Mál 12 2016

Ár 2017, fimmtudaginn 26. janúar,  var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 12/2016:

L

gegn

J hdl.

og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 24. maí 2016 erindi sóknaraðila, L, þar kvartað er yfir skilum á vörslufé og uppgjöri málskostnaðar af hálfu varnaraðila, J hdl. Er í kvörtuninni gerð sú krafa að varnaraðili endurgreiði sóknaraðila kr. 195.000 kr. af innheimtum málskostnaði og standi henni skil á sundurliðun á því hvernig þeim fjármunum var varið sem lögmannsstofa hans tók við vegna máls sóknaraðila var ráðstafað.

 

Óskað var eftir greinargerð frá varnaraðila með bréfi, dags. 3. júní 2016. Þann 29. júní 2015 barst greinargerð varnaraðila. Sóknaraðila var gefinn kostur á að gera athugasemdir við greinargerð varnaraðila með bréfi, dags. 12. júlí 2016.

 

Málsatvik og málsástæður.

I.

Sóknaraðili leitaði til félagsins P ráðgjöf ehf. í febrúarmánuði 2014. Í málinu liggja fyrir tölvupóstsamskipti frá þeim tíma þar sem fram kemur að sóknaraðili hafi ári áður fengið „Samtök ... (P)" til að reikna út fyrir sig kröfu sem hún ætti á hendur L hf. vegna endurreiknings eða  leiðréttingar á láni. Lýsing hafi þá talið rétt að bíða með málið á meðan niðurstaða fengist í önnur dómsmál. Þá kemur fram í viðbrögðum félagsins að næsta skref sé að sækja leiðréttinguna með stefnu. Þá segir í tölvupósti félagsins frá 27. febrúar 2014 „Þar sem þú hefur þegar fengið endurreikning frá okkur þá yrði kostnaður við stefnu kr. 95.000,- en innifalið er ásamt stefnu, greinargerð, þingfesting og málflutningur. Við gerum síðan ráð fyrir að málskostnaður verði dæmdur vinnist málið þannig að kostnaður ykkar núllist út."

 

Á þeim tíma sem hér um ræðir hafði verið þingfestur töluverður fjöldi dómsmála, þar sem gerðar voru kröfur um endurreikning. Málin biðu síðan í fresti á meðan beðið var niðurstaðna Hæstaréttar í nokkrum málum sem talin voru hafa fordæmisgildi. Í fram lögðum gögnum máls þessa kemur fram að umrætt félag, P ráðgjöf ehf. hafði tekið að sér innheimtu krafna af þessu tagi fyrir fjölda einstaklinga og fyrirtækja. Kemur fram í fram lagðri verkbeiðni í einu þessara mála „Málflutningsumboð" til „starfsmanna og lögmanns/ -a P til þess m.a. að reka fyrir mína hönd mál fyrir stjórnvöldum/dómstólum". Þá kemur fram um samninga að „Efni slíkra málaloka skuldbindur viðkomandi starfsmaður og lögmaður sig til að kynna mér áður en hann undirritar þau fyrir mína hönd. Sérstakt umboðsskjal skal útbúið til framvísunar eftir því sem þörf krefur." Ekki liggur fyrir hvort sóknaraðili skrifaði undir staðlaða verkbeiðni af þessu tagi til félagsins P ráðgjöf ehf.

 

Sóknaraðili kveðst hafa talið á þessum tíma að P væri lögmannsstofa. Svo var þó í raun ekki. Enda þótt ekkert liggi fyrir um samningssamband sóknaraðila og P ráðgjafar ehf. varðandi gjaldtöku annað en fyrrgreindir tölvupóstar er nauðsynlegt að rekja hér það fyrirkomulag sem haft var á málarekstri í þessum málum. Í því efni er einkum stuðst við greinargerð varnaraðila og skjöl sem hann hefur lagt fram.

 

P ráðgjöf ehf. tók sem fyrr segir að sér að endurreikna lán og innheimta kröfur á grundvelli þeirra útreikninga. Ekki liggur fyrir hvort félagið hafði innheimtuleyfi, en það var ekki lögmannsstofa og enginn af eigendum þess mun hafa verið lögmaður. Félagið samdi hins vegar við lögmenn um málarekstur fyrir héraðsdómi eða ákveðna þætti hans. Mun þannig hafa verið gert ráð fyrir að starfsmenn félagsins önnuðust útreikninga krafna, frumgerð stefnugerðar, þ.e. reifun málsatvika, málsástæðna og lagaraka, auk þess að sjá um öll samskipti við umbjóðendur. Í stöðluðum samningum á milli umbjóðenda og P var gert ráð fyrir að umbjóðendurnir greiddu 195.000 kr. fyrir málið auk 35.500 fyrir hvern lánasamning umfram einn í hverju máli. Segir annars í þessum staðlaða samningi:

 „Vinnist málið, eða verði sátt í því fyrir dómstólum þá fær verkbeiðandi endurgreiddan kostnað sinn ef tildæmdur málskostnaður nær útlagðri fjárhæð verkbeiðanda. Dæmdur málskostnaður sem er umfram ofangreinda þóknun fellur til P.

 

Tapist málið verður verkbeiðandi að bera þann málskostnað sem verður dæmdur á hendur honum.

 

Ef verkbeiðandi er með málskostnaðartryggingu sem gildir í máli þessu, þá bætir slík trygging kostnað verkbeiðanda að frádreginni sjálfsáhættu. Tryggingafélög greiða aðeins út tryggingu eftir að niðurstaða í máli liggur fyrir samkvæmt dómi eða sátt.

 

Ofangreindur kostnaður verkbeiðanda er innborgun v/lögfræðiþjónustu og endurútreiknings P, settur fram til að gera verkbeiðanda kleift  að stefna málinu fyrir dómstólum. Frekari kostnaður vegna reksturs málsins fellur á L hf. eða á málskostnaðartryggingu verkbeiðanda ef um slíka tryggingu er að ræða.

 

Áður en varnaraðili kom að viðskiptum við P ráðgjöf ehf. höfðu aðrir lögmenn stefnt inn málum sem þeir höfðu tekið við með samningum við félagið. Þá hafði félagið P lögmenn verið stofnað og kveður varnaraðili að áform hafi verið uppi um að hann fengi því félagi afsalað til sín og tæki þá um leið við löglærðum starfsmönnum P ráðgjafar, þannig að lögmannsþjónusta yrði rekin undir nafni P með lögmætum hætti. Ekkert hafi orðið af þessum áformum. Þess í stað seldi lögmannsstofa varnaraðila P ráðgjöf ehf. þá þjónustu sína að sjá um rekstur umræddra dómsmála fyrir héraðsdómi. Kveður varnaraðili að munnlegur samningur hafi verið um að lögmannsstofa hans skyldi fá í sinn hlut 200.000 kr. á mánuði fyrir umsýslu með málunum auk 10% af greiddum málskostnaði ef málin ynnust. Skriflegur samningur var gerður á milli P lögmanna og P ráðgjafar þar sem kveðið var á um hvernig skipt skyldi væntanlegum málskostnaði. Varnaraðili undirritaði þetta samkomulag f.h. P lögmanna en hann var prókúruhafi þess félags frá apríl 2015. Samningurinn er dagsettur þann 7. desember 2014, en í greinargerð sinni kveður varnaraðili hann hafa verið gerðan 7. desember 2015. Nefndin telur með hliðsjón af öllu ofangreindu að nokkru leyti óljóst í nafni hvaða félaga samningar voru gerðir og hvaða skilmálar giltu um viðskiptin.

 

Dómsmáli sóknaraðila var stefnt þann 28. október 2014 og því lauk með dómssátt fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 14. apríl 2015. Féllst L á að greiða 163.644 kr. að dráttarvöxtum meðtöldum og skyldu fjármunirnir greiddir inn á fjárvörslureikning lögmannsstofu varnaraðila. Þá sættust aðilar á það með réttarsáttinni að leggja ágreining um málskostnað í úrskurð dómsins. Er óumdeilt að dómurinn ákvað að L skyldi greiða 300.000 kr. í málskostnað vegna málsins.

 

Varnaraðili greiddi 163.644 kr. til sóknaraðila, en hélt eftir þeim málskostnaði sem L hafði greitt til lögmannsstofu hans. Þá krafði varnaraðili tryggingafélag sóknaraðila um frekari málskostnað og fékk greiddar 442.000 kr. úr málskostnaðartryggingu sóknaraðila. Hafði sóknaraðili þá alls móttekið 742.000 kr. í málskostnað vegna málsins.

 

Varnaraðili kveðst hafa staðið P ráðgjöf ehf. skil á 90% af þessum fjárhæðum í samræmi við samkomulag þar um. Hann hafi því greitt félaginu alls kr. 667.800 af þeim málskostnaði sem hann móttók. Hann hefur lagt fram bankayfirlit sem sýnir greiðslu hans á 90% af greiðslunni frá tryggingafélaginu en telur að 90% hlutdeild P í greiðslu frá L hafi verið greidd í einu lagi ásamt greiðslum vegna annarra mála.

 

Bú P ráðgjafar ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta í desember 2015. Í apríl 2016 hafði lögmaður sóknaraðila samband við varnaraðila og óskaði eftir að útlagður kostnaður hennar vegna málsins yrði endurgreiddur henni. Varnaraðili svaraði því til að þessari kröfu þyrfti hún að beina að P ráðgjöf ehf. Lögmannsstofa hans hafi tekið að sér rekstur mála fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og staðið skil á öllum greiðslum til P. Þrátt fyrir frekari samskipti náðist ekki samkomulag eða sameiginlegur skilningur á réttarsambandi aðila. Var sem fyrr segir stofnað til máls þessa með erindi sóknaraðila til úrskurðarnefndarinnar þann 24. maí 2016.

 

II.

Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila og lögmannsstofu hans verði gert að skila til sóknaraðila 195.000 krónum og sundurliðun á því hvernig þeim fjármunum sem lögmannsstofan tók við vegna máls hennar hafi verið ráðstafað. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati nefndarinnar.

 

Sóknaraðili byggir á því að á milli hennar og P ráðgjafar ehf. hafi komist á samningur sem hafi falið í sér að þegar málið vannst og málskostnaður var innheimtur hjá gagnaðila, hafi átt að endurgreiða henni a.m.k. þær 195.000 kr. sem hún hafði greitt í tvennu lagi til félagsins.

 

Sóknaraðili kveðst hafa talið að P væri lögmannsstofa. Þar hafi starfað lögmaður á þeim tíma sem hún samdi við félagið. Þegar mál hennar var þingfest hafi hann verið hættur störfum og málið hafi verið sent til varnaraðila. Sóknaraðili kveðst hvorki hafa samið við varnaraðila né lögmannsstofu hans og efast hún um að varnaraðili hafi þekkt til samninga sóknaraðila við P ehf. Honum hafi þó borið að kynna sér þetta samningssamband. Hefði hann gert það hefði honum orðið ljóst að honum var óheimilt að ráðstafa útlögðum kostnaði hennar til annars en hennar sjálfrar.

 

Sóknaraðili gerir við það athugasemd að félag sem ekki var lögmannsstofa hafi þóst ætla að sækja mál hennar, en síðan falið það lögmanni. Í öllu falli geti slík færsla ekki skaðað rétt hennar enda hljóti lögmannsstofan að bera sömu skyldu gagnvart henni og upphaflegur viðsemjandi.

 

Sóknaraðili telur svör varnaraðila og málatilbúnað misvísandi um það réttarsamband sem um var að ræða. Þannig hafi hann sett fram kröfu um málskostnað í nafni lögmannsstofu sinnar á tryggingafélag sóknaraðila. Í þeirri kröfugerð sé krafist endurgreiðslu til lögmannsstofunnar á aðkeyptri þjónustu, væntanlega frá P. Nú haldi varnaraðili því hins vegar fram að það sé ekkert réttarsamband á milli sín og sóknaraðila. Hafnar varnaraðili því að það sé mögulegt að lögmaður reki mál án þess að réttarsamband sé á milli hans og umbjóðandans.

 

III.

Varnaraðili hefur ekki gert sérstakar kröfur í málinu, en af málatilbúnaði hans verður skýrlega ráðið að hann hafnar kröfum sóknaraðila og krefst þess að þeim verði hafnað með úrskurði.

 

Varnaraðili gerir í málatilbúnaði sínum nokkra grein fyrir umfangi dómsmáls sóknaraðila gegn L. Telur hann að málið hafi verið flókið og í senn hafa kallað á flókna útreikninga og flókna og langa stefnu þar sem byggt var á margvíslegum forsendum. Hafi stefndi enda teflt fram margháttuðum vörnum og gert athugasemdir við hvert smáatriði sem kostur var á. Hafi hann fylgt hagsmunum sóknaraðila eftir með öllum lögmætum ráðum, sbr. 8. gr. siðareglna lögmanna. Telur hann að þóknun að fjárhæð kr. 852.000 sé alls ekki óhæfileg þegar litið er til umfangs málsins.

 

Varnaraðili vísar til þeirra samninga sem P ráðgjöf ehf. gerði almennt við þá viðskiptamenn sína sem fólu félaginu að innheimta fjárkröfur á grundvelli endurútreiknings gengistryggðra lána. Samningur á milli P og sóknaraðila séu í vörslum fyrirsvarsmanns P ásamt öðrum gögnum félagsins, en í greinargerð varnaraðila kemur fram að skiptastjóri vonist til að fá þau á næstunni. Telur hann að öllum aðilum hljóti að hafa mátt vera ljóst að um var að ræða flókinn málatilbúnað og að kostnaður hlyti að verða verulega umfram þær greiðslur sem greiddar voru inn á mál í upphafi.Í samningnum komi fram að ef stefna þurfi L muni lögmaður „á vegum P" gera það. Þá hafi sóknaraðila mátt vera ljóst að samkvæmt þeim samningi var lögmannsstofu varnaraðila rétt og skylt að greiða 195.000 króna greiðsluna til Procura.

 

Þá vísar varnaraðili til samningssambands síns við P ráðgjöf ehf. Samkvæmt þeim samningi hafi hann átt að njóta 10% af greiddum málskostnaði ef mál ynnust. Þá hafi hann staðið P skil á nægilegum fjármunum til að gera skil á endurgreiðslukröfu sóknaraðila og þannig staðið að fullu við sitt samkvæmt samningum.

 

Varnaraðili telur að það hafi fyllilega samræmst 4. gr. siðareglna lögmanna þótt hann hafi samið við P ráðgjöf ehf. um að taka að sér reka dómsmál fyrir umbjóðendur þess félags. Það hafi hins vegar verið skylda P að upplýsa viðskiptamenn sína um hvaða lögmaður eða lögmenn rækju mál þeirra. Að sama skapi hafi ábyrgð á því að uppfylla endurgreiðslukvöð í samningi P við viðskiptamenn sína hvílt á félaginu. Með því að gera upp við P fyrir hvern og einn viðskiptavin hafi varnaraðili og lögmannsstofa hans uppfyllt skyldur sínar samkvæmt 14. og 15. gr. siðareglna lögmanna.

 

Varnaraðili telur að sóknaraðili hafi borið að gera kröfu um endurgreiðslu á hendur P. Hafi sóknaraðili ekki gert kröfu í þrotabúið hljóti það að vera á hans ábyrgð. Eigi sóknaraðili einhverja kröfu á varnaraðila hljóti það að vera sprangkrafa, en engin gögn hafi verið lögð fram um að kröfu sóknaraðila hafi verið lýst í bú P ráðgjafar ehf.

 

Niðurstaða.

I.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.

 

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Kröfur sóknaraðila eru alfarið fjárhagslegs eðlis og er litið svo á að málið sé eingöngu rekið á grundvelli 26. gr. Þarf því ekki í þessu máli að taka afstöðu til þess hvort viðskiptasamband aðila og P ráðgjafar ehf. samræmdist 4. gr. siðareglna lögmanna eða hvort efni eru til að gera athugasemdir við störf varnaraðila á grundvelli 27. gr. lögmannalaga. Nefndin telur að krafa sóknaraðila um að varnaraðili standi skil á sundurliðun á ráðstöfun fjármuna, feli í sér áskorun um að leggja þessar upplýsingar fram undir rekstri málsins, en ekki kröfu um efnislega úrlausn nefndarinnar.

 

Samkvæmt því sem gögn málsins bera með sér móttók P ráðgjöf ehf. fyrst 100.000 kr. fyrir útreikning á fjárkröfu sóknaraðila. Síðar virðist félagið hafa fengið greiddar 95.000 kr. svo stefna yrði gefin út og þingfest. Þá greiddi L 300.000 kr. í málskostnað vegna málsins og tryggingafélag sóknaraðila 442.000 kr. Alls nam því greiddur málskostnaður í málinu  937.000 kr. en af þeirri fjárhæð virðist varnaraðili hafa haldið eftir 74.200 kr. auk þess sem hann fékk greitt mánaðarlegt umsýslugjald í einu lagi fyrir þetta mál ásamt öðrum. Það athugast að í tilgreindum fjárhæðum í greinargerð varnaraðila er innbyrðis ósamræmi að nokkru leyti og tilgreindar fjárhæðir stemma ekki að öllu leyti við þessar tölur.

 

II.

Varnaraðili hefur lagt fram tölvupóstsamskipti frá júní 2016 við skiptastjóra þrotabús P ráðgjafar ehf. þar sem hann kallar eftir gögnum um viðskiptasamband félagsins og varnaraðila, en þau bera með sér að skiptastjóri hafði þá ekki fengið gögn frá fyrirsvarsmanni félagsins. Þrátt fyrir þann tíma sem síðan er liðinn, hafa engin frekari gögn borist.

 

Í máli þessu nýtur því ekki við annarra gagna um hvað sóknaraðila og P ráðgjöf ehf. samdist um varðandi gjaldtöku en þeirra tölvupósta frá febrúarmánuði 2014 sem fyrr eru raktir. Ekkert liggur fyrir um að sóknaraðili hafi skrifað undir samning við félagið af því tagi sem varnaraðili kveður hafa verið staðlaðan og hefur lagt fram dæmi um.

 

Við svo búið verður að leggja á varnaraðila hallann af því að ósannaðar eru fullyrðingar hans um að P ráðgjöf ehf. og varnaraðili hafi samið um gjaldtöku með þeim hætti sem hann heldur fram. Hvíldi enda á honum fortakslaus skylda til að afla gagna og kynna sér til hlítar hvað um hafði samist að þessu leyti, áður en hann afhenti P ráðgjöf ehf. nokkuð af fé sóknaraðila, hvernig sem líta ber á réttarsambandið að öðru leyti. Verður að leggja til grundvallar að þegar af þessari ástæðu hvíli sú skylda á varnaraðila að endurgreiða henni þann málskostnað sem hann móttók fyrir hennar hönd og hún hafði samið um að skyldi endurgreiddur ef málið ynnist. Verður úrskurðarorði hagað í samræmi við þetta.

 

Eins og málið er lagt fyrir nefndina þarf því ekki að taka afstöðu til þess hvort varnaraðila var heimilt að semja við P ráðgjöf ehf. með þeim hætti sem hann leitaðist við að gera, eða hvað fólst í þeim samningum og hvaða máli það skipti þá  að varnaraðili kom fram sem lögmaður sóknaraðila gagnvart tryggingafélagi hennar, héraðsdómi og gagnaðila.

 

Eftir atvikum þykir rétt að varnaraðili greiði sóknaraðila 50.000 kr. í málskostnað.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Varnaraðili, J hdl.,skal greiða sóknaraðila, L, 195.000 krónur og 50.000 kr. í málskostnað.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson hrl.

Valborg Þ. Snævarr hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson