Mál 3 2015

Ár 2015, föstudaginn 22. maí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

 

Fyrir var tekið málið nr. 3/2015:

Þ

gegn

S hrl.

og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 28. janúar 2015 erindi Þ þar kvartað er yfir því að kærði, S hrl., hafi ekki svarað fyrirspurnum kæranda um mál sitt, að kærði hafi reiknað sér í laun tvöfalda þá upphæð sem um var samið og að kærði hafi ekki innheimt að fullu þær bætur sem kærandi átti rétt á, þrátt fyrir ítrekaðar óskir hennar þar að lútandi.

 

Með bréfi, dags. 3. febrúar 2015, var óskað eftir greinargerð kærða um málið fyrir 18. febrúar s.á., en engin svör bárust. Voru tilmælin til kærða um að hann sendi nefndinni greinargerð vegna málsins ítrekuð með öðru bréfi þann 26. febrúar, þar sem óskað var eftir að greinargerð bærist fyrir 16. mars 2015, jafnframt því sem kærði var minntur á skyldur sínar gagnvart umbjóðendum sínum og nefndinni. Engin greinargerð barst frá kærða, en þann 4. mars 2015 bárust u.þ.b. 50 síður af gögnum sem vörðuðu bótamálið sem kærði rak fyrir kæranda og uppgjör þeirra. Virtust gögn þessi stafa frá kærða.

Þessi gögn voru send til kæranda með bréfi þann 9. mars 2015 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna þeirra. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda vegna málsins.

 

Málsatvik og málsástæður

I.

Málsatvikalýsing kæranda hefur ekki sætt andmælum af hálfu kærða og verður hún lögð til grundvallar auk þess sem byggt verður á fram lögðum gögnum í málinu.

Kærandi leitaði til kærða sumarið 2013 vegna frítímaslyss sem hún hafði orðið fyrir í nóvember 2012. Í kjölfar fundarins fór kærandi í ómskoðun þar sem fram kom ákveðinn áverki og um haustið 2013 undirgekkst kærandi mat hjá B lögmanni og V bæklunarlækni. Nauðsynlegt reyndist að endurtaka þetta mat vegna fráfalls B o.fl. Gerði kærði í framhaldi af því kröfu á hendur tryggingafélaginu Verði og ríkislögmanni, en kærandi var í starfi hjá ríkinu þegar slysið varð. Krafist hann kr. 2.443.769 úr ríkissjóði, en kr. 1.068.381 frá tryggingafélaginu.

Tryggingafélagið greiddi bætur samkvæmt bótatilboði sem kærði samþykkti með fyrirvara um sérfræðimatskostnað. Var fjárhæð bótagreiðslu félagsins kr. 780.982. Dró kærði kr. 100.000 króna þóknun auk vsk. af þeim bótum og greiddi kæranda afganginn. Er greiðsla félagsins, skilagrein kærða og reikningur allt dagsett í febrúar 2014. Ríkissjóður greiddi bætur að fjárhæð kr. 751.030 nokkru seinna og dró kærði aftur kr. 100.000 auk vsk. frá fjárhæðinni og greiddi afganginn inn á reikning kæranda. Var það í maí 2014.

Kærandi hafði í framhaldi af þessu samband við kærða með tölvupósti og óskaði eftir skýringum á því af hverju það væri svo mikill munur á umkröfðum bótum og því sem greitt var út en fékk ekkert svar frá kærða. Hefur kærandi lagt fram sex tölvupósta til kærða þar sem hún fer fram á svör við þessari spurningu auk þess sem hún krefur kærða svara um af hverju hann taki umsamda þóknun að fjárhæð kr. 100.000 tvisvar sinnum af bótum hennar. Er í tölvupóstunum jafnframt vísað til þess að kærandi hafi reynt að ná símasambandi við kærða. Svaraði kærði þessu engu nema einu sinni þann 28. maí, þegar hann sendi kæranda svofelldan tölvupóst „Sæl Þ fer yfir málið á föstudaginn og sendi Þér svar. Kv. S"

 

II.

Kærandi kvartar í fyrsta lagi yfir því að hún hafi ítrekað reynt að ná sambandi við kærða til að spyrjast fyrir um mál sitt, án þess að fá svör.

Í öðru lagi kvartar kærandi yfir því að kærði hafi reiknað sér í laun tvöfalda þá upphæð sem um var samið og gerir kröfu um að kærði endurgreiði sér 100.000 krónur.

Í þriðja lagi beinist kvörtun kæranda að því að kærði hafi ekki innheimt að fullu þær bætur sem kærandi átti rétt á, þrátt fyrir ítrekaðar óskir kæranda. Óskar kærandi eftir því að slysabætur hennar verði að fullu innheimtar.

Kærandi fullyrðir að í munnlegu samtali aðila þegar kærði tók bótamálið að sér, hafi komið fram að hann tæki að sér að innheimta bætur og að hans umbun fyrir þetta væri fast verð að fjárhæð kr. 100.000.

 

III.

Sem fyrr greinir hefur kærði ekki skilað nefndinni greinargerð eða gert að öðru leyti grein fyrir sjónarmiðum vegna máls þessa. Hann hefur á hinn bóginn sent nefndinni gögn umrædds slysabótamáls og verður horft til þeirra við úrlausn málsins.

Niðurstaða

Rétt þykir að fjalla fyrst um þær kvartanir sem kærandi hefur fært fram vegna starfa kærða, en síðan um ágreining þeirra um endurgjald kærða. Áréttað skal að sönnunarbyrði vegna þess sem óljóst þykir verður ekki lögð með sama hætti á aðila í þessum tveimur þáttum málsins.

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í samræmi við þetta verður í máli þessu fjallað um það álitaefni hvort kærði verði beittur þeim viðurlögum sem að ofan greinir. Kröfum um að kærði ljúki innheimtu eða innheimti frekari bætur verður hins vegar að vísa frá nefndinni, enda hefur hún ekki lagaheimildir til að mæla fyrir um slík úrræði.

Samkvæmt 41. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður, án ástæðulauss dráttar, svara bréfum og öðrum erindum, er honum berast í lögmannsstarfi hans. Sé ekki unnt að svara bréfi eða öðru erindi innan hæfilegs tíma, ber lögmanni að tilkynna það viðkomandi og að erindinu verði svarað, þegar fært verður.

Samkvæmt 4. mgr. 43. gr. siðareglnanna er lögmanni skylt að boði úrskurðarnefndar lögmanna að gera viðhlítandi grein fyrir máli sínu út af meintu broti eða ágreiningi um skilning á siðareglunum. Ber lögmanni í því efni að svara og sinna án ástæðulauss dráttar fyrirspurnum og kvaðningum nefndarinnar.

Enda þótt ekki hafi verið skýrt að fullu hvernig stendur á þeim mun sem er á milli upphaflegrar bótakröfu kærða f.h. kæranda og þeirra bóta sem mótteknar voru, telur nefndin ekki að sýnt hafi verið fram á að hagsmunir kæranda hafi hafi verið fyrir borð bornir af kærða við innheimtuna. Við innheimtuna virðist hafa reynt á einhver álitamál, m.a. um hvaða tekjur kæranda ætti að leggja til grundvallar við útreikning bóta. Hefur ekki verið sýnt fram á að kærði hafi í þeim efnum gefið meira eftir af upphaflegri bótakröfu en réttmætt var.

Ljóst er að kærði hefur skýrlega brotið gegn ofangreindu ákvæði 41. gr. siðareglna lögmanna með því að svara ekki erindum kæranda. Í nokkrum úrskurðum nefndarinnar frá undanförnum  misserum hefur verið lagt til grundvallar að kærði hafi með viðlíka hætti vanrækt að svara fyrirspurnum umbjóðenda um mál sín með neinu öðru en loforðum um að svara innan tíðar. Í ljósi fyrri aðfinnslna nefndarinnar er rétt að kærði sæti áminningu fyrir framgöngu sína í garð kæranda að þessu leyti.

Erindi þetta var sent nefndinni eftir ítrekaðar tilraunir kæranda til að fá upplýsingar frá kærða um mál sitt. Eins og lýst er hér að framan hefur kærða verið veittur rúmur frestur af hálfu úrskurðarnefndar til að gera grein fyrir máli sínu, en hann hefur ítrekað hunsað tilmæli nefndarinnar þar að lútandi. Felur framferði hans í sér brot á skyldum hans gagnvart nefndinni, sbr. 4. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna, en sú viðleitni hans sem fólst í að senda nefndinni málsögn, verður virt honum til málsbóta. Allt að einu er framganga hans að þessu leyti aðfinnsluverð.

 

II.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga.

Þeirri fullyrðingu kæranda er ómótmælt að það hafi orðið að samkomulagi á milli hennar og kærða að hann tæki að sér innheimta bætur vegna umrædds slyss gegn fastri greiðslu að fjárhæð kr. 100.000. Í gögnum málsins, sem kærði sendi nefndinni, liggur ekki fyrir neinn samningur um þá þjónustu sem varnaraðili veitti sóknaraðila eða  gjaldtöku vegna hennar. Verður samkvæmt þessu að leggja frásögn kæranda til grundvallar, jafnvel þótt ekki blasi við af gögnum málsins að umkrafin þóknun kærða sé óhæfileg. Í samræmi við skýra kröfu kæranda verður kærði því úrskurðaður til að endurgreiða henni kr. 100.000 af því fé sem hann hélt eftir af bótum hennar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu kæranda, Þ, um að kærði innheimti fyrir hana frekari bætur er vísað frá nefndinni.

Kærði, S hrl., sætir áminningu.

Sú háttsemi kærða að senda úrskurðarnefndinni ekki greinargerð, heldur eingöngu málsgögn, er aðfinnsluverð.

Kærði endurgreiði kæranda kr. 100.000 af því bótafé sem kærði hélt eftir vegna þóknunar sinnar.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson hrl.

Valborg Þ. Snævarr hrl.

Rétt endurrit staðfestir