Mál 5 2016

Ár 2016, fimmtudaginn 19. maí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði  Lögmannafélags Íslands.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2016:

R

gegn

S hdl.

og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 14. mars 2016 erindi R (hér eftir sóknaraðili) vegna S hdl. (hér eftir varnaraðili)  þar sem kvartað er yfir áskilinni þóknun varnaraðila. Óskað var eftir greinargerð varnaraðila vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 17. mars. 2016 og frestur veittur til 6. apríl. Barst svar varnaraðila með bréfi dags. 4. apríl 2016. Greinargerð varnaraðila var síðan send sóknaraðila til athugasemda með bréfi dags. 8. apríl og frestur veittur til 27. apríl s.m. Bárust athugasemdir sóknaraðila með bréfi dags. 26. apríl 2016. Síðastgreint bréf var svo sent varnaraðila til athugasemda með bréfi dags. 29. apríl og frestur veittur til 16. maí 2016. Lokaathugasemdir varnaraðila vegna málsins bárust svo þann 17. maí 2016.

 

Málsatvik og málsástæður

Aðdraganda þessa máls er að rekja til meiri háttar líkamsárásar af hálfu tveggja manna gegn sóknaraðila á X í júlí 2014. Leitaði sóknaraðili í framhaldi af þeim atburði til varnaraðila er var síðan ráðinn sem lögmaður hans vegna málsins og þar með til þess að leggja fram einkaréttarkröfu í málinu. Ákært var og sakfellt í Héraðsdómi Y og sóknaraðila jafnframt dæmdar bætur að fjárhæð kr. 514.700 auk vaxta á grundvelli einkaréttarlegra krafna sem varnaraðili lagði fram fyrir hönd sóknaraðila. Þá var ákærði dæmdur til að greiða málskostnað sóknaraðila máls þessa að fjárhæð kr. 140.120 vegna starfa varnaraðila að sakamálinu.

 

Í rökstuðningi sóknaraðila fyrir framangreindri kvörtun er tekið fram að ágreiningur standi um þann tímafjölda sem varnaraðili hafi reiknað sér vegna vinnuframlags en þar er um að ræða rétt um 24 klukkustundir samkvæmt fyrirliggjandi tímaskýrslu og tilgreindum forsendum varnaraðila. Að mati sóknaraðila er það of mikill tímafjöldi í ljósi umfangs málsins og er þess krafist af hans hálfu að kveðinn verði upp úrskurður um hæfilega þóknun til handa varnaraðila.

 

Af hálfu varnaraðila er þess krafist úrskurðarnefnd vísi máli þessu frá sér þar sem það hafi þegar hlotið úrlausn í Y með stefnu áritaðri um aðfararhæfi. Hafi stefnan verið birt fimm dögum áður en stofnað var til máls þessa. Auk þess rekur varnaraðili í lokaathugasemdum sínum vegna málsins hvernig það horfir við honum efnislega en óþarft þykir að rekja efni þeirra hér.

 

Niðurstaða

Í 24. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 er mælt svo fyrir að lögmanni sé rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skuli umbjóðanda hans gert það ljóst eftir því sem unnt er hver fjárhæð þess gæti orðið. Samkvæmt 1. ml. 1. mgr. 26. gr. sömu laga er unnt að leggja fyrir úrskurðarnefnd lögmanna ágreining um rétt lögmanns til endurgjalds eða fjárhæð þess. Í 2. og 3. mgr. ákvæðisins er að finna reglur um hvernig fara skuli með ágreiningsmál fyrir nefndinni ef dómsmál hefur áður verið höfðað um málið og einnig hvernig fara skuli með dómsmál sem höfðuð eru um kröfur, sem þegar eru til meðferðar hjá nefndinni. Eru þessi ákvæði svohljóðandi:

 Hafi dómsmál ekki verið höfðað um ágreiningsefni skv. 1. mgr. áður en það er lagt fyrir úrskurðarnefndina verður það ekki borið undir dómstóla á meðan málið er þar rekið.
 Ef lagt er fyrir úrskurðarnefndina ágreiningsefni sem dómsmál er rekið um getur hún að ósk annars eða beggja aðila látið í té álitsgerð til afnota þar. Hafi dómsmáli verið lokið um ágreiningsefnið vísar nefndin því frá sér.

Vegna þessara skýru fyrirmæla  fyrirmæla 2. ml. 3. mgr. 26. gr. laganna er óhjákvæmilegt að nefndin vísi frá sér máli, hafi dómsmáli verið lokið um ágreiningsefni sem lagt er fyrir hana. Þessi regla er enn frekar áréttuð í 2. mgr. 4. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar.

 

Eins og frá er greint hér að framan var sóknaraðila stefnt af hálfu varnaraðila með stefnu birtri þann x. apríl 201x. Stefnan var árituð af Y í samræmi við 113. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 þann x. apríl og ágreiningsefnið þar með til lykta leitt fyrir dómi. Í 3. mgr. 113. gr. sömu laga er mælt svo fyrir að dómsáritun hafi sama gildi og dómur í einkamáli.

 

Að öllu þessu gættu er óhjákvæmilegt að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd lögmanna.

 

Það athugast að í svarbréfi sóknaraðila dags. 17. apríl, vegna fyrrgreinds bréfs varnaraðila dags. 17. apríl, voru hafðar uppi tilteknar ávirðingar í garð varnaraðila sem vörðuðu brot á trúnaðarskyldu. Að þeim var aftur á móti ekkert vikið í kvörtunarbréfi sóknaraðila sem lagði grundvöll að máli þessu. Lúta þessar ávirðingar að allt öðru en ágreiningi um endurgjald og eru engum gögnum studdar. Verður ekki tekin afstaða til umgetinna ávirðinga í þessum úrskurði. Þess ber eigi að síður að geta í ljósi leiðbeiningarreglu 7. gr. stjórnsýslulaga, að unnt er að leggja fyrir úrskurðarnefnd erindi varðandi meint brot lögmanns á siðareglum innan eins árs frá því að kostur var að koma því á framfæri, sbr.  1. mgr. 27. gr.  sbr. 2.  mgr. 5. gr. laga um lögmenn.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Máli þessu er vísað frá nefndinni