Mál 5 2018

Ár 2018, 24. maí 2018, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2018:

A lögmaður,

gegn

B ehf.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 29. janúar 2018 erindi kæranda, A lögmanns, en í því er lýst ágreiningi kæranda við kærða, B ehf., um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Fyrirsvarsmaður kærða er C.

Með bréfi úrskurðarnefndar til kærða, dags. 30. janúar 2018, sem kærandi fékk afrit af, var upplýst um að litið væri svo á að erindi kæranda sneri að ágreiningi um rétt til endurgjalds fyrir störf lögmanns eða fjárhæð þess samkvæmt 26. gr. laga nr. 77/1998. Með bréfinu var kærða veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins.

Greinargerð kærða barst þann 14. mars 2018 og var hún send kæranda til athugasemda með bréfi þann sama dag. Hinn 4. apríl 2018 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar til kærða samdægurs. Loks bárust viðbótarathugasemdir frá kærða þann 20. apríl 2018 og voru þær sendar til kæranda með bréfi dags. 24. sama mánaðar með þeirri athugasemd að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum mun fyrirsvarsmaður kærða hafa leitað til kæranda þann 6. september 2017 vegna hugsanlegrar lögmannsþjónustu. Í tölvubréfi fyrirsvarsmannsins til kæranda þann dag var því lýst að hann væri með nánar tilgreinda styrki á sviði hugbúnaðargerðar og þyrfti að gera „revenue sharing“ samning við birgja. Var tiltekið í tölvubréfinu að fyrirsvarsmaðurinn hefði áhuga á aðstoð við það og beindi þeirri fyrirspurn til kæranda hvernig aðilanum litist á það.

Kærandi svaraði ofangreindu tölvubréfi fyrirsvarsmanns kærða þennan sama dag, sbr. meðal annars eftirfarandi:

Ég get tekið að mér þetta verkefni. Felst það í því að semja samning eða fara yfir samningsdrög frá birgjum?

Verð að upplýsa þig um tímagjald mitt, kr. 18.000 + vsk., með 10% afslætti skákmanna.

Aðilar áttu í frekari tölvubréfasamskiptum þann 6. september 2017 þar sem meðal annars kom fram hjá fyrirsvarsmanni kærða að hann héldi að um væri að ræða gerð samnings, að hann hefði eitt samningsform undir höndum vegna annars konar vöru auk þess sem hinu fyrirhugaða verkefni var lýst í grófum dráttum. Þá óskaði fyrirsvarsmaður kærða eftir upplýsingum frá kæranda um reynslu aðilans á þessu sviði. Í svari kæranda var þess óskað að samningsformið yrði sent til hans þar sem þjónustan yrði ódýrari með með þeim hætti. Þá tiltók kærandi að hann hefði samið ýmsa erlenda viðskiptasamninga, en þó ekki sérstaklega „revenue sharing“ samninga vegna hugbúnaðar. Lýsti kærandi því jafnframt að þótt efni viðskiptasamninga væri mjög breytilegt giltu sömu „prinsip“ við samningu þeirra.

Í tölvubréfi fyrirsvarsmanns kærða til kæranda þann 7. september 2017 var tiltekið að fyrirsvarsmaðurinn væri á leið erlendis en að hann hefði gaman af því að sýna kæranda viðkomandi forrit. Þá var stöðu mála lýst og sérstaklega tiltekið það mat fyrirsvarsmannsins að samningaviðræður gætu reynst snúnar og að hinn fyrirhugaði samningur skipti mjög miklu máli. Kvaðst fyrirsvarsmaðurinn reikna með að geta sent kæranda gögn. Þá var gerð grein fyrir styrkveitingu til kærða en að félaginu væri sniðinn nokkuð þröngur stakkur.

Kærandi svarað tölvubréfi þessu þann næsta dag þar sem því var lýst að gagnlegt yrði að sjá forritið en að hann myndi bíða eftir samningnum og gögnum frá styrkveitendum.

Í tölvubréfi fyrirsvarsmanns kærða til kæranda þann 12. september 2017 var meðal annars tiltekið að hann væri áhugasamur um að skipuleggja vinnuna með kæranda sem hagstæðast fjárhagslega. Var því lýst að þrátt fyrir styrkveitingar væri ljóst að sýna þyrfti ráðdeildarsemi. Í svörum kæranda þann sama dag óskaði aðilinn eftir grófum upplýsingum um hugmyndir sem fyrirsvarsmaður kærða hefði um samninginn. Lýsti kærandi því að líklega væri nauðsynlegt í framhaldinu að skoða forritið svo aðilinn gæti gert sér nákvæma grein fyrir um hvað málið snerist. Eftir þann tíma gætu aðilar rætt skipulagningu vinnunnar.

Fyrirsvarsmaður kærða sendi á ný tölvubréf til kæranda þann 12. september 2017 þar sem því var lýst að hann hefði unnið í þessu og væri með talsvert safn af skjölum. Lýsti fyrirsvarsmaðurinn áhyggjum af því að það myndi taka talsverðan tíma að setja sig inn í þau og að það yrði því kostnaðarsamt. Tiltók fyrirsvarsmaðurinn að þau skjöl sem fylgdu með tölvubréfinu, og hann hefði unnið að um það hvernig samningurinn skyldi vera, væru stutt og „too the point“. Þá var framgangi og stöðu mála vegna samningaviðræðna lýst sem og gerð grein fyrir því forriti sem málið varðaði. Með tölvubréfinu fylgdu fimm skjöl á ensku sem töldu alls 25 blaðsíður.

Kærandi upplýsti fyrirsvarsmann kærða með tölvubréfi, dags. 21. september 2017, að hann hefði kynnt sér viðkomandi gögn auk þess sem hann ítrekaði mikilvægi þess að fá að sjá hvernig forritið virkaði. Þá óskaði kærandi eftir að hann yrði látinn vita hver næstu skref væru og hvers væri óskað af aðilanum.

Fyrirsvarsmaður kærða sendi tölvubréf til kæranda þann 13. október 2017 þar sem stöðu samningaviðræðna var meðal annars lýst. Í framhaldi þessa áttu aðilar í frekari tölvubréfasamskiptum, þ.e. dagana 14. og 15. október 2017, vegna fyrirhugaðrar skoðunar kæranda á viðkomandi forriti kærða.

Í tölvubréfi fyrirsvarsmanns kærða til kæranda þann 18. október 2017 var því lýst að fyrirsvarsmaðurinn hefði loks fengið samningsdrög frá hinum fyrirhugaða viðsemjanda en viðkomandi samningsdrög, sem voru alls fimm blaðsíður að lengd á ensku, voru send kæranda sem fylgiskjal með tölvubréfinu. Í tölvubréfinu gerði fyrirsvarsmaður kærða nánar tilgreindar athugasemdir við efni samningsdraganna. Fyrirsvarsmaðurinn sendi á ný tölvubréf til kæranda þann næsta dag, 19. október 2017, þar sem finna mátti frekari athugasemdir hans við efni fyrirliggjandi samningsdraga. Þá var eftirfarandi tiltekið í tölvubréfinu:

Hef annars smá áhyggjur af því að ég sé að senda þér of mikið af gögnum og að ég muni fá háan reikning frá þér. Er með þröngan fjárhag í þessu eins og ég nefndi, styrk, sem er mjög hóflegur og einnig ætlast til þess að ég verji honum í að þróa forritið.

Kærandi svaraði ofangreindu tölvubréfi fyrirsvarsmanns kærða samdægurs. Var þar að finna athugasemdir og svör kæranda við nokkrum lögfræðilegum atriðum sem fyrirsvarsmaður kærða hafði nefnt í fyrri pósti. Þá var eftirfarandi tiltekið í tölvubréfinu varðandi þóknun:

Hvað varðar þóknun, þá vinn ég á tímagjaldi eins og aðrir sérfræðingar. Samskipti og yfirferð yfir gögn taka tíma, en öðruvísi get ég ekki orðið þér að liði. Ég hef nú varið 5,5 tímum í málið svo þú sért upplýstur um það.

Fyrirsvarsmaður kærða þakkaði kæranda fyrir athugasemdir hans með tölvubréfi, dags. 20. október 2017, og kvaðst ætla að reyna að leggja áherslu á viðkomandi þætti í viðræðunum. Þá lýsti fyrirsvarsmaður kærða því að „verkefnið“ hefði ekki efni á þjónustu kæranda. Var tiltekið að um væri að ræða stórann kostnaðarlið en að hugsanlega myndi fyrirsvarsmaðurinn óska eftir að kærandi myndi lesa yfir lokaútgáfu samningsins fyrir undirritun enda gæti slíkt réttlætt fjárútgjöld. Jafnframt lýsti fyrirsvarsmaðurinn því að hann hefði rætt við nánar tilgreindan styrkveitanda sem hefði tiltekið að best væri að hafa lögfræðing í verkefninu en að ekki væru fjármunir til slíks vegna viðkomandi verkefnis.

Í svari kæranda þennan sama dag kvaðst hann hafa sent fyrirsvarsmanni kærða lögfræðileg ráð þar sem sérstaklega hefði verið spurt út í lögfræðileg atriði. Hefði kærandi svarað slíkum fyrirspurnum fyrr ef þær hefðu borist en kærandi hafi ekki viljað verja vinnu í óumbeðin ráð þar sem tekið hafi verið fram að fjárhagur kærða væri þröngur. Þá kvaðst kærandi vera sammála um mikilvægi lögmannsaðstoðar við alþjóðlega samningsgerð enda um grundvallarsamning fyrir verkefnið að ræða. Þá óskaði kærandi eftir upplýsingum um hvort viðkomandi styrkveitandi hefði eftirlitsheimildir með bókhaldi kærða eftir að styrkur hefði verið greiddur út.

Samkvæmt gögnum málsins mun einn reikningur hafa verið gefinn út af lögmannsstofu kæranda vegna ofangreindra lögmannsstarfa kæranda í þágu kærða. Nánar tiltekið var gefinn út reikningur nr. HM-1001 þann 2. nóvember 2017 að fjárhæð 122.760 krónur með virðisaukaskatti. Á reikningnum var því lýst að hann væri tilkominn vegna lögmannsþjónustu í alls 5,5 klukkustundir, að tímagjald væri að fjárhæð 20.000 krónur auk virðisaukaskatts en að afsláttur af útseldu tímagjaldi væri 10%. Samkvæmt því var fjárhæð reikningsins 99.000 krónur án virðisaukaskatts.

Af gögnum málsins verður ráðið að aðilar hafi átt í samskiptum eftir útgáfu ofangreinds reiknings, þ. á m. vegna ágreinings um réttmæti hans og fjárhæð. Þá liggur fyrir að aðilar áttu í tölvubréfasamskiptum vegna þessa ágreiningsefnis eftir að málinu var beint til úrskurðarnefndar lögmanna.

Með bréfi kæranda, dags. 20. nóvember 2017, var kærða veittur 10 daga lokafrestur til að greiða hinn útgefna reikning. Var tiltekið að málinu yrði að öðrum kosti stefnt fyrir dóm án frekari fyrirvara. Með bréfinu mun hafa fylgt tímaskýrsla kæranda sem báðir málsaðilar hafa lagt fram fyrir úrskurðarnefnd undir rekstri málsins. Í tímaskýrslu sem fylgdi tilgreindu bréfi kæranda mun hafa verið tiltekið að kærandi hafi alls veitt kærða lögmannsþjónustu í 5,5 klukkustundir, þ.e. vegna tímabilsins frá 6. september 2017 til 19. sama mánaðar. Í kjölfar athugasemda fyrirsvarsmanns kærða á efni tímaskýrslunnar mun kærandi hafa sent fyrirsvarsmanninum leiðrétta tímaskýrslu þar sem færslur frá 13., 15. og 19. október 2017 í tímaskýrslu höfðu ranglega verið tilgreindar sem færslur vegna sömu daga septembermánaðar sama ár.

Aðilum tókst ekki að jafna ágreining sín í milli um rétt kæranda til endurgjalds fyrir lögmannsstörf í þágu kærða og/eða fjárhæð þess. Var málinu af þeim sökum beint til úrskurðarnefndar lögmanna af hálfu kæranda á grundvelli 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

II.

Kærandi krefst þess fyrir nefndinni að kærða verði gert að greiða sér 122.760 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. desember 2017 til greiðsludags. Þá krefst kærandi málskostnaðar úr hendi kærða samkvæmt mati nefndarinnar.

Í erindi kæranda er því lýst að fyrirsvarsmaður kærða hafi leitað til sín þann 6. september 2017 með beiðni um lögmannsaðstoð. Hafi kærandi lýst því að hann gæti tekið verkefnið að sér og að tímagjald væri 18.000 krónur auk virðisaukaskatts. Þá hafi kærandi óskað eftir upplýsingum frá fyrirsvarsmanni kærða um hvort verkefnið fæli í sér að semja samning eða fara yfir samningsdrög. Hafi kærandi fengið þau svör að verkefnið fælist líklega í því að semja samning.

Kærandi vísar til þess að í kjölfar þessa hafi fyrirsvarsmaður kærða sent sér ýmis gögn og hafi aðilar átt í samskiptum fram til 19. október 2017 vegna málsins. Kærandi hafi lesið yfir viðkomandi gögn og verið þess búinn að koma beint að samningsgerðinni á síðari stigum, en fyrirsvarsmaður kærða hafi þá átt í samningaviðræðum við hinn erlenda birgja sem til hafi staðið að semja við. Kveðst kærandi jafnframt hafa veitt fyrirsvarsmanni kærða svör við lögfræðilegum spurningum í tölvubréfi þann 19. október 2017 en þá hafi jafnframt verið upplýst að kærandi hefði varið 5,5 klukkustundum í málið. Hafi fyrirsvarsmaður kærða þá upplýst að aðilinn hefði hvorki efni á þjónustunni né hafi verið samþykkt að ráða kæranda í vinnu.

Vísar kærandi til þess að í framhaldi þessa hafi hann gert kærða reikning í samræmi við umsamið tímagjald. Kærði hafi hins vegar mótmælt reikningnum og ekki innt greiðslu af hendi samkvæmt honum.

Í viðbótarathugasemdum kæranda vegna greinargerðar og málatilbúnaðar kærða er málatilbúnaði kærða í heild sinni mótmælt. Þá mótmælir kærandi sérstaklega frávísunarkröfu kærða á þeim grunvelli að engin rök standi til að fallast á hana.

Í viðbótarathugasemdum kæranda er því annars í fyrsta lagi mótmælt að aðilinn hafi ráðlagt kærða að viðhafa bókhaldsbrot og að brjóta samninga við styrkveitanda. Vísar kærandi til þess að viðkomandi ummæli hafi verið látin falla eftir að fyrirsvarsmaður kærða hafi upplýst í tölvubréfi þann 20. október 2017 að vegna afstöðu styrkveitanda mætti hann ekki ráða sér lögfræðing jafnvel þótt hann vildi. Hafi sú afsökun fyrirsvarsmannsins komið kæranda á óvart sem hafi viljað reyna að átta sig á sambandi kærða við styrkveitandann og eftirliti þess aðila með fjárútlátum kærða fyrst sú skýring hafi verið fram borin. Bendir kærandi á að fyrirsvarsmanni kærða hafi borið að upplýsa kæranda um slík atriði, þ.e. hafi reglur styrkveitandans ekki leyft kærða að kaupa sér þjónustu lögmanns samkvæmt tímagjaldi, í kjölfar þess að kærandi hafi upplýst aðilann um tímagjald sitt vegna verkefnisins.

Í öðru lagi vísar kærandi til þess vegna ásakana um skjalafals að aðilinn hafi sent fyrirsvarsmanni kærða tímaskýrslu þar sem þrjár færslur hafi verið skráðar í septembermánuði 2017 sem hefðu átt að vera í októbermánuði sama ár en að dagsetningar hafi að öðru leyti verið réttar. Hafi misræmið verið augljóst. Hafi fyrirsvarsmaður kærða gert við þetta athugasemd og hafi kærandi leiðrétt færslurnar með þremur yfirstrikunum með penna og sent fyrirsvarsmanninum á nýjan leik. Hafi kærandi ákveðið að leggja fyrir úrskurðarnefnd hreint skjal með þeim dagsetningum sem aðilinn hefði síðast sent fyrirsvarsmanni kærða. Kveður kærandi vandséð að efni skjalsins hafi breyst við þetta og að skjalafals hafi verið framið. Mótmælir kærandi þeim málatilbúnaði kærða harðlega.

Um meinta ósáttfýsi kæranda bendir aðilinn í þriðja lagi á að hann hafi boðið kærða frá upphafi 10% afslátt af þjónustu sinni. Þá hafi kærandi skrifað mun færri tíma á málið en unnir hefðu verið.

Varðandi ásakanir kærða um að kærandi hafi logið til um reynslu sína bendir kærandi í fjórða lagi á að hann hafi tjáð fyrirsvarsmanni kærða í tölvubréfi þann 6. september 2017 að hann hefði samið ýmsa erlenda viðskiptasamninga en þó „ekki sérstaklega revenue sharing vegna hugbúnaðar.“ Hafi fyrirsvarsmaður kærða enga athugasemd gert við það meinta reynsluleysi kæranda. Kveður kærandi það rétt að skilja beri tölvubréf hans á þá leið að aðilinn hafi hvorki haft reynslu af samningu „revenue sharing“ samninga né samninga sem fjalla um hugbúnað. Hafi þau orð verið látin falla eftir að fyrirsvarsmaður kærða hafi spurt: „Getur þú sagt mér aðeins frá þinni reynslu á þessu sviði (revenue sharing vegna hugbúnaðar)?

Í fimmta lagi bendir kærandi á varðandi meint ósamræmi milli reiknings og tölvubréfs um tímagjald að aðilinn hafi tekið fram í tölvubréfi þann 6. september 2017 að tímagjald væri með 10% afslætti, sbr. „Verð að upplýsa þig um tímagjald mitt, kr. 18.000 + vsk., með 10% afslætti skákmanna.“ Bendir kærandi á að miðað hafi verið við það sama tímagjald samkvæmt hinum umþrætta reikningi þar sem viðkomandi afsláttur hafi komið fram sem sérstakur liður. Samkvæmt því vísar kærandi ásökunum um meint ósamræmi á bug.

Um það efni að fyrirsvarsmaður kærða hafi aldrei samþykkt að greiða samkvæmt tímagjaldi bendir kærandi í sjötta lagi á að hann hafi upplýst fyrirsvarsmanninn um tímagjald sitt á fyrsta degi í tölvubréfasamskiptum aðila. Hafi kærði því vitað að innheimt yrði samkvæmt því auk þess sem fyrirsvarsmaður aðilans hafi enga athugasemd gert við það greiðslufyrirkomulag fyrr en eftir að hann hafi verið krafinn um greiðslu. Þá kveðst kærandi ekki kannast við lýsingu fyrirsvarsmanns kærða á samtali aðila frá 15. október 2017 og mótmælir henni. Þá mótmælir kærandi því að hann hafi sótt það stíft að heimsækja fyrirsvarsmanninn. Hafi kærandi þannig aðeins gert grein fyrir því að nauðsynlegt væri að sýna honum forritið sem samningurinn hafi átt að taka til.

Varðandi málatilbúnað kærða um meint brot á 10. gr. siðareglna lögmanna bendir kærandi á að þegar fyrirsvarsmaður kærða hafi leitað til hans hafi verið nokkuð óljóst í hverju verkefni kærandi hafi átt að felast. Þannig hafi fyrirsvarsmaðurinn í upphafi aðeins óskað eftir aðstoð við samningsgerð við erlendan birgja. Í kjölfar upphafssamskipta aðila hafi fyrirsvarsmaður kærða sent kæranda ýmis gögn þó enn hafi verið óljóst í hverju verkefni kærandi ætti nákvæmlega að felast. Hafi kærandi af þeim sökum óskað eftir í tölvubréfi til fyrirsvarsmannsins að hann yrði látinn vita hver næstu skref yrðu og hvers óskað væri af honum. Hafi kærandi ekki fengið svör við þeirri spurningu. Vísar kærandi til þess að fyrirsvarsmaður kærða hafi sent sér samningsdrög ásamt löngum tölvubréfum þar sem óskað hafi verið eftir ráðleggingum vegna ýmissa atriða. Hafi aðilar ætlað að funda í kjölfar þessa en að í tölvubréfi fyrirsvarsmanns kærða til kæranda þann 20. október 2017 hafi verið upplýst að kærði hefði ekki efni á þjónustu kæranda, þ.e. í kjölfar upplýsinga frá kæranda um að 5,5 vinnustundum hefði verið varið í málið af hálfu aðilans. Með vísan til hinna óljósu upplýsinga frá fyrirsvarsmanni kærða byggir kærandi á að honum hafi verið ómögulegt að upplýsa um líklegan kostnað fyrr en aðilar hefðu fundað og verkefni kæranda skýrst.

Að endingu bendir kærandi á að ótrúverðugur sé sá málatilbúnaður kærða að ekki hafi komist á verksamband milli aðila. Þannig hafi fyrirsvarsmaður kærða sent kæranda ítrekuð gögn til yfirferðar eftir að upplýst hafi verið um tímagjald auk þess sem spurt hafi verið lögfræðilegra spurninga sem kærandi hafi svarað. Verði þannig að líta svo á að fyrirsvarsmaður kærða hafi óskað eftir að kærandi tæki skjölin til skoðunar og yfirlestrar og með því samþykkt vinnu kæranda í verki. Þá byggir kærandi á að gögn málsins beri með sér að fyrirsvarsmaður kærða hafi gert sér grein fyrir að komist hefði á verksamband milli aðila og að kærandi myndi gera reikning vegna vinnu sinnar.

Varðandi fjárhæð reikningsins bendir kærandi á að hann hafi lagt sig fram um að eyða ekki fleiri vinnustundum í málið en nauðsynlegt hefði verið þar sem fyrirsvarsmaður kærða hefði tekið fram að fjárhagur aðilans væri þröngur. Hafi kærandi jafnframt skrifað færri tíma á málið en unnir hefðu verið þar sem samskipti við fyrirsvarsmann kærða hefðu reynst tímafrek. Þá mótmælir kærandi því að tímaskýrslan sé á nokkurn hátt óeðlileg miðað við fyrirliggjandi gögn.

Við ákvörðun málskostnaðar krefst kærandi þess að tekið verði tillit til viðmikils málatilbúnaðar kærða fyrir nefndinni sem og til alvarlegra ásakana aðilans í garð kæranda. Bendir kærandi á að hvort tveggja hafi leitt til þess að aðilann hafi þurft að eyða umtalsverðum tíma í málið.

 

 

 

 

III.

Skilja verður málatilbúnað kærða fyrir nefndinni þannig að þess sé aðallega krafist að málinu verði vísað frá nefndinni, til vara að kröfu kæranda verði hafnað en til þrautavara að hún sæti lækkun og að málskostnaður falli niður á milli aðila.

Í málatilbúnaði kærða er í fyrsta lagi vísað til trúverðugleika kæranda. Kveður kærði að kærandi hafi sýnt af sér skýran ásetning til að hagnast á því að hafa rangt við telji aðilinn líkur á að það komist ekki upp. Krefst kærði þess fyrir nefndinni að ríkari kröfur verði gerðar til kæranda varðandi sönnunarbyrði en almennt gildi í málum af þessu tagi af þeim sökum. Vísar kærði sérstaklega um það efni til höfnunar á fjárhagslegri tillögu kæranda og engu samþykki, meintri eftiráskýringu kæranda um að hafa lesið gögn sem og til þess að kærði hafi aldrei samþykkt tillögu kæranda um tímagjald. Þá byggir kærði á að fyrirspurn kæranda í tölvubréfi, dags. 20. október 2017, hafi brotið í bága við 1. gr. siðareglna lögmanna enda hafi kærandi mátt vita að reikningar vegna verkefnisins, sem hlotið hafði styrk frá nánar tilgreindum aðila, þyrfti áritun endurskoðanda. Þá telur kærði að kærandi hafi brotið gegn 3. gr. siðareglna lögmanna þar sem hann hafi eingöngu haft sína eigin fjárhagslegu hagsmuni í heiðri.

Kærði vísar til þess að kærandi hafi breytt gögnum áður en þau hafi verið lögð fram sem fylgiskjöl fyrir nefndinni. Þannig hafi kærandi breytt tímaskýrslu sinni í þeim tilgangi að hylma yfir þá staðreynd að hún hefði verið gerð á síðari tíma. Vísar kærði um það efni til hinnar réttu tímaskýrslu sem aðilinn hefur lagt fram fyrir nefndinni. Bendir kærði á að eftir að kærandi hafi sent upphaflega tímaskýrslu hafi aðilinn breytt dagsetningum, þ.e. eftir framkomin mótmæli kærða gagnvart tímaskýrslunni. Hina réttu tímaskýrslu hafi kærandi ekki lagt fram fyrir nefndinni. Telur kærði að um sé að ræða villandi framsetningu og í raun skjalafals sem skipti verulegu máli, sbr. m.a. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá byggir kærði á að kærandi hafi með háttsemi sinni að þessu leyti brotið jafnframt gegn 20. og 21. gr. siðareglna lögmanna.

Kærði bendir á að hann hafi lagt fram ítrekaðar tillögur að sátt í málinu en kærandi engar. Telur kærði það vera ákveðna misnotkun á nefndinni að kærandi sýni alls engan sáttavilja þar sem um minniháttar mál sé að ræða.

Kærði byggir á að kærandi hafi sagt ósatt um reynslu sína og þekkingu. Þannig hafi komið fram í svörum kæranda að hann hefði ekki reynslu af sniðmengi samningsverkefna á sviði hugbúnaðar og „revenue sharing“. Bendir kærði á að hið rétta sé að kærandi hafi að eigin sögn enga reynslu af hvorugu, þ.e. hvorki neinu sem snerti hugbúnaðargerð né „revenue sharing“. Kveður kærði að um sé að ræða brot á 8. og 42. gr. siðareglna lögmanna. Þá bendir kærði á að engar upplýsingar um þekkingu og reynslu kæranda megi finna á vefsíðu lögmannsstofu aðilans. Beri af þeirri ástæðu að leggja til grundvallar að kærandi hafi borið enn ríkari skylda til að segja rétt frá sinni reynslu og þekkingu en almennt gildi um slíkt efni. Er jafnframt um þetta efni vísað til 1. gr. siðareglna lögmanna og að um sé að ræða atriði, auk annarra, sem teljist til forsendubrests.

Varðandi umkrafið tímagjald kæranda þá bendir kærði á að kærandi hafi ekki klárað setninguna um tímagjald sem megi finna í framlögðu tölvubréfi fyrir nefndinni. Þá er bent á ósamræmi milli þess sem kærandi hafi upplýst og þess sem greinir á hinum umþrætta reikningi um tímagjald að fjárhæð kr. 20.000 auk virðisaukaskatts.

Kærði vísar til þess í málatilbúnaði sínum að tillaga kæranda um fjárhagsmál hafi aldrei verið samþykkt og að kærandi geti þess ekki að henni hafi verið hafnað. Bendir kærði á að kærandi hafi ítrekað fengið þær upplýsingar að tímagjald væri ekki samþykkt þegar kærandi hafi leitað eftir að tímagjald yrði greitt. Hafi kærandi þá ekki spurt leyfis og innheimt það samt. Þá bendir kærði á að hann hafi ítrekað gert kæranda grein fyrir þeim þrönga fjárhagsramma sem unnið væri eftir í viðkomandi verkefni. Þá er á það bent að kærandi hafi ekki gert reikning í lok septembermánaðar 2017 vegna þeirrar vinnu sem þá hafði fallið til.

Í málatilbúnaði kærða er á því byggt að kærandi hafi vanrækt að ná samkomulagi um fjárhagsþáttinn sem og að leggja fram tillögur og kostnaðaráætlun innan þeirra skorða sem hann hafi verið upplýstur um að verkefni hefði. Vísar kærði um þetta efni til 10. gr. siðareglna lögmanna sem aðilinn byggir á að kærandi hafi brotið gegn. Er á það bent í því samhengi að kærandi hafi ekki tekið mið af þeim verðmætum sem um hefði verið að tefla en fram hafi komið í samskiptum aðila að verkefnið byggi við stífar fjárhagsskorður, þ. á m. 233.000 krónur á mánuði með virðisaukaskatti fyrir verktaka sem væru fyrst og fremst forritarar. Kærandi hafi haft vitneskju um þetta. Þá megi ljóst vera að hin umþrætta reikningsfjárhæð teljist mjög veruleg miðað við þá hagsmuni sem væru í húfi. Auk þess liggi fyrir að samskipti aðila hafi ekki leitt til neinna verðmæta fyrir verkefnið. Vísar kærði til þess að hann hafi sjálfur lokið samningsgerðinni og að aðilinn sé mjög sáttur við niðurstöðuna.

Kærði bendir á að kærandi hafi haft mjög yfirborðskennda þekkingu á því verkefni sem um ræddi og að af málatilbúnaði kæranda fyrir nefndinni megi ráða að aðilinn hafi ekki kynnt sér gögn málsins.

Kærði byggir á að hann hafi sent kæranda gögn eftir ítrekað frumkvæði um slíkt af hálfu kæranda og í því miði að aðilinn gæti kynnt sér hvort hann væri rétti maðurinn í verkefnið. Bendir kærði á að af fyrirliggjandi gögnum og samskiptum aðila megi ráða að þreifingar hafi verið í gangi um mögulega aðkomu kæranda að verkefninu.

Í málatilbúnaði kærða er vísað til þess að það sé eftiráskýring af hálfu kæranda að aðilinn hafi lesið yfir gögn málsins enda sjáist þess engin merki. Þá hafi kærandi kynnt sér gögn í því skyni að kanna hvort verkefnið væri á hans færi og hafi falist í því að skima fljótt yfir þau. Ítrekar kærði að kærandi hafi haft verulega takmarkaða hugmynd um gögn málsins. Þá er á það bent að kærandi sjálfur hafi upplýst að aðkoma hans að verkefninu hafi ekki verið hafin auk þess sem verkefnið hafi ekki haft neinn ávinning af samskiptum aðila. Bendir kærði á að það eina sem hafi komið frá kæranda hafi verið almenn atriði í eitt skipti á íslensku vegna samningaviðræðna sem fóru fram á ensku.

Varðandi tölvupóst kæranda frá 19. október 2017, sem kærði kveður eina tilvikið sem hafi innihaldið eitthvað lögfræðilegt efni, vísar kærði til þess að um ófullnægjandi svar sé að ræða á öðru tugumáli en samningaviðræður hafi farið fram á, þ.e. á íslensku þó spurningar hafi aðallega verið settar fram á ensku. Þá hafi orðinu „ekki“ verið ofaukið sem hafi gert það að verkum að ómögulegt hafi verið að segja til um hvað kærandi hafi verið að meina. Telur kærði ljóst að svör kæranda séu almenns eðlis sem hafi einungis tekið mið af spurningum kærða í tölvubréfi og engu öðru, þ. á m. engum gögnum. Þá megi færa rök fyrir því að í tveimur af þremur ráðleggingum hafi kærandi haft rangt fyrir sér.

Kærði bendir á að ekkert bendi til þess að kærandi hafi haldið verk- og tímabókhald. Þannig bendi allt til þess að hinn umþrætti reikningur hafi ekki verið gerður fyrr en í lokin. Þá sé helmingur liða í fyrstu tímaskýrslu kæranda með röngum dagsetningum auk þess sem ýmislegt stangist á við það sem kærandi haldi fram. Bendir kærði á að hann hafi gert athugasemd við hvern lið í tímaskýrslu kæranda. Er á því byggt að kærandi hafi ekki uppfyllt 15. gr. siðareglna lögmanna enda hafi aðilinn ekki svarað efnislega athugasemdum kærða við einstaka liði á hinum umþrætta reikningi og lýsingu á verkþáttum. Kveður kærði að sá gjörningur kæranda að strika með penna yfir helming dagsetninga og skrifa nýjar inn bæti hér ekki úr.

Kærði byggir á að tímafjöldi sé í öllum tilvikum ofaukið í tímaskráningu kæranda. Þannig skrifi kærandi 0,25 klukkustundir á örstutt tölvubréf. Þá liggi ekkert nema orð kæranda fyrir því að hann hafi lesið og kynnt sér gögn málsins en á þann þátt séu skrifaðar 2,5 klukkustundir. Þá færi kærandi 2 klukkustundir fyrir almennar ráðleggingar á íslensku sem ekki hafi verið hægt að nýta þar sem samningaviðræður hafi farið fram á ensku auk þess sem tvær af þremur ráðleggingum hafi verið rangar. Ítrekar kærði að ekkert bendi til þess að kærandi hafi kynnt sér málið.

Í málatilbúnaði kærða er jafnframt vísað til þess að svör kæranda hafi ítrekað verið óljós eða villandi. Hafi slíkt raunar átt við um öll samskipti sem kærði hafi átt við kæranda. Þá byggir kærði á að vísa beri málinu frá nefndinni á grundvelli óreiðu af hálfu kæranda í framsetningu gagna og fylgiskjala. Er á það bent að framlögð skjöl séu ekki í tímaröð. Krefst kærði þess að öll framlögð fylgiskjöl af hálfu kæranda teljist ekki til gagna málins. Þá bendir kærði á að kærandi hafi reynt að prenta út sem flestar blaðsíður en þrátt fyrir það sé lítið vísað til gagna í málatilbúnaði aðilans. Þá hafi kærða verið gert erfitt um vik að taka til varna vegna hinnar óskýru framsetningar af hálfu kæranda.

Í viðbótarathugasemdum kærða er vísað til þess að andsvör kæranda stangist í veigamiklum atriðum á við gögn málsins. Þannig sé það rangt sem greinir í málatilbúnaði kæranda um að aðilinn hafi ekki sótt það stíft að heimsækja fyrirsvarsmann kærða. Bendir kærði á að kærandi hafi beðið fimm sinnum á tímabilinu frá 8. september 2017 til 15. október 2017 um að fá að heimsækja fyrirsvarsmanninn. Hafi fyrirsvarsmaður kærða hins vegar aldrei beðið kæranda um að koma í heimsókn. Þá kveður kærði að engin gögn styðji fullyrðingu kæranda um að aðilar hafi ætlað að funda þann 22. október 2017. Þá ítrekar kærði að fram hafi komið í símtali aðila þann 15. október 2017 að ekki hefði verið samþykkt að greiða tímagjald vegna verkefnisins. Kveður kærði þetta til marks um meintan ótrúverðugleika kæranda.

Þá er á það bent í viðbótarathugasemda kærða að engin skrif aðilans hafi verið til þess fallin að vekja væntingar hjá kæranda um að ráðningarsamband hefði komist á og/eða að fallist hefði verið á beiðni hans um tímagjald. Er í því samhengi á það bent að aðilar hafi átt í tölvubréfasamskiptum eftir útgáfu reikningsins. Kveður kærði að kærandi taki út þann texta sem hann telji óhagstæðan fyrir kærða og að kærandi gefi með því villandi og afvegaleiðandi mynd af samskiptunum. Vísar kærði til þess að fjárhagstillögu kæranda hafi skýrt verið hafnað í símtali þann 15. október 2017 og að skoða beri síðari samskipti aðila í því ljósi.

Kærði kveður að lýsing sín á atburðarás sé stöðug og trúverðug. Þá hafi kærandi ekki sýnt fram á nein atriði í málatilbúnaði kærða sem gögn málsins styðji ekki. Kveður kærði að aðilinn hafi upplifað samskipti aðila sem svo að þar hafi farið fram þreifingar, sem hafi tekið lengri tíma en venja sé til vegna þess hve óskýr og afvegaleiðandi kærandi hafi verið í svörum sínum. Sé það skilningur kærða að viðskipti fari almennt þannig fram, hvort sem um sé að ræða vöru eða þjónustu, að tilboð sé sett fram og ef aðilar nái saman sé því tekið. Nái aðilar ekki saman geti þeir ýmist kosið að vera áfram í samskiptum eða áframhaldandi þreifingum eða slitið samskiptunum. Hafi kærði túlkað samskipti aðila svo að aðilar hefðu átt í áframhaldandi þreifingum vegna verkefnisins eftir 15. október 2017.

Í samræmi við framangreint byggir kærði á að ekki hafi komist á samningur eða samkomulag á milli aðila, þ.e hvorki munnlegur né skriflegur. Í viðbótarathugasemdum kærða er ítrekuð kröfugerð aðilans um frávísun málsins eða höfnun á kröfum kæranda. Þá gerði aðilinn kröfu til þrautavara um að krafa kæranda yrði lækkuð verulega og að málskostnaður yrði felldur niður.

Niðurstaða

                                                                          I.

Rétt þykir að fjalla fyrst sérstaklega um frávísunarkröfu kærða en samkvæmt 2. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna getur nefndin vísað máli frá ef í því eru sönnunaratriði, sem örðugt er að leysa úr undir rekstri málsins, eða mál er að öðru leyti ekki nægilega upplýst.

Um þá kröfu er í greinargerð kærða vísað til þess að óreiða sé í framsetningu gagna og fylgiskjala af hálfu kæranda fyrir nefndinni auk þess sem gögn og fylgiskjöl hafi ekki verið lögð fram í tímaröð. Kærða sé auk þess gert erfiðara um vik að taka til varna í málinu á grundvelli hinnar óskýru framsetningar gagna af hálfu kæranda. Þá skorti á að vísað sé til gagna í málatilbúnaði kæranda.

Að mati nefndarinnar verður glögglega ráðið af málatilbúnaði kæranda hvert sakarefni málsins er og að málið hafi verið lagt fyrir nefndina vegna ágreinings aðila um rétt til endurgjalds fyrir lögmannsstörf og/eða fjárhæð þess, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Að mati nefndarinnar hefur málatilbúnaður kæranda, þ. á m. framlagning gagna af hálfu aðilans, í engu leitt til þess að kærði hafi átt í erfiðleikum með að taka til efnisvarna í málinu með þeim hætti að leitt geti til frávísunar þess frá nefndinni. Samkvæmt því er það mat nefndarinnar að málið teljist fyllilega reifað og upplýst. Er frávísunarkröfu kærða í máli þessu því hafnað og verður það tekið til efnisúrlausnar.

II.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknað.

Þá segir í 15. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

III.

Eins og sakarefni málsins hefur verið afmarkað fyrir nefndinni þá er ágreiningsefni málsaðila tvíþætt. Annars vegar lýtur ágreiningur í málinu að því hvort komist hafi á samningssamband á milli aðila og samkvæmt því hvort kærandi eigi rétt til endurgjalds fyrir störf sín úr hendi kærða. Hins vegar snýr ágreiningur aðila að fjárhæð endurgjaldsins, þ.e. verði lagt til grundvallar að komist hafi á verksamband á milli aðila.

Um hið fyrrgreinda ágreiningsefni þá liggur fyrir að fyrirsvarsmaður kærða leitaði til kæranda þann 6. september 2017 en í tölvubréfi fyrirsvarsmannsins þann dag var því lýst að hann væri með nánar tilgreinda styrki á sviði hugbúnaðargerðar og þyrfti að gera „revenue sharing“ samning við birgja. Var tiltekið í tölvubréfinu að fyrirsvarsmaðurinn hefði áhuga á aðstoð við það og beindi þeirri fyrirspurn til kæranda hvernig aðilanum litist á það. Í svari kæranda þennan sama dag var meðal annars tiltekið að hann gæti tekið verkefnið að sér auk þess sem aðilinn veitti upplýsingar um tímagjald sitt vegna verkefnisins. Í málsatvikalýsingu að framan er gerð grein fyrir frekari tölvubréfasamskiptum aðila frá þessum sama degi, þ. á m. upplýsingum sem fyrirsvarsmaður kærða veitti um að hið fyrirhugaða verkefni sneri líklega að gerð samnings og svari kærandi við fyrirspurn fyrirsvarsmannsins um reynslu hans á viðkomandi sviði. Tiltók kærandi um hið síðastgreinda atriði að hann hefði samið ýmsa erlenda viðskiptasamninga en þó ekki sérstaklega „revenue sharing“ samninga vegna hugbúnaðar.

Í framhaldi þessa áttu aðilar í frekari samskiptum vegna verkefnisins á tímabilinu frá 7. september 2017 til 20. október sama ár. Í tölvubréfi fyrirsvarsmanns kærða til kæranda, dags. 12. september 2017, var því lýst að hann hefði unnið í málinu og væri með talsvert safn af skjölum. Lýsti fyrirsvarsmaðurinn áhyggjum af því að það myndi taka talsverðan tíma að setja sig inn í þau og að það yrði því kostnaðarsamt. Tiltók fyrirsvarsmaðurinn að þau skjöl sem fylgdu með tölvubréfinu og lutu að verkefninu væru stutt og „too the point“. Þá var framgangi og stöðu mála vegna samningaviðræðna lýst sem og gerð grein fyrir því forriti sem málið varðaði. Með tölvubréfinu fylgdu fimm skjöl á ensku sem töldu alls 25 blaðsíður. Jafnframt liggur fyrir í gögnum málsins að kærandi upplýsti fyrirsvarsmann kærða þann 21. september 2017 að hann hefði kynnt sér viðkomandi gögn. Þá liggur fyrir að fyrirsvarsmaður kærða sendi tölvubréf til kæranda dagana 18. og 19. október 2017, ásamt samningsdrögum frá hinum fyrirhugaða viðsemjanda kærða, þar sem var að finna nánar tilgreindar athugasemdir fyrirsvarsmannsins við efni samningsdraganna. Í svari kæranda þann 19. október 2017 var að finna athugasemdir aðilans vegna lögfræðilegra atriða sem fyrirsvarsmaður kærða hafði nefnt í fyrri tölvubréfum auk þess sem grein var gerð fyrir áföllnum vinnustundum kæranda vegna málsins. Ágreiningslaust er að kærandi kom ekki frekar að umræddu verkefni í þágu kærða eftir þann tíma en fyrir nefndinni liggur tölvubréf kærða frá 20. október 2017 þar sem aðilinn lýsti því að „verkefnið“ hefði ekki efni á þjónustu kæranda.

Um það efni hvort samningssamband hafi komist á milli aðila um lögmannsþjónustu kæranda í þágu kærða er til þess að líta að kærði leitaði sérstaklega til kæranda þann 6. september 2017 með beiðni um aðstoð vegna verkefnisins. Kvaðst kærandi þennan sama dag geta tekið verkefnið að sér auk þess sem hann gerði kærða sérstaklega grein fyrir því í upphafssamskiptum aðila á hvaða grundvelli þóknun yrði reiknuð, sbr. 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna. Sama dag upplýsti kærandi jafnframt um að hann hefði ekki komið sérstaklega áður að gerð „revenue sharing“ samninga vegna hugbúnaðar en fyrirspurn kærða um reynslu kæranda að þessu leyti hafði sérstaklega lotið að slíkri samningagerð.

Kærði gerði í kjölfar þessa hvorki athugasemd við áskilið tímagjald kæranda né reynslu aðilans á því sviði sem verkefnið tók til. Þá verður ekki annað annað ráðið af þeim tölvubréfum sem fyrirsvarsmaður kærða sendi kæranda dagana 7. og 12. september 2017 en að aðilinn hafi að öllu leyti sætt sig við áskilið tímagjald kæranda sem og reynslu hans og hæfi til starfans. Við mat á því hvort samningssamband hafi komist á milli aðila verður jafnframt að líta til þess að fyrirsvarsmaður kærða sendi kæranda þó nokkur skjöl vegna verkefnisins í tölvubréfi þann 12. september 2017 en fimm dögum áður hafði fyrirsvarsmaðurinn upplýst um að hinn fyrirhugaði samningur, sem kæranda var ætlað að koma að, skipti kærða mjög miklu máli. Að mati nefndarinnar gat kærða ekki dulist að kærandi myndi taka þau skjöl til skoðunar í því skyni að vera til reiðu að koma að samningsgerð vegna verkefnisins í samræmi við fyrri samskipti aðila. Gerði fyrirsvarsmaður kærða enda enga athugasemd við það þegar kærandi upplýsti um að hann hefði kynnt sér viðkomandi gögn og óskaði eftir að hann yrði látinn vita hver næstu skref yrðu og hvers óskað væri af honum. Þá benda tölvubréfasamskipti aðila frá 18. og 19. október 2017, sem nánar er lýst í málsatvikalýsingu að framan, jafnframt eindregið til þess að samningssamband hafi verið á milli aðila um lögmannsþjónustu kæranda í þágu kærða vegna verkefnisins og að aðilar hafi litið svo á. Verður þá jafnframt litið til þess að á tilgreindum tíma lágu fyrir samningsdrög frá viðsemjanda kærða sem aðilinn sendi til kæranda ásamt ítarlegum athugasemdum. Þá er ágreiningslaust að kærandi veitti kærða lögfræðilegar ráðleggingar vegna samningsdraganna, þótt ágreiningur sé á milli aðila um gæði og gildi þeirra ráðlegginga.

Að mati nefndarinnar verður heldur ekki annað ráðið af gögnum málsins en að kærði hafi sjálfur litið svo á að komist hefði á samningssamband milli aðila. Þannig lýsti fyrirsvarsmaður kærða yfir áhyggjum af því í tölvubréfi, dags. 12. september 2017, að það myndi taka talsverðan tíma að setja sig inn í gögn vegna verkefnisins og að það yrði því kostnaðarsamt. Þá lýsti fyrirsvarsmaðurinn yfir áhyggjum í tölvubréfi til kæranda þann 19. október 2017 yfir því að hann væri að senda kæranda of mikið af gögnum og að kærði myndi fá háan reikning vegna þess. Að mati nefndarinnar hefðu hinar lýstu áhyggjur kærða verið þarfalausar ef ekki hefði verið komið á samningssamband á milli aðila á tilgreindum tíma líkt og kærði byggir á í málinu.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið sem og með hliðsjón af gögnum málsins verður ótvírætt ráðið að mati nefndarinnar að komist hafi á samningssamband á milli aðila um lögmannsþjónustu kæranda í þágu kærða vegna þess verkefnis sem hinn síðarnefndi aðili leitaði til kæranda með þann 6. september 2017. Samkvæmt því er með engu móti unnt að fallast á sjónarmið kærða um að aðilar hafi einungis átt í þreifingum um hugsanlega aðkomu kæranda sem lögmanns að verkefninu í þágu kærða í september- og októbermánuði 2017. Fyrirliggjandi samskipti aðila fyrir nefndinni bera með sér hið gagnstæða, þ.e. að komist hafi á samningssamband á milli aðila og að aðilar hafi litið á að svo væri.

Um hið síðargreinda ágreiningsefni, þ.e. áskilið endurgjald kæranda, þá liggur fyrir að gefinn var út reikningur af lögmannsstofu kæranda þann 2. nóvember 2017 að fjárhæð 122.760 krónur með virðisaukaskatti. Á reikningnum var því lýst að hann væri tilkominn vegna lögmannsþjónustu í alls 5,5 klukkustundir, að tímagjald væri að fjárhæð 20.000 krónur auk virðisaukaskatts en að afsláttur af útseldu tímagjaldi væri 10%. Samkvæmt því var fjárhæð reikningsins 99.000 krónur án virðisaukaskatts og tímagjaldið með afslætti að fjárhæð 18.000 krónur án virðisaukaskatts.

Í tímaskýrslu kæranda sem aðilinn sendi kærða eftir útgáfu ofangreinds reiknings var tiltekið að kærandi hefði alls veitt kærða lögmannsþjónustu í 5,5 klukkustundir á tímabilinu frá 6. september 2017 til 19. sama mánaðar. Í kjölfar athugasemda fyrirsvarsmanns kærða á efni tímaskýrslunnar mun kærandi hafa sent fyrirsvarsmanninum leiðrétta tímaskýrslu þar sem færslur frá 13., 15. og 19. október 2017 í tímaskýrslu höfðu ranglega verið tilgreindar sem færslur vegna sömu daga septembermánaðar sama ár. Að teknu tilliti samskipta aðila, fyrirliggjandi gagna og efni færslna í tímaskýrslu kæranda mátti kærða vera ljóst að um augljósa ritvillu að þessu leyti hefði verið að ræða í hinni upphaflegu tímaskýrslu. Þá verður að líta til þess að kærandi leiðrétti tímaskýrsluna strax gagnvart kærða í kjölfar athugasemda hins síðarnefnda þar að lútandi.

Eins og áður greinir þá gerði kærandi kærða grein fyrir því í upphafi samningssambands aðila að tímagjald hans væri að fjárhæð 18.000 krónur auk virðisaukaskatts „með 10% afslætti skákmanna.“ Að mati nefndarinnar verður að leggja til grundvallar að tilgreint tímagjald, 18.000 krónur auk virðisaukaskatts, hafi innifalið hinn 10% afslátt sem kærandi lýsti í upphafi samskipta aðila enda sérstaklega tiltekið að fjárhæðin væri með afslætti. Samkvæmt því er hvorki efni til að fallast á málatilbúnað kærða fyrir nefndinni um að afslátturinn hafi átt að leggjast ofan á hið áskilda tímagjald kæranda að fjárhæð 18.000 krónur án virðisaukaskatts né til að hrófla við fjárhæð eða annarri tilgreiningu á hinum umþrætta reikningi vegna málatilbúnaðar kærða um þetta efni.

Í málatilbúnaði kærða er því borið við að aðilinn hafi aldrei samþykkt hið áskilda tímagjald kæranda heldur hafi hann þvert á móti gert aðilanum ítrekað grein fyrir að hann gæti ekki samþykkt að lögmannsþóknun skyldi reiknuð á grundvelli slíkra forsendna. Engra gagna nýtur við fyrir nefndinni sem geta fært stoð undir málatilbúnað kærða að þessu leyti. Þó fyrir liggi að kærði hafi tiltekið í tölvubréfum til kæranda að aðilanum væri sniðinn þröngur stakkur og að sýna þyrfti ráðdeildarsemi í ljósi fyrirliggjandi styrkveitinga verður að mati nefndarinnar ekki fram hjá því litið að fyrirsvarsmaður kærða var í upphafi samningssambandsins upplýstur um á hvaða grundvelli þóknun yrði reiknuð og hvaða tímagjald kærandi áskildi sér vegna starfans. Eins og áður greinir verður ekki ráðið af fyrirliggjandi gögnum að kærði hafi gert nokkrar athugasemdir við kæranda um þá þætti. Hefði til þess verið fullt tilefni af hálfu kærða, þ.e. hafi aðilinn verið ósamþykkur þeim forsendum sem kærandi upplýsti hann um í upphafi samningssambandsins.

Gegn andmælum kæranda um þetta efni og með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum verður að leggja til grundvallar að mati nefndarinnar að samkomulag hafi komist á milli aðila um að þóknun kæranda vegna lögmannsstarfa hans í þágu kærða yrði reiknuð á grundvelli tímagjalds sem skyldi vera að fjárhæð 18.000 krónur auk virðisaukaskatts. Þá getur það ekki haft áhrif á samningssamband aðila eða rétt kæranda til endurgjalds úr hendi kærða vegna lögmannsstarfa hvort eða með hvaða hætti styrkveitandi kærða kann að hafa sett skorður við því að keypt yrði sérfræðiþjónusta. Gögn málsins bera með sér að fyrirsvarsmaður kærða leitaði til kæranda vegna verkefnisins og að fyrirsvarsmaðurinn upplýsti kæranda ekki um hinar meintu takmarkanir á ráðstöfunarrétti aðilans að þessu leyti fyrr en eftir að samningssambandi aðila var lokið. Samkvæmt því verður að leggja til grundvallar að aðkoma viðkomandi styrkveitanda að rekstri kærða hafi verið réttarsambandi aðila með öllu óviðkomandi.

Í málatilbúnaði kærða er á því byggt að kærandi hafi sótt það stíft að fá að skoða viðkomandi forrit og að mikill tími hafi farið í þá málaleitan, sem kærði hafi í engu átt frumkvæði að. Um þetta efni er þess annars vegar að gæta að í tölvubréfi fyrirsvarsmanns kærða til kæranda, dags. 7. september 2017, tiltók fyrirsvarsmaðurinn sérstaklega að hann væri á leið erlendis en að hann hefði gaman af því að sýna kæranda það forrit sem málið varðaði. Ítrekaði fyrirsvarsmaðurinn það í tölvubréfi þann 12. sama mánaðar þar sem hann kvaðst geta beðið samstarfsfólk sitt að sýna kæranda forritið. Að mati nefndarinnar verður ekki annað ráðið af efni nefndra tölvubréfa en að kærði sjálfur hafi átt frumkvæði að hinni fyrirhuguðu skoðun kæranda á forritinu. Hins vegar er þess að gæta að jafnvel þótt kærandi hefði átt frumkvæðið að þessu leyti að þá hefði slíkt í engu geta talist óeðlileg málaleitan að teknu tilliti til þess verkefnis sem kærði leitaði til kæranda með þann 6. september 2017 og aðilinn hafði sjálfur upplýst að skipti mjög miklu máli, eins og áður er rakið.

Ágreiningur er jafnframt á milli aðila um efni símtals sem aðilar munu hafa átt með sér þann 15. október 2017. Kveður kærði þannig að upplýst hafi verið um í símtalinu að ekki væri unnt að fallast á tillögu kæranda um þóknun á grundvelli tímagjalds en kærandi hefur mótmælt þeim málatilbúnaði. Hvað sem því símtali líður þá liggur fyrir að kærði leitaði eftir tilgreint tímamark á ný til kæranda, þ.e. dagana 18. og 19. október 2017, vegna samningsdraga sem þá lágu fyrir frá viðsemjanda kærða. Gerði kærði í nefndum tölvubréfum engar athugasemdir við grundvöll þóknunar kæranda, sem aðilinn kveður þó að hafi verið til umræðu nokkrum dögum fyrr án niðurstöðu. Hefði verið fullt tilefni til þess, einkum í ljósi þess vinnuframlags sem kærði óskaði eftir úr hendi kæranda með því að senda honum samningsdrögin og ítarlegar athugasemdir þar að lútandi.

Þá er ekki unnt að leggja til grundvallar að mati nefndarinnar að lögfræðilegar athugasemdir kæranda í tölvubréfi til kærða þann 19. október 2017 hafi ekki getað nýst sökum þess að þær hafi verið ritaðar á íslensku en samningaviðræður farið fram á ensku. Er um það efni litið til þess að aðilar höfðu átt með sér samskipti á íslensku fram að viðkomandi tímapunkti, að þess var ekki sérstaklega óskað af hálfu kærða að breyting yrði þar á með þeim hætti að svör kæranda yrðu á ensku og að kærði gerði engar athugasemdir við efni eða tungumál tölvubréfsins í svari sínu til kæranda daginn eftir, þann 20. október 2017.

Með hliðsjón af öllu framangreindu og að virtum þeim gögnum sem lögð hafa verið fram í málinu, þ. á m. tímaskýrslu kærða sem virðist greinargóð um það sem gert var hverju sinni og ekki úr hófi, er það mat nefndarinnar að hæfilegt endurgjald fyrir lögmannsstörf kæranda í þágu kærða sé 122.760 krónur með virðisaukaskatti. Þessi niðurstaða felur í sér að sú þóknun sem kærandi áskildi sér vegna starfa sinna í þágu kærða var hæfileg. Samkvæmt því verður fallist á kröfu kæranda fyrir nefndinni með þeim hætti sem greinir í úrskurðarorði en krafa aðilans um dráttarvexti fær fulla stoð í 3. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Það athugast að kærði hefur í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni borið því við að kærandi hafi með ýmsum hætti gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Í stað þess að leggja kvörtun fyrir úrskurðarnefnd á þeim grundvelli, sbr. einnig 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, kaus kærði að lýsa hinum ætluðu brotum kæranda að þessu leyti í greinargerð með andsvörum og umsögn aðilans vegna erindis kæranda til nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Fyrir slíkum málatilbúnaði er ekki heimild og kemur málatilbúnaður kærða um þetta efni, umfram það sem áður greinir og varðar með beinum hætti ágreining aðila um rétt til endurgjalds vegna lögmannsstarfa eða fjárhæð þess, ekki til úrlausnar í máli þessu.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.       

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, B ehf., greiði kæranda, A lögmanni, 122.760 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. desember 2017 til greiðsludags.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður, formaður.

Kristinn Bjarnason lögmaður

Valborg Þ. Snævarr lögmaður

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson