Mál 5 2010

 

Ár 2010, mánudaginn 15. nóvember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2010:

R

gegn

S, hrl.

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R :

Í erindi R, kæranda, mótteknu á skrifstofu Lögmannafélags Íslands þann 23. mars 2010, er kvartað yfir vinnubrögðum S, hrl., kærða, vegna starfa hans við innheimtu slysabóta fyrir kæranda á árunum 2001-2006. Kærði sendi nefndinni greinargerð ásamt fylgiskjölum þann 5. maí 2010. Kærandi hefur ekki gert athugasemdir við greinargerðina.

I.

Samkvæmt lýsingu kæranda leitaði hún til kærða á árinu 2001 vegna umferðarslyss er hún hafði lent í þann 13. september það ár. Kveður kærandi kærða hafa fengið umboð sitt til þess að taka við bótum frá tryggingafélaginu Sjóvá. Fullnaðarbætur hafi verið greiddar, að fjárhæð 6.869.038 krónur. Kærði hafi gert upp þann 28. júní 2006 með því að greiða inn á reikning kæranda 5.977.077 krónur. Kveðst kærandi hafa leitað eftir því við kærða að fá uppgjör og upplýsingar um uppgjör vegna tjónsins. Kærði hafi, þrátt fyrir ítrekaða beiðni þar að lútandi, ávallt neitað að afhenda uppgjör eða ræða yfirleitt við kæranda um þetta mál.

Kvörtun kæranda lýtur að framkomu kærða gagnvart sér við rekstur bótamálsins. Telur kærandi kærða bæði hafa komið illa fram við sig og jafnframt að hann skuldaði sér fé. Bendir kærandi á að mismunur á greiðslunni frá Sjóvá og greiðslu kærða til sín nemi um 900 þúsund krónum. Kveðst kærandi ekki hafa fengið neina sundurgreiningu á þóknun þeirri, sem tryggingafélagið greiddi kærða. Kveðst kærandi gera kröfu til þess að kærða verði gert að afhenda sér öll gögn er varða uppgjör og reikning fyrir vinnu sína, svo og að honum verði gert að greiða kæranda mismun á því sem honum hafi borið í þóknun frá Sjóvá og því sem hann hafi haldið eftir á árinu 2006, að viðbættum dráttarvöxtum.

Með bréfi kæranda fylgdi afrit kvittunar Sjóvár vegna fullnaðaruppgjörs á slysabótum

II.

Kærði krefst aðallega frávísunar málsins en til vara sýknu af kröfum kæranda. Þá krefst kærði málskostnaðar úr hendi kæranda.

Kærði kveður málefni kæranda á skrifstofu sinni ná allt aftur til ársins 1999. Máli kæranda, sem hér sé fjallað um, hafa lokið í júní 2006 á grundvelli matsgerðar örorkunefndar frá 9. maí 2006, en öðrum málum kæranda hafi lokið á miðju ári 2007. Eftir það hafi kærandi ekki verið í neinu sambandi við sig eðli málsins samkvæmt. Kærði kveður það vera ósannindi að kærandi hafi ekki fengið uppgjör bóta og að hann, kærði, hafi neitað að afhenda uppgjörið. Bendir kærði í því sambandi á að þann 28. júní 2006 hafi kærandi undirritað á uppgjörsblað á skrifstofu kærða og fengið afrit blaðsins. Kærandi hafi fylgst mjög vel með rekstri sinna mála og hafi komið oft á skrifstofu kærða til að fá afrit vottorða og annarra gagna.

Kærði gerði nokkra grein fyrir rekstri slysamálsins, en niðurstöðu matsmanna var skotið til örorkunefndar til endurskoðunar. Lögmannsstofa kærða hafi lagt út fyrir kostnaði af málskotinu og vottorðum. Kærði kveður kæranda hafa verið ósátta við fyrstu niðurstöðu örorkunefndar. Því hafi verið aflað viðbótargagna, sem lögð voru fyrir nefndina, en niðurstaðan þar hafi ekki breyst.

Kærði kveðst hafa farið ítarlega yfir málið þegar uppgjörið fór fram, og vinnuþátt þess sérstaklega. Kveður kærði fleiri mál hafa blandast þar saman við, svo sem lögmannsaðstoð við kæranda vegna innheimtumáls T hf. á hendur kæranda vegna bílaláns.

Kærði telur vera ljóst af gögnum málsins að frestur til að bera málið undir úrskurðarnefnd lögmanna sé löngu liðinn og því beri að vísa málinu frá nefndinni. Ársfresturinn hafi byrjað að líða þann 28. júní 2006, þegar kærandi undirritaði uppgjörsblaðið og fékk bætur greiddar þann sama dag inn á reikning sinn. Öðrum samskiptum hafi lokið á árinu 2007.

Niðurstaða.

Úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt ákvæðum lögmannalaga, nr. 77/1998. Um valdsvið nefndarinnar er nánar kveðið í 5. kafla laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga getur sá sem telur lögmann hafa í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi, sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri, sbr. 2. málsliður 1. mgr. 27. greinar.

Samkvæmt erindi kæranda ná atvik málsins aftur til ársins 2006. Samkvæmt fyrirliggjandi bótauppgjöri, sem undirritað er af kæranda, fór uppgjörið fram þann 28. júní 2006. Í bótauppgjörinu kemur fram sundurliðun bótagreiðslna og kostnaðar sem tryggingafélagið greiddi, svo og sundurliðun lögmannsþóknunar og útlagðs kostnaðar sem kærði dró frá bótunum við uppgjörið. Þegar kærandi sendi nefndinni erindi sitt voru liðin um þrjú ár og tæplega 9 mánuðir frá því samskiptum kæranda og kærða lauk vegna slysamálsins. Kærandi hefur ekki gert athugasemdir við útskýringar kærða eða mótmælt þeim.

Þegar af þeirri ástæðu, að meira en eitt ár var liðið frá því kærandi átti þess kost að koma erindi sínu á framfæri við úrskurðarnefndina, og með vísan til 2. málsliðar 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga nr. 77/1998, ber að vísa kvörtun þessari frá nefndinni.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Erindi kæranda, R, er vísað frá.

Málskostnaður fellur niður.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA