Mál 19 2014

Ár 2014,föstudaginn 12. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 19/2014:

A

gegn

R hrl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 24. júlí 2014 erindi kæranda, A, þar sem kvartað var yfir störfum R við innheimtu slysabóta. Þann 29. júlí 2014 var rætt við kæranda vegna erindisins og henni leiðbeint varðandi kröfugerð. Um leið var kröfugerð sóknaraðila í málinu breytt. Óskað var eftir greinargerð frá kærða um erindið þann 29. júlí 2014. Greinargerð kærða barst 2. september 2014. Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð kærða, en kaus að gera það ekki.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Málsatvik eru þau að þann 6. mars 2013 varð E fyrir umferðarslysi þegar ekið var á bifreið hans. Taldi hann sig finna fyrir verulegum afleiðingum slyssins, m.a. viðvarandi verkjum, áhrifum á minni o.fl. Leitaði hann til kærða og fól honum hagsmunagæslu fyrir sína hönd. Er umboð kærða dagsett 14. mars 2013. Að sögn kærða fór málið í hefðbundinn farveg gagnaöflunar og tilkynninga til tryggingafélags og sjúkratrygginga. Mun ekki hafa verið ágreiningur um bótaskyldu ábyrgðartryggjanda tjónvaldsins.

Kærði greinir frá því í greinargerð sinni að E hafi haft samband við sig þann 3. júlí og kvartað undan viðvarandi einkennum eftir slysið. Kveðst kærði hafa sent beiðni um skoðun til bæklunarlæknis og hitti læknirinn E þann 18. júlí 2013. Þá hafi læknirinn fengið tíma í sneiðmyndatöku þann 10. október 2013.

Þann 29. júlí 2013 fékk E heilablóðfall og er óumdeilt í máli þessu að það hafi verið ótengt umræddu slysi. Kveðst kærði hafa fengið upplýsingar um þetta þann 12. september 2013.

E lést þann 11. júní 2014.

II.

Upphafleg krafa kæranda á hendur kærða var að hún fengi umræddar slysabætur greiddar. Endanleg krafa kæranda fyrir nefndinni er að kærði verði beittur viðurlögum á grundvelli 2. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Kærða leggur á það áherslu að nefndin taki afstöðu til þess hvort innheimta slysabótanna hafi dregist óeðlilega hjá kærða.

Kærandi kveður aðstandendur E heitins hafa upplýst lögmannsstofu kærða um ástand hans eftir heilablóðfallið. Hafi stofan ætlað að kanna málið, en ekkert orðið úr því. Þau hafi lagt áherslu á að málið yrði klárað sem fyrst. Niðurstaðan hafi orðið sú að E hafi skilið við áður en kærði innheimti bæturnar og nú liggi fyrir að eftirlifandi maki hans eigi ekki rétt til þeirra.

Kærandi telur að kærði hefði getað komið E í örorkumat á meðan hann lifði. Hann hafi orðið fyrir bótaskyldu tjóni sem tjónvaldur beri ábyrgð á og telur kærandi að umræddar bætur hefðu með réttu átt að koma í sinn hlut.

III.

Kærði gerir athugasemd við aðild kæranda að málinu, en hann hafi aldrei verið í neinu samningssambandi við hana. Þá telur hann kröfu hennar óljósa, enda sé ekki bent á neinar lagagreinar eða siðareglur sem kærði eigi að hafa brotið og í upphaflegu erindi hennar séu ekki gerðar skýrar kröfur. Sé því erfitt að átta sig á erindinu.

Kærði hafnar alfarið öllum ásökunum um að málið hafi dregist óeðlilega hjá sér. Þegar E leitaði til hans þann 14. mars 2013 hafi verið skammt liðið frá slysinu og ótímabært að meta varanlegar afleiðingar þess. Þegar hann bar sig upp við kærða á ný í júlíbyrjun vegna verkja og fleiri afleiðinga hafi kærða verið komið til bæklunarlæknis sem hafi tekið á móti honum þann 18. júlí. Læknirinn hafi ákveðið að senda hann í sneiðmyndatöku 10. október 2013

Heilablóðfall E, sem kærði var upplýstur um þann 12. september hafi svo sett málið út af sporinu. Telur kærði að með því að E lamaðist öðru megin og gat með engu móti tjáð sig, hafi verið ómögulegt að klára málið með eðlilegum hætti. Hafi verið útilokað að koma við hefðbundnu örorkumati.

Niðurstaða.

I.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn getur sá sem telur lögmann hafa í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi, sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna, lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum.Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 12. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni, sem tekur að sér verkefni, að reka það áfram með hæfilegum hraða. Skal hann tilkynna skjólstæðingi sínum ef verkið dregst eða ætla má að það dragist.

II:

Með ofangreindu ákvæði 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er opnuð leið fyrir þá sem telja að lögmenn hafi gert á sinn hlut í störfum sínum til að koma á framfæri kvörtunum og fá leyst úr málum. Enda þótt í ákvæðinu ræði um þann sem telur „að lögmaður hafi í starfi sínu  gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða reglum skv. 2. mgr. 5. gr." verður ekki gerð sú krafa til erinda að í þeim séu rakin nákvæmlega þau ákvæði sem viðkomandi telur lögmann hafi brotið.  Í kvörtun kæranda kemur skýrlega fram að hún telur kærða hafa látið umrætt slysabótamál dragast hjá sér.

Kærandi var maki E þegar hann leitaði til kærða. Ekki er fram komið hvort hún situr í búi þeirra óskiptu. Í öllu falli er ljóst að það varðaði hennar hagsmuni, umfram annarra, að slysabæturnar fengust ekki greiddar. Verður talið að hún geti komið að kvörtun vegna þessa.

Í ljósi ofangreinds verður erindi kærða ekki vísað frá nefndinni.

III.

Ekki er annað komið fram en að kærði hafi brugðist rétt við þegar E heitinn leitaði upphaflega til hans vegna slyssins. Það var vissulega ótímabært að meta afleiðingar slyssins á þeim tímapunkti og kærði virðist einnig hafa gengið rétt fram með því að afla gagna og fá bótaskyldu vegna slyssins viðurkennda. Þá virðist ekki koma til greina að gera neinar athugasemdir við viðbrögð kærða þegar E heitinn leitaði til hans vegna afleiðinga slyssins sem hann taldi sig finna fyrir. Hann var mjög fljótlega eftir það undir hendi læknis sem taldi eðlilegt næsta skref að bíða niðurstaðna úr sneiðmyndatöku.

Eftir að E varð fyrir alvarlegu heilablóðfalli var kærða vandi á höndum við vinnslu málsins. Því er ómótmælt að áfallið hafi gert E alls ófæran um að tjá sig. Eftir því sem gögn málsins bera með sér fólust afleiðingar slyssins annars vegar í verkjum og hins vegar í minnistruflunum. Virðist nær útilokað að koma að nokkru mati á þessum þáttum án virkrar þátttöku tjónþola.

Áréttað skal að skaðabótalög nr. 50/1993 byggja á þeirri meginhugmynd að við mat á afleiðingum slysa er annars vegar horft til tímabundins líkamstjóns vegna upphaflegra afleiðinga slyss, en hins vegar til tjóns vegna varanlegra afleiðinga, en þá er átt við afleiðinga sem enn eru fyrir hendi eftir að heilsufar tjónþola er orðið stöðugt, sbr. 2., 3. og 4. gr. laganna. Mat á því hvenær heilsufarslegt ástand tjónþola geti talist stöðugt er læknisfræðilegt, sbr. grg. með núgildandi ákvæði 1. mgr. 2. gr. skaðabótalaga. Í framkvæmd er langalgengast að beðið sé með að kveða upp úr um varanlegar afleiðingar slysa þar til er liðið frá slysi. Þegar um er að ræða verki sem tjónþoli finnur fyrir eftir að hafa orðið fyrir höggi í umferðarslysi er líklegt að læknir myndi telja ótímabært að meta varanlegar afleiðingar slyss fyrr en að ári liðnu.  Í þessu ljósi fæst ekki séð að kærði hafi í raun átt þess nokkurn kost að koma E heitnum í örorkumat fyrr en ár var liðið frá slysinu. Þá virðist með öllu óraunhæft að það tryggingafélag sem um ræddi hefði verið tilbúið til að borga bætur vegna varanlegra afleiðinga af slysi, sem metið væri áður en ársfresturinn væri liðinn.

Kærði mat það svo að það væri ekki tímabært að óska örorkumats á E í júlíbyrjun þegar hann kvartaði undan verkjum og ekki heldur þegar hann frétti að E hefði fengið heilablóðfall. Í ljósi alls ofangreinds verða ekki gerðar athugasemdir við það mat.Verður að hafna því að gera aðfinnslur við störf kærða, eða beita hann viðurlögum á grundvelli 27. gr. laga um lögmenn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, R hrl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson hrl.

Valborg Þ. Snævarr hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson