Mál 9 2017

Ár 2017, 8. september 2017, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 9/2017:

 

A,

gegn

B hdl.

og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 9. febrúar 2017 erindi kæranda, A, til heimilis að D í Hafnarfirði, en í því er kvartað yfir því að kærði, B héraðsdómslögmaður, með starfsstöð að C, Reykjavík, hafi brotið annars vegar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn hvað varðar rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess og hins vegar 27. gr. laganna.

 

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 14. febrúar 2017 og barst hún þann 7. mars 2017. Var kæranda send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 8. mars 2017. Hinn 17. mars 2017 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar kærða þann 22. sama mánaðar. Svar kærða barst 27. mars 2017 og var það sent kæranda með bréfi dags. 28. sama mánaðar með þeirri athugasemd að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Engar frekari athugasemdir voru gerðar og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

 

Málsatvik og málsástæður

I.

Í aprílmánuði 2016 höfðaði Lánasjóður íslenskra námsmanna mál á hendur kæranda á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar sem aðilinn hafði tekið á sig vegna námsláns dóttur kæranda. Í kjölfar málshöfðunarinnar mun kærandi hafa leitað til kærða sem tók að sér hagsmunagæslu í þágu kæranda vegna dómsmálsins. Málið var þingfest í Héraðsdómi K þann X. apríl 2016 og fékk það málsnúmerið X.

 

Í kvörtun kæranda er vísað til þess að bæði kærandi og maki hans séu öryrkjar og að af þeim sökum hafi kærða verið falið í upphafi þeirra lögskipta að óska eftir gjafsókn fyrir hönd kæranda vegna dómsmálsins sem og að leita samninga við kröfuhafa vegna hinnar umþrættu kröfu.

 

Þann 17. maí 2016 sendi tengdasonur kæranda tölvubréf til kærða, en hann mun hafa annast samskipti við kærða fyrir hönd kæranda að nokkru leyti, sem bar yfirskriftina „Stutt lýsing vegna gjafsóknar". Í tölvubréfinu var aðstæðum og stöðu kæranda og maka hans lýst, þ. á m. um að þau væru öryrkjar, án atvinnu, með lágmarksframfærslu og því ekki í stakk búin til þess að greiða lögfræðikostnað. Væri af þeim sökum farið fram á gjafsókn vegna dómsmálsins. Var kærði beðinn um að skoða lýsinguna og að láta vita ef þörf væri á frekari upplýsingum.

 

Var framangreint ítrekað í tölvubréfi sem tilgreindur aðili sendi kærða þann 20. maí 2016. Nánar tiltekið var áréttað að kærandi óskaði eftir að fá „Gjafvörn" í málinu sem kærði væri að vinna í fyrir kæranda. Þá var óskað eftir að kærði léti vita ef þörf væri á frekari gögnum. Kærði svaraði tölvubréfinu þann sama dag og staðfesti móttöku á áréttingunni. Kvaðst kærði hafa boðað slíkt í greinargerð sem hann hafði sent kvöldið áður og að þau skyldu reyna það þótt á brattann væri að sækja hvað það varðaði.

 

Greinargerð með vörnum kæranda í málinu nr. X var lögð fram á dómþingi Héraðsdóms K þann 26. maí 2016.

 

Tengdasonur kæranda sendi kærða tölvubréf þann 8. júní 2016 með fyrirspurn um hvernig gengi að fá gjafsókn í málinu og hvort kærandi þyrfti að koma gögnum til kærða.

 

Þann 30. ágúst 2016 sendi dóttir kæranda drög að gjafsóknarbeiðni til kærða í tölvubréfi. Var óskað eftir að kærði léti vita ef hann hefði ekki undir höndum þau gögn sem áttu að fylgja með gjafsóknarbeiðninni samkvæmt tilgreindum drögum.

 

Kærði svaraði erindinu með tölvubréfi daginn eftir, þ.e. þann 31. águst 2016. Lýsti kærði því að hann teldi varla nokkra möguleika á raunhæfu sáttatilboði í málinu og að sótt yrði því um gjafsókn eftir fyrirtöku sem var á dagskrá degi síðar.

 

Aðalmeðferð málsins fór fram í Héraðsdómi K þann X. desember 2016. Við aðalmeðferðina mun kærði hafa lagt fram vinnuskýrslu til grundvallar kröfu kæranda um málskostnað í málinu. Var heildartímafjöldi vegna lögmannsstarfa kærða í þágu kæranda þar tilgreindur sem 33,75 klukkustundir vegna tímabilsins frá 20. apríl 2016 til og með 14. desember 2016. Þá var tiltekið að tímagjald án virðisaukaskatts væri 20.000 krónur og að heildarkostnaður samkvæmt því vegna starfans væri 846.000 krónur með virðisaukaskatti, þar af 9.000 krónur vegna útlagðs kostnaðar. Varðandi gjafsókn þá var að finna eftirfarandi vinnuskýrslufærslu frá 10. nóvember 2016:

 

            „Farið yfir og lokið við gjafsóknarbeiðni og hún send (um helgina).           2,25 klst."

 

Dómur í málinu var uppkveðinn þann X. desember 2016 þar sem kæranda var gert að greiða stefnanda málsins dómkröfur aðilans, þ.e. 1.253.356 krónur auk dráttarvaxta og 500.000 krónur í málskostnað.

 

Þann sama dag sendi kærði tölvubréf til maka kæranda, auk þess sem dóttir og tengdasonur kæranda fengu afrit tölvubréfsins, en þar sagði eftirfarandi:

 

Takk; var einmitt að fá dóminn úr héraðsdómi og renndi yfir. Afturkalla umsókn um gjafsókn til að draga ekki úr hugsanlegum möguleikum á gjafsókn fyrir Hæstarétti. Skoða betur síðla dags og legg til að við heyrumst í síma í kvöld eða á morgun (eða hittumst á fimmtudag) til að frummeta hvort tilefni sé til áfrýjunar."

 

Af gögnum málsins verður ekki séð að kærði hafi sinnt frekari lögmannsstörfum fyrir kæranda eftir uppkvaðningu dómsins þann X. desember 2016.

 

Þann 16. janúar 2017 sendi kærði tölvubréf til maka kæranda þar sem vísað var til samtals í síma þann sama dag og upplýst að kæranda yrði sendur reikningur að fjárhæð 650.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti gegn staðgreiðslu sem fæli í sér nær 20% afslátt miðað við tímaskýrslu ásamt áföllnum kostnaði.

 

Frá þeim sama degi liggur fyrir reikningur vegna lögmannsstarfa kærða í þágu kæranda. Nánar tiltekið var gefinn út reikningur nr. 0000145 þann 16. janúar 2017 að fjárhæð 649.750 krónur með virðisaukaskatti, þar af 22.000 krónur vegna útlagðs kostnaðar.

 

Þann 26. janúar 2017 sendi kærandi fyrirspurn til innanríkisráðuneytisins þar sem óskað var eftir staðfestingu á því að gjafsóknarbeiðni í nafni kæranda hefði borist ráðuneytinu sem og afturköllun hennar auk þess sem óskað var eftir öllum gögnum málsins. Í svari innanríkisráðuneytisins til kæranda var tiltekið að ráðuneytinu hefði ekki borist gjafsóknarbeiðni í nafni eða kennitölu kæranda.

 

II.

Skilja verður kröfu kæranda þannig að kærða skuli gert að sæta agaviðurlögum fyrir háttsemi sína, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, og að útgefinn reikningur vegna lögmannsstarfa kærða í þágu kæranda verði felldur niður eða stórlega lækkaður, sbr. 1. mgr. 26. gr. laganna.

 

Kvörtun kæranda beinist að því að kærði hafi ekki sinnt ítrekuðum beiðnum og óskum um að leggja fram beiðni um gjafsókn fyrir hönd kæranda vegna héraðsdómsmálsins nr. X. Um það efni vísar kærandi meðal annars til þeirra tölvubréfa til kærða sem greinir í málsatvikalýsingu að framan. Vísar kærandi til þess að mikill tími hafi farið í að leiðrétta endurteknar villur í skriflegum texta frá kærða en á sama tíma hafi engar fregnir verið af gjafsóknarbeiðninni undir rekstri málsins. Hafi svo farið að lokum að dóttir kæranda hafi sent kærða uppkast að gjafsóknarbeiðni til að hraða fyrir umsókninni. Um svipað leyti hafi kærandi sent kærða umbeðnar skattskýrslur, bæði rafrænt og í prentuðu formi, ásamt öðrum fylgigögnum fyrir gjafsóknarbeiðni.

 

Kærandi vísar jafnframt til tölvubréfs kærða frá 19. desember 2016 þar sem því var lýst að umsókn um gjafsókn yrði afturkölluð svo að ekki yrði dregið úr hugsanlegum möguleikum á gjafsókn fyrir Hæstarétti.

 

Að áliti kæranda er frumskylda hvers lögmanns að gæta ýtrustu hagsmuna umbjóðenda sinna. Byggir kærandi á að kærði hafi brugðist þeirri skyldu allt frá upphafi þjónustu hans í aprílmánuði 2016. Er um það efni einkum vísað til þess að kærði hafi brugðist þeirri skyldu að sækja um gjafsókn, en þess í stað bæði logið að hann hefði gert það og síðan logið að hann hefði afturkallað sömu gjafsóknarbeiðni. Að áliti kæranda opinberar svarbréf innanríkisráðuneytisins tilgreind óheilindi kærða.

 

Kærandi, sem neytandi og aðili að þjónustusamningi við kærða sem sérfræðing á viðkomandi sviði, telur að hann sé ekki skuldbundinn til að greiða útgefinn reikning kærða fyrir lögmannsþjónustu aðilans. Samkvæmt því gerir kærandi kröfu um að kærða beri alls engin þóknun fyrir sín störf í þágu kæranda, en að öðrum kosti verði sú fjárhæð stórlega lækkuð frá kröfu kærða samkvæmt reikningi. Telur kærandi sýnt að ef gjafsókn hefði fengist að þá væru aðilar ekki í þessari stöðu í dag, þ.e. kærði hefði þá fengið greidda þóknun fyrir sína vinnu úr ríkissjóði.

 

Í andsvörum kæranda við greinargerð kærða er því mótmælt að komist hafi á samningur þann 16. janúar 2016 á milli aðila um endurgjald vegna starfa kærða í þágu kæranda. Kveðst kærandi hafa gert strax athugasemd við kærða, þ.e. fyrir og í kjölfar reikningsgerðar. Auk þess hafi kærandi gert athugasemdir við tímaskráningu kærða við aðalmeðferð málsins þegar vinnuskýrsla kærða hafi verið lögð fram. Hafi kærði þá tekið fram að tímarnir væru ríflega skráðir og að kærandi þyrfti ekki að hafa áhyggjur af tímaskráningunni sem lögð hafi verið fram í Héraðsdómi K.

 

Varðandi magntölur í greinargerð kærða vísar kærandi til þess að skýring á fjölda tölvupósta megi rekja til þess að dóttir og tengdasonur kæranda hafi unnið forvinnu málsins að öllu leyti og að tölvubréf þess efnis hafi farið fram og til baka á milli aðila. Þá mótmælir kærandi málatilbúnaði kærða um að hann hafi aldrei sagt við kæranda að hann hefði sent gjafsóknarbeiðni. Vísar kærandi um það efni til tölvubréfs kærða frá 19. desember 2016 sem áður er lýst.

 

III.

Skilja verður málatilbúnað kærða í greinargerð aðilans þannig að hann krefjist þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað í málinu.

 

Kærði vísar til þess að mál þetta snúist um hvort sannarlega villandi orðalag hans eftir að máli var lokið geti réttlætt lækkun á sannanlega umsaminni þóknun, jafnvel um 100%.

 

Um málsgrundvöll vísar kærði til þess að ekki sé um að ræða einhliða reikning eins og gjarnan sé í viðskiptum neytenda við lögmenn og aðra atvinnurekendur. Í þessu tilviki sé um að ræða samning sem sannanlega hafi verið gerður, að ítrekaðri ósk maka kæranda. Hafi samningurinn verið gerður í síma þann 16. janúar 2017 þar sem samið hafi verið um sanngjarnt endurgjald að fjárhæð 650.000 krónur í heildargreiðslu. Sé sá samningur gildur og löglegur. Því til staðfestingar vísar kærði til tölvubréfs frá þeim sama degi, sem nánar er lýst í málsatvikalýsingu að framan. Byggir kærði á að hann hafi staðfest samninginn með tölvubréfi samdægurs, með reikningi fyrir umsaminni fjárhæð, með tölvubréfi til nýs lögmanns 26. janúar 2017 þar sem fallið var frá haldsrétti, með áminningu 2. febrúar 2017 og með veitingu frests þann sama dag símleiðis.

 

Byggir kærði á að kærandi og maki hans hafi fullyrt að greitt yrði það sem samið hafi verið um auk þess sem kærandi hafi staðfest samninginn með því að gera ekki athugasemdir við þau atriði sem kærði hafi lýst í málatilbúnaði sínum.

 

Kærði vísar til þess að tölvubréf í málinu sé um 60 talsins, þ.e. á tímabilinu frá 27. apríl 2016 til 16. janúar 2017. Þá hafi formlegir fundir á skrifstofu kærða líklega verið þrír á tímabilinu frá 22. apríl 2016 til 10. janúar 2017 auk þess sem styttri fundir og samtöl í héraðsdómi eða miðborginni hafi verið fleiri í tengslum við fyrirtökur. Kærði hafi hins vegar ekki tölu á fjölda símtala en þau hafi á að giska verið a.m.k. vel á annan tug. Þá hafi fjöldi dómskjala í málinu verið 21 og bókanir alls tvær, þ.e. ein af hálfu hvors aðila. Lengd greinargerðar hafi verið 8 blaðsíður og beinn útlagður kostnaður 11.000 krónur.

 

Í greinargerð kærða er að finna yfirlit yfir skráðar vinnustundafjöldar, sundurliðaðar eftir þáttum máls á tímabilinu frá apríl 2016 til febrúar 2017. Er þar m.a. tiltekið að skráðar vinnustundir vegna greinargerðar og málsvarnar fyrir héraðsdómi hafi verið alls 28 klukkustundir. Samkvæmt frádrætti við aðra liði og nettó að frádregnum virðisaukaskatti hafi umsamin greiðsla vegna málsmeðferðar í héraði verið að fjárhæð 400.000 krónur sem svari til tímagjalds að fjárhæð 14.300 krónur án virðisaukaskatts.

 

Vísar kærði til þess að fjöldi vinnustunda hafi líklega verið fremur hár miðað við málið en að það hafi einkum orsakast af miklum samskiptum við kæranda og fulltrúa hans, einkum tengdason sem hafi lagt margt, mikið og oft til mála.

 

Varðandi meinta gjafsóknarbeiðni vísar kærði til þess að hann hafi færst undan því að leggja í þá vinnu enda hefði hann talið að litlar líkur væru á að gjafsókn fengist vegna góðrar efnahagsstöðu kæranda og þeirra hjóna. Þá hafi kærði talið að litlar líkur væru á að gjafsókn fengist vegna fordæmisgildis málsins. Kærandi hefði þó óskað eftir að gjafsóknarbeiðni yrði skrifuð og send og hefði kærði þá sagt að það tæki einhvern tíma og myndi kosta aukið fé. Hafi kærandi þá óskað eftir að fá að gera drög og koma gögnum til kærða sem þau hafi og gert síðsumars 2016. Hafi kærði þá verið önnum kafinn og ekki komið því í verk. Byggir kærði á að það hafi verið vangá af sinni hálfu sem hafi réttlætt afslátt. Á hinn bóginn telur kærði að á grundvelli framangreinds mats um ólíkindi á að gjafsókn hefði fengist að skilyrði skaðabótaskyldu séu ekki uppfyllt þar sem orsakatengsl séu ekki fyrir hendi.

 

Kærði kveður að ástæður samnings um tiltölulega lága heildargreiðslu fyrir málsmeðferð fyrir héraðsdómi hafa í fyrsta lagi verið sú að þrýst hafi verið á að gerður yrði samningur um uppgjör eða afslátt í kjölfar framlagningar á vinnuskýrslu kærða við aðalmeðferð málsins. Í öðru lagi vísar kærði til þess að hann hafi sýnt af sér vangá með því að draga svo mjög að senda endanlega gjafsóknarbeiðni að það hafi verið orðið of seint þegar komið hafi verið að aðalmeðferð málsins. Það hafi réttlætt afslátt að mati undirritaðs. Í þriðja lagi hafi kærði notað villandi orðalag um „afturköllun" þegar átt hafi verið við að hætt yrði við að senda hæpna gjafsóknarbeiðni. Slíkt gæti réttlætt hugsanlega afslátt en ekki aðrar afleiðingar að mati kærða. Áréttar kærði afsökunarbeiðni vegna villandi orðalags en vísar því á bug að hafa sagt kæranda ósatt. Í fjórða lagi vísar kærði til þess að málið hafi ekki unnist og að unnt sé að áskilja sér hærra endurgjald ef árangur er góður. Þá hafi í fimmta lagi aldrei staðið til að krefja um endurgjald fyrir drög að gjafsóknarbeiðni í héraði.

 

Varðandi 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn vísar kærði til þess að hann hafi einungis tekist á hendur að senda gjafsóknarbeiðni sem hafi farist fyrir og beðist sé afsökunar á. Þá viðurkennir kærði að villandi orðalag hafi verið viðhaft í tölvubréfi frá 19. desember 2016. Kærði kveðst hins vegar aldrei hafa sagst hafa sent beiðnina, hvorki munnlega né skriflega. Samkvæmt því séu staðhæfingar um ósannsögli rangar og meiðandi. Telur kærði því aðallega ekki tilefni til kvörtunar á grundvelli 27. gr. laga nr. 77/1998 og til vara að fram komin afsökunarbeiðni og boðinn afsláttur sé hæfileg viðbrögð við því.

 

Í viðbótarathugasemdum kærða var kröfugerð aðilans tilgreind með nákvæmari hætti. Er þar tiltekið að kærði geri aðallega kröfu um að hafnað verði röngum áburði kæranda um ósannsögli og að umsamin þóknun standi. Til vara er gerð krafa um að röngum áburði kæranda um ósannsögli verði hafnað og að umsamin þóknun verði lækkuð hóflega í samræmi við sáttaboð. Til þrautavara er gerð krafa um að hafnað verði röngum áburði kæranda um ósannsögli og að umsamin þóknun verði lækkuð að mati úrskurðarnefndar, ef talið verður að málsatvik réttlæti meiri afslátt frá umsaminni þóknun en 150.000 krónur. Í öllum tilvikum hafnar kærði því að unnt sé að ákvarða skaðabætur. Þá er í öllum tilvikum farið fram á að fram komin afsökunarbeiðni verði talin nægjanleg viðbrögð við ágreiningslausum mistökum og villandi orðalagi.

 

 

Niðurstaða

Í máli þessu þarf í fyrsta lagi að taka afstöðu til þess hvort kærði hafi gerst brotlegur við lög eða siðareglur lögmanna þannig að rétt þyki að beita agaviðurlögum og í öðru lagi að fjalla um fjárhagslegt uppgjör aðila vegna lögmannsstarfa kærða.

 

                                                                          I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

 

Samkvæmt 18. gr. lögmannalaga ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Er slíkt enn fremur áréttað í 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna þar sem tiltekið er að lögmaður skuli leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna í samræmi við þá meginreglu 1. gr. að lögmanni ber að efla rétt og hrinda órétti og leggja svo til allra mála, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

 

Þá er tiltekið í 4. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna að lögmanni beri að vekja athygli skjólstæðings á möguleika á gjafsóknarheimild eða annarri opinberri réttaraðstoð þar sem það á við.

 

Ágreiningslaust er á milli aðila að kærandi og aðstandendur aðilans hafi ítrekað óskað eftir við kærða að lögð yrði inn gjafsóknarbeiðni vegna þess máls sem kærði fór með fyrir hönd kæranda. Komu slíkar óskir fram bæði fyrir þingfestingu málsins sem og undir rekstri þess auk þess sem óskað var eftir að kærði léti vita ef þörf væri á frekari gögnum eða upplýsingum. Er um það efni vísað til tölvubréfa sem lýst er í málsatvikalýsingu að framan frá 17. og 20. maí 2016 og 8. júní 2016 auk þess sem dóttir kæranda sendi drög að gjafsóknarbeiðni til kærða í tölvubréfi þann 30. ágúst 2016.

 

Jafnframt liggur fyrir að kærði tók að sér að gera og senda inn gjafsóknarbeiðni fyrir kæranda vegna málsins. Auk þess sem slíkt mun hafa verið boðað í greinargerð aðilans fyrir héraðsdómi þá staðfesti kærði annars vegar í tölvubréfi til kæranda og aðstandenda aðilans þann 20. maí 2016 að reynt yrði að fá gjafsókn þótt á brattann yrði að sækja hvað það varðaði og hins vegar í tölvubréfi þann 31. ágúst 2016 þar sem kærði staðfesti að sótt yrði um gjafsókn eftir fyrirtöku sem var á dagskrá degi síðar. Þá kom eftirfarandi fram í færslu í vinnuskýrslu kærða, sem lögð var fram við aðalmeðferð þess máls sem kærði rak fyrir kæranda, frá 10. nóvember 2016: „farið yfir og lokið við gjafsóknarbeiðni og hún send (um helgina)".

 

Í málatilbúnaði kærða fyrir úrskurðarnefndinni hefur aðilinn vísað til þess um þetta efni að hann hafi tekist á hendur að senda gjafsóknarbeiðni fyrir kæranda sem hafi farist fyrir og að það hafi verið vangá af hans hálfu. Hafi hann beðist afsökunar á því. Kærði kveðst hins vegar aldrei hafa sagst hafa sent beiðnina, hvorki munnlega né skriflega.

 

Af stöðu kæranda og maka hans en þó einkum á grundvelli samskipta aðila allt frá upphafi þess að kærði tók að sér mál kæranda mátti kærða vera ljóst að kærandi lagði mikla áherslu á að sótt yrði um gjafsókn vegna málsins og að slíkt varðaði aðilann miklu. Þrátt fyrir það lét kærði undir höfuð leggjast að leggja fram beiðni um gjafsókn, þótt kærandi og aðstandendur aðilans hefðu sent kærða ítrekaðar áréttingar og beiðnir í þá veru. Um skýringar á því hefur kærði vísað til þess eins að vegna anna hafi farist fyrir að senda beiðnina og að slíkt hafi verið vangá af hans hálfu.

 

Að áliti nefndarinnar var vanræksla kærða að þessu leyti í brýnni andstöðu við 18. gr. lögmannalaga og 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna sem áður er lýst. Samkvæmt því telur nefndin að það hafi verið aðfinnsluverð mistök af hálfu kærða að senda ekki inn gjafsóknarbeiðni fyrir kæranda í samræmi við skýrar og ítrekaðar óskir aðilans um það efni. Þótt nefndin leggi hvorki mat á hvort gjafsókn hefði fengist né hvort skilyrði séu til skaðabóta verður að áliti nefndarinnar ekki framhjá því litið að vanræksla kærða í þessu efni takmarkaði möguleika kæranda á að lágmarka fjárhagslegan skaða vegna málarekstursins.

 

Þá telur nefndin að tölvubréf kærða frá 19. desember 2016, sem lýst er í málsatvikalýsingu að framan og var sent til maka kæranda í kjölfar dómsuppkvaðningar þess máls sem kærði fór með fyrir kæranda, hafi verið rangt um það efni sem það tók til og að það hafi verið til þess fallið að styrkja trú kæranda og aðstandenda hans á því að gjafsóknarbeiðni hefði raunverulega verið send í nafni kæranda undir rekstri málsins. Samkvæmt því er það aðfinnsluvert að áliti nefndarinnar að kærði hafi látið að því liggja í tilgreindu tölvubréfi að gjafsóknarbeiðnin hefði í reynd verið send með tilvísun um að hann hygðist „afturkalla umsókn um gjafsókn til að draga ekki úr hugsanlegum möguleikum á gjafsókn fyrir Hæstarétti.". Að áliti nefndarinnar hafa ekki komið fram fullnægjandi skýringar frá kærða um að efni tölvubréfsins hafi átt að skilja með öðrum hætti.

 

II.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

 

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.

 

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknað.

 

Þá segir í 15. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

 

Fyrir liggur að kærði tók að sér að halda uppi vörnum fyrir kæranda fyrir héraðsdómi vegna kröfu á grundvelli ábyrgðarskuldbindingar. Á grundvelli þeirra lögmannsstarfa í þágu kæranda gaf kærði út reikning þann 16. janúar 2017 að fjárhæð 649.750 krónur með virðisaukaskatti, þar af 22.000 krónur vegna útlagðs kostnaðar. Byggir kærði á að í símtali þann dag hafi aðilar samið um að sanngjarnt endurgjald væri að fjárhæð 650.000 krónur í heildargreiðslu vegna lögmannsstarfa kærða. Samkvæmt því mun tímaskýrsla ekki hafa fylgt með reikningnum en ekki er á því byggt fyrir nefndinni að leggja eigi til grundvallar þá vinnuskýrslu sem kærði lagði fram við aðalmeðferð málsins í héraði.

 

Í málatilbúnaði kæranda er því mótmælt að komist hafi á samningur um endurgjald á milli aðila þann 16. janúar 2017. Kveðst kærandi hafa gert strax athugasemd við kærða í kjölfar reikningsgerðar. Byggir kærandi á að kærða beri alls engin þóknun fyrir störf sín í þágu kæranda, en að öðrum kosti að sú fjárhæð verði stórlega lækkuð frá kröfu kærða samkvæmt reikningi. Telur kærandi sýnt að ef gjafsókn hefði fengist að þá væru aðilar ekki í þessari stöðu í dag, þ.e. kærði hefði þá fengið greidda þóknun fyrir sína vinnu úr ríkissjóði.

 

Ekkert liggur fyrir um að aðilar hafi samið upphaflega um tímagjald vegna starfa kærða í þágu kæranda en ekki liggur fyrir neinn skriflegur samningur um starfann. Vegna þess sem og með hliðsjón af því að ekki voru gefnir út og greiddir reikningar jafnóðum og unnið var er fátt handfast í samskiptum aðila um það að hve miklu leyti sammæli var á milli þeirra um einstök atriði í gjaldtökunni.

 

Engin gögn liggja fyrir um meint samkomulag aðila um endurgjald frá 16. janúar 2017 ef frá er talið tölvubréf sem kærði sendi til maka kæranda þann dag um fyrirhugaða reikningsgerð. Gegn andmælum kæranda um þetta efni er að áliti nefndarinnar ekki fært að leggja til grundvallar að komist hafi á bindandi samningur á milli aðila um endurgjald vegna lögmannsstarfa kærða.

 

Vegna málatilbúnaðar kæranda er mikilvægt að árétta að nefndin kveður ekki upp úrskurði um skaðabótaskyldu lögmanna vegna tjóns sem þeir kunna að valda í störfum sínum né um fjárhæð bóta. Til að unnt sé að taka afstöðu til bótaskyldu þarf að taka afstöðu til umfangs tjóns, orsakasambands á milli tjóns og háttsemi og fleiri atriða sem nefndin hefur engar heimildir til að fjalla um. Auk þess að fjalla um það sem sjálfstætt úrlausnarefni hvort lögmenn hafi gerst brotlegir við lög eða siðareglur lögmanna er hlutverk nefndarinnar bundið við að fjalla um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess. Við mat á því hvað er hæfilegt endurgjald hefur nefndin í fyrri úrskurðum sínum litið til þess ef hún telur sýnt að vinna lögmanns nýtist ekki af ástæðum sem hann ber sjálfur ábyrgð á að nokkru eða öllu leyti. Þetta jafngildir því hins vegar ekki að taka afstöðu til þess hvort umbjóðandi kann að eiga gagnkröfu á hendur lögmanni vegna bótaréttar.

 

Nefndin hefur hvorki undir höndum gögn þess héraðsdómsmáls sem kærði fór með fyrir kæranda né önnur gögn sem lutu að störfum kærða í þágu kæranda ef frá eru talin nokkur tölvubréf sem fóru á milli málsaðila. Í málatilbúnaði kærða er hins vegar vikið að því að fjöldi vinnustunda hafi líklega verið fremur hár miðað við málið en að það hafi orsakast af miklum samskiptum við kæranda og fulltrúa hans. Hvað það varðar og fjárhæð endurgjalds telur nefndin að ekki verði hjá því litið að kærði sinnti í engu ákveðnum þáttum sem fram komu ítrekað í samskiptum aðila eins og áður er lýst.

 

Með hliðsjón af því telur nefndin ekki annað fært en að meta sanngjarnt endurgjald kærða að álitum, þ.e. að teknu tilliti til atvika allra og þeirra gagna sem þó liggja fyrir nefndinni. Er það niðurstaða nefndarinnar að áskilið endurgjald kærða samkvæmt reikningi nr. 0000145 frá 16. janúar 2017 sæti lækkun sem nemur 149.750 krónur.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Sú háttsemi kærða, B hdl., að láta undir höfuð leggjast að senda inn gjafsóknarbeiðni fyrir kæranda, A, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir og óskir kæranda í þá veru og að kærði hafi tekið það verk að sér, er aðfinnsluverð. Þá er sú háttsemi kærða að tilgreina í tölvubréfi til kæranda að hann hygðist „afturkalla umsókn um gjafsókn til að draga ekki úr hugsanlegum möguleikum á gjafsókn fyrir Hæstarétti" þegar slík beiðni hafði aldrei verið send, aðfinnsluverð.

 

Áskilið endurgjald kærða, B hdl., vegna starfa hans í þágu kæranda, A, sætir lækkun og telst hæfileg fjárhæð reiknings nr. 0000145 vera 500.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og útlögðum kostnaði.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason hrl., formaður.

Einar Gautur Steingrímsson hrl.

Valborg Þ. Snævarr hrl.

 

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Kristinn Bjarnason hrl.