðum verði beitt standist málflytjendur ekki þær kröfur sem til þeirra eru gerðar eða sýni af sér vanrækslu eða önnur glöp, sbr. til að mynda 1. mgr. 223. gr. frumvarpsins.  

169. gr.  Ákvæðið tekur á þeirri stöðu, sem upp getur komið, að fleiri en eitt mál hafi verið höfðað gegn sakborningi fyrir sama dómstóli og heimild dómara til að sameina þau og reka sem eitt mál. Vegna þessa er minnt á að Hæstiréttur hefur fundið að því að höfðað hafi verið sakamál gegn sama sakborningi fyrir fleiri en einum héraðsdómi á svipuðum tíma. Ákæruvaldið hefur í áranna rás reynt að koma í veg fyrir þessa aðstöðu og sent mál til á milli umdæma í þeim tilgangi að fyrirbyggja að tvö mál eða fleiri séu rekin gegn sama sakborningi fyrir tveimur eða fleiri dómstólum. Ekki er tekið á þessari aðstöðu í frumvarpinu, en hugs­anlegt væri að mála svo um að ákæranda væri skylt að fella niður ákæru við þessar aðstæður og senda málið til meðferðar hjá ákæranda í því umdæmi hvar hitt málið er til meðferðar.

a-liður 1. mgr. 170. gr. Laganefnd telur eðlilegt að mál á hendur tilteknum sakborningi verði fellt niður ef hann fellur frá á meðan á málsmeðferð stendur, jafnvel þótt ákveða mætti sekt eða upptöku eigna úr dánarbúi hans. Það er skoðun nefndarinnar að ómannúðlegt sé að refsa látnum mönnum eða erfingjum þeirra, vegna brota sem hinn látni kann að hafa framið.


XXVI. kafli - einkaréttarkröfur o.fl.

2. mgr. 173. gr.  Það er álitaefni hvort þær kröfur sem settar eru fram í þessari grein varðandi form og efni einkaréttarkröfu eigi rétt á sér í öllum málum.

5. mgr. 173. gr.  Laganefnd telur óeðlilegt að ákæruvaldinu verði falið það vald að leggja mat á það hvort einkaréttarkrafa sé réttilega úr garði gerð og hvort henni fylgi nauðsynleg gögn, svo og til að úrskurða um þessi atriði með endanlegum hætti. Kemur þar einkum tvennt til:

(1)  Ákæruvaldið býr ekki yfir sérþekkingu á því réttarsviði sem einkaréttarkröfur varða, t.a.m. í skaðabótarétti, hvorki um form né efni. Það er óheppilegt að aðili, sem ekki telst sér­fróður um viðkomandi málefni, hafi það vald sem hér er mælt fyrir um. Ákæruvaldinu er heldur enginn greiði gerður með slíku.

(2)  Forræði einkaréttarkröfu er í höndum þess sem slíka kröfu setur fram, en ekki ákæruvaldsins og það er liggur því beinast við að sá aðili svari fyrir þá kröfu sem hann gerir fyrir dómara en ekki ákæruvaldinu.

174. gr.  Laganefnd telur álitamál hvort þörf sé á að birta greinargerð vegna einkaréttarkröfu fyrir ákærða um leið og ákæra og fyrirkall eru birt fyrir honum, sbr. ákvæði þessarar greinar. Laganefnd bendir á slík krafa/greinargerð ætti í flestum tilvikum að hafa verið birt fyrir sak­borningi á fyrri stigum málsins, sbr. 4. mgr. 172. gr. frumvarpsins.

3. mgr. 176. gr.  Laganefnd telur brýnt að brotaþola verði tryggð greiðsla á þeim raunkostn­aði sem hann verður fyrir vegna lögmannsaðstoðar, hvort heldur sem viðkomandi hefur fengið tilnefndan/skipaðan réttargæslumann eða ekki. Nefndin vekur einnig athygli á nauðsyn þess að brotaþola verði dæmdar bætur vegna kostnaðar sem hann kann að verða fyrir vegna vinnu lögmanns, áður en að honum hefur verið tilnefndur/skipaður réttargæslumaður.

XXVII. kafli - afbrigðileg meðferð máls fyrir dómi

Ekki eru gerðar athugasemdir við ákvæði þessa kafla.

XXVIII. kafli - dómsúrlausnir héraðsdóms

2. mgr. 183. gr.  Laganefnd telur rétt að dómurum verði gert að rökstyðja það í dómum sínum, ef þeir fallast ekki á tímaskráningu verjanda eða réttargæslumanns, sbr. athugasemdir við 38. gr. hér að framan.

2. mgr. 184. gr.  Laganefnd telur ekki fullnægjandi að einungis munnlegur flutningur máls verði endurtekinn þegar dómari, sem hlýtt hefur á skýrslutökur og munnlegan málflutning í sakamáli forfallast, þannig að hann geti ekki kveðið upp dóm í máli. Að mati nefndarinnar er nauðsynlegt út frá meginreglunni um beina og milliliðalausa sönnunarfærslu að öll málsmeð­ferðin verði endurtekin, þ.e. skýrslutökur og munnlegur málflutningur.

1. mgr. 185. gr.  Laganefnd telur eðlilegt að dómari tilkynni þeim sem haft hafa uppi einka­réttarkröfu í máli um dómsuppsögu í því, á sama hátt og hann tilkynnir aðilum málsins um dómsuppsöguna.

3. mgr. 185. gr.  Laganefnd telur eðlilegt að dómur verði birtur fyrir dómfellda með sama hætti og ákæra, sbr. 156. gr. frumvarpsins.

5. þáttur - endurupptaka og málskot

XXIX. kafli - endurupptaka útivistarmáls í héraði

2. mgr. 187. gr. Laganefnd varar við því að ákvæðið gæti leitt til þess að mál út af sama sakarefni væri samtímis rekið fyrir sitt hvoru dómstiginu, sbr. eftirfarandi dæmi: Þrír eru ákærðir í sama máli, A, B og C. Útivist verður hjá B. Dómur fellur og eru allir sakfelldir. A áfrýjar fyrir sitt leyti. Ríkissaksóknari áfrýjar þá gegn A og B en ætlar að sætta sig við dóminn gegn C. C krefst hins vegar endurupptöku. Slíkt myndi leiða til þeirrar einkennilegu stöðu, að mál vegna sama sakarefnis yrði samtímis rekið fyrir tveimur dómstigum.

XXX.  kafli - kæra

192. gr.  Svo virðist sem að frumvarpið geri ráð fyrir tvenns konar takmörkunum á kærum til Hæstaréttar frá því sem nú er kveðið á um í lögum.  Annars vegar verður einungis heimilt að kæra úrskurði héraðsdómara en ekki ákvarðanir eins og verið hefur samkvæmt núgildandi lögum. Hins vegar er í 142. gr. núgildandi laga talið upp hvað ekki sætir kæru til Hæstaréttar en í frumvarpinu er hins vegar talið upp hvaða úrskurðir skuli einir sæta kæru. Ekki eru færð fyrir því sérstök rök af hverju eða hvort verið sé að þrengja kæruheimild til Hæstaréttar, enda verður ekki fallist á að slíkt sé nauðsynlegt. Réttaröryggi sakborninga virðist þvert á móti betur tryggt samkvæmt núgildandi lögum, heldur en ef þessar breytingar verða að lögum.  Í dæmaskyni skal m.a. bent á að úrlausn um ágreining samkvæmt fyrri hluta 2. mgr. 102. gr. frumvarpsins um lögmæti rannsóknarathafna virðist ekki kæranleg til Hæstaréttar nema að hluta. Hægt er að hugsa sér ýmis tilvik sem upp gætu komið við rannsókn máls sem féllu undir 2. mgr. 102. gr. en eru ekki talin upp í 192. gr. um kæru.

Því er eindregið andmælt af hálfu laganefndar að horfið verði frá núverandi fyrirkomulagi um að bæði ákvarðanir og úrskurðir héraðsdómara séu kæranlegir og að fyrirfram sé allt kæranlegt nema það sem talið er upp í lagaákvæði eins og nú er að finna í 142. gr.  Með vísan til 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð fyrir dómi, sbr. lög nr. 62/1994, verður að telja þá tilhögun eðlilegri. 

Af athugasemdum með 192. gr. verður helst ráðið að ástæðan fyrir þessari breytingu sé sú að koma í veg fyrir að þær athafnir dómara sem kærðar eru til Hæstaréttar séu án rökstuðnings. Ekki verður fallist á að slíkt verði gert með þeim hætti að mikil hætta sé á að réttindi sakborninga verði fyrir borð borin eða þrengd í sömu svipan. Eðlilegra væri að kveða heldur á um frekari rökstuðning dómara við kæranlegar athafnir, frekar en að fara þá leið sem farin er í frumvarpinu.

194. gr.  Gerð er athugasemd við afar óþjált orðalag 2. mgr.: Nú hefur kæru ekki verið lýst yfir í þinghaldi að viðstöddum gagnaðila kæranda og skal héraðsdómari þá tilkynna gagn­aðilanum tafarlaust um hana…“. Mun eðlilegra er að ákvæðið hljómi: Nú hefur kæru verið lýst yfir í þinghaldi að fjarstöddum gagnaðila…“.

Laganefnd telur einnig eðlilegt að unnt verði að koma að greinargerð til Hæstaréttar uns dómur fellur í máli, sbr. 3. mgr. greinarinnar. Eigi hins vegar að miða við tiltekin frest frá því að mál hefur borist Hæstarétti er jafnframt eðlilegt, að áliti laganefndarinnar, að Hæstarétti verði gert að tilkynna aðilum formlega um móttöku kæru og fylgigagna með henni.

195. gr.  Í ákvæðinu eru felldir niður frestir þeir sem gefnir eru Hæstarétti til að kveða upp dóma í kærumálum. Fyrir því er ekki að finna neinn rökstuðning í greinargerðinni sem telja verður óheppilegt.

XXXI. kafli - áfrýjun

208. gr.  Laganefnd fagnar því sérstaklega að mælt skuli svo um í lögunum að dómari, eða dómarar, sem kveðið hafa upp dóm sem ómerktur er í Hæstarétti, skuli ekki fjalla um sama mál að nýju, þegar málið er tekið fyrir í héraðsdómi á nýjan leik.

XXXII. kafli - endurupptaka óáfrýjaðs máls

Ekki eru gerðar athugasemdir við ákvæði þessa kafla.

XXXIII. kafli - endurupptaka máls sem hefur verið dæmt í Hæstarétti

215. gr. Laganefnd telur sem fyrr segir óheppilegt að Hæstiréttur meti sjálfur hvort skilyrði séu til endurupptöku máls, sem hefur verið dæmt í Hæstarétti. Eðlilegra væri að sérstaklega skipuð nefnd tæki afstöðu til beiðni um endurupptöku slíks máls.

6. þáttur - sakarkostnaður og réttarfarssektir

XXXIV. kafli - sakarkostnaður

2. mgr. 221. gr.  Ákvæðið er of óskýrt orðað að mati laganefndar. Nauðsynlegt er að kveðið verði á um það með skýrari hætti hvenær nægjanlega ljóst liggur fyrir að sakfelldur maður hafi hvorki eignir né tekjur til að standa straum af sakarkostnaði, þannig að unnt sé að falla frá kröfu á hendur honum um greiðslu kostnaðarins. Að mati laganefndar er þörf á að kveða á um það í lögunum, hver taki ákvörðun um slíkt og undir hvaða kringumstæðum. Þá þarf að mati nefndarinnar að skýra við hvaða tímamark eigi að miða þegar metnar eru tekjur og eignir við­komandi, til að ákvarða hvort hann hafi bolmagn til að standa straum af greiðslu kostnaðarins. Er eindregið mælt með því að úr þessu verði bætt, enda grundvallast mannréttindin, sem kveðið er á um í þessu ákvæði, á c-lið 3. mgr. 6. mgr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

XXXV. kafli - réttarfarssektir

Ekki eru gerðar athugasemdir við ákvæði þessa kafla.

7. þáttur - ýmis ákvæði

XXXVI. kafli - sakaskrá

Ekki eru gerðar athugasemdir við ákvæði þessa kafla.

XXXVII. kafli - bætur vegna sakamáls

228. gr.  Óheppilegt er að mati laganefndar að ákvæði 7. þáttar um bótaskyldu taki ekki jafnframt til efnisþátta XII. kafla frumvarpsins.  Skal hér í dæmaskyni nefnt ákvæði 89. gr. sem er að finna í nefndum XII. kafla frumvarpsins. Samkvæmt því ákvæði, sem áður hefur verið minnst á, er ríkissaksóknara fengið í hendur mikið vald til að ákveða ýmsar sérstakar rannsóknaraðferðir án takmörkunar eða lagastoðar (sem eins og áður segir stenst tæpast ákvæði stjórnarskrár). Engin ástæða er til annars en að meint bótaskylda vegna slíkra rann­sóknaraðgerða falli undir bótaábyrgð 7. þáttar.  Engin sérstök rök eru færð fyrir því í greinargerð af hverju allar þvingunarráðstafanir sem kveðið er á um í lögunum falla undir bótaábyrgð 228. gr. en þær rannsóknaraðferðir sem kveðið er á um í XII. kafla gera það ekki. Laganefnd gerir því athugasemd við þá tilhögun.

230. gr.  Í athugasemdum við þetta ákvæði kemur einungis fram að greinin sé í meginatriðum efnislega eins og 178. gr. núgildandi laga.  Þó er með frumvarpinu gerð tillaga að veigamikilli breytingu á réttarstöðu aðila, þar sem í 230. gr. frumvarpsins er tekið fram að stefnandi í einkamáli á hendur ríkinu á grundvelli þessa kafla laganna skuli aðeins fá lögbundna gjafsókn í héraði.  Í því skyni er bent á að samkvæmt 178. gr. núgildandi laga um meðferð opinberra mála skal veita aðila gjafsókn fyrir báðum dómum“.  Á þessa breytingu er ekkert minnst í frumvarpinu né heldur færð nein rök með henni. Eru gerðar athugasemdir við þessa tilhögun.

XXXVIII. kafli - gildistaka, brottfall laga o.fl.

Ekki eru gerðar athugasemdir við ákvæði þessa kafla.

---

Að síðustu skal áréttað, að þótt í umsögn þessari sé bent á atriði, sem laganefnd telur að betur megi fara í fyrirliggjandi frumvarpi, er það mat nefndarinnar að vel hafi tekist til af hálfu höfunda frumvarpsins og að um afar vandaða lagasmíð sé að ræða. Frumvarpið felur í sér margvíslegar réttarbætur, sem ekki hefur verið sérstaklega vikið að hér eins og áður segir og það er í sjálfu sér fagnaðarefni fyrir alla þá sem að meðferð opinberra mála koma að frum­varpið skuli hafa komið fram.

Að öðru leyti gerir laganefnd ekki athugasemdir við efni ofan greinds frumvarps að svo komnu máli.

Virðingarfyllst,

f.h. laganefndar Lögmannafélags Íslands,

____________________________________

Jóhannes Rúnar Jóhannsson, hrl., formaður.

,