Mál 2 2007

Ár 2008, fimmtudaginn 27. mars, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

 Fyrir var tekið mál nr. 2/2007:

 S o.fl.

gegn

J, hrl.

 og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R :

 Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 22. janúar 2007 frá S, persónulega og fyrir hönd N ehf. og O ehf., og B, kærendum, þar sem kvartað var yfir vinnubrögðum J, hrl., kærða, við ráðstöfun fjármuna til greiðslu tiltekinna skulda kærenda. Kærði tjáði sig um erindið í bréfi, dags. 9. febrúar 2007. Kærendum var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð kærða. Í tölvu­pósti frá þeim þann 11. apríl 2007 óskuðu kærendur eftir fresti til loka þess mánaðar til að koma að athugasemdum sínum. Í tölvupósti þann 30. apríl 2007 óskuðu þeir eftir viðbótar­fresti til 29. maí 2007 til að skila athugasemdum sínum, en engar athugasemdir bárust. Í tölvupósti úrskurðarnefndar þann 25. júní 2007 var innt eftir upplýsingum um hvort vænta mætti athugasemda frá kærendum. Daginn eftir var upplýst að kærandi S hefði látist þann x. maí 200x. Jafnframt var óskað eftir viðbótarfresti svo hægt væri að ráðfæra sig við lögmann um framhaldið. Sá frestur var veittur til 15. júlí 2007. Engar athugasemdir hafa borist frá kærendum.

 Málsatvik og málsástæður.

 I.

Í erindi sínu til úrskurðarnefndar lögmanna kvarta kærendur yfir því að kærði hafi vanefnt skuldbindingar sínar um ráðstöfun vörslufjár, sem honum var falið að annast. Um fjármuni var að ræða úr sölu tveggja fasteigna, þar sem fyrirtækið N ehf. var seljandi í öðru tilvikinu en O ehf. í hinu. K hf. var kaupandi beggja fasteignanna. Kaupsamningarnir voru dagsettir 27. og 28. maí 2004.

 Samkvæmt kaupsamingum um eignirnar skyldi tilteknum fjármunum, 3.149.653 krónum og 4.500.000 krónum, alls 7.649.653 krónum, ráðstafað inn á vörslufjárreikning á lögmannsstofu kærða og skyldi þeim fjárhæðum ráðstafað samkvæmt skriflegum fyrirmælum seljenda. Þann 27. maí 2004 var gengið frá skriflegum fyrirmælum seljenda um ráðstöfun fjárins, en þar voru tilgreindar nokkrar skuldir sem greiða skyldi, alls að fjárhæð 9.780.204 krónur.

 Kærendur kveða greiðslur hafa átt að fara fram innan 10 daga frá undirritun, svo fremi sem B aflýsti fjárnámsveði er hún átti í eignarhluta N ehf. Frumrit fjárnámsgerðarinnar hefði verið afhent til aflýsingar á lögmannsstofu kærða þann 3. júní 2004 og þar með hafi verið uppfyllt skilyrði fyrir ráðstöfun vörslufjárins. Kærendur kveða allar skuldir og ábyrgðir B hafa átt að vera í forgangi um greiðslu. Við það hafi ekki verið staðið. Kærendur kveðast hafa verið á vanskilaskrám vegna vanefnda kærða, en ekki hafi þýtt að ræða við hann. Fara þeir fram á að kærði geri grein fyrir því hvernig fjármununum hafi verið ráðstafað.

 II.

Kærði kveður erindi kærenda ekki eiga við nein rök að styðjast. Kveðst kærði hafa komið að málinu fyrir hönd K hf., þar sem m.a. hafi komið við sögu fasteignir og skuldir fyrirtækjanna N ehf. og O ehf. við bankann. Í tengslum við uppgjör hafi bankinn keypt tvær fasteignir af fyrirtækjunum. Um það hafi verið samið að sá hluti kaupverðs, sem renna skyldi til fyrirtækjanna, yrði greiddur inn á fjárvörslureikning lögmannsstofu kærða og honum síðan ráðstafað inn á tilteknar skuldir fyrirtækjanna og annarra er tengdust kærendum. Af þessu tilefni hafi kærandi S undirritað fyrirmæli um ráðstöfun kaupverðsins. Það sem koma skyldi út úr kaupsamningunum hafi verið 7.649.653 krónur. Heildarskuldir á yfirliti kærenda hafi hins vegar numið 9.780.204 krónum. Fullyrðingar í kvörtun kærenda um fjárhæð vörslufjárins hafi því verið rangar.

 Kærði telur starfsmann K hf. hafa gefið kærendum ádrátt um að gefa þeim eftir það sem kynni að standa eftir að skuldum við bankann þegar búið væri að ráðstafa kaupsamningsgreiðsl­unum. Kærði kveðst hins vegar ekki hafa komið að gerð samkomulags þar um. Kærði telur hugsanleg að af þeim ástæðum hafi dregist hjá K hf. að leggja kaupsamningsgreiðslurnar inn á fjárvörslureikning lögmannsstofu sinnar. Greiðslan hafi verið innt af hendi þann 2. sept­ember 2004 samkvæmt yfirliti, en þá hafi 8.261.589 krónur verið greiddar inn á fjárvörslu­reikninginn. Af þeirri fjárhæð hafi 500.000 krónum verið ráðstafað til annarrar lögmannsstofu en sú greiðsla hafi verið óviðkomandi kaupsamningsgreiðslunum. Eftirstöðvunum, 7.761.589 krónum, hafi hins vegar átt að ráðstafa eins og um hafði verið rætt.

 Kærði kveður starfsmann á skrifstofu sinni hafa óskað eftir því við K hf. að bankinn tilgreindi inn á hvaða reikning skyldi greiða peningana. Að fengnum fyrirmælum bankans hafi greiðslan farið fram þann 8. október 2004. Þar með hafi lokið afskiptum kærða af þessu máli. Kærði kveður kæranda S hafa komið að máli við sig löngu síðar og hafi hann þá borið sig illa undan því að K hf. hafi ekki fellt niður eftirstöðvar skuldanna en þess í stað haldið áfram innheimtutilraunum gagnvart B, eiginkonu S, vegna ábyrgða sem hún var í. Kærði kveður S hafa verið upplýstan við það tækifæri um að kaupsamningsgreiðslurnar hefðu borist lögmannsstofunni í september 2004 og þeim hefði verið ráðstafað í framhaldinu inn á lánin, eins og um hafi verið samið. Hlutverki lögmannsstofunnar hafði því verið lokið.

 Kærði telur að kæranda S hafi mislíkað að K hf. skyldi halda áfram innheimtu á hendur eiginkonu sinni og að það sé hin raunverulega ástæða erindis kærenda. Kærði telur ávirðingarnar bersýnilega tilefnislausar og verulega ámælisverðar.

 Kærði kveðst hafa fengið upplýsingar frá K hf. um að mistök hafi verið gerð um afskriftir krafna, en þau mistök hafi verið leiðrétt og eftirstöðvar krafnanna formlega afskrifaðar.

 Með greinargerð kærða fylgdi afrit kaupsamninganna tveggja, kvittun fyrir greiðslu á 7.761.589 krónum frá lögmannsstofu kærða til K hf. þann 8. október 2004, og loks yfirlit úr viðskiptamannabókhaldi lögmannsstofu kærða fyrir N ehf., þar sem fram koma upplýsingar um innborgun og ráðstöfun fjár. Lokunarstaða var núll.

                                                             Niðurstaða.

  Samkvæmt gögnum málsins skyldu 7.649.653 krónur greiðast úr tveimur kaupsamningum um fasteignir inn á fjárvörslureikning kærða. Inn á reikninginn voru lagðir þann 2. september 2004 peningar, en þann 9. október 2004 voru millifærðar 7.761.589 krónur af fjárvörslureikningi lögmannsstofu kærða inn á bankareikning K hf., með skýringunni „v/N ehf.”.  Fyrir liggur kvittun um þessa millifærslu og yfirlit um alla ráðstöfun fjárins.

 Engar athugasemdir hafa borist frá kærendum um útskýringar kærða á málsatvikum, þ. á m. hvernig hann ráðstafaði þeim fjármunum sem hann átti að gera. Telur úrskurðarnefnd lögmanna að leggja megi útskýringar kærða að þessu leyti til grundvallar, enda eru þær studdar gögnum málsins. Samkvæmt þessu telur úrskurðarnefnd lögmanna kærða ekki hafa, við ráðstöfun fjármunanna, gert á hlut kærenda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 Kærði, J, hrl., hefur við ráðstöfun kaupsamningsgreiðslna til K hf. ekki gert á hlut kærenda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA