Mál 8 2018

Mál 8/2018

Ár 2018, 27. september 2018, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2018:

A og B ehf.

gegn

C lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 2. mars 2018 erindi kærenda, A og B ehf., kt., þar sem kvartað er yfir því að kærða, C lögmaður, hafi brotið annars vegar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn hvað varðar rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess og hins vegar gegn 27. gr. sömu laga.

D lögmaður gætir hagsmuna kærðu í málinu fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.

Kærðu var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 5. mars 2018 og barst hún þann 18. apríl 2018. Þann sama dag var kærendum send greinargerð kærðu til athugasemda.  Hinn 4. maí 2018 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kærenda og voru þær sendar til lögmanns kærðu með bréfi þann 7. sama mánaðar. Nefndinni bárust viðbótarathugasemdir kærðu þann 22. maí 2018 og voru þær sendar til kærenda með bréfi dags. 25. sama mánaðar með þeirri athugasemd að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Þann 7. júní 2018 bárust úrskurðarnefnd loks viðbótarathugasemdir frá kærendum. Var lögmanni kærðu tilkynnt um þær með bréfi nefndarinnar dags. 8. júní 2018. Engar frekari athugasemdir voru gerðar og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt gögnum málsins og málsatvikalýsingu kærenda, sem kærða gerir athugasemdir við án þess að lýsa málsatvikum með sjálfstæðum hætti í erindum sínum til nefndarinnar, mun kærða hafa gegnt ýmsum lögmanns- og trúnaðarstörfum um árabil í þágu kærenda. Nánar tiltekið verður ráðið af málsgögnum að störf kærðu í þágu kærenda hafi hafist á árinu 2006 og að þeim hafi lokið í árslok 2015.

Í kvörtun kærenda til nefndarinnar er því lýst að hún lúti að ýmsum þáttum þeirra lögmanns- og trúnaðarstarfa sem kærða sinnti í þágu kærenda á greindu tímabili. Í kvörtuninni er að finna lýsingar á meintum brotum kærðu á nánar tilgreindum ákvæðum laga nr. 77/1998 um lögmenn og siðareglna lögmanna gagnvart kærendum. Til stuðnings kröfugerð sinni og málatilbúnaði hafa málsaðilar lagt fram nokkurn fjölda skjala fyrir nefndinni. Verður gerð grein fyrir tilgreindum gögnum við lýsingu á málsástæðum aðila fyrir nefndinni, eftir því sem við getur átt.

II.

Í kvörtun kærenda er þess krafist að úrskurðarnefnd leggi til við sýslumann að kærða verði svipt lögmannsréttindum, en að öðrum kosti að réttindi hennar verði felld niður tímabundið, enda hafi hún gerst sek um gróf og ítrekuð brot gegn lögum og siðareglum sem gilda um störf lögmanna, sbr. 2. mgr. 27. gr. og 1. mgr. 14. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Til vara er þess krafist að úrskurðarnefnd veiti kærðu áminningu, en til þrautavara að fundið verði að þeirri háttsemi kærðu sem lýst sé í kvörtuninni, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Þá krefjast kærendur málskostnaðar vegna meðferðar málsins fyrir úrskurðarnefnd.

Í málatilbúnaði kærenda er því lýst að kvörtunin lúti að háttsemi kærðu í garð kærenda, sem telja megi að stríði alvarlega gegn lögum og siðareglum lögmana. Fyrst og fremst sé um að ræða háttsemi kærðu á fundi með kæranda A þann 22. desember 2015 en á þeim tíma hafi kærandinn verið alvarlega veikur.

Er vísað til þess í málatilbúnaði kærenda að kæranda A hafi hlotnast umtalsverðir fjármunir á árinu 2005 og að frá þeim tíma hafi kærandinn gert sitt besta til að tryggja faglega umgengni um þá fjármuni. Í því skyni hafi kærandinn ráðið kærðu sem lögmann til að sinna hagsmunagæslu fyrir sig á þessu sviði. Hafi kærða sinnt bæði almennum lögmannsstörfum fyrir kærendur og séð jafnframt um eignastýringu fyrir þá. Auk þess hafi kærða gegnt starfi framkvæmdastjóra hjá kæranda B ehf. á árunum 2006 – 2009.

Samkvæmt kvörtun kærenda er kærandi A eigandi alls hlutafjár í kæranda B ehf. Er því lýst að í árslok 2015 hafi kærða látið af störfum í þágu kærenda og annar aðili þá tekið við eignastýringu fyrir hönd kærenda. Á þeim tíma hafi veikindi kæranda A vegna liðagigtar og vefjagigtar ágerst mjög. Er um það efni vísað til læknisvottorða K og E, dags. 7. og 12. febrúar 2018, sem liggja fyrir í málsgögnum. Kveða kærendur að útilokað hafi verið fyrir kæranda A að rýna skjöl eða fást við viðskiptaskjöl á þessum tíma og að veikindin hafi ekki farið framhjá þeim sem þekktu kærandann, þ. á m. kærðu í máli þessu.

Kvörtun kærenda til úrskurðarnefndar lögmanna vegna háttsemi kærðu og meintra brota hennar á ákvæðum laga og siðareglna lögmanna er sett fram í fjórum liðum. Verður nú gerð grein fyrir þeim kvörtunarefnum ásamt þeim gögnum sem kærendur byggja kröfugerð og málatilbúnað sinn á fyrir nefndinni í hverju tilviki.

  1. Meintar óhóflegar þóknanir/greiðslur til kærðu.

Kærendur vísa til þess að við skoðun á bókhaldi þeirra hafi komið í ljós óhóflega háar greiðslur til kærðu og hennar félags sem ekki sé hægt að setja í samhengi við neina starfsemi kærenda. Er vísað um það efni til fyrirliggjandi sundurliðunar á greiðslum til kærðu og félaga henni tengdum á árunum 2006 – 2015. Hafi greiðslurnar verið hæstar að nafnverði árið 2008 eða að fjárhæð 34.733.236 krónur og lægstar árið 2015 eða að fjárhæð 4.006.667 krónur.

Benda kærendur á að núvirtar heildargreiðslur til kærðu á tilgreindu tímabili hafi verið að fjárhæð 301.034.856 krónur. Séu slíkar greiðslur víðs fjarri nokkru sem eðlilegt geti talist fyrir tiltölulega lítið fjárfestingarfélag eða þá umsýslu sem hafi fylgt eignum kærenda. Hafi þannig á þessu tímabili hvorki verið um að ræða flókna eða tímafreka eignastýringu fyrir kærendur né umfangsmikil verkefni tengd lögfræðistörfum. Kveða kærendur að gjaldtaka þessi staðfesti að kærða, sem gæta hafi átt hagsmuna umbjóðenda sinna, hafi virt þá skyldu að vettugi og misnotað traust kæranda A með því að innheimta óhæfilega og óeðlilega háar greiðslur fyrir störf sín í þágu kærenda. Á þessum tíma hafi kærandi A ekki haft samanburð við það sem telja megi eðlilegt og hóflegt í ljósi umfangs vinnunnar og starfsemi kærenda auk þess sem kærendur hafi lagt fullt traust á kærðu. Þá verði að hafa í huga að kærandi A hafi á hluta tímabilsins glímt við alvarleg veikindi sem hafi dregið enn frekar úr viðnámsþrótti aðilans gagnvart óhóflegum reikningum kærðu.

Er vísað til þess að óhóflega háar þóknanir og greiðslur sem kærða hafi tekið fyrir störf sín í þágu kærenda sé eitt af þeim atriðum sem kvörtunin lúti að.

  1. Meint brot gegn 18. gr. laga nr. 77/1998 – lán til íbúðakaupa dóttur kærðu.

Kærendur kveða að kærandi B ehf. hafi þann 19. ágúst 2014 veitt félagi tengdu kærðu, F ehf., lán að fjárhæð 15.000.000 krónur vegna íbúðakaupa fyrir dóttur kærðu. Um þetta efni liggja fyrir í gögnum málsins annars vegar millifærslukvittun, dags. 19. ágúst 2014, og óundirritaður lánssamningur á milli tilgreindra aðila, dags. 1. september 2014. Er vísað til þess að samningsdrögin hafi verið einhliða samin af kærðu og að félagið F ehf. sé í eigu eiginmanns hennar sem sé jafnframt stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins. Þá sé kærða varastjórnarmaður í tilgreindu félagi og prókúruhafi.

Vísa kærendur til þess að kærandi A og kærða hafi átt með sér fund þann 22. desember 2015 en á þeim tíma hafi kærandi A verið alvarlega veik. Á fundinum hafi kærða lagt fyrir kærandann viðauka við lánssamning vegna fyrrgreinds láns þar sem vaxtakjör hefðu verið lækkuð auk þess sem fleiri breytingar á efni upphaflegs lánssamnings hefðu verið gerðar. Vísa kærendur til þess að viðaukinn hafi verið einhliða saminn af kærðu sem hafi jafnframt handritað á viðaukann að lánið væri að fullu uppgert og að skuld vegna þess væri engin. Hafi eiginmaður kærðu ritað undir viðaukann auk þess sem upphafsstafir og kennitala kærandans megi einnig finna neðst á skjalinu. Kveðst kærandi A ekki minnast þess að hafa undirritað eða ritað stafi sína og kennitölu á umrætt skjal. Þá hafi kærða ein komið að vottun skjalsins.

Er vísað til þess að kærandi B ehf. hafi höfðað mál gegn F ehf. til endurheimtu á láninu. Hafi hið síðargreinda félagið tekið varna í málinu og borið því meðal annars við að umrædd lánsskuldbinding hafi verið gerð upp með fyrrgreindum viðauka og áritun á hann, sem kærða hafi staðið að. Því sé ljóst að F ehf. ætli að reyna að halda tilgreindri áritun upp á B ehf., þrátt fyrir að hana megi ótvírætt rekja til ólögmætrar háttsemi kærðu og misnotkunar á ástandi alvarlega veiks skjólstæðings hennar.

Kærandi A kveðst hvorki kannast við að hafa séð umræddan viðauka eða áritun á hann né við hafa að samþykkt efni viðaukans og/eða áritunarinnar. Skjalið hafi þannig aldrei verið til í bókhaldi B ehf. sem renni stoðum undir ólögmæti tilurðar þess. Verði sýnt fram á að kærandinn hafi samþykkt umræddan viðauka eða áritun á hann með einhverjum hætti, byggja kærendur á að kærða hafi hagnýtt sér alvarleg veikindi kærandans til að gefa eftir lögmæta kröfu á hendur F ehf.

Vísa kærendur til þess að kærða hafi haft það meginhlutverk í starfi sínu að gæta hagsmuna umbjóðanda sína í hvívetna. Hafi kærða notið fulls trausts kæranda A meðan hún sinnti því starfi. Geti tilgreind háttsemi kærðu með engu móti talist samrýmanleg lögbundnum skyldum hennar samkvæmt 18. gr. laga nr. 77/1998 og siðareglum lögmanna.

  1. S ehf. – lánveiting.

Kærendur vísa til þess að um fasteignina að S 2 í Reykjavík hafi verið stofnað sérstakt félag, S ehf. Eigendur félagsins hafi verið fjórir, þ. á m. kærandi A og félag í eigu kærðu, sem allir hafi átt jafnan hlut, þ.e. 25% hver. Við efnahagshrunið hafi skuldir félagsins aukist og verið langt umfram eignavirði þess. Með samningum við kröfuhafa hafi tekist að endurnýja eignarhald hinna fjögurra aðila á félaginu og fasteigninni. Utan kæranda A hafi enginn eigenda haft burði til að leggja fjármagn við þá endurnýjun en til að tryggja eignarhaldið hafi kærandinn lánað félaginu 320.000.000 krónur með lánssamningi, dags. 16. desember 2010. Vísa kærendur til þess að kærða hafi útbúið tilgreindan lánssamning og skjöl tengd honum.

Vísa kærendur til þess að miðað við lánsskjöl og kjör sem tíðkuðust í íslenska hagkerfinu á umræddum tíma hafi kjörin sem kærða hafi sett á lánið verið með ólíkindum. Þannig hafi lánið verið verðtryggt með 2,5% vöxtum og á 3. veðrétti fasteignarinnar, enginn breytiréttur hafi fylgt til handa lánveitandanum eða nokkur önnur réttindi af nokkru tagi umfram aðra eigendur hlutafjár í félaginu. Byggja kærendur á að með þessu hafi kærða brugðist skjólstæðingi sínum auk þess að hafa gætt eigin hagsmuna þar sem hún hafi setið beggja vegna borðsins sem auki enn á alvarleika háttseminnar. Er á það bent að almennir vextir verðtryggðra lána hafi á þessum tíma verið 4,7% og vextir á áhættulánum mun hærri. Miðað við þá miklu áhættu sem fylgdi lánveitingunni hafi kærandinn verið hlunnfarinn um vexti sem námu að lágmarki 4-5% á ári og að auki um önnur réttindi sem eðlilega hefðu átt að fylgja lánveitingunni. Er vísað til þess að lánið hafi verið greitt upp á árinu 2016 og að áætla megi að árlegt vaxtatap kærandans hafi verið í kringum 20.000.000 krónur eða samtals á núvirði tæplega 110.000.000 krónur miðað við fyrrgreindar forsendur. Hafi fjórðungur þeirrar vaxtafjárhæðar sem þarna tapaðist í eignasafni kærandans runnið til kærðu.

  1. S ehf. – breyting á verðtryggðu láni í óverðtryggt.

Kærendur vísa til fundar sem kærða og kærandi A áttu með sér þann 22. desember 2015. Kveða kærendur að kærða hafi þar fengið kærandann til gera breytingu á verðtryggðu láni sem hvílt hafi á S 2 og gert lánið óverðtryggt. Í kjölfar fundarins hafi kærandinn haft samband við kærðu á nýjan leik og tjáð henni að ekki væri vilji til að gera lánið óverðtryggt og hafi það verið fært í hið fyrra horf í kjölfar þess. Kveða kærendur að lánið hafi verið gert upp samkvæmt ákvæðum þess um verðtryggingu nokkrum mánuðum síðar, en það hafi þá hvílt á 5. veðrétti eignarinnar. Þá er vísað til þess að kærandinn hafi sagt sig úr stjórn S ehf. með tilkynningu til Ríkisskattstjóra þann 27. janúar 2016.

Í málatilbúnaði kærenda er vísað til þess að verðtrygging hækki ekki lán, heldur viðhaldi hún verðmæti þeirra óbreyttu. Óverðtryggð lán beri hærri vexti en verðtryggð sem nemi verðtryggingunni. Kærða hafi með háttsemi sinni lækkað hið verðtryggða lán, sem staðið hafi í 377.500.000 krónum niður í 320.000.000 krónur. Mismunurinn sé 57.500.000 krónur eða 71.700.000 krónur á núgildandi verðlagi. Kveða kærendur að fjórðungur þessarar verðlækkunar hafi átt að renna til félags kærðu eða 17.900.000 krónur í gegnum eignarhald þess á S ehf. Hafi aðgerð kærðu verið stöðvuð enda hafi hún verið svo ófyrirleitin að engu tali taki. Þá hafi aðgerðin ekki stuðst við neinar viðskiptalegar forsendur og falið í sér alvarleg brot kærðu gegn starfsskyldum sínum.

Í niðurlagi kvörtunar kærenda er vísað til þess að hún sé sett fram innan tímamarka sem greinir í 27. gr. laga nr. 77/1998 enda hafi atvik að baki kvörtunarefnum ekki komið endanlega fram fyrr en nýverið. Þá hafi kærandi A verið þungt haldin af veikindum þangað til nýverið og hafi kærandinn þá fyrst gert sér grein fyrir hvað raunverulega hafði gerst í samskiptum við kærðu. Liggi það í hlutarins eðli að þegar lögmaður misnotar sér traust og alvarleg veikindi skjólstæðings síns, eins og hér hátti til, sé eðlilegt að einhver tími líði þar til kvörtun er sett fram, þ.e. á meðan skjólstæðingurinn er að ná sér af veikindunum og átta sig. Auk þess er á það bent að tilgreindur viðauki við lánssamning milli kæranda B ehf. og F ehf. hafi hvorki verið í fórum kærenda né hafi þeir vitað um tilvist skjalsins fyrr en það hafi verið lagt fram á dómþingi Héraðsdóms X þann x. september 2017.

Í viðbótarathugasemdum kærenda er á það bent að í greinargerð kærðu sé ekki að finna sérstaka umfjöllun um efnisatriði málsins, heldur leggi kærða fram greinargerð „einungis um frávísunarþáttinn á þessu stigi.“ Vísa kærendur til þess að ekki verið séð að heimild sé fyrir slíku í málsmeðferðarreglum úrskurðarnefndar, þ.e. að kærður lögmaður geti komist hjá því að skýra sína hlið á málinu og takmarka andsvör við „frávísun“ eingöngu. Þá kveða kærendur að þeir líti svo á í ljósi málsmeðferðar að frávísun komi ekki til álita í málinu, í öllu falli ekki vegna tímafresta.

Kærendur vísa til þess að ekki geti komið til álita að vísa málinu frá nefndinni, t.d. vegna tímafresta, nema kærða hafi áður tjáð sig um efnisatriði málsins enda sé mat á tímafrestum samofið efnishlið málsins. Þar sem kærða hafi kosið að tjá sig ekki um efni málsins geti hún ekki borið fyrir sig tímafresti líkt og hún leitast við að gera. Að öðru leyti hafna kærendur því alfarið að kvörtunin sé utan tímafresta.

Varðandi tímafresti vísa kærendur annars vegar til þess að það hafi ekki verið fyrr en á dómþingi sem haldið hafi verið þann x. september 2017 sem F ehf. hafi lagt fram í dómi skjal með heitinu „viðauki/skilmálabreyting“, dags. 22. desember 2015. Af því leiðir að B ehf. hafi fyrst gefist kostur á að taka afstöðu til skjalsins, andmæla gildi þess og leggja í kjölfarið fram kvörtun til úrskurðarnefndar þann 27. september 2017. Frestur kærenda til að leggja fram kvörtun hafi því ekki verið útrunninn þann 2. mars 2018, þ.e. þegar kvörtun í málinu var lögð fyrir úrskurðarnefnd. Að öðru leyti vísa kærendur varðandi tímafresti til umfjöllunar um það efni í kvörtun sinni til nefndarinnar.

Kærendur byggja á að yfirlit yfir greiðslur á fylgiskjali nr. 3 með kvörtun til nefndarinnar hafi fullt sönnunargildi sem slíkt enda hafi kærða ekki sett fram nein rökstudd andmæli gegn einstökum þáttum þess. Þá sýni umfang greiðslnanna fram á að kærða gegndi mikilvægum trúnaðarstörfum fyrir kærendur, og önnur félög kæranda A, og hafi trúnaðarskyldur kærðu verið þeim mun ríkari fyrir vikið.

Kærendur hafna málatilbúnaði kærðu sem röngum um að lánveiting B ehf. til F ehf. þann 19. ágúst 2014 hafi ekki tengst lögmannstörfum kærðu í þágu kærenda. Vísa kærendur til þess að kærða hafi haft milligöngu um lánveitinguna og útbúið í því skyni drög að lánssamningi sem og viðauka/skilmálabreytingu, dags. 22. desember 2015. Kveða kærendur það afar langsótt að kærða hafi komið að tilgreindum ráðstöfunum í öðru hlutverki en sem lögmaður, en fyrir liggi að hún hafi gegnt lögmannsstörfum fyrir kærendur á umræddum tíma. Í öllu falli standi það upp á kærðu að gera grein fyrir því í hvaða stöðu hún var þegar hún útbjó viðkomandi skjöl, og hagsmuna hvers hún var þá að gæta, þ.e. hafi hún ekki talið sig vera að gæta hagsmuna kærenda sem lögmaður þeirra.

Þá hafna kærendur því að málshöfðun B ehf. á hendur F ehf. komi í veg fyrir að kvörtun kærenda verði tekin til meðferðar. Vísa kærendur til þess að umfjöllunarefni dómsmálsins sé annað en kvörtunarefni til úrskurðarnefndar auk þess sem aðild málanna sé ólík.

Að endingu mótmæla kærendur sérstaklega kröfu kærðu um málskostnað fyrir nefndinni, ekki síst í ljós þess að kærða hafi ekki lagt fram athugasemdir varðandi efnisþátt málsins.

III.

Kærða krefst þess aðallega að kvörtun kærenda verði vísað frá nefndinni en til vara að kröfum kærenda verði hafnað. Þá krefst kærða málskostnaðar úr hendi kærenda vegna reksturs málsins fyrir nefndinni, sbr. 3. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998.

Varðandi formhlið málsins vísar kærða til þess að fyrningu kröfu sem leggja megi fyrir úrskurðarnefnd sé slitið þegar nefndinni berst erindi um hana, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998. Bendir aðilinn á að málið hafi verið lagt fyrir úrskurðarnefndina þann 2. mars 2018. Samkvæmt því verða atvik sem urðu fyrir 2. mars 2017 ekki borin undir nefndina vegna ársfrestsins sem fram kemur í 2. málsl. 1. mgr. 26. gr. og 2. málsl. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, sbr. einnig 6. gr. málsmeðferðareglna nefndarinnar. Vísar kærða til þess að í tilgreindum ákvæðum komi fram að nefndin skuli vísa máli frá ef ársfresturinn er liðinn þegar erindi berst nema þess hafi ekki verið kostur að koma erindinu á framfæri við nefndina innan frestsins.

Kærða byggir á að kærendur hafi átt þess kost að koma kvörtun á framfæri við nefndina innan ársfrestsins. Engar hindranir hafi verið því í vegi. Mótmælir kærða því að andleg heilsa kæranda A hafi verið með þeim hætti að aðilinn hafi ekki getað gætt þessara réttinda líkt og haldið sé fram í kvörtun kærenda. Vísar kærða til þess að úr sönnunaratriðum varðandi heilsu kærandans verði ekki leyst á þessum vettvangi, sbr. 2. og 3. mgr. 10. gr. málsmeðferðarreglnanna. Því beri að vísa málinu frá nefndinni.

Varðandi einstaka þætti í kvörtun kærenda vísar kærða til neðangreindra málsástæðna.

  1. Meintar óhóflegar þóknanir/greiðslur til kærðu.

Kærða vísar til þess að því sé haldið fram af hálfu kærenda að „núvirtar heildargreiðslur“ til hennar hafi numið yfir 300.000.000 krónum á 10 árum. Af hálfu kærenda hafi verið lagt fram sem fylgiskjal yfirlit um greiðslur til kærðu og „hennar félaga á 10 ára tímabili 2006 – 2015“. Kærða bendir á að eitthvað hafi farið úrskeiðis við gerð yfirlitsins þar sem hina tilgreindu fjárhæð sé ekki þar að finna. Þá séu meðal greiðenda til kærðu tilgreindir aðilar sem ekki eigi aðild að málinu fyrir nefndinni. Auk þess séu viðtakendur greiðslna skráðir sem kærða, eiginmaður hennar og tvö félög. Bendir kærða á að engin tilraun hafi verið gerð til þess að greina á milli greiðslna vegna lögmannsstarfa kærðu og annars kostnaðar auk þess sem fram komi að kostnaður af virðisaukaskatti sé inni í sumum greiðslunum. Augljóst sé að skjalið sé ekki nothæft sem grundvöllur mats úrskurðarnefndarinnar á því hvort endurgjald kærðu frá skjólstæðingi sínum fyrir lögmannsstörf hafi verið hæfilegt.

Kærða bendir á að samkvæmt tilgreindu skjali hafi greiðslum kærenda til kærðu lokið á árinu 2015. Samkvæmt því sé skjalið fullnaðarsönnun þess að engar greiðslur fyrir lögmannsstörf hafi átt sér stað frá árinu 2015. Á árinu 2016 og síðar hafi kærendur ekki greitt kærðu endurgjald fyrir lögmannsstörf. Beri nefndinni því að vísa þessum þætti málsins frá sér vegna ársfrestsins, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

  1. Meint brot gegn 18. gr. laga nr. 77/1998 – lán til íbúðakaupa dóttur kærðu.

Um þetta kvörtunarefni bendir kærða á að eðlilegri, einfaldari og réttari lýsing þess sem hafi gerst sé að B ehf., félag í eigu kæranda A, hafi lánað fé til félags í einkaeigu eignmanns kærðu í því skyni að fjármagna kaup dóttur hans á íbúð.

Kærða vísar til þess að af lýsingu kærenda sé ljóst að þessi lánveiting hafi ekki verið hluti af starfi kærðu fyrir kærendur eins og áskilið sé í 26. og 27. gr. laga nr. 77/1998 til þess að ágreiningur um lánveitinguna falli undir verksvið nefndarinnar. Lánveitingin hafi ekki verið þáttur í lögmannsstarfi kærðu fyrir kærendur. Þegar af þeirri ástæðu beri að vísa þessum þætti málsins frá nefndinni.

Kærða kveður að við þetta bætist að B ehf. reki nú mál á hendur F ehf. fyrir Héraðsdómi X þar sem þess sé krafist að hið stefnda félag verið dæmt til þess að greiða lánsfjárhæðina auk vaxta og kostnaðar. Ágreiningsefnið í dómsmálinu sé það sama og lagt sé fyrir úrskurðarnefndina að því undanskildu að í stefnu komi ekkert fram um að andleg heilsa kæranda A hafi verið með þeim hætti sem haldið er fram fyrir nefndinni. Vísar kærða til þess að af 3. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 leiði að úrskurðarnefndin taki ekki til úrskurðar mál um ágreiningsefni sem rekið sé fyrir dómstólum. Þá liggi fyrir að hvorugur aðili kærumálsins hafi óskað álitsgerðar úrskurðarnefndarinnar til framlagningar í dómsmálinu.

Kærða heldur því fram að málatilbúnaður kærenda um að þeim hafi verið ókunnugt um viðauka við lánssamninginn fái ekki staðist. Þannig hafi kærandi A fengið sitt eintak af samkomulaginu þegar yfirlýsingin hafi verið gefin í desembermánuði 2015. Þá liggi fyrir skjalleg sönnun um að lögmaður kærandans hafi átt fund með lögmanni kærðu og F ehf. þann 4. október 2016 þar sem fjallað hafi verið um efni skjalsins sem kærandinn kveðst fyrst hafa heyrt um löngu síðar. Samkvæmt því sé staðhæfing kærenda um að þeir hafi aldrei fengið viðkomandi skjal í hendur eða séð það, sem kærandi A undirritaði, röng. Ítrekar kærða að ársfrestur til kvörtunar til úrskurðarnefndar hafi runnið út af þessari ástæðu eigi síðar en 4. október 2017 og beri því að vísa þessum hluta málsins frá nefndinni.

  1. S ehf.

Kærða vísar til þess að um þetta efni sé í málatilbúnaði kærenda að finna lýsingu á atvikum frá árinu 2015. Þá komi fram í kvörtun að um áramóti 2015/2016 hafi lokið öllum störfum kærðu fyrir kæranda A. Kærða telur alla atvikalýsingu um þetta efni úr lagi færða. Í þessu samhengi skipti þó eitt máli að kærendur hafi staðfest að kærða hafi engin lögmannsstörf unnið fyrir þá vegna þessa efnis og atvika á árinu 2016 eða síðar. Þegar af þeirri ástæðu beri að vísa þessum þætti kvörtunarinnar frá nefndinni.

Í viðbótarathugasemdum kærðu vísar aðilinn varðandi heimild til að leggja fram greinargerð um frávísunarþáttinn til 1. mgr. 9. gr. málsmeðferðarreglna úrskurðarnefndar sem og til hliðsjónar í almenna heimild í 99. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála eins og henni var breytt með lögum nr. 78/2015. Vísar kærða jafnframt til þess að þótt úrskurðarnefnd nýti ekki heimild 1. mgr. 8. gr. málsmeðferðarreglnanna til að vísa máli frá þegar í upphafi takmarki það ekki heimildir nefndarinnar til þess að vísa máli frá síðar.

Kærða kveður að kærendur kjósi að horfa framhjá skjallegri sönnun sem liggi fyrir í málsgögnum. Af þeim megi sjá að lögmenn dómsmálsins hafi átt fund þann 4. október 2016 þar sem rætt hafi verið um efni áðurgreinds viðauka sem kærandi A kveðst fyrst hafa heyrt um löngu síðar. Þá bætist við að skjalið sé undirritað af kæranda A og að engin tilraun hafi verið gerð af hálfu kærenda til þess að sanna að undirritun sé ekki hennar. Vísar kærða til þess að sá sem héldi slíku fram í dómsmáli hefði sönnunarbyrði fyrir staðhæfingu sinni.

Kærða bendir á að jafnvel þótt aðli máls glími við veikindi leiði slíkt ekki til þess að lögbundnar fyrningarreglur og kæru- eða málshöfðunarfrestir gildi ekki fyrir þann aðila. Byggir kærða á að tímafrestir laga nr. 77/1998 til kvörtunar eigi við í þessu máli jafnvel þótt það teldist sannað, sem kærða telur rangt, að kærandi A hafi verið veik og ekki verið hæf til þess að gæta réttinda sinna.

Niðurstaða

                                                                          I.

Í 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er mælt svo fyrir að lögmanni sé rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skuli umbjóðanda hans gert það ljóst eftir því sem unnt er hver fjárhæð þess gæti orðið.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 er unnt að leggja fyrir úrskurðarnefnd lögmanna ágreining um rétt lögmanns til endurgjalds eða fjárhæð þess. Þá er tiltekið að nefndin vísi frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri. Er slíkt jafnframt áréttað í 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna þar sem kveðið er á um að erindi til nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga verði að berast henni eigi síðar en einu ári eftir að kostur var á að koma því á framfæri við nefndina en að öðrum kosti beri nefndinni að vísa erindinu frá.

Í málatilbúnaði kærenda er á því byggt að við skoðun á bókhaldi aðilanna hafi komið í ljós óhóflega háar greiðslur til kærðu og hennar félags sem ekki hafi verið hægt að setja í samhengi við neina starfsemi kærenda. Er um það efni vísað til fyrirliggjandi sundurliðunar í málsgögnum á greiðslum til kærðu og félaga henni tengdum á árunum 2006 til 2015.

Fyrir liggur í málsgögnum að kærða gegndi ýmsum lögmanns- og trúnaðarstörfum í þágu kærenda á árunum frá 2006 til 2015. Er því lýst í kvörtun kærenda að síðustu störf kærðu í þeirra þágu, þ. á m. lögmannsstörf, hafi verið innt af hendi í árslok 2015. Samkvæmt því mun kærða ekki hafa sinnt frekari lögmannsstörfum í þágu kærenda eftir þann tíma. Þá er ekki ágreiningur um að síðasti reikningur vegna lögmannsstarfa kærðu í þágu kæranda A hafa verið gefinn út þann 31. desember 2015 en tilgreindur reikningur, sem gefinn var út af L ehf., var að fjárhæð 213.900 krónur með virðisaukaskatti.

Ekki verður annað ráðið af málatilbúnaði aðila en að ágreiningslaust sé að reikningar kærðu vegna lögmannsstarfa hennar í þágu kærenda á viðkomandi árabili hafi verið greiddir athugasemdalaust. Að áliti nefndarinnar verður um þetta efni ekki miðað við annað tímamark en útgáfudag þeirra reikninga sem kærða gaf út vegna lögmannsstarfa í þágu kærenda við mat á því hvenær kærendur áttu þess kost að koma ágreiningsmáli varðandi rétt kærðu til þóknunar eða fjárhæð hennar á framfæri við nefndina í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998.

Eins og áður greinir var síðasti reikningur kærðu vegna lögmannsstarfa í þágu kærenda gefinn út þann 31. desember 2015. Samkvæmt því var frestur samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998, sbr. einnig 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, liðinn þegar kærendur lögðu málið fyrir úrskurðarnefnd þann 2. mars 2018. Ofangreind ákvæði eru afdráttarlaus um skyldu nefndarinnar til að vísa kvörtunum frá ef þær berast meiri en ári eftir að kostur var að koma þeim á framfæri. Eins og atvikum er háttað er ekki unnt að slá því föstu að mati nefndarinnar að veikindi kæranda A á því tímabili sem um ræðir, sem lýst er í málatilbúnaði kærenda og fyrirliggjandi læknisvottorðum fyrir nefndinni, hafi verið með þeim hætti að kærendur hafi ekki átt þess kost að koma kvörtuninni á framfæri við nefndina fyrir 2. mars 2017. Við það mat verður jafnframt að líta til þess sem ágreiningslaust er í málinu um að lögmanns- og trúnaðarstörfum kærðu í þágu kærenda lauk í árslok 2015 en við sama tímamark tók annar aðili við þeirri hagsmunagæslu í þágu kærenda sem kærða hafði áður sinnt, þ. á m. en ekki takmarkað við stýringu eigna kærenda. Samkvæmt því er ekki unnt að fallast á að lýst veikindi kærandans fái haggað hinum lögbundna fresti sem kveðið er á um í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 í máli þessu. Að því gættu er óhjákvæmilegt að vísa ágreiningi í þessum þætti málsins frá úrskurðarnefnd lögmanna.

II.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn getur sá sem telur lögmann hafa í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi, sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna, lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því kostur var á að koma henni á framfæri, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 27. gr. laganna og áðurgreind 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefndinni.

Eins og áður er lýst felst í ákvæðum þessum að nefndin hefur ekki heimildir til að fjalla um mál sem henni berast eftir að umræddur ársfrestur er liðinn. Reynir því hér á hvenær kostur var á að koma kvörtuninni á framfæri, sbr. fyrrnefndan 2. málsl. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Kærða krefst þess í málinu að kvörtun kærenda verði vísað frá nefndinni þar sem meira en eitt ár sé liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Kærendur hafa hins vegar andmælt þeirri kröfugerð kærðu á þeim grundvelli að atvik að baki kvörtunarefnum hafi ekki komið endanlega fram fyrr en nýverið auk þess sem kærandi A hafi verið þungt haldin af veikindum og hafi af þeim sökum ekki getað gert sér grein fyrir hvað raunverulega hefði gerst í samskiptum við kærðu. Þá hafi viðauki/skilmálabreyting við lánssamning, dags. 22. desember 2015, hvorki verið í fórum kærenda né hafi þeir vitað um tilvist skjalsins fyrr en það hafi verið lagt fram á dómþingi Héraðsdóms X þann x. september 2017 í málinu nr. E-xxx/2017.

Um þetta efni er þess í fyrsta lagi að gæta að það kvörtunarefni sem lýst er í lið nr. 2 að framan, og varðar lán til íbúðakaupa dóttur kærðu, lúta annars vegar að gerð og efni óundirritaðs lánssamnings á milli F ehf., sem lántaka, og B ehf., sem lánveitanda, sem mun hafa komist á í ágústmánuði 2014 og hins vegar að aðkomu kærðu að gerð og efni viðauka/skilmálabreytingar við þann lánssamning, dags. 22. desember 2015.

Ekki er ágreiningur um að umrætt lán var veitt á haustmánuðum 2014. Framlögð gögn fyrir nefndinni bera jafnframt með sér að kærandi A hafi undirritað viðauka/skilmálabreytingu við lánssamninginn þann 22. desember 2015 fyrir hönd kæranda B ehf. Þá er að finna undirritun kærandans á skjalið þar sem því er lýst að skuld samkvæmt samningnum sé að fullu uppgerð með uppgjöri aðila lánssamningsins og að eftirstöðvar séu 0 krónur. Með hliðsjón af því og þar sem ekki hefur verið sýnt fram á af hálfu kærenda að kærandi A hafi í reynd ekki komið að undirritun viðkomandi skjals, verður að áliti nefndarinnar vegna tilgreinds kvörtunarefnis ekki miðað við annað tímamark en lánveitinguna sjálfa annars vegar og gerð hins umþrætta viðauka hins vegar við mat á því hvenær kærendur áttu þess kost að koma kvörtuninni á framfæri í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, sbr. einnig 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Eins og áður greinir er hinn umþrætti viðauki við lánssamninginn dagsettur þann 22. desember 2015. Verður að mati nefndarinnar að ætla að kærendur hafi þá þegar haft tök á að kynna sér efni skjalsins og átt þann kost að koma kvörtun á framfæri.

Kvörtun kærenda í máli þessu var móttekin af úrskurðarnefnd lögmanna þann 2. mars 2018 en þá þegar voru tímafrestir samkvæmt ofangreindum heimildum liðnir. Í ljósi fortakslauss ákvæðis 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, sbr. einnig 6. gr. áður lýstra málsmeðferðarreglna fyrir nefndinni, getur nefndin hvorki fallist á að unnt sé að miða upphaf ársfrestsins við framlagningu skjalsins á dómþingi Héraðsdóms X þann x. september 2017 í málinu nr. E-xxx/2017 né aðrar málsástæður, þ. á m. um lýst veikindi kæranda A sem áður greinir, sem kærendur hafa teflt fram fyrir nefndinni um þetta efni. Í samræmi við framangreint verður ekki hjá því komist að vísa því kvörtunarefni kærenda sem greinir í lið nr. 2 að framan frá nefndinni.

Í öðru lagi er þess að gæta að kvörtunarefni kærenda sem lýst er í lið nr. 3 að framan lýtur að aðkomu kærðu að gerð lánssamnings á milli S ehf., sem lántaka, og kæranda A, sem lánveitanda, sem gerður var þann 16. desember 2010. Samkvæmt málatilbúnaði kærenda var lánið greitt upp á árinu 2016.

Að áliti nefndarinnar verður vegna tilgreinds kvörtunarefnis kærenda ekki miðað við annað tímamark en undirritunardag þess lánssamnings sem um ræðir við mat á því hvenær kærendur áttu þess kost að koma kvörtuninni á framfæri í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 og 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Með hliðsjón af því að kvörtunarefnið lýtur að efni og lánskjörum tilgreinds lánssamnings, sem kærandi A undirritaði sjálf þann 16. desember 2010, verður að mati nefndarinnar að ætla að kærandinn hafi þá þegar kynnt sér efni samningsins og átt þann kost að koma kvörtun á framfæri. Eins og áður greinir var kvörtun kærenda í málinu móttekin þann 2. mars 2018, þ.e. eftir að tímafrestir samkvæmt ofangreindum heimildum voru liðnir. Samkvæmt því verður tilgreindu kvörtunarefni vísað frá nefndinni.

Í þriðja og síðasta lagi lýtur það kvörtunarefni sem getur í lið nr. 4 að framan að því að kærða hafi á fundi þann 22. desember 2015 fengið kæranda A til að gera breytingu á fyrrgreindum lánssamningi, dags. 16. desember 2010, til hagsbóta fyrir kærðu en á kostnað kærandans, þ.e. með því að breyta samningnum úr verðtryggðu láni yfir í óverðtryggt. Er vísað til þess í málatilbúnaði kærenda að aðgerð kærðu hafi verið stöðvuð og lánið fært í hið fyrra horf. Aðgerðin hafi eftir sem áður verið ófyrirleitin auk þess sem hún hafi ekki stuðst við neinar viðskiptalegar forsendur og falið í sér alvarleg brot kærðu gegn starfsskyldum sínum.

Um þetta efni er til þess að líta að kvörtunarefnið varðar meinta háttsemi kærðu gagnvart kæranda A sem viðhöfð var þann 22. desember 2015. Því er sérstaklega lýst í kvörtun kærenda að háttsemi kærðu hafi verið stöðvuð strax í kjölfar fundarins sem haldinn var á tilgreindum degi desembermánaðar 2015 og að hún hafi því ekki haft áhrif í þeim lögskiptum sem um ræðir. Samkvæmt því telur nefndin að ljóst megi vera að kærandi A hafi þá þegar haft tök á að koma kvörtun á framfæri við nefndina í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, þ.e. hafi hún talið að kærða hafi gert á sinn hlut að þessu leyti með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Samkvæmt því var tímafrestur tilgreinds ákvæðis laga nr. 77/1998 liðinn þegar kærendur lögðu kvörtun fyrir nefndina þann 2. mars 2018. Ber því að vísa kvörtunarefni þessu jafnframt frá nefndinni.

Að öllu þessu gættu er óhjákvæmilegt að vísa kvörtun kærenda frá úrskurðarnefnd lögmanna í heild sinni með vísan til 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, sbr. einnig 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er vísað frá nefndinni.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður, formaður.

Kristinn Bjarnason lögmaður.

Valborg Þ. Snævarr lögmaður.

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson