Mál 4 2006

Ár 2006, mánudaginn 19. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

 Fyrir var tekið mál nr. 4/2006:

 S

gegn

T, hrl.

 og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

 Í erindi S, sóknaraðila, til úrskurðarnefndar lögmanna, dags. 13. janúar 2006, var þess krafist að farið yrði yfir reikning T, hrl., varnaraðila, fyrir vinnu við athugun á réttarstöðu sóknaraðila eftir líkamsárás. Að auki var farið fram á athugun á vinnubrögðum varnaraðila.

 Greinargerð varnaraðila til nefndarinnar er dagsett 23. febrúar 2006. Með greinargerðinni fygldi afrit stefnu, áritaðri í Héraðsdómi Reykjavíkur x. febrúar 200x, er varðaði kröfu vegna hins umdeilda reiknings.

 Sóknaraðili hefur ekki tjáð sig frekar um málið.

 I.

Málavextir eru í stuttu máli þeir að þann 17. júní 2003 varð sóknaraðili fyrir líkamsárás og hlaut m.a. af fótbrot. Hann leitaði til varnaraðila og fól honum að kanna réttarstöðu sína gagnvart árásarmanni og gæta hagsmuna sinna við framsetningu bótakröfu. Bótakröfu var til bráðabirgða lýst í júní 2003 til nefndar er starfar samkvæmt lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, nr. 69/1995.

 Lögreglustjórinn í Reykjavík sendi sóknaraðila bréf, dags. x. maí 200x, þar sem honum var tjáð það mat embættisins að ekki væri grundvöllur fyrir frekari rannsókn málsins og að henni hefði verið hætt.

 Varnaraðili aflaði læknisvottorðs, örorkumats og annarra gagna til undirbúnings kröfugerðar fyrir sóknaraðila og var endanleg bótakrafa sett fram 17. desember 2004.

 Varnaraðili kallað eftir upplýsingum frá lögreglu þann 6. janúar 2005 um stöðu á rannsókn málsins. Daginn eftir fékk hann þau svör að rannsókninni hefði lokið í maí 2004 og málsaðilum hefði verið send tilkynning þar að lútandi.

 Í niðurstöðu bótanefndarinnar, er lá fyrir x. júlí 200x, var bótakröfu sóknaraðila hafnað.

 Varnaraðili kynnti niðurstöðuna sóknaraðila og kvaðst ekki vera sammála henni. Taldi hann rétt að láta reyna á réttmæti niðurstöðunnar fyrir dómi. Hann kvaðst hins vegar ekki vera reiðubúinn til að leggja frekari vinnu í málið nema sóknaraðili greiddi a.m.k. útlagðan kostnað og helst inn á áfallna þóknun. Það hefði sóknaraðili ekki viljað gera.

 Varnaraðili gaf út reikning þann 13. október 2005, að fjárhæð 349.768 krónur. Áskilin þóknun nam 198.207 krónum, útlagður kostnaður nam 103.000 krónum og virðisaukaskattur nam 48.561 krónu. Reikningurinn fékkst ekki greiddur og því var höfðað mál þann x. janúar 200x gegn sóknaraðila til innheimtu reikningnum. Málið var þingfest í Héraðsdómi A x. febrúar 200x og stefnan árituð um aðfararhæfi þann x. febrúar 200x.

 II.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurðarnefnd lögmanna fari yfir reikning varnaraðila, vegna upphæðar áskilinnar þóknunar og vegna útlagðs kostnaðar. Telur sóknaraðili að varnaraðila hefði átt að vera ljóst að málið væri tapað, eftir að lögregla ákvað að ákæra ekki árásarmanninn. Eftir það hefði varnaraðili beðið um örorkumat, sem kostaði 84.800 krónur. Fer sóknaraðili fram á að skoðað verði hvort vinnubrögð varnaraðila hefðu verið eðlileg og jafnframt að reikningurinn verði leiðréttur.

 III.

Í greinargerð sinni reifar varnaraðili atvik málsins og hvernig staðið var að hagsmunagæslunni fyrir sóknaraðila. Kveður hann sóknaraðila og föður hans hafa verið mjög mikið í sambandi við sig, þeir hafi oft hringt vegna þess að þeim hafi fundist málið taka of langan tíma.

 Varnaraðili kveður sóknaraðila ekki hafa verið tilbúinn til að greiða útlagðan kostnað í málinu og inn á áfallna þóknun. Hafi sóknaraðili talið varnaraðila ekki eiga rétt á neinum greiðslum fyrr en hann hefði innheimt bæturnar. Því hefði varnaraðili ekki verið sammála og hafi málinu lokið svo að hann sendi sóknaraðila reikning þann 13. október 2005 ásamt bréfi, þar sem hann var hvattur til að bera niðurstöðu bótanefndarinnar undir dómstóla. Með bréfinu hafi fylgt ljósrit tveggja hæstaréttardóma, þar sem reynt hafði á niðurstöðu bótanefndarinnar og henni verið hnekkt.

 Varnaraðili krefst þess að þeim þætti kvörtunar sóknaraðila, er varðar hinn umdeilda reikning, verði vísað frá nefndinni, en fyrir liggi árituð stefna héraðsdóms um reikninginn.

 Varnaraðili kveður það vera alrangt að honum hefði átt að vera ljóst að þar sem ekki var ákært í málinu fengjust bætur ekki greiddar. Í fjölda tilvika hefðu bætur fengist greiddar þótt gerandi hefði ekki verið ákærður.

 Varnaraðili krefst málskostnaðar úr hendi sóknaraðila vegna reksturs máls þessa fyrir úrskurðarnefndinni.

 Niðurstaða.

 I.

Í bréfi úrskurðarnefndar lögmanna til sóknaraðila, dags. 31. mars 2006, var honum gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð varnaraðila. Honum var bent á að samkvæmt 3. mgr. 26. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, bæri úrskurðarnefndinni að vísa frá sér ágreiningsmáli um þóknun lögmanns þegar dómsmáli væri lokið um sama ágreiningsefni. Sóknaraðili tjáði sig ekki um málið.

 Með vísan til framangreinds ákvæðis lögmannalaga er þeim þætti málsins, er varðar umdeildan reikning varnaraðila, vísað frá nefndinni.

 II.

Af þeim gögnum, er fylgdu greinargerð varnaraðila, má ráða að umtalsverð vinna hefur farið í gagnaöflun og framsetningu kröfugerðar. Ekki verður annað séð en að varnaraðili hafi fyrst í janúar 2005 fengið upplýsingar um að rannsókn lögreglumálsins hefði lokið í maí 2004. Þá má fallast á þá afstöðu varnaraðila að það, að rannsókn kærumáls vegna líkamsárásar lýkur án ákæru, felur ekki sjálfkrafa í sér að bótakrafa fáist ekki greidd úr ríkissjóði á grundvelli laga nr. 69/1995.

 Með vísan til þessa og gagna málsins að öðru leyti telur úrskurðarnefndin að varnaraðili hafi ekki í störfum sínum fyrir sóknaraðila gert á hlut hans með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

 Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 Varnaraðili, T, hrl., hefur í störfum sínum fyrir sóknaraðila, S, við hagsmunagæslu vegna líkamsárásar, ekki gert á hlut hans með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 Ágreiningi um áskilin verklaun varnaraðila er vísað frá nefndinni.

 Málskostnaður fellur niður.

 ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA