Mál 9 2011

Ár 2011, föstudaginn 7. október, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 9/2011:

E

gegn

G hrl.

 og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Í erindi E til úrskurðarnefndar lögmanna, sem barst nefndinni þann 7. júní 2011, var kvartað yfir háttsemi G hrl., vegna verkefnis sem kærandi kvað kærða hafa tekið að sér og laut að sliti á fyrningarfresti kröfu.

Kærði sendi nefndinni greinargerð um málið þann 12. ágúst 2011 og var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana. Athugasemdir kæranda við greinargerð kærða bárust 25. ágúst 2011.

Málsatvik og málsástæður.

Málsatvik eru umdeild. Eftir því sem fram kemur í kvörtun kæranda og síðari athugasemdum hennar, eru málsatvik þau að eiginmaður kæranda, M fór í febrúar 2010 fram á að kærði tæki að sér að viðhalda fyrningarfresti á kröfu sem dæmd hafði verið í Hæstarétti.  Samþykkti kærði þetta og tók við ljósriti af dómnum. Í maí hafi M fengið símhringingu frá lögmannsstofu kærða og verið beðinn um númer dómsins þar sem ljósritið hefði týnst. Þá fylgdi M málinu eftir síðar og fékk staðfest að málinu hefði verið haldið við.

Kærendum hafi þótt einkennilegt að fá engan reikning vegna starfa lögmannsstofunnar og hefðu því kannað málið þann 3. maí 2011. Þá hefðu þær upplýsingar fengist að greiðslugeta dómþolans hefði verið könnuð en ekkert frekar gert. Sama dag hefði M sent kærða tölvupóst með fyrirspurn um málið, en fengið þau svör að lögmannsstofan hafi aldrei fengið nein gögn um þetta mál.

Umrædd krafa sé nú fyrnd vegna mistaka kærða.

Kærði lýsir málavöxtum svo að eiginmaður kæranda, M, hafi komið á skrifstofu kærða vegna annarra erinda á árinu 2010. Hafi hann þá fært í tal að þáverandi sambýliskona hans, kærandi í máli þessu, hefði hug á því að framlengja fyrningarfrest. Hafi ekkert verið afráðið um aðkomu kærða eða lögmannsstofu hans að málinu á þessum fundi. Annað hvort á þessum fundi eða síðar hafi M svo komið með ljósrit af umræddum dómi og hafi ritari á skrifstofunni þá líklega kannað greiðslugetu viðkomandi dómþola með þeirri niðurstöðu að þangað væri lítið að sækja. Hafi kærði í framhaldi af þessu tjáð M að stofan gæti ekki tekið málið að sér að svo stöddu, nema fá gögn um málið, einkum:

  • - Umboð frá kæranda til M um að annast þessi samskipti við lögmannsstofuna eða hennar beinu aðkomu.
  • - Gögn um að kærandi sé dómhafi (Samkvæmt dómnum er það X, en kærandi muni vera ekkja hans)
  • - Staðfest dómsendurrit
  • - Upplýsingar um fyrri innheimtuaðgerðir, s.s. fjárnám.

Þessi umbeðnu gögn hafi aldrei borist frá M og hafi honum verið fullkunnugt um það. Hafi kærði því aldrei tekið innheimtu eða fyrirningarslit kröfunnar að sér og sé því mótmælt að M hafi nokkurn tíma fengið aðrar upplýsingar á skrifstofu kærða. Enginn reikningur hafi verið gerður vegna málsins þar sem kærði hafi aldrei tekið við því.

Ekki eru tilgreindar sérstakar kröfur í kærunni, en litið er svo á að þess sé krafist að kærði verði beittur þeim viðurlögum sem rakin eru í 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn vegna vanrækslu á máli kæranda.

Engar kröfur hafa verið gerðar af hálfu kærða, en málatilbúnaður hans verður skilinn svo að hann krefjist þess að kröfum kæranda verði hafnað.

Niðurstaða.

Samkvæmt 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna tekur nefndin afstöðu til sönnunargildis framkominna yfirlýsinga og gagna, sem þýðingu hafa fyrir úrslit máls. Ef í máli eru sönnunaratriði, sem örðugt er að leysa úr undir rekstri málsins, eða mál er að öðru leyti ekki nægilega upplýst, getur nefndin vísað máli frá.

Í máli þessu er kvartað yfir þvi að kærði hafi tekið að sér að viðhalda fyrningarfresti en ekki sinnt því. Ósannað er hvort kærði tók verkið að sér yfirhöfuð og þar með hvort hann varð nokkurn tíma lögmaður kæranda. Kærði kveðst hafa sagt eiginmanni kærandans að hann gæti ekki tekið málið að sér í þeim búningi sem það kom inn og hafi aldrei orðið af því að hann tæki við málinu. Kærandi byggir á því að þessi svör hafi maður hennar aldrei fengið. Ekkert liggur annars fyrir um þessi samskipti. Er við svo búið útilokað fyrir úrskurðarnefndina að fjalla um háttsemi kærða í störfum fyrir kæranda og er óhjákvæmilegt að vísa máli þessu frá nefndinni.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli kæranda, E, gegn kærða, G hrl., er vísað frá úrskurðarnefnd lögmanna.