Mál 29 2016

Ár 2017, miðvikudaginn 28. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Álftamýri 9, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið mál nr. 29/2016:

A

gegn

B hdl. og
C hrl.

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 25. nóvember 2016 frá D f.h. A, sóknaraðila, þar sem kvartað var yfir störfum B hdl., varnaraðila 1 og C hrl., varnaraðila 2, vegna vanskila á endurgreiðslu á útlögðum kostnaði til sóknaraðila í framhaldi af veitingu heimildar til gjafsóknar í máli sóknaraðila. Kærðu tjáðu sig um erindið í tveimur aðskildum greinargerðum, annars vegna móttekinni 15. desember 2016 og hins vegar 2. febrúar 2017. Af hálfu sóknar¬aðila voru gerðar nokkrar athugasemdir við greinargerðir kærðu í bréfi, dags. 22. febrúar 2017. Þar sem varnaraðilar eru ekki samstarfsaðilar og ólík afstaða til málsins birtust í and¬svörum þeirra til nefndarinnar var ákveðið að gefa hvorum um sig tækifæri til að tjá sig um andsvör hins og var það gert með bréfi dags. 27. apríl 2017. Svar barst frá varnaraðila 1 með tölvupósti dags. 2. maí sl. en varnaraðili 2 skilaði ekki inn athugasemdum þrátt fyrir ítrekun erindisins með tölvupósti.

Með bréfi úrskurðarnefndar til umboðsmanns sóknaraðila, dags. 1. desember 2016 var m.a. bent á að umboð sóknaraðila hafi ekki fylgt kæru til nefndarinnar. Með bréfi dags. 19. desember 2016 barst fullnægjandi umboð.

Málsatvik og málsástæður.

I.
Málsatvik eru í stuttu máli þau að í byrjun apríl 2015 óskaði sóknaraðili eftir aðstoð varnaraðila 1 við að ná barni sínu til baka eftir samvistir þess með föður, sem neitað hafði að skila barninu að loknum umsömdum umgengnistíma. Fólst aðstoð varnaraðila 1 m.a. í samskiptum við lögreglu, barnaverndaryfirvöld, leikskólastjóra og lögmann föður barnsins. Var um það samið að lagðar yrðu kr. 150.000 inn á fjárvörslureikning lögmannsins sem trygging fyrir vinnu við málið, en að þóknun yrði tekin af þessum fjármunum á grundvelli útgefinna reikninga. Samkvæmt samkomulaginu átti tryggingarfjárhæðin að greiðast af föður sóknar¬aðila, sem einnig fengi greiddan mismun tryggingarfjárhæðarinnar og verkkostnaðar að því loknu. Lagði faðir sóknaraðila kr. 100.000 inn á fjárvörslureikning lögmannsstofu varnaraðila 1 um miðjan apríl 2015.

Faðir sóknaraðila fékk barnið afhent síðari hluta aprílmánaðar 2015 og í framhaldi af því óskaði sóknaraðili eftir því að varnaraðili 1 kannaði hvort einhverjir annmarkar væru á því að hún gæti flutt barnið með sér til Danmerkur og veitti henni fylgd og aðstoð í Leifsstöð við brottförina. Var sú þjónusta veitt og í framhaldi af því gaf varnaraðili 1 út reikning að fjárhæð kr. 100.000 vegna málsins og var fjárhæðin millifærð af fjárvörslureikningi lögmannsstofu hans yfir á veltureikning stofunnar þann 24. apríl 2015.

Í byrjun maí 2015 tók sóknaraðili ákvörðun um að höfða forsjármál og lagði faðir sóknaraðila í framhaldi af því kr. 50.000 inn á fjárvörslureikning lögmannsstofu varnaraðila 1 þann 5. maí 2015 og kr. 150.000 degi síðar, en um var að ræða tryggingu fyrir greiðslu þóknunar til varnaraðila 1. Var samkomulag um að lögmannsþóknun vegna málsins yrði fyrst tekin af þessari tryggingu en samhliða yrði sótt um gjafsókn vegna málsins. Fengist gjafsókn yrði ekki um frekari greiðslur að ræða til lögmannsins og fengi sóknaraðili endurgreiddan þann hluta gjafsóknarkostnaðarins sem dómari ákvæði vegna lögmannsþóknunar að frádreginni þeirri fjárhæð sem væri óuppgerð við lögmanninn.

Þann 1. júní 2015 gaf varnaraðili 1 út reikning að fjárhæð kr. 180.000 vegna kostnaðar við gagnaöflun, undirbúning málshöfðunar og ritunar stefnu, og var reikningurinn sendur föður sóknaraðila. Í framhaldi af því var fjárhæðin millifærð af fjárvörslureikningi og inn á veltureikning lögmannsstofu varnaraðila 1. Í framhaldi af þingfestingu málsins þann 6. júlí 2015 gaf varnaraðili 1 svo út reikning að fjárhæð kr. 15.000.

Eftir þingfestingu málsins hóf varnaraðili 1 vinnu við umsókn um gjafsókn til handa sóknaraðila og fól sóknaraðila að afla nauðsynlegra gagna vegna þess. Þau gögn fékk varnaraðili 1 í hendur í byrjun september 2015 og var gjafsóknarbeiðni vegna málsins send í október 2015.

Í kröfugerð fyrir héraðsdómi var farið fram á að dómstóllinn úrskurðaði um lögheimili barnsins til bráðabirgða, umgengni þess við föður og um meðlagsgreiðslu. Var sú krafa flutt sérstaklega og tekin til úrskurðar 20. október 201x. Í framhaldi af því gaf varnaraðili 1 út reikning til sóknaraðila vegna málsins að fjárhæð kr. 220.765 og greiddi sóknaraðili þá fjárhæð beint inn á veltureikning lögmannsstofu varnaraðila 1. Hafði sóknaraðili þá greitt varnar¬aðila 1 samtals kr. 520.765, þar af kr. 420.765 vegna dómsmálsins.

Með úrskurði dags. x. nóvember 201x úrskurðaði Héraðsdómur K sóknaraðila í vil en frestaði ákvörðun um málskostnað þar til efnisdómur yrðu kveðinn upp í málinu. Í framhaldinu kærði barnsfaðir sóknaraðila úrskurðinn til Hæstaréttar. Í kjölfar þess fól varnaraðili 1, að fengnu samþykki sóknaraðila, varnaraðila 2 til að gæta hagsmuna hennar í Hæstarétti, en varnaraðili 1 sá þó um frágang skjala vegna málsins og gerði sóknaraðila reikning vegna vinnunnar.

Þann x. nóvember var kæru barnsföður sóknaraðila vísað frá Hæstarétti og var honum gert að greiða sóknaraðila kr. 400.000 í kærumálskostnað. Í framhaldi af niðurstöðu Hæstaréttar gaf varnaraðili 1 út reikning á hendur sóknaraðila vegna kostnaðar við vinnu við kærumálið og hljóðaði hann upp á kr. 252.204. Greiddi móðir sóknaraðila umkrafða fjárhæð þann 26. janúar 2016 inn á veltureikning lögmannsstofu varnaraðila 1. Upplýsti varnaraðili 1 móður sóknaraðila jafnframt um að á móti umkrafðri fjárhæð hefði sóknaraðili fengið dæmdar kr. 400.000 í kærumálskostnað úr hendi barnföður síns.

Í kjölfar þess að varnaraðili 1 ákvað í lok árs 2015 að hætta störfum sem lögmaður og loka lögmannsstofu sinni, var ákveðið að varnaraðili 2 tæki við málinu og var honum í framhaldi af því afhent öll málsskjöl. Jafnframt upplýsti varnaraðili 1 varnaraðila 2 um að hans hluti vinnu við málið væri að fullu uppgerður og að gjafsóknarþóknun sem kynni að verða ákvörðuð í málinu gengi þá beint til sóknaraðila.

Í september 2016 var kveðinn upp efnisdómur í máli sóknaraðila þar sem málskostnaður var látinn niður falla en gjafsóknarkostnaður ákvarðaður kr. 600.000 til varnaraðila 1 og kr. 1.600.000 til varnaraðila 2. Í framhaldi af þessari niðurstöðu sammæltust varnaraðilar 1 og 2 um að sá síðarnefndi gerði reikning fyrir allri fjárhæðinni og annaðist uppgjör vegna varnaraðila 1 gagnvart sóknaraðila. Varnaraðili 2 nýtti hins vegar tildæmda þóknun varnaraðila 1 til skuldajafnaðar gagnvart útstandandi skuld sóknaraðila við sig vegna reksturs kærumálsins fyrir Hæstarétti.

II.
Sóknaraðili gerir kröfu um að E lögfræðiþjónusta endurgreiði sér kr. 772.969 sem sé sú fjárhæð sem greidd var inn á vörslufjárreikning stofunnar áður en ljóst var að gjafsókn fengist í málinu og kostnaður yrði greiddur úr ríkissjóði. Með kærunni fylgdu fimm kvittanir til staðfestingar greiðslu umræddrar fjárhæðar. Í kærunni kemur m.a. fram að varnaraðili 1 hafi leiðbeint aðstandendum sóknaraðila á þann veg að fé það sem greitt yrði inn á vörslufjárreikning lögmannsstofunnar fengist endurgreitt, fengist gjafsókn í málinu. Hafi varnaraðili 1 gefið út reikninga vegna vinnu sinnar samtals að fjárhæð kr. 667.969, en skýrt komi fram í niðurstöðu héraðsdóms í máli E-xxx/2015 að allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila greiddist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun til varnaraðila 1 að fjárhæð kr. 600.000, auk þess sem þóknun til varnaraðila 2 hafi verið ákveðin kr. 1.600.000.

Þá gerir umboðsmaður sóknaraðila athugasemdir við greinargerð varnaraðila 2 í málinu þar sem dregur í efa skýringar varnaraðila 2 á þeirri ákvörðun að halda eftir gjafsóknarþóknun varnaraðila 1 vegna vinnu sem varnaraðili 2 hafi innt af hendi utan vinnu við gjafsóknarmálið og sem falli því ekki undir þá gjafsóknarþóknun sem honum voru dæmdar í máli E-xxx/2015. A.m.k. liggi ekki fyrir fullnægjandi sundurliðun á vinnu varnaraðila 2 í þeim gögnum sem hann hafi lagt fram. Þó megi ráða að 16,15 tímar falli utan vinnu við gjafsóknarmálið auk þess sem varnaraðili 2 tiltaki 4 tíma vegna samskipta sinna við sóknaraðila að málinu loknu. Á þeim grundvelli geri hann gjafsóknarþóknun varnaraðila 1 upptæka á skjön við fyrirmæli hans.

III.
Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar kemur fram að varnaraðili 1 telji sóknaraðila eiga réttmætt tilkall til þess hluta gjafsóknarþóknunarinnar sem honum voru tildæmdur vegna vinnu við málið og sóknaraðili hafði þegar innt af hendi í tengslum við það, þ.e. kr. 415.765. Hafi hann staðið í þeirri trú að varnaraðili 2 hafi komið þeim kr. 600.000 sem varnaraðila 1 voru tildæmdar í málskostnað til sóknaraðila eins og samkomulag hafði verið gert um.

Þá segir í greinargerð varnaraðila 1 að sú fjárhæð sem hann hafi innheimt úr hendi sóknaraðila hafi verið mun lægri en raunverulegt vinnuframlag hans í málinu hafi verið, enda hafi hann ekki fært alla vinnu sína inn á þær tímaskýrslur sem reikningar voru grundvallaðir á. Hafi þetta verið gert vegna knapprar fjárhagsstöðu sóknaraðila. Auk þess hafi hann tekið á sig útlagðan kostnað í tengslum við rekstur málsins.

Varnaraðili 1 hafnar því að reikningur að fjárhæð kr. 100.000, sem hann hafi gefið út á sóknaraðila hafi verið í tengslum við rekstur dómsmáls nr. E-xxx/2015. Umræddur reikningur hafi verið vegna ráðgjafar og aðstoðar við sáttaumleitanir og aðrar ráðstafanir til að aflétta ólögmætu ástandi sem falist hafi í því að sóknaraðili hafi ekki fengið barn sitt afhent eftir umgengni þess við föður. Skýrt komi fram í texta reikningsins að um sé að ræða vinnu vegna umgengnisdeilu. Þjónustan hafi verið veitt og fyrir hana greitt áður en sóknaraðili tók ákvörðun um að höfða mál fyrir dómstólum. Þar sem þessi kostnaður falli utan reksturs dómsmálsins taki gjafsóknarþóknunin ekki til hans og því geti varnaraðili 1 ekki fallist á endurgreiðslu fjárins.

Þá hafnar varnaraðili 1 kröfu um endurgreiðslu þóknunar að fjárhæð kr. 252.204 sem innheimt var í tengslum við gerð greinargerðar og uppsetningu málsskjala fyrir sóknaraðila sem varnaraðila í máli Hæstaréttar Íslands nr. zzz/2015. Hafi sóknaraðila verið tildæmdar kr. 400.000 í kærumálskostnað úr hendi gagnaðila í málinu. Bendir varnaraðili 1 á að áskilin þóknun hans í málinu að fjárhæð kr. 252.204 hafi verið mjög hófleg, sem endurspeglist m.a. í ákvörðun réttarins um kærumálskostnað. Fallist úrskurðarnefndin á endurgreiðslukröfu sókn¬araðila sé staðan sú að hann hafi engan kostnað haft af málinu en eigi kröfu úr hendi gagnaðila að fjárhæð kr. 400.000.

Ennfremur segir í greinargerð varnaraðila 1 að þegar sóknaraðili hafi ákveðið að höfða mál og verið leiðbeint um möguleika á að sækja um gjafsókn, hafi hann verið upplýstur um að ef gjafsókn fengist í málinu, myndi hún aðeins taka til kostnaðar vegna málsóknarinnar sjálfrar og því sem henni tengdist, en ekki til ráðgjafar eða aðstoðar við ráðstafanir sem hann gerði fyrir málsóknina, svo sem sáttaumleitana, ráðgjöf um úrræði vegna neitunar barnsföður um afhendingu barns, samskipti við yfirvöld vegna flutnings barns úr landi og fylgd út á flugvöll. Hafi varnaraðili 1 unnið öll þessi verk í þágu sóknaraðila í samræmi við óskir hans og án allra athugasemda, og hafi náð þeim árangri sem sóknaraðili hafi gert væntingar um. Bendir varnaraðili 1 á að það endurgjald sem hann hafi áskilið sér í tengslum við vinnu fyrir sóknaraðila sé hæfilegt í skilningi 24. gr. lögmannalaga nr. 77/1998, enda hafi sóknaraðili ekki gert at¬hugasemdir við umkrafðar fjárhæðir og dómstólar að jafnaði dæmt sóknaraðila mun hærri málskostnað en varnaraðili 1 hafi krafið fyrir vinnu sína.

Loks segir í greinargerð varnaraðila 1 að hann hafi litið svo á að varnaraðili 2 hafi tekið að sér að gera gjafsóknarsjóði reikning fyrir þeim kr. 600.000 sem varnaraðila 1 hafi verið tildæmdur vegna vinnu sinnar í máli nr. E-xxx/2015 og koma þeim í hendur sóknaraðila. Hafi varnaraðili 1 ítrekað en árangurslaust reynt að ná tali af varnaraðila 2 og sent honum tölvupósta til að reyna að greiða fyrir lausn málsins. Hins vegar sé varnaraðili 1 reiðubúinn til að gefa út reikning fyrir tildæmdum málskostnaði, þ.e. kr. 600.000 og greiða sóknaraðila, hafi varnaraðili 2 ekki afgreitt málið. Með því fengi sóknaraðili kr. 600.000 vegna málskostnaðar hennar að fjárhæð kr. 415.765, en að auki ætti sóknaraðili kr. 400.000 kröfu á hendur barnsföður sínum vegna tildæmds kærumálskostnaðar í Hæstarétti, sem kostað hafi kæranda kr. 252.204.

IV.
Í greinargerð varnaraðila 2 til úrskurðarnefndar kemur fram að hann telji að vísa beri málinu frá nefndinni þar sem það falli ekki undir ákvæði 26. gr. lögmannalaga nr. 77/1998, enda hafi sóknaraðili ekki gert athugasemdir við endurgjald lögmannanna. Einnig sé kröfunni beint gegn E lögfræðiþjónustu sem sé honum óviðkomandi, en ekki gegn honum persónulega eða lögmannsstofu hans. Þá hafi sóknaraðili aldrei farið fram á það við varnaraðila 2 að fá endurgreiddan kostnað vegna málsins, eins og fullyrt sé í framkominni kvörtun. Einnig sé rangt að varnaraðili 2 hafi leiðbeint sóknaraðila eða aðstandendum hans á þann veg að þeir fjármunir sem greiddir yrðu inn á vörslufjárreikning lögmannsstofunnar E fengjust endurgreiddir yrði gjafsókn samþykkt. Hið rétta sé að eftir niðurstöðu í máli Hæstaréttar nr. ZZZ/2015 hafi móðir sóknaraðila haft samband vegna tildæmds málskostnaðar í því máli. Hafi varnaraðili 2 tjáð henni að málskostnaður yrði innheimtur en óvíst væri um heimtur vegna bágrar fjárhagsstöðu gagnaðila. Hafi þær innheimtuaðgerðir ekki borið árangur en hins vegar sé krafa sóknaraðila að fjárhæð kr. 400.000, auk vaxta, enn til staðar. Ekki hafi staðið til að varnaraðili 2 tæki á sig fjárhagslega áhættu á málinu, en upplýst hafi verið að skapaðist inneign umfram kostnað hjá varnaraðila 2, yrði sú fjárhæð greidd inn á reikning foreldra sóknaraðila, að fengnu samþykki sóknaraðila. Hins vegar hafi varnaraðili 2 samþykkt að gefa ekki út reikninga á hendur sóknaraðila fyrr en að lokinni uppkvaðningu héraðsdóms og hafi varnaraðili 2 staðið við það. Engar greiðslu hafi hins vegar borist frá sóknaraðila eða aðstandendum hans. Þá hafi ekki legið fyrir að gjafsókn fengist í málinu þegar varnaraðili 2 tók við því í desember 2015.

Í greinargerð varnaraðila 2 kemur fram að málið hafi verið mjög umfangsmikið og tekið langan tíma. Þá hafi vinna varnaraðila 2 falist í ýmsu sem ekki tengdist dómsmálinu beint og féllu þar af leiðandi ekki undir gjafsóknarkostnað. Þar mætti nefna kæru til Hæstaréttar vegna bráðabirgðaumgengni og forsjár, vinna við meðlagsmál bæði á Íslandi og í Danmörku, samskipti vegna umgengni og tálmana, m.a. umtalsverð samskipti við ráðuneyti vegna kröfu um afhendingu barns á grundvelli alþjóðasamninga um brottnám barna, en barnsfaðir sóknaraðila hafði haldið barninu ólöglega í Bretlandi. Einnig hafi verið um að ræða vinnu varnaraðila 2 eftir héraðsdóminn, m.a. áfrýjun, krafa um gögn vegna nýrrar gjafsóknarbeiðni o.fl.

Þá segir í greinargerð varnaraðila 2 að samkvæmt tímaskýrslu hafi tímafjöldi vegna vinnu fyrir sóknaraðila verið um það bil 85 klst., auk fjölda vinnustunda sem ekki hafi verið reikn¬ingsfærð, m.a. vegna símtala og tölvupósta. Heildarkostnaður vegna vinnu í þágu sóknaraðila samkvæmt vinnuskýrslu hafi numið kr. 2.608.650.

Ennfremur segir í greinargerð varnaraðila 2 að ljóst sé að dæmdur gjafsóknarkostnaður í máli E-xxx/2015 hafi verið lægri en kostnaður sóknaraðila af vinnu beggja varnaraðila. Einnig liggi fyrir að vinna fyrir sóknaraðila hafi falist í umtalsverðri hagsmunagæslu sem ekki aðeins tengdist rekstri dómsmálsins í héraði og félli því ekki undir gjafsóknarkostnaðinn. Þannig hafi greiðslur til E lögfræðiþjónustu m.a. borist áður en ákveðið var að höfða dómsmálið og því hafi sóknaraðili eða aðstandendur hans ekki getað vænst þess að fá þann kostnað eða annan kostnað ótengdan héraðsdómsmálinu endurgreiddan.

Loks segir í greinargerð varnaraðila 2 að hann hafi gert innanríkisráðuneytinu reikning vegna dæmds gjafsóknarkostnaðar í heild sinni og skuldajafnað þeim greiðslum á móti skuld sóknaraðila við sig samkvæmt fyrirliggjandi tímaskýrslu. Varnaraðili 2 hafi hins vegar ekki gert sóknaraðila frekari reikning vegna mismunar á dæmdum kostnaði og vinnuframlagi hans fyrir sóknaraðila og það þó svo sóknaraðili stæði í skuld við varnaraðila 2 og ætti kröfu að fjárhæð kr. 400.000, auk vaxta og kostnaðar, á hendur gagnaðila í máli Hæstaréttar nr. zzz/2015, en kröfuna geti sóknaraðili eða aðstandendur hans innheimt. Verði hins vegar fallist á kröfur sóknaraðila eins og þær eru settar fram sé ljóst að sóknaraðili auðgist fjárhagslega á málinu.

Að mati varnaraðila 2 byggir krafa sóknaraðila á misskilningi aðstandenda hans. Krafa varnaraðila 2 til skuldajafnaðar á kr. 600.000 byggi á almennum reglum þar um enda öll skilyrði uppfyllt.


Niðurstaða.

I.
Um störf og hlutverk úrskurðarnefndar lögmanna er kveðið í lögmannalögum nr. 77/1998. Um valdsvið nefndarinnar er nánar kveðið í 4. kafla laganna. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna getur lögmaður eða umbjóðandi hans lagt mál fyrir úrskurðarnefnd lögmanna greini þá á um rétt lögmannsins til endurgjalds eða fjárhæð þess. Um meðferð þeirra mála, sem skotið er til nefndarinnar, er nánar fjallað í málsmeðferðarreglum hennar.

II.
Varðandi kröfu varnaraðila 2 um að vísa beri málinu frá þar sem það falli ekki undir ákvæði 26. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 og þar sem kærunni sé beint gegn E lögfræðiþjónustu en ekki honum persónulega eða lögmannsstofu hans, þá telur úrskurðarnefnd ekki tilefni til að fallast á frávísunar kröfu, enda kemur fram í kærunni að hún sé lögð fram á hendur varnaraðila 2 ásamt varnaraðila 1 og E lögfræðiþjónustu sem er í eigu hans og varði ennfremur ágreining um fjárhæð endurgjalds fyrir veitta lögfræðiþjónustu.

III.
Samkvæmt framlögðum gögnum í málinu sinnti varnaraðili 1 fjölbreyttri lögfræðiþjónustu fyrir sóknaraðila í ágreiningsmálum hennar og barnsföður hennar frá apríl 2015 til september 2016. Greiddi sóknaraðili og fjölskylda hennar varnaraðila 1 samtals kr. 772.969 fyrir þjónustu hans í þessum málum. Af þeirri fjárhæð verður að teljast sannað að kr. 352.204 hafi tengst hagsmunagæslu varnaraðila 1 vegna annarra mála en máli E-xxx/2015 sem rekið var fyrir Héraðsdómi K þar sem honum var tildæmd gjafsóknarþóknun að fjárhæð kr. 600.000. Telur úrskurðarnefndin innheimta þóknun varnaraðila 1 fyrir umrædda vinnu í þágu sóknaraðila hæfilega í skilningi 24. gr. laga nr. 77/1998. Fjárhæð þóknunar fyrir vinnu varnaraðila í gjafsóknarmálinu var ákvörðuð með dómi og kemur því ekki til álita í máli þessu.

IV.
Varnaraðili 2 sinnti líkt og varnaraðili 1 fjölbreyttri hagsmunagæslu fyrir sóknaraðila í ágreiningsmálum hennar og samkvæmt framlagðri tímaskýrslu voru skráðar vinnustundir vegna þeirra mála 85 talsins og nam þóknunarkrafa á grundvelli þeirra vinnustunda samtals kr. 2.608.650. Með dómi Héraðsdóms K í máli nr. xxx/2015 voru varnaraðila 2 dæmdar kr. 1.600.000 í gjafsóknarþóknun. Hvorki verður ráðið með skýrum hætti af tímaskýrslu eða greinargerð varnaraðila 2 hvernig vinnuframlag hans skiptist milli gjafsóknarmálsins og annarar hagsmunagæslu í þágu sóknaraðila, en ágreiningur um það atriði er ekki til úrlausnar fyrir nefndinni. Fyrir liggur í málinu að varnaraðili 1 veitti varnaraðila 2 umboð til innheimtu gjafsóknarþóknunar að fjárhæð kr. 600.000 vegna vinnu þess fyrrnefnda í máli sóknaraðila. Fékk varnaraðili 2 jafnframt fyrirmæli um að greiða fjárhæðina til sóknaraðila. Telur úrskurðarnefnd að varnaraðila 2 hafi skort heimild til að ráðstafa fjármununum með öðrum hætti en umboðið sagði til um. Niðurstaða nefndarinnar er því sú að varnaraðila 2 beri að skila sóknaraðila umræddri fjárhæð eins og honum hafði verið falið að gera.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Umkrafin þóknun varnaraðila 1 fyrir hagsmunagæslu í þágu sóknaraðila vegna annarra starfa en vörðuðu mál nr. E-xxx/2015, telst hæfileg í skilningi 24. gr. lögmanna¬laga nr. 77/1998. Varnaraðili 2 greiði sóknaraðila gjafsóknarþóknun varnaraðila 1, samtals að fjárhæð kr. 600.000.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA