Mál 12 2009

 

Ár 2010, fimmtudaginn 25. mars, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið mál nr. 12/2009:

E

gegn

F, hrl.

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R :

Í erindi E, kæranda, mótteknu á skrifstofu Lögmannafélags Íslands þann 16. júní 2009, er kvartað yfir uppgjöri F, hrl., kærða, á bótum frá ríkissjóði eftir rekstur máls fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Kærði gerði grein fyrir afstöðu sinni til erindisins í bréfum til nefndarinnar, dags. 10. júlí og 10. ágúst 2009. Kærandi gerði athugasemdir við greinargerðina í bréfi, dags. 9. september 2009. Kærði tjáði sig um athugasemdirnar í bréfi, dags. 5. október 2009. Þá hafa frekari gögn borist frá málsaðilum: bréf lögmanns kæranda, dags. 26. janúar og 23. febrúar 2010, og bréf kærða, dags. 8. mars 2010.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Málsatvik eru þau að í ágúst 1999 seldi kærandi fasteign. Til grundvallar kaupsamningi var söluyfirlit þar sem meðal annars var tilgreint að nýr tígulsteinn væri á þaki. Rúmlega hálfu ári síðar kvartaði kaupandinn meðal annars um leka sem fram hafði komið á þaki eignarinnar. Í júní 200x höfðaði kaupandinn dómsmál fyrir Héraðsdómi A gegn kæranda með kröfu um skaðabætur eða afslátt af kaupverði vegna galla í eigninni. Dómur var kveðinn upp um miðjan apríl 200x, þar sem kærandi var dæmd til að greiða kaupandanum skaðabætur að fjárhæð 1.739.000 krónur auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Kærandi áfrýjaði dóminum í júní 200x, með kröfu um sýknu aðallega en til vara um lækkun á kröfu kaupandans. Kaupandinn, stefndi í hæstaréttarmálinu, ákvað að láta málið ekki til sín taka fyrir réttinum og var það dómtekið samkvæmt 3. mgr. 158. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, þó að lokinni viðbótar gagnaöflun sem boðuð hafði verið í áfrýjunarstefnu. Dómur var kveðinn upp í Hæstarétti, í málinu nr. xxx/200x, þann x. júní 200x, þar sem niðurstaðan var sú að héraðsdómur skyldi vera óraskaður, en málskostnaður fyrir Hæstarétti félli niður.

Kærði flutti málið af hálfu kæranda í héraðsdómi og fyrir Hæstarétti.

Að fenginni niðurstöðu Hæstaréttar Íslands kom til umræðu hvort málsmeðferðin fyrir réttinum væri andstæð 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópuráðsins. Að lokinni skoðun á málinu fól kærandi kærða að kæra málsmeðferðina til Mannréttindadómstólsins í Strasborg. Þann 19. nóvember 200x var send beiðni eða umsókn til Mannréttindadómstólsins, um að taka fyrir málið: E gegn íslenska ríkinu. Móttaka umsóknarinnar var staðfest í bréfi dómstólsins þann 23. desember 200x, en þar var jafnframt tilkynnt að málið hefði hlotið málsnúmerið xxxxx/xx E v. Iceland.

Kæruatriðin til Mannréttindadómstólsins lutu að því hvort skilningur Hæstaréttar Íslands á ákvæðum 3. mgr. 158. gr. og 3. mgr. 161. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, væri of þröngur, þannig að bryti gegn 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópuráðsins um rétt manna til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi. Taldi kærandi sig þannig, vegna útivistar stefnda í hæstaréttarmálinu, ekki hafa fengið tækifæri til þess að málið yrði flutt munnlega fyrir réttinum í opnu réttarhaldi, þar sem tækifæri gæfist til ýtarlegri útlistunar krafna og málsástæðna og umfjöllunar um sönnunargögn heldur en kæmi fram í áfrýjunarstefnu og greinargerð til Hæstaréttar.

Samkvæmt bréfi Mannréttindadómstólsins til kærða, dags. 6. júlí 200x, ákvað dómstóllinn að gefa íslenska ríkinu kost á að gera grein fyrir málinu af sinni hálfu með því að taka afstöðu til nánar tilgreindra álitaefna sem málið snerist um.

Þann 25. júlí 200x ritaði kærði bréf til Mannréttindadómstólsins, þar sem farið var fram á fjárhagsaðstoð (legal aid) stofnunarinnar við kæranda til málarekstursins. Ekki verður séð af gögnum málsins að slík fjárhagsleg aðstoð hafi verið veitt kæranda.

Íslenska ríkið tilkynnti Mannréttindadómstólnum þann 9. október 200x að það teldi sáttatillögu í málinu ekki koma til greina. Sama dag sendi íslenska ríkið greinargerð sína til dómstólsins, þar sem gerð var grein fyrir afstöðu þess til kæruatriða og málsástæðna kæranda.

Mannréttindadómstóllinn sendi kærða bréf þann 27. október 200x, þar sem gefinn var kostur á að koma athugasemdum kæranda við greinargerð íslenska ríkisins til dómstólsins eigi síðar en 8. desember 200x. Kæranda var jafnframt gefinn kostur á að leggja fram sáttatillögu í málinu. Þá var í bréfi dómstólsins gerð sérstök grein fyrir möguleikum kæranda til bóta samkvæmt reglum þar að lútandi, væru skilyrði til þess. Tegund bóta var skilgreind og hvaða gögn eða upplýsingar þyrftu að liggja fyrir svo hægt yrði að ákvarða bótafjárhæð í hverju tilviki.

Kærði sendi bréf til Mannréttindadómstólsins þann 6. desember 200x og með því fylgdu athugasemdir kæranda við greinargerð íslenska ríkisins og sundurliðaðar bótakröfur kæranda. Þá fylgdi bréfinu sáttatillaga af hálfu kæranda.

Bótakröfur kæranda fyrir Mannréttindadómstólnum voru sundurliðaðar svo:

1. Fjárhagslegt tjón sem afleiðing dóms Hæstaréttar, 5.722.292 krónur, þar með talið tildæmdar skaðabætur til kaupanda fasteignarinnar, vextir og tildæmdur málskostnaður.

2. Matskostnaður auk dráttarvaxta, 586.977 krónur.

3. Kostnaður vegna endurrits úr héraðsdómi og vegna útgáfu áfrýjunarstefnu, 30.300 krónur.

4. Málskostnaður kæranda vegna reksturs málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, auk dráttarvaxta, alls 1.429.419 krónur.

5. Málskostnaður vegna reksturs málsins fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu, 1.363.275 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur. Til grundvallar þeirri tölu lá uppgefinn tímafjöldi, 73 klst., en tímagjaldið var tilgreint 15.000 krónur auk virðisaukaskatts.

6. Þýðingarkostnaður, 532.300 krónur.

7. Miskabætur, 1.500.000 krónur.

Allar tölur í bótakröfunni voru gefnar upp í íslenskum krónum eingöngu.

Þann 6. desember 200x var kveðinn upp dómur í málinu. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að beiting 3. mgr. 158. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991 í hæstaréttarmálinu nr. xxx/200x, vegna útivistar stefnda, fæli í sér brot á 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmálans, þar sem af þeim sökum hefði ekki verið unnt að flytja mál áfrýjanda munnlega fyrir Hæstarétti í opnu réttarhaldi.

Dómstóllinn hafnaði kröfu kæranda um bætur fyrir fjárhagslegt tjón, sem kærandi taldi sig hafa orðið fyrir og vera afleiðingu málsmeðferðarinnar fyrir íslenskum dómstólum, nánar tiltekið tjón sem samsvaraði bótunum sem kaupandi fasteignarinnar fékk sér tildæmdar. Hins vegar féllst dómstóllinn á kröfu kæranda um miskabætur úr hendi íslenska ríkisins að fjárhæð 2.500 evrur.

Auk kröfunnar um skaðabætur fjallaði dómstóllinn um kröfu um endurgreiðslu á útlögðum kostnaði. Dómstóllinn hafnaði kröfu er laut að málskostnaði kæranda fyrir héraðsdómi og Hæstarétti nema að óverulegu leyti. Einnig var hafnað kröfu um endurgreiðslu vegna matskostnaðar, kostnaðar vegna dómsendurrita og kostnaðar vegna útgáfu áfrýjunarstefnu. Að því er varðaði kröfu kæranda um málskostnað vegna reksturs málsins fyrir Mannréttindadómstólnum, að fjárhæð 1.363.275 krónur (ca. 15.000 evrur samkvæmt þáverandi gengi) taldi dómstóllinn tilgreindan tímafjölda (73 klst.) vera ívið of háan. Hins vegar var fallist að öllu leyti á kröfu um þýðingarkostnað, að fjárhæð 532.300 krónur (ca. 5.900 evrur). Niðurstaða dómsins var sú að hæfilegur kostnaður (málskostnaður og þýðingarkostnaður) væri 18.000 evrur. Þá var í dóminum mælt fyrir um vexti á tildæmdar fjárhæðir.

Að fenginni niðurstöðu Mannréttindadómstólsins skiptust kærandi og kærða á skoðunum um hvort rétt væri að skjóta niðurstöðunni til æðra dómstigs (Grand Chamber) innan Mannréttindadómstólsins. Niðurstaðan varð sú að láta á það reyna hvort sú niðurstaða dómstólsins, að hafna kröfu kæranda um bætur fyrir fjárhagslegt tjón, stæðist. Beiðni til dómstólsins, um að málinu yrði vísað til æðra dómstigsins, var send þann 27. febrúar 200x. Beiðninni var hafnað, en ekki liggur fyrir hvenær það var gert.

Ríkissjóður gerði upp tildæmdar bætur og kostnað til kæranda með greiðslu til kærða þann 19. maí 200x, alls 4.518.504 krónum. Kærði greiddi af þeirri fjárhæð 459.438 krónur til kæranda vegna miskabóta og vaxta. Kærandi mótmælti uppgjöri kærða og átti í bréfaskriftum við hann af því tilefni í júní 200x, án árangurs.

Vegna ágreinings kæranda og kærða um áskilda þóknun og uppgjör að öðru leyti sendi kærandi erindi það til úrskurðarnefndar lögmanna, sem hér er til úrlausnar.

II.

Í erindi sínu til úrskurðarnefndar krefst kærandi þess að fá uppgjör frá kærða, sem sé sanngjarnt og réttlátt. Krefst kærandi þess að kærði greiði sér alla fjárhæðina sem sér hafi verið ætluð. Kærandi myndi síðan greiða kærða það sem honum bæri fyrir lögfræðistörf sín fyrir Mannréttindadómstólnum, ellegar að kærði taki sér eingöngu laun fyrir vinnu sem innt var af hendi, með þeim formerkjum að laun séu eðlileg og innan velsæmismarka. Krefst kærandi þess að kærði verði víttur fyrir vinnubrögð sín.

Kærandi kveðst hafa farið í máli við íslenska ríkið á grundvelli mannréttindabrota. Málið hafi unnist og hafi íslenska ríkið verið dæmt til að greiða sér 20.500 evrur í skaðabætur, lögmannskostnað og útlagðan kostnað annan. Greiðsla hafi borist fyrir skömmu og ætli kærði sér heilar 4 milljónir króna í þóknun fyrir litla vinnu og rúmlega það.

Kærandi kveðst margsinnis hafa innt kærða eftir því hvað hann hyggðist áskilja sér í endurgjald fyrir að reka málið. Aldrei hafi fengist svör, engin áætlun, launahugmyndir eða annað slíkt. Þegar hins vegar hafi verið lagt upp með kröfu um endurgreiðslu lögmannskostnaðar og lögmannskostnað vegna síðustu stiga málsins hafi heildartalan numið 1,3 milljónum króna. Kærandi kveður staðreyndir málsins vera þær að kærði hafi sagt við sig að hann mynd smyrja tímum á reikningsupphæðina, í því skyni að kærandi fengi meiri pening ef vera kynni að Mannréttindadómstóllinn myndi á endanum samþykkja greiðslu til kæranda vegna lögmannskostnaðar. Enda hafi kærði, í niðurstöðu dómsins, fengið athugasemd um óhóflegt gjald. Reikningur kærða hafi verið upp á 75 (sic) klst. á 15.000 krónur tímann. Þá hafi gengisskráning verið mun lægri á Íslandi en nú sé.

Kærandi kveður Mannréttindadómstólinn hafa dæmt sér bætur í evrum, sem íslenska ríkið átti að greiða, alls 20.500 evrur. Kærði hefði nú tekið sér rúmlega 4 milljónir króna í laun og væri kampakátur yfir því, fyrir ekki meira en 15 klukkustunda vinnu á síðara stigi málsins.

Kærandi kveðst vita hvað málið hefði tekið langan tíma á síðara stigi þess og hefði tekið þátt í vinnunni með kærða, gengið frá skjölum og ritað texta saman.

Kærandi kveður kærða hafa fengið greitt að fullu fyrir rekstur málsins í héraði og fyrir Hæstarétti. Þá kveðst kærandi hafa lagt út fyrir öllum kostnaði sem til hefði fallið í málinu, hversu stór eða lítill sem sá kostnaður hefði verið.

Kærandi kveður kærða hafa tekið við greiðslu frá dómsmálaráðuneytinu að fjárhæð 4.518.504 krónur vegna einkar hagstæðrar gengisskráningar. Kærða hafi þótti við hæfi, þótt kærandi hafi lagt út fyrir öllum kostnaði sem til hefði fallið vegna málsins, að láta sig fá 459.438 krónur og telja þar með fullnaðargreiðslu til sín af hendi innta.

III.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar rekur kærði málsatvik, meðal annars með því að taka 3. kafla í kærunni til Mannréttindadómstólsins inn í greinargerðina. Þar er gerð grein fyrir hinum umþrættu lagaákvæðum í lögum um meðferð einkamála og á hverju kröfur kæranda í kærunni til dómstólsins byggðust.

Kærði kveður það hafa verið sameiginlega niðurstöðu sína og kæranda að leggja málið fyrir Mannréttindadómstólinn og hafi kærandi falið sér að reka málið þar. Kærði kveðst hafa heitið kæranda sanngjarnri þóknun og afslætti, færi svo að málið tapaðist að öllu leyti. Hann myndi  taka að hámarki við þeirri þóknun sem dæmd yrði, þannig að kærandi yrði skaðlaus. Kærandi hefði til dæmis aldrei greitt eina einustu krónu inn á hina miklu vinnu kærða allan tímann, frá því vinna við verkið hófst.

Kærði kveður vinnu að undirbúningi og við rekstur málsins hafa verið í alla staði tímafreka. Í undirbúningi hafi falist að kynna sér vel réttarreglur og verklag Mannréttindadómstólsins. Kærði kveðst sjálfur enga reynslu hafa haft af rekstri mála á þessum vettvangi. Við undirbúninginn hafi hann til dæmis leitað til sér reyndari lögmanna eins og T, hrl., sem reyndar hafi ekki talið vænlegt að fara með málið fyrir Mannréttindadómstólinn. Kærði kveður sér hafa verið ljóst að mikið væri í húfi fyrir kæranda. Hann hafi því lagt mikla vinnu í verkið þótt hann kynni að vinna fyrir þóknun sem ekki dygði fyrir vinnuframlaginu. Kveðst kærði þannig hafa tekið eigin áhættu af málarekstrinum.

Kærði kveður öll samskiptin við dómstólinn hafa verið á ensku. Kærandi hafi annast alla þýðingu á bréfum, tilkynningum og greinargerðum. Kærði hafi hins vegar farið yfir enska textann áður en hann var sendur utan, og eftir atvikum gert athugasemdir.

Í greinargerð sinni til nefndarinnar gerir kærði grein fyrir tímafjölda í einstaka þáttum málarekstursins. Hann kveður heildartímafjöldann nema 253,5 tímum. Fram til áramóta 200x-200x hafi tímafjöldinn numið 174,5 klukkustundum en 79 klukkustundum eftir 1. janúar 200x.

Hann kveður jafnframt tímagjald sitt hafa numið 15.000 krónum auk virðisaukaskatts til 31. desember 200x, en þann 1. janúar 200x hafi tímagjaldið hækkað í 21.000 krónur auk virðisaukaskatts.

Kærði kveður tímaskýrslu sína, sem birtist í greinargerðinni, styðjast við minnisblöð rituð þegar vinna fór fram.

Kærði kveður erindi kæranda vera fullt af rangfærslum og ósannindum. Hann kveðst mótmæla því sérstaklega að tímafjöldinn, sem fram hafi verið settur 6. desember 200x, hafi verið ríflegur umfram raunverulegt vinnuframlag. Vinnutíminn hafi þvert á móti verið verulega vantalinn. Vinna sín hafi verið mun meiri og sá tímafjöldi sem þar hafi komið fram hafi stuðst við gengi íslensku krónunnar. Fyrir hafi legið að Mannréttindadómstóllinn væri að greiða á milli 15 og 20 þúsund evrur í málskostnað í sambærilegum málum.

Kærði kveðst hafa kynnt kæranda rækilega á sínum tíma að tjónið á Íslandi fengist vart dæmt, þ.e. þær greiðslur sem kærandi hefði innt af hendi til gagnaðilans í málarekstrinum eða málskostnaðinn sem kærði hefði fengið greiddan. Hins vegar myndi dómstóllinn, ef vel tækist til, dæma málskostnað vegna reksturs málsins þar og kærandi fengi einhverjar miskabætur. Ef annað og betra næðist fram yrði brotið blað í dómaframkvæmd Mannréttindadómstólsins.

Kærði kveðst hafa boðið kæranda skaðleysi af málarekstrinum ytra, þó þannig að hefðist ekkert út úr málarekstrinum yrði að ræða málið. Kveðst kærði hafa heitið sanngirni. Kærði kveðst ekki vita til að kærandi hefði haft útgjöld af rekstri málsins fyrir Mannréttindadómstólnum, hugsanlega einhver frímerki.

Kærði bendir á, vegna kröfunnar fyrir dómstólnum um greiðslu kostnaðar vegna þýðingarvinnu, að sú vinna hafi ekki verið aðkeypt. Kærandi hafi annast allar þýðingar skjala, að teknu tilliti til athugasemda kærða. Þannig sé vinna kærða einnig í þýðingarkostnaðinum. Kærði telur ekki eðlilegt að vinnuframlag kæranda við þýðingar fái forgang fyrir aðkeyptri lögfræðiþjónustu sinni.

Kærði kveður Mannréttindadómstólinn hafa dæmt þóknun í evrum og að skilja megi niðurstöðu dómsins þannig að 15.000 evrur væru vegna lögmannskostnaðar og 3.000 evrur vegna annars, þ.e. þýðingarkostnaðar. Samkvæmt því yrði lögmannsþóknun aldrei lægri en sem þessu næmi.

Með greinargerð kærða til nefndarinnar fylgir tölvupóstur frá kæranda, dags. 6. desember 2007, þar sem kærandi staðfestir að mati kærða þá túlkun á dóminum, að einungis hafi verið dæmdur lögmannskostnaður fyrir dómstólnum og kostnaður fyrir þýðingu. Kærði telur samkvæmt þessu ekki vera ágreining um að dómurinn hafi einungis fallist á að greiða fyrir rekstur málsins í Strasburg.

Kærði kveðst telja að fyrir úrskurðarnefndinni liggi að fjalla um það eitt hvort hann hafi gert kröfu til of hárrar þóknunar. Telur kærði sig hafa sett fram glöggt yfirlit um verkið sem unnið var, lagt fram gögn er sýni umfang þess, lagt fram rökstudda sundurliðun á tímafjölda og hrundið ásökunum kæranda í sinn garð.

Kærði telur nauðsynlegt að átta sig á að tímafjöldinn sem kynntur var bréflega 6. desember 200x hafi ekki tekið til vinnunnar sem á eftir kom. Annars vegar hafi tímarnir verið 172,5 þegar kröfugerðin var send, en eftir það hafi bæst við 79 tímar. Að sjálfsögðu sé gerð krafa um að tekið verði tillit til hennar. Málinu hafi ekki lokið þann dag, eins og framlögð gögn í málinu beri með sér.

Kærði kveður greiðsluna frá dómsmálaráðuneytinu, að fjárhæð 4.518.504 krónur, hafa sundurliðast í lögfræðikostnað að fjárhæð 3.065.760 krónur, virðisaukaskatt að fjárhæð 751.111 krónur, vexti að fjárhæð 242.195 krónur, miskabætur að fjárhæð 425.800 krónur og vexti vegna miskabóta að fjárhæð 33.638 krónur. Miskabæturnar og vextina ofan á þær hafi hann sent kæranda.

IV.

Í bréfi kæranda til nefndarinnar, dags. 9. september 2009, eru gerðar ýmsar athugasemdir við málatilbúnað kærða fyrir nefndinni. Kærandi telur kærða segja ósatt þegar hann haldi því fram að hann hafi sagst mundu taka þá fjárhæð sem dæmd yrði af Mannréttindadómstólnum vegna lögmannskostnaðar. Kveður kærandi kærða aldrei hafa viljað ræða laun sín, þótt kærandi hafi marg ítrekað áhyggjur sínar af kostnaði. Kærandi gerir einnig athugasemdir við tímaskráningu kærða og tilgreinir í dæmaskyni skráðan tíma í nokkrum tilvikum, sem kærandi telur ekki standast skoðun. Telur kærandi skráða tíma samkvæmt yfirliti kærða vera ríflega og að greinilegt sé að kærði sé bæði lengi að lesa og skrifa og lengi að vinna í málum. Kærandi kveðst aldrei hafa fengið tímaskýrslur kærða, þrátt fyrir að hafa beðið um þær. Þá hafi aldrei fengist reikningur fyrir síðustu gjaldtöku kærða eða aðrar heimildir  um hversu mikil vinna hafi verið innt af hendi. Kærandi dregur réttmæti tímaskráningar kærða í efa og kveðst hafa tjáð kærða í tölvupósti að það kynni að vera að tímaskýrslur hans hafi verið gerðar nýlega.

Kærandi telur uppgefinn tímafjölda kærða í málinu, 253,5 tíma, vera algerlega fáheyrðan.

Kærandi kveðst hafa reiðst mjög þegar kærði varð við ósk um að senda útreikning fjármálaráðuneytisins á útgreiddum bótum. Er ítrekuð krafa um að kærði greiði alla fjárhæðina, sem hafi verið ætluð kæranda, og muni kærandi svo greiða kærða það sem honum beri fyrir lögfræðistörfin við málareksturinn fyrir Mannréttindadómstólnum.

V.

Kærði tjáði sig um athugasemdir kæranda í bréfi, dags. 5. október 2009. Þar kemur meðal annars fram að kærandi hafi haft upp meiningar og dylgjur um tilbúning kærða vegna þeirrar vinnu sem hann hefði lagt í málið. Kveðst kærði vísa þessu á bug sem röngu. Þá séu allar ásakanir um tilbúinn tíma og málamyndareikning til að afla kæranda meiri peninga rangar og ærumeiðandi.

Kærði telur það liggja ljóst fyrir að bréf og gögn sem send voru utan og þýdd á ensku hafi verið þýdd af kæranda, þó með örfáum undantekningum. Hafi þýðingarnar verið vel gerðar. Kærði kveðst hafa hafnað kröfu kæranda um greiðslu fyrir þýðingarvinnuna og ítrekar að það verði ekki gert meðan ekki sé greitt að fullu fyrir lögmannsstörfin. Loks mótmælir kærði öðrum sjónarmiðum og kröfum sem fram koma í bréfi kæranda.

VI.

Kærandi leitað til R, hrl., um aðstoð vegna málsins. Í bréfi lögmannsins til nefndarinnar þann 26. janúar 2010 eru tíundaðar nokkrar viðbótarathugasemdir og sjónarmið af hálfu kæranda. Fram kemur það sjónarmið að Mannréttindadómstóllinn hafi dæmt kæranda en ekki kærða 18.000 evrur í bætur fyrir kostnað. Þá hafi kæranda verið dæmdar 2.500 evrur í miskabætur. Þannig sé ekki hægt að fallast á það með kærða að hann geti eignað sér þær bætur sem kæranda voru dæmdar.

Þá er gagnrýnt að kærði hafi virst halda það að gengishækkun bóta kæranda ætti að skila sér til kærða. Kærði hafi ekkert umboð lagt fram sem feli í sér gengistryggingu á kostnaði hans.

Gagnrýnt er að kærði hafi ekki gert kæranda reikning fyrir vinnu við rekstur málsins fyrir Mannréttindadómstólnum, heldur hafi hann gert íslenska ríkinu reikning í stað greiðslukvittunar, og þannig krafið ríkið um virðisaukaskatt ofan á alla fjárhæðina.

Fram kemur að kærandi mótmæli sérstaklega þeim tímafjölda sem tilgreindur hafi verið í forsendum Mannréttindadómstólsins og er vísað til mats dómstólsins þar um. Er fjárhæðinni 1.363.275 krónum þannig mótmælt sem of hárri og ekki fallist á að kærði geti tekið sér þá fjárhæð fyrir vinnu við málið. Er í þessu sambandi vísað til 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998.

Tímafjölda, sem getið er í greinargerð kærða, er harðlega mótmælt. Skyndilega sé tímafjöldinn ekki lengur 75 (sic) klukkustundir, eins og hann sé reifaður í gögnum fyrir Mannréttindadómstólnum, heldur 253,5 klukkustundir. Í tímaskránni sér meðal annars að finna eftirfarandi upptalningu:

66 klst. vinna við undirbúning að beiðni til dómstólsins;

42 klst. vinna við að lesa fræðiritið Mannréttindasáttmáli Evrópu;

35 klst. vinna við athugasemdir við greinargerð íslenska ríkisins;

25 klst. vinna við að svara bréfi þar sem dómstóllinn tilkynnir að ríkið vilji ekki semja;

14 klst. vinna við að greina dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli kæranda;

24 klst. vinna við að senda málið til Grand Chamber;

7 klst. vinna við að hlusta á málflutning fyrir Hæstarétti í máli Q, hrl.

Kærandi telur framangreinda upptalningu sýna svo ekki verði um villst að kærði hafi farið frjálslega með tímaskráningu í málinu. Ítrekuð eru mótmæli kæranda við kröfu kærða sem byggist á slíkri tímaskráningu. Að því er varði vísun málsins til Grand Chamber, þá sé um að ræða eitt bréf. Ekki sé fallist á það að vinna við það geti tekið 24 klukkustundir.

Tímagjaldi kærða, 15.000 krónum auk virðisaukaskatts, er ekki mótmælt.

Af hálfu kæranda er loks gerð krafa um að kærða verði gert að greiða málskostnað fyrir þann tíma og þá fyrirhöfn sem kærandi hafi haft af máli þessu fyrir nefndinni. Þá krefjist kærandi þess að nefndin úrskurði um málskostnað, 50.000 krónur, vegna vinnu lögmanns kæranda að málinu, sbr. 3. mgr. 28. gr. lögmannalaga nr. 77/1998.

VII.

Með bréfi lögmanns kæranda til nefndarinnar, dags. 23. febrúar 2010, fylgdi reikningur, sem kærði hafði gefið út á nafn kæranda vegna reksturs málsins fyrir Mannréttindadómstólnum. Reikningsfjárhæðin er þar sundurliðuð svo:

174,5 tímar @ 15.000             kr. 2.617.500

79 tímar @ 21.000                  kr. 1.659.000

                                               ___________

                                               kr. 4.276.500

- afsláttur                                kr. 1.210.740

                                               ___________

                                               kr. 3.065.760

virðisaukaskattur                    kr.    751.111

                                               ___________

Reikningsfjárhæð                    kr. 3.816.871

VIII.

Kærði lét einnig afrit reiknings síns fylgja með bréfi sínu til nefndarinnar þann 8. mars 2010. Hann kvað málið ekki rekið sem gengistryggt mál, þótt það kæmi kæranda til góða, og vísaði hann enn og aftur í ítarlega tímaskrá sína.

Kærði kveður lögmann kæranda ekki hafa fært fram nein rök fyrir staðhæfingu sinni um „frjálslega tímaskráningu" og hann beri engan skilning á bréfið sem kærði sendi í því skyni að koma málinu fyrir Grand Chamber og sem einungis voru skráðir 24 tímar vegna þess verkþáttar. Kveður kærði, þegar þarna var komið sögu, að málið hafi verið að komast á mikilvægustu stundinni. Það hafi snúist í raun um það að hnekkja úrskurði dómstólsins um kröfuna um fullar bætur og tjón og kostnað kæranda úr hendi íslenska ríkisins.

Kærði kveður það hafa verið ábyrgðarleysi ef ekki hefði verið leitað allra úrræða og raka og hugmynda sem næðu eyrum dómsins og að taka hæfilegan tíma til þess. Kveðst kærði hafa lagt rúma viku í þennan áfanga, þar á meðal hafi náttborðslestur komið við sögu. Þó hafi eingöngu verið skráðir 24 tímar vegna þessa þáttar. Kveður kærði bollaleggningar af hálfu kæranda um dálkasentimetra vera lýsandi um skilningsleysi á rekstri þessa máls og sérstaklega þessum áfanga. Loks kveðst kærði mótmæla öllum rökum lögmanns kæranda og kröfum um málskostnað.

Niðurstaða.

Í máli þessu snýst deila aðila um ráðstöfun bóta sem ákvarðaðar voru með dómi Mannréttindadómstóls Evrópuráðsins x. desember 200x í málinu: E gegn íslenska ríkinu. Virðist deilan meðal annars lúta að mismunandi skilningi aðila á eðli hinna tildæmdu bóta og í beinum tengslum við það rétt kærða til þess endurgjalds sem hann reiknaði sér og greiddi af hinni tildæmdu fjárhæð.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt íslenskum rétti er málskostnaður, sem dæmdur er aðila í einkamáli, í raun skaðabætur honum til handa vegna kostnaðar, að hluta eða öllu leyti, sem hann hefur haft af málarekstrinum. Málskostnaðurinn er með öðrum orðum ekki eign eða krafa lögmanns dómhafans enda ekki verið að dæma þóknun honum til handa. Þessi skilningur á eðli tildæmds málskostnaðar kemur meðal annars glöggt fram í hæstaréttarmálinu nr. 119/1997. Öðru máli gegnir um tildæmda málflutningsþóknun í gjafsóknarmálum og sakamálum, en um þess háttar þóknun er ekki fjallað í máli þessu.

Í niðurstöðu Mannréttindadómstólsins kemur fram að kæran til dómstólsins hafi verið tæk til meðferðar, að um brot á 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmálans hafi verið að ræða og að íslenska ríkið ætti að greiða kæranda (applicant), innan þriggja mánaða frá þeim degi sem dómurinn öðlaðist gildi, nánar tilgreindar bætur og kostnað. Verður niðurstaða dómstólsins ekki skilin á annan veg en þann að kærandi væri réttur viðtakandi greiðslu á bótum og kostnaði, þar á meðal málskostnaði vegna reksturs málsins fyrir dómstólnum. Er þetta í samræmi við hérlendan skilning á eðli tildæmds málskostnaðar.

Í máli þessu nýtur ekki við skriflegra gagna um áskilnað kærða til endurgjalds fyrir rekstur kærumálsins til Mannréttindadómstólsins. Enginn skriflegur samningur virðist hafa verið gerður um verkefnið og engin önnur gögn liggja fyrir sem gefa til kynna á hvaða nótum endurgjald fyrir verkefnið kynni að vera reiknað. Þó liggur fyrir að kærði gætti hagsmuna kæranda við rekstur gallamálsins í héraði og fyrir Hæstarétti og virðist uppgjör kostnaðar hafa farið fram milli þeirra án nokkurs ágreinings. Reikningar kærða vegna reksturs þessara dómsmála, sem liggja fyrir í málinu, bera þó ekki með sér á hvaða grundvelli þóknun er reiknuð.

Vegna skorts á beinu samningsákvæði þar að lútandi eða gögnum, er bera með sér að kærði hafi haft uppi sérstakan áskilnað um endurgjaldið, liggur fyrir nefndinni að meta hvert sé hæfilegt endurgjald í skilningi 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga til kærða fyrir málareksturinn, út frá þeim upplýsingum sem liggja fyrir í gögnum málsins, mati á umfangi þess og öðrum viðurkenndum aðferðum.

Samkvæmt gögnum málsins gaf Mannréttindadómstóllinn kæranda kost á að setja fram kröfur um bætur og kostnað og var nánar útlistað í bréfi dómstólsins þann 27. október 200x hvernig slík kröfugerð skyldi útbúin. Að því er kostnað varðaði var lögð sérstök áhersla á að kostnaðarliðir yrðu að vera sundurliðaðir, þeir yrðu að bera með sér að vera sanngjarnir og að þeir endurspegluðu raunverulegan og nauðsynlegan kostnað sem hlotist hefði af málarekstrinum.

Eins og áður er getið gerði kærði grein fyrir kröfum kæranda til Mannréttindadómstólsins í bréfi, dags. 6. desember 200x. Að því er kostnað varðaði vegna lögfræðiaðstoðar við málareksturinn fyrir dómstólnum (Legal fees for services relating to ECHR) var tilgreindur tímafjöldi, 73 klukkustundir, og 15.000 króna tímagjald, eða alls 1.095.000 krónur auk virðisaukaskatts, eða alls 1.363.275 krónur.

Úrskurðarnefnd lögmanna telur að miða beri við að í desember 200x hafi umfang málarekstursins ekki verið meiri en sem nam uppgefnum tímafjölda í bréfi kærða til dómstólsins. Telur nefndin sjónarmið kærða um annan og töluvert meiri tímafjölda, sem fram kemur í greinargerð hans til nefndarinnar, ekki vera studd fullnægjandi gögnum.

Að því er umfang á vinnu kærða varðar eftir áramótin 200x-200x kemur fram í greinargerð hans til nefndarinnar að helstu verkþættirnir voru að rita framhaldsgreinargerð eða athugasemdir um viðbótargreinargerð íslenska ríkisins (25 klst.), að lesa og greina dóm Mannréttindadómstólsins (14 klst.) og að semja og senda beiðni um málskot til „Grand Chamber" til endurskoðunar á þeim þætti dómsins er varðaði kröfur kæranda um bætur vegna fjárhagstjóns (24 klst.). Þá kveðst kærði hafa undirbúið sig og fylgst með málflutningi í hæstaréttarmálinu nr. 604/2008, sem hann taldi geta haft þýðingu fyrir mál kæranda (7 klst.). Að auki voru nokkrir smærri verkliðir. Á tímabilinu 200x-200x kveðst kærði hafa unnið í 79 tíma fyrir kæranda. Af hálfu kæranda hefur þessi tilgreindi tímafjöldi verið gagnrýndur og því haldið fram að kærði hafi farið frjálslega með tímaskráninguna.

Uppgefinn tímafjöldi er án nánari sundurgreiningar. Er því erfiðleikum bundið að glöggva sig á réttmæti alls þess tíma sem tilgreindur er hér að framan. Að mati úrskurðarnefndar má þó líta til þess að kærði ritaði allan texta á íslensku, sem kærandi þýddi svo á ensku. Ætla verður að kærði hafi haft góða yfirsýn á málið þegar ritaðar voru athugasemdir við viðbótargreinargerð íslenska ríkisins, en athugasemdir þessar hafa ekki verið lagðar fyrir nefndina. Hið sama má segja um málskotið til Grand Chamber. Þá verður, að mati nefndarinnar, að telja 14 tíma til yfirlesturs og greiningar dóms vera óvenjulega langan tíma, sem hefði þarfnast nánari útskýringar.

Samkvæmt greinargerð kærða til úrskurðarnefndar hækkaði tímagjald hans úr 15.000 krónum í 21.000 krónur þann 1. janúar 200x, eða um 40%. Engin skýring var gefin á þessari miklu hækkun tímagjaldsins. Skömmu áður hafði kærði tilgreint tímagjald sitt í kröfugerð til Mannréttindadómstólsins, 15.000 krónur auk virðisaukaskatts. Nefndin telur að kærða hafi borið að upplýsa kæranda sértaklega um þessa miklu hækkun, enda hafi kærandi mátt hafa réttmætar væntingar til þess að uppgefið tímagjald í byrjun desember 200x héldist í svipuðu horfi áfram, ef til vill þó með einhverri hækkun i samræmi við verðlagsþróun. Nefndin telur því ekki rétt að miða við hið nýja tímagjald kærða, sem virðist fyrst hafa verið kynnt til sögu í greinargerð hans til nefndarinnar.

Að virtum öllum þáttum málsins er lúta að störfum kærða eftir áramótin 200x-200x, þar á meðal með hliðsjón af umfangi málsins fram til ársloka 200x, telur nefndin hæfilegt endurgjald til hans vera 500.000 krónur auk virðisaukaskatts vegna vinnu eftir 1. janúar 200x.

Samkvæmt framangreindu nemur hæfilegt endurgjald til kærða fyrir rekstur máls kæranda fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu 1.595.000 krónum auk virðisaukaskatts, eða alls 2.001.725 krónur. Kærði tók við 4.518.504 krónum úr ríkissjóði vegna uppgjörs íslenska ríkisins við kæranda. Hann hefur þegar greitt kæranda 459.438 krónur. Að frádregnu endurgjaldi hans samkvæmt framangreindu ber kærða að greiða kæranda 2.057.341 krónu.

Kærandi krafðist þess í erindi sínu til nefndarinnar að kærði yrði víttur. Kærði sendi kæranda greiðslu fljótlega eftir að hafa móttekið greiðslu frá ríkissjóði. Kærandi ákvað skömmu þar á eftir að senda ágreiningsmál vegna uppgjörsins til úrskurðarnefndar til úrlausnar. Nefndin telur ekki rétt eins og á stendur að beita aðfinnslum vegna þessa.

Rétt þykir að kærði greiði kæranda 50.000 krónur í málskostnað fyrir rekstur máls þessa fyrir nefndinni.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Hæfilegt endurgjald kærða, F, hrl., fyrir rekstur kærumáls kæranda, E, fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu, er 1.595.000 krónur auk virðisaukaskatts, eða alls 2.001.725 krónur.

Kærði greiði kæranda 2.057.341 krónu.

Kærði greiði kæranda 50.000 krónur í málskostnað.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA