Mál 22/2013

 

 

Ár 2016, fimmtudaginn 16. janúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 22/2013:

A

gegn

R hdl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Í erindi A til úrskurðarnefndar lögmanna, sem barst nefndinni þann 9. október 2013, var kvartað yfir áskilinni þóknun og framgöngu R hdl., kærða, vegna tveggja aðskildra mála þar sem kærði gætti hagsmuna kæranda.

Með bréfi, dags. 14. október 2013 var óskað eftir greinargerð kærða um málið og barst hún nefndinni 1. nóvember 2013. Athugasemdir kæranda við greinargerð kærða bárust 25. nóvember 2013. Með bréf dags. 28. nóvember var kærða gefinn kostur á því að koma að lokaathugasemdum vegna málsins og bárust þær 23. desember 2013. Báðir aðilar málsins sendu svo nefndinni afrit af tölvuskeyti sóknaraðila til varnaraðila, dags.  9. janúar 2014.

I.

Hvorki kærandi né kærði hafa hafa gert grein fyrir atvikum máls með heildstæðum hætti og nokkuð ber á milli í atvikalýsingum, en af gögnum máls og málatilbúnaði þeirra má ráða að kærði hefur gætt hagsmuna kæranda í nokkrum málum. Kærandi hafi m.a. leitað til kærða þann 22. september 2010 vegna líkamsárásar sem hún varð fyrir. Kærandi hafi óskað eftir því að kærði legði fram bótakröfu fyrir hennar hönd, en málið var þá til rannsóknar hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarborgarsvæðinu. Bótakrafa var send lögreglu þann 24. október 2010 og þá var send umsókn til bótanefndar fyrir hönd kæranda 29. október 2010. Þann 30. janúar 2013 barst síðan svar frá bótanefnd þar sem kom fram að fyrirliggjandi gögn væru ekki fullnægjandi til þess að hægt væri að taka efnislega afstöðu til kröfunnar. Í framhaldi af því sendi kærði fyrirspurn til lögreglu um framgang sakamálsinsog fékk það svar 18. febrúar 2013 að rannsókn málsins hefði verið hætt 2. maí 2012.

Þann 6. september 2013 barst kæranda svar frá lögreglustjóranum á höfuðborgasvæðinu við fyrirspurn sinni,þar sem greint var frá því að rannsókn í líkamsárásarmáli kæranda hefði verið felld niður sökum þess að sök í málinu var fyrnd.

Kærði sendi reikning til kæranda fyrir störf að þessu máli, samtals að fjárhæð kr. 62.750 fyrir 5 tíma vinnu + vsk. Kvörtun kæranda lýtur m.a. að þessum reikningi og aðframgöngu kærða í málinu, þ.e. að brot hafi fyrnst meðan málið var til meðferðar hjá honum.

Í síðara máli voru málsatvik þau að kærði gætti hagsmuna móður kæranda og höfðaði mál fyrir hennar hönd hjá Héraðsdómi Reykjavíkur nr. [...] vegna nauðungarvistunar hennar. Móðir kæranda féll síðan frá 4. apríl 2013 þegar málið var enn til meðferðar hjá héraðsdómi. Þann 6. júní 2012 óskaði kærði eftir því að kærandi kæmi til sín og skrifaði undir umboð til þess að fara með málið. Kærandiundirritaði í kjölfariðumboð þann 7. ágúst 2013 þar sem hún fól kærða að gætahagsmuna sinna vegna andláts móðurinnar, ásamt því að gæta hagsmunum dánarbús móður kæranda í tengslum við ætluð mistök sem átt hefðu sér stað við læknismeðferð hennar.

Í kjölfarið virðist hafa orðið ákveðinn trúnaðarbrestur og kærandi afurkallað umboð kærða eða kærði sagt sig frá málinu en um það erdeilt. Þann 2. september 2013 sendikærði kæranda tölvupóst þar sem komu fram tillögur að uppgjöri aðila og jafnframt tilkynnt að kærði hafi sagt sig frá málinu. Í drögum aðuppgjöri kom fram að áætlaðar vinnustundir í máli móður kærandi hafi verið 25 talsins, útseldur tími á kr. 22.500 + vsk. auk útlags kostnaðar.

Í drögum að uppgjöri kærða komeinnig fram uppgjör í öðrum málum, í fyrsta lagi vegna umferðarslys sem kærandi varð fyrir þann 19. desember 2012 þar sem kærði lagði fram 2. klst. að vinnu, útseldur tími á kr. 22.500 + vsk., samtals frjárhæð kr. 56.475. í öðru lagi að kærandi hafi áður móttekið reikning B hdl. að fjárhæð kr. 42.356 vegna starfa hans sem fólst í könnun á erfðarétti kærandi eftir lát föður hennar. Að lokum er kæranda í drögunum kynnt að D geri kæranda reiking að samtals fjárhæð 119.234 kr. til viðbótar við fyrri reikning sem inniheldur einnig kostnað úr fyrra máli eða skaðabótamáls vegna líkamsárásar á hendur kæranda.

II.

Kærandi krefst þess að kærði verður áminntur vegna starfa sinna og óskar eftir áliti úrskurðanefndar lögmanna um hvort beri að greiða fyrir þjónustu kærða og þá hversu mikið.

Kærandi kveðst hafa leitað til kærða vegna líkamsárásar og óskað eftir því að hann legði fram bótakröfu fyrir sína hönd í málinu. Rannsókn hafi verið hætt hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgasvæðinu án þess að kröfur væru gerðar af hálfu kæranda um bætur eða refsingu. Kærandi kveður kærða ekki hafa aðhafst neitt í málinu, sem hafi gert það að verkum að það hafi fyrnst með vísan til 1. tl. 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þrátt fyrir þetta  hafi kærði sent reikning að fjárhæð kr. 62.750 og telur kærandi það með öllu óásættanlegt að greiða fyrir þessa þjónustu lögmanns þegar mál fyrnist á meðan þar til meðferðar hjá honum. Einnig telur kærandi með ólíkindum að slík bótakrafa taki 5. klst. í vinnslu.

Kæranda greinir frá því að mál móður hennar fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur,[...] hafi verið höfðað af hálfu hennar sjálfrar á hendur ríkissjóði vegna nauðungarvistunar á geðdeild. Kærandi hafi þá m.a. óskað eftir því að móðir hennar væri vistuð á geðdeild. Móðir kæranda hafi síðan látist 4. apríl 2013 og kærandi ekki óskað eftir því að fá leyfi til einkaskipta né tekið ábyrgð á skuldum dánarbús hennar. Þrátt fyrir þetta kveður kærandi kærða hafi boðað hanaá fund í þeim tilgangi að skrifa undir umboð þess efnis að kærði fariáfram með mál móður kæranda. Á þessum fundi segir kærandi kærða hafa lýst því yfir að undirritum umboðs væri algjört formsatriði til þess að hægt væri að ljúka máli dánarbús móður hennar. Kærandi sem ólöglærð manneskja hafi tekið kærða trúanlegan og nú hafi lögmannstofa kærða krafið hana um greiðslu á 25. klst. vegna málsins þar sem útseldur tími er 22.500 kr + vsk. á tímann. Á fyrrgreindum fundi kveður kærandi kærða ekki hafa upplýst sig um að hún gæti verið að taka við skuldbindingum móður sinnar og þá hafa kærði heldur ekki greint frá tímagjaldi. Að lokum hafi kærandi óskað eftir því að fá sundurliðaða tímaskýrslu frá kærða en því hafi ekki verið sinnt.

III.

Kærði hafnar kröfum kæranda og krefst þess jafnframt að kærandi greiði samtals fjárhæð kr. 161.581 vegna starfa í þágu kæranda að viðbætum dráttarvöxtum og málskostnaðar fyrir úrskurðarnefnd lögmanna að mati nefndarinnar.

Kærði kveður kæranda fyrst hafa haft samband við sig þann 13. október 2010 vegna samskipta kærða við sýslumanninn á Blönduósi í tengslum við innheimtu sekta og sakarkostnaðar og hafikærandi notið aðstoðar við að koma sínum málum í lag. Kærði kveðst ekki hafa gert kæranda reikning fyrir vinnu sína vegna stöðu hennar á þeim tíma.

Því næst kveður kærandi kærða hafa leitað til sín 22. september 2010 vegna líkamsárásar sem hún varð fyrir. Í kjölfarið hafi kærði sent bréf til lögreglu þar sem óskað var eftir gögnum málsins. Því hafi veriðsvarað á þann hátt að gögn málsins hafi verið send á Blönduós og þaðan áframsend til lögregluembættisins á Akureyri. Gögnin hafi síðan borist 4. október 2010. Í kjölfarið hafi bótakrafa verið send 24. október 2010 auk þess sem bótanefnd var tilkynnt um kröfuna. Þeirri kröfu hafi síðan verið fylgt eftir með tölvupósti 16. júní og 20. júní 2011. Þann 30. janúar 2013 kveður kærði bréf hafa borist frá bótanefnd þar sem óskað var eftir upplýsingum um málið. Í kjölfarið hafi verið send fyrirspurn til lögreglunar og þá hafi það verið upplýst að málið hafi farið í bið enda hafi brotamaður verið búsettur erlendis. Þá hafi einnig komið fram að rannsókn lögreglu hafi verið felld niður 2. maí 2012 vegna þess að sök hafi verið fyrnd, en engin tilkynning um það hafi verið send til kærða.

Kærði kveðst ekki bera neina ábyrgð á því að krafa hafi fyrnst, málið hafi fyrnst í meðförum lögreglu. Kærði bendir jafnframt á að skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda þá fyrnist krafa vegna líkamstjón á 10 árum. Krafa kæranda sé því ekki fyrnd. Kærði kveðst í ljós aðstæðna einungis hafa gert kröfu um greiðslu fyrir 5 tíma vinnu og miðað tímagjald við það sem er að jafnaði tildæmt í sakamálum, þ.e. kr. 10.000 + vsk. samtals að fjárhæð 62.750 kr. Upphæðinni sé mjög í hóf stillt þegar um er að ræða samskipti við lögreglu, kæranda, ritun bótakröfu og samskipti við bótanefnd. Kærði kveðst hafa farið í einu og öllu eftir þeim verklagsreglum sem krafist er og sýnt kæranda fyllstu sanngirni.

Kærði kveðst hafa gætt hagsmuna móður kæranda í dómsmáli, [...]. Móðir kæranda hafi síðan fallið frá meðan mál var enn til meðferðar. Kærandi hafi því leitað til kærða, m.a. vegna pósts sem móðir kæranda hafi fengið frá Mannréttindasdómstól Evrópu. Þetta sýni fram lagður tölvupóstur frá 27. maí 2013. Kærði kveðst síðan hafa boðið kæranda á að koma til fundar við sig og hafi kærandi undirritað umboð þann 7. ágúst 2013þar sem kærða var falið að gæta hagsmuna dánarbús móður hennar í tengslum við ætluð mistök við læknismeðferð móður kæranda og að hagmunum kæranda varðandi andlát móður hennar. Kærði telur að ætla megi að kærandi hafi lesið umboðið við undirritun og hafnar því að hafa beitt nokkrum blekkingum. Kærði greinir frá því að það hafi veriðupplýst í málinu að hann hafi ekki talið sig hafa heimild til þess að taka ákvarðanir um framhald í máli móður kæranda. Það hafi einnig verið upplýst í réttinum og þess óskað af hálfu dómara að kærði myndi afla viðeigandi umboðs.

Kærði kveðst hafa  sagt sig frá málinu þann 13. september 2013í kjölfar þess trúnaðarbrests sem varð á milli aðila . Áður hafi hann sent kæranda tölvupóst 2. september 2013 um tillögur varðandi uppgjör og óskað eftir því að kærandi myndi undirrita uppgjörið. Í tillögunum kemur m.a. fram að í kjölfar undirritunar muni kærði segja sig frá máli móður kæranda með tilkynningu til dómara. Þá komi einnig fram tillögur varðandi uppgjör vegna vinnu við skaðabótamál fyrir hönd kæranda vegna umferðarslyss sem hún var fyrir, samtals 2 tímar að fjárhæð kr. 56.475.

Kærði kveður kæranda fullyrða í kæru sinni að hún hafi verið krafinn um greiðslu á 25 vinnustundum í máli móður hennar. Það segir kærði ekki rétt, kæranda hafi aldrei verið gerður reikingur fyrir slíku né standi það til. Einungis hafiverið tilgreint hvaða vinnnustundir hafi verið unnar í málinu og upplýst um tímagjald lögmanna sem kæranda hafi verið kunnugt um. Því hafi einungis verið tekið fram að ef málinu yrði haldið áfram af öðrum lögmanni, þá væri áskilinn réttur til þess að leggja fram tímaskýrslu í málinu.

Kærði hafnar af þeim sökum með öllu að hafa beitt blekkingum og kveðst frábiðja sér dylgjur sóknaraðila um annarlegar hugmyndir við innheimtu. Kærði kveður drög að uppgjöri sem hann sendi kæranda kveða nægjanlega skýrt á um vinnuframlag í hennar þágu. Kærði telur engin rök verafyrir því að útbúa og afhenda tímaskýrslu þar sem kærandi hafni búsforráðum.

Kærði kveður kæranda einungis hafa kært hann þrátt fyrir að tveir aðrir lögmenn hafi sinnt málefnum hennar á stofunni. Reikningur þeirra hafi veriðgerður samhliða reikningi kærða og séþví samanlögð fjárhæð reiknings kr. 119.234, en áður hafi B hdl. gert kæranda að reikning að fjárhæð kr. 42.354 vegna könnunar á erfðarétti eftir föður kæranda. Engar athugasemdir hafi verið gerðar við störf þeirra. Sé þess vænst að þeim sé ekki mótmælt og þeir greiddir. Kærði kveðst hafa fylgt lögum og reglum í einu og öllu, endurgjald það sem hann hafi áskilið sér er að fjárhæð kr. 62.750 en heildarreikningur vegna þriggja mála sé 161.581 kr. Kærði krefst þessað lokum að kærandi greiði sér hæfilegan málskostnað vegna þess að ásakanir hennar séu með öllu tilfhæfulausar og settar fram gegn betri vitund. Þrír tímar hafi farið í vinnslu greinargerðar, einn tími í samskipti við lögreglu og einn tími í samantekt gagna og tölvupósta. Tímagjald kærða sé kr. 22.500 að viðbættum vsk.

IV.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða sem barst úrskurðarnefndinni 25. nóvember 2013 hafnar hún í fyrsta lagi þeirri fullyrðingu kærða að hún hafi leitað til hans vegna samskipta hennar við sýslumanninn á Blönduósi þann 13. október 2010. Sú fullyrðing sé einfaldlega röng en þær málamiðlanirhafi  sér stað í september ári síðar þegar kærði hafi verið starfandi verjandi hennar í líkamsárásarmáli. Að kærði beri slíkt fram beri vott um gáleysi og óvönduð vinnubrögð og kærandi spyrji sig hverslags minnisleysi hann eigi við að etja. Kærandi kveður jafnframt ástæðu þess að ekki hafi verið gefinnút reikningur vegna þessara starfa vera þá, að hún hafi leyst úr málinu á eigin forsendum. Kærandi kveðst leita svara við því í hvaða fjárhagssstöðu kærðitelji kæranda hafa á þessum tíma sem hann vitni til.

Kærandi hafnar í fyrsta lagi kröfum kærða varðandi skaðabótamál sem kom fram í tillögum af uppgjöri kærða vegna umferðarslyss í ljósi þess að enginn málatilbúnaður hafi veriðaf hans hálfu né samstarfsmanna hans. Einungis óformleg samtöl sem C hdl., samstarfsmaður kærða,hafi sjálfviljugur boið framhafiátt sér stað um hugsanlegar miskabætur. Kærandi kveður C einungis hafa kallað eftir einu vottorði frá tryggingarfélagi en fullyrði að hann hafi átt tvo fundi við kæranda vegna málsins sem hún kannist ekki við. Þegar kærandi hafið beðið um sundurliðaðan reikning hafi því verið hafnað af hálfu C.

Kærandi ítrekar að kærði hafi aldrei látið sig vita um stöðu mála vegna líkamárásarinnar né látiðsig vita um endalok málshennar hjá löreglunni og þar með ekki sinnt lögbundnum skyldum. Ástæður kærða voru að vegna verklagsreglna lögreglunar hafi ekki verið hægt að tjá honum um niðurstöðuna en sú fullyrðing er ekki trúverðug að mati kæranda. Þá virðist kærði ekki hafa lagt fram fullnægjandi gögn hjá bótanefnd þrátt fyrir beiðni þar um af hálfu nefndarinnar. Telur kærandi framferði kærða að þessu leyti ámælisvert einkum með vísan til 12, 15 og 34. gr. siðareglna lögmanna.

Varðandi reikning vegna könnunar á erfðarétti kæranda vegna föðurs hennar er kom fram á uppgjöri kærða standistsá reikningur ekki nánari skoðun. Kærðitelji að samið hefði verið að kærandi greiddi fyrir 1. klst vinnu í ljósi þess að einungis umræður áttu sér stað um málefnið. Kærði hafi hins vegar verið að kalla eftir öllum gögnum sem kærandi hafi þegar aflað og í raun að tvívinna málið. Fljótlega hafi komið í ljóst að kærði var ekki með reynslu af slíkum málum og vísað til samstarfsmanns síns B hdl. og sagði hann jafnframt bestan í slíkum málum. Reikningurinn hafi síðan orðið nær helmingi hærri en um var samið og þá kvaðst kærandi hafa beðið um sundurliðun á þeim reikning en því hafi einnig verið neitað. Kærði hafi því brot lög og siðareglur lögmanna með því að hafa vísað máli til bróður síns og samstarfsmanns ásamt því að hafa gefið í skyn að hann hafi mikla reynslu af slíkum málum. Vísar kærandi einkum til 1. mgr. og 3. mgr. 8.gr. siðareglna lögmanna í því sambandi.

Kærandi kveður kærða hafa uppi mikil ósannindi í greinargerð sinni, kærðihafi beðið hana um að koma og skrifa undir umboð til þess að ganga frá lausum endum dánarbús kæranda. Sú varð ekki raunin og hafi kærandi margsinnis reynt að afturkalla það umboð. Þá hafi hafi trúnaðarbrestur orðið mun fyrr en 13. september líkt og kærði haldi fram. Kærandi hafi látið kærða vita um póst sem móðir sín hafi borist frá Mannréttindadómstól Evrópu sem hún hafi talið eðlilegt í ljósti þess að láta kærða vita um stöðu mála. Kærandi telur sig þar af leiðandi hafa orðið fyrir blekkingum og spyr hvers vegna kærði vilji ekki viðurkenna að hann hafi leitað eftir umboði hennar á eigin forsendum.

Varðandi uppgjör kærða er kærandi ekki sammála um að það sé nægjanlega skýrt, ekki væri hægt að fallast á að skrifa undir þennan ósanngjarna reiking og svaraði þar af leiðandi kærandi ekki kalli kærða um að mæta á tilsettum tíma á skrifstofu hans í þeim tilgangi

Kærandi ítrekar kröfur sínar um að áréttað verði að kærði hafi gerst brotlegur gegn lögum lögmenn nr. 77/1998 og siðareglum lögmanna. Þá hafi kærði einnig gerst brotlegur við lög um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936 með því að hafa ekki virt ákvæði er varða afturköllun umboðs og misnotað stöðu sína skv. 31. gr. Þá vísar kærandi til bótaábyrgðar kærða með vísan til 25. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 og íhugar hvort hún eigi rétt á bótakröfu á hendur kærða vegna seinagang hans í líkamsárásarmáli.

Að lokum hafnar kærandi kröfu kærða um greiðslu tímagjalds vegna greinargerðar fyrir úrskurðarnefnd lögmanna og fer fram á að kröfum D lögmannstofu á hendur henni verði látnar niður falla eða í því minnsta bornar fram á réttum forsendum með kröfur kæranda að leiðarljósi.

V.

Í lokaathugasemdum kærða kemur fram að það sé rétt hjá kæranda að fyrstu samskipti þeirra hafi verið árið 2010. Annars er framsetningu kæranda á málinu hafnað og kveðst varnaraðili telja hana bera merki persónulegrar óvildar í sinn garð. Hann hafnar því að kærandi hafi fengið annað en vinsamlegt viðmót á lögmannsstofu sinni. Varðandi störf að skaðabótamáli vegna líkamsárásar telur kærði að misskilinings gæti hjá kæranda um eðli þeirra. Hann hafi ekki starfað að sakamálinu sem verjandi eða haft af því önnur afskipti en að leggja fram í því bótakröfu kæranda.

Niðurstaða.

Í máli þessu þarf í fyrsta lagi að taka afstöðu til þess hvort kærði hafi gerst brotlegur við lög eða siðareglur lögmanna og í öðru lagi að fjalla um fjárhagslegt uppgjör aðila vegna lögmannsstarfa kærða.

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í 1. gr.  siðareglna lögmanna kemur fram að lögmanni ber að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Samkvæmt 2. gr. siðareglna skal lögmaður gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.

Vegna þess ágreinings sem er með aðilum um ýmis atriði sem varða málsatvik er rétt að undirstrika að í þessum þætti málsins verður sönnunarbyrði jafnan lögð á þann sem byggir á því að lögmaður hafi gerst sekur um brot á lögum eða siðareglum. Verða athugasemdir ekki gerðar við aðra háttsemi lögmanns en þá sem talið er sannað að hann hafi haft í frammi. Öðru kann að gegna varðandi ágreining um rétt til endurgjalds þar sem oft hefur verið á því byggt að það standi lögmanni nær en umbjóðanda hans að tryggja sér sönnun um umfang starfa sinna, munnlega samninga um endurgjaldið o.fl.

Nefndin telur ekkert komið fram um að kærði hafi haldið illa á bótakröfu kæranda vegna líkamsárásarmáls gagnvart lögreglu eða bótanefnd. Ljóst er að það var ekki á færi kærða að stýra meðferð umrædds sakamáls og engin ábyrgð verður lögð á hann vegna þess að það fyrndist í meðförum lögreglu. Kærandi hefur lagt fram bréf lögreglu um niðurfellingu sakamálsins, dags. 6. september 2013, sem hefur verið sent henni sjálfri, að því er virðist vegna fyrirspurnar hennar. Í þessu bréfi lögreglu er vísað til meðfylgjandi bréfs lögreglustjóra, dags. 20. apríl 2011 um að rannsókn málsins hafi verið hætt. Ekkert er fram komið um að kæranda hafi verið tilkynnt um þessi málalok á þeim tíma, en á hinn bóginn er upplýst með fram lögðum tölvupósti kærða, að hann var upplýstur um niðurfellingu málsins í febrúar 2013. Er því ómótmælt að honum hafi láðst að tilkynna kæranda um niðurfellingu málsins eða leiðbeina henni um stöðu þess að þeirri niðurstöðu fenginni. Er óhjákvæmilegt að gera aðfinnslu við þetta.

Hvorugur aðila hefur lagt fram það umboð sem þeir vísa til í málflutningi sínum og kærandi skrifaði undir vegna mála móður hennar. Athugasemdir kæranda við þetta umboð lúta að því að með undirritun þess hafi hún persónulega verið ranglega dregin inn í málarekstur sem var henni óviðkomandi og þannig hafi þess verið freistað að stofna til greiðsluskyldu hennar vegna málskostnaðar af málinu. Af lestri gagna málsins virðist ljóst að þetta er misskilningur hjá kæranda. Kærði hefur enga tilraun gert til að innheimta hjá henni málskostnað vegna þessa dómsmáls.

II.

Í erindi sínu til kærunefndarinnar kveðst kærandi gera ágreining um tvo reikninga kærða vegna tveggja aðskilinna mála, sem kærði vann að í hennar þágu. Fyrir liggur að kærði hefur starfað að fleiri málum f.h. kæranda og að á lögmannsstofu kærða hafa aðrir lögmenn unnið að öðrum málum hennar. Eins og málið er lagt fyrir nefndina þykir útilokað að fjalla í því um annan fjárhagslegan ágreining en þann sem kærandi lagði í upphafi fyrir hana.

Kærði hefur lagt fyrir nefndina helstu gögn vegna þess skaðabótamáls hennar sem varðaði líkamsárás á hana. Með hliðsjón af því að kærði hefur sjálfur aflað þessara gagna, virðist eðlilegt að innheimtar séu fimm vinnustundir vegna þessa máls. Umkrafið tímagjald kærða, kr. 10.000 auk virðisaukaskatts telst mjög hóflegt. Verður fallist á kröfu hans vegna þessa þáttar málsins.

Hitt atriðið varðandi gjaldtöku sem kærandi gerði athugasemdir við varðar 25 vinnustundir sem kærði kveðst hafa unnið fyrir móður kæranda, en kærði áskilur sér 22.500 kr. tímagjald vegna þeirra. Af fram lögðum uppgjörsdrögum, sem kærði sendi kæranda, er ljóst að kærði hefur ekki áskilið sér greiðslu vegna þessa úr hendi kæranda, nema svo færi að kærða vildi taka við málarekstrinum og fá gögn málsins afhent. Er þetta jafnframt staðfest í greinargerð kærða. Málatilbúnaður kærðu verður skilin svo að því fari fjarri að hún ætli sér neitt slíkt. Með vísan til  ofangreinds verður litið svo á að kærði hafi fallist á þá kröfu kæranda að hún teljist ekki bera greiðsluskyldu hennar vegna vinnu.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af málinu fyrir úrskurðarnefndinni.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Sú háttsemi kærða, R hdl., að láta undir höfuð leggjast frá febrúar til september 2013 að tilkynna kæranda, A, um niðurfellingu sakamáls nr. [...] er aðfinnsluverð.

Áskilin verklaun kærða, kr. 62.750, vegna vinnu fyrir kæranda að skaðabótamáli hennar vegna líkamsárásar, eru hæfilegt endurgjald í skilningi 1. mgr. 24. lögmannalaga nr. 77/1998.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, hrl., formaður.

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Valborg Þ. Snævarr, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________