Mál 20 2010

Mál 20 2010

Ár 2011, föstudaginn 16. september, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 20/2010:

Dbanki hf.

gegn

F hrl.

 og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Í erindi Dbanka til úrskurðarnefndar lögmanna, sem barst nefndinni þann 26. nóvember 2010, var kvartað yfir störfum F hrl., kærða, vegna starfa hans fyrir ólögráða umbjóðanda sinn.

Kærði sendi nefndinni greinargerð um málið þann 26. janúar 2011 og var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana. Athugasemdir kæranda við greinargerð kærða bárust 18. mars, en lokaathugasemdir kærða vegna málsins bárust 6. júní

Málsatvik og málsástæður.

I.

Samkvæmt opinberum skrám innanríkisráðuneytisins og sýslumannsins í K um fjárræðissvipta einstaklinga var umbjóðandi kærða sviptur fjárræði með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur [...] 1999. Kærði var skipaður lögráðamaður hans af sýslumanninum í K þann 19. maí 1999.

Eftir því sem fram kemur í kvörtun kæranda, greinargerð kærðu og gögnum málsins eru málsatvik annars þau að þann 1. febrúar 2010 lagði kærði f.h. umbjóðanda síns fram þrjú einingarbréf í Kröfukaupasjóði Hávöxtunarfélagsins hjá kæranda og óskaði innlausnar á þeim, en bréfin hafði umbjóðandinn fengið í arf. Bankinn féllst á að innleysa bréfin, en vildi ekki leggja andvirði þeirra inn á reikning kærða. Þess í stað stakk bankinn upp á því, fyrst símleiðis en svo í bréfi dagsettu 15. febrúar 2010 að kærði stofnaði fjárvörslureikning í nafni umbjóðanda síns, sem leggja mætti andvirði bréfanna inn á. Í bréfinu vísaði bankinn til stöðu kærða sem lögráðamanns og byggir afstöðu sína á 3. mgr. 67. gr. lögræðislaganna þar sem fram kemur að lögráðamaður skuli ávallt halda peningum og viðskiptabréfum ófjárráða manns aðgreindum frá eigin fjármunum.

Kærði hafnaði þessu og tók þann kost að stefna bankanum til greiðslu 828.000 króna, sem talið var andvirði bréfanna, auk 75.300 króna vegna þess sem hann taldi óþarfa vinnuframlag sitt við að fá bréfin greidd. Var stefna í málinu þingfest í héraðsdómi [...] 2010.

Eftir þingfestingu málsins var þess freistað að ná sáttum í því. Af hálfu kæranda er á því byggt að tekist hafi munnlegt samkomulag um lausn málsins árdegis 8. júlí 2010 en þessu er hafnað af kærða. Fyrir liggur á hinn bóginn að kærandi sendi kærða uppkast að samkomulagi þann dag og óskaði staðfestingar á því. Í samkomulaginu fólst að greiddar yrðu 854.795 fyrir bréfin. Þá fólst í uppkastinu að greiddar yrðu 100.000 kr. fyrir það sem nefnt er „vinna lögmanns og málskostnaður".

 Þessu svaraði kærði með því að senda uppkastið til baka með svofelldri áritun:

Skilyrði samkomulags:

•1.      Að S biðjist skriflegrar afsökunar á röngum og dónalegum fullyrðingum í bréfi sínu, dags. 15.02.2010 til undirritaðs

•2.      Staðfesta fjárhæð einingabréfa

Rv. 08.07.10

F hrl.

Ekki var fallist á þessi skilyrði af hálfu kærða og var ágreiningur aðila því rekinn áfram fyrir héraðsdómi, en kærandi greiddi þó 992.974 krónur inn á reikning kæranda, enda taldi hann að munnlegt bindandi samkomulag hefði tekist um uppgjör sem síðari skilyrði kærða hróflaði ekki við. Samkvæmt upplýsingum kæranda skýrist munurinn á þessari fjárhæð og stefnufjárhæðinni annars vegar af því að í ljós kom að andviðri bréfanna var hærra en upphaflega voru gefnar upplýsingar um og hins vegar þurfti að taka tillit til fjármagnstekjuskatts sem kærða var skylt að halda eftir og breytingum á fjárhæð hans þau ár sem umbjóðandinn hafði átt bréfin. Lauk málarekstri fyrir héraðsdómi með dómi 23. mars 2011. Komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að hafna bæri kröfu kærða um 73.500 krónur vegna vinnuframlags sem órökstuddri og að sýkna bæri kæranda af fjárkröfunni þar sem hún hefði þegar verið greidd. Á hinn bóginn voru kærða dæmdar 200.000 krónur í málskostnað þar sem honum hefði verið rétt að höfða málið til að fá kröfuna greidda.

II.

Í kvörtun kæranda til úrskurðarnefndar kemur fram að kvörtunin er til komin vegna þess að kærandi telur að kærði hafi tekið eigin hagsmuni fram yfir hagsmuni umbjóðanda síns í samningaviðræðum um lausn á ágreiningi skjólstæðingsins við bankann og þannig brotið gegn ákvæðum siðareglna lögmanna, nánar tiltekið 1., 2. og 3. mgr. 8. gr. siðareglnanna. Telur kærandi að það skilyrði sem kærði setti fyrir samkomulagi um málið komi hagsmunum skjólstæðingsins ekki við. Auk þess byggir kærandi á því að í tilvitnuðu bréfi sé engar rangar eða dónalegar fullyrðingar að finna. Hafi kærði komið í veg fyrir að sátt næðist í umræddu máli með því að taka sína eigin hagsmuni fram fyrir hagsmuni skjólstæðings síns.

Kærandi byggir á því að það hafi enga þýðingu fyrir sakarefni kvörtunarmáls þessa þótt í ljós hafi komið að endanlegt innlausnarverð bréfanna hafi reynst annað en gengið var út frá á þeim tíma þegar verið var að sætta málið. Þetta hafi fyrst komið í ljós eftir að kærði hafi gert afsökunarbeiðni starfsmanns kærða að skilyrði fyrir sátt í málinu.

Ekki eru tilgreindar sérstakar kröfur í kærunni, en litið er svo á að þess sé krafist að kærði verði beittur þeim viðurlögum sem rakin eru í 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn

III.

Kærði byggir í greinargerð sinni á að sér hafi upphaflega verið tjáð af bankanum að umrædd bréf væru 828.000 króna virði. Þetta hafi verið sú upphæð sem lá til grundvallar þegar þess var freistað að ná sátt um málið. Það hafi hins vegar komið i ljós að þessi fjárhæð hafi verið röng. Hafi bankinn talið sig geta einhliða breytt innlausnarverði bréfanna. Hafi ekki verið unnt að ná sátt um málið við þessar aðstæður. Skortur á því að honum bærist afsökunarbeiðni hafi því ekki haft nein úrslitaáhrif, heldur framkoma kæranda.

Þá byggir kærði á því að hagsmunir umbjóðanda hans hafi með engu móti verið fyrir borð bornir þótt sú sátt sem stefnt var að næðist ekki. Hafi umbjóðandanum ekki legið á fénu en hann hafi notið dráttarvaxta af upphæðinni á meðan ágreiningurinn var til lykta leiddur.

Kærði hefur ekki gert sérstakar kröfur fyrir nefndinni en greinargerð hans verður skilin svo að þess sé krafist að öllum kröfum um viðurlög verði hafnað. Þá segir í greinargerðinni að „í raun ætti bankinn að dæmast til að greiða undirrituðum bætur vegna framkomu sinnar" og er litið svo á að í þessu felist krafa um málskostnað fyrir nefndinni á grundvelli 3. mgr. 28. gr. lögmannalaga

Niðurstaða.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Sem fyrr er rakið var það tilefni samskipta kærenda og kærða að kærði leitaði eftir innlausn verðbréfa hjá kærða fyrir skjólstæðing sinn, en kærði var skipaður lögráðamaður hans af yfirlögráðanda í samræmi við ákvæði lögræðislaga nr. 71/1997.

Um störf lögráðamanna er fjallað í lögræðislögum. Þar er m.a. fjallað um stöðu lögráðamanna og skyldur og eftirlit yfirlögráðanda með þeim.

Lögráðamaður skal haga störfum sínum í þágu hins ólögráða eins og best hentar hag hans hverju sinni samkvæmt 2. mgr. 60 .gr en honum er skylt að fara að fyrirmælum yfirlögráðanda og ráðuneytisins samkvæmt 3. mgr. Samkvæmt 2. m gr. 81. gr. hafa yfirlögráðendur eftirlit með störfum skipaðra lögráðamanna. Það er ekki skilyrði að lögráðamaður sé lögmaður, sbr. 54. gr. lögræðislaga.

Í 3. mgr. 67. gr. kemur fram að lögráðamaður skal ávallt halda peningum og viðskiptabréfum ófjárráða manns aðgreindum frá eigin fjármunum, en samkvæmt 4. mgr. ákvæðisins getur yfirlögráðandi, ef hann telur ástæðu til, tekið í sínar vörslur fjármuni í eigu hins ófjárráða.  Skal lögráðamaður sjá til þess að tekjur og arður af eignum ófjárráða manns nýtist í þágu hins ófjárráða, sbr. 1. mgr. 68. gr. en samkvæmt 1. mgr. 73. gr., sbr. 84. gr. er öllum þeim sem inna af hendi háar fjárgreiðslu til lögráðamanns ófjárráða manns, sem er eign hins ófjárráða, skylt að tilkynna yfirlögráðanda um slíkar greiðslur. Ekki er það skilyrði fyrir skipan lögráðamanns að hann sé lögmaður.

Að mati úrskurðarnefndar verður að skilja framangreind ákvæði lögræðislaga svo að löggjafinn hafi þar sett niður bæði efnisreglur um skyldur lögráðamanna gagnvart umbjóðendum sínum og komið eftirliti með störfum þeirra fyrir í höndum yfirlögráðanda. Lögráðamenn hafa opinberu hlutverki að gegna í samræmi við ákvæði lögræðislaga. Stöðu þeirra gagnvart lögræðissviptum skjólstæðingum verður ekki jafnað til stöðu lögmanna gagnvart umbjóðendum sínum.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 getur sá sem telur að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum. Í máli þessu er því ekki haldið fram að kærði hafi gert á hlut kæranda, heldur er á því byggt að hann hafi brotið á ófjárráða umbjóðanda sínum með því að taka eigin hagsmuni fram yfir hans hagsmuni í viðskiptum við kæranda.

Með vísun til þeirra sjónarmiða er hér hafa verið rakin, fellur ágreiningur sóknaraðila og varnaraðila um störf kærða við fjárhald fyrir ólögráða mann, utan lögbundins valdsviðs úrskurðarnefndar lögmanna. Ber því að vísa málinu frá, sbr. 3. mgr. 10. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Erindi kæranda, Dbanka hf., vegna ágreinings um ráðstafanir kærða, F hrl. í störfum hans sem skipaður lögráðamaður er vísað frá.