Mál 11 2008

Ár 2009, fimmtudaginn 30. apríl, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið mál nr. 11/2008:

 

A, hdl.

gegn

B, hdl.

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 15. apríl 2008 frá A, hdl., kæranda, þar sem kvartað er yfir framkomu B, hdl., kærða, í blaðaviðtali í tengslum við mál sem kærði rak gegn kæranda. Greinargerð barst frá kærða þann 22. júlí 2008. Kæranda var boðið að gera athugasemdir við greinargerðina, en engar athugasemdir bárust frá honum.

Málsatvik og málsástæður.

 

I.

Málsatvik eru þau að um mánaðamótin júlí-ágúst 2007 keyptu hjón íbúð í Norðlingaholti af fyrirtækinu C ehf. og fóru kaupin fram fyrir milligöngu lögmanns- og fasteignasölufyrirtækis kæranda, D. Umsamið kaupverð var 39,9 milljónir króna og skyldi það greiðast með láni frá lánastofnun að fjárhæð 25 milljónir króna, með peningagreiðslu upp á 1 milljón króna innan 15 daga frá undirritun kaupsamnings og með peningagreiðslu upp á 13,9 milljónir króna eigi síðar en 15. febrúar 2008. Seljandi veitti kaupendum veðleyfi fyrir 26 milljón króna láni hjá xbanka Íslands með því skilyrði að andvirði lánsins yrði greitt inn á bankareikning kæranda.

Íbúðina átti að afhenda samkvæmt kaupsamningi þann 5. september 2007 eða fyrr, en afsal skyldi gefið út 15. febrúar 2008.

Samkvæmt kaupsamningi aðila skyldi seljandi aflétta láni frá E, sem hvíldi á 1. veðrétti á hinni seldu eign. Um var að ræða veðskuldabréf, upphaflega að fjárhæð 52.371.000 krónur, en uppgreiðsluverðmæti þess nam á þessum tíma um það bil 22-23 milljónum króna.

Í kaupsamningi aðila var tekið fram að kaupendum væri kunnugt um að seljandinn væri þinglýstur eigandi íbúðarinnar samkvæmt kaupsamningi en að hann væri ekki orðinn þinglýstur afsalshafi. Ekki yrði því hægt að þinglýsa kaupsamningi kaupenda fyrr en áritun afsalshafa um samþykki lægi fyrir.

Xbanki Íslands afgreiddi lánið til kaupendanna og var andvirði þess lagt á bankareikning kæranda, alls 25.723.164 krónur. Kærandi ráðstafaði 24 milljónum króna af andvirðinu til þinglýsts afsalshafa, fyrirtækisins F ehf., vegna skuldar seljanda við það fyrirtæki, gegn útgáfu afsals til seljandans. Seljandi íbúðarinnar hafði, þegar þarna var komið sögu, ekki fjárhagslega burði til þess að aflétta láni E af 1. veðrétti, eins og honum bar að gera samkvæmt kaupsamningnum.

Kaupendurnir leituðu til kærða vegna þeirrar stöðu sem upp var komin í málinu. Kærði ritaði tryggingarfélagi kæranda bréf þann 6. desember 2007 og krafðist viðurkennningar á bótaskyldu vegna tjóns er umbjóðendur hans yrðu fyrir vegna þess að ekki hefði verið greitt upp lánið frá E eða því aflýst af íbúðinni. Var kröfunni beint til tryggingarfélagsins á grundvelli starfsábyrgðartryggingar kæranda sem lögmanns.

Þann 13. desember 2007 sendi E greiðsluáskorun til kaupendanna vegna lánsins á 1. veðrétti, sem þá hafði verið í vanskilum frá 2. nóvember 2007. Krafa bankans nam alls 24.307.222 krónum.

Þann 16. desember 2007 var af hálfu kaupendanna ritað bréf til seljanda íbúðarinnar og samhljóða bréf var sent til kæranda. Þess var krafist að seljandi aflétti þegar láninu af 1. veðrétti, auk þess sem tilkynnt var um beitingu stöðvunarréttar á eftirstöðvum kaupverðsins, sem þá námu 6.083.000 krónum. Þá var af hálfu kaupendanna beint greiðsluáskorun til kæranda þann 7. janúar 2008 vegna mistaka í starfi. Nam bótakrafa kaupendanna 25.277.568 krónum, þar með talinn lögmannskostnaður að fjárhæð 970.346 krónur.

Tryggingarfélag kæranda samþykkti bótaskyldu þann 20. febrúar 2008 og féllst á að greiða skyldi hámarksbætur úr starfsábyrgðartryggingu hans, 22.897.400 krónur auk 400.000 króna í lögmannskostnað. Mismunur bótagreiðslunnar og kröfu E nam 2.002.600 krónum, sem kaupendurnir greiddu úr eigin vasa. Beindu þeir síðan kröfu til kæranda um að hann greiddi þeim þennan mismun. Kærandi hafnaði þeirri kröfu, í tölvupósti þann 22. febrúar 2008, með þeim rökum að kaupendurnir skulduðu seljanda íbúðarinnar hærri fjárhæð vegna eftirstöðva kaupverðsins. Taldi hann eftirstöðvarnar duga fyrir þessum mismun, svo og hugsanlegum bótum vegna leka og afhendingardráttar.

Kaupendurnir kærðu kæranda til úrskurðarnefndar lögmanna fyrir mistök í starfi og gætti kærði hagsmuna þeirra í þeim málarekstri. Það kærumál fyrir nefndinni, sem barst henni 6. mars 2008, hlaut númerið 7/2008.

Þann x. mars 200x birtist í T-blaðinu grein um málið, með fyrirsögninni „Mistök fasteignasala kostuðu 23 milljónir.” Viðtal var við kaupendurna, svo og kærða. Haft var eftir kærða í viðtalinu: „Auðvitað gerir reyndur lögmaður og fasteignasali ekki slíkt af misgáningi” og „A verður kærður til bæði eftirlitsnefndar Félags fasteignasala og til úrskurðarnefndar lögmanna og þess krafist að hann verði áminntur eða eftir atvikum sviptur lögmannsréttindum því þetta mál mun ekki vera það eina á hendur honum. A verður líka stefnt vegna kostnaðar”.

Grein þessi eða frétt í T-blaðinu varð kæranda tilefni erindis þessa til úrskurðarnefndar lögmanna, sem hér er fjallað um.

II.

Kærandi heldur því fram í erindi sínu til úrskurðarnefndarinnar að grein sú, sem varð honum tilefni erindisins til nefndarinnar, hafi verið óvenju rætin og að uppsetning hennar hafi virst til þess eins fallin að sverta sig sem lögmann og þá fasteignasölu sem hann rak. Kærandi kveður hótanir um kæru til ýmissa aðila hafa komið fram eftir að hann hafnaði bótakröfu kaupenda. Áður hafi honum verið gert ljóst að kaupendurnir þekktu blaðamann á T-blaðinu og komið hafi á daginn að sá kunningsskapur hafi verið fyrir hendi.

Kærandi kveður blaðagreinina þannig úr garði gerða að lesa mætti úr henni á margan hátt hvers konar svikahrappur hann væri. Kærandi telur framkomu kaupenda og lögmanns þeirra, kærða, alls ekki vera við hæfi. Um högg undir beltisstað hafi verið að ræða, á sama tíma og kappkostað hafi verið að halda kaupendunum skaðlausum. Það hafi tekist og ríflega það. Eftir skuldajöfnun kæmu kaupendurnir til með að skulda eftirstöðvar kaupsamningsins, um það bil 4 milljónir króna. Sú fjárhæð ætti að duga margfalt til að bæta tjón vegna afhendingardráttar og smá leka, sem komið hafi fram í íbúðinni, en slíkt væri ekki á ábyrgð fasteignasölunnar.

Kærandi telur þau orð og hótanir, sem kærði lét falla í blaðagreininni, ekki vera sæmandi starfandi lögmanni. Þau væru skýlaust brot á siðareglum lögmanna, svo sem 25., 27. og 30. gr. í 4. kafla reglnanna og 34. og 35. gr. í 5. kafla þeirra. Kærandi óskar eftir því að málið verði tekið fyrir og að beitt verði þeim viðurlögum sem teljast vera við hæfi.

III.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar krefst kærði þess að nefndin komist að þeirri niðurstöðu að hann hafi ekki gerst sekur um brot á siðareglum lögmanna. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi kæranda vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

Kærði kveðst hafa gert umbjóðendum sínum grein fyrir þeim réttarúrræðum sem þeim stæðu til boða, þ.e. skaðabótakröfu á hendur kæranda, kröfu um skaðabætur úr starfsábyrgðartryggingu kæranda sem lögmanns, kvörtun til eftirlitsnefndar Félags fasteignasala og kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna. Þegar ljóst hafi orðið að kærandi ætlaði ekki að bæta þeim að fullu fjártjón þeirra, sem þau hefðu orðið fyrir vegna saknæmrar háttsemi kæranda, hafi þau falið sér að kvarta yfir framgöngu kæranda til eftirlitsnefndar Félags fasteignasala og til úrskurðarnefndar lögmanna og að auki að höfða skaðabótamál á hendur honum.

Kærði kveður umbjóðendur sína hafa ákveðið að segja sögu sína í T-blaðinu og hafi viðtalið birst þann x. mars 200x. Áður hafi U og V beðið þau að segja sögu sína af viðskiptunum við kæranda en þau hafi hafnað því. Kærði kveður umbjóðendum sínum hafa verið frjálst að segja sögu sína blaðamanni T-blaðsins. Hvort þeir hafi upplýst kæranda um að þeir þekktu blaðamanninn treysti kærði sér ekki til að tjá sig um. Að því er varðar meintanir hótanir sínar í garð kæranda kveðst kærði hafa gert honum grein fyrir því að umbjóðendur sínir myndu ekki taka því þegjandi og hljóðalaust að verða fyrir rúmlega 2ja milljóna króna fjártjóni vegna saknæmrar háttsemi hans og að þeir myndu leita réttar síns. Það hafi umbjóðendur sínir gert og beitt til þess lögmætum réttarúrræðum. Ekki hafi því verið um innantómar hótanir að ræða heldur blákaldan veruleika sem kærandi stæði frammi fyrir. Kærði hafnar því að framkoma sín og umbjóðenda sinna hafi ekki verið við hæfi.

Kærði kveður blaðamann T-blaðsins hafa haft samband við sig þegar unnið var að gerð fréttarinnar. Hafi blaðamaðurinn óskað eftir því við sig að fá staðfest til hvaða réttarúrræða kaupendur gripu til gagnvart kæranda. Kærði kveðst aðspurður hafa sagt blaðamanninum að kærandi yrði kærður til úrskurðarnefndar lögmanna, eftirlitsnefndar Félags fasteignasala og jafnframt að honum yrði stefnt til greiðslu skaðabóta. Kærði kveðst jafnframt hafa upplýst blaðamanninn um fleiri, sambærileg mál.

Kærði mótmælir því að hafa brotið hinar tilvitnuðu greinar siðareglna lögmanna.

Niðurstaða.

 

Í blaðagrein þeirri, sem varð kæranda tilefni erindis þessa, er rætt við kaupendur íbúðarinnar, kærða og loks kæranda sjálfan. Eins og að framan greinir voru eftirfarandi setningar hafðar eftir kærða:

„Auðvitað gerir reyndur lögmaður og fasteignasali ekki slíkt af misgáningi”

og

„A verður kærður til bæði eftirlitsnefndar Félags fasteignasala og til úrskurðarnefndar lögmanna og þess krafist að hann verði áminntur eða eftir atvikum sviptur lögmannsréttindum því þetta mál mun ekki vera það eina á hendur honum. A verður líka stefnt vegna kostnaðar”.

Ummæli kærða samkvæmt fyrri tilvísuninni koma í framhaldi þess, sem haft er eftir kæranda, að peningarnir frá hjónunum hafi fyrir handvömm farið til að greiða skuldir C ehf. við fyrirtækið F ehf., sem reisti húsið. Þetta hefði bara verið eitthvert „blakkátt” (sic) þegar þetta var afgreitt, hefur blaðamaðurinn eftir kæranda. Að mati úrskurðarnefndar er ekki hægt að fullyrða, að ummæli kærða, í því samhengi sem þau eru sett fram samkvæmt fréttinni, feli í sér aðdróttun um refsiverða háttsemi kæranda, heldur má allt eins tengja þau svonefndu „blakkáti” í fréttinni, þ.e. umhugsunar- eða meðvitundarleysi, sem haft var eftir kæranda sjálfum.

Síðari ummælin, sem höfð voru eftir kærða, fela í sér upplýsingar um til hvaða ráða ætlunin væri að grípa gagnvart kæranda, þ.e. hvaða réttarúrræðum kaupendur hyggðust beita til varnar hagsmunum sínum. Ekki er fallist á það með kæranda að ummælin feli í sér virðingarleysi gagnvart honum eða ótilhlýðilega þvingun eða hótun.

Úrskurðarnefnd lögmanna telur hvorug ummælin, sem höfð voru eftir kærða í blaðagreininni, fela í sér brot gegn þeim ákvæðum siðareglna lögmanna, sem kærandi tilgreinir í erindi sínu til nefndarinnar. Telur nefndin kærða þannig ekki hafa gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, B, hdl., hefur í viðtali við blaðamann T-blaðsins, ekki gert á hlut kæranda, A, hdl., með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Málskostnaður fellur niður.

 ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA