Mál 3 2006

Ár 2007, mánudaginn 22. janúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

 Fyrir var tekið mál nr. 3/2006:

 

O,

H

og K

gegn

J, hrl.

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R :

 Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 12. janúar 2006 frá O, H og K, sóknaraðilum, sem varðar ágreining um áskilda þóknun J, hrl., varnaraðila, fyrir málflutningsstörf hans i í þágu sóknaraðila.

 Afstaða varnaraðila liggur fyrir í bréfi, dags. 23. febrúar 2006. Sóknaraðilum var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð varnaraðila, sem þeir gerðu í bréfi, dags. 19. mars 2006. Varnaraðili gerði nokkrar athugasemdir vegna þessa, í bréfi til nefndarinnar þann 18. apríl 2006.

Málsatvik og málsástæður.

  I.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að þann 6. apríl 2004 var skipið A selt nauðungarsölu við embætti sýslumannsins á B. Varnaraðili og samstarfsmaður hans, C, hdl., gættu hagsmuna sóknaraðila og nokkurra annarra skipverja við nauðungarsöluna, m.a. með því að lýsa launakröfum sóknaraðila í uppboðsandvirði skipsins. Þeir héldu fram hagsmunum sóknaraðila þegar hæstbjóðandi andmælti þeirri afstöðu sýslumanns, er birtist í frumvarpi að úthlutun af uppboðsandvirðinu, að samþykkja launakröfur sóknaraðila, eins og varnaraðili og samstarfsmaður hans höfðu lagt fram. Hæstbjóðandi skaut ákvörðun sýslumanns til héraðsdóms, sem í úrskurði, uppkveðnum xx. ágúst 2005, staðfesti ákvörðun hans um að úthluta til sóknaraðila í samræmi við kröfulýsingar.

 Sóknaraðili H fékk þannig úthlutað af uppboðsandvirðinu 3.824.175 krónum, en í þeirri tölu voru vextir og innheimtukostnaður. Nam innheimtukostnaðurinn alls 309.133 krónum, þ.m.t. mót vegna nauðungarsölu, ritun kröfulýsingar og virðisaukaskattur. Að auki var H dæmdur málskostnaður að fjárhæð 380.000 krónur auk virðisaukaskatts.

 Sóknaraðili O fékk úthlutað 4.955.683 krónum, þar með taldir vextir og innheimtukostnaður. Nam innheimtukostnaðurinn alls 349.873 krónum, þ.m.t. mót vegna nauðungarsölu, ritun kröfulýsingar og virðisaukaskattur. Málskostnaður var ákveðinn 500.000 krónur auk virðisaukaskatts.

 Sóknaraðili K fékk úthlutað 2.726.186 krónum, en að frádregnum 19.106 krónum, þar með taldir vextir og innheimtukostnaður. Nam innheimtukostnaðurinn alls 245.141 krónu, þ.m.t. mót vegna nauðungarsölu, ritun kröfulýsingar og virðisaukaskattur. Málkostnaður var ákveðinn 270.000 krónur auk virðisaukaskatts.

 Innheimtuþóknun vegna launakrafnanna þriggja nam þannig alls 726.223 krónum auk virðisaukaskatts.

 Úrskurður héraðsdóms var kærður til Hæstaréttar Íslands. Í dómi réttarins, uppkveðnum xx. október 200X, var ákvörðun sýslumanns staðfest, með lítilsháttar breytingum fyrir nokkra varnaraðilanna. Hæstbjóðandi, kærandi fyrir Hæstarétti, var jafnframt dæmdur til að greiða sóknaraðilum, hverjum fyrir sig, 100.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað, en að öðru leyti var málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður felldur niður.

 Haustið 200X lést samstarfsmaður og meðeigandi varnaraðila að lögmannsstofunni, C. Varnaraðili verður eftir það talinn hafa gætt hagsmuna sóknaraðila.

 Varnaraðili sendi sóknaraðilum uppgjör launakrafnanna, eftir úthlutun af uppboðsandvirðinu. Á uppgjörunum eru tilgreind laun þeirra samkvæmt kröfulýsingu auk vaxta og tildæmds kostnaðar. Innheimtukostnaður vegna reksturs mála um launakröfur þeirra fyrir sýslumanni var ekki tilgreindur í uppgjörinu. Samkvæmt uppgjörunum dró varnaraðili frá málskostnað fyrir héraðsdómi og málskostnað fyrir Hæstarétti, þar með talinn virðisaukaskatt, auk útlagðs kostnaðar. Þá var dreginn frá fjármagnstekjuskattur vegna vaxta þeirra, sem komu í hlut sóknaraðila.

 Frádráttur málskostnaðar og útlagðs kostnaðar vegna launakröfu H nam þannig alls 1.216.136 krónum, þar af nam áskilin þóknun vegna reksturs málsins í héraði 740.708 krónum og 185.177 krónum vegna skriflegs málflutnings í Hæstarétti. Útlagður kostnaður nam 26.352 krónum og fjármagnstekjuskattur 37.058 krónum.

 Frádráttur málskostnaðar og útlagðs kostnaðar vegna launakröfu O nam alls 1.532.326 krónum, þar af nam áskilin þóknun vegna reksturs málsins í héraði 937.046 krónum og 234.262 krónum vegna skriflegs málflutnings í Hæstarétti. Útlagður kostnaður nam 26.352 krónum og fjármagnstekjuskattur 47.696 krónum.

 Frádráttur málskostnaðar og útlagðs kostnaðar vegna launakröfu K nam alls 910.319 krónum, þar af nam áskilin þóknun vegna reksturs málsins í héraði 551.149 krónum og 137.787 krónum vegna skriflegs málflutnings í Hæstarétti. Útlagður kostnaður nam 26.352 krónum og fjármagnstekjuskattur 26.241 krónu.

 Samtals nam áskilin þóknun varnaraðila fyrir flutning málanna í héraði og fyrir Hæstarétti 2.786.129 krónum. Heildarþóknun varnaraðila vegna innheimtu launakrafnanna, þ.e. innheimtuþóknun og málflutningsþóknun, nam þannig 3.512.352 krónum, auk útlagðs kostnaðar og virðisaukaskatts.

 Uppgjör varnaraðila urðu sóknaraðilum tilefni erindis þeirra til úrskurðarnefndar lögmanna, sem hér er til úrlausnar.

 II.

Í erindi sóknaraðila kemur m.a. fram að þeir telja málskostnað vegna reksturs héraðsdóms- og hæstaréttarmálanna alltof háan. Telja þeir þóknun varnaraðila langt í frá vera hæfilega eða sanngjarna, miðað við umfang málanna. Sóknaraðilar benda á að enginn skriflegur samningur hafi verið milli þeirra og varnaraðila um þóknun. Hins vegar hafi verið munnlegt samkomulag milli þeirra og C um mjög sanngjarna þóknun, að því tilskildu að allir skipverjar stæðu saman að málarekstrinum. Sóknaraðilar telja skorta upplýsingar í uppgjör varnaraðila og að þar hafi t.d. ekki verið gerð grein fyrir innheimtukostnaðinum vegna reksturs málanna fyrir sýslumanni.

III.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar rekur varnaraðili ítarlega málavexti frá sínum sjónarhóli. Gerir hann þar m.a. grein fyrir tilurð launakrafnanna og hvernig fjárhæð þeirra var fundin. Þá gerir hann grein fyrir gjaldtöku lögmannsstofu sinnar í dómsmálum, sem fer eftir gjaldskrá stofunnar. Varnaraðili kveður aldrei hafa komið til tals milli sín og C að sóknaraðilar nytu sérstakra kjara vegna meðferðar málanna fyrir sýslumanni og dómstólum.

 Varnaraðili kveðst bera áhættuna af því ef mál tapast, þ.e. að þá fær hann engan þóknun og ber jafnvel sjálfur útlagðan kostnað af máli. Hann rekur síðan það ákvæði gjaldskrárinnar, sem fjallar um málflutningsþóknun, en þar er kveðið á um grunngjald og síðan hagsmunatengda þóknun. Kveðst varnaraðili jafnan miða við 80% af þeirri fjárhæð, sem þannig reiknast, þegar um munnlegan flutning fyrir Hæstarétti sé að ræða. Í tilviki sóknaraðila hafi hins vegar verið um skriflegan málflutning að ræða og því hefði verið miðað við ca. 25% af þóknun samkvæmt ákvæði gjaldskrárinnar.

 Varnaraðili kveðst, með vísan til umfangs málsins, kröfugerðar fyrir sýslumanni og þeirrar vinnu sem lögð var í málið á vegum lögmannsstofunnar, telja hina áskildu þóknun hæfilega.

 Niðurstaða.

 I.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem unnt er, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast.

 Hagsmunatenging þóknunar er viðurkennd aðferð við útreikning endurgjalds á mörgum sviðum viðskiptalífsins, hjá einkaaðilum og opinberum aðilum, og hún hefur tíðkast mjög lengi hjá lögmönnum, hvort sem þeir skilja sér þóknun úr hendi umbjóðanda síns eða beina kröfu um greiðslu innheimtukostnaðar eða málskostnaðar til gagnaðila umbjóðanda síns. Ákveðin hagkvæmnisrök liggja að baki þessari aðferð auk þess sem í henni geta falist áhættusjónarmið, þ.e. að þóknun getur orðið að tiltölu lág ef litlir hagsmunir vinnast eða greiðast, en að tiltölu há eftir því sem meiri hagsmunir fást viðurkenndir eða greiddir.

 Lögmaður er að jafnaði ekki bundinn við málskostnaðarákvörðun dómara þegar kemur að útreikningi endurgjalds fyrir unnið verk, en endurgjaldið verður að vera hæfilegt í skilningi 24. gr. lögmannalaga.

 Löng dómaframkvæmd er fyrir því að það hvíli á lögmanni að sýna fram á að hann hafi fyrirfram upplýst umbjóðanda sinn um áætlaðan verkkostnað í máli og hvaða aðferð verði beitt við gjaldtöku, sbr. t.d. hrd. 1996-4171. Ekki liggur fyrir skriflegur samningur um verkefni það, sem lögmannsstofa varnaraðila tók að sér fyrir sóknaraðila. Gegn neitun sóknaraðila verður ekki talið að þeir hafi verið upplýstir fyrirfram um hver verkkostnaðurinn gæti orðið eða að gjaldskrá lögmannsstofu varnaraðila hafi sérstaklega verið kynnt þeim.

II.

Í kröfulýsingu í uppboðsandvirði A var gerð krafa um hagsmunatengda innheimtuþóknun. Hagsmunagæslu varnaraðila fyrir sóknaraðila lauk þó ekki þar með, þar sem hæstbjóðandi skaut ágreiningi vegna úthlutunargerðarinnar til dómstóla. Hinir fjárhagslegu hagsmunir, sem hagsmunagæsla varnaraðila snerist um fyrir dómi, voru í megindráttum þeir sömu og sýslumaður hafði ákvarðað um, þó svo Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu að málatilbúnaður hæstbjóðandans í dómsmálunum hafi eingöngu varðað þann þáttinn er laut að rétti sjómannanna til að fá viðurkenndan sjóveðrétt fyrir launakröfum sínum í skipinu.

 Löng hefð er fyrir því að við innheimtu krafna beina lögmenn kröfu um hagsmunatengda innheimtuþóknun til skuldara og nú til dags fer um útreikning hennar eftir gjaldskrá hvers lögmanns eða lögmannsstofu. Þurfi að sækja kröfuna með málsókn fyrir dómi breytist eðli þess kostnaðar, sem skuldarinn er krafinn um, úr innheimtukostnaði í málskostnað. Innheimtukostnaðurinn víkur þannig fyrir málskostnaðarkröfu en kemur ekki til viðbótar henni. Að mati úrskurðarnefndar standa engin rök til þess að beita annarri reglu í þessu máli, þó svo það hafi verið gagnaðili, hæstbjóðandinn, sem skaut ágreiningnum um úthlutunargerð sýslumanns til dómstóla. Nefndin telur þannig engin rök vera fyrir því að reikna fyrst hagsmunatengda innheimtuþóknun í málum sóknaraðila fyrir sýslumanni og svo til viðbótar því hagsmunatengda málflutningsþóknun við gæslu sömu hagsmuna fyrir dómi.

 Að þessu virtu telur nefndin að hæfilegt endurgjald í skilning 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga til varnaraðila fyrir innheimtu launakrafna sóknaraðila, þ.m.t. málsvörn fyrir héraðsdómi og í Hæstarétti, taki mið af þeim kafla gjaldskrár lögmannsstofu hans, þar sem fjallað er um hagsmunatengda málflutningsþóknun, þannig að miðað sé við dæmda fjárhæð og vexti. Nefndin telur þannig rétt að reikna hagsmunatengda málflutningsþóknun samkvæmt gjaldskránni fyrir flutning málanna í héraðsdómi og til viðbótar 25% af þóknuninni, þannig reiknaðri, fyrir skriflegan flutning málanna í Hæstarétti, eins og varnaraðili áskildi sér.

Samkvæmt framangreindu reiknast hæfilegt endurgjald varnaraðila fyrir hagsmunagæslu í þágu sóknaraðila þannig (reiknast af höfuðstól launakröfu auk vaxta):

H:

Málflutningsþóknun í héraði       kr.    784.451 (reiknast af 3.487.483+370.580)

Málflutningsþóknun í HR           kr.    196.113

Vsk.                                         kr.    240.238

                                                ___________

Samtals                                     kr. 1.220.802

K:

Málflutningsþóknun í héraði       kr. 576.873 (reiknast af 2.442.440+262.409)

Málflutningsþóknun í HR           kr. 144.218

Vsk.                                         kr. 176.667

                                                _________

Samtals                                     kr. 897.759

O:

Málflutningsþóknun í héraði       kr.    963.825 (reiknast af 4.573.403+476.957)

Málflutningsþóknun í HR           kr.    240.956

Vsk.                                         kr.    295.171

                                                ___________

Samtals                                     kr. 1.499.952

Varnaraðili tók við fjármunum við úthlutun uppboðsandvirðisins, að gengnum dómi Hæstaréttar. Þá hefur hann tekið við tildæmdum málskostnaði úr hendi hæstbjóðanda, 100.000 krónur vegna hvers sóknaraðila. Uppgjör vegna hvers og eins sóknaraðila tekur þannig mið af eftirfarandi:

H:

Úthlutun af uppboðsandvirði       kr. 4.167.196 (3.824.175-27.559+370.580)

Tildæmd málflutningsþókn.         kr.    100.000

                                                ___________

Mótt. fjármunir                          kr. 4.267.196

Til frádráttar:

- endurgjald skv. framangr.        kr. 1.220.802

- fjármagnstekjusk.                    kr.      37.058

- útl. kostn.                                kr.      26.352

                                                ___________

Til H                                         kr. 2.982.984

Greitt H            skv. uppgjöri     kr. 2.741.927

                                                ___________

Óuppgert við H                         kr.    241.057

K:

Úthlutun af uppboðsandvirði       kr. 2.969.096 (2.726.186-19.499+262.409)

Tildæmd málflutningsþókn.         kr.    100.000

                                                ___________

Mótt. fjármunir                          kr. 3.069.096

Til frádráttar:

- endurgjald skv. framangr.        kr. 897.759

- fjármagnstekjusk.                    kr.   26.241

- útl. kostn.                                kr.   26.352

                                                ___________

Til K                                         kr. 2.118.744

Greitt K skv. uppgjöri                 kr. 1.894.530

                                                ___________

Óuppgert við K                         kr.    224.214

O:

Úthlutun af uppboðsandvirði       kr. 5.400.233 (4.955.683-32.407+476.957)

Tildæmd málflutningsþókn.         kr.    100.000

                                                ___________

Mótt. fjármunir                          kr. 5.500.233

Til frádráttar:

- endurgjald skv. framangr.        kr. 1.499.952

- fjármagnstekjusk.                    kr.      47.696

- útl. kostn.                                kr.      26.352

                                                ___________

Til O                                         kr. 3.926.233

Greitt O skv. uppgjöri                 kr. 3.618.034

                                                ___________

Óuppgert við O                         kr.    308.199

  

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 Hæfilegt endurgjald varnaraðila, J, hrl., fyrir störf í þágu sóknaraðila, H, við innheimtu launakröfu, er 1.220.802 krónur. Varnaraðili endurgreiði sóknaraðila H 241.057 krónur.

 Hæfilegt endurgjald varnaraðila, J, hrl., fyrir störf í þágu sóknaraðila, K, við innheimtu launakröfu, er 897.759 krónur. Varnaraðili endurgreiði sóknaraðila K 224.214 krónur.

 Hæfilegt endurgjald varnaraðila, J, hrl., fyrir störf í þágu sóknaraðila, O, við innheimtu launakröfu, er 1.499.952 krónur. Varnaraðili endurgreiði sóknaraðila O 308.199 krónur.

  

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

 Rétt endurrit staðfestir:

___________________________

Marteinn Másson