Mál 29 2006

Ár 2007, mánudaginn 29. janúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

 Fyrir var tekið mál nr. 29/2006:

  C

gegn

D, hrl.

 og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

 Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 5. desember 2006 frá C, kæranda, þar sem kvartað var yfir vinnubrögðum á lögmannsstofu C, hrl., kærða. Kærði tjáði sig um erindið í bréfi, dags. 19. desember 2006, þar sem hann krafðist frávísunar þess vegna fyrningar. Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um frávísunarkröfuna og gerði hann það í bréfi til nefndarinnar, dags. 2. janúar 2007.

 Málsatvik og málsástæður.

I.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að í máli, sem var höfðað þann 17. október 2003 og rekið fyrir Héraðsdómi F, freistaði kærandi ásamt nokkrum öðrum mönnum að ná fram leiðréttingu kjara sinna hjá útgerðarfélagi, sem þeir störfuðu hjá sem sjómenn, vegna meintrar rangrar vigtunar afla. Lögmaður á lögmannsstofu kærða rak málið fyrir héraðsdómi. Með dómi, uppkveðnum 7. júlí 2004, var útgerðarfélagið sýknað af kröfum skipverjanna. Að fengnu áfrýjunarleyfi áfrýjaði kærði málinu fyrir skipverjana til Hæstaréttar Íslands með stefnu, útgefinni 17. desember 2004, og skyldi málið þingfest 2. febrúar 2005. Málið var ekki þingfest og var það því fellt niður með bréfi Hæstaréttar Íslands til kærða, dags. 14. febrúar 2005.

 Þann 22. apríl 2005 ritaði kærandi bréf til formanns Z-félags Íslands þar sem hann m.a. gagnrýndi ákvörðun félagsins um að fella málið niður. Í bréfinu var m.a. lýst yfir fullri ábyrgð félagsins á óábyrgri og heimildarlausri ákvörðun, sem tekin hafi verið án þess að kæranda eða öðrum málsaðilum hafi verið gefið tækifæri til að taka við málinu. Í niðurlagi bréfsins bauð kærandi Z-félaginu lokalausn á málinu er fólst í tiltekinni greiðslu til sín og annars nafngreinds manns.

 Kærandi ritaði Hæstarétti Íslands bréf þann 16. mars 2006 og óskaði upplýsinga um hvort dómi Héraðsdóms F hefði verið áfrýjað til réttarins. Í bréfi Hæstaréttar til hans, dags. 17. mars 2006, var upplýst um upphaflega áfrýjun málsins, þingfestingardag og það, að málið hefði ekki verið þingfest þann 2. febrúar 2005 og það því fellt niður með bréfi réttarins þann 14. febrúar 2005.

 II.

Í erindi sínu til úrskurðarnefndar lögmanna setur kærandi fram eftirfarandi kröfur:

 a) að kærði taki fulla ábyrgð á meðferð málsins;

b) að kærði greiði málsaðilum dómsmálsins upphaflegar kröfur þeirra, sem áfrýjað var til Hæstaréttar, ásamt dráttarvöxtum;

c) að kæranda sjálfum verði greiddar sérstakar skaðabætur að fjárhæð 1.350.000 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 14. febrúar 2005, þegar hæstaréttarmálið var fellt niður, vegna þeirrar vinnu og kostnaðar sem hann hefði haft af málinu í þau ár sem það stóð yfir.

 Kærandi bendir á að dómsmálið hafi ekki verið þingfest í Hæstarétti þann 2. febrúar 2005 og að rétturinn hafi fellt málið niður 14. febrúar s.á., án þess að málsaðilum hafi verið gefinn kostur á að taka við því. Þar með hafi þeir orðið fyrir réttarspjöllum. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til 12. gr. siðareglna lögmanna, þar sem kveðið er á um að lögmaður geti sagt sig frá verki á öllum stigum, en að veita verði skjólstæðingi svigrúm til að afstýra réttarspjöllum og ráða sér annan lögmann.

  III.

Í bréfi kærða til nefndarinnar er vísað til 6. gr. reglna um málsmeðferð fyrir nefndinni, þar sem kveðið er á um að erindi til nefndarinnar verði að berast henni eigi síðar en einu ári frá því kostur var á að koma því á framfæri við nefndina, að öðrum kosti vísi nefndin því frá sér. Kærði kveður kæranda hafa átt þess kost að vísa kvörtunarefninu til nefndarinnar, eftir að mál það, sem hann vísi til, var fellt niður í Hæstarétti Íslands þann 14. mars 2005. Vísar kærði í því sambandi til bréfs kæranda til formanns Z-félags Íslands þann 22. apríl 2005. Þetta hafi kærandi ekki gert og því beri nefndinni, þegar af þeirri ástæðu, að vísa erindinu frá sér, þar sem erindi kæranda barst nefndinni ekki innan áskilins frests. Af þessari ástæðu telur kærði ekki ástæðu til að fjalla efnislega um kvörtunina.

 V.

Með bréfi úrskurðarnefndar til kæranda, dags. 27. desember 2006, var honum gefinn kostur á að tjá sig um frávísunarkröfu kærða. Var þess getið í bréfinu hvaða reglur giltu um meðferð mála hjá nefndinni að þessu leyti.

 Kærandi tjáði sig um frávísunarkröfuna í bréfi til nefndarinnar, dags. 2. janúar 2007. Hann vísar til bréfs síns til formanns Z-félags Íslands þann 22. apríl 2005 og kveðst hafa viljað gefa félaginu og lögmönnum þess tækifæri áður en lengra yrði haldið til þess að ljúka málinu sómasamlega. Hann kveðst hafa beðið allt árið 2005 og fram eftir árinu 2006, en bréfinu hefði aldrei verið svarað.

 Kærandi kveður formann Z-félagsins hafa hringt í sig í byrjun mars 2006 til þess að ræða einhverja atkvæðagreiðslu. Kærandi kveðst hafa minnt formanninn á bréf sitt frá 22. apríl 2005 en formaðurinn hefði ekki kannast við það. Kærandi kveðst hafa ritað Hæstarétti bréf og fengið svar þann 17. mars 2006, þar sem fram hefði komið hver staða málsins væri. Kærandi kveðst telja að samkvæmt siðareglum lögmanna hefði kærða borið skylda til þess að upplýsa sig um réttarspjöllin.

 Kærandi kveðst fara fram á að dagsetningin 17. mars 2006 verði látin ráða um lúkningu málsins, þar sem hann hefði verið búinn að leita allra leiða og sæi engan annan kost en þann að kvarta til nefndarinnar. Kærandi kveður bið sína eftir svari við bréfi sínu þann 22. apríl 2005 vera ástæðuna fyrir þeim drætti að hann sendi kvörtunina til nefndarinnar.

 Niðurstaða.

I.

Úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt ákvæðum lögmannalaga, nr. 77/1998. Um valdsvið nefndarinnar er nánar kveðið í 4. kafla laganna. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laganna getur sá sem telur lögmann hafa í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi, sem stríði gegn lögum eða siðareglum Lögmannafélags Íslands, lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri, sbr. 2. málsliður 1. mgr. 27. greinar.

 Samkvæmt 2. mg. 27. gr. lögmannalaga getur nefndin fundið að vinnubrögðum eða háttsemi lögmanns eða veitt honum áminningu. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin brugðist svo við sem um ræðir í 1. mgr. 14. gr. laganna, þ.e. í rökstuddu áliti lagt til við dómsmálaráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum ef sakir eru miklar.

 II.

Kröfur kæranda, um að kærða verði gert að greiða annars vegar málsaðilum tiltekna fjárhæð og hins vegar kæranda sérstakar skaðabætur, falla ekki undir valdsvið úrskurðarnefndar samkvæmt lögmannalögum. Er þessum kröfuliðum því vísað frá nefndinni.

 III.

Í fyrrgreindu bréfi kæranda til formanns Z-félags Íslands er m.a. vísað til frásagnar lögmanns þess á lögmannsstofu kærða, sem flutti mál kæranda og félaga hans í héraðsdómi, um að Z-félagið hefði fellt málið niður vegna þess að það svaraði ekki kostnaði að sækja það lengra. Þessi frásögn ásamt öðru, sem fram kemur í bréfinu, ber skýrt með sér að kæranda var þá kunnugt um að málið væri ekki fyrir dómi þar sem það hefði verið fellt niður. Bréfinu er beint til Z-félagsins og félaginu er gefinn kostur á að ljúka málinu með tilteknum greiðslum til kæranda og eins af félögum hans í málarekstrinum. Engar sérstakar kröfur eru gerðar á hendur kærða og er hans þáttar í málinu ekki getið sérstaklega.

 Lögmenn á lögmannsstofu kærða ráku málið fyrir kæranda og félaga hans fyrir héraðsdómi og áfrýjuðu dóminum til Hæstaréttar. Gögn málsins bera með sér að þann 22. apríl 2005 var kæranda kunnugt um að hæstaréttarmálið hefði verið fellt niður. Úrskurðarnefnd lögmanna telur að hafi kærandi talið kærða hafa átt þátt í þeirri ákvörðun og viljað kvarta til nefndarinnar vegna þessa, hafi honum borið að senda nefndinni kvörtun sína ekki síðar en innan árs frá dagsetningu bréfsins. Það var ekki gert og ber því þegar af þeirri ástæðu að vísa málinu frá nefndinni, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga nr. 77/1998.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Erindi kæranda, C, á hendur kærða, D, hrl., er vísað frá.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA