Mál 6 2012

Ár 2012, fimmtudaginn 23. ágúst, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 6/2012:

V

gegn

Bhrl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmannabarst þann 16. mars 2012 erindi V þar sem hún kvartar yfir því að B hrl. hafi ítrekað látið fresta dómsmáli  hennar án samráðs við hana og látið hjá líða að upplýsa hana um gang málsins, þ.á.m. um niðurfellingu þess og að svara fyrirspurnum hennar um málið.

Kærði sendi nefndinni greinargerð um málið þann22. maí 2012 og var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana. Athugasemdir kærandavið greinargerð kærða bárust 13. júní 2012. Kærða var gefinn kostur á að gera lokaathugasemdir vegna þeirra með bréfi þann 25. júní 2012en hefur kosið að gera það ekki.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Hvorki kærandi né kærði hafa gert grein fyrir atvikum málsins með heildstæðum hætti en af framlögðum gögnum og málatilbúnaði þeirra má ráða að kærandi hafi orðið fyrir þremur slysum, árin 1997, 2002 og 2004. Um áramótin 2006/2007 leitaði kærandi til kærða vegna afleiðinga þessara slysa. Raunar ber aðilum ekki saman um hvaða slys voru sérstaklega til umræðu þá, en umboð kærða nær til hagsmunagæslu vegna þeirra allra. Var aflað sérfræðimatsgerðar um afleiðingar slyssins 2004 en jafnframt var í matsbeiðni óskað mats á því hvort versnun hefði orðið á heilsufari kæranda vegna slysanna 1997 og 2002. Varð niðurstaða matsmanna sú að orðið hefði ófyrirséð versnun áverka á hægra hné eftir slysið 1997, eftir að afleiðingar þess slyss voru metnar á sínum tíma.

Í málinu liggur fyrir skilagrein og reikningur kærða vegna innheimtu slysabóta vegna slyss 2004. Er skilagreinin dagsett 23. des 2008 og ber með sér að kærði hefur alls innheimt kr. 1.465.298 krónur. Af þeim hafa kr. 259.176 runnið til greiðslu útlagðs kostnaðar og 242.775 til greiðslu þóknunar kærða ásamt virðisaukaskatti, en kr. 963.347 hafa verið greiddar kæranda.

Kærði höfðaði í árslok 2008 skaðabótamál á hendur tjónvaldsins úr slysinu 1997 og tryggingafélagi hans. Byggði hann á því að skilyrði væru fyrir hendi til að endurupptaka bótaákvörðun vegna slyssins á grundvelli 11. gr. skaðabótalaga. Jafnframt var sótt um gjafsókn til rekstrar málsins.

Gjafsóknarbeiðninni var hafnað í mars 2009.

Eftir þingfestingu málsins var því ítrekað frestað til frekari gagnaöflunar af hálfu stefnanda. Aflaði kærði m.a. vottorðs frá [dr. S] sem gefið var út 9. maí 2009.

Þann 21. júní 2009 sendi kærði kæranda bréf þar sem hann framsendi henni læknisvottorð [dr. S]með athugasemd um að þar kæmi ekki fram að ákveðið hefði verið að kærandi þyrfti að fara í hnéskiptiaðgerð eins og hún hefði tjáð kærða. Bréfið ber með sér að því hafi fylgt reikningur sem kærði bað kæranda að greiða.

Þann 21. ágúst 2009 sendi kærði kæranda annað bréf þar sem hann kynnti henni synjun gjafsóknarnefndar á gjafsókn. Í bréfinu fer kærði í fáum orðum yfir stöðu málsins sem hann telur snúið þar sem fyrirliggjandi gögn séu ekki nægilega afdráttarlaus um hve áverki kæranda í hné sé metinn til mikils miska. Þá segir í þessu bréfi kærða:

Eins og ég hef sagt tel ég nauðsynlegt að þú farir til geðlæknis til að gengið verði úr skugga um andlegar afleiðingar slyssins árið 1997, en eins og ég hef sagt þá getur það kostað 75.000 krónur og verður þú að greiða þann kostnað.

Málið var þingfest á sínum tíma og fenginn frestur af stefnanda hálfu til að afla frekari gagna. Ég mun leggja fram vottorðið frá [dr. S]og taka ákvörðun um hvað gert verður sem fyrst, en frekar er á brattann að sækja.

Málinu var áfram frestað eftir framangreind bréfaskipti að beiðni kærða og var ýmist bókað að það væri vegna matsgerðar eða frekari málatilbúnaðar. Frekari gögn voru þó ekki lögð fram. Í máli þessu liggur fyrir afrit af þingbók þar sem fram kemur að í september 2011 var málinu frestað með þessum hætti í sautjánda sinn, þá til 13. des 2011. Virðist málið hafa verið fellt niður síðar um veturinn.

Kærandi heldur því fram að hún hafi, allt frá því að kærði tók mál hennar að sér, þurft að hafa frumkvæði að samskiptum og ýta á eftir málinu. Kærði hafi jafnan sagt sér að hafa samband eftir viku, en oftast hafi þá gengið illa að ná tali af honum. Hafi hann yfirleitt sagt að hann væri að vinna í málinu og það væri að klárast.

Í málinu liggja fyrir tölvupóstsamskipti aðila þess frá 29. nóvember 2011 og áfram næstu vikur þar sem kærandi krefst upplýsinga um hvar málið er statt. Kærði svaraði fyrst 7. desember og kvaðst þá ætla að fella málið niður og stefna á ný. Þá liggur fyrir annað svar frá kærða, dags. 26. janúar 2012 þar sem fram kemur að búið sé að fella málið niður og stefni kærði að því að koma nýrri stefnu út í mars. Síðar sama dag sendi kærði annan tölvupóst þar sem hann stingur upp á að kærandi hitti hann eftir hálfan mánuð. Jafnframt kemur fram að hann vonist til að gjafsókn fáist út á nýja stefnu.

II.

Kærandi lýsti ekki sérstökum kröfum í kvörtun sinni, en litið er svo á að þess sé krafist að nefndin beiti heimildum sínum samkvæmt 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998.

Í kvörtun kærandatil úrskurðarnefndar kemur fram að 17 frestanir á máli hennar fyrir héraðsdómi og niðurfelling málsins hafi verið að henni forspurðri. Hafi kærði engar upplýsingar veitt henni um gang málsins. Fyrirspurnum hennar hafi hann engu svarað efnislega, en jafnan sagt að hann væri að vinna í málinu og beðið sig að hringja síðar. Hafi þetta gengið svona allt frá því að hann tók mál hennar að sér. Telur kærandi að kærði hafi brugðist skyldu sinni til að upplýsa umbjóðanda sinn um gang málsins og tafið málið að óþörfu. Kveðst kærandi í kæru sinni óttast að kærði hafi skaðað eða jafnvel ónýtt málið ásamt því að skapa henni kostnað og óvissu. Hún kveður kærða í upphafi hafa talið málið auðunnið og það komi henni í opna skjöldu að heyra það mörgum árum síðar að það sé á brattann að sækja.

Kærandi kveðst ekki hafa fengið aðra reikninga vegna starfa kærða en þann sem greiddur var af bótum hennar vegna slyssins 2004

III.

Í greinargerð sinni rekur kærði hvernig mál kæranda horfir við honum. Upphaflega hafi hann horft til þess að þar sem kærandi væri orðinn 75% öryrki samkvæmt almannatryggingalögum vegna slysa mætti athuga með endurupptöku á bótaákvörðun vegna fyrri slysa, enda væru það ekki síst áverkar frá slysinu 1997 sem réðu þegar hún var metin öryrki. Síðar hafi fallið dómar sem hafi sýnt að erfitt er að sækja mál á grundvelli 11. gr. skaðabótalaga.

Málshöfðunin í því máli sem hér er til skoðunar hafi verið til að sýna ekki tómlæti og þá byggt á því að vitneskja um umfang áverkanna hafi fyrst legið fyrir með sérfræðimati sem aflað var eftir að hann tók við máli kæranda. Hafi hugmyndin verið sú, að ef gjafsókn fengist yrði beðið um mat á áverkunum eftir slysið 1997 og málinu stefnt aftur inn ef matið gæfi tilefni til þess. Jafnframt þyrfti að afla mats á andlegum afleiðingum þess slyss. Eftir að gjafsókninni var hafnað hafi málið verið í ákveðinni biðstöðu en það hafi svo verið fellt niður. Hafi hann ætlað að stefna því aftur innan 6 mánaða frá niðurfellingu þess vegna þrýstings frá kæranda, en þó talið að nauðsynlegt væri að afla nýs mats. Þó væri unnt að stefna á grundvelli fyrirliggjandi sérfræðimats og gera beinar fjárkröfur, þó ekki yrðu þær háar. Allt þetta hafi hann verið búinn að útskýra fyrir kæranda á fundi þegar hún lagði kvörtun sína fram. Tekur kærði fram að hann fái ekki séð að kærandi hafi greitt sér neitt fyrir vinnu sína að þessu dómsmáli.

Kærði ber annars ekki á móti lýsingum kæranda á samskiptum þeirra.

Niðurstaða.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum..

Samkvæmt 2. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni, sem tekur að sér verkefni að reka það áfram með hæfilegum hraða. Skal hann tilkynna skjólstæðingi sínum ef verkið dregst eða ætla má að það dragist.

Nefndin lítur svo á að kvörtun kæranda lúti eingöngu að því hvernig kærði hefur farið með það skaðabótamál sem hann höfðaði í hennar nafni fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í árslok 2008, en í því máli var krafist bóta vegna slyss sem áður hafði verið gert upp. Nær skoðun nefndarinnar til samskipta kærða við kæranda vegna þess máls.

Nefndin telur að kærði hafi skýrt með fullnægjandi hætti hvernig hann stóð að málatilbúnaði f.h. kæranda í árslok 2008. Af skýringum kærða er ljóst að hann vildi flýta því að stefna inn máli vegna þess slyss sem varð árið 1997 til að forða því að málstaður hennar yrði fyrir réttarspjöllum vegna tómlætis eða fyrningar og freista þess að afla afdráttarlausra gagna um ófyrirséðar afleiðingar slyssins. Kærði virðist frá upphafi hafa reiknað með því að þurfa jafnvel að fella þetta mál niður og stefna því á öðrum málsgrundvelli. Í þessu ljósi verða út af fyrir sig ekki gerðar athugasemdir við að hann hafi frestað málinu.

Af tilvitnuðum skýringum kærða verður einnig ráðið að hann hafi metið stöðu bótamála kæranda allflókna og tvísýna þegar málið var höfðað í árslok 2008, en kærandi hafði áður gengið frá uppgjöri bóta vegna slyssins. Gagnaöflun kærða bar ekki þann árangur að afdráttarlaus niðurstaða fengist um ófyrirséða versnun vegna afmarkaðra afleiðinga slyssins. Þá telur nefndin rétt hjá kærða að dómar sem gengu á þessum tíma hafi gert það torsóttara að opna á ný eldri uppgjör á grundvelli skaðabótalaga en áður. Inn í þessa stöðu spilaði jafnframt að gjafsóknarbeiðni kærða fyrir hönd kæranda var hafnað, en ljóst virðist að frekari gagnaöflun gat orðið kostnaðarsöm, eins og kærði benti raunar á í bréfi sínu frá ágúst 2009.

Má taka undir þá ráðagerð kærða í tilvitnuðu bréfi, að synjunin og staða málsins  hafi einmitt kallað á að hann myndi í samráði við kæranda „taka ákvörðun um hvað gert verður sem fyrst".

Virðist hafa komið til greina að útskýra það einfaldlega fyrir kæranda að ekki þýddi að reyna að fylgja málinu frekar eftir. Teldi kærði á hinn bóginn rétt að fella málið niður og stefna því svo á nýjan leik innan sex mánaða í þeirri von að fá fremur gjafsókn á breyttum málsgrundvelli virðist allt eins hafa verið tilefni til að gera það þegar á þessu tímamarki. Þá hefði kærði getað rætt við kæranda um kostnað af frekari matsgerðum og hvort hún vildi leggja í hann í því skyni að leggja nýjan grundvöll undir málið.

Á hinn bóginn er ekkert komið fram sem skýrir, að mati nefndarinnar, af hverju þessu var ekki fylgt eftir, heldur málinu þess í stað frestað eftir þetta í héraðsdómi um meira en tveggja ára skeið, en kærði hefur hvorki borið á móti því að þetta hafi verið gert án nokkurs samráðs við kæranda, né lýsingum hennar á samskiptum þeirra að öðru leyti. Verður að byggja á þeirri lýsingu kærða að henni hafi reynst mjög örðugt að ná sambandi við kærða til að ræða við hann um mál sitt.

Ekkert bendir til þess að kærði hafi valdið kæranda réttarspjöllum eða kostnaði og raunar virðist hann hafa gengið mjög langt í að reyna að halda málstað hennar fram. Það haggar þó ekki því, að kærða bar að gera skjólstæðingi sínum grein fyrir stöðu málsins og taka ákvörðun um framhaldið eins og hann boðaði, sbr. tilvitnað ákvæði 2. gr. siðareglna lögmanna.

Verður ekki hjá því komist að gera athugasemd við hvernig kærði hélt á máli kæranda að þessu leyti.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Þau vinnubrögð kærða, B hrl., að láta hjá líða, allt frá ágúst 2009 þar til dómsmál sem kærði rak fyrir kæranda, V, var fellt niður árið 2011, að hafa samráð við kæranda um hvernig haga skyldi málarekstri fyrir hönd hennar þar á meðal hvort ákveðið skyldi að málið yrði fellt niður, eru aðfinnsluverð.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, hrl., formaður

Kristinn Bjarnason, hrl.

Valborg Þ. Snævarr, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson