Mál 16 2018

Mál 16/2018

Ár 2019, miðvikudaginn 29. maí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 16/2018:

A,

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 14. september 2018 erindi kæranda, A þar sem kvartað er yfir því að kærða, B lögmaður, hafi brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og nánar tilgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna. Er því lýst í kvörtun kæranda að hún sé sett fram í nafni aðilans en til hagsbóta fyrir þrotabú C ehf., sem kærandi eigi kröfu í. D lögmaður gætir hagsmuna kæranda fyrir nefndinni.

Með bréfi úrskurðarnefndar til kærðu, dags. 19. september 2018, var upplýst um að litið væri svo á að kvörtun í málinu væri reist á  27. gr. laga nr. 77/1998. Með bréfinu var kærðu veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins.

Greinargerð kærðu barst þann 12. október 2018 og var hún send kæranda til athugasemda með bréfi þann sama dag. Hinn 5. nóvember 2018 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar til kærðu þann 6. sama mánaðar. Viðbótarathugasemdir bárust frá kærðu þann 27. nóvember 2018 og voru þær sendar til kæranda með bréfi þann 29. sama mánaðar með þeirri athugasemd að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Í kjöfar þess bárust frekari gögn frá kæranda til nefndarinnar, þ.e. þann 7. desember 2018, og var kærða upplýst um þá framlagningu með bréfi þann 11. sama mánaðar. Ekki kom til frekari gagnaframlagningar og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt málsgögnum er kærandi með aðsetur í E en eigandi félagsins og fyrirsvarsmaður er F. Er vísað til þess í kvörtun að F hafi verið framkvæmdastjóri C ehf., sem áður bar heitið G ehf. Ekki virðist ágreiningur um að kærða hafi sinnt hagsmunagæslu og lögmannsstörfum í þágu tilgreindrar verslunar frá haustmánuðum 2017.

Í kvörtun er greint frá því að í nóvembermánuði 2017 hafi verið tekin ákvörðun um lokun verslunarinnar vegna óvæntra ákvarðana lánveitanda hennar, H hf., sem læst hafi öllum reikningum þann 17. þess mánaðar og tekið yfir fjármálastjórn hennar. Samkvæmt málsgögnum mun kærða hafa komið að hagsmunagæslu í þágu C ehf. vegna þeirra atvika.

Því er lýst í málsatvikalýsingu kæranda að fulltrúi kærðu hafi þann 30. nóvember 2017, án vitundar fyrirsvarsmanns C ehf., sett sig í samband við J, fyrirsvarsmann K ehf., með það fyrir augum að kanna áhuga á kaupum viðkomandi félags á vörubirgðum C ehf. Kveður kærandi að nefndur J sé á meðal eigenda L ehf., sem kærða hafi sinnt lögmannsstörfum fyrir. Liggja fyrir í málsgögnum um það efni útprentun af svonefndri LinkedIn síðu J sem og dómur Hæstaréttar í máli nr. x/2016. Kveður kærandi að kærða hafi ekki látið fyrirsvarsmann C ehf. vita af tengslum þessum heldur hafi hún þvert á móti tekið fram að engin tengsl væru fyrir hendi.

Því er lýst í málatilbúnaði kæranda að í framhaldi þessa hafi kærða hringt í fyrirsvarsmann C ehf. þann 2. desember 2017 þar sem upplýst hafi verið um að K ehf. væri tilbúið að gera tilboð í vörulager hins fyrrgreinda félags. Vísar kærandi til þess að kærða muni hafa gert munnlegt tilboð til viðkomandi félags um kaup á birgðum fyrir 25.000.000 krónur og að kaupverðið hafi átt að vera fullgreitt þann 4. desember 2017. Þá kveður kærandi að síðar hafi komið í ljós að kærða hefði gert samkomulag við K ehf. um 2% þóknun vegna viðskiptanna. Ekkert hafi legið nánar fyrir um skilmála kaupanna. Þá hafi kærða ekki haft umboð frá C ehf. til að skrifa undir tilboðið, en ágreiningur er á milli aðila um alla þessa þætti.

Hvað sem því líður þá liggur fyrir að kærða sendi tölvubréf þann 2. desember 2017 til starfsmanns H hf., með yfirskriftinni „Staðfesting á fjármögnun kaupa“ en fyrirsvarsmenn K ehf. og C ehf. fengu jafnframt afrit af bréfinu. Var í tölvubréfinu óskað eftir staðfestingu H á að hann myndi ábyrgjast fjármögnun K ehf., sem kaupanda, á öllum birgðakaupum C ehf., sem seljanda, fyrir 25.000.000 krónur. Var jafnframt tiltekið að fyrirsvarsmaður K ehf. myndi þennan sama dag leggja inn á reikning seljanda, 5.000.000 krónur. Þá var því lýst að öll sala vörubirgða verslunarinnar frá og með 2. desember 2017, sem lögð yrði inn á viðkomandi reikning seljanda, skyldi skoðast sem innborgun inn á kaupverðið af hálfu kaupanda sem tæki frá og með sama degi við áhættu af sölu og söluverðmæti birgðanna gegn greiðslu kaupverðsins. Einnig var því lýst að þann 4. desember 2017 skyldi kaupandi greiða mismuninn sem kæmi inn á reikninginn af sölu birgða 2. og 3. desember 2017 auk þess að greiða starfsfólki laun þann tíma sem verslunin yrði opin.

Framangreint erindi var samþykkt af hálfu H hf. með tölvubréfi starfsmanns bankans til kærðu þann 2. desember 2017, en það er meðal málsgagna.

Kærandi vísar til þess að gert hafi verið samkomulag á milli kærðu og H hf. í tengslum við þessa fjármögnun sem hafi meðal annars kveðið á um að öll sala verslunarinnar færi inn á reikning H hf. sem yrði svo millifærð á fjárvörslureikning kærðu. Þá kveður kærandi að K ehf. hafi greitt H hf. 5.000.000 krónur þann 2. desember 2017 og að sú fjárhæð hafi verið lögð inn á reikning C ehf. hjá bankanum þann 5. sama mánaðar. Hafi sú fjárhæð verið endurgreidd af hálfu aðilans þann 8. desember 2017, svo sem gögn málsins bera með sér, vegna ætlaðra vanefnda á tilboði K ehf.

Í málatilbúnaði kæranda er því jafnframt lýst að kærða hafi óskað eftir við K ehf. að lagðar yrðu inn á vörslufjárreikning hennar 5.000.000 krónur, án þess að slíkt hefði verið borið undir fyrirsvarsmann C ehf. Hafi kærða því haldið fjármunum verslunarinnar á sínum fjárvörslureikningi. Því til viðbótar hafi umtalsverð fjárhæð safnast á fjárvörslureikninginn vegna sölu á vörulager verslunarinnar. Þá hafi kærða greitt út af fjárvörslureikningnum til K ehf., án leyfis frá C ehf. Þannig hafi allir fjármunir verslunarinnar, sem Íslandsbanki hf. hafi greitt inn á fjárvörslureikning kærðu, aldrei skilað sér inn á reikning verslunarinnar. Jafnframt því hafi verslunin ekki fengið yfirlit yfir þessar greiðslur frá H hf. til kærðu, heldur hafi fjármunum verið skipt á milli H hf. og kærðu samkvæmt samkomulagi þeirra.

Í málsgögnum liggur fyrir afrit af bréfi kærðu fyrir hönd fyrirsvarsmanns C ehf. til K ehf., dags. 11. desember 2017, en ekki þykir ástæða til að reifa efni þess umfram það sem greinir í málatilbúnaði aðila fyrir nefndinni.

Kærða gerði fyrirsvarsmanni C ehf. grein fyrir endanlegri afstöðu hennar til útgreiðslu vörslufjár með tölvubréfi, dags. 11. janúar 2018, sem er meðal málsgagna. Kærandi vísar til þess að fyrirsvarsmaður C ehf. hafi ítrekað óskað eftir að kærða skilaði öllum þeim fjármunum sem hún geymdi á fjárvörslureikningum í nafni verslunnarinnar auk þess sem nýr lögmaður hafi komið að málinu í þágu félagsins og gert slíka kröfu í bréfi, dags. 16. janúar 2018. Hafi kærða hafnað öllum þeim beiðnum. Þá hafi kærða tilkynnt lögmanni K ehf. í tölvubréfi þann sama dag að hún hefði í hyggju að millifæra vörsluféð til C ehf. föstudaginn 19. janúar 2018 yrðu ákveðnar ráðstafanir ekki gerðar, sem hið síðargreinda félag hafi ekki verið upplýst um.

Samkvæmt málsgögnum fór fram kyrrsetningargerð á lögheimili fyrirsvarsmanns C ehf. þann 19. janúar 2018 að kröfu K ehf., sem gerðarbeiðanda. Að ábendingu gerðarbeiðanda var eign C ehf., sem gerðarþola, kyrrsett fyrir viðkomandi kröfu, þ.e. nánar tiltekið innstæða á fjárvörslureikningi kærðu. Kærandi kveður að fyrirsvarsmaður gerðarþola hafi ekki fengið boðun til kyrrsetningargerðarinnar og að honum hafi því verið ókunnugt um hana. Þá hafi hann ítrekað óskað eftir því með tölvubréfum að fá sundurliðun á færslum á fjárvörslureikningum er tengjast málinu, en án árangurs.

Með erindi C ehf. til úrskurðarnefndar lögmanna, dags. 31. janúar 2018, var kvartað yfir starfsháttum og ætluðum brotum kærðu gegn siðareglum lögmanna, sbr. mál nefndarinnar nr. x/2018. Með úrskurði héraðsdóms í máli nr. G-x/2017 var bú C ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Í kjölfar þess, nánar tiltekið með bréflegu erindi dags. 5. mars 2018, var tilkynnt um breytta aðild vegna máls nr. x/2018 fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Með bréfi nefndarinnar til málsaðila, dags. 26. mars 2018, var tilkynnt um frávísun viðkomandi máls frá nefndinni. Var þar tiltekið það álit nefndarinnar að engin heimild stæði til þess að fyrirsvarsmaður hins gjaldþrota félags gæti tekið yfir aðild málsins til sóknar með þeim hætti sem óskað hefði verið eftir, þ.e. hvorki samkvæmt lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., lögum nr. 77/1998 um lögmenn né reglum um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Samkvæmt því væri óhjákvæmilegt að vísa málinu frá nefndinni.

Fyrir liggur að kærandi lýsti kröfu í þrotabú C ehf. með kröfulýsingu, dags. x. apríl 2018. Er tiltekið í kröfulýsingunni að hin lýsta krafa byggi á reikningum gefnum út vegna heildsölu kæranda til hins gjaldþrota aðila á árinu 2017, en kærandi hafi verið helsti birgi fyrirtækisins. Samkvæmt kröfuskrá þrotabús C ehf., dags. x. maí 2018, mun ekki hafa verið tekin afstaða til almennra krafna við gjaldþrotaskiptin, þar á meðal kröfu kæranda, „enda fullvíst að öllu óbreyttu að ekkert muni fást greitt upp í þær, sbr. 1. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991.

Í málsgögnum liggur jafnframt fyrir bréf sem lögmaður kæranda beindi til skiptastjóra þrotabús C ehf. þann 14. september 2018. Var í bréfinu, sem bar yfirskriftina „Tilkynning í samræmi við 130. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991“, meðal annars eftirfarandi tiltekið:

Með vísan í 130. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991 lýsir umbjóðandi minn því hér með yfir að þar sem skiptastjórinn hefur lýst því yfir að hann ætlar ekki að láta málið til sín taka, hyggst umbjóðandi minn gera það í eigin nafni, til hagsbóta búinu. Umbjóðandi minn mun því beina meðfylgjandi kvörtun til úrskurðarnefndar lögmannafélagsins.“

II.

Kærandi krefst þess að kærða sæti áminningu í samræmi við 1. mgr. 15. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar.

Kærandi byggir á að kærða hafi brotið gegn 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. siðareglna lögmanna, þar sem fram kemur að lögmaðurr megi ekki fara með hagsmuni tveggja eða fleiri skjólstæðinga í sama máli, þegar hagsmunir þeirra eru andstæðir eða veruleg hætta er á slíku. Kveður kærandi augljóst að kærða hafi gætt hagsmuna K ehf., sem hún hafi samið við án umboðs.

Kærandi byggir einnig á að kærða hafi brotið gegn 2. mgr. 13. gr. siðareglnanna, sem kveður á um að lögmaður skuli ávallt vera fær um að standa skil á þeim fjármunum er hann varðveitir fyrir skjólstæðing sinn, og 1. og 3. mgr. 14. gr. sem kveður á um að lögmanni beri án ástæðulauss dráttar að gera skjólstæðingi skil á innheimtufé og öðrum fjármunum, er lögmaður hefur móttekið fyrir hönd skjólstæðings síns og að uppgjör og skil lögmanns til skjólstæðings skuli vera greinargóð.

Þá byggir kærandi á að kærða hafi brotið gegn 2. mgr. 3. gr. siðareglnanna, sem kveður á um að lögmaður skuli ekki láta óviðkomandi hagsmuni, hvort heldur eigin eða annarra, hafa áhrif á ráðgjöf sína, og 2. mgr. 6. gr. þar sem kveðið er á um að lögmaður megi ekki nota sér upplýsingar, sem honum hefur verið trúað fyrir í starfi, til hagsbóta fyrir gagnaðila.

Kærandi vísar til þess að með því að gera samning við þriðja mann án umboðs og síðan að annars vegar fara á bak við C ehf. og biðja um að fjárhæðinni 5.000.000 krónur yrði skilað á hennar reikning, eftir að C ehf. hafði skilað greiðslunni, og hins vegar neita félaginu um að skila fjármunum strax, hafi kærða í raun verið að fara með hagsmuni gagnaðila félagsins sem sé skýrt brot á 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. siðaregln lögmanna. Með þessu athæfi hafi kærða jafnframt brotið gegn 2. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. siðareglnanna.

Þá hafi kærða tilkynnt gagnaðila félagsins um að hún myndi millifæra fjármunina á hádegi þann 19. janúar 2018 sem sé óskiljanleg ákvörðun. Gagnaðilinn hafi sent innheimtubréf þann 17. janúar 2018 þar sem C ehf. hafi verið gefinn sjö daga frestur til að svara viðkomandi kröfum. Hafi tilkynning kærðu gefið gagnaðilanum auk þess tækifæri til að fara fram á kyrrsetningu á innstæðunni, sem hann hafi og gert. Hafi fjármunirnir verið kyrrsettir þann x. janúar 2018. Jafnframt því hafi kærða brotið gegn 3. mgr. 14 gr. siðareglnanna með því að hafa ekki orðið við beiðni félagsins um fullnægjandi yfirlit yfir fjárvörslureikning hennar.

Kærandi byggir á að með því að áframsenda beiðni C ehf. um skil fjármunanna þann x. janúar 2018 til gagnaðila félagsins, hafi kærða brotið gegn 2. mgr. 6. gr. siðareglna lögmanna. Er vísað til þess að beiðni C ehf. hafi verið send til kærðu vegna stöðu hennar sem lögmanns félagsins. Samkvæmt því hafi kærða verið bundin trúnaði um þau samskipti. Þá hafi háttsemi þessi einnig brotið gegn 17. gr. siðareglnanna, þar sem kveðið sé á um að lögmaður skuli aldrei án endanlegs dómsúrskurðar, sem beint sé að honum sjálfum, eða skýlauss lagaboðs, láta óviðkomandi aðilum í té gögn og upplýsingar, sem lögmaður hafi fengið í starfi um skjólstæðing sinn eða fyrrverandi skjólstæðing.

Bendir kærandi á að svo mætti halda að kærða hafi litið svo á að hún væri hlutlaus vörsluaðili fjármunanna, en að slíkt hafi ekki samræmst hlutverki hennar sem lögmaður C ehf.

Um aðild að málinu vísar kærandi til þess að C ehf. hafi beint sambærilegri kvörtun til nefndarinnar þann 31. janúar 2018 sem fengið hafi málsnúmerið x/2018. Hafi því máli verið vísað frá nefndinni með tilkynningu, dags. 26. mars 2018, sbr. einnig málsatvikalýsingu að framan.

Kveðst kærandi í máli þessu nýta sér heimild í 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., þess efnis að ákveði skiptastjóri að halda ekki uppi hagsmunum sem þrotabúið kunni að njóta eða geti notið hvort sem það sé gert samkvæmt ályktun skiptafundar eða ekki geti lánardrottinn, sem lýst hafi kröfu á hendur búinu sem hafi ekki þegar verið hafnað, gert það í eigin nafni til hagsbóta búinu hafi skiptastjóri ekki þegar skuldbundið það á annan veg. Vísar kærandi til þess að hann hafi lýst kröfu kröfu í þrotabúið þann x. apríl 2018 og að henni hafi ekki verið hafnað. Þá hafi skiptastjóra C ehf. verið tilkynnt um kæruna eins og gögn málsins beri með sér.

Kærandi vísar til þess að fyrir liggi að nefndin hafi tekið afstöðu til þess með áðurgreindu bréfi, dags. 26. mars 2018, að þrotabú geti átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni, þar sem hún hafi talið nauðsynlegt að fá að vita þá afstöðu skiptastjórans að hann hygðist ekki láta málið til sín taka. Af því leiði að kærandi geti átt aðild að málinu á grundvelli 130. gr. laga nr. 21/1991.

Í viðbótarathugasemdum kæranda vegna greinargerðar og málatilbúnaðar kærðu fyrir nefndinni mótmælir kærandi kröfu kærðu um frávísun þar sem engin skilyrði séu fyrir slíkum málalokum. Hvergi komi fram í 130. gr. laga nr. 21/1991 að hún sé takmörkuð við dómsmál. Greinin sé skýr og veiti kröfuhafa heimild til að gæta hagsmuna sem skiptastjóri hafi ákveðið að halda ekki uppi. Skýrt sé að skiptastjóri hafi tekið þá ákvörðun, en í öllu falli dugi tómlæti hans til að líta svo á að hann hafi tekið ákvörðun um að gæta ekki þessara hagsmuna. Þá geti þrotabú, eins og aðrir aðilar, átt hagsmuni af því að lögmaður sé áminntur vegna háttsemi sinnar.

Kærandi vísar til þess að á því sé byggt að kærða hafi áskilið C ehf. of lágt verð við sölu á lager verslunarinnar. Kærandi hafi því hagsmuni, sem kröfuhafi í þrotabúið, af því að nefndin komist að niðurstöðu um alla háttsemi kærðu í tengslum við það, þar sem kærandi kunni að njóta skaðabótaréttar úr hendi kærðu, hafandi verið stærsti birgir félagsins.

Að lokum vísar kærandi til þess að ekki sé unnt að vísa kröfu frá á grundvelli 27. gr. laga nr. 77/1998, en það sé efnisspurning í málinu hvort kærða hafi gert á hlut C ehf. með háttsemi sinni.

III.

Kærða krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni. Verði ekki fallist á frávísun krefst kærða stutts viðbótarfrests til þess að skila greinargerð í efnisþætti málsins. Þá krefst kærða málskostnaðar úr hendi kæranda samkvæmt mati nefndarinnar.

Varðandi kröfu um frávísun byggir kærða í fyrsta lagi á því að ákvæði 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. heimili ekki kröfu sem þessa fyrir úrskurðarnefnd. Ákvæði 130. gr. laga nr. 21/1991 taki þannig einungis til einkamála sem rekin séu fyrir dómstólum. Ákvæðið nái ekki til reksturs mála fyrir stjórnsýslunefnd eins og úrskurðarnefnd lögmanna.

Kærða vísar til þess að ákvæði 130. gr. laga nr. 21/1991 sé samhljóða ákvæðum eldri gjaldþrotalaga nr. 6/1978 en þau hafi einugis tekið til einkamála, þ.e. mála sem enda með dómi eða dómsátt. Samkvæmt því sé ekki unnt að byggja aðild að stjórnsýslumáli á 130. gr. laga nr. 21/1991 og beri þegar af þeirri ástæðu að vísa kvörtuninni frá nefndinni.

Í málatilbúnaði kærðu er á það bent að í greinargerð með 130. gr. laga nr. 21/1991 sé vísað til 113. gr. eldri gjaldþrotalaga en þar segi að ef kröfu þrotabús sé ekki haldið til dóms eða gerð um hana dómssátt geti hver sá, sem eigi kröfu á skrá þeirri, sem getur í 107. gr., höfðað mál í eigin nafni vegna þrotabúsins eða tekið við máli, sem höfðað hefur verið.

Samkvæmt framangreindu byggir kærða á að kærandi geti ekki reist aðild sína að málinu á 130. gr. laga nr. 21/1991 og beri því að vísa málinu frá nefndinni.

Í öðru lagi vísar kærða til þess að ákvæði 130. gr. laga nr. 21/1991 taki einungis til hagsmuna sem þrotabú kunni að njóta eða geti notið. Taki skiptastjóri ákvörðun um að halda slíkum hagsmunum ekki uppi, þá geti kröfuhafi, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, höfðað mál í eigin nafni til hagsbóta búinu.

Kærða byggir á að þrotabú hafi enga hagsmuni af því að tiltekinn kröfuhafi fái annan lögmann áminntan samkvæmt siðareglum lögmanna, eins og krafa kæranda feli í sér. Krafa um áminningu á grundvelli siðareglna séu ekki hagsmunir sem þrotabú, lögaðili, nýtur eða getur notið í skilningi 130. gr. laga nr. 21/1991. Hafi þrotabúið enga hagsmuni af slíkri kvörtun enda hefur skiptastjóri í engu svarað tilkynningu lögmanns kæranda, frá 14. september 2018. Bendir kærða á að forsenda þess að ákvæði 130. gr. laganna verði beitt sé að búið hafi hagsmuni af málsókn og því geti búið tekið við málinu, á hvaða stigi sem er. Þetta sjáist meðal annars á orðalagi í 114. gr. eldri gjaldþrotalaga, sem vísað sé til í núgildandi lögum, en þar segi að ef enginn kröfuhafi gangi inn í mál, höfði mál eða áfrýi eftir 113. gr. geti þrotamaður gert þessar ráðstafanir vegna búsins á sinn kostnað. Búið geti tekið við málinu, hvenær sem er.

Vísar kærða til þess að það sé forsenda að búið hafi hagsmuni af málsókn kröfuhafans og að búið geti tekið við málinu hvenær sem er. Engum slíkum hagsmunum sé fyrir að fara í kvörtun kæranda auk þess sem það sé beinlínis rangt hjá kæranda að skiptastjóri hafi tekið ákvörðun um að halda ekki uppi hagsmunum fyrir búið. Hið rétta sé að skiptastjóri hafi enga ákvörðun tekið enda hafi hann talið að kvörtunin tengdist ekki hagsmunum búsins á nokkurn hátt. Eina sem skiptastjóri hafi gert hafi tengst fyrri kvörtun í máli nr. x/2018 þar sem hann hafi ritað bréfið og ekki talið sig vera aðila að viðkomandi máli fyrir nefndinni.

Kærða bendir á að staðreyndin sé sú að skiptastjóri hafi höfðað riftunarmál á hendur kæranda vegna færslna af reikningi þrotabúsins og inn á reikning kæranda eftir frestdag. Sé það mál nú rekið fyrir héraðsdómi. Hafi komið í ljós við skoðun skiptastjóra að þeir fjármunir sem kærða hafi greitt inn á reikning C ehf., sem hluta af endurgjaldi fyrir vörusölu verslunarinnar, hafi allir verið millifærðir inn á kæranda í máli þessu, í janúar 2018. Sá aðili sem keypt hafi allan lager verslunarinnar í heilu lagi þann 2. desember 2017, hafi krafist kyrrsetningar og fengið hana. Þeir fjármunir sem kærða hafði þá þegar greitt til C ehf. eftir ítrekaðar beiðnir fyrirsvarsmanns félagsins, hafi þannig allir verið millifærðir inn á reikning kæranda. Enginn vafi sé á því að þær millifærslur séu riftanlegar. Beri gögn riftunarmálsins jafnframt með sér að líklegt sé að hærri fjárhæðir hefðu verið millifærðar yfir á reikning kæranda ef kærða hefði ekki að kröfu K ehf. neitað að verða við beiðni fyrirsvarsmanns C ehf. um að millifæra allt kaupverðið inn á reikning félagsins.

Samkvæmt framangreindu kveðst kærða byggja á því að þrotabúið hafi enga hagsmuni af rekstri kæranda fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Þvert á móti hafi þrotabúið verulega hagsmuni af hagsmunagæslu þeirri sem kærandi krefst að kærða verði áminnt fyrir.

Í þriðja lagi vísar kærða til 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Byggir kærða á að til þess að búið eða kröfuhafi þess geti kvartað til nefndarinnar á grundvelli tilgreinds ákvæðis þurfi kærða að hafa gert eitthvað á hlut búsins. Byggir kærða á að svo sé ekki, heldur þvert á móti. Þannig hafi ráðstafanir kærðu orðið til þess að fjármunir voru í þrotabúinu er það var tekið til skipta. Af þeim sökum séu ekki uppfyllt skilyrði 27. gr. laga nr. 77/1998 og beri því að vísa málinu frá nefndinni.

Kærða vísar til þess að fyrrverandi fyrirsvarsmaður hins gjaldþrota félags sé ósáttur við kærðu þar sem hann hafi ekki getað millifært til E, inn á reikning kæranda, allt það fé sem komið hafi út úr vörusölu verslunar C ehf. frá 2. til 10. desember 2017. Þá þegar hafi T verið búinn að krefjast gjaldþrotaskipta á félaginu. Kveðst kærða ekki talið sig hafa getað ráðstafað frekari hluta söluandvirðisins auk þess sem kaupandi lagersins hafi fengið fjármuni á fjárvörslureikningi kyrrsetta. Þá staðfesti fyrirliggjandi kröfuskrá fjölda kröfuhafa í búinu og að kærandi hafi vísvitandi verið að brjóta ákvæði gjaldþrotaskiptalaga með millifærslu fjármunanna yfir á reikninga kæranda. Kærandi ákveði svo ítrekað að leggja fram kvörtun á hendur kærðu, fyrir að hafa hindrað að hann hafi getað millifært hærri fjárhæðir úr þrotabúinu til kæranda. Hvorki ákvæði gjaldþrotaskiptalaga, né annarra laga heimili slíkt og beri því að vísa erindinu frá.

Í viðbótarathugasemdum kærðu var vísað til þess að af lögskýringargögnum að baki 130. gr. laga nr. 21/1991 yrði ráðið að þrotabú gæti ekki rekið mál fyrir úrskurðarnefnd, stjórnsýslunefnd um áminningu á hendur lögmanni, enda væri slík krafa búinu algjörlega óviðkomandi. Þá mótmælti kærða jafnframt fullyrðingum kæranda um að þrotabú gæti átt hagsmuni af því að lögmaður yrði áminntur. Var á það bent að í greinargerð með 114. gr. eldri gjaldþrotaskiptalaga hefði verið tekið fram að ákvæðið næði ekki til krafna sem væru búinu óviðkomandi, til dæmis miskabótakröfu. Af því orðalagi mætti ráða að krafa um áminningu væri búinu óviðkomandi. Lúti skiptastjórn þrotabús þannig einungis að endurheimt krafna en ekki að áminningum gagnvart lögmönnum.

Að endingu mótmælti kærða fullyrðingu kæranda um að hún hefði áskilið C ehf. of lágt verð við sölu á lager verslunarinnar. Vísar kærða til þess að viðkomandi sala hafi verið ákveðin af fyrirsvarsmanni félagsins og að hún hafi haft milligöngu um að afla samþykkis H hf. fyrir þeirri sölu, sem hafi verið með veð í öllum birgðum félagsins. Hafi bankinn áskilið kærðu að fá söluverð lagersins greitt inn á fjárvörslureikning lögmannsstofu hennar. Lúti kvörtun í máli þessu í raun að því að fyrirsvarsmaður kæranda, og áður C ehf., sé ósáttur við að hafa ekki fengið allt söluandvirði lagersins greitt til sín. Bendir kærða á að kaupandi lagersins hafi átt sinn hlut í því þar sem innstæða fjárvörslureikningsins hafi verið kyrrsett.

Ítrekar kærða jafnframt að í ljós hafi komið við skoðun skiptastjóra að fyrirsvarsmaðurinn hafði millifært alla þá fjármuni sem kærða hefði endurgreitt C ehf. yfir á reikninga kæranda. Þannig sé kærandi ósáttur við kærðu fyrir að hafa ekki greitt alla fjárhæðina inn á reikninga C ehf., svo unnt hefði verið að millifæra alla þá fjárhæð til E, óháð kröfum kaupanda lagersins og annarra kröfuhafa.

Niðurstaða

                                                                          I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Fyrir liggur að kærandi reisir kvörtun sína á hendur kærðu í málinu á því að hún hafi gert á hlut C ehf., í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, sem lögmaður félagsins, þ.e. vegna þeirra atvika sem lýst er í kvörtun og að framan greinir í kafla um málsástæður kæranda. Fram kemur í kvörtun kæranda að hún sé sett fram í nafni þess aðila en til hagsbóta fyrir þrotabú C ehf. á grundvelli 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sem er svohljóðandi:

Ákveði skiptastjóri að halda ekki uppi hagsmunum sem þrotabúið kann að njóta eða geta notið hvort sem það er gert samkvæmt ályktun skiptafundar eða ekki getur lánardrottinn, sem hefur lýst kröfu á hendur búinu sem hefur ekki þegar verið hafnað, gert það í eigin nafni til hagsbóta búinu hafi skiptastjóri ekki þegar skuldbundið það á annan veg. Sá sem vill gera slíkt skal tilkynna það skiptastjóra tafarlaust og bera sjálfur kostnað og áhættu af aðgerðum sínum en hann getur krafið þrotabúið um endurgreiðslu kostnaðar að því leyti sem búinu áskotnast fé af þeim.

Líkt og rakið er í málsatvikalýsingu að framan var bú C ehf. tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms x. febrúar 2018 og skiptastjóri skipaður. Áður en til þess kom hafði kvörtun verið beint til úrskurðarnefndar lögmanna af hálfu félagsins vegna starfshátta kærðu og hlaut það mál númerið x/2018 fyrir nefndinni. Ágreiningslaust er að sú kvörtun laut að sömu háttsemi kærðu og atvikum og mál þetta tekur til.

Með tölvubréfi skiptastjóra til nefndarinnar, dags. 21. mars 2018, var því lýst að litið væri svo á að þrotabúið væri ekki lengur aðili að máli nr. x/2018 fyrir nefndinni. Áður, eða með bréfi dags. 5. mars 2018, hafði verið tilkynnt um að fyrirsvarsmaður hins gjaldþrota félags, F, óskaði eftir að taka við sóknaraðild að málinu sem kærandi. Svo sem nánar greinir í málsatvikalýsingu að framan var máli nr. 7/2018 vísað frá nefndinni á þeim grundvelli að engin heimild stæði til þess að fyrirsvarsmaður hins gjaldþrota félags gæti tekið yfir aðild málsins til sóknar með þeim hætti sem óskað hafði verið eftir, þ.e. hvorki samkvæmt lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., lögum nr. 77/1998 um lögmenn né reglum um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.

Kærða krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni. Hefur hún um það efni einkum vísað til þess að ekki séu fyrir hendi skilyrði samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991 til aðildar kæranda til sóknar í málinu til hagsbóta fyrir þrotabú C ehf.

Um þetta efni er þess að gæta að ákvæði 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991, sem kveður á um heimild kröfuhafa til að halda uppi hagsmunum til hagsbóta þrotabúi, er bundið við þau tilvik þegar skiptastjóri hefur ákveðið að halda ekki uppi hagsmunum sem þrotabúið kann að njóta eða getur notið. Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 122. sömu laga fer skiptastjóri með forræði þrotabús og er einn bær um að ráðstafa hagsmunum og svara fyrir skyldur þess, sbr. þó 130. gr., og kemur fram af hálfu búsins fyrir dómi.

Sem fyrr greinir tók skiptastjóri þrotabús C ehf. af öll tvímæli um það í hinum fyrri málarekstri um sama sakarefni, þ.e. vegna kvörtunar sem félagið sjálft hafði beint til nefndarinnar fyrir upphaf gjaldþrotaskipta þess, að þrotabúið liti svo á að það ætti ekki lengur aðild að viðkomandi máli fyrir nefndinni, sbr. fyrrgreint mál nr. x/2018. Þá liggur fyrir að enginn þeirra aðila sem kynnu að hafa notið réttar samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991 tók við aðild þess máls til sóknar til hagsbóta fyrir þrotabúið. Verður ekki annað ráðið af þeim atvikum að mati nefndarinnar en að skiptastjóri þrotabús C ehf., og eftir atvikum kröfuhafar þess, hafi litið svo á að sakarefnið, þ.e. hvort kærða hafi gert á hlut C ehf. fyrir upphaf gjaldþrotaskipta þess með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, lyti hvorki að hagsmunum sem þrotabúið nyti né gæti notið í skilningi fyrrgreinds ákvæðis laga nr. 21/1991.

Hvað undirliggjandi hagsmuni varðar vísaði kærandi til eftirfarandi þátta í viðbótarathugasemdum sínum til nefndarinnar undir rekstri málsins:

Eins og fram kemur í hinni upprunalegu kvörtun byggir kærandi á því að kærða hafi áskilið G of lágt verð við sölu á lager verslunarinnar. Kærandi hefur því hagsmuni, sem kröfuhafi í þrotabúið, af því að nefndin komist að niðurstöðu um alla háttsemi lögmannsins í tengslum við það, þar sem kærandi kann að njóta skaðabótaréttar úr hendi lögmannsins, hafandi verið stærsti birgir félagsins.

Um þetta efni er til þess að líta að kærandi hefur lagt málið fyrir nefndina samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 í eigin nafni en til ætlaðra hagsbóta fyrir þrotabú C ehf. Samkvæmt því lýtur málið að ætluðu broti kærðu á siðareglum lögmanna gagnvart viðkomandi þrotabúi, og beitingu agaviðurlaga af þeim sökum, en ekki kæranda sjálfum eða hagsmunum hans. Verður aðild kæranda til sóknar í málinu því ekki grundvölluð á meintum rétti hans til skaðabóta úr hendi lögmannsins enda er ákvæði 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991 bundið við hagsmuni sem þrotabúið sjálft kann að njóta eða getur notið, en ekki einstaklegra hagsmuna ákveðins lánardrottins.

Samkvæmt framangreindu er það mat nefndarinnar að eins og atvikum sé háttað hafi kærandi ekki sýnt fram á að hann sé í reynd í máli þessu að halda uppi hagsmunum sem þrotabú C ehf. kann að njóta eða getur notið, en kröfugerð hans lýtur eins og áður greinir að því að kærða sæti áminningu þar sem hún hafi gert á hlut þrotabúsins með háttsemi sem stríði gegn siðareglum lögmanna. Þvert á móti verði ráðið af málatilbúnaði kæranda fyrir nefndinni að um sé að ræða hagsmuni kæranda sjálfs eða fyrirsvarsmanns þess aðila en hann var jafnframt fyrirsvarsmaður hins gjaldþrota félags fyrir upphaf gjaldþrotaskipta þess.

Þá verður ekki fram hjá því litið að mati nefndarinnar að jafnvel þótt lagt yrði til grundvallar að sakarefnið, eins og það er lagt fyrir nefndina, varðaði í reynd hagsmuni þrotabús C ehf. þá liggi ekkert fyrir um það í málinu að skiptastjóri búsins hafi ákveðið að halda ekki uppi hinum ætluðu hagsmunum líkt og áskilið er í 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991 fyrir aðkomu lánardrottna að málinu til hagsbóta búinu. Að mati nefndarinnar er ekki unnt að jafna tilkynningu skiptastjóra til nefndarinnar í máli nr. x/2018, sem áður greinir, við slíka ákvörðun enda hafði þá þegar verið tilkynnt með bréflegu erindi til nefndarinnar um breytta aðild til sóknar í málinu. Þá verður ætlað tómlæti skiptastjóra í þessu efni ekki jafnað við að tekin hafi verið slík ákvörðun, líkt og kærandi hefur hreyft í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni.

Samkvæmt öllu framangreindu er það niðurstaða nefndarinnar að ekki verði fundin stoð fyrir aðild kæranda til sóknar í málinu í 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991. Að því gættu er óhjákvæmilegt, eins og málið er lagt fyrir nefndina samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, að vísa kvörtun kæranda í málinu frá úrskurðarnefnd lögmanna.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er vísað frá nefndinni.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr lögmaður, formaður

Haukur Örn Birgisson lögmaður

Kristinn Bjarnason lögmaður

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson