Mál 14 2018

Mál 14/2018

Ár 2018, 5. desember 2018, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 14/2018:

A,

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 10. ágúst 2018 erindi kæranda, A, þar sem kvartað er yfir því að kærði, B lögmaður, hafi brotið gegn 41. gr. siðareglna lögmanna, sbr. einnig 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, gagnvart kæranda.

Kvörtun kæranda var jafnframt reist á því að C lögmaður hefði brotið gegn ákvæðum laga nr. 77/1998 og siðareglna lögmanna í störfum sínum í þágu kæranda á árunum 2014 og 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. ágúst 2018, var óskað eftir nánar tilgreindum upplýsingum frá kæranda vegna þess þáttar kvörtunarinnar. Kærandi svaraði upplýsingabeiðni nefndarinnar með bréfi, dags. 26. ágúst 2018, sem móttekið var þann 27. sama mánaðar.

Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. september 2018, var kæranda tilkynnt um frávísun máls að hluta, þ. á m. frávísun á kröfum kæranda á hendur C lögmanni. Í tilkynningu nefndarinnar var í fyrsta lagi tekið fram að krafa kæranda á hendur tilgreindum lögmanni hefði borist eftir að frestur til að koma kvörtun á framfæri við nefndina var liðinn, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 og 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Í öðru lagi var því lýst í tilkynningunni að krafa kæranda um að nefndin tæki til skoðunar hvort skipun hennar væri lögmæt félli utan valdsviðs úrskurðarnefndar eins og það væri afmarkað í lögum nr. 77/1998 og áðurgreindum málsmeðferðarreglum. Þá var í þriðja lagi vísað til þess að krafa kæranda um að úrskurður nefndarinnar í máli nr. 9/2016 yrði felldur úr gildi félli jafnframt utan valdsviðs nefndarinnar. Þegar af þeim ástæðum var tilgreindum kröfum kæranda vísað frá nefndinni á grundvelli 1. mgr. 8. gr. málsmeðferðarreglnanna.

Kærða, B lögmanni, var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunar kæranda með bréfi dags. 21. september 2018 og barst hún þann 4. október 2018. Var kæranda send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 8. október 2018. Hinn 18. október 2018 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar til kærða þann 19. sama mánaðar. Viðbótarathugasemdir kærða bárust nefndinni þann 7. nóvember 2018 og voru þær sendar til kærða þann 8. sama mánaðar með þeirri athugasemd að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Ekki bárust frekari athugasemdir eða gögn frá málsaðilum og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og málatilbúnaði aðila leitaði kærandi til C lögmanns í júnímánuði 2014 vegna þess sem lýst er sem frelsissvipting í málatilbúnaði kæranda sem hann hafi mátt þola þann 2. mars 2014 samkvæmt ákvörðun D læknis. Viðkomandi lögmaður starfaði þá hjá E lögmannsstofu sf. en lögmannsstofan mun vera í eigu kærða. Fram hefur komið undir rekstri málsins af hálfu kærða að C hafi starfað sem lögmaður hjá öðrum lögmanni, þ.e. kærða, í skilningi 3. mgr. 11. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og að kærði hafi því aðeins borið ábyrgð á fjárvörslu lögmannsins svo og fébótaábyrgð á störfum hans að öðru leyti.

Fyrir liggur að kærandi veitti C lögmanni og „fulltrúum hennar“ umboð þann 10. júní 2014 til að höfða mál, afla allra persónulegra upplýsinga sem þörf væri á og veita þær þegar þörf krefði hvort heldur sem þær væru fjármálalegs eða persónulegs eðlis. Var tiltekið í umboðinu að það næði til allra starfsmanna á skrifstofu lögmannsins eftir því sem við gæti átt. Þá var tiltekið að umboðið skylda gilda til 10. júní 2015.

Í gögnum málsins liggja fyrir samskipti á milli viðkomandi lögmanns og D læknis á tímabilinu frá 3. júlí 2014 til 26. ágúst sama ár vegna upplýsingabeiðni hins fyrrnefnda um kæranda. Í tölvubréfi lögmannsins þann 22. ágúst 2014 var eftirfarandi tiltekið:

Ég tel að það sé afar brýnt að heyrast aðeins vegna hans A, fyrir utan beiðni hans um frekari upplýsingar og annað sem hann hefur falið mér s.s. að krefjast þess að upplýsingar sem skráðar hafa verið verði eytt og/eða breytt – en við ræðum það jafnframt nánar.

Það sem er brýnna er að sem lögmaður hans verð ég aðeins að ræða við þig til að geta aðstoðað hann með þeim hætti sem ég tel heillavænlegastan og geta beint þessu í réttan farveg, s.s. að aðstoða hann og fá til að sækja um örorkulífeyri, og staldra aðeins við, en eins og sakir standa stendur til hjá honum að fara á fullt í atvinnuleit, sem ég óttast mjög að sé ekki tímabært. Ég árétta að ég er með umboð frá honum til að fá allar persónuupplýsingar er lúta að heilsufari, svo þetta er allt innan marka, en óneitanlega sérstök staða, þar sem ég veit ekki enn hvort hann vill þiggja aðstoð við að sækja um örorkulífeyri né heldur vegna heilsufars hans.

Viðkomandi aðilar áttu í frekari tölvubréfasamskiptum vegna upplýsingabeiðninnar á tímabilinu frá 6. september 2014 til 19. nóvember 2014, sem liggja fyrir nefndinni.

Fyrir liggur að krafist var bóta úr hendi íslenska ríkisins með bréfi C lögmanns fyrir hönd kæranda, dags. 19. mars 2015, vegna frelsissviptingar sem kærandi þurfti að sæta í mars 2014 er hann var fluttur gegn vilja sínum á geðdeild Landspítalans við Hringbraut. Með bréfi ríkislögmanns, dags. 30. apríl 2015, var kröfum kæranda hafnað. Upplýsti tilgreindur lögmaður kæranda um þá afstöðu í tölvubréfi þann 5. maí 2015.

Í framhaldi þessa mun hafa verið hafin vinna að stefnugerð vegna fyrirhugaðrar málshöfðunar kæranda á hendur íslenska ríkinu. Samkvæmt fyrirliggjandi vinnuskýrslu og tölvubréfasamskiptum kæranda og lögmannsins, sem liggja fyrir í málsgögnum, mun sú vinna hafa staðið yfir í maí- og júnímánuði 2015 en fyrirhugað var að þingfesta stefnuna í héraði þann 30. júní 2015. Frá því var horfið í kjölfar tölvubréfs kæranda til lögmannsins, sem sendur var að kvöldi þann 29. júní 2015, þar sem gerðar voru alvarlegar athugasemdir við efni stefnunnar. Fær framangreint jafnframt stoð í færslu í vinnuskýrslu lögmannsins frá sama degi.

Eins og áður greinir þá liggur fyrir í málsgögnum vinnuskýrsla C lögmanns vegna starfa í þágu kæranda á tímabilinu frá 4. nóvember 2014 til 19. júní 2015. Af skráningu í vinnuskýrslu verður ráðið að lögmaðurinn hafi ráðfært sig við kærða vegna málefna kæranda, þ.e. annars vegar vegna kröfubréfs á hendur íslenska ríkinu í desembermánuði 2014 og janúarmánuði 2015 og hins vegnar vegna hinnar fyrirhuguðu málshöfðunar í júní 2015. Í vinnuskýrslunni er jafnframt að finna skráða tíma kærða á málið frá 4. nóvember 2014 til 18. janúar 2015, þ.e. alls 1,25 klukkustund vegna funda og undirbúnings skaðabótamáls.

Hvorki verður ráðið af málsgögnum hver afdrif hins fyrirhugaða dómsmáls urðu né hvort eða þá að hvaða marki C lögmaður eða kærði hafi sinnt frekari hagsmunagæslu í þágu kæranda frá lok júnímánaðar 2015 til 19. ágúst 2015. Á síðastgreindum degi munu tilgreindir aðilar hafa átt með sér fund um stöðu mála og var réttarsambandi aðila í kjölfar hans slitið.

Þann 19. júlí 2018 sendi kærandi tölvubréf til kærða vegna áðurgreinds tölvubréfs C lögmanns til D læknis frá 22. ágúst 2014. Lýsti kærandi því að ráðið yrði af efni tölvubréfsins að lögmannsstofa kærða hefði ekki haft hagsmuni kæranda að leiðarljósi. Þá setti kærandi fram eftirfarandi fyrirspurnir í tölvubréfinu:

1. Hvernig getur umrætt bréf frá 22. ágúst 2014, verið í samræmi við siðareglur lögmanna?

  1. Hvaða frekari samskipti voru á milli starfsmanna E sf. og D læknis, sem vörðuðu mig og mér var ekki gert grein fyrir og þá hvaða samskipt[i]?
  2. Voru starfsmenn E sf. í einhverjum öðrum samskiptum, sem vörðuðu mig og mér var ekki gerð grein fyrir og þá hvaða samskiptum?

Þá áskildi kærandi sér allan rétt í tölvubréfinu til að sækja skaðabætur vegna starfa lögmannsstofu kærða á árunum 2014 og 2015, enda lægi ljóst fyrir að vinnubrögðin hefðu stórskaðað kæranda.

Fram kemur í málatilbúnaði beggja aðila að kærandi hafi fengið svar við fyrrgreindu tölvubréfi samdægurs þar sem því hafi verið lýst að kærði væri í sumarleyfi til 8. ágúst 2018. Þá er ágreiningslaust að málsaðilar áttu með sér símtal þann 9. sama mánaðar vegna fyrrgreinds tölvubréfs kæranda frá 19. júlí 2018. Lýsir kærandi því í málatilbúnaði sínum að kærði hafi þar upplýst að hann hygðist ekki svara fyrirspurn kæranda. Kærði hefur hins vegar lýst því fyrir nefndinni að hann muni ekki nákvæmlega efni símtalsins en að hann hafi vísað á bug öllum kröfum kæranda enda hafi hann staðið í þeirri trú að fyrirspurn kæranda lyti aðeins að nánar tilgreindum bótakröfum.

Kærði fylgdi eftir efni símtalsins með tölvubréfi til kæranda þann 14. ágúst 2018. Var því þar lýst að kærði hefði ekki haft mikinn tíma til að svara erindum kæranda vegna sumarleyfa en tiltók jafnframt að hann hafnaði öllum kröfum og ávirðingum.

Undir rekstri málsins fyrir nefndinni, nánar tiltekið þann 26. september 2018, sendi kærði tölvubréf til kæranda með yfirskriftinni „Tölvupóstur dags. 19.7.2018“ sem C lögmaður fékk jafnframt afrit af. Í tölvubréfinu var fyrirspurnum kæranda frá 19. júlí 2018 svarað með svohljóðandi hætti:

1. Ég mun ekki gefa álit á því hvort C eða ég hafi brotið siðareglur lögmanna.

  1. Lið 2 get ég ekki svarað, eins og þú sjálfur veist, þar sem vann ekki að málinu nema óverulega. Var umboðið til C, persónulega. Mun ég biðja hana að svara þessu.
  2. Lið 3 get ég ekki svarað nema fyrir mitt leyti en ég var ekki í neinum samskiptum sem þig vörðuðu, a.m.k. hvað mig varðar. Mun ég biðja C að svara fyrir sitt leyti.

Í samræmi við ofangreint efni sendi kærði tölvubréf til C lögmanns þennan sama dag sem kærandi fékk jafnframt afrit af. Óskaði kærði þar eftir að lögmaðurinn myndi svara erindi kæranda frá 19. júlí 2018 fyrir sitt leyti vegna þeirra atriða sem þar ræddi. Sendi lögmaðurinn umrætt svar í tölvubréfi til kæranda og með afriti til kærða þann 27. september 2018. Ekki þykir ástæða til að rekja efni þess í máli þessu.

II.

Í kvörtun kæranda er því lýst að hún lúti að því að kærði ætli sér ekki að svara fyrirspurn kæranda sem sett hafi verið fram í tölvubréfi þann 19. júlí 2018. Byggir kærandi á því að neitun kærða á að svara viðkomandi fyrirspurn feli í sér brot gegn ákvæðum siðareglna lögmanna.

Kærandi lýsir því í málatilbúnaði sínum að lögmannsstofa kærða hafi tekið að sér að afla upplýsinga um frelsissviptingu sem kærandi hafi mátt þola þann 2. mars 2014 samkvæmt ákvörðun D læknis. Hafi kærandi veitt C lögmanni umboð, dags. 10. júní 2014, til að afla upplýsinga sem tengdust umræddri frelsissviptingu.

Vísar kærandi til þess að hann hafi sent fyrirspurn á kærða í tölvubréfi þann 19. júlí 2018 þar sem því hafi verið lýst að kærandinn hafi tekið eftir bréfi C lögmanns til áðurgreinds læknis, dags. 22. ágúst 2014, og að ekki yrði annað ráðið af efni bréfsins en að lögmaðurinn hafi farið út fyrir umboð sitt í samskiptunum. Þá hafi umrædd samskipti verið til þess fallin að skaða verulega hagsmuni kæranda auk þess sem þau hafi vakið upp margar spurningar. Byggir kærandi á að það hafi verið í verkahring kærða, sem eiganda að E lögmannsstofu sf., að gera grein fyrir viðkomandi samskiptum og svara fyrirspurn kæranda.

Kærandi bendir á að svar hafi borist frá kærða vegna tölvubréfsins þar sem upplýst hafi verið um sumarleyfi kærða til 8. ágúst 2018. Að morgni 9. sama mánaðar hafi kærandi hringt í kærða þar sem fram hafi komið að kærði hefði ekki í hyggju að svara fyrirspurn kæranda frá 19. júlí 2018. Af þeim sökum hafi kærandi beint kvörtun í málinu til úrskurðarnefndar lögmanna.

Í viðbótarathugasemdum kæranda var vísað til þess að kærði hefði hvorki sýnt fram á né sannað að C lögmaður hefði starfað sem sjálfstæður lögmaður samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laga nr. 77/1998 á lögmannsstofu kærða og verði því að leggja til grundvallar að hún hafi starfað þar sem löglærður fulltrúi hans samkvæmt 1. og 2. mgr. 11. gr. laganna. Þá sé ljóst af svörum kærða að viðkomandi lögmaður hafi starfað hjá lögmannsstofu kærða og að ábyrgðartrygging stofunnar hafi gilt fyrir störf lögmannsins á því tímabili sem um ræði. Fyrir liggi að lögmaðurinn hafi látið af störfum hjá lögmannsstofunni og því geti formleg svör ekki komið frá öðrum en eiganda og ábyrgðaraðila stofunnar, þ.e. kærða í máli þessu. Þá breyti það engu í því tilliti hvort lögmaðurinn hafi starfað samkvæmt 2. eða 3. mgr. 11. gr. laga nr. 77/1998.

Kærandi bendir jafnframt á að af fyrirliggjandi gögnum megi ráða að aðkoma kærða að máli kæranda hafi verið mun umfangsmeiri en kærði vilji láta auk þess sem fyrirspurnirnar hafi tengst fébótaábyrgð E lögmannsstofu sf. Þá liggi fyrir að öll gögn vegna málsins séu geymd á lögmannsstofunni enda hafi C lögmaður ekki mátt taka gögn með sér við starfslok. Bendir kærandi á að aðgengi að gögnum sé forsenda fyrir svörum vegna fyrirspurnar hans.

Þá kveðst kærandi hafna öllum efnislegum svörum C lögmanns sem kærði hafi lagt fyrir nefndina með greinargerð sinni. Séu tölvubréf lögmannsins uppfull af rangfærslum og því verulega ótrúverðug.

Í viðbótarathugasemdum kæranda var jafnframt gerð grein fyrir sjónarmiðum aðilans varðandi umboð, dags. 10. júní 2014, og þess óskað að nefndin tæki umboðið til skoðunar. Þá var jafnframt gerð grein fyrir athugasemdum kæranda vegna tölvubréfa C lögmanns eftir að kvörtun í málinu var beint til nefndarinnar og atvik máls rakin varðandi fyrirhugaða málshöfðun kæranda á hendur íslenska ríkinu frá 8. desember 2014 til 19. ágúst 2015 og gögn um það efni lögð fram.

Með hliðsjón af sakarefni málsins eins og það var afmarkað með kvörtun kæranda til nefndarinnar, sem var móttekin þann 10. ágúst 2018, og tilkynningar úrskurðarnefndar lögmanna til kæranda um frávísun máls að hluta, dags. 21. september 2018, eru ekki efni til að rekja ofangreindar athugasemdir kæranda í máli þessu.

III.

Kærði krefst þess í málinu að kröfum kæranda verði hafnað.

Kærði vísar til þess að C lögmaður hafi tekið að sér mál fyrir kæranda samkvæmt umboði, dags. 10 júní 2014. Hafi C á þeim verið lögmaður sem starfaði hjá öðrum lögmanni í skilningi 3. mgr. 11. gr. laga nr. 77/1998 en ekki fulltrúi kærða í skilningi 2. mgr. sömu lagagreinar.

Byggir kærði á að gagnálykta verði frá 2. mgr. 11. gr. laga nr. 77/1998 þegar komi að skýringu á réttarsambandi lögmanna samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laganna. Sé ábyrgð slíkra lögmanna sjálfstæð svo og réttarsamband þeirra við skjólstæðinga. Beri vinnuveitandi eingöngu fébótaábyrgð. Samkvæmt því reisir kærði málatilbúnað sinn á því að kærandi hafi ekki verið skjólstæðingur sinn þótt kærði hafi komið lítillega að málinu.

Kærði bendir á að þegar umrætt tölvubréf hafi verið móttekið, þann 19. júlí 2018, hafi hann verið í sumarleyfi. Hafi kærði tekið því þannig að erindið lyti aðeins að meintri fébótaábyrgð aðilans gagnvart kæranda enda hefði það með réttu aldrei getað lotið að öðru. Þá hafi kærði ekki getað svarað fyrir aðra þætti í erindinu enda hafi viðkomandi lögmaður sem sinnt hafi málinu ekki starfað sem fulltrúi hjá kærða.

Kærði kveðst hafa vísað kröfum kæranda á bug í símtali sem þeir hafi átt með sér að afloknu sumarleyfi kærða. Hafi kærði þá staðið í þeirri meiningu að efni tölvubréfsins hefði aðeins lotið að bótakröfum vegna innheimtu vangoldinna verklauna sem enn voru ógreidd. Þar sem samtalið hafi verið stutt hafi kærði svarað kæranda jafnframt skriflega. Áður en til þess hafi komið hafi kærði verið upplýstur um kvörtun kæranda til úrskurðarnefndar lögmanna og því ekki talið efni til að efna til málfundar um framkomnar bótakröfur enda tryggingarfélags kærða að svara þeim.

Kærði kveðst hafa lesið á ný umrætt tölvubréf kæranda af nákvæmni eftir að kvörtun í máli þessu hafi verið beint til úrskurðarnefndar. Hafi kærði þá séð þar atriði sem ekki hafi átt að beina til sín heldur viðkomandi lögmanns sem farið hafi með mál kæranda. Hafi kærði því svarað kæranda með tölvubréfi, dags. 26. september 2018, þar sem vísað hafi verið á C lögmann auk þess sem kærði hafi gengið í að fá efnisleg svör frá lögmanninum, sem liggja fyrir í málsgögnum.

Kærði byggir á að hann hafi ekki verið seinn til svara vegna fyrirspurnar kæranda enda hafi hann hafnað kröfum kæranda munnlega sama dag eða daginn eftir að sumarleyfi hans hafi lokið auk þess sem hann hafi svarað kæranda skriflega með tölvubréfi þann 14. ágúst 2018. Bendir kærði á að sérstaklega þurfi að hafa í huga að bótakröfum kæranda hafi verið svarað munnlega vel innan hæfilegs tíma og síðan skriflega að auki stuttu síðar. Þá hafi ákvæði siðareglna lögmanna ekki að geyma ákvæði um það í hvaða formi svör skuli veitt.

Jafnframt bendir kærði á að þeir þættir í erindi kæranda, sem kærða hafi misminnt um, hafi lotið að atriðum sem hvorki hafi átt að beina til kærða né hafi kærði verið fær um að svara. Hafi kæranda verið kunnugt um það. Þá hafi kæranda verið í lófa lagið alla tíð að beina erindinu í rétta átt.

Vísar kærði til þess að langsótt sé að beita lögmann viðurlögum sem misminnir um efni erindis, sem barst honum í sumarleyfi, og nærtækast sé að beina að þeim lögmanni sem hafði með málið að gera og ber persónulegar skyldur til að bregðast við.

Í viðbótarathugasemdum kærða til nefndarinnar voru fyrri athugasemdir aðilans, sem áður greinir, ítrekaðar.

Niðurstaða

I.

Áður er lýst meðferð málsins fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Í viðbótarathugasemdum kæranda til nefndarinnar var þess óskað af hálfu aðilans að málsmeðferð fyrir nefndinni yrði munnleg þannig að tryggt yrði að málið væri nægjanlega reifað og upplýst. Vísaði kærandi um tilgreinda beiðni til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. reglna um meðferð mála fyrir nefndinni getur nefndin kallað aðila fyrir sig til skýrslugjafar eða munnlegs málflutnings.

Að mati nefndarinnar telst málið nægjanlega upplýst á grundvelli skriflegra greinargerða aðila og málsgagna. Þegar af þeirri ástæðu er ekki efni til að fallast á beiðni kæranda um munnlega málsmeðferð í málinu.

II.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

III.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 77/1998 ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Er slíkt enn fremur áréttað í 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna þar sem tiltekið er að lögmaður skuli leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna í samræmi við meginreglu 1. gr. siðareglnanna þar sem kveðið er á um að lögmanni beri að efla rétt og hrinda órétti og að hann skuli leggja svo til allra mála sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Í 41. gr. siðareglna lögmanna er kveðið á um að lögmaður skuli án ástæðulauss dráttar svara bréfum og öðrum erindum, er honum berast í lögmannsstarfi hans. Sé ekki unnt að svara bréfi eða öðru erindi innan hæfilegs tíma, ber lögmanni að tilkynna það viðkomandi og að erindinu verði svarað, þegar fært verður.

Eins og áður greinir lýtur kvörtun kæranda að því að kærði hafi neitað að svara fyrirspurn kæranda sem send var í tölvubréfi þann 19. júlí 2018 og að með þeirri háttsemi hafi kærði brotið gegn ákvæðum siðareglna lögmanna.

Um þetta efni er þess annars vegar að gæta að kærandi leitaði til C lögmanns, sem þá starfaði hjá lögmannsstofu kærða, í júnímánuði 2014 vegna þess máls sem nánar er lýst í málsatvikalýsingu að framan. Tók sá lögmaður að sér hagsmunagæslu í þágu kæranda eins og skýrlega verður ráðið af umboði, dags. 10. júní 2014, sem liggur fyrir í málsgögnum.

Fram hefur komið undir rekstri málsins af hálfu kærða að C hafi starfað sem lögmaður hjá öðrum lögmanni, þ.e. kærða í máli þessu, í skilningi 3. mgr. 11. gr. laga nr. 77/1998. Að mati nefndarinnar er ekki unnt að leggja annað til grundvallar við úrlausn málsins enda ber fyrirliggjandi umboð, sem kærandi veitti lögmanninum og áður er lýst, þess jafnframt skýr merki. Samkvæmt 2. málsl. 3. mgr. 11. gr. laga nr. 77/1998 var ábyrgð kærða vegna starfa viðkomandi lögmanns takmörkuð við fjárvörslu hans svo og fébótaábyrgð vegna starfans.

Í samræmi við framangreint sinnti C lögmaður hagsmunagæslu í þágu kæranda á árunum 2014 og 2015 og var réttarsambandið þeirra í milli. Fær það því ekki breytt þó kærði hafi haft takmarkaða aðkomu að málefnum kæranda á tilgreindum árum en samkvæmt færslum í vinnuskýrslu mun þar einkum hafa verið að ræða almenna ráðgjöf við lögmann kæranda um framsetningu krafna og málatilbúnað í kröfubréfi til íslenska ríkisins annars vegar og við stefnugerð hins vegar.

Samkvæmt því var kæranda rétt að beina fyrirspurnum þeim sem sendar voru til kærða þann 19. júlí 2018, og raktar eru í málsatvikalýsingu að framan, til C lögmanns á grundvelli fyrrgreinds réttarsambands þeirra sem mun hafa liðið undir lok í ágústmánuði 2015.

Hins vegar er til þess að líta að kærandi fékk strax í kjölfar tölvubréfsins skeyti um að kærði væri í sumarleyfi til 8. ágúst 2018. Þann næsta dag svaraði kærði símtali kæranda þar sem fram mun hafa komið að öllum kröfum kærandans væri hafnað. Fylgdi kærði því símtali eftir með tölvubréfi til kæranda þann 14. sama mánaðar þar sem því var lýst að kærði hefði ekki haft mikinn tíma til að svara erindum kæranda vegna sumarleyfa en tiltók jafnframt að öllum kröfum og ávirðingum kæranda væri hafnað.

Jafnframt liggur fyrir að kærði sendi tölvubréf til kæranda þann 26. september 2018 þar sem hann kvaðst ekki geta svarað fyrirspurnum aðilans nema að verulega takmörkuðu leyti þar sem annar lögmaður hefði farið með mál hans, en efni tölvubréfsins er nánar lýst í málsatvikalýsingu að framan. Í beinu framhaldi af því óskaði kærði eftir, umfram skyldu, í tölvubréfi til C að hún myndi svara fyrirspurnum kærandans frá 19. júlí 2018. Sinnti lögmaðurinn þeirri beiðni þann næsta dag með efnislegum svörum til kæranda við fyrirspurn aðilans.

Í samræmi við framangreint og eins og atvikum er háttað verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að kærði hafi svarað fyrirspurn kæranda, að því marki sem honum var það fært, án ástæðulauss dráttar í skilningi 41. gr. siðareglna lögmanna. Auk þess verður ekki framhjá því litið að hagsmunagæslu C lögmanns, og þar með E lögmannsstofu sf., í þágu kæranda var lokið eigi síðar en þann 19. ágúst 2015 en kærandi hefur sjálfur borið því við fyrir nefndinni að fyrirliggjandi lögmannsumboð hafi fallið úr gildi þann 10. júní 2015. Samkvæmt því var réttarsambandi aðila lokið alllöngu áður en fyrirspurn kæranda var send til kærða í júlímánuði 2018. Í því ljósi verður að játa kærða ákveðið svigrúm innan marka 41. gr. siðareglna lögmanna til að bregðast við fyrirspurn kæranda, sem fyrrum skjólstæðings E lögmannsstofu sf., sem barst þetta löngu eftir lok lögskipta og réttarsambands aðila. Sinnti kærði þeim viðbrögðum innan hæfilegs tíma, eins og áður greinir.

Með vísan til alls framangreinds er að áliti nefndarinnar ekki efni til að telja að kærði hafi í starfi sínu gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Það athugast að kærandi hefur í viðbótarathugasemdum sínum fyrir nefndinni borið því við að kærði og/eða C lögmaður hafi gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna vegna annarra atvika en kvörtun aðilans laut upphaflega að, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Um slíkt efni er þess að gæta að kvörtun kæranda gagnvart kærða var upphaflega afmörkuð við meint brot hins síðarnefnda gegn 41. gr. siðareglna lögmanna. Samkvæmt því fær málatilbúnaður aðilans um að kærði hafi á einhvern hátt gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, umfram það sem áður greinir og varðar með beinum hætti ágreining aðila um meint brot gegn 41. gr. siðareglnanna, ekki komist að fyrir nefndinni.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, B lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Hjördís Halldórsdóttir lögmaður, formaður ad hoc.

Grímur Sigurðsson lögmaður

Helgi Birgisson lögmaður

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

____________________________

Hjördís Halldórsdóttir lögmaður,

formaður ad hoc