Mál 1 2006

Ár 2006, föstudaginn 30. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

 Fyrir var tekið mál nr. 1/2006:

 A

gegn

B, hrl.

 og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

 Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 3. janúar 2006 frá A, kæranda, þar sem kvartað var yfir framkomu B, hrl., kærða, í bréfaskrifum er tengdust tilteknu slysamáli.

 Kærði sendi nefndinni greinargerð um erindi kæranda þann 6. febrúar 2006. Kærandi tjáði sig um greinargerðina í bréfi, dags. 22. febrúar 2006. Kærði tjáði sig frekar um málið í bréfi, dags. 18. apríl 2006 en kærandi gerði nokkrar athugasemdir við það í bréfi, dags. 11. maí 2006.

 Málsatvik og málsástæður

  I.

Kærandi kveðst vera sjálfstætt starfandi læknisfræðilegur ráðgjafi og að eitt af verkefnum sínum sé læknisfræðileg ráðgjöf fyrir C hf. þar sem hann aðstoði við túlkun og eftir atvikum öflun læknisfræðilegra gagna, skoði einstaklinga við mat á endurhæfingarþörf og taki eftir atvikum þátt í örorkumötum.

 Kærandi kveðst telja framkomu kærða í nánar tilgreindum bréfaskriftum ekki vera í samræmi við góða lögmannshætti og ekki í samræmi við anda siðareglna Lögmannafélags Íslands. Kveðst hann telja þessa framkomu jafnvel fela í sér brot á 2. gr. og/eða 34. gr. siðareglnanna.

 Með erindi kæranda fylgir afrit tveggja bréfa kærða, sem lutu að sama slysamálinu. Annað bréfið var ritað til læknis á tiltekinni heilsugæslustöð í Reykjavík en hitt til starfsmanns í tjónadeild C hf. Í afritum bréfanna hefur verið merkt við nokkrar setningar eða setningarhluta með undirstrikunum.

 Fyrra bréfið er svohljóðandi, með undirstrikunum:

 Þannig er mál með vexti að gerð hefur verið krafa á hendur C hf. tryggingafélagi þess bíls sem ók aftan á T. Fyrir liggur mat óháðra aðila um miska T og örorku vegna slyssins. Þá liggja fyrir tvö vottorð frá yður og annað um fyrra heilsufar, en vottorð þessi eru meðfylgjandi bréfi þessu.

  Félagið biður sem sagt enn þá um upplýsingar um fyrra heilsufar og hvort T hafi hlotið áverka áður en slysið varð á mjóhrygg.

  Þrátt fyrir að undirritaður telur að um sé að ræða algeran fyrirslátt sprottin af sjónarmiðum A læknis, sem undirritaður hefur gagnrýnt vegna starfa fyrir tryggingafélögin, er þess beiðst að sjúkraskrá T eins langt aftur í tímann og hún nær verði send undirrituðum, ásamt frekara vottorð yðar þar um.

  Lagt er bann við því að A geti valsað í sjúkraskrám umbjóðanda míns.

 Síðara bréfið er svohljóðandi:

 Ég bið afsökunar á, að ég áttaði mig ekki alveg á málaleitan þinni í gær, en þegar ég sá að hún var á þá leið, að A hefði sjálfdæmi um það að afla upplýsinga um umbjóðanda minn þá gat ég ekki fellt mig við það og sendi þér afrit af bréfi til heimilislæknisins af því ég náði ekki í þig.

  Það hefur hins vegar alltaf verið svo að dómkvaddir matsmenn hafa fengið slíka heimild frá undirrituðum vegna matsstarfa og einnig sérfræðingar sem beðnir eru um mat, svo sem M og N.

  Ég get ekki séð hvað því er í vegi að ég afli sjúkraskrárinnar sjálfur, en hún getur ekki litið öðru vísi út þó ég afli hennar.

  Þá er það ekki rétt að í matinu liggi ekki fyrir upplýsingar um fyrir (sic) sjúkrasögu varðandi bakvandamál, því þannig er það nú ef matið er lesið og öll læknisvottorð.

  Það er mín skoðun að trúnaðarlæknar tryggingafélaga eigi ekki að afla sjálfstæðra upplýsinga. Þeir meta að sjálfsögðu þær upplýsingar sem fyrirliggja og síðan er hægt að biðja um yfirmat, þannig á framkvæmdin að vera.

 Kærandi óskar eftir áliti úrskurðarnefndar lögmanna á því hvort ummæli og orðbragð, sem viðhöfð eru í bréfunum, séu kærða eða stétt hans sæmandi og hvort ekki sé um að ræða árás á sig sem lækni, til þess fólgin að grafa undan trúverðugleika sínum og þar með atvinnuöryggi. Þannig láti kærði skoðun sína í ljós, ekki aðeins hjá hinu tilgreinda tryggingafélagi, heldur einnig hjá lækni úti í bæ. Fer kærandi fram á að erindið verði tekið til skoðunar og umræðu og ábendingum komið á framfæri við kærða vegna þessa, í von um að það megi verða til þess að „árásum“ á sig og aðra lækna í svipaðri stöðu linni.

 II.

Kærði kveður bréf sín eingöngu hafa verið lið í hagsmunagæslu fyrir umbjóðanda sinn. Tryggingafélagið hafi talið nauðsynlegt að fá sjúkraskrá umbjóðanda síns aftur í tímann og kveðst kærði hafa skilið skilaboð svo, að kærandi aflaði skrárinnar á grundvelli umboðs umbjóðanda síns til tryggingafélagsins.

 Kærði kveður það hafa verið sitt mat að það væru ekki rétt vinnubrögð að tryggingafélagið eða læknir þess öfluðu þessara gagna og afstaða til bótakröfu yrði síðan tekin á grundvelli þeirra. Þannig væri málið úr sínum höndum, sem vitaskuld gæti ekki gengið.

 Kærði kveðst hafa, á þessu stigi málsins, talið rétt að afla þessara gagna, sem hann og hefði gert og síðan sent tryggingafélaginu, þ.e. sjúkraskrá og nýtt læknisvottorð sem tekið hafi af allan vafa um ætlaðan grun kæranda.

 Kærði telur sig ekki hafa brotið gegn tilvitnuðum ákvæðum siðareglna lögmanna heldur hafi hann þvert á móti gætt hagsmuna umbjóðanda síns með eðlilegum hætti og reynt að stuðla að því að kærandi kæmist ekki í þessi gögn.

 Kærði vísar, máli sínu til stuðnings, til álits Persónuverndar í tilteknu máli, um að staðlað umboð tjónþola á tjónstilkynningum dugi ekki til að læknar tryggingafélaga geti gengið í gögn um hlutaðeigandi tjónþola. Telur kærði ljóst vera að það sem kærandi hafi verið að gera hafi ekki verið löglegt.

 Niðurstaða

 Samkvæmt 18. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Um skyldur lögmanna gagnvart umbjóðendum sínum eru nánari fyrirmæli í siðareglum lögmanna, einkum 2. kafla þeirra. Í reglunum er jafnframt kveðið á um ýmsar meginreglur er gilda um störf og háttsemi lögmanna, svo og um skyldur þeirra gagnvart öðrum lögmönnum, dómstólum og stjórnvöldum, gagnaðilum umbjóðenda sinna o.s.frv.

 Samkvæmt gögnum málsins virðist ríkja ágreiningur milli kærða annars vegar og kæranda og tryggingafélagsins Sjóvár hf. hins vegar um aðferðir við gagnaöflun í slysamálum og hvaða hlutverki aðilar gegna í því sambandi. Kærði metur það svo að það sé hlutverk sitt sem lögmanns tiltekins tjónþola að afla þeirra gagna sem þarf til þess að móta kröfugerð og koma henni á framfæri við tryggingafélag. Kærði hefur viðrað þessa skoðun sína í bréfaskriftum sem liggja frammi í málinu.

 Úrskurðarnefnd telur það ekki vera hlutverk sitt að meina lögmönnum að hafa skoðun um ágreiningsatriði af því tagi sem hér er fjallað um, og að kynna þær skoðanir sínar, að því gættu að neytt sé lögmætra úrræða og að ekki sé vegið að hagsmunum umbjóðenda þeirra eða þeim stofnað í hættu. Jafnframt er þeim skylt í þessu sambandi að sýna m.a. gagnaðilum umbjóðenda sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum umbjóðendanna, sbr. 34. gr. siðareglna lögmanna.

 Að virtum þeim skrifum kærða, sem voru kæranda tilefni erindis þessa, er það mat nefndarinnar að í þeim felist hvorki brot á 34. gr. né 2. gr. siðareglna lögmanna. Samkvæmt þessu hefur kærði, í störfum sínum í hinu tilgreinda slysamáli, ekki gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 Kærði, B, hrl., hefur í störfum sínum í slysamáli ekki gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA