Mál 15 2013

Ár 2013, föstudaginn 23. ágúst, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 6/2011:

A og B

gegn

C hdl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Í erindi A og B til úrskurðarnefndar lögmanna, sem barst nefndinni þann 17. maí 2013, var kvartað yfir störfum C hdl., kærða, að sakamáli kærenda.

Kærði sendi nefndinni greinargerð um málið þann 10. júní 2011 og var kærendum gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana. Athugasemdir kærenda við greinargerð kærða bárust um 10. júlí 2013. Kærða var gefinn kostur á að gera lokaathugasemdir við andsvör kærenda með bréfi nefndarinnar 17. júlí 2013, en hann kaus að gera ekki frekari athugasemdir vegna málsins.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Málsatvik eru þau að morguninn 9. desember 2011 voru kærendur máls þessa bæði handtekinn við komu til landsins, en þau höfðu meðferðis fíkniefni. Hófst í framhaldi af þessu meðferð sakamáls á hendur þeim. Ekki hefur komið fram hvort kærði í  máli þessu gætti hagsmuna þeirra á rannsóknarstigi málsins, en ákæra í því var gefin út í ágúst 2012. Var kærði í máli þessu skipaður verjandi þeirra. Málið var rekið sem hluti af stærra sakamáli gegn öðrum ákærðu sem í málinu voru m.a. ákærð fyrir að hafa skipulagt þennan innflutning fíkniefna.

Aðalmeðferð í málinu var haldin í nóvember 2012. Játuðu þau bæði sök fyrir dómi, en neituðu að upplýsa um hver hefði skipulagt ferðina. Lauk málinu svo að þau voru sakfelld með dómi héraðsdóms í desemberbyrjun og dæmd til óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar, A í eitt ár, en B í 17 mánuði. Þau sem ákærð voru fyrir skipulagninguna voru sýknuð í þessum þætti málsins, en fengu óskilorðsbundna fangelsisdóma fyrir önnur fíkniefnabrot.

Verulega greinir á milli frásagna kærenda og kærða af samskiptum sínum við undirbúning málsins og í framhaldi af því. Er nauðsynlegt að rekja í megindráttum hvernig hvor málsaðili um sig lýsir þessum samskiptum í sínum málatilbúnaði.

II.

Kærendur kveðast í kærunni vilja fá málið endurupptekið.

Kærendur kveðast aldrei hafa hitt kærða til að undirbúa eða ræða vörn sína ítarlega. Oft hafi liðið dagar eða vikur á milli þess sem náðist í hann. Kærði hafi sagt þeim að hann myndi koma til þeirra til að halda fund daginn fyrir aðalmeðferðina en síðan afboðað hann. Þá hafi hann sagt að hann myndi sækja þau til  Keflavíkur til að vera við aðalmeðferðina. Hann hafi svo hringt í þau kl. 8:20 morguninn eftir og sagt þeim að þau yrðu að drífa sig til að verða ekki of sein. Þau hafi þá flýtt sér í strætisvagn en þó orðið of sein. Hafi þau verið óundirbúin með öllu. Þau hafi rætt við kærða í um 5 mínútur fyrir aðalmeðferðina og hann þá tjáð þeim að þau myndu líklega fá skilorðsbundin dóm, hvað sem þau segðu. Þau hafi því ákveðið að bera ekkert um hver hefði skipulagt innflutninginn.

Eftir að dómur var kveðinn upp hafi þau rætt við kærða og verið ákveðin í að áfrýja dómnum. Hafi kærði ætlað í málið og haft í huga ákveðinn hæstaréttarlögmann til að áfrýja málinu. Nánar tiltekið segjast kærendur hafa hringt í kærða 15. desember eftir að hafa rekist á meðákærða sinn í málinu sem hafði skipulagt innflutninginn og orðið fyrir líkamsárás af hans hálfu. Hafi þetta orðið til þess að þau hafi lagt fram kæru hjá lögreglu og þá borið um hlut viðkomandi í fíkniefnabrotinu. Í kjölfarið hafi þau haft samband við kærða og rætt við hann um þessa lögregluskýrslu og áfrýjun málsins.

Hafi þau eftir þetta beðið frétta af áfrýjun málsins, en ekkert hafi gerst fyrr en þau voru boðuð í afplánun í byrjun apríl 2013. Þau hafi hringt í kærða sem hafi þá sagt að hann hafi haldið að þau væru ekki viss um hvort þau vildu áfrýja.

Kærendur kveða sig gruna að tengsl kærða við skipuleggjendur fíkniefnainnflutnings eða áhrif fíkniefna kunni að hafa haft áhrif á kærða og frammistöðu hans í málinu

III.

Kærði hafnar í greinargerð sinni þeim ásökunum sem fram koma í kvörtun kæranda og krefst frávísunar hennar.

Kærði telur dóm héraðsdóms í máli kærenda hvorki óvenjulega þungan né vægan og hefur lagt fyrir nefndina yfirlit yfir nýlega dóma sem hann telur styðja þetta.

Kærði kveður sig hafa fundað með kærendum þegar eftir fyrstu fyrirtöku málsins. Fundað hafi verið í góðum friði á veitingahúsi í nágrenni dómsins. Þar hafi verið farið yfir stöðuna. Þá hafi hann átt fjölmörg símtöl við kærendur þar sem farið hafi verið yfir málið.

Kærði bendir á að um hafi verið að ræða einfalt játningarmál og því hafi eingöngu komið til skoðunar þættir sem leitt gætu til refsilækkunar.

Kærði kveður kærendur hafa ætlað að koma til sín á fund til að fara yfir málið daginn fyrir aðalmeðferð þess. Þau hafi forfallast vegna bílleysis en hann hafi þá tjáð þeim að hann myndi koma til fundar við þau um kvöldið ef hann teldi þörf á því Hann hafi talið í ljósi málavaxta og fyrirliggjandi upplýsinga að ekki væri þörf á slíkum fundi.

Kærði hafnar því alfarið að hann hafi boðist til að aka kærendum til aðalmeðferðar málsins. Hann hafi á hinn bóginn boðist til að lána þeim fyrir leigubíl þegar það stefndi í að þau yrðu of sein.

Kærði hafnar einnig lýsingu kærenda á samskiptum þeirra eftir dómsuppsögu. Hann hafi haft samband við þau eftir að dómur var kveðinn upp og kynnt þeim niðurstöðuna og það jafnframt að hann teldi dóminn hvorki óvenjulega þungan né vægan. Þá hafi hann boðið kæranda A að vera í sambandi þegar hann hefði skoðað málið betur og ef þau hefðu áhuga á að áfrýja dómnum væri unnt að finna einhvern til að vinna í því. Kærði kveðst svo hafa rætt við kærendur aftur nokkrum dögum síðar og hafi þá verið rætt um hvernig fullnustu refsingar væri háttað. Þau gætu fengið reynslulausn eftir ½ eða 2/3 hluta tímans eftir því hvort brotið teldist stórvægilegt. Þá gætu þau vænst þess að afplána síðasta hluta refsingarinnar á áfangaheimilinu Vernd.

Kærði kveðst einnig hafa leiðbeint kærandanum í þessu símtali um að hann gæti lýst yfir áfrýjun dómsins við birtingu hans eða tekið sér mánaðar frest til að umhugsunar frá birtingu dómsins. Kærði kveðst hins vegar ekki hafa vitneskju um hvenær dómurinn var birtur kærendum.

Kærði hafnar öllum hugleiðingum kærenda um að hann hafi verið undir áhrifum fíkniefna eða látið tengsl við skipulagðan innflutning fíkniefna hafa áhrif á sig sem röklausum rógburði.

Niðurstaða.

I.

Krafa kærða um að málinu verði vísað frá er ekki studd neinum rökum og verður að hafna henni.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Nefndin hefur á hinn bóginn engar valdheimildir til að mæla fyrir um endurupptöku dómsmála og verður að vísa þeirri kröfu kærenda frá nefndinni.

Fyrr er rakinn sá ágreiningur sem er með aðilum um hvernig samskiptum þeirra vegna málsins var háttað.  Varðandi þetta atriði er til þess að líta að þegar metið er hvort kærði verði beittur viðurlögum á grundvelli aðfinnslna kærenda, eiga kærendur almennt sönnunarbyrðina um þessi atriði, en aðfinnslur verða ekki gerðar við aðrar yfirsjónir kærða en þær sem tekist hefur að sanna. Verða aðfinnslur ekki reistar á einhliða yfirlýsingum kærenda um að kærandi hafi vanrækt að undirbúa þau undir aðalmeðferðina eða að hann hafi borið ábyrgð á því að koma þeim stundvíslega í dóminn. Frásagnir þeirra eru ekki studdar neinum gögnum.

Málflutningurinn snerist um lagaatriði og refsiákvörðun, en kærendur í máli þessu hafa frá upphafi kannast við þau atvik sem ákæran var reist á. Gögn málsins bera ekki með sér að málsvörn hafi verið áfátt. Að þessu virtu, virðist nefndinni ekki unnt að gera athugasemdir við þá lýsingu á undirbúningi málsins sem kærði hefur lagt fram.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, C hdl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kærenda, A og B, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Kröfum kærenda um endurupptöku sakamáls á hendur þeim er vísað frá nefndinni.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr, hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Kristinn Bjarnason, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________