Mál 1 2014

Ár 2014, þriðjudaginn 13. maí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 1/2014:

A

gegn

R hrl.

og

S hdl.

 og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 14. janúar 2014 erindi kæranda, A, þar sem kvartað er yfir störfum kærðu, R hrl. og S hdl, og áskilinni þóknun þeirra.

Óskað var eftir greinargerð frá kærðu um erindið þann 22. janúar 2014. Greinargerð kærðu barst þann 10. febrúar 2014. Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð kærðu þann 13. febrúar 2014. Athugasemdir kæranda bárust þann 28. febrúar 2014. Kærðu var gefinn kostur á að koma á framfæri lokaathugasemdum sínum þann 11. mars 2014. Athugasemdir bárust frá kærðu þann 28. mars 2014.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Þann 31. janúar 2012 skrifaði kærandi undir umboð til að kærðu til að gæta hagsmuna hans vegna tjóns sem hann hafði orðið fyrir vegna skurðaðgerðar á hné þann 31. október 2007 og meðferðar sem framkvæmd var í kjölfarið. Í umboðinu fólst m.a. að gæta hagsmuna kæranda gagnvart vátryggingarfélögum og tjónvöldum sem kynnu að eiga hlut að máli og til kærumeðferðar fyrir æðra stjórnvaldi. Kærandi staðfesti að hafa kynnt sér gjaldskrá T ehf. Áður hafði U hrl. farið með mál kæranda.

Framangreind krossbandsaðgerð var framkvæmd á vinstra hné kæranda í Orkuhúsinu 2007. Í október 2008 fluttist sóknaraðili til Danmerkur. Sumarið 2009 gekkst hann undir nýja krossbandsaðgerð í Danmörku, og eftir hana tjáði læknir kæranda að krossbandið hefði verið rangt staðsett af læknum Orkuhússins og slitnað af þeim sökum. Einnig reyndust tveir vöðvar sem teknar voru sinar úr slitnir og visnir. Fram til þess sem kærandi kvartaði til úrskurðarnefndar lögmanna hafði hann gengist undir fjórtán aðgerðir vegna þessa skaða. Beinan kostnað kveður kærandi nema nærri tveimur tugum milljóna króna.

Þegar kærandi veitti kærðu umboð lágu málinu til grundvallar tvær álitsgerðir landlæknis vegna kvörtunar kæranda um meinta ranga staðsetningu krossbandsins og ranga endurhæfingu hjá sjúkraþjálfara. Í þeirri fyrstu frá 22. mars 2011 var niðurstaða embættisins sú „að ekki yrði séð í máli þessu að  um vanrækslu eða mistök við veitingu heilbrigðisþjónustu hafi verið að ræða [...]". Embætti landlæknis ákvað að endurupptaka málið í tilefni af kæru kæranda 15. maí 2011 til velferðarráðuneytisins. Í síðari álitsgerðinni 22. nóvember 2011 komst embættið aftur að sömu niðurstöðu, þ.e. „að ekki verði séð að um vanrækslu eða mistök við veitingu heilbrigðisþjónustu hafi verið að ræða í máli A".

Framangreindar álitsgerðir landlæknis byggðust m.a. á umsögnum Magnúsar Páls Albertssonar, bæklunar- og handaskurðlæknis og Sigrúnar Völu Björnsdóttur, lektors og sérfræðings í bæklunarskurðlækningum. Kærandi taldi að Magnús Páll væri vanhæfur til matsins og kærðu var falið það verkefni að hnekkja álitsgerðum landlæknis.

Þann 19. janúar 2012 lagði kærandi fram stjórnsýslukæru til velferðarráðuneytisins vegna málsmeðferðar og álitsgerðar landlæknis, dags. 22. nóvember 2011. Þann 24. febrúar 2012 skrifaði kærða S bréf fyrir hönd kæranda til velferðarráðuneytisins þar sem þess var krafist að ráðuneytið ógilti álitsgerð landlæknis og sendi málið á ný til embættisins til efnislegrar meðferðar. Kærða S skrifaði bréf, dags. 6. mars 2012, með athugasemdum við greinargerð embættis landlæknis, dags. 14. febrúar 2012. Kæranda var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við athugasemdir landlæknisembættisins. Kærða S skrifaði bréf f.h. kæranda, dags. 2. maí 2011, þar sem hún kom á framfæri sjónarmiðum hans.

Kærandi fékk reikning frá T, dags. 29. febrúar 2012, að fjárhæð kr. 185.426. Reikningurinn er sundurliðaður annars vegar í vinnuframlag kærðu R í 1,25 klst. og hins vegar í vinnuframlag kærðu S 7,25 klst. Varðaði reikningurinn skaðabótakröfu og vinnu lögmanna frá desember til febrúar. Fyrir liggur tímaskráning með yfirliti yfir unna tíma vegna máls kæranda frá 30. desember 2011 til 29. febrúar 2012. Samkvæmt því voru unnir tímar samtals 12 klst., en þeim hefur verið fækkað í 8,5 klst.

Kærandi fékk reikning frá T, dags. 30. júní 2012, að fjárhæð kr. 177.896. Sundurliðaðist reikningurinn annars vegar í þóknun kærðu R 0,25 klst. og hins vegar í þóknun kærðu S 8,25 klst. Varðaði reikningurinn skaðabótakröfu og vinnu lögmanna frá mars til júní. Fyrir liggur tímaskráning með yfirliti yfir unna tíma vegna máls kæranda frá 2. mars 2012 til 30. júní 2012. Samtals voru unnir tímar 8,5 klst.

Þann 28. ágúst 2012 kvaðst kærða S í tölvupósti til kæranda vilja skoða tryggingarmálið næst og óska eftir öllum gögnum frá landlækni. Sagði hún að þó væri kannski réttara að bíða eftir svari frá velferðarráðuneytinu áður en sá fasi hæfist.

Þann 30. ágúst 2012 kvað velferðarráðuneytið upp sinn úrskurð þar sem fallist var á mögulegt vanhæfi Magnúsar Páls Albertssonar. Kvörtunarmálinu var vísað til landlæknis á ný til útgáfu á rökstuddu áliti.

Þann 30. október 2012 barst kæranda reikningur frá T, að fjárhæð kr. 67.299. Sundurliðaðist reikningurinn í þóknun kærðu S vegna 3,25 klst., vegna skaðabótakröfu og vinnu lögmanns frá ágúst til október. Fyrir liggur tímaskráning með yfirliti yfir unna tíma vegna máls kæranda frá 28. ágúst 2012 til 31. október 2012. Samtals voru unnir tímar 3,25 klst.

Þann 30. júní 2013 var framkvæmt annað sérfræðiálit af Jóni Karlssyni sem reyndist vera kæranda hagstætt.

Þann 18. ágúst 2013 sendi kærandi kærðu S tölvupóst og kvaðst gjarnan vilja fara að vinna að því að fá bætur vegna sjúklingatryggingarinnar enda sýndist honum ljóst að álit Jóns Karlssonar staðfesti bótarétt hans. Þann 24. september 2013 óskaði kærandi upplýsinga um það hver staðan á málinu væri og hvort VÍS og Sjóvá hefðu viðurkennt bótakröfuna. Kærða S kvaðst ekki hafa aðhafst frá því þau töluðu síðast saman.

Kærandi sendi TM bréf þar sem óskað var eftir afstöðu félagsins til bótaréttar á grundvelli sjúklingatryggingar B læknis. TM svaraði með bréfi, dags. 18. desember 2013, og taldi líkur á að málið væri fyrnt.

Þann 7. desember 2013 spurði kærandi kærðu S hvort hún gæti fylgt eftir bréfum sem hann hefði sent VÍS og TM fyrir u.þ.b. tveimur mánuðum. Kærða kvaðst geta kíkt á málið þann 13. desember.

Nokkur tölvupóstsamskipti áttu sér stað milli kærðu S og kæranda í desember 2013 varðandi málið. Kærða S kvað kæranda m.a. hafa verið í samskiptum við tryggingarfélögin og hefði ekki falið kærðu að taka þann þátt málsins.

Þann 19. desember 2013 viðurkenndi VÍS bótaskyldu úr sjúklingatrygginguC bæklunarlæknis.

Þann 19. desember 2013 afturkallaði sóknaraðili umboð sitt til handa kærðu.

II.

Kærandi krefst þess að úrskurðarnefndin láti kærðu sæta áminningu fyrir brot á 2. mgr. 10. gr. og 1. og 3. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna og annarra siðareglna sem mögulega eiga við, s.s. 1. mgr. 12. gr. Einnig felur kærandi nefndinni að ákveða hæfilega endurgreiðslu þóknunar vegna brots á 2. mgr. 10. gr. siðareglnanna og of hárrar þóknunar.

Kærandi telur að kærðu hafi sýnt verulega vanþekkingu á fyrirkomulagi sjúklingatryggingar. Kærandi bendir á að læknastöð Orkuhússins sé einkarekin læknastöð. Meðferðaraðilar í einkarekstri kaupi sjúklingatryggingu hjá vátryggingarfélögum. Þrátt fyrir það hafi kærða R lagt fram þá tillögu í tölvupósti, dags. 19. janúar 2012, að hann sækti um bætur til Sjúklingatryggingar Íslands. Kveðst kærandi þó hafa sent kærðu R helstu gögn þar sem skýrt hafi komið fram að meðferðin hafi farið fram í Orkuhúsinu. Kærandi hafi svarað og spurt hvort Sjúklingatryggingar Íslands hefðu eitthvað með málið að gera. Einnig hafi kærandi upplýst að hann hafi sótt um bætur til VÍS og Sjóvá. Hafi kærða S svarað tölvupóstinum án þess að svara framangreindri spurningu.

Kærandi vísar til eftirfarandi tölvupósts frá kærðu R, dags. 20. janúar 2012: „Sæll A. Ef þú ætlar sjálfur að straumlínulaga erindið til ráðuneytisins vegna álits landlæknis þá vil ég benda þér á að gera það sem fyrst. Það er öruggast að hafa slíkt viðbótarbréf innan kærufrests. Við getum tekið það að okkur ef þú vilt og það ætti ekki að vera mikill kostnaður fólginn í slíkri vinnu." Kveðst kærandi hafa svarað og veitt kærðu umboð til að skrifa bréfið. Kærða S hafi í framhaldinu skrifað 4 blaðsíðna bréf, dags. 24. febrúar 2012.

Kærandi kveðst í framhaldinu hafa fengið reikning frá T, dags. 29. febrúar 2012 upp á 185.426. Hafi kostnaðurinn komið honum mjög á óvart, enda í töluverðu ósamræmi við tölvupóst kærðu R. Á reikningnum hafi ekki komið fram hvernig vinnuframlagi kærðu hafi verið varið.

Kærandi telur að framangreint „viðbótarbréf" hafi verið mjög ítarlegt en virðist samt sem áður hafa verið úr hófi tímafrekt að skrifa miðað við lengd. Bréfið endursegi að mestu það sem kærandi hafi áður skrifað í kæru til ráðuneytisins. Kærandi kveðst hafa búist við að bréfið yrði stutt og hnitmiðað og myndi taka eina klukkustund, kannski tvær að hámarki þrjár. Kærandi kveðst hafa rætt við aðra lögfræðinga sem hafi sagt að bréf lögmanna eigi að vera hnitmiðuð og ekki lengri en nauðsynlegt sé. Stjórnsýslukærur á borð við þessa þurfi ekki að vera skrifaðar af lögfræðingum.

Kærandi telur framangreint vera brot á 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna. Kærandi byggir á því að hann hafi fengið villandi upplýsingar um kostnað. Kveðst hann sjálfur hafa unnið verkið hefði hann fengið rétta vitneskju um kostnað. Hafi honum ekki dottið í hug að viðbótarbréf fæli í sér að endurskrifa allt það sem hann hafi áður skrifað.

Kærandi kveðst ekki hafa kvartað yfir framangreindu fyrr en nú þar sem hann hafi ekki viljað fórna hagsmunum sínum með því að þurfa að finna nýjan lögmann. Telur kærandi ekki óeðlilegt að kvarta til úrskurðarnefndar lögmanna eftir að hann hafi afturkallað umboð sitt. Oft sé lögfræðikostnaður gerður upp í lok máls og því kvarti hann nú.

Kærandi bendir á að tölvupóstar hafi gengið milli hans og kærðu S varðandi skaðabótamál. Hafi kærða S tjáð honum að ekki væri hætta á fyrningu þar sem fyrningarfrestur hefði verið rofinn með því að kæra til þar til bærra stjórnvalda. Kærandi kveðst hafa treyst því að kærða S væri að segja satt og bótakröfur myndu ekki fyrnast meðan málið væri til rannsóknar hjá landlækni.

Kærandi vísar til þess að þann 18. ágúst 2013 hafi hann sent kærðu S tölvupóst og viljað fara að vinna í því að fá bætur vegna sjúklingatryggingar. Hafi kærða S svarað þann 21. ágúst og sagst ekki nenna að lesa bréfið og spurt hvort kærandi væri á Íslandi á næstunni. Hafi kærandi svarað því til að hann hefði ekki í hyggju að fara til Íslands á næstunni. Kærandi hafi svo sent kærðu S tölvupóst þann 24. september 2013 til að fá stöðuna á málinu. Hún hafi svarað því til að ekkert hefði verið aðhafst af hennar hálfu og fennt hefði yfir hjá henni hvað búið væri að gera í málinu varðandi tryggingarfélögin.

Kærði kveður það hafa runnið upp fyrir sér þegar hann hafi lesið svarið frá kærðu S að hann hefði engan lögfræðing til að tryggja hagsmuni sína í málinu. Eftir að hafa haft umboð í tæp tvö ár þá hafi kærða S ekki vitað hvernig staðan væri á málinu. Hún hafi átt að gæta hagsmuna hans og hafi kærandi ekki átt að segja henni hvað ætti að gera. Kærandi telur þetta geta varðað við 1. mgr. 12. gr. siðareglna lögmanna.

Kærandi kveðst í framhaldinu hafa farið að huga að því að fá sér nýjan lögfræðing. Hafi hann ákveðið í millitíðinni að senda sjálfur tryggingarfélögunum VÍS og TM afrit af umsögn Jóns Karlssonar og bera fram ósk um viðurkenningu á bótakröfu.

Bendir kærandi á að í svarbréfi TM, dags. 18. desember 2013, komi fram að líkur séu á að málið sé fyrnt, skv. 1. mgr. 19. gr. laga um sjúklingatryggingu sem kveði á um 4 ára fyrningarfrest. Kærandi vísar til tölvupósts kærðu S, dags. 18. desember 2013, þar sem hún reyni að sannfæra hann um að fyrningarfrestur sé aðeins 1 ár þótt lagagreinin sem TM hafi vísað til kveði skýrt á um 4 ár. Kærandi telur þetta ótrúlega vanþekkingu hjá lögmanni sem taki að sér mál. Telur kærandi að um geti verið að ræða brot gegn 3. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna.

Kærandi vísar til þess að hugsanlega geti kærða R heitið hæfur lögmaður á þessu sviði, en það virðist ekki vera skv. áðurnefndum tölvupósti, dags. 19. janúar 2012, þar sem hún hafi ekki vitað að bótakröfur vegna sjúklingatrygginga ætti að beina til vátryggingarfélaganna. Einnig megi draga í efa að samstarf kærðu hafi getað bætt upp þekkingarleysi kærðu S þar sem heildarvinnuframlag kærðu R hafi verið 1,5 klst. á þessum tveimur árum og ekkert eftir fyrri hluta árs 2012.

Kærandi vísar til tölvupósts kærðu S, dags. 22. október 2012, þar sem hún segi fyrningarfrest rofinn þegar málið hafi verið kært til bærra stjórnvalda. Af þeim sökum kveðst kærandi hafa talið að hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur af fyrningu þar sem málið væri í meðhöndlun landlæknis. Þetta dragi kærða S til baka í tölvupósti, dags. 18. desember 2013, og segi þetta eiga við stjórnsýsluaðgerðir. Kæranda kveðst hulið hvað kærða S hafi átt við með upphaflegu fullyrðingunni og hvað fyrningarfrestur á stjórnsýsluaðgerðir hafi með mál hans að gera. Kærða R hafi engar athugasemdir gert við orð kærðu S í tölvupóstinum þann 22. október 2012.

Kærandi vísar til tölvupósts þar sem kærða S segi að hingað til hafi kærandi verið í samskiptum við tryggingarfélögin. Kærandi kveður það hafa verið alveg nýtt fyrir hann að heyra að þær hafi ekki séð um hagsmuni hans gagnvart tryggingarfélögunum þvert á það sem fram komi í umboði til þeirra. Hafi hann engin samskipti haft við tryggingarfélögin frá því kærðu hafi fengið umboð í upphafi árs 2012 og þangað til hann hafi beðið þær um að vinna að því að fá sjúklingabætur í tölvupósti 18. ágúst 2013, sem ekki hafi verið brugðist við. Kærandi kveðst margoft hafa rætt um sjúklingatrygginguna og m.a. þann 24. janúar 2012, sent kærðu tölvupóst frá VÍS um skilyrði félagsins. Það hafi aldrei verið gert samkomulag um að kærandi myndi sjá um sjúklingatryggingarhlutann. Kærandi kveður kærðu S gera hann ábyrgan fyrir vanrækslu hennar. Krafa hennar um að kærandi þurfi að koma til Íslands á fund sé óeðlileg.

Kærandi telur að framganga kærðu sé brot á 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna. Þær hafi vanrækt skyldu sína til að tryggja hagsmuni kæranda og ekki stuðlað að framgangi málsins. Þær hafi hvorki haft samband við tryggingarfélögin né óskað eftir örorkumati, jafnvel þótt jákvæð umsögn lægi fyrir. Hafi fyrningarfrestur runnið út á meðan þær hafi starfað fyrir kæranda þá hafi sinnuleysi og vanþekking þeirra hugsanlega valdið kæranda milljónatjóni. Jafnvel þótt endanlegt tjón kæranda sé óljóst þá telur kærandi að framganga kærðu sé ámælisverð.

Kærandi kveður það óljóst hvort hann megi vænta þess að fá einn reikning til viðbótar frá T. Heildarþóknun nemi a.m.k. kr. 430.631. Það eina sem hafi áunnist hafi verið að velferðarráðuneytið hafi úrskurðað umsagnaraðila landlæknisembættisins vanhæfa. Kærandi telur að kærðu hafi varið of miklum tíma í stjórnsýslukæruna í ljósi augljóss vanhæfis Magnúsar Páls Albertssonar. Kærandi telur að sönnunarfærslan hafi verið veik og vísar því til stuðnings til bréfs fyrri lögfræðings, V hdl., dags. 6. desember 2010. Þar sýni hún fram á að Magnús Páll hafi verið hluthafi í Orkuhúsinu sf. með yfirliti frá CreditInfo. Kærðu hafi ekki fundið slík sönnunargögn. Einnig vísi V í dómsmál þar sem Magnús Páll hafi verið úrskurðaður vanhæfur vegna tengsla við VÍS. Kærða S hafi ekki fundið slíka vanhæfisástæðu. Bréf V sé ein síða og sýni að mun minna vinnuframlag hefði nægt til að sýna fram á vanhæfi.

Kærandi kveðst ekki fá séð að vinnuframlag kærðu hafi stuðlað að hagsmunum hans meira en ef hann hefði sjálfu séð um málafærsluna, heldur þvert á móti skaðað hagsmuni hans. Kærandi telur að bréf þau sem kærða S hafi skrifað innihaldi fátt sem hafði ekki komið fram í hans eigin bréfum. Kærandi telur furðulegt að hann þurfi að borga fyrir þjónustu lögfræðinga sem hafi minni þekkingu á viðkomandi lögum en hann sjálfur. Ófullnægjandi framganga þeirra hafi orðið til þess að hann hafi þurft að finna nýjan lögfræðing en það hafi skaðað mál hans. Kæranda þykir réttast að fá þjónustuna endurgreidda að fullu.

III.

Kærðu telja að hagsmunir kæranda hafi ekki verið skertir á nokkurn hátt meðan málið hafi verið til meðferðar hjá þeim, heldur þvert á móti styrkst.

Kærðu vísa til þess að mál þetta sé að mörgu leyti sérstakt hvað umfang varði og skipti þar mestu eiginleiki kæranda sjálfs sem felist í miklum metnaði hvað gagnaöflun varði. Þannig hafi kærandi sent gífurlegan fjölda tölvupósta og lesefnis til kærðu og sé þar m.a. um að ræða ýmis konar sérfræðiskýrslur og fræðigreinar um læknisfræðileg atriði sem málinu tengist.

Kærðu kveða mikið hafa verið lagt upp úr því að kærandi væri á öllum tímum sem best upplýstur um framvindu málsins. Þar til í blálok viðskiptasambandsins hafi kærandi aldrei lýst óánægju vegna starfa kærðu.

Vísa kærðu til þess að kærandi hafi aldrei gert athugasemdir við reikninga enda hafi tímafjöldi verið hóflegur miðað við eðli málsins, gagnamagn og tíðni samskipta í málinu. Þá hafi kærandi aldrei kallað eftir skýringum, s.s. afritum af tímaskýrslum sem hefðu að sjálfsögðu varpað ljósi á það í hvað tími lögmanna hafi farið.

Kærðu geta þess að burtséð frá hefðbundnum lögmannsstörfum í þágu kæranda hafi jafnframt verið nauðsynlegt að vinda ofan af stöðu sem myndast hafi vegna þess að kærandi hafði ráðið a.m.k. tvo aðra lögmenn til starfa áður en hann hafi leitað til kærðu. Hafði kærandi samt sem áður sérstaklega verið tilkynnt í upphafi samskipta að honum væri nauðsynlegt að slíta viðskiptasambandi sínu við U hrl. sem kærandi hafi sagt að hefði áður sinnt málinu fyrir sína hönd.

Kærðu telja endurgjald fyrir störf í þágu kæranda sanngjarnt og innan þeirra marka sem hann hafi mátt vænta fyrir þau störf sem hann hafi falið þeim.

Kærðu geta þess að kærandi hafi að fullu gert upp alla þá reikninga sem honum hafi verið gerðir vegna starfa kærðu. Þá sé á það bent að umræddir reikningar hafi allir verið útgefnir og greiddir á árinu 2012, en kæranda hafa ekki verið gerðir reikningar síðan í október 2012. Að því sögðu sé ljóst að meira en ár sé liðið frá því að kærandi hafi átt þess kost að koma athugasemdum sínum á framfæri við úrskurðarnefndina, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Að því sögðu beri að frávísa kröfunni um endurskoðun endurgjalds af sjálfsdáðum.

Kærðu benda á að þrátt fyrir að málið eigi ekki undir úrskurðarnefnd lögmanna af ofangreindri ástæðu sé rétt að taka fram að ekki sé með nokkru móti hægt að sjá að um ósanngjarnt endurgjald hafi verið að ræða. Í umboði komi fram að kærandi hafi kynnt sér gjaldskrá T ehf. Unnið hafi verið eftir umræddri gjaldskrá og hafi tímafjöldi verið í samræmi við fyrirliggjandi verkefni. Sé tímagjald kærðu S kr. 16.500 og kærðu R kr. 22.500, í báðum tilfellum utan virðisaukaskatts. Sé um að ræða nokkuð hóflega gjaldskrá með vísan til þess sem almennt gengur og gerist meðal lögmanna.

Kærðu benda á að kærandi hafi aldrei gert athugasemdir við reikninga eða tímafjölda sem unninn hafi verið í hans þágu, enda hafi náðst árangur sem muni væntanlega reynast kæranda dýrmætur í að sækja rétt sinn í framtíðinni, þ.e. að ná fram sönnun um að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu árið 2007. Slík sönnun hafi fyrst legið fyrir með álitsgerð Jóns Karlssonar 30. júní 2013 þar sem staðfest hafi verið að meginvandinn hafi verið staðsetning krossbands í fyrstu aðgerð árið 2007.

Kærðu telja mikilvægt að árétta að sá árangur sem náðst hafi í málinu þegar velferðarráðuneytið hafi vísað kvörtunarmáli kæranda á ný til útgáfu á rökstuddu áliti landlæknis hafi verið afar mikilvægur fyrir sönnun kæranda á bótarétti sínum. Úrskurðurinn varpi einnig ágætis ljósi á umfang þessa máls hvað lögmannsstörf og gagnamagn varði.

Kærðu benda á að þeir reikningar sem kærandi virðist helst gera athugasemdir við séu annars vegar reikningur nr. 2979 að fjárhæð kr. 185.426 m.vsk og hins vegar reikningur nr. 3176 að fjárhæð kr. 177.896.

Kærðu benda á hvað fyrri reikninginn varði að hluti af þeim tímum sem unnir hafi verið á umræddu tímabili hafi ekki verið reikningsfærðir. Þannig hafi tímafjöldi verið færður úr 12 klst. í 8,5 klst. á umræddu tímabili. Umfang samskipta við kæranda á umræddu tímabili hafi verið umtalsvert. Um það bil 30 tölvubréf hafi gengið á milli kæranda og kærðu en auk þess hafi verið unnið að fjögurra blaðsíðna bréfi til velferðarráðuneytisins, dags. 24. febrúar 2012, sem útskýrt hafi kærugrundvöll kæranda með framsetningu fylgiskjala. Til þess að hægt væri að útbúa slíkt skjal hafi verið nauðsynlegt að ná yfirsýn yfir framvindu og gögn málsins. Talsverð vinna hafi falist í því að koma þeim rökum og efni sem kærandi hafi þegar komið frá sér á það form að það myndi styðja þá lögfræðilegu niðurstöðu að um vanhæfa álitsgjafa hafi verið að ræða í áliti landlæknis.

Kærðu benda á að síðari reikningurinn varði tímabilið frá marsbyrjun til loka júnímánaðar 2012. Um sé að ræða alls 8,5 klst. Samskipti lögmanna við kæranda hafi verið umfangsmikil á umræddu tímabili. Alls séu færðar 2,75 klst. vegna umræddra samskipta en í þeim hafi falist að um 40 tölvupóstar hafi verið sendir á milli aðila og hafi efni þeirra numið yfir 30 bls. Auk þess hafi verið skrifuð tvö bréf vegna stjórnsýslukæru kæranda til velferðarráðuneytisins. Fyrra bréfið, dags. 6. mars 2012, hafi verið tvær bls. að lengd en það síðara, dags. 2. maí 2012, hafi verið 10 bls. með fylgiskjölum. Þá hafi farið tími í að leiðrétta þá stöðu sem komið hafi upp í kjölfar þess að kærandi hafi ekki afturkallað umboð til fyrri lögmanns andstætt því sem hann hafi þegar tjáð kærðu.

Benda kærðu á að kærandi telji að bréf fyrri lögmanns sýni að „mun minna vinnuframlag hefði nægt til að sýna fram á vanhæfi [Magnúsar Páls]". Kærðu geta þess að þær hafi fyrst fengið afrit af þessu bréfi við framlagningu þess til úrskurðarnefndar LMFÍ. Hefði það sýnilega getað sparað þeim vinnu og þar með kæranda kostnað hefði hann afhent þeim bréfið á sínum tíma. Þá hafi það fyrst verið með úrskurði velferðarráðuneytisins 30. ágúst 2012, að undangenginni vinnu kærðu, að fallist hafi verið á vanhæfi Magnúsar Páls.

Kærðu byggja á því að réttur kæranda hafi ekki skerst á meðan mál hans hafi verið til meðferðar hjá þeim. Þvert á móti hafi neikvæðu áliti landlæknis verið hrundið og nú liggi fyrir nýtt álit sérfræðings sem sé kæranda hagstætt og muni væntanlega grundvalla bótakröfur hans í framtíðinni.

Kærðu vísa til þess að þar sem hið neikvæða álit landlæknis hafi verið helsta hindrun kæranda í málinu og grundvöllur synjunar tryggingarfélaga, hafi í samráði við kæranda, verið ákveðið að einblína á að fá því snúið við.

Benda kærðu á að í kvörtun sinni leggi kærandi út frá opnu orðalagi umboðsins en þegar þær hafi sent kæranda umboðið til undirritunar þá hafi eftirfarandi sérstaklega verið getið: „Við munum að sjálfsögðu ekki fara í neinar aðgerðir nema að þinni beiðni og þú getur reitt þig á að vera inn í hverju skrefi málsins, bæði hvað viðvíkur stjórnsýslukæru og öðrum aðgerðum." Í tölvupósti, dags. 28. ágúst 2012, hafi verið farið yfir það sem fram hafi komið á fundi stuttu áður. Þar segi m.a. „Með þínu leyfi myndi ég vilja skoða tryggingamálið næst og óska eftir öllum gögnum frá landlækni, en kannski er vissara að bíða eftir svarinu frá velferðaráðuneytinu áður en sá fasi hefst." Kærðu kveða slíkt leyfi ekki hafa komið heldur hafi kærandi þvert á móti verið sjálfur í samskiptum við umrædd tryggingarfélög.

Kærðu benda á að í kvörtun segi kærandi að hann hafi beðið þær „um að vinna að því að fá sjúklingabæturnar í fyrrnefndum tölvupósti þann 18. ágúst 2013 og ekki var brugðist við." Þetta sé rangt. Í tölvupóstinum segi kærandi: „Sæl S. Hér er bréfið sem ég hef sent til landlæknis, sjá meðfylgjandi skjal. Ég hefði líka skrifað textann vegna álits Jóns Karlssonar, en ákvað að sleppa honum þar sem mér finnst álit hans vera nóg til að viðurkenna mistök og ég vildi beina fókusnum að endurhæfingunni. Ég myndi gjarnan vilja fara að vinna að því að fá bætur vegna sjúklingatryggingarinnar enda sýnist mér ljóst að álit Jóns Karlssonar staðfesti bótarétt minn." Það hafi ekki verið fyrr en með tölvupósti, dags. 7. desember 2013, sem kærandi hafi óskað eftir að lögmaður myndi „fylgja eftir" bréfum hans sem hann hafi sent VÍS og TM um tveimur mánuðum áður.

Kærðu kveða það rétt sem fram komi í samskiptum og kvörtun að til hafi staðið að stefna málinu á fyrri stigum. Hins vegar hafi verið ákveðið á fundi 28. ágúst 2012 að kærandi myndi setja saman atvikalýsingu sem byggt yrði á í stefnu, enda hafi verið um flókna málavexti að ræða sem spanni bæði langan tíma og talsvert gagnamagn sem kærandi hafi safnað í gegnum tíðina. Síðar sama dag hafi kærandi sagst ætla að reyna að klára þessi atriði í september sama ár. Gerð atvikalýsingar hafi dregist af hálfu kæranda án þess að lögmönnum T verði um kennt. Þann 14. október 2012 hafi kærandi sent tölvupóst þar sem fram hafi komið að hann hefði tekið saman upplýsingar vegna krossbandsaðgerðarinnar en þyrfti meiri tíma til að ljúka samantekt um sjúkraþjálfun og miska. Skemmst sé frá því að segja að sú samantekt hafi aldrei borist og því hafi málið tafist vegna gagnaöflunar sem kærandi hafi sjálfur tekið að sér án þess að ljúka.

Kærðu telja að enginn dráttur hafi verið á rekstri málsins af þeirra hálfu.

Kærðu benda á að fyrningarfrestur byrji ekki að líða fyrr en tjónþoli hafi fengið eða mátt fá vitneskju um tjón sitt, sbr. 19. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Af dómaframkvæmd megi ráða að við mat á því hvenær tjónþoli hafi fengið eða mátt fá vitneskju um tjón sitt, sé almennt litið til þess annars vegar að tjónþoli hafi vitað eða mátt vita að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna saknæmrar háttsemi skaðvalds og hins vegar að þessi háttsemi hafi valdið honum varanlegu líkamstjóni. Þannig sé almennt talið að þótt tjónþoli hafi fengið vitneskju um kröfu sína þá hefjist fyrningarfrestur ekki fyrr en búið sé að meta varanlegar afleiðingar slysins nema tjónþoli láti slíkt mat tefjast án eðlilegra ástæðna.

Kærðu telja rétt í þessu samhengi að árétta að jafnvel þó að danskur sérfræðingur hafi ritað í sjúkraskrá kæranda í apríl 2009 að krossbandið kunni að hafa verið staðsett of aftarlega, án þess þó að tilgreina það sem orsök þeirra vandamála sem hafi hrjáð kæranda, þá hafi landlæknisembættið tvívegis komist að þeirri niðurstöðu að ekkert bendi til þess að slík mistök eða vanræksla hafi átt sér stað. Það hafi ekki verið fyrr en velferðarráðuneytið hafi úrskurðað um vanhæfni umsagnaraðila landlæknis að hann hafi kvatt til hlutlausan sérfræðing sem komist hafi að þeirri niðurstöðu 30. júní 2013 að um væri að ræða mistök í aðgerð 2007. Þar með hafi legið fyrir vitneskja um bótarétt kæranda samkvæmt lögum nr. 111/2000. Áður hafi kærandi unnið sjálfur að því að afla sönnunar um að krossbandið hafi verið rangt staðsett og hafi staðið til að hann færi í svokallaða CT-skönnun sumarið 2012.

Kærðu telja ekkert hafa komið fram í máli kæranda sem staðfesti að hann eigi ekki von á frekari bata. Kærandi hafi undirgengist rúmlega tíu aðgerðir til að styrkja hnéð. Þær aðgerðir sem kærandi hafi undirgengist síðustu ár hafi leitt til þess að ástand hans hafi skánað og skilst kærðu á kæranda að hann eigi enn von á frekari bata. Að því sögðu verði að telja afar ólíklegt að ástand kæranda geti talist hafa verið stöðugt frá árinu 2009 eða 2010 þannig að unnt væri að meta varanlegt líkamstjón hans og að bótakrafa hans væri því fyrnd. Kærðu vísa máli sínu til stuðnings til dóms Hæstaréttar í máli nr. 9/2013.

Kærðu telja að af ofangreindu megi vera ljóst að krafa kæranda sem hafi viðstöðulaust barist fyrir bata og leitað réttar síns sé ekki fyrnd. Kærðu sé ekki kunnugt um að kærandi hafi fengið vitneskju enn sem komið er um að ástand hans muni ekki breytast til batnaðar enda hyggi hann á enn eina aðgerðina í Bandaríkjunum á næstunni. Tjón kæranda sé því enn ekki komið fram enda sé enn óljóst hverjar afleiðingar þess verði. Sé því ljóst að kröfur kæranda skv. 19. gr. laga nr. 111/2000 séu ekki fyrndar enda sé hann enn vel innan 10 ára markanna sem greinin tilgreini sérstaklega.

Kærðu benda á að ekkert hafi komið fram sem styðji að mál kæranda sé fyrnt, annað en tilkynning frá TM um að félagið álíti mögulega að svo megi vera. Stingi félagið upp á að framkvæmt verði mat á því hvenær kærandi hafi fengið eða mátt hafa fengið vitneskju um tjón sitt. Samkvæmt því sem fram komi í tölvupósti kæranda til lögmanns T þann 18. desember 2013 hafi hann sótt um bætur til TM í október 2010 og hafi aldrei heyrt frá tryggingarfélaginu eftir það. Verði að telja að slíkur óútskýrður og ástæðulaus dráttur hafi áhrif á fyrningu í máli þessu.

Kærðu vísa til þess að þegar kærandi hafi afturkallað umboð sitt 18. desember 2013 hafi hann beðið afstöðu VÍS vegna umsóknar hans um bætur. Þess beri að geta að VÍS hafi ekki borið fyrir sig fyrningu þegar kærandi hafi slitið viðskiptum við kærðu. Þvert á móti komi fram í tölvupósti frá lögmanni í tjónadeild VÍS, dags. 9. desember 2009, að ef málinu verði beint til landlæknis sé venjulega beðið með að taka afstöðu til bótaskyldu þar til álit liggi fyrir. Þegar kærandi hafi sagt upp viðskiptum við kærðu hafi velferðarráðneytið vísað málinu til landlæknis á ný til útgáfu á rökstuddu áliti í máli hans, sem hafi í kjölfarið aflað álitsgerðar Jóns Karlssonar.

Kærðu vísa til þess að jafnvel ef svo ólíklega færi að krafa kæranda gagnvart TM yrði talin fyrnd eigi hann enn bótakröfu á hendur umræddum heilbrigðisstofnunum og/eða atvinnurekanda þeirra á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993. Slík skaðabótakrafa fyrnist á 10 árum samkvæmt lögum nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda.

Kærðu benda á varðandi tölvupóstsamskipti að um misskilning sé að ræða milli kæranda annars vegar og lögmanns hins vegar. Þar útskýri lögmaður hvaða reglur séu um að tilkynningar berist tryggingarfélögum innan tiltekins tíma (þ.e. reglu um ársfrest) en hins vegar sé kærandi að fjalla um mögulega fyrningu á grundvelli 19. gr. laga nr. 111/2000. Að sama skapi hafi það verið ofmælt í tölvupósti, dags. 22. október 2012, að búið væri að rjúfa fyrningu kröfu kæranda enda hafi þurft til þess málshöfðun. Staðreyndin sé hins vegar sú að slík málshöfðun hafi verið ótímabær þar sem kærandi hafi enn verið að undirgangast meðferðir sem miðað hafi að því að bæta varanlegt ástand hans.

Kærðu harma að kærandi sé óánægður með þá þjónustu sem hann hafi fengið hjá þeim. Hvað varði meint brot lögmanna á siðareglum sé slíkum ásökunum vísað alfarið á bug. Þegar hafi verið rakið að endurgjald hafi verið sanngjarnt og innan þess ramma sem kærandi hafi mátt gera ráð fyrir á grundvelli umfangs málsins. Málið hafi verið rekið eins hratt og mögulegt hafi verið hvað varði að fá hrundið áliti landlæknis en með þeim hætti verði hægt að undirbyggja bótakröfu kæranda. Það hafi náðst í júní 2013 þegar komið hafi faglegt álit sem stutt hafi þá skoðun kæranda að líkamstjón hans mætti rekja til mistaka í aðgerð árið 2007. Kærandi hafi undirgengist a.m.k. 14 aðgerðir á fæti og stefni hann á nýja aðgerð í Bandaríkjunum á þessu ári. Það hafi því verið ótímabært að meta varanlegt líkamstjón hans á þeim tíma sem hann hafi notið lögmannsaðstoðar kærðu.

IV.

Í kjölfar athugasemda kærðu var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum.

Kærandi byggir á því að það hafi ekki verið mögulegt fyrir hann að kvarta yfir gjaldtöku til úrskurðarnefndarinnar á meðan kærðu hafi verið lögmenn hans án þess að setja samstarfið í uppnám. Þess vegna sé ekki um fyrningu að ræða. Vissulega hafi hann getað kallað eftir tímaskrá en það fyrirgeri þó ekki rétti hans til endurgreiðslukröfu. Það geti ekki verið sanngjarnt gagnvart skjólstæðingum lögmanna að þeir þurfi að fórna málshagsmunum sínum til að geta kvartað til úrskurðarnefndarinnar innan fyrningarfrests.

Kærandi bendir á að í tímaskrám sé aðeins ein færsla á hverjum reikningi þar sem koma fram að samskiptin hafi verið við hann. Að öðru leyti sé að mestu óljóst hvaða samskipti um hafi verið að ræða. Það sé fjarstæða að ætla að tölvupóstsamskipti við kæranda hafi kostað hann svo mikið og tímaskrá sýni ekki fram á það.

Kærandi bendir á að fram hafi farið samskipti við utanaðkomandi aðila til að leita að ástæðum fyrir vanhæfi Magnúsar Páls Alberssonar, þó bréf hafi verið til. Það komi fram í bréfi kærðu að þetta bréf hefði „bersýnilega getað sparað okkur vinnu". Í fyrsta lagi sé óljóst af hverju þær hafi ekki fundið sömu vanhæfisástæður og komið hafi fram í bréfinu og hafi komist að rangri niðurstöðu um hvort Magnús væri tengdur við VÍS. Í öðru lagi þá hafi þær átt að óska eftir gögnum frá landlækni til að tryggja að öll gögn lægju fyrir og telur kærandi ámælisvert að gera það ekki, sérstaklega í ljósi þeirrar vinnu sem farið hafi í stjórnsýslukæruna til velferðarráðuneytisins og í ljósi mikilvægis kærunnar og hagsmuna kæranda.

Kærandi vísar til þess að bréfin séu mjög ítarleg og vandað hafi verið til verka. Fellst hann á að kærðu eigi að fá greitt fyrir vinnu sína í samræmi við siðareglur lögmanna. Það sé mat sóknaraðila að þóknun þeirra gæti talist sanngjörn ef ekki væru fyrir eftirfarandi ástæður: Kostnaður hafi verið mun hærri en gefið hafi verið í skyn; Tímafjöldi hafi farið úr böndunum; Vinna hefði sparast hefðu kærðu beðið landlækni um afrit af gögnum eða fundið þær sannanir fyrir vanhæfi sem komið hafi fram.

Kærandi vísar til þess að þegar umsögn Jóns Karlssonar hafi borist þá hafi legið fyrir nægileg sönnunargögn fyrir bótaskyldu vegna sjúklingatryggingar, eins og viðurkenning VÍS sýni. Kærandi telur það ámælisvert að lögmenn hans skuli ekki hafa sýnt frumkvæði í því að fá bótaskylduna viðurkennda, og hefði það frumkvæði átt að koma skömmu eftir 29. júlí 2013 þegar kærða S hafi svarað tölvupósti með afriti af umsögninni. Það sé hlutverk lögmanna að sjá um bótakröfur og tryggja hagsmuni kæranda og að málshraði sé hæfilegur.

Kærandi byggir á því að í tölvupósti þann 18. ágúst 2013 hafi hann lýst vilja sínum til að vinna að því að fá bætur vegna sjúklingatryggingar. Kærðu virðist túlka þetta sem yfirlýsingu af hálfu kæranda um að hann ætlaði sjálfur að fara að vinna í bótakröfunni. Sú túlkun sé fjarstæðukennd, enda hafi það verið hlutverk þeirra að sjá um slíka vinnu þar sem það komi skýrt fram í umboði til þeirra. Það sé heldur ekki að sjá af svari kærðu S að hennar túlkun hafi verið önnur.

Kærandi bendir á að samkvæmt upplýsingum frá VÍS sé hefðbundið að tjónþoli njóti aðstoðar lögmanns í svona málum. Að lögmaður hans gefi sér það að hann ætli í gegnum þetta ferli án aðstoðar lögmanns síns, án þess að ráða honum frá því, sé mjög undarlegt og ámælisvert. Undirliggjandi ástæða virðist vera sú að kærða S sé að reyna að firra sig ábyrgð á hugsanlegri fyrningu og varpa ábyrgðinni á kæranda.

Kærandi kveður fullyrðingu kærðu um að málshöfðun hafi verið ótímabær, þar sem kærandi hafi enn verið að undirgangast meðferðir sem miðað hafi að því að bæta varanlegt ástand hans einfaldlega vera ranga. Vísar kærandi máli sínu til stuðnings til tölvupósts frá E hrl., dags. 31. desember 2013. Kveðst kæranda hafi þá fyrst orðið ljóst að hann gæti gengist undir örorkumat og haldið áfram meðferð svo hægt væri að gera upp bótakröfurnar. Hafi hann ekki vitað fyrr en þá að örorkumat væri forsenda þess að fá greiddan beinan kostnað. Þetta hafi hann talið mjög fýsilegan kost sem kærðu hafi láðst að upplýsa hann um, enda hafi þær haldið fram hinu gagnstæða. Kveðst kærandi síðast hafa gengist undir aðgerð í mars 2013 og hafi því getað gengist undir örorkumat sl. haust enda hafi engra framfara verið að vænta svo löngu eftir aðgerð.

Kærandi bendir á að næsta aðgerð sem hann muni gangast undir sé mun stærri en þær sem hann hafi gengist undir hingað til. Samkvæmt kostnaðarmati frá Penn Medicine í Bandaríkjunum muni aðgerðin kosta 108.772 dollara eða sem nemi yfir 12 milljónum króna. Kveðst kærandi ekki hafa tök á að greiða fyrir aðgerðina fyrr en hann fái greiddar bætur vegna sjúklingatryggingar. Hafi kærandi fundið nýjan lögmann nýlega sem muni kalla eftir örorkumati og þurfi að kynna sér málið frá grunni. Tafir á bótamálinu gagnvart tryggingarfélögunum hlaupi því á mörgum mánuðum. Tjón á máli hans sé nokkurt og tafir á meðferð vegna þessa hafi haft í för með sér andlegt tjón.

V.

Kærðu var gefinn kostur á að koma á framfæri lokaathugasemdum sínum við athugasemdir kæranda.

Kærðu ítreka að kærandi hafi aldrei gert athugasemd við reikninga né vinnu þeirra á meðan á störfum þeirra hafi staðið. Að sjálfsögðu hefðu slíkar athugasemdir ekki leitt til þess að kærandi hefði með þeim fórnað málshagsmunum sínum eða sett samstarfið í uppnám. Vísa kærðu til 15. gr. siðareglna lögmanna máli sínu til stuðnings.

Kærðu harma að kærandi telji að vinna þeirra í málinu hafi verið umfram það sem nauðsynlegt hafi verið. Mat þeirra hafi hins vegar verið og sé enn, að rétt hafi verið að leggja áherslu á að fá hrundið fyrri niðurstöðu landlæknis og til þeirrar vinnu hafi þurft að vanda enda um verulega hagsmuni að ræða í málinu og auk þess hafi umrætt álit landlæknis skipt umtalsverðu máli varðandi framhaldið. Síðari þróun málsins, þ.m.t. viðurkenning tryggingarfélagsins á bótaskyldu byggi einmitt á gögnum sem komið hafi fram í kjölfar þess að fyrri neikvæð álit landlæknis hafi verið felld úr gildi. Kærðu kveðast því hafa þá trú að störf þeirra fyrir kæranda hafi nýst honum, m.a. í samskiptum við tryggingarfélög.

Kærðu benda á að viðurkenning VÍS á bótaskyldu sé jákvæð þróun í máli kæranda og standi vonir þeirra að sjálfsögðu til þess að tjón hans fáist bætt að fullu. Viðurkenning VÍS virðist auk þess staðfesta að einungis eftir að álit Jóns Karlssonar hafi verið komið fram hafi verið grundvöllur fyrir því að fá staðfesta bótaskyldu.

Kærðu harma að kærandi sé ósáttur við gang málsins á meðan þær hafi unnið að hagsmunagæslu fyrir hans hönd. Þær telja þó að ekki sé unnt að fallast á að málið hafi ekki verið unnið með hæfilegum hraða í skilningi siðareglna lögmanna. Þá telja kærðu að endurgjald fyrir vinnu þeirra hafi verið hæfilegt með tilliti til m.a. þess tíma sem varið hafi verið til verkefnisins, vandasemi verksins og hagsmuna í húfi en reyndar komi sá þáttur málsins ekki til skoðunar úrskurðarnefndarinnar.

Kærðu benda á að langan tíma hafi tekið að koma máli kæranda í núverandi farveg og sé að sjálfsögðu eðlilegt að kærandi sé ósáttur við þá staðreynd. Vegi þungt í meðferð málsins að landlæknir hafi tvívegis endurupptekið mál kæranda og hafi verið með málið til meðferðar frá árinu 2009. Kærðu telja hins vegar að tafir á málsmeðferðinni verði ekki raktar til starfa þeirra og ítreka þær að ekki verði séð að hagsmunir kæranda hafi verið skertir á nokkurn hátt á meðan mál hans hafi verið til meðferðar hjá þeim heldur þvert á móti styrkst.

Niðurstaða.

Í máli þessu þarf í fyrsta lagi að taka afstöðu til þess hvort kærði hafi gerst brotlegur við lög eða siðareglur lögmanna þannig að rétt þyki að beita agaviðurlögum og í öðru lagi að fjalla um fjárhagslegt uppgjör aðila vegna lögmannsstarfa kærða.

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmann ber lögmanni að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku. Í II. kafla siðareglnanna er fjallað um skyldur lögmanna gagnvart skjólstæðingum sínum. Þar segir m.a. í 8. gr. að að í  samræmi við meginreglu 1. gr. skuli lögmaður leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna og í 12. gr. að lögmanni, sem tekur að sér verkefni, beri að reka það áfram með hæfilegum hraða. Skal hann tilkynna skjólstæðingi sínum ef verkið dregst eða ætla má að það dragist.

Aðfinnslur kæranda við störf kærðu eru af ýmsum toga. Að því marki sem þær varða hugsanleg brot gegn siðareglum lögmanna sem leitt gætu til agaviðurlaga, má samandregið lýsa þeim svo að þær lúti að því að kærðu hafi ekki sinnt þeim þætti málsins sem laut að innheimtu bóta úr tryggingum þeirra lækna sem hefðu valdið honum tjóni. Bendir kærandi í því sambandi á að hvorki hafi verið unnið að því að fá bótaskylduna viðurkennda né að því að afla örorkumats til að sanna tjón kæranda. Telur kærandi gögn málsins bera með sér að þetta hafi, a.m.k. að hluta, stafað af vankunnáttu kærðu, sem hafi bæði talið að bótaréttur hans væri hjá Sjúkratryggingum Íslands og að meðferð málsins hjá Landlækni og ráðuneyti ryfi fyrningu bótakröfunnar auk þess sem þær hafi látið uppi ranghugmyndir um fyrningarfrest. Þá telur kærandi að kærðu hafa verið í villu um hvenær unnt væri að framkvæma örorkumat.

Að framan eru rakin tölvupóstsamskipti aðila vegna samskipta við tryggingafélögin. Enda þótt því verði ekki andmælt að einhver misskilningur hafi verið á milli aðila um hlutverkaskipti, eftir að kærandi sendi kærðu póst um að hann „myndi gjarnan vilja fara að vinna að því að fá bætur vegna sjúklingatryggingarinnar" þá geta kærðu ekki vikið sér undan ábyrgð á þeim misskilningi. Afdráttarlaust umboð þeirra til að reka mál kæranda gagnvart tryggingafélögum, hlaut að leggja athafnaskyldu á kærðu, til þess að huga að því að fá bótaskyldu viðurkennda og að afla mats um umfang tjónsins, alveg sérstaklega eftir að ofangreind orðsending barst þeim. Samskipti þeirra ári áður þar sem kærðu skrifuðu kæranda m.a. „Með þínu leyfi myndi ég vilja skoða tryggingamálið næst" renna enn frekari stoðum undir ábyrgð kærðu að þessu leyti. Teldu kærðu alls ótímabært að meta tjónið, virðist það einnig hafa verið sérstakt að ætla kæranda að efna til samskipta við tryggingafélögin sem um ræddi.

Það getur verið vandasamt matsatriði í slysabótamálum hvenær rétt sé að framkvæma mat og fara fram á uppgjör tjóns. Meginreglan er að það sé ekki tímabært fyrr en stöðugleikapunkti er náð, þ.e. að ekki sé frekari bata að vænta. Kærandi hefur lagt fyrir nefndina tölvupóst E frá desember 2013 þar sem hann veltir upp þeim möguleika að afla mats þá þegar, en ekki er ljóst á hvaða forsendum hann byggir ráðgjöf sína. Nefndin telur ekki unnt á þessum forsendum að reisa niðurstöðu máls þessa á því að kærðu hafi dregið úr hömlu að láta kæranda undirgangast mat eða að þær hafi vanrækt að afla mats.

Nefndinni virðist kærðu hafa gert rétt í því að leggja höfuðáherslu á að hnekkja því mati landlæknisembættisins að vanræksla eða mistök hefðu valdið kæranda tjóni. Eftir að álit Jóns Karlssonar bæklunarlæknis um þetta atriði lá fyrir í júlílok 2013, virðast viðbrögð kærðu hins vegar ekki hafa verið svo hnitmiðuð sem gera mátti kröfu um. Hafi kærðu talið að bersýnilega þyrfti að bíða með öll möt og allar bótakröfur þar til kærandi hefði undirgengist síðustu aðgerðina sem hann hugði á í Bandaríkjunum, hefði a.m.k. þurft að leiðbeina kæranda um það í ljósi þeirra skilaboða sem hann sendi kærðu eftir þetta tímamark.

Ekki er fram komið að kærendur hafi valdið kærða réttarspjöllum með því athafnaleysi sem að ofan er lýst. Þá verður að líta til þess að kærandi virðist í samskiptum sínum við kærðu ekki hafa verið sérlega skýr um hvaða hlutverk hann ætlaði þeim annars vegar og sjálfum sér hins vegar við rekstur málsins. Þykir í því ljósi nægilegt að gera aðfinnslu við að ekki hafi verið gripið til neinna aðgerða í framhaldi af því að umrædd álitsgerð barst.

II.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Í 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanni kemur fram að lögmanni ber að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknuð.

Samkvæmt 28. gr. laga um þjónustukaup, nr. 42/2000 skal neytandi greiða það verð sem telja má sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan er mikil og hvers eðlis hún er, hafi ekki verið samið um verð fyrir keypta þjónustu.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga. Nefndin vísar frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri.

Hér ræðir um gjaldtöku vegna eins slysabótamáls, sem kærðu unnu að í þágu kæranda í einni samfellu, þótt hlé hafi komið í vinnuna þegar beðið var gagna og niðurstaðna frá yfirvöldum. Þykir verða  að fallast á þann skýringarkost með kæranda, að ársfresturinn samkvæmt 26. gr. lögmannalaga hafi byrjað að líða þegar kærandi sagði upp samningssambandi sínu við kærðu. Verður því hafnað að vísa kröfu kæranda vegna áskilins endurgjalds kærðu frá nefndinni á þeim grunni að hún sé of seint fram komin.

Kærandi hefur byggt málatilbúnað sinn fyrir nefndinni á því að hann hafi með umboði sínu falið kærðu alla umsjón máls síns. Í umboðinu kemur fram að hann hafi kynnt sér gjaldskrá lögmannsstofunnar, en augljóst er að það var mjög erfitt að meta hve mikil vinna myndi fara í að halda fram rétti kæranda. Er ekki unnt að miða úrlausn málsins við að kærðu hafi eingöngu tekið að sér að senda ráðuneyti eitt viðbótarbréf vegna erindis kæranda heldur þarf að meta áskilda þóknun þeirra í heild sinni.

Fyrir nefndina hafa verið lögð gögn sem sýna að kærandi og kærðu áttu í umfangsmiklum samskiptum vegna málsins. Kærðu lögðu sem fyrr greinir réttilega kapp á að hnekkja óhagstæðu áliti Landlæknisembættisins. Enda þótt kærandi telji sig hafa sýnt fram á að unnt hefði verið að sýna fram á vanhæfi þess sérfræðings sem grundvallaði niðurstöðu landlæknis með skýrari hætti og minni vinnu, verður að telja að áskilin þóknun kærðu vegna allra starfa í þágu kæranda sem stóðu í rétt tvö almanaksár teljist ekki úr hófi, m.a. í ljósi þeirra hagsmuna sem um var að tefla.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Sú háttsemi kærðu, R hrl. og S hdl. að hafast ekki að, að fengnu sérfræðiáliti um mál kærða, A í júlílok 2013 og fram í desember sama ár, er aðfinnsluverð.

Áskilið endurgjald kærðu, vegna starfa að slysabótamáli kæranda, samtals kr. 343.125 auk virðisaukaskatts, telst hæfilegt í skilningi 1. mgr. 24. lögmannalaga nr. 77/1998.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Valborg Þ. Snævarr, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson