Mál 3 2008

Ár 2009, fimmtudaginn 12. febrúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið mál nr. 3/2008:

 

A

gegn

B, hrl.

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 20. febrúar 2008 frá A, kæranda, þar sem kvartað var yfir vinnubrögðum B, hrl., kærða, í máli sem kærði hafði tekið að sér fyrir kæranda. Kærði tjáði sig um erindið í bréfi, dags. 17. september 2008, eftir ítrekuð tilmæli nefndarinnar um að hann gerði grein fyrir máli sínu. Af hálfu kæranda voru gerðar nokkrar athugasemdir við greinargerð kærða, í bréfi, dags. 30. nóvember 2008. Kærða var gefinn kostur á að tjá sig um athugasemdir kæranda, með fresti til 6. janúar 2009, en engar athugasemdir bárust.

Málsatvik og málsástæður.

 

I.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að í desember 2006 fól kærandi kærða að reka fyrir sig mál er varðaði samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík á árinu 2001 til breytinga á afmörkun sérnotalóðar fyrir húsin K 17-21, en kærandi býr í K 21. Telur kærandi undirritun sína á samþykki meðlóðarhafa fyrir breytingunni hafa verið falsaða og lét hann meðal annars rithandarsérfræðing rannsaka ritun á nafni sínu vegna þessa.

Kærandi kveðst hafa afhent kærða gögn í málinu þegar hann tók verkið að sér og einnig viðbótargögn sem kærandi afhenti honum í janúar 2007. Telur kærandi að eftir það hafi hann aldrei getað náð sambandi við kærða. Kveðst hann margsinnis hafa reynt að ná símasambandi við hann, beðið fyrir um skilaboð til hans í afgreiðslu lögmannsstofunnar, en aldrei fengið nein svör.

Kærandi kveðst hafa leitað til annars lögmanns síðla sumars 2007 og fyrir milligöngu hans hafi tekist að fá frá kærða ljósrit af gögnum málsins og uppkast að bréfum sem hann hefði samið. Eftir það hefði sér ekki tekist að ná sambandi við kærða, þrátt fyrir marg ítrekaðar tilraunir þar að lútandi.

Kærandi telur kærða halda fyrir sér gögnum málsins og að hann hafi ekkert aðhafst í málinu sem hann tók að sér. Kærandi krefst þess að kærði segi sig frá málinu og afhendi sér öll gögn þess, sem frá sér séu komin, og geri grein fyrir sinni stöðu gagnvart kæranda.

II.

Kærði kveður það vera rangt að ekkert hefði verið aðhafst í málinu. Vísar hann í því sambandi til tveggja bréfa, annars vegar til byggingarfulltrúans í Reykjavík, og hins vegar til lögreglunnar í Reykjavík, en afrit bréfanna fylgdu greinargerð kærða til úrskurðarnefndar. Kærði kveður ekki vera um að ræða uppköst að þessum bréfum heldur formleg erindi sem ekki hefði verið svarað.

Kærði kveður ekki hafa staðið á því að kærandi fengi gögn málsins, enda hefði hann þegar fengið þau. Einungis væru eftir afrit gagnanna í málamöppu sinni. Kærði kveðst vísa því á bug að ekki hefði náðst samband við sig.

Kærði kveðst hafa greint kæranda og aðstandendum hans frá því að ekki væri ráðlegt að halda áfram með málið, en kveðst hafa talað fyrir daufum eyrum.

III.

Í athugasemdum sínum við greinargerð kærða til nefndarinnar kveður kærandi greinargerðina ekki vera sannleikanum samkvæma. Kveðst hann standa við og ítreka upphaflegu kvörtun sína. Í sínum augum sé ódagsett og óundirritað bréf ekkert annað en uppkast. Að lögmaður, sem vilji láta taka sig alvarlega, sendi slík bréf frá sér til rannsóknaraðila sé með ólíkindum og beri með sér lítilsvirðingu. Kærandi kveður það vera gripið úr lausu lofti að sér hafi verið gerð grein fyrir að ekki væri ráðlegt að halda áfram með málið. Kveður kærandi það vera álit sitt að með framgöngu sinni og málsmeðferð hafi kærði gert sér ógagn.

Með athugasemdum sínum sendi kærandi tölvupóst sinn til kærða, dags. 15. apríl 2007, sem hann kveður aldrei hafa verið svarað. Í tölvupóstinum vísar kærandi til þess að þrír mánuðir væru liðnir frá því hann hefði afhent kærða gögn frá rithandarsérfræðingnum og að sig fýsti mjög að vita um gang og stöðu málsins. Kveðst kærandi ítrekað hafa reynt að ná sambandi við kærða um síma en án árangurs þrátt fyrir skilaboð. Í tölvupóstinum spyr kærandi að því hvað kærði hafi gert í málinu, hver staða þess sé og hvað hann hyggist gera næst.

Niðurstaða.

Kærði tók að sér að gæta hagsmuna fyrir kæranda í tilgreindu máli um áramótin 2006-2007. Af gögnum málsins má ráða að hann hafi sent tvö bréf, annars vegar til byggingarfulltrúans í Reykjavík en hins vegar til lögreglustjórans í Reykjavík. Bréfin eru ekki dagsett en samkvæmt upplýsingum kæranda í erindi hans til nefndarinnar fékk annar lögmaður afrit þessara bréfa ásamt öðrum gögnum málsins síðla sumars 2007.

Kvörtun kæranda lýtur meðal annars að því að honum hafi reynst ómögulegt að ná sambandi við kærða meðan á vinnslu málsins stóð. Kærandi hefur m.a. lagt fram tölvupóst sinn til kærða, dags. 15. apríl 2007, þar sem kvartað er yfir sambandsleysinu og jafnframt leitað upplýsinga frá kærða um rekstur málsins. Ekki liggur fyrir að tölvupósti þessum hafi verið svarað af hálfu kærða. Að mati úrskurðarnefndar styður þetta staðhæfingu kæranda um sambandsleysi af hálfu kærða gagnvart sér og að kærði hafi ekki svarað fyrirspurnum og skilaboðum kæranda. Eru slík vinnubrögð af hálfu kærða aðfinnsluverð að mati úrskurðarnefndar og fela í sér brot gegn 41. gr. siðareglna lögmanna.

Samkvæmt 5. mgr 21. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 var kæranda heimilt að kalla aftur umboð sitt til kærða. Samkvæmt erindi hans leitaði hann til annars lögmanns síðla sumars 2007 og aflaði sá gagna málsins frá kærða. Að mati úrskurðarnefndar verður að skilja þetta svo að kærandi hafi með þessu afturkallað umboð sitt til kærða og að verklok hafi þá orðið. Kærða er heimilt að halda í vörslum sínum afriti gagna í málinu.

Kærði fékk upphaflega frest til 19. mars 2008 til þess að gera úrskurðarnefndinni grein fyrir afstöðu sinni til erindis kæranda. Þrátt fyrir ítrekuð tilmæli nefndarinnar barst greinargerð hans ekki fyrr en 17. september 2008. Felur þessi háttsemi kærða í sér brot gegn 4. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna og er aðfinnsluverð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 Aðgerðarleysi kærða, B, hrl., við að svara fyrirspurnum kæranda, A, um rekstur máls sem hann fól kærða, er aðfinnsluvert.

 Dráttur á skilum kærða á greinargerð til úrskurðarnefndar er aðfinnsluverður.

 ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA