Mál 28 2013

Ár 2014, föstudaginn 14. mars, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 28/2013:

A

gegn

R hdl.

 og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 8. nóvember 2013 erindi kæranda, A, þar sem kvartað var yfir áskilinni þóknun og störfum kærða, R hdl., vegna vinnu hans við mál kæranda varðandi uppsögn hans hjá knattspyrnudeild B.

Óskað var eftir greinargerð frá kærða um erindið þann 25. nóvember 2013. Þann 13. desember 2013 óskaði kærði eftir viðbótarfresti til að skila greinargerð. Umbeðinn frestur var veittur til 27. desember 2013. Kærði skilaði greinargerð vegna málsins þann 28. desember 2013.

Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð kærða þann 6. janúar 2014. Athugasemdir bárust frá kæranda þann 22. janúar 2014. Þann 23. janúar 2014 var kærða gefinn kostur á að gera athugasemdir við bréf kæranda. Athugasemdir bárust þann 19. febrúar 2014.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Aðilar eru ekki fyllilega sammála um atvik málsins.

Þann 4. október 2012 óskaði kærandi eftir því við kærða símleiðis að kærði gætti hagsmuna hans vegna uppsagnar knattspyrnudeildar B á launalið ráðningarsamnings hans við félagið.

Þann 5. október 2012 fóru kærandi og kærði yfir málið á skrifstofu þess síðarnefnda. Kærði kveðst hafa greint kæranda frá því að hann væri reiðubúinn að taka málið að sér og að kærandi myndi njóta sömu kjara og áður. Kærði kveðst hafa unnið fyrir kæranda í lok árs 2011 og veitt honum ráðgjöf vegna uppsagnar annars knattspyrnufélags á ráðningarsamningi hans og hafi reikningur vegna þeirrar vinnu verið greiddur athugasemdalaust. Kærandi kveður kærða hafa sagst myndu taka að sér málið með glöðu geði því þetta væri prófmál og hann myndi ekki rukka kæranda nema fyrir útlögðum kostnaði ef málið færi í dóm og myndi vinnast.

Kærandi skrifaði undir umboð til kærða, dags. 5. október 2012. Ekki liggur fyrir að samið hafi verið um gjaldtöku vegna verksins.

Þann 5. október 2012 sendi kærði ábyrgðarbréf fyrir hönd kæranda til formanns knattspyrnudeildar B. Þann 8. október sendi kærði í samráði við kæranda annað ábyrgðarbréf á formann knattspyrnudeildarinnar þar sem hann tilkynnti að kærandi liti svo á að stjórn knattspyrnudeildarinnar hefði slitið ráðningarsamningi sínum við kæranda. Að beiðni kæranda greindi kærði frá því í bréfinu að vilji stæði til þess af hans hálfu að ljúka málinu í sátt. Var bréfi þessu svarað með tölvupósti frá formanni knattspyrnudeildar, dags. 9. október. Sama dag ritaði kærði í samráði við kæranda þriðja bréfið til knattspyrnudeildar B þar sem sjónarmiðum þeim er sett voru fram í tölvupóstinum var andmælt og ítrekuð sú afstaða að kærandi teldi að um ólögmæta uppsögn hefði verið að ræða. Þá var ítrekaður vilji til þess að ná samkomulagi í málinu. Þann 10. október fékk kærði þær upplýsingar að félagið væri komið með lögmann í málið.

Þann 23. október 2012 fékk kærði sent bréf frá lögmanni knattspyrnudeildar B. Kveður kærði að um hafi verið að ræða nokkurs konar málamyndatilboð og hafði kærði samband við kæranda símleiðis til að fara yfir viðbrögð við því bréfi. Úr varð að kærði ritaði bréf til lögmanns knattspyrnudeildar B, dags. 24. október, þar sem túlkun hans á réttarstöðu aðila var hafnað og fyrri kröfur kæranda ítrekaðar. Í samráði við kæranda var ákveðið að bíða með frekari aðgerðir í málinu og sjá hvort einhver breyting yrði á afstöðu knattspyrnudeildarinnar.

Í byrjun desember 2012 hafði kærandi samband við kærða og sagðist vera á leið á fund með forsvarsmönnum knattspyrnudeildar B og að hann gerði sér vonir um að mögulega yrði breyting á afstöðu þeirra. Að loknum fundinum kveður kærði kæranda hafa haft samband og sagt að fram hefði komið vilji til að ljúka málinu í sátt. Kærði kveður aðila máls þessa hafa orðið sammála um það á þessum tíma að bíða og sjá hvert útspil gagnaðila yrði. Kærandi kveðst hafa haft samband við kærða þann 17. desember 2012 og látið hann vita af því að ekkert sáttaboð lægi fyrir af hálfu knattspyrnudeildar B og fara mætti á fullt með málið.

Þegar líða tók á janúar 2013 kveður kærði að ljóst hafi orðið að ekki væri um að ræða samningsvilja af hálfu knattspyrnudeildar B. Kærandi tjáði kærða að hann hefði fengið tölvupóst frá framkvæmdastjóra félagsins þess efnis að félagið teldi sig hafa gert upp við hann að fullu. Í kjölfarið hófst kærði handa við stefnugerð eftir að hafa kannað hvort málskostnaðartrygging kæranda tæki til mögulegs kostnaðar af málshöfðuninni. Í ljós kom að tryggingar kæranda tóku ekki til þeirrar deilu sem upp var risin.

Kærði kveður kæranda hafa tjáð sér um þetta leyti að hann væri aðþrengdur með fjármuni og launalaus með öllu eftir að knattspyrnudeild B hætti að greiða honum laun um áramótin. Kærði kveðst hafa tjáð kæranda að hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur af hans kostnaði að svo stöddu. Hann gæti rekið fyrir hann málið þar til úr rættist. Málareksturinn myndi taka nokkurn tíma og þeir myndu gera þau mál upp þegar niðurstaða væri fengin.

Kærandi fór til útlanda en aðilar eru ekki sammála um tímasetningu ferðarinnar. Kærandi kveðst hafa verið erlendis frá 8. til 18. febrúar 2013 en kærði kveður kæranda hafa farið til útlanda seinni hlutann í janúar og þá hafi reynst erfitt að ná í hann. Kærandi hafi þá óskað eftir því að kærði myndi hafa samband við Knattspyrnusamband Íslands til að kanna hvort hægt væri að stöðva þátttöku B í keppni á vegum sambandsins á þeim grundvelli að það skuldaði honum laun. Kærði kveðst hafa átt samtöl um þetta atriði við starfsmenn KSÍ en þeir hafi ekki viljað staðfesta þennan skilning kæranda.

Eftir að kærandi sneri til baka frá útlöndum um miðjan febrúar ræddu aðilar framhald málsins. Höfðu þeir þá nokkrar áhyggjur af skattalegum þætti málsins og hvernig heppilegast væri að haga kröfugerð í málinu. Var ákveðið að sjá hvernig knattspyrnudeild B myndi haga sínu ársuppgjöri og haga kröfugerð í samræmi við það.

Kærandi kveðst í byrjun mars hafa verið farið að lengja eftir að eitthvað gerðist í málinu. Kærandi kveður kærða hafa sagt að hann myndi senda málið til héraðsdóms Reykjaness þann 20. mars. 2013 Þegar kærandi hafi gengið eftir því hafði það ekki átt sér stað og hann lofað að það færi ekki inn síðar en 27. mars. Það hafi ekki gerst heldur.

Kærði kveður stefnugerð hafa verið lokið í byrjun mars og hafi hann óskað eftir því að kærandi hitti hann á fundi til að fara yfir skjalið. Hafi þeir fundað 12. mars 2013. Kærði kveðst hafa tjáð kæranda að hann ætlaði að reyna að birta stefnuna í vikunni þar á eftir, þannig að hægt yrði að þingfesta málið 27. mars í héraðsdómi Reykjaness. Kærði kveðst hafa greint kæranda frá því að hann væri að vinna að málum sem hefðu forgang hjá honum og því gæti hugsast að dagsetningarnar myndu riðlast eitthvað. Kærandi hafi engar athugasemdir gert við þetta. Svo fór að ekki tókst að hafa til upplýsingar um fyrirsvar varastefnda í málinu og því hafi ofangreint ekki gengið eftir.

Þann 2. apríl 2013 fékk kærði tölvupóst frá kæranda þar sem kærandi kvaðst hafa staðfestar upplýsingar um að málið hefði ekki enn borist Héraðsdómi Reykjaness. Kveðst kærði hafa orðið þess áskynja að ekki ríkti traust í hans garð og benti kæranda á að hann gæti fært málið til annars lögmanns ef hann kysi svo. Samdægurs bað kærandi um gögn málsins og voru þau afhent. Með gögnum málsins fylgdi reikningur frá S að fjárhæð kr. 144.576 vegna 8 klst. vinnu, einingaverð 18.000, með 20% afslætti. Reikningurinn var dagsettur þann 3. apríl 2013 með eindaga þann 18. apríl 2013. Fyrir liggur tímaskýrsla, fylgiskjal með reikningi í málinu. Samtals tímafjöldi vegna vinnu við uppsögn kæranda hjá B voru 29,3. Tímar fram að vinnu við stefnugerð þann 23. janúar 2013, þ.e. frá 4. október til 24. október 2012, voru 8 klst.

Kærandi gerði athugasemdir við framangreindan reikning með tölvupósti þann 15. apríl 2013. Í tölvupóstinum kveður kærandi kærða hafa sagt að tafir hefðu orðið á málinu þar sem kærði væri ekki að rukka fyrir vinnu sína og því hefði málið ekki verið í forgangi. Óskaði kærandi eftir því að reikningurinn yrði dreginn til baka.

Þann 18. október 2013 barst kæranda greiðsluseðill frá Momentum vegna framangreinds reiknings, að fjárhæð kr. 144.576, með gjalddaga 18. október 2013 og eindaga þann 4. nóvember 2013.

II.

Kærandi kvartar undan samskiptum sínum við kærða. Kærandi kveður kærða hafa sagt sér að hann myndi ekki rukka hann fyrir vinnu sína nema ef málið myndi vinnast en kærandi myndi greiða allan kostnað sem félli til vegna málsins. Kærandi kveðst ekki hafa átt von á reikningi vegna vinnu kærða þar sem um annað hafi verið rætt.

Kærandi kveður greiðsluseðilinn frá Momentum vekja upp spurningar vegna ágreiningsefnis sem komið sé upp innan fjölskyldunnar. Telur kærandi að þessi óvænta greiðslukrafa tengist því máli. Kærandi telur að kærði hafi sent reikninginn í hefndarskyni. Ágreiningurinn snúist um svokölluð „kaup" C, móður kærða á sumarhúsi foreldra kæranda í Ölveri. Kærandi kveðst hafa beðið C löngu áður en móðir hans hafi látist að sýna fram á greiðslu fyrir bústaðinn, sem komi fram á afsali að hafi verið kr. 3.000.000. Það hafi hún aldrei getað sýnt fram á. Þegar móðir kæranda hafi látist hafi hinn óvænti erfingi komið í ljós og skýri það margt sem á undan hafi gengið. Sú erfðaskrá hafi verið gerð 1989 og hafi verið í umsjá C síðan. Ljóst hafi verið á viðbrögðum þeirra C og kærða eftir andlát föður kæranda að ekki hafi allt verið eins og átti að vera sem skýrst hafi eftir andlát móður kæranda.

Kærandi vísar til þess að í tímaskýrslu sem liggi fyrir komi fram 20 tímar í stefnugerð en hann hafi aldrei séð stefnu eða vitað af því að hún hefði verið unnin.

Kærandi telur að seinagangur kærða hafi valdið honum miklum erfiðleikum og ófyrirsjáanlegu fjárhagslegu tjóni. Kærandi vísar til þess að þetta mál sé ekki eina málið sem kærði hafi tekið að sér fyrir hann og ekki sinnt sem skildi. Hafi kærandi tekið annað mál af honum út af sinnuleysi og seinagangi.

Kærandi bendir á að kærði nefni málskostnaðartryggingu í greinargerð sinni. Kærandi kveður það rétt að kærði hafi komið með þá fyrirspurn hvort kærandi væri með þannig tryggingu sem gæti verið greiðsla til hans ef tryggingin væri til staðar.

Kærandi kveðst hafa kynnt sér siðareglur Lögmannafélagsins. Fái kærandi ekki betur séð en kærði hafi ekki uppfyllt þær. Kærandi telur kærða til dæmis hafa látið hagsmuni sem ekki tengist því máli sem hann hafi unnið að fyrir kæranda hafa áhrif á sig og ákveðið í kjölfarið að rukka ríflega fyrir viðvikið. Þá sé ljóst af framgöngu kærða að hann sinni málinu ekki og hafi verið með afsakanir á hreinu þegar á hafi þurft að halda.

III.

Kærði hafnar með öllu þeim ávirðingum sem fram koma í kvörtun kærða og staðhæfingum þess efnis að hann hafi heitið kæranda að vinna fyrir hann án nokkurs endurgjalds. Kærði fer fram á að staðfest verði að hann eigi rétt til þeirrar þóknunar sem kærandi hafi verið krafinn um. Þá krefst hann málskostnaðar að mati nefndarinnar úr hendi kæranda vegna reksturs málsins fyrir nefndinni, sbr. 3. mgr. 15. gr. málsmeðferðarreglna úrskurðarnefndarinnar.

Kærði kveður kæranda hafa nokkrum mánuðum fyrir umþrætt mál óskað eftir þjónustu kærða í tengslum við mál af sama toga. Kærði hafi gert kæranda reikning fyrir þeirri þjónustu á grundvelli tímagjalds og hafi hann verið greiddur án athugasemda. Þegar gengið hafi verið frá umboði þann 5. október 2012 kveðst kærði hafa sagt kæranda að hann nyti þeirra bestu kjara sem kærði gæti boðið í samræmi við fyrri viðskipti og viðmið stjórnar félagsins um afsláttarkjör.

Kærði vísar til þess að þegar ljóst hafi verið að sættir myndu ekki takast í málinu og nauðsyn bæri til þess að sækja það fyrir dómstólum hafi verið kannað með málskostnaðartryggingu. Kærði telur að slíkt hefði vitaskuld verið óþarft ef til hefði staðið að rukka ekki fyrir vinnuna. Kærði kveður kæranda hafa sagt að hann væri mjög aðkrepptur fjárhagslega á þessum tíma og þegar við hafi blasað að leggja þyrfti í vinnu við málshöfðun án málskostnaðartryggingar þá hafi kærði greint honum frá því að hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur af þóknun hans að svo stöddu. Hann myndi sækja málið og svo myndu þeir gera þetta upp í lokin eða þegar betur stæði á hjá kæranda. Hafi kærði viljað með þessu koma til móts við kæranda og sýna honum stuðning í erfiðum aðstæðum. Í ljósi fyrri viðskipta eigi kærði erfitt með að skilja hvers vegna kærandi hafi haft væntingar um að þjónusta hans í þessu máli yrði með öllu endurgjaldslaus.

Kærði bendir á að hann hafi einungis gert reikning fyrir þeirri vinnu í málinu sem fram hafi farið áður en ákvörðun um málshöfðun hafi verið tekin. Um hafi verið að ræða ráðgjöf til kæranda og hagsmunagæslu gagnvart hans vinnuveitendum á fyrstu vikunum eftir uppsögnina. Réttaróvissa hafi verið um það hvort um riftun ráðningarsamnings hafi verið að ræða eða einungis uppsögn á launalið og því margvísleg atriði sem hafi þurft að huga að.

Kærði vísar til þess að þar sem kærandi hafi ákveðið að taka málið úr hans höndum og leita til annars lögmanns áður en málið hafi verið höfðað hafi kærði ákveðið að gera honum ekki reikning, að svo stöddu í það minnsta, fyrir þeirri vinnu, alls 20,85 klst., sem unnin hafi verið eftir að málshöfðun hafi verið ákveðin. Kærði telur að hann eigi fullan rétt á þóknun fyrir þá vinnu en með hagsmuni kæranda að leiðarljósi hafi það verið niðurstaða hans að gera honum ekki reikning fyrir þá vinnu þegar þarna hafi verið komið. Það athugist að af sömu ástæðu hafi hann ákveðið að nýta sér ekki heimild í 16. gr. siðareglna um að afhenda ekki gögn málsins nema að undangenginni greiðslu þóknunar.

Í þessu ljósi kveður hafi kærða þótt viðbrögð kæranda við því að hann krefji hann um þóknun fyrir innan við þriðjung af þeirri vinnu sem raunverulega hafi farið í málið, að viðbættum ríflegum afslætti, ekki bara furðuleg heldur einstaklega ómakleg.

Kærði vísar til þess að verði af einhverjum ástæðum fallist á að hann hafi tekið málið að sér á þeim grundvelli að enga þóknun þyrfti að greiða honum ef málið tapaðist, eins og kærandi haldi fram, blasi auðvitað við að hann eigi rétt á þóknun fyrir vinnu sína þegar skjólstæðingur hans ákveði að færa málið annað, einkum og sér í lagi þegar um sé að ræða þóknun vegna vinnu sem til falli áður en ákvörðun hafi verið tekin um að höfða málið. Sé þóknunin afmörkuð við þá vinnu.

Þótt ekki verði ráðið af erindi kæranda að fjárhæð reikningsins sé umdeild telur kærði rétt að gera grein fyrir henni. Reikningsgerð hans vegna vinnu við það mál sem hér um ræði hafi verið afmörkuð við þann þátt málsins sem lotið hafi að upphafsskrefum þess. Reikningurinn beri það með sér að hann sé vegna vinnu við tímabilið frá 5. október til 31. desember 2013. Eins og sjáist í tímaskýrslu með reikningi hafi vinna á þessu tímabili, þ.e. áður en endanlega hafi verið tekin ákvörðun um að sækja málið fyrir dómstólum, verið samtals 8 klst. Tímagjald S sé 18.000 kr/klst. að viðbættum virðisaukaskatti. Kærandi hafi fengið sérstök kjör hjá stofunni í fyrra máli og hafi því verið gefinn 20% afsláttur af þóknun í þessu máli. Þessu megi jafna til þess að krafist hafi verið þóknunar fyrir 6,4 klst. vinnu. Hafi reikningsfjárhæðin því verið kr. 115.200 að viðbættum virðisaukaskatti.

Kærði telur þessa þóknun í fullu samræmi við umfang þeirrar vinnu sem lögð hafi verið í málið á fyrstu dögum og vikum eftir að kæranda hafi verið sagt upp störfum hjá knattspyrnudeild B. Lesa hafi þurft yfir samninga og samskipti aðila, leggja mat á réttarstöðu kæranda og setja fram sjónarmið og kröfur gagnvart gagnaðilum. Öll skref í málinu hafi verið borin undir kæranda. Sé tímaskráningu fremur stillt í hóf en hitt að mati kærða og engin efni standi til þess að lækka þóknun hans vegna þeirrar vinnu sem tilgreind sé í reikningi.

Kærði bendir á að í erindi kæranda komi fram að hann telji að innheimta reiknings tengist því sem hann kalli ágreiningsmál sem nýlega sé komið upp innan fjölskyldunnar. Kærði kveður þessa staðhæfingu svo fjarstæðukennda að hún sé vart svaraverð. Kærði gerir ráð fyrir að það ágreiningsmál sem kærandi vísi til varði beiðni hans um opinber skipti á dánarbúi móður hans og ömmu kærða, D, en kærði kveðst bréferfingi gagnvart búinu. D hafi látist 28. ágúst 2013, tæpum fimm mánuðum eftir að kærði hafi afhent kæranda reikning í málinu. Kærandi hafi tilkynnt móður kærða nokkru eftir andlát ömmu kærða að hann myndi krefjast opinberra skipta og hafa uppi fjárkröfur á hendur henni. Kærði viðurkennir að hann hafi ekki séð þetta fyrir þann 3. apríl 2013 þegar hann hafi gert kæranda reikning í málinu. Kærði kveðst heldur ekki hafa séð þetta fyrir þegar hann hafi tekið málið að sér enda hefði það, í ljósi ætlaðrar vitneskju hans um framtíðina, verið í andstöðu við siðareglur að gæta hagsmuna kæranda.

Kærði vísar til þess að reikningur sá sem kærandi telur sér óskylt að greiða sé með gjalddaga 3. apríl 3013 og eindaga fimmtán dögum síðar. Almennt sé það svo hjá S að ógreiddir reikningar séu sendir í innheimtu í síðasta lagi 6 mánuðum eftir eindaga, hafi greiðsla ekki borist. Það passi við tímasetningu á innheimtubréfi frá Motus sem vísað hafi verið til í erindi kæranda. Ástæðan fyrir því að þar sé gjalddagi tilgreindur 18. október 2013 sé sú að stofan áskilji sér ekki dráttarvexti fyrr en komi að upphafi innheimtuferils þegar um sé að ræða kúnna sem staðið hafi í skilum í fyrri málum. Fari milliinnheimta almennt fram með þessum hætti hjá stofunni. Hafi kærandi athugasemdir við það sé sjálfsagt að reikna dráttarvexti frá gjalddaga reikningsins 3. apríl 2013.

Kærði bendir á að eins og fram komi í bréfi úrskurðarnefndar líti nefndin svo á að kvörtun kæranda sé jafnframt reist á 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í því felist að kærandi telji að kærði hafi gert á hans hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Ekki sé vísað í nein tiltekin lagaákvæði eða tilteknar reglur í codex. Kærði tekur fram að umfjöllun hans um þessi atriði taki því mið af því sem hann fái best séð að séu umkvörtunarefnin og heimfærslu undir einstök ákvæði laga eða siðareglna.

Kærði bendir á að máli hafi fyrst komið til hans 4. október 2012 og fyrsta bréf hafi verið sent til gagnaðila 5. október. Hafi aðilar skipst á bréfum út mánuðinn og í samráði við kæranda hafi verið ákveðið að bíða með frekari aðgerðir og sjá hvort gagnaðili endurskoðaði afstöðu sína. Í byrjun desember hafi kærandi átt fund með forsvarsmönnum knattspyrnudeildar B og hafi í kjölfarið verið vongóður um að tilboð kæmi frá þeim um starfslokasamning. Það athugist að á þessu tímabili hafi kærandi og kærði verið í reglulegu sambandi, ef frá sé talinn sá tími sem kærandi hafi verið erlendis.

Kærði byggir á því að í samræmi við ofangreint hafi raunverulegur undirbúningur fyrir málshöfðun ekki hafist fyrr en nokkuð hafi verið liðið á janúar, þegar ljóst hafi orðið að enginn grundvöllur hafi verið fyrir sáttum í málinu. Hafi kæranda verið þetta ljóst. Sá dráttur sem verði á málinu í febrúar sé fyrst og fremst vegna óvissu um skattalega stöðu og áhrif hennar á kröfugerð í málinu. Einnig hafi gengið illa á ná í kæranda vegna dvalar hans erlendis á þessum tíma. Stefnan hafi í megindráttum verið fullbúin í byrjun mars og hafi kærði þá kallað kæranda til fundar. Hann hafi lesið yfir stefnuna og kærði hafi gert honum grein fyrir því að næsta skref væri að þingfesta málið.Kærði kveður kæranda fara rangt með er hann segi að hann hafi aldrei séð drög að stefnu í málinu. Hafi ætlunin verið að þingfesta 27. mars en kærði kveðst hafa greint kæranda frá því að brugðið gæti til beggja vona með það vegna reglna um stefnufrest og þeirrar staðreyndar að aðild málsins til varnar yrði að öllum líkindum tvíþætt.

Með vísan til framangreinds hafnar kærði því að hafa brotið gegn 12. gr. siðareglna. Telur kærði að málið hafi verið rekið með hæfilegum hraða í ljósi þeirra sjónarmiða sem gæta hafi þurft að og aðstæðna allra.

Kærði bendir á að í greinargerð kæranda komi fram að hann telji að kærði sé að krefja hann um þóknun í „hefndarskyni" vegna ágreinings. Kærði getur sér þess helst til að með þessu sé hann að halda því fram að kærði hafi gerst brotlegur við 2. mgr. 3. gr. siðareglna.

Kærði kveðst ekki hafa átt í neinum ágreiningi við kæranda á meðan mál hans hafi verið hjá honum. Líti kærandi svo á að sú staðreynd að þeir séu erfingjar í dánarbúi sem sæti opinberum skiptum hafi í för með sér hættu á hagsmunaárekstri í skilningi 2. mgr. 3. gr. siðareglna þá geti kærði út af fyrir sig fallist á það, einkum og sér í lagi ef hann beini að sér einhverjum fjárkröfum fyrir hönd búsins.

Kærði bendir á að á þeim tíma sem hann hafi haft umboð frá kæranda til að gæta hagsmuna hans og á þeim tíma sem hann hafi gert honum reikning vegna vinnu sinnar í málinu hafi dánarbú D hins vegar ekki verið til. Hafi kærði ekki getað séð það fyrir þegar hann hafi tekið að sér vinnu fyrir kæranda og gert honum reikning að amma hans myndi andast nokkrum mánuðum síðar og í kjölfarið myndi einn erfingja, þ.e. kærandi sjálfur, krefjast opinberra skipta og gera fjárkröfur á hendur öðrum fyrir hönd dánarbúsins, eins og hann hafi nú boðað.

Kærði telur það fullkomna rökleysu að halda því fram að deilur sem upp kunni að koma löngu eftir að trúnaðarsambandi milli lögmanns og skjólstæðings hans ljúki geri það að verkum að hætta sé á hagsmunaárekstri skv. 2. mgr. 3. gr. siðareglnanna. Í þessu máli hafi reikningur eðlilega verið gerður þegar viðskiptasambandi lögmanns og skjólstæðings hafi lokið og sú staðreynd að hann hafi ekki verið greiddur hafi á endanum leitt til þess að hann hafi verið sendur í milliinnheimtu.

Niðurstaða.

Rétt þykir að fjalla fyrst um þær kvartanir sem kærði hefur fært fram vegna starfa kærða, en síðan um ágreining þeirra um endurgjald kærða.

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 18. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Samkvæmt 12. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni, sem tekur að sér verkefni, að reka það áfram með hæfilegum hraða. Skal hann tilkynna skjólstæðingi sínum ef verkið dregst eða ætla má að það dragist.

Að framan er rakið hvernig kærði stóð að erindisrekstri fyrir kæranda. Úrskurðarnefndin telur að ekki séu efni til að gera athugasemdir við að kærði tók málið að sér, enda ekkert fram komið um að á þeim tíma hafi nokkrir hagsmunaárekstrar staðið því í vegi. Þá virðist nefndinni að málið hafi fengið eðlilegan framgang, en óumdeilt er að það var unnið í samráði við kæranda. Óumdeilt virðist að það hafi verið í janúar 2014 sem þeim varð ljóst að ekki tækist að ná samkomulagi við gagnaðila. Eftir að kærði hafði tjáð kæranda að málið yrði þingfest, fyrst 20. mars en síðan 27. mars liðu aðeins fimm dagar þar til kærði stakk upp á að hann segði sig frá málinu.

Ekkert er fram komið um að meðhöndlun kærða á hagsmunum kæranda hafi verið óvönduð, óeðlileg eða andstæð hagsmunum kæranda. Verða ekki gerðar aðfinnslur við störf kærða eða beitt  viðurlögum á grundvelli 27. gr. lögmannalaga.

II.

Ágreiningur er með aðilum um hvernig samið var um endurgjaldið.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 28. gr. laga um þjónustukaup, nr. 42/2000 skal neytandi greiða það verð sem telja má sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan er mikil og hvers eðlis hún er, hafi ekki verið samið um verð fyrir keypta þjónustu.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga.

Nefndin telur að líta verði til þess að aðilar höfðu áður átt í sambærilegum viðskiptum og að fyrir þau hafði verið greitt þannig að kærandi naut afsláttarkjara. Meðal annars með hliðsjón af þessu þykir útilokað að leggja þann málatilbúnað kæranda til grundvallar, gegn andmælum kærða, að samið hafi verið um að kærði tæki ekki annað endurgjald fyrir starf sitt en það sem kynni að fást úr hendi gagnaðila.

Krafa kærða verður skilin svo að hann hafi fallið frá kröfu um endurgjald vegna vinnu eftir að ákveðið var að höfða málið við stefnu, gegn því að fá vinnu sína að öðru leyti greidda. Kærði hafi þannig fallið frá vinnulaunum vegna alls 21,3 stunda gegn því að fá greitt fyrir þessar 8 stundir. Með því að tímagjald kærða, að teknu tilliti til afsláttar, er mjög hóflegt, og þar sem vinnustundafjöldinn sem hann þannig innheimtir fyrir er vel innan þeirra marka sem kærandi mátti vænta vegna starfa kærða er það niðurstaða nefndarinnar að rétt sé að fallast á kröfu kærða um greiðslu samkvæmt reikningi.

Rétt þykir að hvor aðila um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, R hdl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Áskilið endurgjald kærða vegna starfa hans í þágu kæranda með reikningi nr. 4843 að fjárhæð kr. 144.576, telst hæfilegt í skilningi 1. mgr. 24. lögmannalaga nr. 77/1998.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Valborg Þ. Snævarr, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson