Mál 14 2017

Ár 2017, föstudaginn 26. maí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

 

Fyrir var tekið mál nr. 14/2017:

R

gegn

S hrl.

og kveðinn upp svofelldur

 

                                                                  Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 8. mars 2017 erindi kæranda, R, um meint brot kærða, S hæstaréttarlögmanns, á 2., 19. og 22. gr. siðareglna lögmanna. Kærða var með bréfi dags. 14. mars 2017 gefinn kostur á að skila greinargerð vegna erindisins og barst hún nefndinni með 23. sama mánaðar. Þá barst úrskurðarnefndinni afrit af tölvupósti kærða til kæranda, dags. 15. mars 2017, þar sem hann fer fram á að stjórn kæranda tilgreini heimild sína til að gerast fyrir nefndinni sóknaraðili „að málum borgara gegn einstökum lögmönnum." Greinargerð kærða var send kæranda til athugasemda með bréfi dags. 29. mars 2017. Að fengnum fresti bárust athugasemdir kæranda 4. maí 2017. Þær athugasemdir voru sendar kærða til umsagnar með bréfi dags. 5. maí 2017 og bárust lokaathugasemdir hans úrskurðarnefnd með bréfi dags. 15. sama mánaðar. Bréf þetta var samdægurs sent kæranda til upplýsingar, ásamt þeirri athugasemd að nefndin teldi gagnaöflun vera lokið.

 

Í greinargerð sinni til nefndarinnar setti kærði fram ósk um að málið yrði flutt munnlega.

 

Málsatvik og málsástæður

I.

Kærði annast ásamt öðrum lögmanni málfærslu í dómsmáli á hendur opinberum stofnunum og Y-fyrirtæki, þar sem krafist er ógildingar með dómi á rekstrar- og starfsleyfum fyrirtækisins. Er málið allefnismikið og fylgja stefnu þess umfangsmikil gögn sem til stóð að leggja fram við þingfestingu málsins. Umbjóðandi kærða vildi óska eftir flýtimeðferð málsins og hafði kærði því símasamband við dómstjórann í U og átti við hann samtal um málið.

 

Í því símtali kveðst kærði hafa rætt um að gögn málsins væru allmikil að vöxtum og hafi hann spurt dómstjórann hvort hann vildi fá þau öll í hendur ásamt beiðninni um flýtimeðferð. Í ljósi þess að stefnan geymdi ítarlega lýsingu á málsatvikum kveður kærði það hafa orðið að samkomulagi í þessu símtali að hann myndi senda dómstjóranum stefnuna og skjalaskrá málsins, en hann myndi láta kærða vita ef hann teldi sig þurfa af sjá einhver þeirra skjala sem þar væru talin upp.

 

Beiðni kærða um flýtimeðferð liggur fyrir í máli þessu og er hún dagsett 5. desember 2016 og árituð um móttöku hjá dómstólnum sama dag. Í beiðninni segir m.a. „Með stefnunni fylgir listi yfir þau skjöl sem til stendur að leggja fram við þingfestingu málsins. Þau eru mikil að vöxtum. Ef þér óskið eftir að fá einhver þeirra til athugunar, áður en afstaða verður tekin til beiðninnar um útgáfu stefnunnar, verða þau send yður."

 

Með bréfi dags. 7. desember 2016 var þessari beiðni kærða um flýtimeðferð hafnað af dómstjóranum í U. Í bréfinu er rakið ákvæði 123. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þ.á.m. ákvæði 2. mgr. um að beiðni skuli fylgja þau málsgögn sem stutt geti beiðnina. Þá segir í bréfinu „Eins og áður segir fylgdi bréfi yðar aðeins stefna í fyrirhuguðu dómsmáli, ásamt skjalaskrá, þar sem talin eru upp þau málsgögn sem ætlunin er að leggja fram við þingfestingu málsins, alls 32 að tölu. Ekkert þeirra gagna fylgdi beiðni yðar. Hins vegar telur undirritaður að nauðsynlegt hefði verið að beiðninni fylgdu a.m.k. þau leyfi sem dómkröfur stefnanda lúta að, enda er byggt á því í málinu að málsmeðferð við útgáfu umræddra leyfa hafi verið verulega ábótavant. Fyrir vikið er ógjörningur að leggja mat á hvort fullnægt sé skilyrðum síðari málsliðar 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 til þess að verða við beiðninni. Að þessu virtu verður að hafna beiðni yðar um flýtimeðferð málsins."

 

Þessa skriflegu synjun á erindi kærða sendi dómstjórinn honum sem fylgiskjal með tölvupósti þann 7. desember. Í skeytinu er svohljóðandi texti „Sæll. Ég hef nú afgreitt erindi þitt, dags. 5. des. sl. Beiðni um flýtimeðferð er hafnað og fylgir bréf mitt þess efnis hjálagt. Ég hef þegar beðið afgreiðslu dómsins um að senda þér frumrit bréfsins ásamt gögnum málsins."

 

Kærði svaraði þessu skeyti dómstjórans um hæl með tölvuskeyti. Efni þess er svohljóðandi í heild sinni:

Sæll dómstjóri.

Efni þessa bréfs er furðulegt og reyndar eins konar högg undir beltisstað. Ég kom að máli við þig áður en ég sendi erindið. Ég sagði þér að gögn málsins væru mikil að vöxtum og gerði ráð fyrir að senda þau með. Þú taldir það óþarfa og komum við okkur saman um að þú fengir skjalaskrána og myndir svo kalla eftir gögnum ef þú teldir þörf á. Það er þá líklega best núna að senda þér nýja beiðni og láta öll gögnin fylgja.

Ég man ekki eftir svona framgöngu embættismanns eða dómara fyrr á starfsæfi minni sem spannar um hálfa öld.

Vonandi sefur þú vel næstu nótt.

Kveðja

S hrl"

 

Dómsstjórinn svaraði þessum skilaboðum samdægurs og sagðist þurfa að leiðrétta kærða. Segir dómstjórinn í skeytinu svo frá símtali þeirra um gagnaframlagningu „Ég sagði í samtali okkar að ekki væri nauðsynlegt að senda öll gögnin, en nefndi þó það dæmi að ef óskað væri flýtimeðferðar vegna ákvörðunar stjórnvalds þyrfti ég að sjálfsögðu að fá ákvörðunina. Að öðru leyti hirði ég ekki um ávirðingar þínar, en þykir leitt að þú hafir gleymt þessu samtali."

 

Kærði svaraði dómstjóranum enn með skeyti fjórum dögum síðar, þann 11. desember 2016. Þar segir hann „Ég finn hjá mér þörf á að ljúka þessum óskemmtilegu samskiptum við þig, mann sem ég hef jafnan talið að væri þokkalega heiðarlegur maður með sæmilegt jarðsamband.

 

Ég man samtal okkar á þann veg sem ég hef lýst. Kannski þú munir eftir að hafa sérstaklega tekið fram við mig eftir að þú fékkst erindið í hendur að vel væri frá öllu gengið af minni hálfu; hið eina sem til athugunar væri snerti blaðsíðu 19 í skjalinu. En jafnvel þó að þú hefðir rétt fyrir þér um efni fyrra samtalsins, þ.e. að þú hefðir óskað eftir að tiltekin skjöl fylgdu, mátti þér vera ljóst að eitthvað hefði farið milli mála þegar gögnin sem þú nefndir fylgdu ekki með bréfinu.

 

Allir venjulegir menn hefðu þá í ljósi samskipta okkar, tekið upp símann og gert viðvart um þetta. En ekki þú hinn mikli dómstjóri! Svo sendir þú mér í þokkabót svar sem er fullt af hroka og yfirlæti. Ef satt skal segja kenni ég í brjósti um þig. Menn sem koma svona fram eru að mínum dómi varla í góðu jafnvægi.

 

Ég mun núna eftir helgina senda að nýju óskina um flýtimeðferð, þó að ekki væri til annars en að skemmta þér í yfirlæti þínu.

Með kveðju,

S."

 

Þann 14. desember  2016 sendi kærði dómstjóranum nýja beiðni um flýtimeðferð og fylgdi henni þá öll gögn dómsmálsins. Er beiðnin að öllu verulegu leyti sama efnis og sú fyrri, en niðurlag hennar er svohljóðandi „ Með stefnunni fylgja í ljósriti þau skjöl sem til stendur að leggja fram við þingfestingu málsins. Brýnt er fyrir yður að kynna yður efni þeirra allra vandlega áður en þér takið afstöðu til erindis þessa. Þess er að vænta að yður muni auðnast að afgreiða erindi þetta hratt og örugglega."

 

Þessari síðari beiðni um flýtimeðferð var synjað af dómstjóranum í U með bréfi þann 19. desember, einkum með vísan til þess langa tíma sem hefði liðið frá því að umbjóðanda kærða hefði orðið kunnugt um hin umdeildu rekstrarleyfi, þar til beiðni um útgáfu réttarstefnu og flýtimeðferð var sett fram.

 

Þann 23. desember sendi kærði dómstjóranum enn tölvuskeyti þar sem hann segir:

 

Ég var að lesa synjun þína á beiðni um flýtimeðferð og rökin fyrir henni.

Leyf mér bara að segja við þig Þú ættir að láta af hroka og yfirlæti sem svo mjög hefur einkennt afstöðu þína í þessu máli. Það fer miklu betur á því að sleppa slíku þó að menn kunni að líta stórt á sig. Þeim líður að jafnaði betur þannig."

 

Þann 4. janúar 2017 sendi dómstjórinn bréf til formanns R þar sem hann rakti samskipti sín við kærða, sem hann lýsti sem heldur óskemmtilegum. Fylgdi afrit ofangreindra tölvupósta með erindinu. Kveðst dómstjórinn í bréfinu telja ástæðu til að vekja athygli R á framgöngu lögmannsins, sem hann telur bera vott um fádæma dónaskap, virðingarleysi og vanstillingu hans gagnvart lögboðnum verkefnum dómstjórans. Kveðst dómstjórinn telja einsýnt að framkoma lögmannsins brjóti í bága við 19. gr. siðareglna lögmanna, almenna kurteisi og samskiptavenjur og sé stétt lögmanna vart til framdráttar. Kveðst dómstjórinn ekki vera kunnugur því hvernig dómari eða dómstjóri eigi að fara með erindi sem þetta og leiti hann því til formanns R. Hvernig formaðurinn eða R kjósi að aðhafast láti hann sig ekki varða en hann óski þess að hvorki hann né aðrir í sinni stöðu þurfi eftirleiðis að sitja undir skætingi sem þessum.

 

Erindi dómstjórans var tekið fyrir á fundi stjórnar R og var þar samþykkt að óska afstöðu kærða til erindis dómstjórans og skýringa á þeim samskiptum sem um ræðir, sérstaklega með tilliti til ákvæða 2., 19. og 22. gr. siðareglna lögmanna. Var bréf þess efnis sent kærða 24. janúar 2017. Kærði svaraði bréfinu þann 31. janúar 2017 og rakti þar málsatvik eins og þau horfðu við honum ásamt eigin sjónarmiðum um eigin framgöngu og dómstjórans í umræddum samskiptum, en þau eru í samræmi við málatilbúnað hans fyrir nefndinni í máli þessu. Að fengnum þessum svörum ákvað stjórnin að beina kvörtun til úrskurðarnefndar og barst hún nefndinni svo sem fyrr greinir þann 8. mars 2017.

 

II.

Kærandi krefst þess að úrskurðarnefnd lögmanna úrskurði hvort háttsemi kærða í garð dómstjórans í U samræmist siðareglum lögmanna og ákvarði honum viðurlög til samræmis við tilefnið, teljist svo ekki vera. Úrskurðarnefndin lítur svo á að um sé að ræða kvörtun reista á 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

 

Kærandi telur heimild sína til að beina þessari kvörtun að úrskurðarnefnd hafna yfir vafa. Rekur kærandi hvernig hann telur sjálfstætt félag X og þær siðareglur sem það hefur sett félagsmönnum sínum mikilvægan hluta af réttarríkinu. Telur kærandi að það græfi undan lögbundnu valdi félagsins ef það gæti aðeins sett félagsmönnum siðareglur, en alls ekki brugðist við ef þeir túlkuðu reglurnar eftir hentisemi. Fram komi í 27. gr. lögmannalaga að telji „einhver að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða reglum skv. 2. mgr. 5. gr." geti hann lagt mál fyrir úrskurðarnefndina. Orðið „einhver" í þessu sambandi nái yfir kæranda, enda hafi kærandi lögvarða hagsmuni af málinu. Hafi aðildin verið víkkuð út við meðferð Alþingis á frumvarpi til lögmannalaga í því skyni að um greiða kæruleið yrði að ræða og sé nauðsynlegt að túlka kröfuna um lögvarða hagsmuni rúmt, eins og jafnan í stjórnsýslumálum. Hafi dómstólar jafnframt fallist á rúma túlkun að þessu leyti, sbr. dóm Hæstaréttar í dómasafni 1951, bls. 20. Aðild R að kærunni sé í samræmi við lögbundið hlutverk þess og reglur, en í 1. mgr. 43. gr. siðareglna komi m.a. fram að það sé hlutverk stjórnar „að hafa eftirlit með því að þessum reglum sé fylgt."

 

Kærandi telur að þau brot sem hér um ræðir beinist gegn sérstaklega mikilvægum hagsmunum lögmanna, þ.e. virðingu fyrir stétt lögmanna. Ávinni lögmenn sér ekki virðingu, skaði það allan málflutning þeirra og grafi undan hlutverki þeirra. Kærandi telur að hagsmunir dómstjórans í U komi ekki í veg fyrir málsaðild R.

 

Verði ráðið af bréfi hans að hann geri engar kröfur um framhald málsins, en hann hafi hins vegar uppi þá ósk að hvorki hann sjálfur ná aðrir í hans stöðu þurfi að sitja undir skætingi eins og þeim sem hér um ræði. Hafi hann því beint erindinu til formanns R vegna stöðu hans og vegna eigin stöðu sem dómara eða dómstjóra.

 

Í 3. mgr. 43. gr. siðareglnanna komi svo fram að nefndin skeri úr ágreiningi um skilning á reglunum. Málsmeðferðarreglur nefndarinnar, sem settar séu með stoð í 1. mgr. 4. gr. lögmannalaga og komi þar m.a. fram að hlutverk nefndarinnar sé „að fjalla um kvörtun á hendur lögmanni frá aðila vegna háttsemi sem kann að stríða gegn lögum eða siðareglum LMFÍ" og „að fjalla um erindi sem stjórn R sendir nefndinni skv. 3. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna". Þessar reglur séu í samræmi við lögmannalög, enda sé vandséð hvernig R gæti sinnt lögbundnu eftirlitshlutverki sínu geti það ekki leitað úrlausnar nefndarinnar um meint brot lögmanna á siðareglum. Kvörtun í þessu máli varði brot gegn þeim hagsmunum sem R beri að gæta og vinna að.

 

Kærandi bendir á að nokkur vafi leiki á um atvik málsins að því leyti að kærða og dómstjóranum segist ekki eins frá um niðurstöðu símtals síns varðandi gagnaframlagningu með beiðni kærða um flýtimeðferð. Sé frásögn kærða um að tekist hafi með honum og dómstjóranum samkomulag um gagnaframlagningu, eins og hann lýsir því, með öllu ósönnuð. Hvað sem því líði þá áskilji 1. málsliður 2. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 að beiðni um flýtimeðferð skuli fylgja þau málsgögn sem stutt geti beiðnina. Sé útilokað að sá sem beiðist flýtimeðferðar geti komist með öllu hjá því að láta fylgja einhver gögn. Sé frásögn dómstjórans um efni símtalsins því í samræmi við ákvæðið en samkomulag það sem kærði lýsir um gagnaframlagningu jafnvel andstætt almennri skyldu dómstjórans til að gæta óhlutdrægni í störfum sínum og skyldu lögmannsins til að kappkosta að vanda málatilbúnað sinn fyrir dómi, sbr. 22. gr. siðareglna lögmanna.

 

Kærandi telur að það sem fyrir liggi um samskipti kærða og dómstjórans sýni að kærði hafi brotið gegn siðareglum lögmanna. Tilgreinir kærandi sérstaklega skyldu lögmanna skv. 2. gr. reglnanna til að gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, ákvæði 19. gr. reglnanna um að lögmanni sé skylt að sýna dómstólum „fulla tillitssemi og virðingu í ræðu riti og framkomu" og skyldu lögmanna skv. 22. gr. til að stuðla að greiðri og góðri málsmeðferð. Tölvuskeyti kærða til dómstjórans samrýmist ekki þessum ákvæðum. Kærði hafi án sannanlegs tilefnis lýst embættisfærslu dómstjórans sem „höggi undir beltisstað" og óskað honum með tvíræðum hætti góðs nætursvefns. Þá hafi hann lýst persónu dómstjórans með niðrandi hætti og m.a. gefið til kynna að hann væri óheiðarlegur maður og með slakt „jarðsamband" sem skorti jafnvægi. Þá hafi hann lýst afgreiðslu dómstjórans sem hroka- og yfirlætisfullri.

 

Kærandi undirstrikar að hver sem sannleikurinn er um efni umdeilds símtals verði kærði að kunna sér taumhald, jafnvel þegar hann upplifir rangindi af hálfu dómara. Kærandi bendir á að eins og hér háttaði til hefði kærða verið vandalaust að halda aftur af sér, enda hafi ekki verið um að ræða orðaskipti í dómssal eða aðrar aðstæður þar sem bregðast þurfti við tafarlaust. Hefði kærða verið rétt að geyma sér ákvarðanir um viðbrögð, gæta hófs og mæla betur orð sín.

 

Kærandi telur hófsemd í framkomu og orðavali gagnvart dómstólum vera veigamikinn þátt í að gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, sbr. 2. gr. siðareglnanna. Skefjalítil gagnrýni á borð við þá sem birtist í skrifum lögmannsins sé ósamrýmanleg skyldu hans til að gæta tillitssemi og virðingar gagnvart dómstólum. Hafi framganga kærða ekki verið nauðsynleg til að gæta hagsmuna umbjóðanda hans, heldur þvert á móti verið til þess fallin að spilla fyrir meðferð málsins og draga athyglina frá því málsefni sem var til umfjöllunar.

 

Kærandi telur að viðhorf kærða til virðingar krefjist þess að brugðist sé við, en hann virðist telja virðingu lögmannastéttarinnar aukast í takti við þá lítilsvirðingu sem hann sýni öðrum.

 

III.

Kærði krefst þess að málinu verði vísað frá úrskurðarnefnd en að öðrum kosti að öllum kröfum kæranda um að honum verði gerð viðurlög, verði hafnað. Loks gerir kærði kröfu um að kæranda verði gert að greiða sér ómaksþóknun vegna málsins.

 

Kærði gerir alvarlegar athugasemdir við að stjórn R leggist í duftið gagnvart dómstjóranum með því að gerast kærandi í þessu máli. Hefði R verið rétt að vísa erindi hans frá, eða vísa honum á úrskurðarnefndina ella, enda geri málsmeðferðarreglur nefndarinnar ráð fyrir að erindum frá þeim sem telja að lögmenn hafi gert á sinn hlut. Sé enga heimild að finna í reglum til þess að stjórn R taki upp mál einstakra manna. Hafnar kærði öllum tilraunum kæranda til að styðja heimildir sínar til málareksturs þessa við stjórnarskrána eða með vísan til nauðsynjar á sjálfstæðu félagi X. Þá bendir kærði á að kærandi hafi í engu útskýrt hvaða einstaklingar geti notið þess að stjórn R reki fyrir þá kærumál fyrir úrskurðarnefndinni. Telur kærði þennan málatilbúnað kalla á spurningar um hvaða verðleika menn þurfi að hafa til að stjórnin taki mál þeirra upp með þessum hætti og hvort í þeim efnum sé einkum horft til þess hvort þeir séu handhafar opinbers valds sem stjórnin vilji koma sér vel við. Taki stjórnin sér með rekstri málsins vald til að fylgjast með og grípa inn í ef hún hefur spurnir af því að einstakir lögmenn geri eitthvað sem henni fellur ekki í geð.

 

Sams konar athugasemd gerir kærði að því leyti að kærandi hafi ekki útskýrt í hvaða aðstæðum það komi til greina að stjórnin beiti þessu agavaldi sem hún telji sig hafa yfir lögmönnum. Telur kærði málatilbúnaðinn grímulausa árás á tjáningarfrelsi sitt. Hann hafi oft og einatt gagnrýnt handhafa dómsvalds fyrir beitingu þess í einstökum málum og þá á opinberum vettvangi. Nú virðist hins vegar að gagnrýni á dómendur, jafnvel í samskiptum einstakra lögmanna við einstaka dómendur, kalli á að stjórnin telji sig hafa lögvarða hagsmuni af að tyfta lögmenn til.

 

Kærði telur málatilbúnað kæranda kostulegan að því leyti að svo virðist sem því sé í senn haldið fram að stjórnin komi fram í umboði dómstjórans og að hann eigi enga aðild að málinu. Það sé þó í raun frekar einfalt að í lögum um lögmenn sé að finna ákveðnar heimildir til að leggja mál fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, sbr. einkum 1. mgr. 27. gr. laganna. Sé málsaðild í höndum þess sem telur gert á hlut sinn. Stjórnsýsluhafar geti hins vegar ekki stofnað til mála af þessu tagi án skýrrar lagaheimildar. Hún sé ekki fyrir hendi.

 

Kærði telur að kæranda hafi yfirsést aðalatriði málsins, þ.e. framkoma dómstjórans í U og ólögmæt afgreiðsla hans á flýtimeðferðarbeiðni kærða f.h. umbjóðanda síns. Beiðnin, drög að stefnu og skjalaskrá sem henni fylgdi hafi borið mér sér allt sem þurfti til afgreiðslu málsins. Kveðst kærði nýlega hafa tíðkað sömu vinnubrögð við flýtimeðferðarbeiðni við annan héraðsdómstól án vandræða. Hins vegar sé í beiðninni sérstaklega tekið fram að ef dómstjórinn óskaði þess að fá einhver skjalanna til athugunar áður en hann afgreiddi beiðnina, yrðu þau send honum. Þrátt fyrir þetta hafi dómstjórinn hafnað beiðninni með þeim rökum einum að ekkert skjalanna á listanum hafi fylgt beiðninni. Felist viðurkenning á því í svarbréfi dómstjórans á að ekki hefði þurft að senda öll gögnin. Þess sé hins vegar ekki getið í synjunarbréfinu að sá sem sendi beiðnina inn hafi sérstaklega tekið fram að hann myndi senda þau skjöl sem þörf yrði talin á. Þetta telur kærði ekkert minna en hrein misnotkun á valdi. Sé því líkast sem dómstjórinn hafi átt persónulegt erindi við kærða.

 

Kærði áréttar í þessu sambandi að enda þótt hann haldi sig fyrir sitt leyti við sína endurminningu um símtal sem þeir áttu áður en beiðnin var send inn, skipti sú óvissa þó ekki öllu því jafnvel þótt frásögn dómstjórans af því símtali sé lögð til grundvallar, þá mátti honum að minnsta kosti vera ljóst að eitthvað hafði farið úrskeiðis í samtali þeirra þegar honum barst erindið. Þar var sérstaklega vikið að skjölum og að hann fengi send þau gögn sem hann teldi nauðsynleg um leið og hann gerði kærða viðvart. Kveðst kærði einkum hafa viljað spara dómstjóranum umstang og tíma með því að senda honum ekki allan skjalabunkann að þarflausu.

 

Kærði telur að ummæli sín í tölvupóstum til dómstjórans hæfi tilefninu og ef eitthvað er, hafa verið kurteislegri en afgreiðsla hans á erindi kærða gaf tilefni til.

 

Í pósti sama dag og synjunin barst hafi kærði lýst afgreiðslu dómstjórans sem höggi undir beltisstað. Hér sé auðvitað vísað til þess að kærði hafi þurft að kynna umbjóðanda sínum að hann hafi ekki kunnað að leggja óskina um flýtimeðferð fyrir. Varpar kærði fram þeirri spurningu hvort nokkur vafi leiki á því að dómstjórinn hafi verið að reyna að gera sig að óhæfum lögmanni í augum umbjóðanda síns.

 

Í sama pósti hafi kærði sagt að hann myndi ekki eftir svona framgöngu á starfsævi sem spannaði hálfa öld. Þetta sé einfaldlega satt.

 

Kærði kveðst hafa grun um að þeir sem geri á hlut annarra sofi illa fyrst á eftir, þótt hann þekki það aðeins af afspurn. Hafi hann bara viljað að dómstjórinn vissi af góðum óskum hans í þessu efni.

 

Dómstjórinn hafi ritað honum svar þar sem segi orðrétt „Að öðru leyti hirði ég ekki um ávirðingar þínar..." Þetta hrokafulla svar virðist hafa farið fram hjá kæranda, en það sé auðvitað það sem vísað sé til þegar kærði talar um að það sé fullt af hroka og yfirlæti í pósti sínum frá 11. desember. Í því skeyti komi jafnframt fram að kærði kenni í brjósti um dómstjórann því framkoman bæri með sér að hann væri ekki í góðu andlegu jafnvægi. Þetta kveðst kærði hafa sagt af einskærri velvild og í þeirri von að dómstjórinn hefði vilja til að bæta ráð sitt í framtíðinni. Loks feli lokapóstur kærða til dómstjórans aðeins í sér endurtekningu á fyrri orðsendingum.

 

Bendir kærði á að í erindi kæranda sé ekkert fjallað um þá furðulegu framgöngu að synja beiðninni um flýtimeðferð með vísan til fylgigagna, enda sé erindið mjög hlutdrægt til hagsbóta fyrir dómstjórann. Þar sé fjallað um að frásögn kærða af símtali þeirra dómstjórans sé ósönnuð, en ekkert vikið að því að kærði hafi bent kæranda á að framganga dómstjórans sé óverjandi jafnvel þótt byggt sé á hans eigin frásögn um þetta símtal. Staðhæfing kæranda um að athugsemdir kærða hafi verið „án sannanlegs tilefnis" veki spurningar um hvort kærandi skilji málið.

 

Kærði telur sig hafa sýnt andúð gegn þeim valdhroka og yfirlæti gagnvart lögmönnum sem dómstjórinn hafi sýnt og þannig staðið vörð um heiður lögmannastéttarinnar, öfugt við kæranda sem sýni af sér undirlægjuhátt. Kærði hafi sýnt dómstjóranum alla þá tillitssemi, sbr. 19. gr. siðareglna, sem hann hafi til unnið. Þá kveðst kærði játa að hann sé ekki mjög upptekinn af því að gæta þess heiðurs, en reyni að eigin dómi að gæta síns eigin heiðurs. Hann felist ekki í því að beygja af í undirgefni þegar valdsmenn sýni þeim hagsmunum sem honum er trúað fyrir rangsleitni og yfirgang. Í þessu tilviki hafi kærði ekki sagt neitt ljótt við dómstjórann, en látið hann vita hvaða skoðun hann hefði á þeim aðferðum sem dómstjórinn viðhafði, þegar hann braut á rétti umbjóðanda kærða. Hafi kærði borið siðferðilega skyldu til að gera það án umbúða.

 

Kærði undirstrikar að sá sem misfari með ríkisvald sem honum er trúað fyrir, vinni sér ekki til virðingar. Stjórn í félagi X, sem stofni til kærumála á hendur félagsmanni fyrir að standa í lappirnar gegn misnotkun dómsvalds, sé ekki að gæta heiðurs.

 

Niðurstaða

I.

Undir rekstri málsins ákvað úrskurðarnefnd að ekki væru efni til þess að málið yrði flutt munnlega fyrir nefndinni þar sem málatilbúnaður aðila kæmi fram með fullnægjandi hætti í skriflegum gögnum málsins, en sú afstaða er og í samræmi við framkvæmd til margra ára.

 

Í 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn segir:

 

„Nú telur einhver að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða reglum skv. 2. mgr. 5. gr. og getur hann þá lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri.

 

Í máli skv. 1. mgr. getur úrskurðarnefndin fundið að vinnubrögðum eða háttsemi lögmanns eða veitt honum áminningu. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin brugðist svo við sem um ræðir í 1. mgr. 14. gr."

 

Í 43. gr. siðareglnanna segir:

„Stjórn R hefur eftirlit með því, að reglum þessum sé fylgt. Hún hefir um það samráð við dómstóla og stjórnardeildir eftir því sem ástæða er til.

 

Stjórn R skal leitast við að leysa úr deilum lögmanna innbyrðis.

 

Úrskurðarnefnd lögmanna sker úr ágreiningi um skilning á reglum þessum.

 

Lögmanni er skylt, að boði R eða, eftir atvikum, úrskurðarnefndar lögmanna, að gera viðhlítandi grein fyrir máli sínu út af meintu broti eða ágreiningi um skilning á reglum þessum. Ber lögmanni í því efni að svara og sinna án ástæðulauss dráttar fyrirspurnum og kvaðningum R eða úrskurðarnefndarinnar."

 

Í 3. mgr. 3. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar, þar sem fjallað er um hlutverk hennar, er eitt af hlutverkunum tilgreint svo, að fjalla um erindi sem stjórn R sendir nefndinni skv. 3. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna.

 

Frávísunarkrafa kærða byggist á því að stjórn kæranda hafi að eigin frumkvæði kært málið til úrskurðarnefndarinnar en hafi ekki heimild til að stofna til málsins, enda hafi ekki verið misgert við hana og hún hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Er vegna þessa nauðsynlegt að fara nokkuð yfir hvort og þá í hvaða mæli kærandi geti staðið að kvörtunum til nefndarinnar.

 

Kærandi hefur samkvæmt 5. gr. laga nr. 77/1998 m.a. það hlutverk að koma fram fyrir hönd lögmanna gagnvart dómstólum og stjórnvöldum um þau málefni sem varða stétt lögmanna. Eru samþykktir kæranda í samræmi við þetta og er tilgangur félagsins skilgreindur svo í 2. gr. þeirra að hann sé m.a. að sinna lögboðnu eftirlits- og agavaldi.

 

Að ofan er rakinn áskilnaður 27. gr. lögmannalaga um að kærandi í máli byggi á því að kærði hafi gert á sinn hlut. Allsherjarnefnd Alþingis mótaði þetta lagaákvæði og orðalag þess með eftirfarandi röksemd: „Þá leggur nefndin til breytingu á 27. gr. varðandi það hver hefur aðild til að leggja kvörtun fyrir úrskurðarnefndina. Í frumvarpinu er aðeins gert ráð fyrir að umbjóðandi lögmanns hafi kvörtunarrétt, en eðlilegt þykir að víkka heimildina út, þannig að um greiða kæruleið verði að ræða. Því er lagt til að ef einhver telur að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða reglum geti hann lagt kvörtun fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Er þetta í samræmi við gildandi rétt."

 

Af ofangreindum ummælum allsherjarnefndar virðist ljóst að skilningur löggjafans var sá að rétt væri að víkka aðildina að kærum út fyrir þann hóp sem telur umbjóðendur lögmanna svo hún næði einnig til annarra þeirra sem misgert kynni að vera við með brotum.

 

Samkvæmt þessu og með hliðsjón af fyrrgreindu ákvæði 1. mgr. 43. gr. verður að játa stjórn R formlegan rétt til þess að bera fram kvörtun þegar hún telur að lögmaður hafi brotið gegn lögum eða siðareglum og að brotið hafi beinst gegn hagsmunum lögmanna almennt eða R. Þykir því mega hafna kröfu kærða um frávísun á þessum grunni. Hins vegar felst ekki í þessu að kærandi geti knúið fram umfjöllun vegna kvartana sinna sem beinast að því að lögmaður hafi í störfum sínum brotið gegn ákveðnum aðila, sem fer þá með forræði á því sakarefni, þ.á.m. á ákvörðun um hvort þeir beini kæru til úrskuðarnefndar eða ekki. Beinist skoðun nefndarinnar á meintum brotum jafnan að því hvort kærði hafi gerst brotlegur við kæranda. Jafnvel þótt það kunni að þykja óheppilegt að lögmenn geti brotið siðareglur án nokkurra afleiðinga ef þeir sem hagsmuni eiga hverju sinni stofna ekki til kærumáls, fær það ekki haggað þessari niðurstöðu. Fæst ekki séð að nauðsyn sé á sérstakri lagaheimild kæranda til handa til að hann geti staðið að kærum.

 

Telur úrskurðarnefndin að í fyrrgreindum reglum felist áskilnaður um að úrslit máls varði kæranda með þeim hætti að hann verði talinn hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Fyrrnefnt ákvæði í siðareglum lögmanna um að stjórn R hafi eftirlit með því, að reglunum sé fylgt fær ekki hnekkt því. Í því felst bæði að lögvarðir hagsmunir þurfa að vera fyrir hendi og að kærandi sé réttur eigandi þeirra. Til þess er einnig að líta að umræddir hagsmunir séu ekki of almennir. Þeir þurfa að einhverju marki að vera beinir og einstaklingslegir umfram það sem aðrir hafa að gæta. Að öðrum kosti ætti hver sök sem vill, (actio popularis). Nefndin telur hagsmunina nægjanlega sérgreinda ef lögmaður með háttsemi sinni setur virðingu stéttarinnar niður með brotum á lögum eða siðareglum enda ber honum að gæta heiðurs stéttarinnar, sbr. 2. gr. siðareglna. Telur nefndin, með vísan til þess sem áður er rakið um eðli og hlutverk R, að R sé bært um að reka slíka hagsmuni fyrir nefndinni.

 

Í máli þessu kemur aðeins til skoðunar hvort brotið hafi verið gegn kæranda og þeim hagsmunum sem hann stendur fyrir. Matið á því hvers konar brot fari gegn hagsmunum lögmanna almennt er ekki einfalt, en þar undir virðist þó mega fella þá hagsmuni að lögmannastéttin gegni því hlutverki og njóti þeirrar stöðu sem henni er ætluð í lögum og að ekki sé grafið undan henni með háttsemi sem fer í bága við góða lögmannshætti og ýmsar siðareglur, einkum í I., III. og VI. kafla, en einnig ákvæði í öðrum köflum þar sem verndarhagsmunir eru almennir, t.d. 18. gr. og 2. mgr. 33. gr. Að því er varðar III. kafla siðareglnanna sérstaklega, er til þess að líta að hann fjallar ekki um skyldur lögmanna gagnvart dómstólum eingöngu, heldur er markmið reglnanna að tryggja að lögmenn inni sem best af hendi sitt hlutverk við rekstur dómsmála. Er útilokað að leggja þann skilning í þessi ákvæði að þeim verði með engu móti beitt án þess að einstakir dómendur eða dómstólar takist á hendur málarekstur fyrir nefndinni gegn einstökum lögmönnum.

 

Það er út af fyrir sig rétt hjá kærða að stjórn R þarf að gæta mjög að því, við hvaða aðstæður hún telur rétt eða nauðsynlegt að beina erindum til nefndarinnar þegar hún telur siðareglur hafa verið brotnar, án þess að neinn annar sem misgert er við beri málið fram með kæru. Það haggar hins vegar ekki þeirri niðurstöðu að kærandi verður talinn til þess bær að bera mál þetta undir nefndina enda lýtur sakarefni málsins að því hvort kærði hafi í samskiptum sínum við dómstjóra Héraðsdóms U, sem að framan er lýst, gert á hlut lögmannastéttarinnar eða lögmanna almennt í skilningi 27. gr. lögmannalaga.

 

II.

Dómendur eru í störfum sínum í ákveðinni aðstöðu. Þeim er að lögum falið það hlutverk að leggja mat á málatilbúnað málsaðila, sem almennt er borinn upp af lögmönnum. Leiðir af eðli máls að það verður ekki gert svo öllum líki. Niðurstöður þeirra eru oft umdeilanlegar og er það algengara en ekki að úrlausnir þeirra falli í grýttan jarðveg hjá aðilum og lögmönnum að einhverju leyti. Er enda algengt að lögmenn og aðilar telji einsýnt að úrlausnir dómara séu rangar, fái ekki staðist endurskoðun og freisti þess að fá þeim snúið við með málskoti til æðra dómstigs.

 

Það leiðir af þessari aðstöðu og þeim stöðugu samskiptum sem eru á milli lögmanna og dómenda, að mjög mikilvægt er að lögmenn sýni stillingu í samskiptum sínum við dómendur, þótt þeim mislíki úrlausnir dómstóla. Þetta á að sjálfsögðu ekki að girða fyrir að lögmenn haldi uppi efnislegri og málefnalegri gagnrýni á niðurstöður dómstóla, en eins og kærði bendir á í málatilbúnaði sínum hefur hann einmitt stundað það, flestum öðrum fremur.

 

Þá er ekkert að því þótt lögmenn komi því á framfæri með boðlegum hætti ef þeim er misboðið. Þurfa þeir að vera tilbúnir til að ganga fram af fullri einurð ef svo ber undir og vera tilbúnir til að neyta allra lögmætra úrræða. Á undirlægjuháttur alls ekki við í þessum samskiptum. Það breytir því ekki að í samskiptum við dómstóla í tengslum við erindi til þeirra verða lögmenn að koma fram af virðingu og forðast að draga persónu dómarans að óþörfu inn í efnislegan ágreining um einstakar úrlausnir. Myndi það stórlega skaða fagleg og eðlileg samskipti lögmanna og dómara ef lögmenn settust jafnóðum sjálfir í dómarasæti yfir úrlausnum dómstóla, og létu dómendur þá heyra það „án umbúða" ef þær væru þannig léttvægar fundnar.

 

Ákvæði III. kafla siðareglna lögmanna, sérstaklega 19. gr., eru á þessu byggð. Brot gegn þeirri grein er ekki aðeins á hlut dómstóla heldur að sama skapi á hlut lögmannsstéttarinnar. Efni 19. gr. er svohljóðandi í heild sinni.

 

„Lögmaður skal sýna dómstólum fulla tillitssemi og virðingu í ræðu, riti og framkomu.

 

Lögmaður skal eftir sem áður gæta hagsmuna skjólstæðings síns fyrir dómi af fullri einurð og heiðarleika og án tillits til eigin hagsmuna eða hagsmuna annarra."

 

Að mati nefndarinnar er rangt hjá kærða að aðalatriði málsins sé hvort úrlausn dómstjórans var efnislega rétt eða röng. Synjun dómstjóra um útgáfu stefnu til flýtimeðferðar á einkamáli sætir kæru til Hæstaréttar samkvæmt n-lið 1. mgr. 143. gr. laga um meðferð einkamála. Í stað þess að fara þá leið ákvað kærði að leggja beiðnina fyrir á nýjan leik fyrir hönd umbjóðanda síns, svo sem honum var einnig heimilt. Hins vegar skýrir ekkert í gögnum málsins eða málatilbúnaði kærða af hverju hann taldi að í úrlausninni fælist „hrein misnotkun á valdi" eða af hverju kærði dró þá ályktun að ákvörðuninni væri sérstaklega beint gegn sér persónulega eða ætlað að gera lítið úr honum í augum umbjóðanda hans. Þá er alls ekki unnt að fallast á að viðbrögð dómstjórans í athugasemdum hans hafi farið fram úr því sem tilefni var til eða að orðin „Að öðru leyti hirði ég ekki um ávirðingar þínar..."  hafi við þessar aðstæður kallað á sérstakt andóf kærða gegn valdhroka og yfirlæti gagnvart lögmönnum.

 

Þegar metin eru þau skrif sem kærði sendi dómstjóranum í U og fólu í sér viðbrögð kærða við úrlausn hans, er það mat nefndarinnar að kærði hafi farið langt út fyrir þau mörk sem ákvæði 19. gr. siðareglna lögmanna setur. Það getur ekki talist eðlilegt að lögmenn setji sig í beint samband við dómendur til að fjalla um óánægju sína með úrlausnir þeirra eftir að þær koma fram með þeim hætti sem gert var. Einstök ummæli kærða í þessum samskiptum, sem að ofan eru rakin, um högg undir beltisstað, um nætursvefn dómarans, hroka, yfirlæti, skort á jarðsambandi, heiðarleika og að hann sé varla í góðu jafnvægi, eru fjarri því sem er viðeigandi í samskiptum lögmanna við dómendur. Með þessu er gefið í skyn að umræddan dómara skorti þá lyndiseinkunn sem dómara þarf að prýða og dómstólalög gera ráð fyrir. Ekkert tilefni var til þessa. Ekki fæst séð að þessi tilskrif kærða hafi á nokkurn hátt þjónað þeim tilgangi að gæta hagsmuna skjólstæðingsins og verða þau ekki réttlætt með því. Ekki verður talið að kærði hafi brotið gegn ákvæði 22. gr. siðareglna um vandaðan málatilbúnað fyrir dómstólum, enda voru umrædd skrif ekki hluti af neinum málatilbúnaði.

 

Við ákvörðun viðurlaga er horft til þess að brot kærða lýtur að þeim mikilvægu hagsmunum réttarkerfisins að samskipti séu fagleg og grundvölluð á virðingu. Víki lögmenn frá þessu í andstöðu við lög eða siðareglur er farið gegn þeim hagsmunum og þar með einnig hagsmunum skjólstæðinga þeirra. Nefndin telur brot kærða alvarlegt og sætir hann áminningu vegna þess.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, S hrl., sætir áminningu.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA