Mál 9 2014

Ár 2014, fimmtudaginn 19. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 9/2014:

A

gegn

R hdl.

 og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 26. mars 2014 erindi kæranda, A, þar sem kvartað var yfir störfum R hdl., í tengslum við skilnaðarmál hennar og fyrrum eiginmanns.

Óskað var eftir greinargerð frá kærða um erindið þann 31. mars 2014. Greinargerð kærða barst 3. apríl 2014. Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð kærða þann 10. apríl 2014. Athugasemdir bárust þann 21. maí 2014.

 

Málsatvik og málsástæður.

I.

Kærandi hefur ekki lýst málsatvikum með heildstæðum hætti. Verður málsatvikalýsing kærða lögð til grundvallar, enda hefur hún ekki sætt andmælum af hálfu kæranda.

Kærðikveðst hafa á árum áður unnið ýmis verkefni fyrir T ehf. Fyrrum eiginmaður kæranda starfaði þar sem framkvæmdastjóri. Fyrirtækið var tekið til gjaldþrotaskipta, líklega 2009, og eftir það kveðst kærandi ekki hafa unnið fyrir það. Frá 2008 bjuggu kærandi og fyrrum eiginmaður hennar í [...].

Í mars 2010 hafði fyrrum eiginmaður kæranda símasamband við kærða og óskaði upplýsinga um hvernig ætti að gera skilnaðarsamning. Kærði kveðst hafa svarað því til að þessir samningar væru alla jafna gerðir hjá lögmönnum. Fyrrum eiginmaður kæranda spurði um ýmislegt, m.a. um hvort það væri skylda að gera þessa samninga hjá lögmönnum sem kærði sagði ekki vera. Þá vísaði fyrrum eiginmaður kæranda til fyrri viðskipta kærða við fyrirtækið sem hann hafði starfað hjá og kunningsskapar í gegnum þau viðskipti og gekk eftir því hvort kærði ætti ekki eitthvert form sem hægt væri að fylla inn í. Hann sagði að milli þeirra hjóna væri samkomulag. Þau byggju í [...], en væru á leiðinni til Íslands og að þau vildu ganga frá skilnaðarsamningi sín á milli meðan  þau væru þar. Hann bað um upplýsingar um hvort það væri hægt.

Þann 19. mars 2010 sendi kærði fyrrum eiginmanni kæranda óútfyllt form að samningi án nokkurra efnislegra atriða. Þann 20. mars 2010 staðfesti fyrrum eiginmaður kæranda að hann hefði móttekið formið og að hann myndi fylla það út og kalla eftir athugasemdum frá kærða.

Þann 21. mars 2010 sendi fyrrum eiginmaður kæranda kærða uppkast af skilnaðarsamningi þar sem efnisatriði höfðu verið færð inn og óskaði eftir athugasemdum kærða. Hann tók fram að þetta væri útfærsla þeirra hjóna. Kærði kveðst hafa kannað lagaákvæði varðandi skilnaði. Í tölvupósti 23. mars 2010 veitti hann fyrrum eiginmanni kæranda upplýsingar um það hvar þau gætu óskað skilnaðar. Jafnframt sendi hann sem fylgiskjal uppkast að skilnaðarsamningi til baka með athugasemdum og tillögum að einstaka breytingum. Kærði kveður afskipti sín af skilnaðarsamningi aðila þar með hafa lokið og hafi hann ekki séð samninginn í endanlegri mynd fyrr en hann hafi fengið hann sendan frá sýslumanninum á D.

Fyrir liggur undirritaður samningur um skilnaðarkjör, dags. 22. mars 2010. Samkvæmt samningnum voru eignir alls kr. 65.150.000, þ.e. fasteign, tvær bifreiðar og hlutabréf í E ehf., en engar skuldir voru fyrir hendi. Kærandi fékk í sinn hlut samkvæmt samningnumkr. 60.440.000 og fyrrum eiginmaður hennar kr. 4.710.000.

Þann 31. mars 2010 var gefið út leyfi til lögskilnaðar milli kæranda og fyrrum eiginmanns hennar.

 

II.

Kærandi kveður kærða hafa séð um að gera samning um skilnaðarkjör sem hafi verið illa unninn og ekki í samræmi við góða lögmannshætti.Kærandi vísar máli sínu til stuðnings til 1., 2., 3. og 37. gr. siðareglna lögmanna.

Kærandi telur að kærði hafi beitt sér óeðlilega í skilnaðarmáli hennar og fyrrum eiginmanns. Hafi hann tryggt að hún færi mun verr fjárhagslega út úr skilnaðinum. Þegar samningur um skiptingu eigna sem kærði hafi gert sé skoðaður megi ljóst vera að mikið vanti upp á að samningurinn teljist í lagi þar sem t.d. vanti upplýsingar um bankareikninga og fleiri eignir. Þá sé verðmati eigna ábótavant. Kærandi kveður kærða hafa verið meðvitaðan um hver eignastaða fyrrum eiginmanns hennar hafi verið og hafi kærði að hennar mati hjálpað honum að leyna þeim upplýsingum.

Kærandi kveðst ekki löglærð og því hafi hún ekki gert sér grein fyrir stöðunni fyrr en fyrir nokkru síðan og því eigi ekki að vísa málinu frá. Hún telur kærða bera ábyrgð á því að ekki hafi verið gætt að hagsmunum hennar og að eignir hafi verið vanmetnar þannig að hallað hafi á hennar hlut. Bendir hún á að í skilnaðarkjarasamningi hafi E ehf. verið metið á kr. 120.000 en þegar farið sé yfir ársreikning félagsins komi í ljós að félagið sé mun meira virði. Kveðst kærandi ekki hafa gert sér grein fyrir þessu en hafi treyst því að kærði myndi gæta hagsmuna beggja hjónanna.

Kærandi bendir á að kærði hafi viðurkennt að hann hafi haft með umræddan samning að gera og farið yfir hann. Hefði hann átt að hafa samband við hana og afla upplýsinga. Það sé sérstakt að á sama tíma og kærði mótmæli að hafa haft einhverjar upplýsingar til að byggja á við yfirferð á skilnaðarsamningi þá geti hann fullyrt að kærandi hafi fengið meira úr búinu en fyrrverandi eiginmaður hennar.

 

III.

Kærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá. Til vara krefst kærði þess að nefndin úrskurði að ekkert í málinu bendi til þess að hann hafi gerst brotlegur við siðareglur lögmanna eða góða lögmannshætti.

Kærði gerir athugasemd við að málið skuli tekið til efnislegrar meðferðar vegna þess hve langt sé um liðið frá því umræddur skilnaðarsamningur hafi verið gerður. Meira en fjögur ár hafi liðið frá því að umræddur skilnaðarsamningur hafi verið gerður þar til kærandi hafi kvartað til nefndarinnar.

Kærði vísar til þess að í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn sé mælt fyrir um að nefndin vísi kvörtun frá ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því kostur hafi verið á að koma henni á framfæri. Um þetta sama atriði sé fjallað í 6. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar frá 22. desember 2004. Þar segi að erindi til nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga verði að berast eigi síðar en einu ári eftir að kostur hafi verið á að koma því á framfæri við nefndina. Að öðrum kosti vísi nefndin erindinu frá. Kærði telur að vísa beri málinu frá nefndinni, með vísan til framangreindra lagaákvæða og málsmeðferðarreglna.

Kærða kveðst kunnugt um að kærandi hafi leitað til lögmanns og gert athugasemdir við efni skilnaðarsamningsins á fyrri hluta árs 2012. Ekki síðar en ári seinna hefði ársfrestur skv. áðurnefndu lagaákvæði og málsmeðferðarreglu átt að líða. Niðurstaðan sé sú sama, að þessu máli beri að vísa frá nefndinni.

Kærði bendir á að á hann sé borið að hafa brotið gegn 1., 2., 3. og 37. gr. Codex ethicus. Kærði kveðst ekki kannast við að í framgöngu sinni hafi hann brotið gegn 1. gr. Þá telur hann að hann hafi ekki í framgöngu sinni eða afskiptum af skilnaðarsamningi sem þau hjónin hafi gert, brotið á nokkurn hátt 2. gr. Þvert á móti telur hann að hann hafi sýnt af sér góða lögmannshætti með því að hafa snarlega gert greinargerð í þessu máli og fundið til meira en fjögurra ára gömul skjöl og tölvupósta til þess að sýna fram á að kvörtunin eigi ekki við rök að styðjast.

Kærði kveðst ekki átta sig á því hvernig 1. mgr. 3. gr. Codex ethicus hafi verið brotin við yfirlestur skilnaðarsamningsins. Hvað 2. mgr. 3. gr. varði megi ljóst vera að hann hafi ekki ráðið efnisatriðum skilnaðarsamningsins og hafi engin áhrif haft á hvers efnis hann hafi orðið. Þeim atriðum hafi aðilarnir sjálfir ráðið.

Kærði vísar til þess varðandi 37. gr. Codex ethicus að hann hafi ekki komið fram fyrir hönd fyrrum eiginmanns kæranda þegar þau hafi gengið frá skilnaði sínum í mars 2010. Kærði hafi hvorki unnið sem lögmaður fyrir fyrrum eiginmann kæranda né kæranda í þessu skilnaðarmáli. Aðkoma hans hafi verið algjörlega hlutlaus en það sé tvennt sem hann hafi gert. Annars vegar hafi hann útvegað óútfyllt form að skilnaðarsamningi sem inn í hafi vantað ýmis efnisákvæði. Form í líkingu við það sem hann hafi sent fyrrum eiginmanni kæranda megi finna í formálabókum. Hins vegar hafi kærði gert almennar athugasemdir um efni og orðalag samnings og lesið samninginn yfir án þess að taka á nokkurn hátt þátt í efnisatriðum eða innihaldi eða taka afstöðu til efnisatriða samningsins. Þeim sem gert hafi samninginn hafi verið látið það eftir. Að þessu leyti hafi aðkoma kærða verið svipuð og þegar aðilar koma utan af götu með samning og óska eftir yfirlestri og athugasemdum sem þeir fari svo í burtu með og lögmaður viti ekki hvort þeir taka nokkurt tillit til.

Kærði mótmælir því sem röngu að hann hafi séð um að gera skilnaðarsamning. Það hafi hjónin gert sjálf. Kærði hafi ekkert vitað um bankareikninga hjónanna né yfir höfuð um eignir þeirra eða skuldir.

Kærði bendir á að það liggi ekki fyrir að hallað hafi á kæranda hvað eignaskipti varði í skilnaðarsamningnum. Það eitt liggi fyrir að kærandi hafi fengið um 93% þeirra eigna hjónanna sem taldar séu upp í skilnaðarsamningnum. Kærði hafi engar upplýsingar um að eignir hafi verið vantaldar enda viti hann ekkert um eignastöðu þessara fyrrum hjóna, hvorki þá né nú. Kærði hafi t.d. aldrei séð um skattframtöl fyrir þetta fólk eða haft aðra innsýn í fjármál þeirra. Miðað við skilnaðarsamninginn væri það maðurinn sem ætti að gera athugasemdir, en um mál þessi ríki samningsfrelsi.

 

Niðurstaða.

I.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn getur sá sem telur lögmann hafa í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi, sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna, lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því kostur var á að koma henni á framfæri, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 27. greinar.

Samkvæmt 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna verður erindi til nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. að berast henni eigi síðar en einu ári eftir að kostur var á að koma því á framfæri við nefndina. Að öðrum kosti vísar nefndin erindinu frá.

 

II.

Atvik máls gerðust árið 2010. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum leitaði fyrrum eiginmaður kæranda til kærða í mars 2010 og óskaði eftir formi að samningi um skilnaðarkjör. Kærandi sendi honum það, las yfir samninginn og kom með athugasemdir í sama mánuði. Samkvæmt endurriti úr hjónaskilnaðarbók sýslumannsins á D var hjónaskilnaðarmál kæranda og fyrrum eiginmanns hennar tekið fyrir þann 30. mars 2010. Leyfi til lögskilnaðar var veitt þann 31. mars 2010.

Þegar kærandi sendi nefndinni erindi sitt voru liðin um fjögur ár frá því að leyfi til lögskilnaðar var veitt og samskiptum við kærða í tengslum við hjónaskilnaðarmálið lauk.

Þegar af þeirri ástæðu, að meira en ár var liðið frá því að kærandi átti þess kost að koma erindi sínu á framfæri við úrskurðarnefndina og með vísan til 2. málsl. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, ber að vísa kvörtun þessari frá nefndinni.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Erindi kæranda, A, er vísað frá.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Valborg Þ. Snævarr, hrl.

 

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson