Mál 8 2007

Ár 2008, þriðjudaginn 30. september, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

 Fyrir var tekið mál nr. 8/2007:

  A

gegn

B, hrl.

 og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

 Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 8. maí 2007 frá A, kæranda, þar sem kvartað var yfir framkomu B, hrl., kærða, gagnvart kæranda, í skrifum kærða meðal annars til nafngreinds lögmanns og tryggingarfélags um tiltekið slysamál.

 Kærði sendi nefndinni greinargerð um erindið þann 29. júní 2007 og gerði kærandi nokkrar athugasemdir um efni hennar í bréfi, dags. 25. júlí 2007. Kærða var gefinn kostur á tjá sig frekar um málið en engar athugasemdir bárust frá honum.

 Formaður úrskurðarnefndar sæti í málinu og varamaður hans tók sæti fyrr í þessu mánuði.

 Málsatvik og málsástæður.

  I.

Í erindi sínu til úrskurðarnefndar lögmanna kærir kærandi kærða fyrir að vega mjög harkalega að starfsheiðri sínum í tveimur bréfum sem kærði ritaði. Í öðru bréfinu á svo ósæmilegan, dónalegan og klámfenginn hátt að það hafi gengið út yfir öll mörk almennrar siðsemi og þau mörk sem lögmannalög og siðareglur lögmanna setja.

 Kærandi kveðst vera sjálfstætt starfandi sérfræðingur og hafi störf sín einnig lotið að matsstörfum og öðrum hliðstæðum verkefnum í líkamstjónamálum fyrir lögmenn og tryggingafélög, svo og álitsgerðum fyrir Tryggingastofnun ríkisins og fyrir landlækni. Þessi störf vinni hann sem verktaki fyrir verkbeiðanda, hver sem hann sé. Kærandi kveðst ekki vera og hafi aldrei verið trúnaðarlæknir fyrir nokkurt tryggingarfélag.

 Kærandi kveður tilefni skrifa kærða vera greinargerð, sem hann hafi unnið fyrir tiltekið tryggingarfélag, um örorkumat sem framkvæmt hafði verið. Sú spurning, sem að sér sneri, hefði verið um það hvort hann teldi tryggingarfélagið hafa átt að ganga til uppgjörs á grundvelli þeirrar matsgerðar eður ei. Kærandi telur greinargerð sína hafa verið málefnalega og ekki hafa gefið tilefni til sérstakra árása á sína persónu.

 Kærandi kveður ofstopann í skrifum kærða vera slíkan að útilokað hafi verið fyrir sig annað en að kvarta til úrskurðarnefndar lögmanna. Kærandi telur kærða hafa vegið illilega að persónu sinni, heiðarleika og starfsheiðri. Hann telur kærða hafa verið með afar ósæmilegar samlíkingar er hann líkti vinnubrögðum kæranda við „Breiðavíkurmál hin síðari” og er hann kallaði sig „skökul vátryggingarfélaganna”, sem með vinnu sinni ylli tjónþolum óbætanlegu tjóni. Þá væru einnig á víð og dreif í bréfum kærða fullyrðingar og dylgjur um vankunnáttu sína.

 Kærandi telur vera augljóst að kærði hafi með háttsemi sinni farið langt út yfir öll mörk velsæmis. Svona framkoma væri engum sæmandi og enginn ætti að þurfa að sitja undir slíkum lýsingum og fúkyrðaflaumi. Kærandi telur kærða með þessum skrifum og dreifingu þeirra hafa sýnt af sér háttsemi sem bryti í bága við 2. og 34. gr. siðareglna lögmanna. Krefst kærandi þess að úrskurðarnefndin láti í té rökstutt álit um það hvort sú háttsemi kærða, sem lýst hafi verið, sé í samræmi við góða lögmannshætti eða ekki, og hvort hún brjóti ekki gegn siðareglum lögmanna. Krefst kærandi þess að kærði verði beittur viðurlögum samkvæmt 43. gr. siðareglnanna, sbr. 27. og 14. gr. lögmannalaga nr. 77/1998.

 

II.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar kveður kærði undirrót skrifa sinna vera lélega hagsmunagæslu þeirra lögmanna, sem starfa að slysamálum, þ.e. aðstoða þá sem hafa slasast í umferðar- eða vinnuslysum og eiga kröfu á hendur tryggingarfélögum um bætur.

 Kærði lýsir því hvernig hann hafi lengi gagnrýnt vinnubrögð í slysamálum, svo sem með svokölluðum tveggja lækna mötum og atriði sem varða stöðugleikatímapunkt, og hvernig þá hefur greint á, hann og kæranda, um sjónarmið er þessu tengjast. Kærði gerir grein fyrir aðdraganda skrifa sinna, sem erindi kæranda snýst um, en hann telur meginefni þeirra fela í sér málefnalega gagnrýni.

 Kærði kveður þau atriði í skrifum sínum, sem kærandi tilgreinir sérstaklega í erindinu til nefndarinnar, ekki beinast persónulega að kæranda sjálfum. Kveðst kærði ekki geta séð að vegið sé að kæranda sérstaklega, heldur sé um að ræða umhugsunarefni sitt, sem vísað sé til í bréfinu til áhersluauka. Kærði kveður tveggja lækna mötum vera líkt við Breiðavíkurmálin, en hann kveðst hafa gagnrýnt þá lögmenn, sem láti slík möt nægja fyrir umbjóðendur sína, sem og tryggingarfélögin sem noti sér þessi möt. Kærði kveðst jafnframt hafa gagnrýnt þá lækna almennt, sem að slíkum mötum standa, meðal annars í blaðagreinum.

 Kærði kveður í bréfi sínu vera vikið að þessari framkvæmd tryggingarfélaganna og rökstutt að sú aðferð, sem beitt sé í máli umbjóðanda síns, sé einmitt andsvar við þeirri pólitík tryggingarfélaganna sem stunduð sé með svonefndum tveggja lækna mötum. Kærði kveðst nefna þá framkvæmd „Breiðavíkurmál hin síðari” og að þessi möt séu þá skökull (verkfærið) tryggingarfélaganna, sem rekin séu í tjónþola, þannig að þeir bíði þess ekki bætur. Með því sé átt við að það sé mjög erfitt og á brattann að sækja að fá slíkum mötum hnekkt, þar sem það kosti oft svo mikið fjármagn að venjulegur tjónþoli hafi þar ekki efni á. Þannig séu tjónþolar læstir í þessum tveggja lækna mötum um alla framtíð, þótt það blasi við að þau séu ekki rétt. Það sé þetta sem átt sé við með „skökli vátryggingarfélaganna”, að mötin séu þessi skökull sem rekin séu í tjónþolana.

 Kærði kveður því vera skrifað í augljósri yfirfærðri merkingu og alls ekki vegið að kæranda sérstaklega, heldur ákveðinni framkvæmd tryggingarfélaganna í þessum málaflokki. Með því að vísa til Breiðavíkur sé verið að vísa til þess að farið sé illa með tjónþolana með þessum tveggja lækna mötum með óafsakanlegum hætti. Það sé alls ekki átt við neitt kynferðislegt, eins og kærandi haldi fram í erindi sínu.

 Kærði kveður að með orðinu skökull sé ekki átt við kynfæri karlmanna. Það sé misskilningur hjá kæranda ef það sé það sem hann eigi við. Í bréfinu hafi orðið skökull verið notað sem eitthvert verkfæri, svo sem sverð eða spjót. Kærði kveður hugtakið hafa verið notað í heyskap í sinni sveit, þegar hestum hafi verið beitt fyrir kerrur, sláttuvélar o.s.frv.

 III.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða kemur meðal annars fram að hann telur það vera ljóst, þegar lesin séu bréf kærða, að í þeim sé verið að fjalla um aðkomu sína að málum, en ekki afgreiðslu tryggingarfélaganna almennt. Það sé því fjarstæðukennt að halda því fram nú að ummæli kærða hafi ekki beinst að sér persónulega. Bréfin beri það greinilega með sér að kærði sé að tala um sig og sína aðkomu að málum og því sé útilokað annað en að líta svo á að ummælin eigi við sína persónu, fagkunnáttu og heiðarleika í vinnubrögðum.

 

                                                            Niðurstaða.

  I.

Samkvæmt 2. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum. Honum ber að sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna, sbr. 34. gr. siðareglnanna.

 Þau bréf kærða, sem erindi kæranda snýst um, eru rituð vegna slysamáls, þar sem kærði gætti hagsmuna tjónþola gagnvart tryggingarfélagi. Annað bréfið er ritað 27. mars 2007 og er því beint til nafngreinds lögmanns, með afriti til tryggingarfélagsins. Hitt bréfið er ritað þann 13. apríl 2007 og er því beint til kæranda, en afrit send fyrrgreindum lögmanni og tryggingarfélaginu.

 Í fyrra bréfi sínu fer kærði fram á að matsmál verði rekið með eins miklum hraða og unnt sé, auk þess sem hann fer fram á að fá eintak rannsóknarskýrslu kæranda er varðar slysamálið. Í bréfinu er þess meðal annars getið að tryggingarfélagið hafi töluvert notað kæranda í örorkumötum, en hann sé þekktur á þessu réttarsviði sem einstakur naumhyggjumaður hvað varði miska og varanlega örorku fórnarlamba umferðar- og vinnuslysa. Fyrirfram sé komist að þeirri niðurstöðu að fórnarlambið hafi í frammi blekkingar. Slíkar öfgar gangi vitanlega ekki í slíkum málum og tryggingarfélögin ríði sjaldan feitum hesti frá þeim málum, þar sem kærandi komi nálægt, þegar upp sé staðið, þar sem afstaða hans virki öfugt á aðra sem að málum komi.

 Í síðara bréfinu sínu, sem kærði ritar til kæranda, gagnrýnir hann greinargerð kæranda í slysamálinu og teflir fram sjónarmiðum sínum þar að lútandi, með tilvísun í lögskýringargögn og fræðiskrif. Fram kemur sú skoðun kærða að hann telji greinargerð kæranda ganga þvert á tiltekið, lögfest grundvallarsjónarmið, sem almennt sé viðurkennt af þeim sem kunni til verka á þessu sviði. Þessu næst ritar kærði eftirfarandi málsgrein:

 „Það er og umhugsunarvert að tryggingafélögin hafa slíka lækna á sínum snærum, sem kunna jafn lítið til verka, og ljóst að fjöldi svokallaðra tveggja lækna mata, sem gerð hafa verið á undanförnum árum af slíkum læknum eru ranglega gerð. Má því með sanni segja að hér sé um Breiðavíkurmál hin síðari að ræða, þar sem skökull tryggingafélaganna er rekin í tjónþolana með þessum hætti, þannig að þeir bíða þess aldrei bætur.”

 Það er einkum orðfæri kærða í þessari málsgrein sem kærandi gerir athugasemdir við, eins og að framan er getið.

 II.

Uppgjör slysamála og framkvæmd örorkumata hafa verið tilefni ágreinings um langt árabil, einnig eftir gildistöku skaðabótalaga nr. 50/1993. Hefur þar bæði verið deilt um niðurstöður örorkumata í einstaka slysamálum sem og um ýmis meginsjónarmið við framkvæmd örorkumatanna. Aðallega eru það lögmenn, sem gæta hagsmuna tjónþola, og tryggingarfélögin sem takast á en aðrir, einkum læknar, leggja þar stundum einnig orð í belg.

 Bréf kærða, sem erindi kæranda fjallar um, eru ekki hluti af opinberri umræðu um slysamál, uppgjör þeirra og örorkumöt. Þeim var beint að tilteknum einstaklingum vegna slysamáls sem unnið var að, en afrit þeirra voru þó send öðrum, þar á meðal til tryggingarfélags. Það gat því varðað hagsmuni kæranda miklu að ekki yrði farið út fyrir eðlilegt mörk í gagnrýni á störf hans, ef á annað borð var tilefni slíkrar gagnrýni.

 Í fyrra bréfinu er vikið að rannsóknarskýrslu kæranda, en að mati kærða hafi hann virst hafa unnið það verk, þ.e. skýrsluna, sem félli undir verk trúnaðarlæknis. Lýsir kærði kæranda svo í bréfinu að hann sé þekktur á þessu sviði sem einstakur naumhyggjumaður hvað varði miska og varanlega örorku fórnarlamba umferðar- og vinnuslysa. Af orðalaginu má ráða að kærði telji kæranda að jafnaði eða oft meta fremur lágan varanlegan miska og/eða lága varanlega örorku í örorkumötum sínum. Að mati úrskurðarnefndar er kærða frjálst að hafa skoðanir sem þessar um störf kæranda og nefndin telur jafnframt orðaval kærða ekki vera tilefni beitingar agaviðurlaga.

 Í fyrra bréfi sínu staðhæfir kærði að kærandi komist í matsstörfum sínum fyrirfram að þeirri niðurstöðu að fórnarlömb umferðar- og vinnuslysa hafi í frammi blekkingar. Ekkert liggur fyrir um á hverju fullyrðingar kærða um svo ófagleg vinnubrögð af hálfu kæranda byggjast á. Að mati nefndarinnar er hér gengið lengra í fullyrðingum um vinnubrögð en rök standa til. Telur nefndin framsetningu kærða að þessu leyti aðfinnsluverða.

 Í fyrstu málsgrein síðara bréfs síns, sem ritað er til kæranda, vísar kærði til greinargerðar kæranda og telur þar koma fram verulega vanþekkingu kæranda á þeim matsreglum sem gildi um mat á slysaáverkum samkvæmt skaðabótalögum, að það veki verulegan ugg í brjósti sínu að kærandi bjóði sig til slíkra starfa. Kærði færir síðan rök fyrir staðhæfingu sinni með því að tilgreina niðurstöður kæranda í greinargerðinni og hrekja þær með vísun til lögskýringargagna og fræðiskrifa.

 Kærandi, eins og aðrir sem taka að sér verkefni þar sem niðurstaða ræðst mjög af huglægu mati, má búast við og verður að þola gagnrýni á störf sín, jafnvel óvægna gagnrýni, en á kröfu til þess að slík gagnrýni sé málefnaleg. Það mat kærða, að greinargerð kæranda feli í sér verulega vanþekkingu á tilteknum reglum, er gildishlaðið en stutt ákveðnum rökum, sem geta talist málefnaleg, hvort sem menn eru sammála þeim eða ekki. Úrskurðarnefnd lögmanna telur kærða í þessari gagnrýni sinni á þekkingu kæranda ekki hafa farið út yfir  þau mörk að varði hann viðurlögum samkvæmt lögmannalögum.

 Hvað varðar málsgreinina í síðara bréfinu, sem tilgreind er í kafla I hér að framan, er það mat nefndarinnar að þá setningarhluta, sem kærandi telur vera beint sérstaklega að sér, verði að lesa í samhengi við umfjöllun hans um svonefnd tveggja lækna möt í næsta málslið á undan. Nefndin getur ekki fallist á það með kæranda að orðfæri kærða, þótt óvenjulegt megi kalla, sé sérstaklega beint að honum á þann hátt sem kvartað er yfir í erindi hans til nefndarinnar.

 Að öllu framangreindu virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að kærði hafi, með fullyrðingu um að kærandi komist í matsstörfum sínum fyrirfram að niðurstöðu um að fórnarlömb umferðar- og vinnuslysa hafi í frammi blekkingar, gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn siðareglum lögmanna og lögmannalögum, nr. 77/1998.

 Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 Fullyrðing kærða, B, hrl., um að kærandi, A, komist í matsstörfum sínum fyrirfram að niðurstöðu um að fórnarlömb umferðar- og vinnuslysa hafi í frammi blekkingar, er aðfinnsluverð.

 ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA