Umsögn Laganefndar Lögmannafélags Íslands um frumvarp til innheimtulaga

Nefndasvið Alþingis

Selma Hafliðadóttir, nefndarritari.

Austurstræti 8-10

150 Reykjavík

Reykjavík, 25. febrúar 2008.

Umsögn Laganefndar Lögmannafélags Íslands um frumvarp til innheimtulaga, 135. löggjafarþing 2007–2008, þskj. 506 - 324. mál.

Laganefnd Lögmannafélags Íslands hefur haft ofangreint frumvarp til skoðunar og lætur í té eftirfarandi umsögn:

Með frumvarpinu er lagt til að sett verði innheimtulög sem taki meðal annars til inn­heimtustarfsemi lögmanna, viðskiptabanka og sparisjóða, annarra lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, svo og ýmissa stofnana. Markmið með setningu frumvarpsins er einkum að setja ákveðnar meginreglur um innheimtu, til hagsbóta fyrir neytendur og draga úr óeðlilegum kostnaði vegna innheimtuaðgerða á frumstigi. Samkvæmt grein­argerð með frumvarpinu hefur verið stuðst við norsk innheimtulög við samningu þess.

Laganefnd LMFÍ leggst alls ekki gegn því að sett verði innheimtulög er taki á þeim þáttum sem nefndir eru í frumvarpinu, enda eru fordæmi fyrir slíku í vel flestum ná­grannalöndum okkar. Ef vel tekst til getur slík löggjöf verið til bóta að mati nefnd­arinnar, þar sem hún er til þess fallin að styrkja og skýra heimildir og skyldur þeirra sem slíka starfsemi stunda, svo og réttarstöðu aðila sem að slíkum málum koma, auk þess sem slík löggjöf skapar grundvöll til þess að bregðast við ef ekki er vandað nægilega til verka af hálfu innheimtuaðila.  

Laganefnd er þó alls ekki sannfærð um að frumvarpið, eins og það er fram sett, sé til þess fallið að ná fram þeim markmiðum sem að er stefnt. Þótt margt sé gott í frum­varpinu er laganefnd þeirrar skoðunar að sum ákvæði frumvarpsins séu ekki nægilega skýr til þess að þau geti þjónað tilgangi sínum, önnur ákvæði séu of takmörkuð og enn önnur ákvæði geti verið til þess fallin að skerða réttarstöðu neytenda frá því sem nú er, í stað þess að bæta hana eins og að er stefnt með frumvarpinu.

Laganefnd bendir á að líta þurfi á innheimtuferil sem eina heild, það er frum-, milli- og löginnheimtu. Ákvæði frumvarpsins taka einungis á fyrri þáttunum tveimur, en ekki þeim síðast nefnda. Laganefnd er sammála frumvarpshöfundum um að gera eigi greinarmun á svonefndri löginnheimtu og öðrum innheimtuaðgerðum, þ.e. frum- og milliinnheimtu, en vekur jafnframt athygli á því að sú staðreynd, að ákvæði frum­varpsins taka ekki til allra þátta innheimtuferils, kunni að leiða til hraðari innheimtu­ferils og harðari og kostnaðarsamari innheimtuaðgerða fyrir skuldara, samanborið við það sem nú tíðkast. Slík niðurstaða er í andstöðu við það meginmarkmið frumvarpsins að auka réttarvernd neytenda

Ákvæði frumvarpsins gætu leitt til þess að innheimtuaðili veldi þá leið að stytta frum- og milliinnheimtuferil og flýta löginnheimtuaðgerðum, ekki hvað síst ef hámarks­fjárhæð innheimtukostnaðar samkvæmt 12. gr. frumvarpsins verður ákveðin lág, þar sem aðgerðir á sviði löginnheimtu falla utan marka frumvarpsins og eru þar af leið­andi óháðar þeim takmörkunum sem þar er mælt fyrir um. Slík niðurstaða þjónar raunar hvorki hagsmunum skuldara né kröfuhafa, þótt hún gæti verið innheimtuaðila í hag, auk þess sem hún gæti haft í för með sér aukið og óþarflega mikið álag á réttar­kerfinu, þ.e. dómstólum og fullnustuaðilum.

Laganefnd er þeirrar skoðunar að taka þurfi sanngjarnt tillit til hagsmuna skuldara og kröfuhafa við innheimtuaðgerðir, en ekki einungis hagsmuna skuldara, enda jafngilda vanskil skuldara sjálftöku hans á fjármunum kröfuhafa. Það getur ekki verið tilgangur laga að standa vörð um slíka háttsemi, enda hefur skuldari ýmsa aðra möguleika til að fjármagna neyslu sína, starfsemi eða fjárfestingar. Í því sambandi er ennfremur nauð­synlegt að hafa í huga að skuldari hefur í flestum tilvikum samið um að inna greiðslu sína af hendi á tilteknum stað og tíma og kröfuhafi hefur réttmætar væntingar um skuldari standi við þann samning. Hagsmunir kröfuhafa og viðskiptalífsins í heild sinni krefjast þess að menn standi við gerða samninga.

Af þessum ástæðum er það í senn þýðingarmikið og rökrétt að kostnaður skuldara af milliinnheimtu verði hærri en af fruminnheimtu og kostnaður af löginnheimtu verði hærri en af milliinnheimtu, því ella hefur skuldari engan hvata til að greiða skuld sína á réttum tíma. Slík niðurstaða væri ekki ásættanleg fyrir kröfuhafa eða viðskiptalífið.

Laganefnd bendir á að skuldarar séu síður en svo einsleitur hópur. Í þeim hópi kunna til dæmis að vera einstaklingar eða lögaðilar sem vegna misskilnings, mistaka eða til­fallandi aðgæsluleysis hafa misst einstaka kröfu í vanskil, aðilar sem ekki hafa fjár­hagslegt bolmagn til að standa við skuldbindingar sínar og svo aðilar sem aldrei greiða kröfur sínar fyrr en við síðustu aðgerð í innheimtuferlinu og allt þar á milli. Vandi þeirra sem tilheyra öðrum og þriðja flokki skuldara sem nefndir voru hér að framan er slíkur að hann verður ekki leystur með því einu að ákveða lagaramma utan um innheimtuþjónustu og takmarka innheimtukostnað, heldur verða að koma til ann­ars konar úrræði.

Laganefnd gerir athugasemd við aðdraganda lagasetningarinnar og telur að rökrétt hefði verið og eðlilegt að hafa samráð við þá aðila sem stunda innheimtustarfsemi á fyrri stigum, þ.e. þegar frumvarpið var í smíðum. Þannig hefði mátt nýta þá miklu þekkingu á þessum málum, sem er til staðar hjá innheimtufyrirtækjunum og öðrum þeim aðilum sem slíka starfsemi stunda, þ.á m. lögmönnum. Laganefnd vill einnig láta þess getið að nefndin leitaði til lögmanna sem sérþekkingu á innheimtumálum við undirbúning umsagnar sinnar og hafa sumir þeirra veitt nefndinni liðstyrk við undir­búning umsagnarinnar.

Laganefnd gerir einnig athugasemd við þá röksemd og markmið frumvarpshöfunda, að tilgangur frumvarpsins sé að „draga úr óeðlilegum kostnaði skuldara, vegna innheimtuaðgerða á frumstigi". Þetta orðalag gefur að mati laganefndar tilefni til að ætla að kostnaður sem skuldara hefur verið gert að greiða til þessa teljist óeðlilega hár, almennt séð eða í einstökum tilvikum. Laganefnd er ekki ljóst til hvers er vitnað með þessu orðalagi eða hvað geti talist „eðlilegur kostnaður" að mati frumvarpshöf­unda, enda er það ekki skýrt nánar í athugasemdum. Þá er laganefnd hvorki kunnugt um almennar viðmiðanir í þessu efni né faglega athugun á því hvernig málum er fyrir komið í dag. Það er skoðun laganefndar, að ef beita eigi röksemdum af þessu tagi við setningu laga, þá beri frumvarpshöfundum jafnframt að veita ítarlegar skýringar á forsendum sínum, meðal annars með tilvísun til faglegra gagna sem slíkar fullyrðingar kunna að vera byggðar á.

Athugasemdir laganefndar við einstakar greinar frumvarpsins:

1. gr.

Gildissvið frumvarpsins er afmarkað í 1. gr. þess. Samkvæmt greininni tekur frum­varpið ekki til innheimtuaðgerða sem byggjast á réttarfarslögum, s.s. útgáfu stefnu, fjárnámsbeiðni eða kostnaðar við meðferð mála fyrir dómstólum. Hér er um að ræða flestar þær aðgerðir sem hingað til hafa fallið undir svonefnda löginnheimtu, sem framkvæmd hefur verið af lögmönnum. Laganefnd vísar til þess sem að framan segir um þessi atriði, þ.e. í almennum athugasemdum nefndarinnar, en þar er meðal annars vikið að skilum frum- og milliinnheimtu annars vegar og löginnheimtu hins vegar. Laganefnd telur raunar að þessi skil séu alls ekki nægilega skýr samkvæmt ákvæðum frumvarpsins.

Laganefnd telur þörf á að skilgreina nánar innheimtuferil máls og þá sérstaklega hugtökin fruminnheimtu, milliinnheimtu og löginnheimtu, sem hafa verið að festa sig í sessi að undanförnu. Með þeim hætti mætti afmarka gildissvið laganna betur en nú er gert, t.d. með því að taka skýrlega fram að lögin gildi um frum- og milliinnheimtu, en löginnheimta falli utan við gildissvið laganna.

Hagsmunir skuldara og kröfuhafa krefjast þess að greiðslufrestir á frum- og milliinn­heimtustigi séu hæfilegir, þar sem innheimtukostnaður er alla jafna mun lægri en við löginnheimtu. Að mati laganefndar er mikilvægt að þessara hagsmuna sé gætt við samningu innheimtulaga, þannig að skuldari hafi hvatningu og ráðrúm til að greiða kröfu í frum- eða milliinheimtu, gegn greiðslu hóflegs innheimtukostnaðar, í stað þess að greiða kröfu í löginnheimtu gegn greiðslu aukins innheimtukostnaðar. Laganefnd telur að þessa hafi ekki verið nægilega gætt við samningu frumvarpsins og að efni og uppbygging frumvarpsins kunni þvert á móti að leiða til hins gagnstæða.

Í dag gildir sú venja að lögmenn, sem fá kröfu til innheimtu, hefja innheimtuaðgerðir sínar (löginnheimtu) með því að senda skuldara innheimtubréf, þar sem skuldaranum gefst kostur á að greiða kröfuna, auk hóflegs innheimtukostnaðar. Verði ákvæði frumvarpsins að lögum þá verður óþarft fyrir lögmenn að senda slík innheimtubréf, hafi innheimtuaðvörun samkvæmt 7. gr. frumvarpsins verið send á fyrri stigum inn­heimtuferilsins. Í stað þess geta lögmenn hafið annars konar aðgerðir jafnskjótt og mál berst þeim, án frekari viðvörunar til skuldara. Slíkt getur haft í för með sér hraðari feril og kostnaðarsamari aðgerðir fyrir skuldara, samanborið við það sem nú tíðkast. Slíkt er ekki skuldara í hag.

2. gr.

Ekki eru gerðar athugasemdir við ákvæði þessarar greinar.

3.-4. gr.

Laganefnd fagnar því að innheimtustarfsemi verði gerð leyfisskyld, enda tryggir það jafnræði meðal þeirra sem þess konar starfsemi stunda. Að mati nefndarinnar er brýnt að gera strangar hæfiskröfur til innheimtuaðila. Laganefndin er einnig sammála þeirri nálgun frumvarpshöfunda að undanþiggja tiltekna aðila innheimtuleyfi á grundvelli frumvarpsins, sbr. 2. mgr. 3. gr. þess, enda gilda önnur lög til starfsemi þeirra aðila sem þar eru nefndir.

Laganefnd bendir hins vegar á að ákvæði 3.-4. gr. eru ekki nægilega skýr. Þannig er t.a.m. ekki tekið á þeirri aðstöðu er lögmenn reka saman innheimtufyrirtæki í formi félags, t.d. einkahlutafélags, eftir atvikum með aðkomu annarra sem ekki hafa lög­mannsréttindi, s.s. framkvæmdastjóra o.s.frv. Æskilegt væri að eyða allri óvissu í þessu efni með skýrum lagaákvæðum, t.a.m. með því að áskilja tiltekna hlutfallseign lögmanna til þess að félag í þeirra eigu geti verið undanþegið ákvæðum laganna um leyfisskyldu o.s.frv.

Laganefnd bendir á að orðalag í c-lið 1. mgr. 4. gr. er ekki nægilega skýrt, en þar er meðal annars áskilið að innheimtuaðili búi yfir „nægilegri þekkingu eða starfs­reynslu" til að geta gegnt starfi sínu á „tilhlýðilegan hátt". Orðalagið er afstætt og opið og þar með til þess fallið að valda deilum, þar sem ekki er unnt að beita hlut­lægum mælikvarða við mat á einstökum þáttum þess.

6. gr.

Laganefnd telur það til bóta að skilgreina hugtakið góða innheimtuhætti. Ef vel tekst til við skilgreiningu á góðum innheimtuháttum er það til þess fallið að tryggja ákveðin lágmarksgæði innheimtuþjónustu hjá öllum innheimtuaðilum. Það er hins vegar álit laganefndar, byggt á reynslu nefndarmanna, að gæði þeirrar þjónustu sem a.m.k. flestir innheimtuaðilar veita í dag séu langt umfram þær kröfur sem gerðar eru í þessari grein frumvarpsins, eins og hún er skýrð í athugasemdum.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. telst það brjóta í bága við góða innheimtuhætti að beita óhæfilegum þrýstingi, tjóni eða óþægindum. Þetta orðalag ákvæðisins er að mati laganefndar of opið til þess að það geti náð markmiði sínu. Úr þeim annmarka er þó að nokkru leyti bætt í athugasemdum með 6. gr., en þar er meðal annars nefnt að það brjóti í bága við góða innheimtuhætti að gefa skuldara rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir eða réttarreglur sem eru mikilvægar fyrir afstöðu hans til kröfunnar. Jafnframt segir að ekki megi beita skuldara hótunum um að veita öðrum upplýsingar um stöðu skuldara eða að birta opinberlega upplýsingar um greiðsluhæfi skuldara, í frekari mæli en heimilt er samkvæmt lögum.

Laganefnd er sammála frumvarpshöfum um að þau atriði sem að framan voru talin teljist brot gegn góðum innheimtuháttum. Nefndin bendir hins vegar á að rétt hefði verið að geta þess að þessi atriði væru einungis nefnd í dæmaskyni, en að ekki væri um tæmandi talningu að ræða. Laganefnd bendir jafnframt á að mat á því hvort um hótanir sé að ræða eða ekki kunni að vera huglægt og afstætt. Þannig hljóti það eðli máls samkvæmt að falla undir hugtakið góða innheimtuhætti að gera skuldara grein fyrir því hvaða afleiðingar það hafi fyrir hann ef krafa er ekki greidd í frum- eða milliinnheimtu, þ.e. að slíkt geti leitt til frekari innheimtuaðgerða og aukins kostnaðar fyrir hann. Sumir skuldarar kynnu hins vegar að skilja slíkar leiðbeiningar sem hótanir í þeirra garð, þ.e. sem hótun um frekari aðgerðir ef ekki verður orðið við áskorun um greiðslu kröfu. 


7. gr.

Eitt af meginatriðum frumvarpsins er ákvæði 7. gr. um skyldubundna innheimtuviðvörun eftir gjalddaga kröfu. Þar er verið að setja að skilyrði fyrir frekari innheimtuaðgerðum að slík viðvörun hafi verið gefin út og að kostnaður við þessa viðvörun gagnvart skuldaranum geti aðeins verið að tilteknu hámarki sem á að fastsetja samkvæmt gjaldskrá ráðherra samkvæmt 11-12 gr. frumvarpsins.

Þegar lesin er athugasemd með grein þessari þá fyrst skýrist hún því með greininni er verið að leggja þá skyldu á kröfueiganda/innheimtuaðila að hann gefi skuldara kost á greiðslu kröf­unnar með lágmarkskostnaði í 10 daga eftir gjalddaga. Þetta er jákvætt að mati laganefndar. Síðan segir orðrétt í athugasemdunum um greinina:  .....„ Þótt skylt sé að senda eina viðvörun er heimilt að senda fleiri viðvaranir enda sé ekki með því brotið í bága við góða innheimtu­hætti. Viðbótarviðvaranir geta verið kostnaðarsamari fyrir skuldara þar eð lágmarkskostn­aður á grundvelli innheimtulaga miðast við greiðslu innan frests samkvæmt skylduviðvörun.”

Laganefnd telur nauðsynlegt að það komi skýrar fram í lögunum sjálfum að gjald­skráin og hámark kostnaðar vegna innheimtuaðvörunar eigi aðeins við um skyldu­viðvörun, en aðrar aðvaranir og innheimtubréf falli utan hámarksins. Það geti sam­kvæmt því leitt til frekari kostnaðar fyrir skuldara ef hann greiðir ekki innan tilskilins frests, þ.e. ef til þurfa að koma frekari aðvaranir eða innheimtubréf, svo ekki sé minnst á aðrar aðgerðir.

8. gr.

Laganefnd telur til bóta að taka af skarið varðandi umboð innheimtuaðila til að koma fram fyrir hönd kröfuhafa, taka við greiðslu fyrir hans hönd o.s.frv.

Laganefnd bendir jafnframt á að ekki hafi í öllum tilvikum tíðkast að gera skriflega samninga um greiðslu, sem aðilum er gert að undirrita. Þess í stað hefur í mörgum tilvikum verið látið nægja að vitna til munnlegra samninga, sem gerðir hafa verið, með athugasemd í tölvukerfi innheimtuaðila. Slíkur samningur hefur ennfremur verið staðfestur eftir á, þ.e. með greiðslu í samræmi við samninginn. Ákvæði 8. gr. felur í sér breytingu frá þessu. Laganefnd sér ekki að þörf hafi verið á því að breyta fyrra fyrirkomulagi, enda verður ekki séð að það hafi reynst illa. Eðlilegt er að þetta ráðist af aðstæðum hverju sinni, þ.m.t. aðstæðum skuldarans sjálfs.

9.-10. gr.

Réttarsamband kröfuhafa og innheimtuaðila byggir á samningssambandi þeirra á milli. Mikilvægt er að mati laganefndar að meginregla samningaréttarins um samn­ingsfrelsi gildi um þann samning og er þess gætt í frumvarpinu með ákvæði 2. gr. þess. Laganefnd fagnar því einnig að sett verði lög um meðferð innheimtuaðila á fjármunum kröfuhafa, enda er slíkt til þess fallið að tryggja jafnræði innheimtuaðila og draga úr líkum á því að innheimtuaðilar fari með fé kröfuhafa á ótilhlýðilegan hátt.

11.-12. gr.

Ákvæði 11. gr. frumvarpsins er ætlað að tryggja að skuldari greiði aldrei meira en hámarkskostnað samkvæmt 12. gr. ef hann greiðir innan þess frests sem honum hefur verið veittur samkvæmt 7. gr. frumvarpsins. Þótt þessi grein virðist við fyrstu sýn til þess fallin að bæta hag skuldara er ekki víst að svo sé þegar betur er að gáð.  Með 12. gr. frumvarpsins er í reynd mælt fyrir um opinbera verðlagningu á tiltekinni þjónustu, sem veitt er af innheimtuaðilum, þ.e. gjald fyrir þá þjónustu má ekki fara yfir ákveðna krónutölu sem ráðherra ákveður með reglugerð. Í dag ríkir samkeppni meðal inn­heimtuaðila á þessu sviði. Verði frumvarpið að lögum er hætt við að gjald innheimtu­aðila vegna innheimtuviðvörunar verði fastbundið við það hámark sem ákveðið verður af ráðherra, en slíkt gæti vissulega, a.m.k. í einhverjum tilvikum, leitt til hækk­unar á innheimtukostnaði skuldara frá því sem nú er.

Ákvæði 11. og 12. gr. frumvarpsins stríða gegn ákvæðum og anda samkeppnislaga nr. 44/2005, en þau lög eru byggð á þeim grundvallarsjónarmiðum að virk samkeppni þjóni hagsmunum neytenda best. Í því efni má jafnframt vitna til úrskurðar áfrýjun­arnefndar samkeppnismála í máli nr. 16/1997, Lögmannafélag Íslands gegn sam­keppnisráði, þar sem hafnað var beiðni LMFÍ um undanþágu frá ákvæðum sam­keppnislaga til að gefa út leiðbeinandi gjaldskrá fyrir lögmenn. Röksemd frumvarps­höfunda um að lögbundin hámarksþóknun feli í sér réttarbætur fyrir neytendur felur samkvæmt þessu í sér ákveðna mótsögn gagnvart ákvæðum samkeppnislaga og þeim forsendum sem að baki þeim lögum búa.

Laganefnd gerir einnig athugasemd við orðalag 12. gr. frumvarpsins sem er of opið og ónákvæmt að mati nefndarinnar. Skýring orða eins og „nauðsynlegur" og „hóflegur" er afstæð og til þess fallin að valda deilum. Laganefnd telur jafnframt að skýra þurfi nánar gildissvið greinarinnar, svo og það hvert skuli vera efni reglugerðar ráðherra. Þannig ætti t.a.m. að taka af öll tvímæli um að efni reglugerðar ráðherra geti aðeins varðað kostnað á frum- og milliinnheimtustigi, en ekki kostnað á löginnheimtustigi. Að mati laganefndar LMFÍ er hér um afar þýðingarmikið atriði að ræða, sem nauð­synlegt er að bæta úr, áður en frumvarpið verður að lögum.

13. gr.

Ekki eru gerðar athugasemdir við efni þessarar greinar.

14. gr.

Laganefnd fagnar því að innheimtuaðilum skuli gert að afla sér starfsábyrgðar­tryggingar, enda er slíkt til þess fallið að jafna innbyrðis aðstöðu innheimtuaðila og fyrirbyggja tjón. Laganefnd er einnig sammála því að rétt sé að undanþiggja lögmenn þessari skyldu enda er lögmönnum skylt að afla sér starfsábyrgðartryggingar vegna annarra starfa sinna. Nauðsynlegt er þó að taka á þeirri aðstöðu er lögmenn reka saman innheimtufyrirtæki í formi félags, eftir atvikum í samráði við aðra sem ekki hafa lögmannsréttindi, sbr. það sem áður er sagt um það atriði.

15. gr.

Laganefnd undirstrikar mikilvægi þess að leyfisgjald samkvæmt 4. mgr. þessarar greinar verði hóflegt. Verði gengið of nærri innheimtuaðilum í því sambandi, á sama tíma og þeim eru takmörk sett við gjaldtöku samkvæmt 12. gr. frumvarpsins, kann það að koma niður á vinnubrögðum við innheimtuna. Slík niðurstaða væri neytendum síður en svo í hag. Laganefnd telur einnig að rök standi til þess að lögmenn verði undanskyldir greiðslu leyfisgjalds til Fjármálaeftirlitsins, hvort heldur sem er vegna frum- og milliinnheimtu eða löginnheimtu, enda greiða lögmenn nú þegar félagsgjöld til Lögmannafélags Íslands, sem þeim er skylt að vera aðilar að samkvæmt lögum.

Það er þýðingarmikil regla að mati laganefndar, að lögmenn sæti einungis eftirliti úrskurðarnefndar lögmanna, en ekki jafnframt eftirlitsvaldi Fjármálaeftirlitsins, sbr. 7. og 8. mgr. 15. gr. frumvarpsins.

16. gr.

Í greininni er mælt fyrir um að Fjármálaeftirlitið geti svipt leyfishafa innheimtuleyfi samkvæmt 4. gr. frumvarpsins að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Laganefnd telur brýnt að taka það skýrt fram að hér sé einungis vitnað til þeirra leyfishafa sem hlotið hafa leyfi fyrir tilstilli Fjármálaeftirlitsins, en ekki aðila sem undanþegnir eru innheimtuleyfi samkvæmt 2. mgr. 3. gr.

17. gr.

Ekki eru gerðar athugasemdir við efni þessarar greinar að öðru leyti en því að athygli er vakin á því að fyrir Alþingi liggur frumvarp til nýrra laga um meðferð sakamála, þar sem lagt er til að hugtakið opinber mál verði lagt af og þess í stað tekið upp hugtakið sakamál.

18. gr.

Ekki eru gerðar athugasemdir við efni þessarar greinar.

19. gr.

Ákvæði 19. gr. er illskiljanlegt að mati laganefndar. Þar segir að lögin öðlist þegar gildi og að þeim skuli í síðasta lagi beitt um innheimtustarfsemi frá 1. nóvember 2008. Orðalagið er nánar skýrt í athugasemdum þar sem fram kemur að rétt þyki að veita aðlögun m.a. vegna tæknilegra aðstæðna. Þessi tilhögun brýtur í bága við þá venju sem tíðkast hefur, þ.e. að þegar lög öðlast gildi við birtingu þeirra verði lögunum al­mennt beitt um öll tilvik er upp koma eftir gildistökuna. Sá háttur sem lagður er til í frumvarpinu er ekki heppilegur að mati laganefndar, enda verður ekki ljóst hvort lögin gildi um atvik sem upp kunna að koma fyrir 1. nóvember 2008 eða ekki. Heppilegra væri að fresta gildistöku laganna í heild sinni til 1. nóvember 2008. Þannig mætti taka af allan vafa í þessu efni.

Af þeim ástæðum sem að framan eru raktar leggst laganefnd LMFÍ gegn því að frumvarpið verði óbreytt að lögum.

Virðingarfyllst,

f.h. Laganefndar Lögmannafélags Íslands

___________________________________

Jóhannes Rúnar Jóhannsson, hrl., formaður.