Mál 18 2017

Ár 2017, 9. nóvember 2017, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 18/2017:

A ,

gegn

B hrl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 7. apríl 2017 erindi kæranda, A, en í því er kvartað yfir því að kærði, B hæstaréttarlögmaður, með starfsstöð að C, Reykjavík, hafi brotið gegn 18. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, sbr. einnig 27. gr. laganna, í störfum sínum í þágu kæranda.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 11. apríl 2017 og barst hún þann 3. maí 2017. Var kæranda send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 9. maí 2017. Hinn 23. maí 2017 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar til kærða þann 26. sama mánaðar. Ekki bárust frekari athugasemdir eða gögn frá málsaðilum og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum lenti kærandi í umferðarslysi þann 4. júlí 2014. Mun hann hafa leitað til kærða í kjölfar þess. Tók kærði að sér hagsmunagæslu fyrir hönd kæranda við innheimtu slysabóta vegna umferðarslyssins.

Ágreiningslaust er að með matsbeiðni, dags. 27. maí 2015, óskuðu lögmannsstofa kærða, fyrir hönd kæranda, og Vátryggingafélag Íslands hf. eftir mati nánar tilgreindra matsmanna á afleiðingum líkamstjóns sem kærandi hefði orðið fyrir í tilgreindu umferðarslysi þann 4. júlí 2014 auk þess sem óskað var eftir að metin yrðu orsakatengsl slyss og einkenna.

Í niðurstöðu matsgerðar matsmanna frá 12. febrúar 2016, sem ranglega er dags. 12. febrúar 2015, var lagt til grundvallar að tímabundið atvinnutjón kæranda samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og þjáningatímabil samkvæmt 3. gr. laganna án rúmlegu hefði miðast við tímabilið frá 5. ágúst 2014 til 4. janúar 2015 sem teldist stöðugleikapunktur. Varanlegur miski samkvæmt 4. gr. laga nr. 50/1993 var metinn 3 stig og varanleg örorka samkvæmt 5. gr. laganna 3%. Þá var lagt til grundvallar að orsakatengsl teldust vera fyrir hendi milli slyssins og hluta einkenna kæranda.

Læknisvottorð D, dags. 28. desember 2015, sem er meðal gagna málsins fyrir nefndinni, mun hafa legið fyrir við vinnslu framangreindrar matsgerðar, sbr. tilgreiningu undir liðnum „aðfengin gögn“ í matsgerðinni.

Þann 29. febrúar 2016 sendi starfsmaður á lögmannsstofu kærða tölvubréf til kæranda þar sem upplýst var um að matsgerð, sem var meðfylgjandi tölvubréfinu, lægi fyrir. Þá var eftirfarandi tiltekið í efni tölvubréfsins:

Framundan er að gera bótakröfu á hendur viðkomandi tryggingafélagi og mun B hafa samband við þig áður en uppgjör fer fram.

Ef þú átt eftir að koma með reikninga vegna útlagðs kostnaðar í málinu vegna slyssins, t.d. vegna sjúkraþjálfunar, læknisheimsókna osfrv., vinsamlegast skilaðu þeim til okkar við fyrsta tækifæri.“

Er vísað til þess í málatilbúnaði kæranda að aðilinn hafi þann 2. mars 2016 látið lögmannsstofu kærða í té reikninga vegna sjúkrakostnaðar að fjárhæð 256.958 krónur. Hafi þá legið fyrir sjúkrakostnaður rétt á þriðja hundrað þúsund krónur í málinu ógreiddur.

Þann 30. mars 2016 var undirrituð tjónskvittun af hálfu viðkomandi tryggingafélags og kærða fyrir hönd kæranda. Var tekið fram í kvittuninni að tryggingafélagði hefði þann dag greitt kærða fullar og endanlegar bætur vegna tjóns sem kærandi, sem umbjóðandi kærða, hefði orðið fyrir vegna meiðsla í umferðarslysi. Var heildarfjárhæð bóta tiltekin 2.078.830 krónur, þ.e. vegna þjáningabóta, varanlegs miska, varanlegrar örorku vegna slyss, ýmiss kostnaðar, vaxta, innheimtuþóknunar lögfræðings og virðisaukaskatts. Undir liðnum „ýmis kostnaður ótalinn annarsstaðar“ var tiltekin fjárhæðin 86.142 krónur. Þá var eftirfarandi tekið fram í tjónskvittuninni:

            „Lokauppgjör

Jafnframt staðfesti ég hér með, eftir nákvæma athugun mála og móttöku á nefndri upphæð, að falla frá öllum frekari kröfum jafnt gegn tryggingataka sem gegn Vátryggingafélagi Ísl. hf. v/Ábyrðgartr.bifr-Slys“.

Kærði samþykkti og undirritaði tjónskvittunina fyrir hönd kæranda með fyrirvara um réttmæti niðurstöðu fyrirliggjandi matsgerðar og greiðslu lögmannskostnaðar. Þá var áskilinn réttur til að endurmeta afleiðingar slyssins og krefja félagið um frekari bætur vegna slyssins.

Þann 18. apríl 2016 undirritaði kærandi staðfestingu á móttöku bóta og forsendum bótauppgjörs. Staðfesti kærandi með undirritun sinni að hann hefði móttekið 1.800.210 krónur af nánar tilgreindum tékkareikningi í eigu lögmannsstofu kærða úr hendi kærða, sem væri fullnaðargreiðsla vegna umferðarslyss sem hann hefði orðið fyrir þann 4. júlí 2014 úr ábyrðartryggingu viðkomandi bifreiðar sem tryggð hefði verið hjá VÍS. Þá hefði verið dregin frá þóknun lögmanns, ásamt virðisaukaskatti. Um væri að ræða bætur vegna þjáninga, miska og varanlegrar örorku ásamt vöxtum sem kærði hefði móttekið fyrir hönd kæranda samkvæmt umboði, dags. 5. ágúst 2014. Þá var því lýst að við uppgjörði hefði kærði gert fyrirvara við mat á varanlegum afleiðingum slyssins. Þá var eftirfarandi tekið fram í staðfestingunni:

Mér hefur verið gerð grein fyrir hvaða forsendur eru fyrir bótauppgjörinu af lögmanni mínum hef yfirfarið þær og samþykki þær með þessum hætti með undirskrift minni. Jafnframt hefur mér verið gerð grein fyrir því af hálfu lögmanns míns að endurupptaka málsins síðar er háð því að fram komi nýjar og verulegar afleiðingar sem ekki voru fyrirséðar þegar málið er gert upp og í síðasta lagi áður en 10 ár eru liðin frá slysdegi.“

Þann 27. apríl 2016 sendi kærandi tölvubréf til kærða með yfirskriftinni „Útlagður lækniskostnaður“. Lýsti kærandi því að hann hefði farið yfir pappíra frá kærða og að hann gæti ekki séð að viðkomandi tryggingafélag hefði greitt eitthvað af útlögðum lækniskostnaði. Óskaði kærandi eftir upplýsingum um hvort kærði gæti athugað hvort tryggingafélagið ætti að greiða kostnaðinn.

Kærandi sendi á ný tölvubréf til kærða þann 4. júní 2016 þar sem upplýst var um að kærandi hefði fengið bréf frá kærða, dags. 20. maí, þar sem tilkynnt hefði verið um að tilgreindu máli vegna bótakröfu á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf. væri lokið. Óskaði kærandi eftir upplýsingum um hvers vegna málinu væri lokið þar sem hann hefði engar upplýsingar fengið um það hvers vegna reikningar vegna útlagðs kostnaðar hefðu ekki fengist greiddir. Lýsti kærandi því að hann teldi málinu ekki lokið á meðan skýringar á því efni lægju ekki fyrir. Þá óskaði kærandi eftir að afrit reikninga yrðu send til sín.

Kærandi lýsti því í tölvubréfi til kærða þann 23. júlí 2016 að hann væri enn að bíða eftir svari frá kærða varðandi hinn útlagða kostnað. Kvaðst kærandi engin viðbrögð hafa fengið vegna fyrri tölvubréfa og skilaboða. Ítrekaði kærandi fyrri ósk um upplýsingar á því hvers vegna tryggingafélagið greiddi ekki hinn útlagða kostnað.

Þá sendi kærandi tölvubréf til kærða þann 13. september 2016 og óskaði eftir viðtalstíma vegna málsins þar sem kærði hefði ekki svarað fyrri upplýsingabeiðnum kæranda. Þá ítrekaði kærandi ósk um afhendingu allra reikninga vegna útlagðs kostnaðar sem ekki hefðu verið greiddir af tryggingafélaginu sem og skýringar á því af hverju svo væri.

Er vísað til þess í málsatvikalýsingu kæranda að engin svör hafi borist frá kærða vegna tölvubréfa þessara. Vegna þessa hafi kærandi séð sig knúinn til að leita beint til tryggingafélagsins á haustmánuðum 2016. Þá hafi fengust þau svör að félagið hefði greitt 86.142 krónur í útlagðan sjúkrakostnað, sbr. áður lýst tjónskvittun. Þá hafi í svörum félagsins komið fram að það greiddi ekki lækniskostnað frá viðkomandi læknum.

Þá liggur fyrir nefndinni bréf kæranda til kærða, dags. 7. nóvember 2016, þar sem sömu sjónarmiðum og fram höfðu komið í tölvubréfum kæranda til kærða, sem áður greinir, var lýst. Af gögnum málsins verður ekki séð að bréfi þessu hafi verið svarað af hálfu kærða.

II.

Í kvörtun kæranda er því lýst að hún lúti annars vegar að mistökum kærða við uppgjör slysamáls kæranda og hins vegar að því að kærði hafi í engu svarað fyrirspurnum kæranda eftir að uppgjör hafði farið fram. Byggir kærandi á að háttsemi kærða hafi farið gegn 18. gr. laga nr. 77/1998 og gerir aðilinn kröfu um að að fundið verði að vinnubrögðum kærða eða honum veitt áminning.

Auk þeirra málsatvika, sem áður er lýst, er í kvörtun kæranda vísað til þess að enginn fyrirvari hafi verið gerður á tjónskvittun frá Vátryggingafélagi Íslands hf. um greiðslu sjúkrakostnaðar, þó svo að sá kostnaður hafi aðeins verið greiddur að hluta. Þannig hafi verið gerður fyrirvari um niðurstöðu matsgerðar og greiðslu lögmannskostnaðar af hálfu kærða en ekki útlagðan kostnað. Ekkert hafi verið rætt um þetta efni þegar kærandi hafi staðfest móttöku bóta þann 18. apríl 2016 enda hafi verið tiltekið í þeirri staðfestingu að um bætur væri að ræða „vegna þjáninga, miska og varanlegrar örorku ásamt vöxtum sem hann móttók fyrir mína hönd.“ Þá var því sérstaklega mótmælt í viðbótarathugasemdum kæranda vegna málatilbúnaður kærða að hann hefði verið upplýstur um stöðu mála að þessu leyti. Þannig hafi ekkert komið fram um ógreiddan útlagðan kostnað í kvittuninni frá 18. apríl 2016.

Byggir kærandi á að kærði hafi aldrei átt að skrifa undir tjónskvittun frá tryggingafélaginu um endanlegar bætur þegar útlagður kostnaður hafi ekki allur verið uppgerður eins og gert hafi verið þann 30. mars 2016. Vísar kærandi til þess að sú skýring sem tryggingafélagið hafi gefið aðilanum hafi ekki verið boðleg. Þannig hafi ekki annað þurft en að skoða vottorð D, dags. 28. desember 2015, til að sjá að aðkoma hans hafi tengst umferðarslysinu frá 4. júlí 2014. Í öllu falli hafi ekkert verið um þetta efni í þeim gögnum sem kærandi hafi fengið í hendur frá kærða vegna málsins og hafi kærandi því staðið í þeirri trú að sjúkrakostnaður yrði greiddur þegar tryggingafélagið væri búið að viðurkenna skyldu sína og borga bætur samkvæmt mati matsmanna.

Vísar kærandi til þess að lögmönnum beri í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna, sbr. 18. gr. laga nr. 77/1998. Byggir kærandi á að þegar gengið hafi verið til uppgjörs við viðkomandi tryggingafélag hafi kærði átt að vita að sjúkrakostnaður, sem kærandi hafði látið skrifstofu hans í té, væri mun meiri en sá kostnaður sem tryggingafélagið hefði fallist á að greiða. Kærði, sem þó hafi gert ýmsa fyrirvara við uppgjörið, hafi hins vegar ekki séð ástæðu til að gera fyrirvara við sjúkrakostnaðinn eins og fullt tilefni hefði verið til. Með þessu hafi kærði vanrækt þá skyldu sína að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðanda síns, þ.e. kæranda, í skilningi 18. gr. laga nr. 77/1998.

Þá er á því byggt að kærði hafi ekki sinnt störfum sínum í þágu kæranda með siðlegum eða faglegum hætti þar sem hann hafi í engu svarað ítrekuðum fyrirspurnum kæranda um uppgjör á sjúkrakostnaðinum. Þannig hafi kærði hvorki svarað tölvubréfum, símtalsbeiðnum né bréfi sem sent hafi verið lögmanninum þann 7. nóvember 2016. Um þetta efni vísar kærandi jafnframt til 18. gr. laga nr. 77/1998 og gerir kröfu um að fundið verði að vinnubrögðum kærða eða honum veitt áminning.

Í viðbótarathugasemdum kæranda var vísað til þess að kærði hefði fyrst í málatilbúnaði sínum til nefndarinnar gefið skýringar á því af hverju tryggingafélagið hefði ekki viljað greiða útlagðan kostnað að fjárhæð 175.388 krónur, þ.e. þar sem viðkomandi verkjameðferðir hefðu verið vegna hálsmeiðsla sem ekki hefðu tengst slysinu. Vísar kærandi til þess að ekkert hafi verið lagt fram þessu til stuðnings frá tryggingafélaginu auk þess sem ekkert hafi komið fram um þetta efni í þeim gögnum sem kynnt hefðu verið kæranda vegna uppgjörsins. Þá hafi kærandi leitað eftir skýringum á þessu í tölvubréfum til kærða í apríl, júlí og septembermánuði 2016 en að hann hafi engar fengið. Byggir kærandi á að málatilbúnaður kærða standist því ekki skoðun. Þá hafi kærandi ekki enn fengið hina ógreiddu reikninga afhenta frá kærða þrátt fyrir beiðnir um það efni.

Auk þess byggir kærandi á að það fái ekki staðist sem greinir í málatilbúnaði kærða um að meginhluti útlagðs kostnaðar hafi fallið til eftir að matsgerð hefði legið fyrir 12. febrúar 2015 og hann fengist því ekki greiddur samkvæmt skaðabótalögum. Vísar kærandi til þess að um augljósa ritvillu sé að ræða í fyrirliggjandi matsgerð þar sem hún hafi átt að vera dagsett 12. febrúar 2016 en ekki sama dag árið 2015.

Vísar kærandi til þess að fyrir liggi að kostnaðurinn hafi að langmestu leyti verið til kominn áður en afleiðingar slyssins hafi verið metnar, sbr. fyrirliggjandi matsgerð. Samkvæmt því fái mat kærða á að ekki væru forsendur til að krefjast greiðslu á umræddum kostnaði ekki staðist. Byggir kærandi á að kærða hafi bæði borið og verið í lófa lagið að gera fyrirvara um þennan kostnað þegar hann hafi séð að tryggingafélagið ætlaði ekki að greiða allan útlagðan sjúkrakostnað. Þá hafi sá fyrirvari sem gerður hafi verið ekki náð til sjúkrakostnaðar samkvæmt orðanna hljóðan.

III.

Skilja verður málatilbúnað kærða fyrir nefndinni með þeim hætti að aðilinn krefjist þess að kröfum kæranda verði hafnað.

Varðandi kvörtunarefni málsins vísar kærði í fyrsta lagi til þess að kærandi hafi verið upplýstur um stöðu málsins í alla staði fyrir uppgjör sem hann hafi staðfest með fyrirvaralausri undirritun sinni undir uppgjörskvittun, dags. 18. apríl 2016. Í þeirri kvittun hafi skýrt komið fram að hann væri upplýstur um allar forsendur uppgjörsins, þ. á m. hvernig greiðslum á útlögðum kostnaði væri háttað. Í kvittun viðkomandi tryggingafélags hafi komið fram að hluti útlagðs kostnaðar sem hefði verið krafist hafi verið greiddur, 86.142 krónur.

Í öðru lagi vísar kærði til þess að sá hluti útlagðs kostnaðar sem tryggingafélagið hafi ekki greitt, að fjárhæð 175.388 krónur, hafi verið tilkominn vegna verkjameðferða hjá D vegna hálsmeiðsla sem ekki tengdust slysinu að mati félagsins. Hafi tryggingafélagið í því efni vísað til niðurstöðu matsgerðar, dags. 12. febrúar 2015, þar sem metnar hefðu verið varanlegar afleiðingar vegna eftirstöðva tognunaráverka í brjóstbaki en engar vegna háls.

Í þriðja lagi bendir kærði á að meginhluti umrædds útlagðs kostnaðar hafi fallið til eftir að matsgerð hefði legið fyrir þann 12. febrúar 2015 og þar af leiðandi eftir það tímamark er búið væri að meta varanlegar afleiðingar slyssins. Vísar kærði til þess að samkvæmt almennri túlkun á skaðabótalögum hvíli ekki skylda á tryggingafélögum, eftir tilgreint tímamark, að greiða framtíðarkostnað nema slíkt sé metið sérstaklega en það eigi aðeins við þegar um alvarlegri afleiðingar sé að ræða eins og lömun eða sambærilegar alvarlegri afleiðingar.

Vísar kærði til þess að á grundvelli framangreinds hafi það verið mat aðilans að ekki væru forsendur til að krefjast greiðslu á umræddum sjúkrakostnaði með atbeina dómstóla

Þá byggir kærði á að sá fyrirvari sem gerður hafi verið hafi náð til þessa kostnaðar, þ.e. ef það yrði niðurstaða dómstóla að sá réttur væri fyrir hendi.

Með vísan til þessa hafnar kærði því með öllu að hann hafi sýnt af sér annað en góða lögmannshætti.

 

Niðurstaða

                                                                          I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

II.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 77/1998 ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Er slíkt enn fremur áréttað í 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna þar sem tiltekið er að lögmaður skuli leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna í samræmi meginreglu 1. gr. siðareglnanna þar sem kveðið er á um að lögmanni beri að efla rétt og hrinda órétti og að hann skuli leggja svo til allra mála sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Eins og áður greinir lýtur kvörtun kæranda annars vegar að því að kærði hafi aldrei átt að skrifa undir tjónskvittun frá viðkomandi tryggingafélagi um endanlegar bætur, eins og gert hafi verið þann 30. mars 2016, þegar fyrir hafi legið að útlagður sjúkrakostnaður kæranda yrði ekki greiddur að fullu af hálfu félagsins. Þá hafi kærði ekki séð ástæðu til að gera fyrirvara við uppgjörið vegna hins ógreidda sjúkrakostnaðar eins og fullt tilefni hefði verið til. Með þessari háttsemi hafi kærði vanrækt þá skyldu sína að gæta hagsmuna kæranda í skilningi 18. gr. laga nr. 77/1998.

Um þetta efni er í fyrsta lagi til þess að líta að ekki er ágreiningur á milli málsaðila um að Vátryggingafélag Íslands hf. hafi hafnað greiðsluskyldu vegna hluta þess útlagða sjúkrakostnaðar kæranda sem gerð hafði verði krafa um við innheimtu slysabóta, sem kærði annaðist fyrir hönd kæranda, vegna tjóns kæranda í umferðarslysi sem hann varð fyrir í þann 4. júlí 2014.

Þá verður í öðru lagi ekki framhjá því litið að kærandi undirritaði þann 18. apríl 2016 skjal sem bar yfirskriftina „Staðfesting á móttöku bóta og forsendum bótauppgjörs.“ Staðfesti kærandi með undirritun sinni að hann hefði móttekið nánar tilgreinda fjárhæð sem væri fullnaðargreiðsla vegna umferðarslyss sem hann hefði orðið fyrir þann 4. júlí 2014. Kærandi staðfesti jafnframt að kærði hefði gert honum grein fyrir hvaða forsendur væru fyrir bótauppgjörinu, að hann hefði yfirfarið þær forsendur og samþykkti þær með undirritun sinni. Þá staðfesti kærandi að honum hefði verið gerð fyrir því af hálfu kærða að endurupptaka málsins síðar væri háð því að fram kæmu nýjar og verulegar afleiðingar sem ekki hefðu verið fyrirséðar við uppgjör málsins og í síðasta lagi áður en 10 ár væru liðin frá slysdegi.

 

Með vísan til framangreinds, og einkum skýrs orðalags staðfestingar kæranda frá 18. apríl 2016, verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að kærandi hafi verið meðvitaður um forsendur bótauppgjörsins enda staðfesti hann sérstaklega með undirritun sinni að hann hefði yfirfarið þær og samþykkt. Þá staðfesti kærandi jafnframt að hann væri meðvitaður um að um fullnaðargreiðslu væri að ræða vegna umferðarslyssins. Samkvæmt því verður að leggja til grundvallar að kærði hafi upplýst kæranda um forsendur bótauppgjörsins við staðfestingu kæranda um það efni og móttöku bóta þann 18. apríl 2016. Fær það því ekki breytt þótt einungis hafi verið tiltekið í staðfestingunni að um væri að ræða bætur vegna þjáninga, miska og varanlegrar örorku ásamt vöxtum sem kærði hafi móttekið fyrir hönd kæranda, en ekki útlagðs sjúkrakostnaðar eins og byggt er á í kvörtun kæranda. Gegn andmælum kærða um það efni og skýru orðalagi staðfestingarinnar að öðru leyti er það mat nefndarinnar að leggja verði til grundvallar að kærandi hafi verið upplýstur um allar forsendur uppgjörsins og samþykkt þær með undirritun sinni undir staðfestinguna, þ. á m. hvernig greiðslum á útlögðum kostnaði hefði verið háttað og afstöðu tryggingafélagsins til þess kostnaðar.

Með vísan til alls framangreinds er að áliti nefndarinnar ekki efni til að telja að kærði hafi brotið gegn 18. gr. laga nr. 77/1998 með þeirri háttsemi sem hér hefur verið lýst.

III.

Kvörtun kæranda lýtur hins vegar að því að kærði hafi ekki sinnt störfum sínum í þágu kæranda með siðlegum eða faglegum hætti þar sem hann hafi í engu svarað ítrekuðum fyrirspurnum kæranda um uppgjör á hinum útlagða sjúkrakostnaði. Hafi háttsemi kærða að þessu leyti farið í bága við 18. gr. laga nr. 77/1998.

Hvað þetta kvörtunarefni varðar þá liggja fyrir í gögnum málsins tölvubréf kæranda til kærða frá 27. apríl 2016, 4. júní 2016, 23. júlí 2016 og 13. september 2016 en í öllum tilvikum óskaði kærandi eftir upplýsingum um afdrif kröfu hans um útlagðan sjúkrakostnað sem og skýringum á því af hverju sá kostnaður hefði ekki komið til greiðslu af hálfu tryggingafélagsins. Þá óskaði kærandi eftir að afrit reikninga yrðu send til sín. Var slíkt hið sama áréttað í bréfi kæranda til kærða, dags. 7. nóvember 2016, sem liggur fyrir nefndinni.

Í kvörtun kæranda er vísað til þess að kærði hafi í engu svarað framangreindum erindum kæranda eða sinnt þeim fyrirspurnum sem þar hafi verið settar fram. Í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni hefur kærði hvorki mótmælt þeim staðhæfingum kæranda né lagt fram gögn um hið gagnstæða. Samkvæmt því verður að leggja til grundvallar að kærði hafi ekki sinnt ítrekuðum fyrirspurnum kæranda um afdrif kröfu vegna sjúkrakostnaðar sem aðilinn setti fram á árinu 2016 í kjölfar staðfestingar kæranda á móttöku bóta og forsendum bótauppgjörs þann 18. apríl 2016.

Samkvæmt 41. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður án ástæðulauss dráttar svara bréfum og öðrum erindum, er honum berst í lögmannsstarfi hans. Sé ekki unnt að svara bréfi eða öðru erindi innan hæfilegs tíma, ber lögmanni að tilkynna það viðkomandi og að erindinu verði svarað, þegar fært verður.

Af hinum ítrekuðu erindum og fyrirspurnum sem kærandi beindi til kærða og áður er lýst, í fyrsta sinn níu dögum eftir staðfestingu kæranda á móttöku bóta og forsendum bótauppgjörs, mátti kærða vera ljóst að það varðaði kæranda miklu að fá upplýsingar um afdrif kröfunnar að þessu leyti, afstöðu tryggingafélagsins til hennar og skýringar á því hvers vegna hún hefði ekki fengist greidd ef slíkt væri tilfellið. Þrátt fyrir það verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að kærði hafi látið undir höfuð leggjast að upplýsa kæranda um þessi atriði, en eins og áður er lýst mun kærði hafa ritað undir tjónskvittun frá viðkomandi tryggingafélagi þann 30. mars 2016 fyrir hönd kæranda þar sem fram kom sundurliðun á því sem lýst var sem fullar og endanlegur bætur vegna tjóns kæranda, þ. á m. vegna útlagðs kostnaðar sem mun hafa fallið undir liðinn „ýmis kostnaður ótalinn annarsstaðar“. Þá verður og að leggja til grundvallar að hafi kærða talið sér óskylt að svara erindum og fyrirspurnum kæranda á þeim grundvelli að málarekstrinum væri lokið hafi sú skylda hvílt á honum eftir sem áður, í ljósi hagsmunagæslu kærða í þágu kæranda og réttarsambands aðila að öðru leyti, að upplýsa kæranda um það efni með svari við erindum og fyrirspurnum kæranda, sbr. einnig 18. gr. laga nr. 77/1998 og 41. gr. siðareglna lögmanna.

Með vísan til alls framangreinds er það mat nefndarinnar að sú háttsemi kærða að svara ekki ítrekuðum erindum og fyrirspurnum kæranda um afdrif kröfu vegna útlagðs sjúkrakostnaðar aðilans, í kjölfar uppgjörs slysabóta samkvæmt því máli sem kærði annaðist fyrir og í þágu kæranda, hafi verið aðfinnsluverð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Sú háttsemi kærða, B hrl., að svara ekki ítrekuðum erindum og fyrirspurnum kæranda, A, um afdrif kröfu vegna útlagðs sjúkrakostnaðar aðilans, í kjölfar uppgjörs slysabóta samkvæmt því máli sem kærði annaðist fyrir og í þágu kæranda, er aðfinnsluverð.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason hrl., formaður.

Einar Gautur Steingrímsson hrl.

Valborg Þ. Snævarr hrl.

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson