Mál 16 2006

Ár 2007, fimmtudaginn 28. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

 Fyrir var tekið mál nr. 16/2006:

 

F

gegn

S, hrl.,

og G, hrl.

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R :

 Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 22. maí 2006 frá H, fyrir hönd F, sóknaraðila, er varðaði meinta oftekna þóknun S, hrl., og G, hrl., varnaraðila, fyrir flutning máls í Hæstarétti Íslands.

 Afstaða varnaraðila liggur fyrir í bréfi, dags. 27. nóvember 2006. Sóknaraðili gerði athugasemdir við greinargerðina í bréfi, dags. 7. janúar 2007. Varnaraðilar hafa ekki tjáð sig frekar um málið.

Málsatvik og málsástæður.

  I.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að á árinu 200X höfðaði sóknaraðili dómsmál gegn X hf. vegna ágreinings í lok leigutíma um eignarhald á búnaði til eldsneytissölu á lóð sóknaraðila, samkvæmt leigusamningi aðila. Krafa sóknaraðila laut að því að fá viðurkenndan eignarréttinn að búnaðinum og endurgreiðslu á 5,5 milljónum króna auk vaxta frá stefnda á andvirði búnaðarsins, sem sóknaraðili hafði greitt X hf. með fyrirvara um eignarréttinn. Sóknaraðili hafði selt Z hf. lóðina og búnað, en fyrirvari var gerður í þeim kaupum um tækjabúnaðinn vegna ágreiningsins um eignarhaldið á honum. Yrði kröfu sóknaraðila á hendur X hf. hafnað greiddi Z hf. sóknaraðila helming stefnufjárhæðarinnar, eða 2.750.000 krónur.

 Með dómi Héraðsdóms Y í desember 200x var hafnað kröfum sóknaraðila. Af því tilefni leitaði sóknaraðili til varnaraðila með áfrýjun dómsins í huga. Að ráði varð að áfrýja dóminum í mars 200x og þann xx. október 200x var í dómi Hæstaréttar Íslands, í málinu nr. xxx/200x, fallist á kröfur sóknaraðila á hendur X hf., sem var dæmt til að greiða sóknaraðila 5,5 milljónir króna auk vaxta. Þá var félaginu gert að greiða sóknaraðila (áfrýjanda) málskostnað að fjárhæð 800.000 krónur í héraði og fyrir Hæstarétti.

 Varnaraðilar unnu í upphafi saman að málinu en G, hrl., flutti málið í Hæstarétti.

 Fram kemur í gögnum málsins að lögmaður sá, sem flutti málið í héraði, áskildi sér 200.000 krónur í verklaun.

 Fyrir milligöngu varnaraðila var dómkrafan gerð upp og fékk sóknaraðili uppgjör frá varnaraðilum ásamt málskostnaðarreikningi sem nam 991.964 krónum, þar af nam útlagður kostnaður 63.815 krónum og virðisaukaskattur 182.648 krónum.

 Í viðræðum sóknaraðila og varnaraðila í undirbúningi að áfrýjun málsins var rætt um hver kostnaður af málarekstrinum gæti orðið. Sóknaraðili taldi sig hafa fengið uppgefið fast verð frá varnaraðilum, að fjárhæð 750.000 krónur. Að undangengnum nokkrum skoðanaskiptum milli þeirra leitaði hann til úrskurðarnefndar lögmanna með erindi það, sem hér er til úrlausnar.

 II.

Í erindi sóknaraðila kemur m.a. fram að hann telur sig hafa samið um fasta fjárhæð til varnaraðila, 750.000 krónur, fyrir áfrýjun málsins til Hæstaréttar. Varnaraðilar hafi hins vegar krafið sig um tæplega 242.000 króna hærri fjárhæð en umsamin var. Vísar sóknaraðili, máli sínu til stuðnings, til tölvupóstsamskipta umboðsmanns síns, H, við varnaraðila, fram að því að ákvörðun um áfrýjun málsins var tekin. Er meðal annars vísað til tölvupósts varnaraðila þann 7. mars 2005 þar sem fram koma upplýsingar um tölulega þætti málsins. Þar er þess getið að ef málinu yrði áfrýjað og það tapaðist, greiddi Z 2 milljónir króna til sóknaraðila og 750.000 krónur til lögmannsstofu varnaraðila. Þá vísar sóknaraðili til tölvupósts til varnaraðila þann 10. mars 2005, þar sem spurt er hvort fjárhæðin eigi að vera 500.000 eða 750.000 krónur. Í svari varnaraðila sama dag hafi komið fram að líklega yrði upphæðin 750.000 krónur, þar af væri einhver hluti sem færi í útlagðan kostnað við áfrýjun.

 Sóknaraðili kveðst hafa talið að einungis eitt verð væri í gangi, ekki eitt ef málið tapaðist og annað ef málið ynnist. Hann kveðst aldrei hafa fengið neina vísbendingu frá varnaraðilum um að upphæðin yrði önnur ef málið ynnist. Hann kveðst jafnframt aldrei hafa séð það ákvæði gjaldskrár lögmannsstofu varnaraðila, þar sem kveðið er á um að lögmönnum sé heimilt að áskilja sér hluta af fjárhæð máls og hærri þóknun ef mál vinnst en ef það tapast.

Sóknaraðili leggur áherslu á að mestu máli skipti fyrir sig að fá úr því skorið hvort hann hafi verið búinn að semja um fast verð fyrir þjónustu varnaraðila eða ekki.

Sóknaraðili krefst þess að varnaraðilum verði gert að endurgreiða sér 242.000 krónur, sem er mismunur á 992.000 krónum samkvæmt reikningi varnaraðila og umsömdum 750.000 krónum fyrir verkið. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

III.

Varnaraðilar krefjast þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að sóknaraðili verði úrskurðaður til þess að greiða þeim málskostnað.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar kveða varnaraðilar umboðsmann sóknaraðila hafa leitað til sín í febrúar 2005 vegna hugsanlegrar áfrýjunar héraðsdómsins. Mjög hafi velkst fyrir sóknaraðila hvort taka ætti ákvörðun um áfrýjun eða ekki. Til þess að auðvelda ákvörðun um framhald málsins hafi þeir sent sóknaraðila þrjá kosti. Í fyrsta lagi að yrði málinu ekki áfrýjað greiddi Z sóknaraðila 2.750.000 krónur. Í öðru lagi að yrði málinu áfrýjað og það tapaðist greiddi Z sóknaraðila 2 milljónir króna og lögmannsstofu varnaraðila 750.000 krónur. Í þriðja lagi að yrði málinu áfrýjað og það ynnist greiddi X hf. sóknaraðila 6.050.000 krónur, þ.e. höfðustól 5,5 milljónir króna auk vaxta. Varnaraðilar telja sig þannig hafa gefið sóknaraðila fasta tölu vegna kostnaðar færi málið á versta veg og það tapaðist í Hæstarétti. Kostnaður hans næmi þá 750.000 krónum.

Varnaraðilar kveða sönnunarfærslu og uppbyggingu málsins fyrir héraðsdómi hafa verið verulega áfátt og m.a. hafi ekki verið kallað til lykilvitni sem gat varpað ljósi á það. Þess vegna hafi verið tekin ákvörðun um að höfða sérstakt vitnamál til þess að fá frekari upplýsingar. Eftir höfðun vitnamálsins og skýrslutöku í því hafi X hf. höfðað annað vitnamál til að freista þess með einhverju móti að hrekja það sem fram hefði komið í fyrra vitnamálinu. Varnaraðilar telja að farvegur málsins hafi breyst vegna upplýsinga er komu fram í vitnamálinu og hafi það orðið til þess að fallist var að öllu leyti á kröfur sóknaraðila í Hæstarétti.

Varnaraðilar kveða aldrei hafa verið gefið í skyn að fullnaðarkostnaður yrði 750.000 krónur ynnist málið. Þá gilti einfaldlega gjaldskrá lögmannsstofunnar sem umboðsmaður sóknaraðila hefði kynnt sér. Hefðu 750.000 krónur átt að vera fullnaðargreiðsla mætti leiða að því líkum að tæpast hefði verið lagt í þá viðbótarvinnu sem fólst í vitnamálunum til þess að lagfæra málið.

Varnaraðilar benda á að í gjaldskrá lögmannsstofu sinnar kæmi skýrlega fram að lögmönnum væri heimilt að áskilja sér hluta af fjárhæð máls og hærri þóknun ef mál ynnist en ef það tapaðist. Væri þetta ákvæði eðlilegt og alkunna innan lögmannastéttarinnar.

Varnaraðilar kveða endanlega þóknun málsins hafa verið í samræmi við þá fjárhagslegu hagsmuni sem sóknaraðili hafði af niðurstöðu þess, samkvæmt gjaldskrá lögmannsstofunnar. Ekki hafi verið tekið sérstaklega fyrir vitnamálin sem höfðuð voru, undirbúning þeirra og framkvæmd. Ætla hafi mátt að kostnaður við hvort málið um sig hafi verið um 100.000 krónur auk virðisaukaskatts. Hafi sóknaraðila því verið veittur verulegur afsláttur af vinnu lögmannanna við áfrýjun málsins.

Varnaraðilar telja fjárhæð hins umþrætta reiknings hafa verið mjög í hóf stillt, miðað við vinnu og árangur. Þá telja þeir að ekki hafi verið brotið gegn neinu samkomulagi um þóknun í málinu.

Niðurstaða.

I.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna getur lögmaður eða umbjóðandi hans, annar hvor eða báðir, lagt ágreining um rétt lögmannsins til endurgjalds fyrir störf sín, eða fjárhæð þess, fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Mál þetta er lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna á þeim grunni að samið hafi verið fyrirfram um fast gjald fyrir þjónustu varnaraðila og því hafi þeim verið óheimilt að áskilja sér hærra endurgjald.

II.

Enginn skriflegur samningur liggur fyrir um þjónustu varnaraðila við áfrýjun og rekstur málsins fyrir Hæstarétti og verklaun. Sóknaraðili telur sig þó hafa samið við þá um fasta fjárhæð, 750.000 krónur, fyrir málareksturinn.

Ekki er um það deilt að nokkur umræða fór fram um kostnað er kynni að hljótast af málarekstrinum, eins og framlögð tölvupóstsamskipti varnaraðila við umboðsmann sóknaraðila bera með sér.

Í tölvupósti varnaraðila til umboðsmanns sóknaraðila þann 7. mars 2005 er greint frá þremur kostum að því er varðaði ákvörðunina um áfrýjun málsins og þann kostnað er gæti hlotist af henni. Í öðrum tölulið er greint frá því að yrði málinu áfrýjað og það tapaðist greiddi Z 2 milljónir króna til sóknaraðila og 750.000 krónur til lögmannsstofu varnaraðila. Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að sú fjárhæð, er þannig rynni til lögmannsstofunnar, fæli í sér skerðingu á samningsbundinni greiðslu Z til sóknaraðila, eða með öðrum orðum að það væri sóknaraðili er þannig greiddi 750.000 krónur í málskostnað, tapaðist málið fyrir Hæstarétti. Ekki er getið um málskostnað við áfrýjun málsins í hinum tveimur töluliðunum í þessum tölvupósti varnaraðila.

Í tölvupósti varnaraðila þann 10. mars 200x er spurst fyrir um afstöðu sóknaraðila til áfrýjunar málsins. Jafnframt er tekið fram að umbjóðandi varnaraðila (Z) vildi væntanlega ekki greiða sérstaklega fyrir áfrýjunina. Umboðsmaður sóknaraðila svaraði þessum tölvupósti um hæl og kvaðst þurfa að vita hver upphæðin yrði, 500 eða 750 þúsund. Í öðru lagi var tekið fram að liggja þyrfti fyrir hvað Z ætlaði að gera, ekki bara „væntanlega“, til þess að hægt yrði að leggja málið fyrir sóknaraðila til ákvörðunar um áfrýjun málsins.

Í svari varnaraðila til umboðsmanns sóknaraðila sama dag var ritað: „Tel líklegt að upphæðin verði 750 þkr. – þar af er e-h hluti sem fer í útlagðan kostnað við áfrýjun – ágripsgerð – þingfestingargjald og fleira. Z mun ekki koma sérstaklega að áfrýjuninni.

Í þessum samskiptum aðila um kostnað við áfrýjun málsins, eins og þau birtast í tölvupóstinum, var ekki fjallað um málskostnað er kynni að fást tildæmdur úr hendi X hf., ynnist málið í Hæstarétti.

 Eins og mál þetta liggur fyrir úrskurðarnefnd lögmanna telur hún að framangreind samskipti hafi fyrst og fremst snúist um þann kostnað er sóknaraðili kynni að þurfa að greiða til  varnaraðila, yrði tekin ákvörðun um áfrýjun málsins og það tapaðist í Hæstarétti. Að mati nefndarinnar fól það svar varnaraðila, að líklega yrði upphæðin 750.000 krónur, ekki í sér bindandi ákvörðun um endurgjald fyrir áfrýjun málsins ef það ynnist, enda lá þá eðli málsins samkvæmt engin ákvörðun fyrir um málskostnað er kynni að falla sóknaraðila í skaut, ynnist málið fyrir Hæstarétti. Með vísun til þessa er hafnað þeirri staðhæfingu sóknaraðila að komist hafi á samningur við varnaraðila um fast verð fyrir þjónustu þeirra, 750.000 krónur.

III.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem unnt er, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi hans fær greidda í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast.

 Fram er komið í málinu að tildæmdur málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti, úr hendi X hf. til sóknaraðila, nam 800 þúsund krónum. Lögmaður sá, er rak málið í héraði fyrir sóknaraðila, áskildi sér 200 þúsund krónur í endurgjald. Þannig runnu 600 þúsund krónur upp í verklaun varnaraðila en sóknaraðili greiddi sjálfur 391.964 krónur.

 Reikningsfjárhæð varnaraðila nam 745.501 krónu auk útlagðs kostnaðar að fjárhæð 63.815 krónur og virðisaukaskatts að fjárhæð 182.648 krónur, eða alls 991.964 krónur. Samkvæmt upplýsingum varnaraðila fór um útreikning þóknunarinnar eftir hagsmunatengdri gjaldskrá lögmannsstofu þeirra.

 Hagsmunatenging þóknunar er viðurkennd aðferð við útreikning endurgjalds á mörgum sviðum viðskiptalífsins, hjá einkaaðilum og opinberum aðilum, og hún hefur tíðkast mjög lengi hjá lögmönnum, hvort sem þeir áskilja sér þóknun úr hendi umbjóðanda síns eða beina kröfu um greiðslu innheimtukostnaðar eða málskostnaðar til gagnaðila umbjóðanda síns.

 Óumdeilt er að góður árangur náðist í málarekstrinum fyrir Hæstarétti. Kröfur sóknaraðila voru að fullu teknar til greina. Í því ljósi telst áskilið endurgjald varnaraðila fyrir málflutningsstörfin, en það reiknast samkvæmt ákvæði í gjaldskrá lögmannsstofu þeirra um hagsmunatengda þóknun, vera hæfilegt í skilningi 24. gr. lögmannalaga.

 Rétt er að málskostnaður falli niður.

 Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Endurgjald varnaraðila, S, hrl., og G, hrl., fyrir rekstur og flutning hæstaréttarmálsins nr. xxx/200x fyrir sóknaraðila, F, telst vera hæfilegt 745.501 króna auk virðisaukaskatts og útlagðs kostnaðar.

Málskostnaður fellur niður.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA