Lög félags sáttalögmanna

 

Lög Félags sáttalögmanna

  1. gr.

Félagið heitir Félag sáttalögmanna, skammstafað FSL. Það er hagsmunafélag lögmanna sem hafa sérhæft sig í sáttamiðlun (mediation, ADR - alternative dispute resolution, mækling).  Lögheimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

Félagið mun sækja um aðild að félagsdeild Lögmannafélags Íslands.

2.   gr.

Sáttamiðlun er valkostur við úrlausn ágreiningsmála milli einstaklinga, eins eða fleiri, milli einstaklinga og fyrirtækja eða milli fyrirtækja, sem fram fer að frumkvæði deiluaðila. Sáttamaður er óhlutdrægur þriðji maður, sem veitir aðilum aðstoð við að leysa ágreiningsmál. Aðilar deilu bera sjálfir ábyrgð á niðurstöðum sáttamiðlunar, þegar samningar takast.  Þeir taka þátt í sáttamiðlun af fúsum og frjálsum vilja.  Geta aðilar sem og sáttamaður hætt þátttöku ef þeir telja ekki grundvöll fyrir því að halda sáttamiðlun áfram.

 

3. gr.

Félagsaðild

Félagsmenn eru lögmenn, sem lokið hafa námi í sáttamiðlun sem Sátt félag um sáttamiðlun hefur viðurkennt til starfa sem sáttamenn vegna ágreinings sem uppi er á milli aðila  áður eða eftir að sá ágreiningur er komin til meðferðar fyrir dómstólum, stjórnvöldum eða á öðrum vettvangi.

Félagsmenn  fylgja  siðareglum Sáttar félags um sáttamiðlun m.a. um trúnaðarskyldu sáttamanna og  aðila um allt sem fram fer í tengslum við sáttamiðlunina.

4. gr.

Tilgangur

Tilgangur félagsins er að vera sameiginlegur vettvangur þeirra sem vilja vinna við sáttamiðlun og afla sér menntunar á því sviði.

Félagið skal m.a.:

  • stuðla að því að sáttamiðlun verði viðurkenndur valkostur á við aðrar leiðir til að leysa ágreining í samfélaginu.
  • vera vettvangur endurmenntunar, fræðslu og upplýsinga um sáttamiðlun fyrir félaga og aðra sem áhuga hafa á viðfangsefninu
  • mynda tengsl við sambærileg félög í öðrum löndum.
  • vinna að framgangi sáttamiðlunar eftir því sem stjórn félagsins ákveður hverju sinni í náinni samvinnu við Sátt félag um sáttmiðlun.  

5. gr.

Stjórn

Stjórn félagsins skal kosin á aðalfundi félagsins til tveggja ára í senn. Stjórnina skipa þrír félagsmenn og tveir í varastjórn.

Formaður skal kosinn sérstakri kosningu, en aðrir stjórnarmenn skulu skipta með sér verkum. Þá skal á aðalfundi kosinn einn skoðunarmaður.

Stjórnarfundi skal halda eigi sjaldnar en tvisvar á ári.

6. gr.

Aðalfundur o.fl.

Aðalfundur skal haldinn fyrir lok marsmánaðar ár hvert og fer hann með æðsta vald í málefnum félagsins. Á aðalfundi skal fjallað um skýrslu stjórnar, fjárhagsmál félagsins, lagabreytingar og önnur mál löglega upp borin og ákveða  árgjöld félagsmanna. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum um önnur mál en breytingu á samþykktum félagsins, sem verður því aðeins gild að hún hljóti samþykki minnst 2/3 hluta greiddra atkvæða. Tillögur um lagabreytingar skulu berast stjórn félagsins minnst mánuði fyrir aðalfund og skulu þær kynntar félagsmönnum bréflega eða með netpósti verði því viðkomið.

Boða skal til aðalfundar bréflega með dagskrá eða með netpósti með tveggja vikna fyrirvara.  Lagabreytingatillögur fylgi fundarboði.

Félagsmenn sem ekki hafa greitt félagsgjöld hafa ekki kosningarétt á aðalfundi félagsins.

Reikningsár félagsins er almanaksárið.

Til annarra félagsfunda skal boða eftir því sem tilefni þykir til eða að kröfu minnst fjórðungs félagsmanna.

7. gr.

Stjórn félagsins setur reglur um kjör heiðursfélaga.  Val heiðurfélaga skal staðfest á félagsfundi.

8. gr.

Heimilt er að krefja utanfélagsmenn og þá félaga sem ekki hafa greitt félagsgjöld um hærri þátttökugjöld á ráðstefnur, námskeið og aðra dagskrá á vegum félagsins en félagsmenn.

Félagsmenn sem ekki hafa greitt félagsgjöld í tvö ár samfleytt falla af félagaskrá að undangenginni tilkynningu.

 

9. gr.

Lög þessi öðlast gildi á stofnfundi félagsins sem boðað hefur verið til með lögmætum hætti.

10.gr.

Verði uppi óskir um að leggja félagið niður, þarf sú tillaga samþykki 2/3 atkvæðisbærra fundarmanna á tveimur aðalfundum, og skal á þeim fundum taka ákvörðun um ráðstöfun á eignum félagsins. Félagsmenn eiga ekki tilkall til eigna félagsins.  Skulu þær renna í félagsdeild LMFÍ

-------------

Lög Félags sáttalögmanna, voru samþykkt á stofnfundi 17. október 2007.

Breyting á lögum félagsins voru samþykkt á fundi 16. janúar 2008.