Mál 5 2014

Ár 2014, fimmtudaginn 28. ágúst, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

 

Fyrir var tekið málið nr. 5/2014:

Barnaverndarnefnd A

gegn

R hdl.

 og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 10. mars 2014 erindi kæranda, barnaverndarnefndar A þar sem kvartað var yfir störfum kærðu, R hdl., vegna meints leka á trúnaðarupplýsingum barnaverndarmáls til fjölmiðla.

Óskað var eftir greinargerð frá kærðu um erindið þann 14. mars 2014. Greinargerð kærðu barst þann 2. maí 2014. Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerðina þann 16. maí 2014. Athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Málsatvik og málsástæður.

I.

Hvorki kærandi né kærða hafa gert grein fyrir atvikum máls með heildstæðum hætti en af framlögðum gögnum og málatilbúnaði þeirra má ráða að málið varðar meintan leka kærðu á trúnaðarupplýsingum barnaverndarmáls til fjölmiðla.

Kærða var lögmaður forsjáraðila sex ára barns sem komið hafði til Íslands frá eyjunni H í kjölfar jarðskjálftans sem reið þar yfir árið 2010. Komu þau hingað til lands á grundvelli fjölskyldusameiningar.

A barst tilkynningar á árinu 2013 þar sem lýst var áhyggjum af uppeldisaðstæðum barnsins, vanrækslu, skorti á eftirliti og meintu ofbeldi og/eða harðræði gagnvart því. Barnið dvaldist á fósturheimili á vegum A frá 25. september 2013. Með úrskurði héraðsdóms sem staðfestur var í Hæstarétti var barnið vistað utan heimilis í allt að sex mánuði frá 1. desember 2013.

Í kjölfar dóms Hæstaréttar í lok janúar 2014 var frétt flutt af málinu á Stöð 2 og í framhaldinu á vísir.is. Þá birtist grein um málið í DV þann 4. mars 2014. Í umræddum fréttaflutningi var vitnað í kærðu.

 

II.

Kærandi kvartar til úrskurðarnefndar lögmanna vegna meints brots kærðu á ákvæðum 6. og 17. gr. siðareglna lögmanna. Kærandi kveðst hafa haft til meðferðar mál vegna aðstæðna ungrar stúlku og hafi kærða í tvígang veitt fjölmiðlum trúnaðarupplýsingar úr gögnum kæranda sem lögmanninum hafa verið afhent. Virðist lögmaðurinn þannig einnig hafa brotið gegn ákvæði 22. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og 45. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 vegna trúnaðarbrotsins.

Kærandi vísar til þess að fyrra tilvikið varði það er lögmaðurinn hafi fjallað um niðurstöðu dóms Hæstaréttar er fallið hafi vegna forsjárráðstöfunar stúlkunnar. Hafi frétt verið flutt í fréttum Stöðvar 2 þann 26. janúar 2014 og fluttar fregnir í kjölfarið á visir.is. Hafi þá verið rætt við lögmanninn og hafi hún gefið þar upp upprunaland barnsins en slíkar upplýsingar sé ekki að finna í dómi Hæstaréttar. Um persónurekjanlegar upplýsingar hafi verið að ræða þar sem barnið komi frá H, hvar innfæddir séu hörundsdökkir, gefinn hafi verið upp aldur barnsins sem og að fósturforeldrar sé hvítir á hörund. Hafi það verið til tjóns fyrir barnið. Þá sé einnig gerð athugasemd við aðdróttanir lögmannsins um að fósturfjölskylda barnsins hafi tekið það í fóstur af fjárhagslegum hvötum.

Kærandi telur öllu alvarlegra brot það sem birst hafi á síðum DV þriðjudaginn 4. mars 2014 sem og á vef DV.is degi síðar. Þar megi sá viðtal við forsjáraðila og fjölskyldu hans sem og lögmann fjölskyldunnar. Sé í viðtalinu tekið fram að blaðamaður hafi fengið að sjá hluta barnaverndargagnanna sem eðli málsins samkvæmt innihaldi viðkvæmar persónuupplýsingar um stúlkuna. Sé slíkt skýrt brot gegn ofangreindu ákvæði barnaverndarlaga sem áskilji að þeir aðilar máls sem fái afhent slíkt gögn tryggi trúnað þeirra. Sé þetta jafnframt brot gegn ákvæði 22. gr. laga nr. 77/1998 og 6. og 17. gr. siðareglna lögmanna. Sé um að ræða afar viðkvæmar persónuupplýsingar um lítið barn og sé afhending slíkra gagna til óviðeigandi aðila gróft brot á friðhelgi einkalífs barnsins og megi ætla að það gangi jafnframt í berhögg við persónuverndarsjónarmið sem tryggð séu í ákvæði 71. gr. stjórnarskrárinnar, 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 61/1994 og lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

 

III.

Kærða hafnar alfarið að hafa brotið gegn lögum og reglum í starfi sínu við gæslu hagsmuna forsjáraðila í tilvitnuðu máli.

Kærða bendir á að forsjáraðili og fjölskylda hans hafi ítrekað haft samband við fjölmiðla á Íslandi og erlendis til að vekja athygli á málinu þrátt fyrir ítrekuð tilmæli kærðu um að gera slíkt ekki, einkum vegna barnsins sjálfs auk þess sem ekki væri rétt að flytja slík mál í fjölmiðlum. Fjölmiðlum hafi því verið kunnugt um málið og að um fólk frá H væri að ræða.

Kærða vísar til þess að í kjölfar birtingar dóms Hæstaréttar í málinu, ásamt úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur, þar sem mög alvarlegar ósannaðar ávirðingar og viðkvæmar persónuupplýsingar komnar frá lögmanni kæranda hafi verið birtar og reifaðar í smáatriðum, hafi verið haft samband við hana af fréttamanni Stöðvar 2. Hafi hún verið beðin um að koma í viðtal í fréttatíma Stöðvar 2 til að svara fyrir það sem á fjölskylduna hafi verið borið. Hafi hún neitað því og beðið um að ekki yrði fjallað um málið í fréttum Stöðvar 2, einkum af tilliti við barnið og önnur börn á heimilinu. Aldrei væri að vita hvenær þau heyrðu þann fréttaflutning.

Kærða kveðst hafa haft það fyrir fasta reglu að fara aldrei í viðtöl við fjölmiðla vegna barnaverndar- og forsjármála sem hún hafi komið að. Hafi hún alltaf ráðlagt umbjóðendum sínum að halda sig frá fjölmiðlum með mál sín.

Kærða kveður fréttamann Stöðvar 2 hafa verið uppfullan af því að um mansalsmál hafi verið að ræða og að fólkið hafi komið hingað á fölsuðum skilríkjum. Því hafi verið haldið fram af kæranda. Hafi kærða sagt það „algerlega úr lausu lofti gripið" og hafi það verið haft eftir henni þótt hún hafi neitað að koma í viðtal og segðist ekki viljað tjá sig um málið né láta hafa neitt eftir sér um málið.

Kærða vísar til þess varðandi blaðagrein í DV að forsjáraðili og fjölskylda hans hafi haft samband við blaðamann DV þvert gegn ráðum kærðu. Hafi blaðamaðurinn farið á heimili fjölskyldunnar en þar hafi kærða ekki verið stödd. Blaðamaðurinn hafi síðan komið ásamt fjölskyldu forsjáraðila á skrifstofu hennar og hafi viljað ræða um málið. Hann hafi engin málsgögn fengið afhent né gögn sem komið hafi frá kæranda. Honum hafi hins vegar verið sagt að [starfsmenn kæranda]hefðu látið kæranda vita um áhyggjur af „plássleysi" fjölskyldunnar og einnig sagt að stúlkunni hefði liðið vel í leikskóla sem hún hefði verið í. Einnig hafi komið fram að hún hefði byrjað í skóla í haust en þar hefðu verið erfiðleikar við að skrá hana í mat og að hún væri komin í annan skóla en það hafi fjölskyldunni þótt mjög miður því svo virtist sem stúlkunni líkaði ekki í þeim skóla. Engin gögn hafi verið afhent blaðamanni sem hafi verið hluti af málsgögnum eða komin frá kæranda.

Kærða bendir á varðandi áburð um mansal að hún hafi sjálf fengið staðfest með tölvubréfi frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að kæru kæranda á hendur forsjáraðila vegna meints mansals og komu forsjáraðila og fjölskyldu hans til landsins á fölsuðum skilríkjum hefði verið vísað frá og málið fellt niður hjá lögreglu og ekki tekið upp aftur. Í þessu tölvubréfi hafi nafn stúlkunnar ekki komið fram, en nafn forsjáraðila hafi komið þar fram og málsnúmer, enda hafi blaðamanni verið vel kunnugt um nafn forsjáraðila. Þetta tölvubréf hafi blaðamaður fengið að sjá og sé það bréf alls ekki komið frá kæranda, heldur hafi kærða aflað þess. Kveðst hún telja sig hafa haft fullan rétt á að sýna það bréf að kröfu umbjóðanda hennar, vegna þess ranga áburðar sem enn hafi verið fjallað um, þ.e. mansal og komu til landsins á fölsuðum skilríkjum. Kærða kveðst einnig hafa fengið tölvubréf frá fyrrverandi tengdasyni forsjáraðila sem tilkynnt hafði kæranda að forsjáraðili hefði lamið börnin á heimilinu með belti. Í tölvubréfinu hafi hann staðfest að hann hafi aldrei orðið vitni að slíku sjálfur en honum hafi verið sagt þetta. Það bréf hafi blaðamaður fengið að sjá en það hafi ekki verið meðal málsgagna og fengið kærðu í kjölfar fréttaflutnings. Bréf þetta hafi alls ekki verið komið frá kæranda.

Kærða mótmælir því alfarið að með framangreindum hætti hafi hún brotið gegn lögum og reglum. Telur hún að með vísan til 2. mgr. 5. gr. siðareglna lögmanna að hún hafi haft fullan rétt til að koma á framfæri sjónarmiðum umbjóðanda síns og fjölskyldu hans með þeim hætti sem hún hafi gert.

Kærða tekur fram að margt sé ranglega eftir henni haft í tilvitnuðum fréttum þótt það sé sett fram innan gæsalappa.

Kærða bendir á að ítarlega hafi verið fjallað um málið í úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur og hafi hún talið að þar væri farið langt út fyrir eðlilega umfjöllun. Hafi hún óskað eftir því að úrskurðurinn í heild sinni yrði tekinn út af vef Hæstaréttar, en því hafi verið hafnað. Fallist hafi verið á að taka þar nokkur atriði út, en margt hafi staðið eftir þar sem illa hafi verið vegið að forsjáraðila og fjölskyldu hans af lögmanni kæranda. Kærða vonar að þetta tilvik verði til þess að Lögmannafélagið berjist fyrir því að hætt verði slíkum birtingum dóma og úrskurða.

 

Niðurstaða.

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 28. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum, sbr. 1. mgr. 14. gr. lögmannalaga.

Samkvæmt 22. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn ber lögmaður þagnarskyldu um hvaðeina sem honum er trúað fyrir í starfi sínu.

Samkvæmt 6. gr. siðareglna lögmanna skal upplýsingum sem lögmaður fær í starfi, haldið frá óviðkomandi þótt lögboðin þagnarskylda banni ekki.

Í 17. gr. siðareglna lögmanna kemur fram að lögmaður skal aldrei án endanlegs dómsúrskurðar, sem beint er að honum sjálfum, eða skýlauss lagaboðs, láta óviðkomandi aðilum í té gögn og upplýsingar, sem lögmaður hefur fengið í starfi um skjólstæðing sinn eða fyrrverandi skjólstæðing.

Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. siðareglna lögmanna er lögmanni jafnan rétt að koma á framfæri mótmælum og leiðréttingum við röngum og villandi fréttum af málum.

Í 45. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 kemur fram að barnaverndarnefnd skuli láta aðilum máls í té öll gögn sem málið varða og koma til álita við úrlausn þess, enda tryggi þeir trúnað. Samkvæmt 8. mgr. 4. gr. laganna er það ein af meginreglum barnaverndarstarfs að allir þeir sem vinna að barnavernd skulu gæta fyllsta trúnaðar um hagi barna, foreldra og annarra sem þeir hafa afskipti af.

Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Samkvæmt 34. gr. siðareglnanna skal lögmaður skal sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna.

 

II.

Fjölmiðlaumfjöllun um málið kom upp eftir að Hæstiréttur birti dóm sinn ásamt úrskurði héraðsdóms þar sem kveðið var á um vistun barns utan heimils á grundvelli barnaverndarlaga, en umbjóðandi kærðu fór með forsjá barnsins og var varnaraðili málsins.

Í umræddum úrskurði er fjallað um alvarlegar ásakanir á hendur þessum umbjóðanda og voru þær endursagðar í fjölmiðlum. Var kærðu rétt að koma á framfæri ábendingum og athugasemdum sínum vegna þessa, sem m.a. lutu að því að umræddar ásakanir hefðu ekki verið staðfestar. Á hinn bóginn verður að meta það sem haft var eftir kærðu í fjölmiðlum, m.a. út frá trúnaðarskyldu hennar og því sjónarmiði hvort hún hafi þá látið frá sér upplýsingar sem leynt áttu að fara og ekki höfðu áður birst opinberlega. Þarf þá m.a. að hafa í huga það sem áður er rakið úr greinargerð kærðu og ekki hefur verið mótmælt, að umbjóðandi kærðu og fjölskylda  hans hafi ítrekað haft samband við fjölmiðla til að vekja athygli á málinu, þvert gegn ráðleggingum kærðu. Hafi fjölmiðlar fengið allar sínar upplýsingar án nokkurrar milligöngu sinnar. Hún hafi ekki upplýst þá um neitt, né látið fjölmiðlum í té nokkur gögn að því undanskildu að blaðamaður DV hafi komið á skrifstofu kærðu ásamt umbjóðandanum og fjölskyldu hans. Hafi hún þá sýnt honum gögn sem hún taldi barnaverndarmálinu óviðkomandi, en sýndu að hennar mati fram á að ásakanir um mansal o.fl. ættu ekki við rök að styðjast.

 

III.

Í kvörtun kærenda kemur fram að hún snúi í fyrsta lagi að fjölmiðlaumfjöllun Stöðvar 2 26. janúar 2014.

Í frétt Stöðvar 2 kemur fram að „Lögmaður [forsjármannsins] baðst undan viðtali en segist vera undrandi á dómi Hæstaréttar". Í fréttinni kemur jafnframt fram að „samkvæmt upplýsingum frá R, lögfræðingi [forsjármannsins], er um að ræða flóttafólk frá Hsem flutti hingað til lands eftir mannskæðan jarðskjálfta."

Þegar litið er til þess hve fáa einstaklinga þessi lýsing gat átt við, verður að fallast á það með kæranda að með henni hafi kærða brotið gegn þeim trúnaði sem henni bar að gæta með aðfinnsluverðum hætti. Var brotið til þess fallið að torvelda umræddu barni að fóta sig í nýjum aðstæðum vegna þeirrar athygli sem umfjöllunin hlaut að kalla á. Skiptir í þessu samhengi ekki máli að í framhaldi af þessari opinberu umræðu ákvað umbjóðandi kærðu og fjölskylda hans að koma fram undir nafni í fjölmiðlum og fjalla ítarlega um sína hlið málsins. Við matið á alvarleika málsins verður á hinn bóginn að taka tillit til þess að umræddar upplýsingar virðist gaf kærða í óundirbúnu símtali frá fréttamanni, sem bar upp á umbjóðanda hennar alvarlegar og rangar ávirðingar.  Virðast ummælin hafa verið sett fram í ógáti sem svar við þeim ávirðingum.

Þegar rýnt er í frétt DV af málinu frá 4. mars 2014 virðist hafið yfir vafa að blaðamenn hafa fengið aðgang að skjölum sem varða persónulega hagi barnsins, svo sem umsagnir skólayfirvalda o.fl. Í ljósi þess sem kærða hefur teflt fram um takmarkaðan þátt sinn í upplýsingagjöf til fjölmiðla, verður þó ekki séð að neitt í fréttum DV af málinu beri skýlaust með sér að kærða hafi haft milligöngu um að upplýsa blaðamenn um það sem leynt átti að fara.

 

IV.

Í kvörtuninni er jafnframt gerð athugasemd við aðdróttanir kærðu í garð fósturfjölskyldu barnsins. Á visir.is var haft eftir kærðu „Ég myndi telja að það sé verið að færa íslenskri fósturfjölskyldu barn á silfurfati. Sú fjölskylda fær greitt fyrir að vera með barnið. Auðvitað hefur fósturfjölskyldan fjárhagslega hagsmuni af því að hafa barnið hjá sér, og það sem lengst". Þá kemur fram að hún telji að upplýsa þurfi hversu mikið fósturfjölskyldan fái greitt fyrir að vista stúlkuna. 

Það er ekki lögmönnum sæmandi að dylgja alvarlega að stjórnvöldum og gagnaðilum í opinberri umræðu án þess að hafa neitt fyrir sér. Bollaleggingar kærðu um að barnið hefði verið tekið í tímabundið fóstur á grundvelli hagnaðarsjónarmiða fólu í sér ásakanir um hugarfar og háttsemi sem væru mjög alvarlegs eðlis ef sannar væru. Ekkert er þó komið fram ummælum þessum til stuðnings og hefur kærða enga tilraun gert til að réttlæta þau.  Ummæli þessi verða heldur ekki réttlætt með vísan til þess hlutverks kærðu að gæta hagsmuna umbjóðanda síns.

Þegar metin er heildstætt sú háttsemi kærðu sem fjallað er um í máli þessu, er það niðurstaða nefndarinnar að rétt sé að kærða sæti áminningu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærða, R hdl., sætir áminningu

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Valborg Þ. Snævarr, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson