Mál 11 2006

Ár 2006, mánudaginn 25. september, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

 Fyrir var tekið mál nr. 11/2006:

 X

gegn

Y, hrl.,

 og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

 Í erindi X, kæranda, dags. 21. mars 2006, er kvartað yfir vinnubrögðum Y, hrl., kærða, í málarekstri gegn kæranda. Telur kærandi kærða hafa eyðilagt líf sitt með því að hafa, án ástæðu, gert sig gjaldþrota um áramótin 1999-2000.

 Í tilefni af erindi kæranda var af hálfu úrskurðarnefndar lögmanna ritað bréf til hans þann 3. apríl 2006, þar sem gerð var grein fyrir lögbundnu hlutverki nefndarinnar samkvæmt lögum nr. 77/1998, um lögmenn, og jafnframt að nefndin vísaði kvörtun frá ef lengri tími en eitt ár væri liðinn frá því kostur var á að koma henni á framfæri.

 Bent var á að samkvæmt erindinu ætti kæruefnið rætur sínar að rekja til áramótanna 1999-2000. Erindið bæri ekki með sér að um frekari samskipti kæranda við kærða hefði verið að ræða. Af því tilefni og þar sem það gæti varðað frávísun málsins samkvæmt 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga væri kæranda gefinn kostur á að upplýsa nefndina um hvort einhver sérstök atvik hefðu valdið því að kvörtuninni hefði ekki verið komið á framfæri við nefndina fyrr en með bréfi kæranda til hennar.

 Kæranda var veittur frestur til 19. apríl 2006 til að senda umbeðnar upplýsingar, en engin svör hafa borist nefndinni.

 Niðurstaða.

 Úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt ákvæðum lögmannalaga, nr. 77/1998. Um valdsvið nefndarinnar er nánar kveðið í 5. kafla laganna.

 Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga getur sá sem telur lögmann hafa í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi, sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri, sbr. 2. málsliður 1. mgr. 27. greinar.

 Samkvæmt erindi kæranda áttu þau atvik, sem kæra hans laut að, sér stað um áramótin 1999-2000. Þegar kærandi sendi nefndinni erindi sitt voru liðin rúmlega 6 ár frá þeim atvikum. Með vísan til 2. málsliðar 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 ber að vísa kvörtun þessari frá nefndinni.

 Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 Erindi kæranda, X, er vísað frá.

 ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA