Mál 6 2006

Ár 2007, föstudaginn 21. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið mál nr. 6/2006:

R

gegn

S, hrl.

og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 23. janúar 2006 frá P, lögmanni í Álaborg, fyrir hönd R & Co. A/S, kæranda, þar sem kvartað var yfir vinnubrögðum S, hrl., kærðu, í máli sem kærandi fól henni að annast fyrir sig. Greinargerð kærðu til úrskurðarnefndar er dagsett 12. júlí 2006. Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð kærðu, en engar athugasemdir hafa borist.

 Málsatvik og málsástæður.

I.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að í byrjun desember 2004 var kærðu falið að reka mál fyrir dansk fyrirtæki, kæranda, gegn einstaklingi í Reykjavík, sem hafði verið í viðskiptasambandi við kæranda. Í bréfi dansks lögmanns kæranda til kærðu, dags. 2. desember 2004, var gerð grein fyrir því hvers væri óskað af kærðu við málareksturinn. Þá var þess óskað að hún staðfesti móttöku málsgagna. Hinn danski lögmaður kæranda ítrekað fjórum sinnum, í desember 2004 og janúar og febrúar 2005, beiðni um staðfestingu kærðu á móttöku málsins.

 Kærða sendi hinum danska lögmanni tölvupóst 18. febrúar 2005 og afsakaði síðbúið svar sitt. Fram kom í svarinu að það hefði fyrst á árinu 2005 verið hægt að stefna máli kæranda fyrir dómstól og kærða kvaðst ekki vænta skriflegrar greinargerðar gagnaðila fyrr en í marsmánuði. Það færi síðan eftir því hvort gagnaðili héldi uppi vörnum eður ei hversu langan tíma mætti ætla að málareksturinn tæki.

 Þann 23. ágúst 2005 fór danski lögmaðurinn fram á stöðuyfirlit frá kærðu, þ. á m. upplýsingar um hvort kominn væri dómur á hendur gagnaðila. Beiðni sína um stöðuyfirlit ítrekaði lögmaðurinn 5 sinnum í september og október 2005. Í síðustu ítrekunum sínum kvaðst lögmaðurinn mundu snúa sér til Lögmannafélags Íslands bærust honum ekki umbeðnar upplýsingar.

 Í tölvupósti kærðu til hins danska lögmanns, dags. 27. október 2005, baðst hún afsökunar á síðbúnu svari sínu og kvað jafnframt ekki vera búið að dæma í málinu. Óskað kærða eftir viðræðum við lögmanninn áður en hann sendi kvörtun til Lögmannafélagsins. Svar var sent samdægurs frá lögmanninum danska þar sem ítrekuð var beiðni um upplýsingar um stöðu málsins. Ekki yrði beðið með að senda kvörtun til Lögmannafélagsins bærust umbeðnar upplýsingar ekki innan þess frests, sem settur hefði verið.

 Í framhaldi þessara samskipta P og kærðu sendi hann, fyrir hönd kæranda, erindi það til úrskurðarnefndar lögmanna, sem hér er til umfjöllunar.

II.

Í erindi sínu til úrskurðarnefndar lögmanna gerir kærandi alvarlegar athugasemdir við störf kærðu. Krefst hann þess að kærðu verði gert að svara erindinu frá 23. ágúst 2005 og að senda umbeðnar upplýsingar. Þá krefst kærandi þess að Lögmannafélag Íslands taki málið og málsgögn frá kærðu. Hann krefst þess að úrskurðað verði að kærða eigi hvorki rétt til endurgjalds fyrir störf sín né rétt til að krefjast greiðslu á útlögðum kostnaði úr hendi kæranda. Loks krefst kærandi þess að kærða verði beitt ströngum viðurlögum vegna brota henna á góðum lögmannsháttum og að henni verði gert að greiða sér 10.000 danskar krónur í málskostnað vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

 Kærandi styður kröfur sínar þeim rökum að kærða hafi ekkert gert eða aðhafst í því máli sem henni var falið að annast og sem hún tók að sér. Þar á meðal hafi hún ekki gert reka að því að fá dóm fyrir kröfu kæranda á hendur gagnaðila hans. Þá heldur kærandi því fram að kærða hafi ekki hegðað sér sem lögmaður í störfum sínum. Kærandi telur kærðu hafa brotið gegn góðum lögmannsháttum, meðal annars með því að svara ekki skriflegum fyrirspurnum sem beint var til hennar. Kærandi telur svar kærðu í tölvupósti hennar þann 27. október 2005 ekki fela í sér fullnægjandi yfirlit um stöðu málsins.

 Kærandi styður málskostnaðarkröfu sína þeim rökum að hann hafi neyðst til að leita sér lögmannsaðstoðar vegna málsins og því orðið fyrir óþarfa kostnaði.

III.

Í greinargerð kærðu til úrskurðarnefndar lögmanna, dags. 12. júlí 2006, kemur m.a. fram að hún fái ekki séð að það hvíli skylda lögum samkvæmt á henni til að veita andsvör við kvörtunum sem til nefndarinnar kunna að berast. Kærða telur að kröfur þær, sem kærandi setur fram í erindi sínu, verði ekki settar fram við nefndina, sem hafi ekki lögsögu til að leggja fyrir lögmann að svara bréfum, taka mál eða gögn af lögmanni, dæma af lögmanni rétt til þóknunar eða greiðslu fyrir útlögðum kostnaði. Þá telur kærða hvorki vera tilefni til þess að leggja að beita sig ströngum viðurlögum né séu til staðar heimildir til þess að beita sig sektum.

 Kærða kveður um vera að ræða innheimtumál á hendur óskráðu einkafirma eignalauss einstaklings, sem ljóst hafi verið að myndi ekki innheimtast. Óvíst hafi verið hvort kærandi hafi verið tilbúinn til þess að greiða fyrir tilraunir til að innheimta slíka kröfu. Hann hafi sjálfur valið að fara aðra leið en að með kvörtun sinni til úrskurðarnefndar virtist hann vera að reyna að koma innheimtukröfu sinni yfir á kærðu og þar með undirbyggja að hann ætti bótakröfu á hendur henni. Slíkt væri þó fráleitt, enda hefði ekkert tjón orðið.

 Kærða telur að um tilhæfulausa kvörtun sé að ræða sem kunni að vera á misskilningi byggð eða vanþekkingu kæranda eða lögmanns hans og að sér hafi ekki verið gefið réttmætt færi á að bregðast við. Kærða kveðst engin frumgögn hafa undir höndum og hún kveðst engum gögnum halda frá kæranda.

 Kærða krefst þess að erindinu verði í heild eða að öllu verulegu leyti vísað frá nefndinni og til vara að vægustu viðurlögum verði beitt.

 Kærða kveðst biðjast velvirðingar á því að hafa ekki brugðist við bréfum nefndarinnar, sem helgaðist af þeim skilningi sínum að henni bæri ekki lagaskylda til andsvara og í þessu máli hafi hann talið andsvörin óþörf í sjálfu sér.

Niðurstaða.

I.

Úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt ákvæðum lögmannalaga, nr. 77/1998. Um valdsvið nefndarinnar er nánar kveðið í 4. kafla laganna. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laganna getur sá sem telur lögmann hafa í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi, sem stríði gegn lögum eða siðareglum Lögmannafélags Íslands, lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum.

 Samkvæmt 2. mg. 27. gr. lögmannalaga getur nefndin fundið að vinnubrögðum eða háttsemi lögmanns eða veitt honum áminningu. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin brugðist svo við sem um ræðir í 1. mgr. 14. gr. laganna, þ.e. í rökstuddu áliti lagt til við dómsmálaráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum ef sakir eru miklar.

 Eins og rakið er hér að framan krefst kærandi þess að kærðu verði gert að svara fyrirspurn lögmanns hans frá 23. ágúst 2005 um stöðu innheimtumálsins og að kærðu verði gert að senda lögmanninum gögn um að innheimtumálið sé komið af stað. Þá er þess krafist að mál verði tekið af kærðu og loks að ákveðið verði að kærða eigi hvorki rétt til þóknunar fyrir störf sín né rétt til að krefja kæranda um greiðslu útlagðs kostnaðar.

 Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga fellur það utan lögbundins valdsviðs úrskurðarnefndar lögmanna að verða við kröfum af þessu tagi, eins og þær eru settar fram í erindi kæranda. Er þessum kröfuliðum því vísað frá nefndinni.

II.

Þann 9. nóvember 2004 svaraði kærða í tölvupósti fyrirspurn P, lögmanns kæranda í Danmörku, um það hvort hún gæti tekið að sér rekstur innheimtumáls fyrir kæranda. Kvaðst kærða geta það. Kærðu var falinn rekstur málsins í bréfi, dags. 2. desember 2004, en þar var þess óskað að kröfunni yrði komið í aðfararhæft form, eftir atvikum með málsókn fyrir dómi. Óskað var eftir staðfestingu á móttöku málsins. Það var ekki fyrr en um 2½ mánuði síðar, að undangengnum fjórum ítrekunum, sem kærða svaraði lögmanni kæranda og staðfesti móttöku málsins.

 Þá þurfti lögmaður kæranda fimm sinnum að ítreka beiðni sína þann 23. ágúst 2005 um stöðuyfirlit áður en kærða svaraði honum rúmlega tveimur mánuðum síðar.

 Seinagangur kærðu í að svara ítrekuðum fyrirspurnum frá hinum danska lögmanni felur í sér brot á 41. gr siðareglna lögmanna, en samkvæmt því ákvæði skal lögmaður án ástæðulauss dráttar svara bréfum og öðrum erindum, sem honum berast í lögmannsstarfi hans.

III.

Kærða tók að sér rekstur innheimtumáls fyrir kæranda og verður að miða við að hún hafi tekið við málinu og hagsmunagæslunni þann 2. desember 2004 eða skömmu þar á eftir. Í tölvupósti hennar til lögmanns kæranda í Danmörku þann 18. febrúar 2005 kvaðst hún vænta skriflegrar greinargerðar frá gagnaðila í dómsmáli í marsmánuði. Verður svar hennar ekki skilið öðru vísi en svo að þá hafi málsókn fyrir dómi verið hafin.

 Hvorki af tölvupósti kærðu til lögmanns kæranda þann 27. október 2005 né greinargerð kærðu til úrskurðarnefndar lögmanna verður ráðið að hún hafi stefnt skuldaranum fyrir dóm, þrátt fyrir svar hennar þar að lútandi 18. febrúar 2005. Hefur kærða ekki gefið kæranda eðlilegar skýringar um það hvers vegna svo var ekki gert. Hún hefur þannig t.d. ekki lagt fram gögn um ógjaldfærni skuldarans eða ráðið kæranda frá því að reyna innheimtuna vegna ógjaldfærni hans. Engar útskýringar liggja fyrir af hálfu kærðu um það hvort og þá hvað var gert í málinu við innheimtu á kröfu kæranda. Verður ekki séð að innheimtumálið hafi þannig verið rekið áfram með hæfilegum hraða, eins og kveðið er á um í 12. gr. siðareglna lögmanna. Þá veitti kærða rangar upplýsingar um málareksturinn í tölvupósti sínum þann 18. febrúar 2005.

 Að mati úrskurðarnefndar lögmanna eru vinnubrögð kærðu að þessu leyti óviðunandi og ekki í samræmi við þær skyldur sem á henni hvíla sem lögmanni, þegar hún tekur að sér hagsmunagæslu í máli fyrir skjólstæðing, sbr. til dæmis 18. gr. lögmannalaga nr. 77/1998, en samkvæmt því ákvæði ber lögmanni í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem honum er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna.

IV.

Þegar erindi kæranda barst úrskurðarnefnd lögmanna var það sent kærðu og henni veittur frestur til 8. mars 2006 til þess að skila greinargerð sinni um málið. Tilmæli nefndarinnar um að kærða skilaði greinargerð í málinu voru ítrekuð með tölvupósti þann 4. apríl 2006 og aftur þann 24. maí 2006. Tilmælin voru ítrekuð í ábyrgðarbréfi, dags. 27. júní 2006. Loks þann 12. júlí 2006 barst hin umbeðna greinargerð kærðu.

 Samkvæmt 4. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera úrskurðarnefnd lögmanna viðhlítandi grein fyrir máli sínu út af meintu broti eða ágreiningi um skilning á siðareglunum. Ber lögmanni í því efni að svara og sinna án ástæðulauss dráttar fyrirspurnum og kvaðningum nefndarinnar. Dráttur kærðu á að skila nefndinni greinargerð sinni felur í sér brot á þessu ákvæði.

 V.

Samkvæmt framangreindu hefur kærða á ýmsan hátt brotið gegn góðum lögmannsháttum í störfum sínum fyrir kæranda, svo sem með því að svara ekki ítrekuðum fyrirspurnum eða að gera fullnægjandi grein fyrir stöðu innheimtumáls, svo og með því að veita rangar upplýsingar um málsókn fyrir dómi. Þá hefur hún brotið gegn góðum lögmannsháttum með því að draga að gera úrskurðarnefnd lögmanna viðhlítandi grein fyrir máli sínu.

 Að mati nefndarinnar er framferði kærðu ekki í samræmi við þær skyldur sem hvíla á henni sem lögmanni samkvæmt lögmannalögum og siðareglum lögmanna. Með hliðsjón af þeim brotum kærðu, sem hér hefur verið lýst, og með vísun til 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga nr. 77/1998, veitir úrskurðarnefnd lögmanna kærðu áminningu.

VI.

Samkvæmt 3. mgr. 28. gr. lögmannalaga er úrskurðarnefnd lögmanna heimilt að skylda málsaðila til að greiða gagnaðila sínum málskostnað vegna reksturs máls fyrir henni.

Í ljósi málsatvika telur úrskurðarnefndin rétt að kærða greiði kæranda málskostnað vegna reksturs erindis þessa fyrir nefndinni. Þykir málskostnaðurinn hæfilegur 50.000 krónur.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærða, S, hrl., sætir áminningu.

Kærða greiði kæranda 50.000 krónur í málskostnað.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA