Mál 24/2013

Ár 2014, fimmtudaginn 14. febrúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 20/2013:

A

B

C og

D

gegn

R

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Í erindi A, B, C og D, kærenda, til úrskurðarnefndar lögmanna, sem barst nefndinni þann 22. október 2013, var kvartað yfir brotumR hdl., kærða, gegn mörgum greinum siðareglna lögmanna. Lytu brotin bæði að tilhæfulausri kæru lögmannsins til sérstaks saksóknara og framgöngu hans í opinberri umræðu í fjölmiðlum.

Með bréfi, dags. 24. október 2013 var óskað eftir greinargerð kærða um málið og barst hún nefndinni 6. nóv 2013. Var kærendum gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana 8. nóvember 2013. Frestur til þessa var framlengdur vegna þess að ákvörðun ríkissaksóknara barst nefndinni 25. nóvember 2013, athugasemdir kæranda bárust síðan 4. desember 2013. Lokaathugasemdir kærða vegna málsinsbárust 18. desember 2013.

I.

Málsatvik eru þau að kærendur eru allir stjórnarmenn E. Með kæru dags. 8. júlí 2013, voru kærendur persónulega kærð til embættis sérstaks saksóknara vegna meintrar innheimtu ólögmætra dráttarvaxta. Í kærunni er því haldið fram að kærendur hafi framið fjársvik í skilningi 248. gr. almennra hegninarlaga nr. 19/1940 og blekkt með skjölum í skilningi 156. gr. sömu laga. Samkvæmt ákvörðun sérstaks saksóknara dags. 6. september 2013 var kærunnivísað frá með vísan til 4. mgr. 52. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 þar sem ekki þóttu efni til þess að hefja rannsókn út af henni. Sú ákvörðun var síðan kærð af hálfu umbjóðanda kærða án aðkomu hans til ríkissaksóknara sem staðfesti ákvörðun sérstaks saksóknara þann 4. nóvember 2013.

II.

Kærendur krefjast þess að kærði vera látinn sæta viðurlögum í samræmi við 1. mgr. 14. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998, þ.e. að nefndin leggi í rökstuddu áliti til við ráðherra að réttindi kærða verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Kærendur telja kærða hafa opinberlega borið út óhróður um starfsemi E og þá sem þar starfa með ítrekuðum röngum staðhæfingum um málavexti og efni laga. Hafi hann að tilefnislausu borið á kærendur refsivert athæfi.

Kærendur greina frá því að kærði hafi komið fram í umræðuþætti og fjallað þar með mjög neikvæðum og niðrandi orðum um E. Þar hafi kærði fullyrt að ákveðið stjórnleysi ríkti innan E og hann hafi þurft að beita óhefðbundnum aðferðum til að fá málum sinna skjólstæðinga framgengt. Þá hafi einnigkomið fram að E og önnur fjármálafyrirtæki stundi fjárkúgun, innheimti ólöglegar kröfur og hunsi Hæstarétt. Þá fullyrði kærði að E beiti þvingunarúrræðum til þess að fá skuldara til þess að greiða ólöglegar kröfur.

Kærendur hafa orðrétt eftir kærða þegar hann segir í samtali við fjölmiðil varðandi  banka og önnur fjármögnunarfyrirtæki, m.a. E: „Innheimtuaðgerðir á Íslandi eru sumar hverjar ekkert annað en skipulögð glæpastarfsemi - verið er að innheimta það sem er ekki réttmætt með kúgunum - sagt er við fólk að ef það borgi ekki muni verða gengið af því". Kærendur telja þessar fullyrðingar kærða ekki standast og benda á að gerð hefur verið könnum af hálfu Fjármálaeftirlitsins og sérstakrar eftirlitsnefndar Efnahag- og viðskiptaráðherra þar sem staðfest hafi verið að ekkert sé til í framangreindum ásökunum kærða varðandi E.

Kærendur greina frá því að kærði starfi fyrir hóp sem ber heitið „samstaða gegn E" en hafi áður nefnst „slagur gegn E". Hópurinn hafi verið með mikinn áróður gagnvart E með síðu sinni á Facebook og hafi þar hvatt til ýmissa óhefðbundna aðgerða. Umbjóðandi kærða sem beindi kæru á hendur kærendum til sérstaks saksóknara sé meðlimur þessa hóps. Kærði hafi þegar hafið fjölmiðlaáróður gegn E í byrjun árs 2013 með fjölmiðlaumfjöllun um afturköllun endurútreiknings lögmætra erlendra lána.

Kærendur kveða kærða hafa fullyrt í útvarpsviðtali þann 13. maí í umfjöllun um hópinn „samstaða gegn E" að E hafi gengið lengra en aðrar fjármálastofnanir í því að brjóta á rétti einstaklinga og fyrirtækja. Þá fullyrði kærði í sama viðtali að E fari hvorki eftir úrskurðum eftirlitsstofnana né dómum Hæstaréttar við leiðréttingu lána. Í sama viðtali fullyrði kærði að vinnubrögð E séu mjög sérstök og að það hafi verið brotið alvarlega á skuldurum og jafnframt innheimt lán sem ekki sé heimild fyrir. Að lokum komi fram í viðtalinu að kærði væri að skoða ýmsar leiðir og aðgerðir gagnvart E sem muni skýrast á næstu vikum en þær verði frábrugðar því sem hingað til hafi verið farið út í. Kærendur telja að með þessum ummælum hafi komið skýrt fram að ásetningur hóps þess sem kærði væri að stafa fyrir stæði til þess að fara í aðgerðir sem væru óhefðbundnar. Þetta séu ummæli sem sýni fram á einbeittan og harðan ásetning til að skaða orðspor E og þeirra einstaklinga sem þar stjórna sem mest.

Þann 8. júlí 2013 hafi kærði fyrir hönd umbjóðana síns kært kærendur persónulega til sérstaks saksóknara vegna meintrar innheimtu ólögmætra vaxta. Kærendur telja kæruna fela í sér mög alvarlega ásakanir og aðdróttanir um að framin hafi verið refsiverð brot. Kærendur greina frá því að tildrög kærunnar séu þau að eiginmaður umbjóðanda kærða hafi óskað var eftir upplýsingum um skuld hennar hjá E vegna þess að þau veltu fyrir sér að fara út úr greiðsluskjóli hjá Umboðsmanni skuldara og semja beint við E. Þessari beiðni hafi verið svarað og snúi kæruefnið fyrir sérstökum saksóknara að því að með því að svara þessaribeiðni umbjóðanda kærða hafi kærendur m.a. framið fjársvik í skilningi 248. gr. alm. hgl. og beitt blekkingum í skilningi 156. gr. alm. hgl.

Kærendur telja að málavextir í kæru kærða hafi verið visvítandi rangir, villandi og ónákvæmir. Hann haldi fram í lögskýringu sinni að ekki megi reikna dráttarvexti á meðan skuldari er í greiðsluskjóli. Þetta hafi kærendur gert með því einu að verða við beiðni umbjóðanda kærða um útprentaða stöðu og hafi þar með krafið umbjóðanda hans um dráttarvexti og gerst sekir um fjársvik. Þá hefi kærði mælst til þess í kærunni að refsiramminn yrði fullnýttur vegna framangreinds brots, þar sem kærendur séu með sérfræðikunnáttu og að hið meinta brot varði verulegum fjárhæðum.

Kærendur benda á að hvað varðar kæruefni kærða til sérstaks saksóknara þá falla vextir á skuldir á meðan á frestun greiðslu stendur, skv. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga, en þeir eru ekki gjaldkræfir. Það sé einungis ef greiðsluaðlögun ljúki með samningi sem vextir falli niður. Umbjóðandi kærða hafi með beiðni sinni óskað eftir upplýsingum um stöðu kröfunnar þar sem hann hefði í hyggju að semja sig frá henni. Hafi því framangreind upplýsingagjöf starfsmanns verið í fullu samræmi við lög. Sé það því hreinn ásetningur og illvilji kærða að leggja kæru til sérstaks saksóknara án þess að um saknæma háttsemi hafi verið að ræða.

Kærendur telja að augljóst sé að kærði hafi með þessu framferði sínu í nafni umbjóðanda síns byggt á hörðum og einbeittum ásetning til þess að sverta mannorð kæranda og vega gróflega að starfsheiðri þeirra. Þetta sé í samræmi við þær óhefðbundnu aðferðir sem hann boðaði í útvarpsviðtali frá febrúar sama ár. Kærendur telja einnig að í ljósi þess með hvaða hætti kærði notaði fjölmiðla, - þ.e. með því að boða komu sína fyrir framan húsnæði sérstaks saksóknara og fá sjónvarpsmyndavélar til þess að fylgja sér inn þegar hann lagði fram kæru og ræða svo við fjölmiðlamenn í kjölfarið- sýna harðan ásetning til þess að valda með því enn stórfelldara tjóni á orðspori og mannorði kæranda. Fullyrða kærendur að engin fordæmi séu fyrir því að lögmaður hafi áður vegið svo gróflega að starfsheiðri annarra lögmanna algjörlega að tilefnislausu.

Kærendur telja að ekki skipti máli að þessu leyti hvort kærði hafi haft frumkvæði að kæru eða ekki. Í störfum sínum þurfi hann að gæta siðareglna lögmann og annarra laga. Þrátt fyrir að koma fram fyrir hönd umbjóðenda megi lögmenn ekki bera menn röngum sökum.

Kærendur telja brot kærða mjög gróf og alvarleg. Hann saki kærendur ítrekað um auðgunarbrot og fari visvítandi með rangt mál í kæru og fjölmiðlum. Hann auki síðan á alvarleika brotsins með því að tryggja að hinar röngu sakargiftir fái hámarks umfjöllun í fjölmiðlum. Í umfjöllun fjölmiða hafi kærendur iðulega verið nafngreindir og hafi kærða mátti vera ljóst að hvernig sem kæran yrði afgreidd sjá sérstökum saksóknara myndi hún hljóta gríðarlega umfjöllun og sá skaði sem hún felur í sér myndi lifa. Tilefnislaus kæra á hendur fjórum lögmennum fyrir fjársvik o.fl. eigi ekkert skylt við málefnalega umræðu. Með verknaði sínum og einbeittum ásetningi hafi kærði því vegið að mannorði, orðstír og starfsheiðri kærenda, þáttum sem séu mikilvægir fyrir starfsemi lögmanna.

III.

Kærði krefst þess í fyrsta lagi að erindi kærenda verði vísað frá en í öðru lagi að úrskurðarnefndin synji öllum kröfum kærenda.

Frávísunarkröfu styður kærði á þeim rökum í fyrsta lagi að krafa kæranda sé óskýr að efni til og framsetningu. Í öðru lagi sé kvartað yfir ummælum og háttsemi kærða sem beindust að fyrirtækinuE en ekki kærendum persónulega. Í þriðja lagi sé kvartað yfir háttsemi kærða sem tengist ekki störfum hans sem lögmanns og í fjórða lagi sé kvartað yfir ummælum sem féllu fyrir meira en ári síðan.

Kærði telur óskýrleika kröfunnar felast í því að óljóst sé yfir hvaða ummælum hans kærendur kvarti yfir. Ekki sé það útskýrt nánar af hálfu kærenda né hvaða tilteknu reglur siðareglna lögmanna ummælin eiga að varða og af hverju. Þá sé kröfugerð kærenda mjög óskýr og verðI ekki annað af henni ráðið en að þeir krefjist þess að úrskurðarnefnd svipti kærða réttindum til að starfa sem héraðsdómsmaður, en slíkt vald sé nefndinni ekki falið lögum.

Kærði bendir á að í kæru kærenda sé margoft vísað til viðtala og frétta í tengslum við kærða þar sem ekki sé minnst einu orði á kærendur í málinu. Þar sé stundum minnst á fyrirtækiðE. Þótt kærendur sitji í stjórn þess, sé það fyrirtæki ekki aðili að kæru kærenda.

Kærði vísar til ákvæðis 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn þar sem kemur fram að einungis sé hægt að leggja kvörtun fyrir úrskurðarnefnd vegna háttsemi lögmanns sem hann hefur viðhaft í starfi sínu. Þá komi einnig fram að nefndin vísi máli frá ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri. Kvörtun kæranda varði ýmis viðtöl við kærða sem hafi ekki verið tekin í tengslum við störf sem honum vorur falin sem lögmanni. Þar að auki vísi kærendur til ummæla sem féllu fyrir meira en ári síðan. Af öllu framangreindu leiðii að vísa beri kvörtuninni frá.

Kærði tekur fram að kvörtun kærenda beinist að meintum ítrekuðum röngum staðhæfingum um málavexti, án þess að það sé útskýrt hvaða málavexti átt sé við eða hvaða staðhæfingar og hvar þær sé að finna. Meintar staðhæfingar í kæru séu því marki brenndar að þar greini aðila á um málavexti og af því leiði eðlilega ágreining um hvaða lagareglu heimfæra mætti tilvikið undir. Ekki hafi enn verið skorið úr um ágreining aðila og því geti kærendur ekki haldið því fram að þeirra lýsing á málavöxtum skuli lögð til grundvallar eða þeirra afstaða til málavaxta. Þar sem tilkynnt hafi verið að málið verði ekki tekið til rannsóknar af hálfu sérstaks saksóknara fáist ekki úr þessum ágreiningi skorið. Kærunni hafi ekki verið vísað frá sem tilhæfislausri þrátt fyrir að lögmaðurinn F hrl. hafi ritað sérstökum saksóknara bréf þar sem óskað var eftir að skoðað yrði hvort kærði hafi gerst sekur um rangar sakargiftir.

Kærði mótmæli framlagningu minnisblaða og álitsgerða lögmannsins F með kröfu kærenda. Séu þau gögn borin fram sem óvilhöll sönnunargögn hlutlauss aðila þegar raunirsé önnur. Lögmaðurinn hafi komið fram sem lögmaður kærenda þegar kærunni var skilað inn til sérstaks saksóknara. Kærði kveður lögmanninn F hafa komið fram í fjölmiðlum með óviðeigandi og ofsafengum hætti í garð kærða og haft í frammi ýmis gífuryrði. Ásaki lögmaðurinn kærða um ýmis atriði, m.a. ósannsögli, blekkingar og harðan ásetning um að skaða kvartendur. Þá hafi lögmaðurinn F tekið þátt í athugasemdakerfi fjölmiðilsins DV þar sem hann fullyrði að kærði hafi ítrekað logið upp sökum á kærendur. Einnig hafi komið fram hótanir um málsókn á hendur kærða frá F

Kærði telur það vera mjög ósmekklegt að meðlimur úrskurðarnefndarinnar og fyrrverandi formaður hennar skuli skrifa lögfræðilega álitsgerð um annan lögmann til þess að nýta í kvörtun fyrir úrskurðarnefnd. Þetta verði að telja óheppilegt ef ekki smekklaust og vandræðalegt fyrir nefndina. Þá sýni það vel óhlutdrægni álitsgerðarinnar að halda mætti að lögmaðurinn væri að færa fyrir þvi rök í lok hennar að ekki ætti að fara eftir meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.

Kærði kveður kærendur halda því fram að hann hafi af eigin frumkvæði staðið fyrir kæru sem lögð var fram á hendur þeim. Þetta sé rangt enda komi fram í kærunni að hún hafi verið unnin fyrir umbjóðanda kærða.

Kærendur byggi á því að kæruefnið hafi verið langsótt og að staðreyndir máls hafi verið það skýrar að kærði hafi ásetning til þess að bera á kærendur rangar sakir. Þessar fullyrðingar kærenda byggi þó fyrst og fremst á fullyrðingum þeirra sjálfra. Deilt hafi verið um málavexti auk þess sem tekist var á um túlkun laga. Standi þar einfaldlega orð gegn orði.

Umrædd kæra hafi verið lögð fram og unnin fyrir hönd umbjóðanda kærða. Umbjóðandinn hafi leitað sérstaklega til kærða til þess að vinna þetta tiltekna verk. Kærði kveðst hafa talið að í ljósi þess að vafi lék á um málavexti gæti han ekki staðið í vegi fyrir því að umbjóðandinn fengi á það reynt, enda telur kærði ekki um tilhæfislausar sakargiftir að ræða, líkt og kærendur halda fram. Ein af skyldum lögmanna skv. 1. gr. siðareglna lögmenn sé að efla rétt og hrinda órétti. Í því felist að aðstoða einstaklinga við að fá úr réttindum sínum skorið. Það sé stjórnarskrárvarinn réttur allra að fá úrlausn um rétt sínn og skyldu fyrir dómi skv. 70. gr stjórnarskrár lýðveldisins. Það geti því verið varhugavert fyrir lögmenn ef þeir neita borgurum um liðsinni til að leita réttar síns, ef sérstakar ástæður hindra ekki lögmanninn að öðru leyti.

Kærði bendir á 2. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna þar sem fram komi að lögmaður hefur kröfu til að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum sem hann gætir fyrir skjólstæðing sinn. Því veki furðu þær ásakanir um rangar sakargiftir sem kærendur beri fram.

Kærði kveður kærendur ekki vísa til réttarheimilda þeirri málsástæðu sinni til stuðnings að lögmönnum sé óheimilt að bera menn sökum í nafni umbjóðenda sinna. Væri fullyrðing kærenda rétt þá mætti ætla að lögmenn sættu ætíð ákæru með umbjóðendum sínum í sakamálum er varða rangar sakargiftir. Sú sé aftur á móti ekki raunin og vísi kærði í því sambandi til dóms Hæstaréttar frá 11. nóvember 2010 í máli nr. 110/2010. Í því máli hafi umbjóðandi verið bæði ákærð og dæmd fyrir rangar sakargiftir en ekki lögmaðurinn sem gerði kæruna, jafnvel þótt að sakargiftirnar hafi verið með öllu tilhæfislausar.

Kærði kveður kæranda hafa haldið því fram að hann hafi fengið fjölmiðla í málið, þessu mótmælir kærði sem óstaðfestu og telur þetta eitt dæmið um að kærendur samsvari kærða umbjóðanda sínum. Hið sanna í málinu sé það að umbjóðandi kærða er félagi í samtökum sem kalla sig Samstaða gegn E og þau samtök kölluðu til fjölmiðla og héldu blaðamannafund án aðkomu kærða. Þá telur kærði rétt að árétta að hanntelur sig aldrei hafa starfað fyrir þess i samtök né verið í forsvari fyrir þau eða sinnt trúnaðarstörfum á þeirra vegum. Fullyrðingar kærenda þess efnis séu með öllu óstaðfestar.

Kærði kveður lögmanninn F hafa beint spjótum sínum að kærða í stað þess að athuga hver stæði að baki fjölmiðlaumfjöllun og hvernig málum væri háttað að öðru leyti. Samdægurs hafi lögmaðurinn haft í hótunum um málsóknir og kæru á hendur kærða bæði til lögreglu og úrskurðarnefndar lögmanna. Kærði spyr hvort tilgangurinn með því hafi verið að hræða kærða til þess að hann tæki eigin hagsmuni fram yfir hagsmuni umbjóðanda síns og myndi reyna telja honum hughvarf.

Kærði greinir frá því að hann hafi haft afskipti af umræðu í landinu eins og margir aðrir. Hann hafi verið þátttakandi á sviði stjórnmála og jafnvel verið á framboðslistum stjórnmálaflokka. Þá hafi kærði starfað í útvarpi og verið fastur penni á vefmiðlinum eyjan.is. Sé ekki óeðlilegt að hann láti til sín taka í fjölmiðlum, en hann hafi einnig unnið í fjölmörgum málum fyrir skuldsett fyrirtæki og einstaklinga og þegar til hans hefur verið leitað hefur hann stundum tjáð sig um þau málefni í fjölmiðslum.

Kærði kveður að í umræðu sinni í fjölmiðlum hafi gagnrýni hans beinst að fjármálafyrirtækjum í heild og stjórnvöldum, stundum E sérstaklega en aldrei kærendum persónulega. Þá hafi umræðan verið málefnaleg og í takt við þjóðfélagsumræðu sem var efst á baugi á hverjum tíma.

Kærði bendir á að lögmenn njóti tjáningafrelsis eins og aðrir borgarar þessa lands og sé þeim heimilt að taka þátt í þjóðfélagsumræðu eftir almennum reglum. Þá hafi Mannréttindadómstóll Evrópu ítrekað bent á að þegar ákvarða eigi mörk tjáningafrelsis þá þurfi að horfa til þeirra þjóðfélagsumræðu sem er í gangi. Með hliðsjón af þeim rökum hafi dómstóllinn talið að sumir aðilar sem eru áberandi í opiberri umræðu þurfi að þola meira en aðrir í þessu samhengi stöðu sinnar vegna. Gildi það einnig um opinbera starfsmenn og vísar kærði í því sambandi til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu frá 24. febrúar 1997 í máli De Haes og Gijsels gegn Belgíu (19983/92). Hæstiréttur Íslands hafi einnig komist að svipaðri niðurstöðu, t.d. í máli nr. 100/2011 og 525/2012. Í þessu samhengi kveður kærði nauðsynlegt að líta til þess að málefni E hafi verið mikið til umfjöllunar í fjölmiðlum og í samfélaginu og vísar til fylgiskjala með kæru þar um.

Af þeim gögnum kveður kærði ljóst að hart hafi verið deilt á E og stjórnendur þess af ýmsum aðilum. Hafi margir þeirra látið grófari og óvægnari orð falla en kærði sem hafi ávallt stillt orðum sínum í hóf og reynt að halda gagnrýni sinni á málefnalegum nótum með vísan til raka og samanburðar við önnur fyrirtæki í svipaðri stöðu sbr. þau fylgiskjöl sem kærendur báru fram með kæru sinni.

Kærði telur að gera verði greinarmun á því þegar lögmaður tjái sig opinberlega í tengslum við störf sem honum hafi verið falin sem lögmaður og hins vegar þegar lögmaðurinn tekur þátt í þjóðfélagsumræðu á eigin forsendum. Það sé einungis í fyrrnefnda tilvikinu sem hægt sé að leggja fram kvörtun til úrskurðarnefndar, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í málatilbúnaði kærenda ægi saman tilvísunum í viðtöl og fréttir óháð því af hvaða tilefni kærði kom fram.

Kærendur krefjist þess að kærði verði sviptur lögmannsréttindum vegna meints brots. Benda þeir á að lögmenn geti misst réttindi sín af minna tilefni, s.s. við gjaldþrot og að úrskurðarnefndin þurfi að huga að fordæmi þessa máls. Kærði tekur undir það að úrskurðarnefnd þufi að huga að því fordæmi sem hún kann að setja í þessu máli. Að beita lögmenn viðurlögum fyrir svo litlar og óljósar sakir, byggðar á einhliða fullyrðingum kærenda um málefni sem hafi ekki komið til kasta dómstóla en kærði hafi þar komið fram fyrir hönd umbjóðanda síns, geti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar í för með sér fyrir lögfræðisréttina í heild. Þá séu rök um að gjaldþrot lögmenna sé lítið tilefni hjákátleg enda engan veginn um sambærilega stöðu að ræða. Að lokum áréttar kærði að komi til þess að nefndin geri athugasemdir við störf hans þá beri að gæta meðalhófs og jafnræðis.

Niðurstaða.

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 28. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmanna, ber lögmanni að efla rétt og hrinda órétti.

Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Samkvæmt 34. gr. siðareglnanna skal lögmaður sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna.

II.

Aðfinnslur kærenda lúta í fyrsta lagi að því að kærði hafi vísvitandi borið rangar sakir á kærendur í kæru sem hann lagði fram hjá embætti sérstaks saksóknara, en í öðru lagi að því að kærði hafi á opinberum vettvangi ráðist á persónur, mannorð og starfsheiður þeirra. Enda þótt í upphaflegri kvörtun hafi ekki verið nákvæmlega afmarkað hvað af meðfylgjandi ummælum kærða það voru sem kærendur teldu hafa brotið siðareglur lögmanna eða með nákvæmlega hvaða hætti, verður ekki fallist á að vísa málinu frá af þeim sökum. Hefur þetta enda verið afmarkað nánar eftir að athugasemdir kærða að þessu leyti komu fram.

Málinu verður heldur ekki vísað frá af þeim sökum að eitthvað af þeim ummælum kærða sem gerðar eru athugasemdum við í kæru snúa að félagi sem kærendur stjórna en ekki þeim sjálfum, eða vegna þess að meira en ár er liðið síðan sum ummælin féllu og birtust, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga i.f. Þessi atriði kunna hins vegar að hafa áhrif á matið á því hvort einstök ummæli kærða hafi áhrif á niðurstöðu málsins eða hvort athugasemdir verða gerðar vegna þeirra sérstaklega.

III.

Að því er varðar kæru þá sem kærði bar upp við sérstakan saksóknara verður annars vegar að líta til þess að hún er ekki sett fram af kærða sjálfum í eigin nafni, heldur verður að leggja til grundvallar að um sé að ræða kæru sem hann aðstoðaði umbjóðanda sinn við að útbúa samkvæmt hennar beiðni. Verður að fallast á það með kærða að hann hafi mjög rúmar heimildir til að halda fram þeim málstað sem umbjóðandi hans telur sig eiga, í hennar nafni. Á þetta fyllilega við, jafnvel þótt sá málstaður byggi á því að umbjóðandinn telji aðra hafa gert á sinn hlut með saknæmum hætti og það jafnvel þótt lögmaðurinn hljóti að telja málstaðinn hæpinn að einhverju leyti. Hins vegar takmarkast þetta rúma svigrúm við það að lögmenn eiga ekki að aðhafast það í störfum sínum sem þeim má ljóst vera að er ólögmætt. Þegar umbjóðandi lögmanns óskar fulltingis hans við að bera aðra menn sökum, hvort sem er fyrir yfirvöldum eða dómstólum getur því komið til þess að þær ásakanir verði svo fjarstæðukenndar að lögmaðurinn getur ekki að ósekju ljáð því fulltingi sitt að setja þær fram.

Það er mat úrskurðarnefndarinnar að í ljósi ofangreindra sjónarmiða um rúmt svigrúm lögmanna til að halda fram málstað umbjóðanda sinna, sé ekki unnt að gera aðfinnslu við að kærði hafi aðstoðað umbjóðanda sinn við að setja fram kæru til lögreglu. Umbjóðandinn taldi E áskilja sér umfangsmikil kröfuréttindi sem ekki væru fyrir hendi og freista þess að fullnusta þau. Enda þótt ekkert sé fram komið um að gripið hafi verið til innheimtuaðgerða gagnvart umbjóðandanum, virðist það hafa verið nærtæk ályktun hjá umbjóðandanum að hann gæti t.d. ekki ráðstafað umræddri fasteign án tillits til þessara áskildu réttinda. Enda þótt kærða hljóti að hafa verið það ljóst að augljós vafi léki á réttmæti kæruefnisins, verður því ekki á því byggt að hann hafi með kærunni brotið gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

IV.

Kærði tók, sem fyrr greinir, að sér ákveðna hagsmunagæslu gagnvart E sem lögmaður. Mátti félagið og stjórnendur þess, þ.á.m. varnaraðilar, gera þær kröfur til hans að í allri umfjöllun hans um málið eftir það, gætti hann þess að fara eftir lögum og siðareglum lögmanna, þ.á.m. tilvitnaðri 1. gr., og svo til allra mála leggja, sem hann vissi sannast eftir lögum og sinni samvisku. Þá var hann bundinn við að sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna, sbr. 34. gr. siðareglnanna.Er ekki unnt að fallast á að í opinberri umræðu um málefni E hafi hann getað komið fram sem hver annar álitsgjafi, óbundinn af siðareglum lögmanna, eftir að hafa komið fram opinberlega sem lögmaður í málinu hjá sérstökum saksóknara.

Að þessu athuguðu er ljóst að kærða var rétt að stíga varlega til jarðar í opinberri umræðu um kæruna og um gagnaðilana, m.a. í ljósi þess vafa sem lék á um réttmæti ásakananna í kærunni.

Þegar framganga kærða í opinberri umræðu, eftir að kæran var lögð fram, er metin í þessu ljósi, er sú niðurstaða óhjákvæmileg að kærði hafi gert á hlut kæranda í trássi við ofangreindar siðareglur. Fyrirvaralausar fullyrðingar kærða í fjölmiðlum um að stjórnendur E beittu blekkingum og að ákvarðanir þeirra varði við almenn hegningarlög verða ekki réttlættar með vísan til þess að hagsmunir skjólstæðings hans hafi kallað á þær auk þess sem fullyrðingar hans um að þeir hafi  sent umbjóðanda hans innheimtubréf vegna umræddrar fjárkröfu voru villandi lýsing á málsatvikum.

Það fær ekki breytt þessari niðurstöðu þótt fallast megi á það með kærða að mjög margt af því sem fært hefur verið fram af kærendum í málinu sem dæmi um framgöngu hans í fjölmiðlum, feli ekki í sér annað en gagnrýni á það hvernig viðskiptavinir E hafa lent í stöðu sem er ólík stöðu annarra skuldara.

Umræddar yfirlýsingar, sem settar voru fram í framhaldi af framlagningu kærunnar verða heldur ekki réttlættar með vísan til yfirlýsinga lögmanns kærenda, Fhrl. á opinberum vettvangi í garð kærða í framhaldinu. Skiptir þá ekki máli þótt framganga lögmannsins kunni að þykja yfirdrifin og hafibeinst að kærða sjálfumumfram það sem efni stóðu til. 

M.a. í ljósi þess að mál þetta er hluti af harðvítugum deilum þar sem kærði hefur verið borinn þungum sökum þykir nægilegt að kærði sæti aðfinnslum af hálfu nefndarinnar.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af málinu fyrir úrskurðarnefndinni.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Fullyrðingar kærða, R hdl.um að kærendur, þau A, B, C og D hafi  beitt blekkingum og brotið almenn hegningarlög í störfum sínum eru aðfinnsluverðar.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, hrl., formaður.

Berglind Svavarsdóttir, hrl.

Valborg Þ. Snævarr, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________