Mál 12 2007

Ár 2009, mánudaginn 23. mars, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið mál nr. 12/2007:

 

B og

H

gegn

A, hdl.

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 27. júlí 2007 frá B og H, kærendum, þar sem kvartað var yfir seinagangi í vinnubrögðum A, hdl., kærða, í máli sem hann tók að sér að reka gegn meðeigendum kærenda í fjöleignarhúsi. Kærði tjáði sig um erindið í tölvupósti 10. mars 2008, all nokkru eftir að frestur til þess rann út. Kærendur hafa tjáð sig frekar um málið, en engar frekari athugasemdir bárust frá kærða þótt honum hafi verið gefinn kostur á þeim.

Málsatvik og málsástæður.

 

I.

Samkvæmt lýsingu kærenda eru málsatvik í stuttu máli þessi:

Kærendur, sem bjuggu á efri hæð í tvíbýlishúsi á E, leituðu til kærða um miðjan nóvember 2005 vegna deilu sem kom upp milli þeirra og eigenda íbúðarinnar á neðri hæðinni um endurnýjun, staðsetningu og lagningu skólplagna fyrir húsið. Húsfundur var haldinn í byrjun desember 2005 þar sem málið var rætt, án þess að aðilar næðu samkomulagi um ágreining sinn. Kærði var viðstaddur fundinn. Kærendur fólu kærða að leita réttar síns fyrir dómi og fóru fram á það að hann sækti um heimild til flýtimeðferðar málsins. Þau kveðast hafa fengið þær upplýsingar hjá kærða að heimildin til flýtimeðferðar hefði fengist og að málið yrði tekið fyrir í maí 2006. Kærendur kveða erfitt hafa verið að ná sambandi við kærða á þessum tíma og að hann hafi aldrei haft frumkvæði að því að vera í sambandi við þau.

Kærendur kveðast hafa selt íbúð sína í tvíbýlishúsinu í júlí 2006. Hluti kaupverðsins, 500 þúsund krónur, átti að greiðast þegar héraðsdómsmálinu lyki. Þegar ekkert heyrðist frá kærða um niðurstöðu málsins kveðast kærendur hafa leitað upplýsinga hjá Héraðsdómi B um málið. Þar hafi þeim verið tjáð að málið hefði aldrei verið þingfest og að aldrei hefði verið sótt um flýtimeðferð þess. Að fengnum þessum upplýsingum kveðast kærendur hafa haft samband við Lögmannafélag Íslands og þegið þar ráð um hvað gera skyldi. Þau kveðast hafa sent kærða símskeyti, móttekið af kærða þann 1. nóvember 2006, þar sem honum var gefinn lokafrestur, 10 dagar, til þess að útskýra málið fyrir þeim og ljúka því starfi sem hann tók að sér fyrir þau. Að öðrum kosti yrði hann kærður til úrskurðarnefndar lögmanna. Kærendur kveða kærða hafa svarað sér í tölvupósti nokkrum dögum síðar. Þar hafi komið fram að nágrannanum í tvíbýlishúsinu hafi verið stefnt. Sá hafi haft samband við kærða og beðist vægðar og viljað semja um málið. Málið hefði því ekki verið þingfest heldur hafi ætlunin verið sú að ljúka málinu með réttarsátt. Efnisatriði sáttarinnar hefðu verið rakin í tölvupósti kærða. Kærendur kveðast hafa endursent bréfið með árituðum athugasemdum sínum og hugmyndum um breytingar.

Kærendur telja kærða hafa sýnt af sér afglöp í starfi, vanefnd skyldur sínar og viðhaft ósannsögli.

II.

Kærði kveðst hafa reynt að fá gagnaðila til þess að fallast á kröfur kærenda, en án árangurs. Hafi þá verið gefin út og birt stefna í málinu sem þingfesta skyldi 7. nóvember 2005 (sic). Í framhaldinu hafi stefndu haft samband við sig rétt fyrir þingfestingu málsins og verið þá reiðubúin til þess að gefa eftir, þ.e. að fallast á kröfur kærenda. Kveðst kærði hafa ákveðið að falla frá þingfestingu málsins og ganga frá sátt milli aðila. Kærði kveðst, í samráði við kærendur, hafa ætlað að móta með gagnaðilum hvað þau væru tilbúin að undirrita. Þau drög sem út úr þessu hafi komið hafi ekki verið ásættanleg fyrir kærendur. Þau hafi þá sett á blað hugmyndir af sinni hálfu og sent kærða. Þar hafi verið gengið heldur lengra en áður hafi verið rætt um og hafi þær hugmyndir því ekki gengið heldur. Í framhaldinu hafi komist á samkomulag, sem þó hefði ekki verið undirritað.

Kærði kveður það, sem helst hafi borið á milli, hafa verið lögfræðikostnað í málinu. Kærendur hafi talið sig geta fengið kostnaðinn bættan frá sínu tryggingarfélagi og ætlað að senda sér upplýsingar þar að lútandi. Þær upplýsingar hafi hins vegar aldrei borist. Kærði kveðst hafa rætt þann möguleika að þingfesta málið, leggja þar fram réttarsáttina og láta dómara úrskurða um kostnaðinn. Kærði kveður málið hafa stoppað á þessu stigi. Hann hafi aldrei fengið sáttina undirritaða frá kærendum. Hins vegar hafi legið skýrt fyrir að gagnaðilar samþykktu áformaðar framkvæmdir kærenda. Kveðst kærði hafa talið hagsmunum kærenda borgið og kveðst hann ekki hafa heyrt að nein vandamál hafi fylgt framkvæmdunum. Eftir hefði staðið lögfræðikostnaðurinn. Þar sem hann hefði átt að renna til sín hafi sér ekki þótt á aðra hallað þótt ekki yrði frekar aðhafst. Kveðst kærði því ekki hafa gert reka að því að ljúka málinu. Kveður kærði að þegar þarna hafi verið komið sögu hafi samskipti verið orðin fremur erfið.

Kærði kveðst hafa sett sáttina á blað og sent málsaðilum í ábyrgðarpósti og þannig lagt sitt af mörkum til þess að leiða málið til lykta.

III.

Í athugasemdum sínum kveðast kærendur aldrei hafa móttekið ábyrgðarbréf frá kærða. Það séu sér nýjar fréttir að gagnaðilarnir hafi ákveðið að fallast á kröfur sínar. Gagnaðilarnir hafi reyndar verið búnir að lýsa því margsinnis yfir að þeir féllust aldrei á að umræddar skólplagnir yrðu lagðar á upprunalegum stað. Kærendur kveða lögfræðikostnaðinn hafa verið aukaatriði. Það hafi reyndar verið kærði sjálfur sem hafi ætlað að hafa samband við tryggingarfélagið og athuga þar með rétt kærenda. Kærendur kveða samskiptin engin hafa verið af hálfu kærða eftir fyrstu vikurnar. Samskiptin hafi ekki orðið erfið fyrr en eftir ítrekaðar lygar kærða og vanrækslu af hans hálfu. Kærendur kveða einu drögin að samkomulagi eða kröfurnar sem þau létu kærða í té hafa verið upprunalegu hugmyndir sínar, sem skrifaðar hafi verið í talsverðri reiði eftir að gagnaðilarnir höfðu grafið í sundur garð kærenda við lögn sinna eigin skólpröra. Kærendur kveðast aldrei hafa bætt við þann lista og kveðast líklega hafa slegið heldur af kröfum sínum hefðu einhverjar umræður eða sáttaumleitanir átt sér stað.

                                                            Niðurstaða.

 

I.

Samkvæmt 18. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna.

Samkvæmt 12. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni, sem tekur að sér verkefni, að reka það áfram með hæfilegum hraða. Hann skal tilkynna umbjóðanda sínum ef verkið dregst eða ef ætla má að það dragist.

Samkvæmt lýsingu kærenda á málsatvikum voru þau í nokkrum samskiptum við kærða veturinn 2005-2006, að þeirra sögn einkum til þess að reka á eftir kærða. Um miðjan júlí 2006 áttu kærendur og kærði í nokkrum tölvupóstsamskiptum. Kærði sendi kærendum þá svonefnda greinargerð sóknaraðila í innsetningarmáli. Augljóslega var um uppkast að ræða, enda engra dagsetninga getið á skjalinu um framlagningu, þingfestinu o.s.frv. Næstu samskipti aðila virðast hafa verið í nóvember 2006 þegar kærendur sendu kærða símskeyti með hótun um að kæra hann til úrskurðarnefndar lögmanna yrði hann ekki við kröfum þeirra um að útskýra mál sitt gagnvart þeim og/eða að ljúka því starfi sem hann tók að sér fyrir þau.

Með greinargerð sinni til úrskurðarnefndar sendi kærði stefnu í máli kærenda gagnvart meðeigendum sínum í tvíbýlishúsinu. Um uppkast að stefnu var að ræða, óundirritað og með röngu ártali á öllum stöðum, 2005 í stað ársins 2006.

Gögn málsins bera það með sér að kærði hafi tekið að sér verkefni fyrir kærendur um miðjan nóvember 2005. Þrátt fyrir að einhver samskipti kærenda við kærða hafi átt sér stað veturinn 2005-2006 hafi ekki mikið gerst í málinu. Hið eina sem liggur fyrir í málinu eru uppköst að réttarskjölum, sem aldrei virðast hafa ratað til héraðsdóms, þrátt fyrir áform kærða í þá veru.

Að mati nefndarinnar hefur málið ekki verið rekið áfram af þeirri kostgæfni og með þeim hraða sem gera mátti kröfu um og hagsmunir kærenda kölluðu á. Raunar virðist kærði hafa hætt afskiptum af málinu án þess að séð verði að hann hafi tilkynnt kærendum verklok af sinni hálfu og gefið þeim þannig tækifæri til þess að gæta hagsmuna sinna með því að leita til annars lögmanns með málið. Það er álit úrskurðarnefndar að kærði hafi með þessu losaralega verklagi sínu vanrækt starfsskyldur sínar gagnvart kærendum og þannig brotið gegn 18. gr. lögmannalaga og 12. gr. siðareglna lögmanna.

II.

Verulegur dráttur varð á því að kærði gerði úrskurðarnefndinni grein fyrir máli sínu, eftir að erindi kærenda var sent til hans. Er það aðfinnsluvert að mati nefndarinnar og felur í sér brot gegn 4. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 Tafir í rekstri fjöleignarhúsamáls, sem kærði, A, hdl., tók að sér fyrir kærendur, og óskýr verklok af hans hálfu, eru aðfinnsluverð.

 Dráttur kærða á að gera úrskurðarnefnd lögmanna grein fyrir máli sínu vegna erindis kærenda er aðfinnsluverður.

 ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA