Úrskurðir úrskurðarnefndar lögmanna 05 2017

 

Mál 6 2017

Kröfu kæranda í tengslum við ávirðingar um að kærði hafi átt við sönnunargögn áður en þau voru lögð fram í dómsmáli er vísað frá.

Sú háttsemi kærða, B hrl., að veita lykilvitni rangar upplýsingar um staðreynd­ir í máli umbjóðanda hans gegn A hf. og láta hjá líða að tilkynna lögmanni A hf. um að til stæði að hafa samband við vitnið, er aðfinnsluverð. Málskostnaður fellur niður.


Mál 5 2017

Sú háttsemi kærða, F hrl., að ítreka kröfur á hendur kærendum A ehf. og B ehf. um greiðslu fjárskuldbindinga, eftir að kærða mátti vera ljóst að kröfurnar væru umþrættar og að kærendur hygðust taka til einkaréttarlegra varna gegn þeim, með tilvísun til þess að ef þær yrðu ekki greiddar yrðu fyrirsvarsmenn félaganna, kærendur C, D og E, kærðir til embættis héraðssaksóknara, er aðfinnsluverð. 


Mál 3 2017

Það er álit úrskurðarnefndar lögmanna að áskilið endurgjald S hdl. vegna lögmannsstarfa hans fyrir G, samtals að fjárhæð 963.480 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, teljist hæfilegt í skilningi 1. mgr. 24. lögmannalaga nr. 77/1998.


Mál 2 2017

Sú háttsemi kærða, B hrl., að senda matsmanni bréf með efni sem er lögmanni ósamboðið undir rekstri matsmáls sem kærandi átti aðild að og afrit til starfsmanns kæranda, er aðfinnsluverð.