Mál 1 2018

Ár 2018, 22. mars 2018, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2018:

A,

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 9. janúar 2018 erindi kæranda, A, en í því er kvartað yfir því að kærði, B lögmaður, hafi brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. C lögmaður fer með málið fyrir hönd kæranda fyrir nefndinni.

Með bréfi, dags. 10. janúar 2018, var óskað eftir greinargerð kærða um málið fyrir 25. sama mánaðar, en engin svör bárust. Þann 29. janúar 2018 beindi nefndin á ný bréflegu erindi til kærða þar sem ítrekuð voru tilmæli um að hann gerði nefndinni grein fyrir málinu af sinni hálfu og veitti nefndin honum lokafrest í því skyni til 14. febrúar 2018. Í því bréfi var kærði minntur á skyldur sínar gagnvart úrskurðarnefndinni samkvæmt lögum nr. 77/1998 og siðareglum lögmanna. Bent var á að bærust umbeðnar upplýsingar ekki innan tilskilins frests mætti hann búast við því að nefndin beitti þeim viðurlögum, sem kveðið væri á um í 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Hvorki bárust svör né viðbrögð frá kærða vegna málsins. Var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Málsatvikalýsing kæranda hefur ekki sætt andmælum af hálfu kærða og verður hún lögð til grundvallar auk þess sem byggt verður á þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir nefndina.

Samkvæmt málsatvikalýsingu kæranda hafa hann og D verið í forsjár- og umgengnismáli vegna barns þeirra frá árinu 2012. Hefur C lögmaður gætt hagsmuna kæranda frá þeim tíma en kærði hagsmuna D. Er vísað til þess að um erfiða forsjár- og umgengnisdeilu sé að ræða milli foreldranna og að á ýmsu hafi gengið, þar sem kærði hafi meðal annars ítrekað sýnt aðfinnsluverða hegðun gagnvart kæranda.

Varðandi forsögu að baki erindi til úrskurðarnefndar er vísað til þess að þann 19. maí 2017 hafi kærandi átt rétt til umgengni við dóttur sína samkvæmt úrskurðum ráðuneytis og sýslumanns. Hafi umgengnin átt að fara fram í félagsheimilinu H og hefjast kl. 13:00 tilgreindan dag.

Kærandi mun hafa mætt að ofangreindu félagsheimili þennan dag ásamt móður sinni en kærði mun hafa mætt ásamt D, skjólstæðingi aðilans. Þá mun jafnframt hafa verið mætt E, fulltrúi hjá embætti sýslumannsins á Suðurlandi. Samkvæmt lýsingu mun kærði hafa upplýst fulltrúa sýslumanns um að skjólstæðingur aðilans myndi ekki samþykkja umgengni nema einhver frá félagsþjónustu Sveitarfélagsins F væri viðstaddur eins og kveðið væri á um í þeim úrskurðum sem málið varðaði.

Í kjölfar þess mun fulltrúi sýslumanns hafa farið afsíðis til að hafa samband við viðkomandi félagsþjónustu. Á meðan mun kærði hafa farið inn í félagsheimilið og byrjað að taka myndir og myndbönd af kæranda og móður aðilans. Þá mun kærði hafa reynt að fá kæranda til að skrifa undir samning við þessar aðstæður samkvæmt málsatvikalýsingu kæranda.

Í málinu liggur fyrir bréflegt erindi embættis sýslumannsins á Suðurlandi til lögmanns kæranda, dags. 9. nóvember 2017. Í erindinu lýsir viðkomandi sýslumannsfulltrúi upplifun sinni af því sem fram fór í umgengnismálinu þann 19. maí 2017 með eftirfarandi hætti:

Þegar undirrituð mætti á staðinn biðu aðilar máls í bifreiðum sínum fyrir utan félagsheimilið. B lögmaður var mættur ásamt D. Hann kom strax að máli við undirritaða og sagði umbjóðanda sinn ekki vera tilbúinn til þess að skoða umgengni fyrr en einhver á vegum félagsþjónustu Sveitarfélagsins F væri mættur líkt og kveðið væri á um í þeim úrskurðum sem málið varðaði. A var mættur ásamt móður sinni. Hann var upplýstur um að undirrituð hygðist ná sambandi við félagsþjónustuna. Undirrituð fór afsíðis.

Þegar undirrituð kom á ný inn í félagsheimilið spurði A hvort undirrituð hefði leyft B að taka af honum myndir/myndbönd. Hann upplýsti að á meðan undirrituð hefði verið að ná sambandi við félagsþjónustuna hefði B gengið inn í félagsheimilið og farið að taka myndir/myndband af honum og móður hans. Það skal skýrt tekið fram að undirrituð gaf B ekkert leyfi fyrir því að taka myndir/myndband í umrætt sinn. Í framhaldinu var B spurður út í þessar staðhæfingar A. B viðurkenndi að hafa tekið myndir. B var gerð grein fyrir því að myndatökur væru ekki viðeigandi á þessum vettvangi.

Starfsmaður félagsþjónustunnar mætti skömmu síðar á svæðið. B og D vildu ræða við hana einslega. Stuttu síðar kom B til A og spurði A hvort hann væri eitthvað til samninga. A sagði svo ekki vera. B og D fóru skömmu síðar. Ekkert varð af umgengni.“

Auk ofangreindra gagna liggur fyrir nefndinni tölvubréf kæranda til lögmanns aðilans, dags. 30. nóvember 2017, þar sem upplifun kæranda af umgengnismálinu er lýst. Þá hefur verið lagt fram umboð kæranda til lögmanns síns, dags. 20. júní 2017.

II.

Kærandi krefst þess að kærði verði áminntur fyrir brot á siðareglum lögmanna vegna háttsemi sinnar, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Í kvörtun kæranda er því lýst að hún beinist að kærða vegna ítrekaðra brota á siðareglum lögmanna.  Er tiltekið að brotin lúti að því að kærði hafi endurtekið haft beint samband við kæranda í tengslum við dagsektar-, forsjár- og umgengnismál sem hafi verið í gangi frá árinu 2012 og að kærði hafi reynt að ná samkomulagi með þvingunum. Þetta hafi kærði gert þrátt fyrir að hafa verið fullkunnugt um að kærandi hafi verið með sama lögmann allt frá árinu 2012 enda hafi lögmenn aðila átt í reglulegum samskiptum frá þeim tíma, meðal annars í tölvupósti og símtölum. Þá hafi kærði sýnt af sér ófaglega og óeðlilega hegðun í tengslum við umgengni sem fara hafi átt fram í maímánuði 2017.

Í kvörtun kæranda er aðkomu kærða að umgengnismálinu þann 19. maí 2017 sérstaklega lýst, en um það efni vísast nánar til þess sem greinir í málsatvikalýsingu að framan.

Um það efni bendir kærandi á að kærði hafi hvorki upplýst að hann ætlaði að mæta né að hann hygðist reyna að koma á varanlegu samkomulagi á milli málsaðila rétt áður en umgengni hafi átt að eiga sér stað. Bendir kærandi á að kærði hafi átt að upplýsa um í aðdraganda hinnar fyrirhuguðu umgengni að hann hygðist verða viðstaddur og veita kæranda með því færi á að hafa sinn lögmann viðstaddan.

Bendir kærandi á að kærði hafi ítrekað í gegnum árin haft beint samband við sig og reynt að semja um breytingar á umgengni. Hafi kærði látið eins og honum sé ókunnugt um að kærandi sé með lögmann. Eigi kærða að vera fullljóst eftir öll þessi ár að kærandi sé með lögmann og hver sá lögmaður sé í ljósi reglulegra samskipta þeirra.

Byggir kærandi á að kærði hafi ítrekað brotið gegn siðareglum lögmanna, sbr. meðal annars 2. og 25. gr. siðareglnanna. Þá vísar aðilinn til þess að um mjög viðkvæma deilu sé að ræða sem varði hagsmuni barns. Í því ljósi sé það enn mikilvægara að öllum aðilum máls sé sýnd full virðing og tillitssemi í framkomu og samskiptum, sbr. 34. gr. siðareglna lögmanna. Byggir kærandi á að kærði hafi ekki sýnt af sér slíka háttsemi auk þess sem þær þvinganir sem kærði hafi ítrekað reynt að beita kæranda til að semja á síðustu stundu án vitundar lögmanns kæranda og undir pressu sé gróft brot á 35. gr. siðareglnanna. Þá hafi kærði jafnframt ítrekað brotið gegn 26. gr. siðareglnanna með því að hafa beint samband við kæranda en þó aldrei eins gróflega og við hina fyrirhuguðu umgengni þann 19. maí 2017.

Með vísan til þess hversu langt kærði hafi gengið með háttsemi sinni þann 19. maí 2017 og í ljósi alvarleika brota aðilans gegn siðareglum lögmanna telur kærandi sig knúinn að beina kvörtun í máli þessu til úrskurðarnefndar lögmanna. Gerir kærandi samkvæmt því kröfu um að kærði verði áminntur fyrir háttsemi sína.

III.

Sem fyrr greinir hefur kærði ekki skilað nefndinni greinargerð eða gert að öðru leyti grein fyrir sjónarmiðum vegna máls þessa.

Niðurstaða

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

II.

Samkvæmt 2. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum. Í 1. mgr. 26. gr. siðareglnanna, sem er að finna í IV. kafla þeirra þar sem kveðið er á um samskipti lögmanna innbyrðis, er tiltekið að lögmaður megi ekki snúa sér beint til aðila um málefni, sem annar lögmaður fer með, án hans samþykkis, nema brýn nauðsyn krefji. Ávallt skuli þá viðkomandi lögmanni þegar um það tilkynnt.

Samkvæmt 34. gr. siðareglnanna, sem er að finna í V. kafla þeirra þar sem kveðið er á um skyldur lögmanns við gagnaðila, skal lögmaður sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna. Þá er kveðið á um í 35. gr. siðareglnanna að lögmaður megi ekki til framdráttar málum skjólstæðings síns beita gagnaðila ótilhlýðilegum þvingunum en nánar er lýst í ákvæðinu hvað teljist meðal annars ótilhlýðilegt í þessum efnum.

Samkvæmt málsatvikalýsingu kæranda, sem ekki hefur sætt nokkrum andmælum af hálfu kærða, hefur kærði gætt hagsmuna gagnaðila kæranda í forsjár- og umgengnismáli vegna barns þeirra allt frá árinu 2012. Frá sama tíma hefur C lögmaður gætt hagsmuna kæranda.

Fyrir liggur að þann 19. maí 2017 var fyrirhuguð umgengni kæranda við barn aðilans og skjólstæðings kærða samkvæmt úrskurðum viðkomandi ráðuneytis og sýslumannsembættis. Átti umgengni kæranda við barnið að fara fram í félagsheimilinu H þann dag og skyldi hún hefjast kl. 13:00. Samkvæmt málsatvikalýsingu kæranda, sem ekki hefur sætt andmælum af hálfu kærða, mun kærði hafa mætt með skjólstæðingi sínum við hina fyrirhuguðu umgengni. Þegar fulltrúi sýslumanns, sem átti að vera viðstaddur umgengnismálið, fór afsíðis til að hafa samband við aðila hjá viðkomandi félagsþjónustu að beiðni kærða og skjólstæðings hans mun kærði hafa hafið að taka myndir og myndbönd af kæranda og móður hans inni í félagsheimilinu gegn þeirra vilja. Þá mun kærði hafa leitað eftir því hjá kæranda á staðnum hvort hann væri reiðubúinn að ganga til samninga.

Tilgreind málsatvikalýsing kæranda fær fulla stoð í lýsingu fulltrúa embættis sýslumannsins á Suðurlandi á því sem fram fór við hina fyrirhuguðu umgengni þann 19. maí 2017, sbr. bréf dags. 9. nóvember 2017 sem nánar er í lýst í málsatvikalýsingu að framan.

Í samræmi við framangreint verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að kærði hafi tekið myndir og myndbönd af kæranda og móður hans, gegn vilja þeirra, við hina fyrirhuguðu umgengni þann 19. maí 2017. Af gögnum málsins og með hliðsjón af atvikum öllum verður ekki séð að nokkur tilgangur hafi getað legið að baki þeirri háttsemi kærða annar en sá að reyna að hafa neikvæð áhrif á kæranda og valda honum óþægindum á þessum viðkvæma tíma. Þá var háttsemin til þess fallin að brjóta gegn friðhelgi einkalífs kæranda, en þau réttindi eru meðal annars varin af 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944. Hefur kærði engar skýringar veitt á háttsemi sinni að þessu leyti gagnvart nefndinni.

Að áliti nefndarinnar var háttsemi og framkoma kærða að þessu leyti í engu til þess fallin að sýna kæranda virðingu og þá tillitssemi sem var samrýmanleg hagsmunum skjólstæðings kærða, sbr. 34. gr. siðareglna lögmanna. Þá var háttsemin í brýnni andstöðu við 2. gr. siðareglna lögmanna enda háttsemin, þ.e. að lögmaður taki myndir og/eða myndbönd af gagnaðila skjólstæðings síns í umgengnismáli án nokkurs tilefnis og gegn vilja viðkomandi, í engu til þess fallin að gæta heiðurs lögmannastéttarinnar.

Að sama skapi verður á grundvelli fyrirliggjandi gagna að leggja til grundvallar að á sama tíma, þ.e. við hina fyrirhugðu umgengni þann 19. maí 2017, hafi kærði leitað eftir því hjá kæranda hvort hann væri reiðubúinn að ganga til samninga um umgengnina.

Samkvæmt lýsingu kæranda, sem ekki hefur sætt andmælum kærða, hefur ágreiningur staðið um forsjá og umgengni frá árinu 2012. Frá þeim tíma hefur kærði gætt hagsmuna gagnaðila kæranda en C lögmaður hagsmuna kæranda. Verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að kærði hafi verið meðvitaður um þá hagsmunagæslu. Samkvæmt því og með vísan til 1. mgr. 26. gr. siðareglna lögmanna er það mat nefndarinnar að kærða hafi verið óheimilt að snúa sér sér beint til kæranda um mögulegar sáttaumleitanir og/eða samningagerð við hina fyrirhugðu umgengni þann 19. maí 2017 enda lá hvorki fyrir samþykki kæranda fyrir því né brýn nauðsyn í skilningi tilgreinds ákvæðis. Hafi kærði samkvæmt því brotið gegn 1. mgr. 26. gr. siðareglna lögmanna með því að hafa leitað til kæranda þann 19. maí 2017 með það fyrir augum að ganga til samninga um umgengnina. Á hinn bóginn liggur ekkert fyrir um það í gögnum málsins að kærði hafi beitt í því skyni ótilhlýðilegum þvingunum í skilningi 35. gr. siðareglnanna.

Í samræmi við það sem að framan greinir er það mat nefndarinnar að kærði hafi með háttsemi sinni þann 19. maí 2017, sem áður er lýst, brotið gróflega gegn 2. gr., 1. mgr. 26. gr. og 34. gr. siðareglna lögmanna. Við mat á beitingu viðurlaga í málinu er til þess að líta að háttsemi kærða gagnvart kæranda var viðhöfð í hagsmunagæslu á viðkvæmu stigi í umgengnismáli þar sem ágreiningur hafði staðið á milli málsaðila um árabil. Verður að mati nefndarinnar ekki litið fram hjá eðli slíkra mála, þar sem lögmenn þurfa jafnan að gæta hagsmuna vegna persónulegra og viðkvæmra málefna málsaðila og barna þeirra þar sem ágreiningur aðila kann jafnframt að vera djúpstæður. Við hinar viðkvæmu aðstæður þann 19. maí 2017 bar kærða að sýna kæranda tilhlýðilega tillitssemi og virðingu. Varð misbrestur á því af hálfu kærða, eins og áður er lýst.

Þá er jafnframt til þess að líta að samkvæmt  4. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna er lögmanni skylt að boði úrskurðarnefndar lögmanna að gera viðhlítandi grein fyrir máli sínu út af meintu broti eða ágreiningi um skilning á siðareglunum. Ber lögmanni í  því efna að svara og sinna án ástæðulauss dráttar fyrirspurnum og kvaðningum nefndarinnar. Að framan er lýst hvernig kærða hefur verið veittur rúmur frestur af hálfu úrskurðarnefndar til að gera grein fyrir máli sínu, en hann hefur ítrekað hunsað tilmæli nefndarinnar þar að lútandi. Felur framferði kærða að þessu leyti í sér brot á skyldum hans gagnvart nefndinni, sbr. 4. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna, enda þótt nefndin telji að málið sé nægilega upplýst þrátt fyrir þessa vanrækslu kærða.

Með hinum alvarlegu og grófu brotum kærða á tilgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna sem hér hefur verið lýst hefur aðilinn sýnt af sér hegðun sem telja verður lögmannastéttinni ósamboðna. Sætir kærði áminningu samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Eru brot kærða á þeim skyldum sem kveðið er á um í ákvæðum siðareglna lögmanna svo stórfelld að nefndin mun taka til skoðunar í rökstuddu áliti hvort lagt verður til við sýslumann að lögmannsréttindi aðilans verði tímabundið felld niður.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, B, sætir áminningu.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður, formaður.

Kristinn Bjarnason lögmaður.

Valborg Þ. Snævarr lögmaður.

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson