Mál 6 2013

 

Ár 2013, föstudaginn 23. ágúst, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 6/2013:

A

gegn

B ehf

og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 6. febrúar 2013 erindi A þar sem gerður er ágreiningur um áskilda lögmannsþóknun C hdl. og B ehf. fyrir innheimtu skuldar samkvæmt skuldabréfi.

 

Að fengnum ákveðnum skýringum sóknaraðila óskaði nefndin eftir greinargerð lögmannsins með bréfi dagsettu 20. febrúar 2013 og barst hún, að fengnum fresti, 25. mars 2013.

 

Óskað var eftir athugasemdum sóknaraðila við greinargerðina og bárust þær 22. apríl 2013, en lokaathugasemdir varnaraðila bárust svo þann 23. maí 2013.

 

Málsatvik og málsástæður.

I.

Málsatvik eru þau að sóknaraðili fól varnaraðila í júní 2011 að innheimta skuld samkvæmt skuldabréfi á hendur bróður sínum og eiginkonu hans. Ágreiningur er með aðilum um hvort og hvernig þá var farið yfir gjaldskrá varnaraðila. Varnaraðili heldur því fram að gjaldskrá sín, sem aðgengileg sé á vefnum, hafi verið kynnt sóknaraðila. Sóknaraðili kveður sér aldrei hafa verið kynnt gjaldskráin.

Í framhaldi af þessum fundi var skuldabréfið stimplað og skuldurunum fyrst sent innheimtubréf en síðan greiðsluáskoranir. Þá var gert fjárnám í eigum skuldara þann 11. október 2011. Var fjárnám gert í fasteign hans og tveimur bifreiðum. Fjárnáminu var svo fylgt eftir með nauðungarsölubeiðnum sem vörðuðu annars vegar fasteignina en hins vegar aðra bifreiðina.

 

Illa gekk að finna umrædda bifreið og mótmæli komu fram gegn sölu hennar frá manni sem taldi sig réttan eiganda hennar. Svo fór þó að hann veitti upplýsingar sem leiddu til þess að bifreiðin fannst en fyrirtækið sem annaðist vörslusviptingarnar þurfti að sögn varnaraðila að leggja í mikla vinnu til að finna hana og ná henni út úr skemmu. Bifreiðin seldist fyrir 990.000 krónur á nauðungarsölu 24. nóvember 2012 og tók varnaraðili við kr. 738.712 af andvirði hennar. Var því ráðstafað upp í kostnað varnaraðila.

 

Sem fyrr greinir var nauðungarsölu einnig krafist á fasteign skuldara. Nauðungarsölubeiðni var send sýslumanni 17. október 2011. Byrjun uppboðs fór ekki fram fyrr en 6. september 2012. Var þá ákveðið að fresta málinu. Fundaði sóknaraðili með starfsmönnum varnaraðila og var m.a. rætt um allháa veðrétti sem stóðu framan við fjárnámið í veðröðinni og möguleika sóknaraðila á að bjóða í eignina. Við framhaldssölu 4. desember 2012 voru boðnar kr. 25.000.000 í eignina fyrir hönd sóknaraðila og varð það hæsta boð í eignina. Áhöld voru um gildi tryggingabréfs á 2. veðrétti og hvort rétt væri að standa við boðið eða að fella niður nauðungarsölubeiðnina til að losna frá því.

 

Þann 7. janúar 2013 mætti sóknaraðili hjá varnaraðila og tilkynnti að hún myndi fela öðrum lögmanni málið. Af hálfu varnaraðila er á því byggt að á þeim tíma hafi ekkert verið rætt um óánægju með gang innheimtumálsins eða kostnað. Greiðslan af uppboðsandvirði bifreiðarinnar hafði þá nýlega fengist upp í innheimtukostnað og hafi sóknaraðila verið boðið að ljúka málinu með greiðslu 300.000 kr. til viðbótar, auk vsk, en það hafi falið í sér afslátt að fjárhæð kr. 241.125. Hafi sóknaraðili farið fram á greiðslufrest til 1. apríl og hann verið veittur.

 

Fyrir liggur að eftir þetta afturkallaði sóknaraðili nauðungarsölubeiðnina og felldi þannig nauðungarsölumálið niður.

 

II.

Sóknaraðili krefst þess að innheimtuþóknun verði felld niður eða lækkuð verulega. Styður hann kröfu þessa við 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga nr. 77/1998. Sóknaraðili hafi ekki gefið skriflegt umboð sitt til innheimtunnar auk þess sem henni hafi ekki verið kynnt gjaldskrá varnaraðila.

 

Til vara krefst sóknaraðili þess að nefndin leggi mat á tímareikning varnaraðila, þ.á.m. hvort einstakir verkþættir hafi verið þarflausir, sérstaklega geymsla bifreiðarinnar, og hvort reikningur varnaraðila teljist hæfilegur með hliðsjón af 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga og því að innheimtan hafi reynst sóknaraðila árangurslaus.

 

Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar fyrir nefndinni úr hendi varnaraðila.

 

Upphaflega þótti ekki fyllilega skýrt hvort sóknaraðili gerði jafnframt þessu kröfu um agaviðurlög á grundvelli 27. gr. lögmannalaga, en með tölvupósti 18. febrúar áréttaði sóknaraðili kröfugerð sína að þessu leyti. Er litið svo á að að hann telji að ýmsar aðfinnslur sem hann gerir við störf varnaraðila skuli leiða til lækkunar á því sem telja má sanngjarna þóknun.

 

Sóknaraðili gerir athugasemd við boð varnaraðila í fasteignina fyrir sína hönd og að sér hafi fyrst verið kynnt 4 vikum eftir uppboðið, þann 4. janúar 2013, að hún hefði orðið hæstbjóðandi og hefði skamman frest til að standa við það.

 

Sóknaraðili telur mjög hafa skort á að henni væri kynntur kostnaður við innheimtuna, bæði í upphafi og í því umfangsmikla ferli sem á eftir fór. Aðeins hafi verið haldinn einn formlegur fundur um málið. Málinu hafi ekki verið haldið áfram með hæfilegum hraða og henni þó ekki kynnt að það myndi dragast. Aðeins 13 sinnum á 20 mánuðum hafi varnaraðili haft samband við sóknaraðila að fyrra bragði.

 

Að því er varðar sjálfa fjárhæð endurgjaldsins bendir sóknaraðili á að það nemi 18,3% af innheimtukröfunni en árangur af innheimtunni hafi enginn orðið fyrir sig. Teljist það óhæfilega hátt endurgjald skv. 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga og óeðlilega hár kostnaður miðað við þá hagsmuni sem voru í húfi, sbr. 10. gr. siðareglna lögmanna.

 

Sóknaraðili telur að varnaraðila hafi láðst að bregðast við ábendingum sínum um hvar umrædda bifreið væri að finna. Hafi þetta leitt til mikils kostnaðar.

 

III.

Varnaraðili krefst þess að sóknaraðila verði gert að greiða samtals kr. 1.279.837 m/vsk vegna vinnu varnaraðila í þágu sóknaraðila á tímabilinu 1. júní 2011 til 31. janúar 2013. Þá krefst hann þess að framangreind þóknun  beri dráttarvexti frá 1. apríl 2013 til greiðsludags.

 

Þá krefst varnaraðili málskostnaðar fyrir nefndinni úr hendi sóknaraðila.

 

Varnaraðili kveður sóknaraðila hafa verið búsetta erlendis og án tölvupóstfangs. Hafi samskipti við hana því að miklu leyti farið fram í gegn um síma að hennar ósk. Farið hafi verið yfir kostnað af málinu með sóknaraðila þegar á fyrstu stigum þess og ákveðið að við hvert skref í innheimtuferlinu yrði rætt við hana og henni gerð grein fyrir stöðunni, innheimtulíkum og hver kostnaður væri við næstu skref.

 

Varnaraðili rekur í greinargerð sinni hvernig innheimtuferlið gekk fyrir sig. Mótmælir hann því að það hafi ekki gengið með hæfilegum hraða eins og efni stóðu til eða að sóknaraðili hafi ekki verið upplýst um framgang þess.

 

Varnaraðili telur þóknun sína í alla staði hæfilega. Innheimt hafi verið fyrir þjónustuna í samræmi við gjaldskrá og í fullu samræmi við lög og reglur. Sóknaraðili hafi á öllum stigum verið upplýstur um kostnað. Innheimtumálið hafi verið óvenju umfangsmikið en að baki þess hafi verið heiftarlegar systkinaerjur og hafi hvorugt þeirra viljað beygja sig. Hafi sóknaraðili verið tilbúin til að leggja í mikla vinnu og kostnað til að innheimta kröfu sína.

 

Heildarkrafa varnaraðila sé kr. 1.279.837 með vsk. Útlagður kostnaður varnaraðila sé þar af kr. 477.888, þ.m.t. kostnaður Vörslusviptinga að fjárhæð kr. 277.543. Inn á kröfuna hafi greiðst kr. 738.712.

 

Varnaraðili mótmælir því að innheimtuaðgerðir sínar hafi verið árangurslausar. Gert hafi verið fjárnám í eignum skuldara og hafi ein eign skuldara verið seld nauðungarsölu að ósk sóknaraðila. Ekki sé útséð með hvaða árangri hitt fjárnámið muni skila. Það hafi verið meðvituð ákvörðun sóknaraðila að ráðast í umræddar innheimtuaðgerðir, m.a. í því skyni að ýta við skuldara og sjá hvort það myndi leiða til þess að skuldin yrði greidd áður en að uppboði kæmi.

 

Varnaraðili mótmælir því sérstaklega að sóknaraðili hafi ekki verið upplýst um niðurstöðu framhaldssölu á fasteign skuldara.

 

Niðurstaða.

I.

Upphaflegt erindi sóknaraðila beindist gegn C hdl. og B ehf. B ehf. er dótturfyrirtæki lögmannsstofunnar D og hefur með höndum innheimtustarfsemi í tengslum við lögmannsstofuna. C hdl. annaðist mikið af þeim innheimtustörfum fyrir sóknaraðila sem hér ræðir um. Hún er samkvæmt upplýsingum frá B ehf. fulltrúi. Þar sem ágreiningur aðila í máli þessu er eingöngu fjárhagslegur og ljóst er að umræddir hagsmunir tilheyra B ehf, en fyrirtækið er dótturfyrirtæki lögmannsstofu, verður það eitt talið hafa aðild varnarmegin í máli þessu.

 

II.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.

 

Samkvæmt 28. gr. laga um þjónustukaup, nr. 42/2000 skal neytandi greiða það verð sem telja má sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan er mikil og hvers eðlis hún er, hafi ekki verið samið um verð fyrir keypta þjónustu.

 

í 2. mgr. 10. gr. siðareglna kemur fram að lögmanni ber að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Lögmanni ber að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknuð. Í 3. mgr. ákvæðisins segir að lögmanni ber að leita samþykkis skjólstæðings, ef fela þarf mál hans öðrum lögmanni. Sama gildir að jafnaði, ef leita þarf annarrar sérfræðiaðstoðar, svo sem mats‑ eða skoðunarmanna, ef verulegur kostnaður er því samfara.

 

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga.

 

III.

Í upphaflegu erindi sóknaraðila nefndarinnar kemur með skýrum hætti fram að hún hafi falið varnaraðila innheimtu umræddrar skuldar. Í kjölfarið „ hófst eðlilegt innheimtuferli með tilheyrandi innheimtubréfum, fjárnámum og nauðungarsölum" eins og segir í erindinu. Fær þetta stoð í gögnum málsins um samskipti aðila. Er með hliðsjón af þessu útilokað að fallast á þá málsástæðu sóknaraðila að varnaraðila hafi skort umboð til innheimtunnar eða á aðalkröfu hans um niðurfellingu á kröfu varnaraðila á þessum grunni.

 

IV.

Yfirlit yfir símtöl frá varnaraðila til sóknaraðila styðja, svo langt sem þau ná, staðhæfingar varnaraðila um að hann hafi verið samskiptum við sóknaraðila um framgang innheimtumálsins. Ber símayfirlitið m.a. með sér að haft var samband við sóknaraðila eftir nauðungarsölu fasteignarinnar.

 

Gögn málsins bera með sér að um var að ræða þungt innheimtumál þar sem leitast var við að innheimta 7 milljón króna skuld með fullnustuaðgerðum hjá einstaklingum sem reyndust hvorki hafa greiðslugetu né greiðsluvilja til að inna kröfuna af hendi eða semja um hana. Var gangverki fullnusturéttarfarsins beitt til hins ítrasta til að knýja á um greiðslu.

 

Verður lagt til grundvallar að sóknaraðila hafi verið fullkunnugt um að við innheimtuna var þörf á margvíslegum úrræðum, þ.á.m. tafsama leit að bifreið skuldara. Sú staðreynd að bifreiðin fannst að lokum í skemmu manns sem er bróðir konu sem sóknaraðili hafði bent á sem hugsanlegan vörslumann bifreiðarinnar, leiðir ekki til þess að varnaraðili eigi að bera hallann eða kostnaðinn af þeirri leit. Verður yfirlit varnaraðila yfir útlagðan kostnað í málinu lagt til grundvallar um hann og sóknaraðili úrskurðaður til greiðslu á þeim kostnaði að fullu.

 

V.

Varnaraðili gerði hvorki samning við sóknaraðila um verkefnið né aflaði sér skriflegs umboðs til innheimtunnar. Leiðir af því ákvæði 28. gr. laga um þjónustukaup, nr. 42/2000 sem fyrr er rakið að þar með skal sóknaraðili greiða það verð sem telja má sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan er mikil og hvers eðlis hún er. Hefur gjaldskrá varnaraðila ekki afgerandi þýðingu við það sanngirnismat. Á hinn bóginn mátti sóknaraðila vera ljóst að hún leitaði eftir sérfræðiþjónustu varðandi mál sem snerist um umtalsverða hagsmuni.

 

Varnaraðili byggir gjaldtöku sína annars á 258.500 króna kostnaði vegna sérgreindra verka á borð við aðfarar- og nauðungarsölubeiðnir og mót og 543.456 króna innheimtulaunum, en þessar fjárhæðir eru án virðisaukaskatts. Varnaraðili áskildi sér í samskiptum við sóknaraðila hvorki þóknun byggða á útseldri vinnu, heildarhagsmunum við innheimtuna, né innheimtuárangri.  Er hann ekki í aðstöðu til að kynna eftir á að þóknun skuli reiknuð með þessum hætti.

 

Við mat á því hvað telja má hæfilegt endurgjald vegna málsins verður horft til þess að málið reyndist þungt og kallaði á verulega eftirfylgni eins og fjölmargir sérgreindir verkliðir bera vitni um. Við matið verður að öðru leyti fyrst og fremst litið til þeirrar fjárhæðar sem innheimtist, en síður til þeirra eftirstöðva sem fjárnám var gert fyrir í fasteign skuldarans, en eins og málið er lagt fyrir nefndina virðist ósennilegt að innheimtuárangur verði af þeim aðgerðum. Að samanlögðum hæfilegri þóknun varnaraðila að virðisaukaskatti meðtöldum og útlögðum kostnaði hans og að teknu tilliti til þeirrar fjárhæðar sem þegar hefur verið greidd er það niðurstaða nefndarinnar að sóknaraðila beri að greiða varnaraðila 180.000 kr. að virðisaukaskatti meðtöldum.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 

Sóknaraðili, A, greiði varnaraðila,B ehf., kr. 180.000 að virðisaukaskatti meðtöldum, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. apríl 2013.

 

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr, hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Kristinn Bjarnason, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson