Mál 15 2014

 

 

Ár 2014,föstudaginn 21. nóvember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 15/2014:

A

gegn

R hrl.

 og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 12. maí 2014 erindi kæranda, A, þar sem kvartað var yfir störfum kærðu, R hrl., og áskilinni þóknun hennar.

Óskað var eftir greinargerð frá kærðu um erindið þann 16. maí 2014. Greinargerð kærðu barst þann 4. júní 2014. Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerðina þann 11. janúar 2014. Athugasemdir kæranda bárust þann 4. júlí 2014. Kærðu var gefinn kostur á að koma á framfæri lokaathugasemdum sínum þann 11. júlí 2014. Athugasemdir bárust ekki frá kærðu.

 

Málsatvik og málsástæður.

I.

Í fyrri hluta marsmánaðar 2013 leitaði kærandi til kærðu með launakröfumál sitt vegna launa sem hún taldi sig eiga inni. Gögn málsins bera með sér að þá þegar hafi verið búið að birta stefnu í einkamáli vegna kröfunnar. Er óumdeilt að kærandi leitaði til kærðu vegna óánægju með störf fyrri lögmanns.

Í málinu liggur fyrir skriflegt umboð (verkbeiðni) vegna starfsins, þar sem vísað er til gjaldskrár lögmannsstofu kærðu um gjaldtöku. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi sent það undirritað til lögmannsstofu kærðu þann 12. mars 2014 í framhaldi af fundi með fulltrúa kærðu. Í umboðinu er kærðu falið að gæta hagsmuna kæranda vegna innheimtu skuldar vegna vangreiddra launa.

Kærandi kveður þær kærðu hafa rætt um möguleika á gjafsókn og hafi hún talið kæranda eiga góðan möguleika á því að fá gjafsókn miðað við þær launatölur sínar sem hún kærandi nefndi.

Kærandi greiddi kr. 100.000 til lögmannsstofu kæranda. Kærandi og fulltrúi hennar unnu svo að málinu. Var m.a. sótt um gjafsókn og höfð voru samskipti við lögmann gagnaðila vegna málsins, bæði utan réttar og við fyrirtökur þess.

Í lok júní 2013 barst neikvæð umsögn gjafsóknarnefndar við umsókn kærðu fyrir hönd kæranda um gjafsókn og í september 2013 barst neikvætt svar innanríkisráðuneytisins við gjafsóknarbeiðninni.

Óumdeilt er að kærandi ákvað að kvarta yfir þessari afgreiðslu ráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis. Kærða fékk aðalmeðferð dómsmálsins frestað, en það virðist þá þegar hafa verið afstaða hennar að ekki yrði lagt út í vinnu við aðalmeðferð og undirbúning hennar nema vinna hennar fengist greidd.

Í byrjun nóvember afhenti kærða kæranda gögn málsins. Kveður kærða það hafa orðið að samkomulagi til að kærandi gæti sjálf gætt hagsmuna sinna í dómsmálinu. Henni hafi hins vegar verið gert ljóst að tryggingu að fjárhæð kr. 100.000 yrði haldið eftir, auk þess sem þess mætti vænta að frekari reikningar yrðu gefnir út vegna vinnu að málinu.

Í marsbyrjun gaf kærða svo út tvo reikninga til kæranda í marsbyrjun 2013. Annar var að heildarfjárhæð kr. 100.000 sem var þegar greiddur við útgáfu og hinn að fjárhæð kr. 100.000 auk 25.500 kr. vsk. sem var ógreiddur við útgáfu og mun enn vera ógreiddur. Kærandi gerði þegar í mars athugasemdir við áskilda þóknun kærðu. Kvörtun hennar barst úrskurðarnefndinni sem fyrr greinir þann 12. maí 2014.

Fyrir liggur tímaskýrsla þar sem færðar hafa verið 18,25 vinnustundir á málið frá mars til nóvember 2013.

 

II.

Kærandi krefst í fyrsta lagi úrlausnar nefndarinnar um áskilda þóknun kærðu, sem hún telur allt of háa. Kemur fram í kvörtun hennar að hún geti fallist á gjaldtöku að fjárhæð samtals kr. 125.500.

Þá krefst kærandi þess að kærða verði áminnt vegna framgöngu sinnar og verður sú krafa skilin svo að hún sé reist á öllum aðfinnslum kæranda, bæði um óhóflega reikningagerð í garð kæranda og annað.

Kærandi telur þá fjárhæð sem kærða áskilur sér langt umfram væntingar og alls ekki í samræmi við umfang málsins eða þá hagsmuni sem um var að tefla. Hún mótmælir því að sér hafi verið kynnt gjaldtaka kærðu.

Kærandi gerir athugasemdir við að kærða hafi ákveðið að neita að flytja málið þegar neikvæð niðurstaða ráðuneytisins barst vegna gjafsóknarbeiðni. Hafi hún krafið kæranda um greiðslu á 340.000 krónum en hafnað því að flytja málið ella. Kærandi telur þessa áskildu þóknun úr öllu hófi, enda nemi hún um helmingi af fjárhæð umræddrar launakröfu. Þá hafi kærða lýst því að hún hefði ekki mikla trú á málinu. Með framgöngu sinni hafi kærða gert kæranda minna en ekkert gagn og vanrækt þá skyldu sína samkvæmt 18. gr. lögmannalaga að rækja af alúð þau störf sem henni var trúað fyrir. Bendir kærandi í þessu samhengi á að kærða hafi aldrei kynnt henni að kærandi þyrfti að greiða sérstaklega fyrir marga tölvupósta og símtöl sem að endingu komu að engum notum. Þá beri sú gjaldskrá, sem kærða byggir á, ekki með sér heimild til slíkrar gjaldtöku.

Kærandi gerir jafnframt athugasemd við að síðasta tölvupósti sínum til kærðu, með tillögu að uppgjöri og málalokum þeirra á milli, með tilboði um sanngjarnan aflsátt af reikningnum, hafi ekki verið svarað.

 

III.

Kærða mótmælir öllum kröfum kæranda. Hún kveðst hafa kynnt kæranda alla skilmála varðandi gjaldtöku í upphafi, svo sem undirritað umboð hennar beri með sér. Hafi henni m.a. verið kynnt að ef gjafsóknarleyfi fengist ekki, yrðu henni gerðir reikningar vegna vinnu lögmannsstofunnar að fullu. Þegar synjun ráðuneytisins á gjafsóknarbeiðni lá fyrir í nóvember 2013 hafi kæranda þegar verið gert ljóst að það yrði að greiða fyrir áfallna vinnu til að unnt væri að halda áfram með málið og hafi hún því fengið nægan fyrirvara til að bregðast við.

Kærða telur sig og fulltrúa sinn hafa sinnt  kæranda og máli hennar af alúð og virðingu. Hafi stefndi fallið frá frávísunarkröfu sinni auk þess sem gagna hafi verið aflað til stuðnings kröfu hennar. Hafi hún verið upplýst jafnóðum um framgang málsins.

Kærandi mótmælir því sérstaklega að áskilið endurgjald hennar sé ósanngjarnt og verður sá skilningur lagður í þessi mótmæli að þess sé krafist að viðurkennt sé að áskilið endurgjald teljist sanngjarnt í skilningi laga um lögmenn.

 

Niðurstaða.

I.

Í máli þessu þarf í fyrsta lagi að taka afstöðu til þess hvort kærði hafi gerst brotleg við lög eða siðareglur lögmanna og í öðru lagi að fjalla um fjárhagslegt uppgjör aðila vegna lögmannsstarfa kærðu.

 

II.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í 18. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn segir að lögmönnum beri í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna.

Í 1. gr.  siðareglna lögmanna kemur fram að lögmanni ber að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Í 8. gr. segir að í samræmi við þessa meginreglu skuli lögmaður leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna.

Í 12. gr. siðareglnanna kemur fram að lögmanni er heimilt á öllum stigum að segja sig frá verki. Aldrei má þó lögmaður segja sig frá verki, án þess að skjólstæðingur fái svigrúm til að afstýra réttarspjöllum og ráða sér annan lögmann.

Bæði kærandi og kærða virðast í upphafi hafa verið bjartsýnar á að kærandi fengi gjafsókn vegna málareksturs síns. Enda þótt ekkert verði sannað af eða á um það sem þeim fór annars á milli varðandi gjaldtökuna verður ekki litið svo á að kærandi hafi vegna þessa getað reiknað með því að kærða myndi láta henni í té vinnu, sem hún þyrfti ekki að greiða fyrir ef gjafsókn fengist ekki. Verður heldur ekki litið fram hjá því að kærandi skrifaði undir umboð og verkbeiðni þar sem skýrt kemur fram að um gjaldtökuna fari samkvæmt gjaldskrá á bakhlið skjalsins og að reikningar verði gefnir út reglulega þótt verki sé ekki lokið.

Í samræmi við þetta og með hliðsjón af ofangreindri 12. gr. siðareglna lögmanna verður að leggja til grundvallar að kærða hafi með réttu mátt ætlast til þess að kærandi greiddi henni fyrir vinnu sína, ef hún ætlaði að fá hana til að flytja mál sitt. Þá er til þess að líta að kærandi fékk allgott svigrúm til að bregðast við, m.a. vegna þess að kærða fékk aðalmeðferð málsins frestað.

Að öðru leyti fæst ekki séð að unnt sé að gera athugasemdir við störf kærðu. Ekkert styður þær ásakanir kæranda að leiðbeiningar til hennar vegna gjaldtöku hafi verið ófullnægjandi og fram lögð gögn benda til þess að lögð hafi verið rækt við samband við kæranda undir rekstri málsins. Athugasemdir kæranda við að síðasta tölvupósti hennar var ekki svarað, verður að skoða í því ljósi að í fyrsta lagi höfðu bæði kærða og kærandi þá lýst því að ágreiningur um gjaldtökuna yrði lagður í úrskurð og í öðru lagi hafði kærandi í þeim samskiptum haft uppi gífuryrði um kærðu og störf hennar.

Að öllu þessu athuguðu verður að hafna því að gera aðfinnslur við störf kærðu fyrir kæranda, eða beita hana viðurlögum á grundvelli 27. gr. laga um lögmenn.

 

III.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 28. gr. laga um þjónustukaup, nr. 42/2000 skal neytandi greiða það verð sem telja má sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan er mikil og hvers eðlis hún er, hafi ekki verið samið um verð fyrir keypta þjónustu.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga.

Svo virðist sem vinna kærðu hafi að lokum ekki nýst. Við matið á því hvað eðlilegt var að verja mikilli vinnu til málsins verður hins vegar að meta hvað mátti telja eðlilegt miðað við þann framgang sem málinu var ætlaður. Þegar litið er yfir tímaskýrslu kærðu fæst ekki séð að um sé að ræða óeðlilegar tímaskriftir. Samkvæmt þeirri gjaldskrá sem kærandi skuldbatt sig til að greiða eftir mátti hún gera ráð fyrir að kostnaður vegna þessa næmi a.m.k. kr. 319.375. auk vsk. Áskilið endurgjald kærðu nemur hins vegar aðeins kr. 179.681 auk vsk. Með hliðsjón af þessu fæst ekki séð að athugasemdir kæranda við tímaskráningar vegna símtala geti haggað þeirri niðurstöðu að áskilið endurgjald kærðu feli í sér sanngjarnt endurgjald.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærða, R hrl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Áskilið endurgjald kærðu vegna starfa hennar í þágu kæranda með reikningum nr. 1152 og 1219 að fjárhæð samtals kr. 179.681 auk vsk, telst hæfilegt í skilningi 1. mgr. 24. lögmannalaga nr. 77/1998.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Valborg Þ. Snævarr, hrl.

 

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson