Mál 39 2018

Mál 39/2018

Ár 2019, miðvikudaginn 29. maí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 39/2018:

A ehf.,

gegn

B ehf.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 21. nóvember 2018 erindi C lögmanns fyrir hönd kæranda A ehf., en í því er lýst ágreiningi kæranda við kærða, B ehf., um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess vegna lögmannsstarfa í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Fyrirsvarsmaður kærða er D, stjórnarformaður.

Með bréfi úrskurðarnefndar til kærða, dags. 22. nóvember 2018, sem kærandi fékk afrit af, var upplýst um að litið væri svo á að erindi kæranda sneri að ágreiningi um rétt til endurgjalds fyrir störf lögmanns eða fjárhæð þess samkvæmt 26. gr. laga nr. 77/1998. Með bréfinu var kærða veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins.

Greinargerð kærða barst þann 10. desember 2018 og var hún send kæranda til athugasemda með bréfi þann 11. sama mánaðar. Hinn 7. janúar 2019 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar til kærða degi síðar. Loks bárust viðbótarathugasemdir frá kærða þann 25. janúar 2019 og voru þær sendar til kæranda með bréfi dags. 28. sama mánaðar með þeirri athugasemd að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt málsgögnum var einkahlutafélagið E stofnað þann 21. nóvember 2005, en félagið ber nú heitið F ehf. Samkvæmt stofngögnum skyldi tilgangur og aðalstarfsemi félagsins vera á sviði rekstrar á aðstöðu fyrir fatlaða en fyrir liggur að stofnandi og fyrirsvarsmaður félagsins er G. Í málatilbúnaði kæranda fyrir nefndinni er vísað til þess að hann hafi veitt F ehf. ýmsa lögfræðilega þjónustu frá maímánuði 2016. Þá virðist ágreiningslaust að H og D hafi verið meðal starfsmanna F ehf. og að þau hafi látið af störfum hjá félaginu þann 19. mars 2018.

Ekki er ágreiningur um að í febrúarlok 2018 hafi komið til skoðunar að skipta upp rekstri F ehf. með þeim hætti að fyrrgreind G myndi halda hluta rekstrarins áfram undir sama félagi en að nýtt félag, sem H kæmi til með að eiga aðild að, tæki yfir aðra hluta rekstrarins.

Fyrir liggur að G sendi tölvubréf til lögmannanna C og J, sem starfa hjá kæranda, þann 26. febrúar 2018 þar sem óskað var eftir viðtali eins fljótt og auðið yrði. Af fyrirliggjandi tölvubréfasamskiptum og tímaskýrslu kæranda, sem er meðal málsgagna, verður ráðið að þann dag hafi fyrrgreindur lögmaður, J, átt fund með G og H vegna skiptingar á rekstri F ehf. og veitt ráðgjöf þar að lútandi. Meðal málsgagna má finna minnispunkta lögmannsins frá þeim fundi. Þá liggur fyrir tölvubréf sem C lögmaður sendi til Jóhönnu þennan sama dag undir yfirskriftinni „Ráðgjafar“ en þar var vísað til nánar tilgreindra lögmanna sem þekktu ágætlega til fyrirtækjamála sem og til tveggja fyrirtækja á því ráðgjafarsviði.

Samkvæmt fyrrgreindri tímaskýrslu kæranda unnu lögmenn aðilans áfram að málum er lutu að skiptingu rekstrar F ehf. Ber tímaskýrslan með sér að á tímabilinu frá 27. febrúar til 8. mars 2018 hafi lögmenn stofunnar þannig átt fundi og umtalsverð samskipti við G og H vegna málsins auk þess sem unnið hafi verið að samningi þar að lútandi sem og tilkynningu til sveitarfélaga með tilheyrandi gagnaöflun.

Í málsgögnum liggja fyrir stofngögn er varða B ehf., kærða í þessu máli, en það félag mun hafa átt að taka yfir hluta rekstrar F ehf. í samræmi við það sem áður er rakið. Þau gögn sem hér um ræðir eru tilkynning um stofnun einkahlutafélags, stofnfundargerð, stofnsamningur og samþykktir fyrir viðkomandi félag en öll skjölin eru dagsett þann 9. mars 2018. Þá bera skjölin með sér að hafa verið móttekin af fyrirtækjaskrá embættis ríkisskattstjóra þann sama dag.

Í tilgreindum stofngögnum er því lýst að tilgangur hins kærða félags sé að veita börnum og unglingum með fjölþættan vanda viðeigandi þjónustu og annað er því tengist. Stofnendur félagsins séu þrír, nánar tiltekið þau D, H og K ehf. Þá er tiltekið í stofngögnum að stjórnarmenn séu tveir, þ.e. fyrrgreindur D sem formaður stjórnar og L sem meðstjórnandi og að firma félagsins riti meirihluti stjórnar.

Af tímaskýrslu kæranda verður ráðið að lögmenn aðilans hafi áframt sinnt lögfræðiráðgjöf vegna hinnar fyrirhugðu skiptingar á rekstri F ehf. eftir stofnun hins kærða félags, þar á meðal með vinnu að samningsdrögum á tímabilinu frá 12. – 15. mars 2018. Hinn síðastgreinda dag sendi J lögmaður tölvubréf með yfirskriftinni „Samningur“ til fyrirsvarsmanna félaganna tveggja, en viðtakendur voru þau G, D, H og L. Var tiltekið í tölvubréfinu að fyrirhuguð væri endurskipulagning á rekstri F ehf. líkt og viðtakendum væri kunnugt og að aðilar hefðu rætt saman um hugsanleg aðilaskipti á hluta rekstursins. Með tölvubréfinu fylgdu drög að samningnum ásamt fylgiskjölum og voru aðilar hvattir til að kynna sér efni samningsins vel og til að koma að leiðréttingum eða tillögum að breytingum á framfæri.

L, fyrrgreindur stjórnarmaður hjá hinu kærða félagi, svaraði tilgreindu tölvubréfi þennan sama dag fyrir hönd aðilans. Var í tölvubréfi hans þakkað fyrir samningsdrög og því lýst að sátt væri um mörg þeirra atriða sem þar væru greind. Hins vegar væru einnig fjölmörg atriði sem ekki hefðu verið rædd á milli aðila og sátt væri því ekki um. Var óskað eftir að aðilar myndu hittast á formlegum fundi til að fara yfir þá þætti til að ná mætti „sameiginlegri niðurstöðu, sátt og samningum um þau atriði.“ Lýsti L sig reiðubúinn til fundar ásamt þeim H og D hvenær sem væri.

Fyrir liggur samkvæmt málsgögnum að aðilar áttu í frekari tölvubréfasamskiptum dagana 15. og 16. mars 2018 auk þess sem fundur var haldinn á skrifstofu kæranda með fyrirsvarsmönnum beggja félaga síðdegis hinn síðargreinda dag en á vegum kæranda sátu fundinn lögmennirnir J og M. Hinn síðargreindi lögmaður sendi tölvubréf til fyrirsvarsmanna félaganna eftir fundinn þar sem því var lýst að tekist hefði að leysa flest útistandandi atriði á fundinum í góðri sátt. Fylgdi með tölvubréfinu uppfærð samningsdrög jafnframt því sem lýst var að enn stæðu útaf þrjú atriði sem aðilar skyldu reyna að útkljá þannig að hægt væri að ganga frá undirritun að morgni mánudagsins 19. mars 2018. Í svari H þann sama dag kom fram að hún hefði fulla trú á að hægt væri að klára viðkomandi atriði hratt og örugglega og í góðri samvinnu.

Samningar munu hafa tekist á milli fyrirsvarsmanna F ehf. og hins kærða félags og voru skjöl þess efnis undirrituð þann 19. mars 2018 á skrifstofu kæranda.

Af tímaskýrslu kæranda verður ráðið að J lögmaður hafi áfram sinnt ráðgjöf vegna skiptingar rekstrarins eftir undirritun samnings þar að lútandi, þ.e á tímabilinu frá 23. – 28. mars 2018. Í færslum í tímaskýrslu á greindu tímabili greinir þannig frá samskiptum sem hún hafi átt á því tímabili, sem og vinnu vegna yfirlýsinga og ráðgjafar. Þá liggur fyrir í málsgögnum minnispunktar lögmannsins vegna símtals við H þann 23. mars 2018.

Fyrrgreind tímaskýrsla kæranda tekur til tímabilsins frá 26. febrúar til og með 7. maí 2018. Í tölvubréfi fyrrgreindrar H til J lögmanns þann 6. maí 2018 var meðal annars þakkað fyrir aðstoð vegna aðilaskiptanna og vísað til þess að vinnudagarnir hjá hinu kærða félagi væru að nálgast aftur eðlilega annasemi og að allt væri að komast í góðan farveg og ferli. Þá hefði ekkert rof orðið á þjónustu.

Þann 13. september 2018 sendi C lögmaður hjá kæranda tölvubréf til G og H sem bar yfirskriftina: „Lögfræðiráðgjöf vegna skiptingu rekstrar. F og B“. Var tiltekið í tölvubréfinu að ganga þyrfti frá reikningi vegna ráðgjafar kæranda við skiptingu rekstrarins og að fjárhæðin væri samtals 1.203.000 krónur auk virðisaukaskatts sem skipt yrði til helminga á milli félaganna „í samræmi við fyrri samskipti“.

Í samræmi við framangreint og samkvæmt málsgögnum voru tveir reikningar gefnir út af kæranda vegna lögmannsstarfa kæranda í þágu F ehf. og hins kærða félags. Nánar tiltekið var annars vegar gefinn út reikningur nr. 7001 af hálfu kæranda á hendur F ehf. þann 31. ágúst 2018 að fjárhæð 704.591 króna með virðisaukaskatti. Á reikningnum var því lýst að hann væri tilkominn vegna vinnu lögmanna frá febrúar- til maímánaðar 2018 í tengslum við skiptingu rekstrar. Tók hann til alls 6,5 klukkustunda á tímagjaldinu 27.000 krónur auk virðisaukaskatts en til alls 17,25 klukkustunda á tímagjaldinu 24.500 krónur auk virðisaukaskatts, en afsláttur af útseldu tímagjaldi var tilgreindur 5%. Hins vegar var gefinn út reikningur nr. 7002 af hálfu kæranda á hendur hinu kærða félagi þann 31. ágúst 2018 að fjárhæð 704.591 króna, en sá reikningur grundvallaðist á sömu forsendum og reikningur nr. 7001 sem áður er lýst.

Þann 3. október 2018 sendi D, stjórnarformaður hins kærða félags, tölvubréf til C lögmanns hjá kæranda. Var í tölvubréfinu vísað til hins útgefna reiknings nr. 7002 frá 31. ágúst 2018 og kröfum samkvæmt honum hafnað með eftirfarandi hætti:

Við skiptingu rekstrarins fékk B félagið K ehf. til að gæta hagsmuna B við samningsgerðina og var allan tímann litið svo á að A sæti við borðið sem umboðsmaður og hagsmunavörður F við samningsgerðina.

            B hafnar því alfarið framngreindri kröfu.

Fyrir nefndinni hefur kærði jafnframt lagt fram reikning sem K ehf. mun hafa gefið út á hendur aðilanum þann 6. júní 2018 vegna „ráðgjafarvinnu L í mars vegna stofnunar B ehf.“ Þá hefur kærði lagt fram færsluyfirlit frá L hf. sem aðilinn kveður færa sönnur á greiðslu viðkomandi reiknings.

C lögmaður framsendi fyrrgreint tölvubréf til H þennan sama dag, 3. október 2008, og kvað efni hans ekki í samræmi við fyrri samskipti. Þá kvaðst lögmaðurinn vilja bera efnið undir H og fá staðfestingu á að þetta væri skilningur hennar áður en lengra yrði farið með málið. Í svarbréfi H til lögmannsins frá 8. október 2008, sem er meðal málsgagna, var eftirfarandi tiltekið:

Afsakið seint svar. Við áttum þetta samtal í upphafi og var það skilningur minn að A myndi gæta hagsmuna beggja félaga í aðilaskiptunum ef af þeim yrði. Ég og kollegi minn óskum eftir fundi þar sem við getum farið aðeins yfir málin saman.

Aðilar áttu í frekari tölvubréfasamskiptum í októbermánuði 2018 án þess að sátt næðist um kröfu samkvæmt hinum útgefna reikningi kæranda á hendur kærða frá 31. ágúst sama ár. Þar sem aðilum tókst ekki að jafna ágreining sín í milli um rétt kæranda til endurgjalds fyrir lögmannsstörf í þágu kærða og/eða fjárhæð þess var málinu beint til úrskurðarnefndar lögmanna af hálfu kæranda á grundvelli 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn þann 21. nóvember 2018, svo sem áður er lýst.

Málsaðilar hafa lagt fyrir nefndina frekari gögn en að framan greinir en nánari grein verður gerð fyrir efni þeirra, að því marki sem þörf er á vegna úrlausnar sakarefnisins, við umfjöllun um málsástæður og málatilbúnað aðila fyrir nefndinni.

II.

Kærandi krefst þess fyrir nefndinni að kærða verði gert að greiða sér 704.591 krónu samkvæmt reikningi nr. 7002 sem útgefinn var þann 31. ágúst 2018. Þá krefst kærandi málskostnaðar úr hendi kærða samkvæmt mati nefndarinnar.

Í erindi kæranda er því lýst að hið kærða félag hafi neitað að greiða reikning vegna verks sem sannarlega hafi verið unnið í þess þágu og fyrirsvarsmanni aðilans hafi verið kunnugt um að krafist yrði þóknunar fyrir.

Kærandi vísar til þess að lögmannsstofan hafi unnið fyrir félagið F ehf. allt frá því í maí 2016 og veitt því og forsvarsmönnum þess, þar með talið G og H, ýmsa lögfræðilega þjónustu. Í febrúarlok 2018 hafi G og H ákveðið með sér að gera tilraun til þess að semja um skiptingu rekstrar F ehf. þannig að G myndi halda hluta rekstrarins áfram undir heiti viðkomandi félags en H myndi stofna nýtt félag, þ.e. hið kærða félag í þessu máli, og taka yfir aðra hluti rekstrarins.

Kærandi byggir á að í þessum tilgangi hafi G og H orðið ásáttar um að leita til kæranda um ráðgjöf og gerð umfangsmikils samnings um skiptingu rekstrarins. Hafi vinnan við samningsgerð staðið yfir til undirritunar þann 19. mars 2018 auk þess sem ákveðin viðbótarverk hafi verið innt af hendi fyrir sömu aðila síðar í sama mánuði.

Vísað er til þess í málatilbúnaði kæranda að F ehf. hafi verið nokkuð stórt fyrirtæki fyrir skiptinguna, en þjónustutekjur þess samkvæmt ársreikningi 2017 hafi verið rúmlega milljarður króna, og umfang starfseminnar eftir því. Þá hafi starfsemin byggt að verulegu leyti á samningum við sveitarfélög um veitingu tiltekinnar þjónustu, og því hafi verið mikilvægt að haga skiptingunni þannig að sveitarfélögin myndu samþykkja skiptinguna og að skjólstæðingar félaganna myndu ekki verða fyrir þjónusturofi eða nokkurs konar óþægindindum vegna hennar.

Kærandi byggir á að í upphafi hafi verið rætt um að kostnaður við lögfræðiráðgjöf myndi skiptast jafnt á milli félaganna tveggja. Vísar aðilinn um það efni meðal annars til minnispunkta lögmanns hjá kæranda frá 23. mars 2018.

Vísað er til þess að lögmaður hjá kæranda hafi hvatt H til að afla sér ráðgjafar frá viðskiptafræðingi eða annars konar fyrirtækjaráðgjafa sem gæti aðstoðað hana við að gera viðskipta- og rekstraráætlun fyrir hið nýstofnaða félag áður en endanleg ákvörðun yrði tekin um skiptinguna, enda falli slík þjónusta utan þeirrar lögfræðiráðgjafar sem veitt sé af hálfu kæranda. Hafi viðkomandi lögmaður bent á nokkra slíka ráðgjafa, en H hafi á endanum haft samband við K ehf. sem tekið hafi að sér greiningu á rekstri, rekstrar- og viðskiptaáætlun sem og stjórnskipulag á þeim hluta starfsemi F ehf. sem áformað var að H tæki yfir í nýtt hlutafélag.

Kærandi bendir á að H hafi staðfest í tölvubréfi þann 6. maí 2018 að flutningurinn hefði gengið eftir og að ekkert rof hefði orðið á  þjónustu. Hafi reikningar verið gefnir út í samræmi við framangreint. F ehf. hafi greitt sinn reikning sómasamlega, en greiðsludráttur orðið hjá hinu kærða félagi.

Kærandi vísar til þess að með tölvubréfi, dags. 3. október 2018, hafi D, annar fyrirsvarsmanna hins kærða félags, hafnað greiðslu reikningsins á þeim grundvelli að lögmenn hjá kæranda hefðu eingöngu gætt hagsmuna F ehf. við samningsgerðina. Kveður kærandi þetta hafa sætt nokkurri furðu í ljósi fyrri samskipta og hafi því verið send fyrirspurn til H sem hafi staðfest þann skilning að kærandi myndi gæta hagsmuna beggja aðila við skiptingu rekstrarins.

Í málatilbúnaði kæranda er vísað til þess að ekki hafi tekist að fá hið kærða félag til að greiða reikning sinn í framhaldi af framangreindu, þrátt fyrir tilboð um að greiðslum yrði skipt upp. Samkvæmt því sé fyrir hendi ágreiningur um greiðsluskyldu hins kærða félags, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Í viðbótarathugasemdum kæranda er vísað til þess að frumkvæði að vinnunni við aðilaskiptin hafi komið frá H líkt og fyrirliggjandi tölvubréfasamskipti beri með sér en ekki lögmanni hjá kæranda líkt og ranglega greini í málatilbúnaði kærða. Þá hafi H tilkynnt um hina fyrirhugðu skiptingu á rekstri F ehf. á fundi þann 26. febrúar 2018 og óskað eftir ýmiskonar lögfræðiaðstoð í því samhengi, þar á meðal ráðgjöf um áhrif gjaldþrots, efni samþykkta nýrra félaga, leigurétt og tilkynningu til sveitarfélaga, svo sem minnisblað af fundinum sýni. Á fundinum hafi C lögmaður jafnframt vakið sérstaka athygli á að ef upp kæmi ágreiningur á milli aðila um yfirtökuna væri erfitt fyrir kæranda að aðstoða við aðilaskiptin. Í kjölfar þess hafi lögmaðurinn sent H tölvubréf þar sem bent hafi verið á fyrirtækjaráðgjafa og lögmenn sem gætu aðstoðað við málið ef vilji væri til að leita annað. Hafi vilji beggja aðila hins vegar staðið til þess að kærandi myndi liðsinna þeim við aðilaskiptin enda talið að hagsmunir þeirra væru samrýmanlegir. Hefði kærandi því getað veitt aðstoðina, sbr. seinni hluta 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. siðareglna lögmanna.

Kærandi vísar til þess að H hafi ítrekað og yfir langt skeið, sem stjórnandi hjá F ehf., óskað eftir lögfræðilegri aðstoð frá kæranda. Kveðst kærandi því hafna málsástæðum kærða um að H hafi ekki áttað sig á að um bindandi munnlegan samning væri að ræða eða að hún hafi ekki þekkt umfang lögfræðiaðstoðarinnar eða kostnað af slíku. Þá er vísað til þess að á samningafundum hafi lögmenn hjá kæranda ýmist setið öðrum megin borðsins eða beggja vegna, ólíkt því sem kærði haldi fram.

Kærandi mótmælir því að fyrirliggjandi tölvubréf beri með sér að K ehf. hafi gætt hagsmuna kærða með sama hætti og kærandi gætti hagsmuna samningsaðila. Gefi ekkert í málsgögnum slíkt til kynna. Þá liggi fyrir að L, sem ekki er lögfræðingur, hafi orðið hluthafi í hinu nýja félagi og vildi þannig gæta eigin hagsmuna. Auk þess hafi L sinnt fyrirtækjaráðgjöf, sem H hafi verið hvött til að sækja sér.

Kærandi mótmælir því jafnframt að hann hafi átt frumkvæði að því samningsákvæði sem vísað sé til í málatilbúnaði kærða. Vísar kærandi um það efni til minnisblaðs af sameiginlegum fundi aðila þar sem fram komi að G hafi gert grein fyrir tilkomu ákvæðisins og að lögmaður hjá kæranda hafi í kjölfar þess veitt ráðgjöf og lagt til nýtt orðalag sem aðilar hefðu fallist á. Þá hafi lögmenn kæranda átt í samskiptum við báða aðila, bæði fyrir og eftir hin upphaflegu samningsdrög, í því skyni að tryggt yrði að samningurinn endurspeglaði óskir beggja félaganna, líkt og tímaskrá beri með sér. Hafi það orðið að niðurstöðu enda hafi H þakkað fyrir þá aðstoð sem leiddi til þeirra aðilaskipta sem stefnt hafði verið að.

Um það efni að H hafi ekki verið í aðstöðu til að skuldbinda hið kærða félag bendir kærandi á að auk þess að hafa átt frumkvæði að því að fá kæranda til að veita ráðgjöf við aðilaskiptin þá hafi hún verið stofnaðili hjá kærða. Jafnframt því hafi hún komið fram fyrir hönd kærða sem forstöðumaður félagsins, sbr. opinberar umsóknir til sveitarfélaga, starfsauglýsingar og heimasíðu félagsins. Sé H því óumdeilanlega í fyrirsvari fyrir félagið.

Að endingu vísar kærandi til þess að honum þyki miður að H og fyrirtæki hennar vilji ekki greiða fyrir þá vinnu sem hún hafi óskað eftir og þakkað raunar sérstaklega fyrir eftir að aðilaskiptin voru gengin í gegn. Sæti málið allt nokkurri furðu, sérstaklega þar sem H hafi engar athugasemdir gert þegar tilkynnt hafi verið um kostnað vegna vinnu kæranda þann 13. september 2018 og að honum yrði skipt á milli fyrirtækjanna tveggja „í samræmi við fyrri samskipti“ aðila. Þvert á móti hafi H staðfest þann 8. október 2018 að samtal hefði átt sér stað í upphafi og að það hefði verið hennar skilningur að kærandi myndi gæta hagsmuna beggja félaga ef af aðilaskiptum yrði.

III.

Hið kærða félag krefst þess fyrir nefndinni að öllum kröfum kæranda verði hafnað og að útgefinn reikningur kæranda, dags. 31. ágúst 2018, nr. 7002, að fjárhæð 704.591 króna með virðisaukaskatti, verði felldur niður. Jafnframt krefst kærði málskostnaðar úr hendi kæranda vegna reksturs málsins fyrir nefndinni. Til vara krefst kærði þess að krafa kæranda verði stórlega lækkuð.

Kærði lýsir forsögu málsins með þeim hætti að undir lok febrúar 2018 hafi átt sér stað viðræður milli G, fyrirsvarsmanns F ehf., og H, sem þá hafi verið starfsmaður hjá G, um yfirtöku H á hluta af rekstri F ehf. Á því stigi, og áður en formlegar samningaviðræður höfðu hafist um yfirtökuna, hafi C lögmaður hjá kæranda boðist til þess að sjá um aðilaskiptin, en fram að þeim tíma hafi hann unnið ýmsa lögfræðilega vinnu fyrir F ehf. Vísar kærði til þess að fyrri vinna lögmannsins í þágu F ehf. hafi ekki verið unnin að beiðni eða fyrir H enda hafi hún aðeins verið starfsmaður félagsins en ekki fyrirsvarsmaður þess. Er um það efni meðal annars bent á fyrirliggjandi stofngögn vegna F ehf.

Kærði vísar til þess að tilgreindur lögmaður hafi boðist til að vinna að samningagerð með það fyrir augum að staðið yrði bróðurlega að skiptum og hagsmuna beggja aðila gætt. Kveður kærði ágreiningslaust að viðræður þessar hafi átt sér stað á milli lögmannsins, G og H líkt og tölvubréf hinnar síðastgreindu frá 8. október 2018 beri með sér. Vísar kærði til þess að það hafi verið skilningur H á þeim tímapunkti, er upphaflegt samtal hafi átt sér stað, að kærandi myndi gæta hagsmuna beggja aðila í samningagerð, ef af aðilaskiptunum yrði. Hún hafi aftur á móti ekki talið að í þessu óformlega samtali hafi skuldbindandi samningur komist á með aðilum, enda hafi hún á þessum tímapunkti ekki verið í nokkurri aðstöðu til að taka ákvörðun um svo veigamikið atriði til framtíðar. Á þeim tíma hafi hún þess utan ekki haft undir höndum nokkrar upplýsingar um umfang rekstrarins sem fyrirhugað hafi verið að taka yfir eða gögn þar að lútandi. Þá hafi engar yfirlýsingar verið gefnar af hálfu kæranda um umfang slíkrar vinnu, kostnað hennar eða hvað hún kæmi til með að fela í sér.

Í málatilbúnaði kærða er vísað til þess að mál hafi svo þróast með þeim hætti að á seinni stigum hafi öllum mátt vera ljóst að eðli og umfang málsins hafi verið með þeim hætti að eðlilegra væri að hvor aðili um sig leitaði utanaðkomandi lögfræðiaðstoðar við aðilaskiptin, enda hafi umtalsverðir hagsmunaárekstrar verið undir í málinu auk þess sem ljóst hafi verið að viðkomandi lögmaður væri of vilhallur F ehf. vegna fyrri starfa hans í þágu félagsins.  Auk þess hafi komið til umtalsverðrar breytingar á tilhögun aðilaskiptanna þegar þriðja aðilanum, D, núverandi fyrirsvarsmanni kærða, hafi verið boðið að taka sæti við samningaborðið. Frá þeim tímapunkti hafi H því talið augljóst að fyrra samtal hefði fallið um sjálft sig og að kærandi hefði sérstaklega þurft að semja við D, sem fyrirsvarsmann hins kærða félag, ef kærandi sæi fyrir sér að gæta hagsmuna beggja aðila. Hafi það komið H í opna skjöldu þegar hún hafi áttað sig á því að viðkomandi lögmaður hefði litið svo á að hið óformlega samtal hafi getað skuldbundið hið óstofnaða félag, sem hún hafi ekki einu sinni verið í lögbundnu fyrirsvari fyrir.

Vísað er til þess að fyrrgreindum D hafi verið algjörlega ókunnugt um þau samskipti G, H og C sem áður greinir. Við stofnun hins kærða félags þann 9. mars 2018 hafi D tekið sæti í stjórn félagsins ásamt L og hafi D gegnt stöðu stjórnarformanns eins og stofngögn beri með sér. Frá þeim tíma hafi því verið ljóst að stjórnarmenn hins kærða félags hafi verið þeir einu sem gátu skuldbundið það út á við, sbr. 2. mgr. 16. gr. samþykkta þess.

Samkvæmt framangreindu byggir kærði á að hið óformlega samtal, sem átt hafi sér stað áður en formlegar samningaviðræður um yfirtökuna hófust og hið kærða félag var stofnað, geti ekki talist skuldbindandi fyrir kærða með þeim hætti sem kærandi haldi fram. Bendir kærði á að kærandi rökstyðji í engu hvaða umboð H á að hafa haft til að skuldbinda kærða. Hafi það staðið kæranda nær, sem stórri og virtri lögmannsstofu, að tryggja sér sönnun um að samningar hefðu tekist milli málsaðila. Verði enda að gera þá kröfu til kæranda sem sérfróðs aðila að vinna slíka forvinnu. Þá hafi kæranda jafnframt verið í lófa lagið að afla sér upplýsinga um það hverjir hefðu heimild til að skuldbinda hið kærða félag.

Kærði byggir á að frá upphafi formlegra samningaviðræðna hafi öllum mátt vera ljóst að kærandi gætti hagsmuna F ehf. og K ehf. hagsmuna kærða. Vísar kærði um það efni meðal annars til tölvubréfs L, fyrir hönd K ehf., dags. 15. mars 2018, til lögmanns hjá kæranda þar sem skýrt hafi verið tekið fram að L kæmi fram fyrir hönd kærða. Þá hafi ytri aðstæður á öllum fundum gefið til kynna hver réttarstaða hagsmunafulltrúa félaganna væri þar sem fulltrúar kæranda hafi ætíð setið við hlið fyrirsvarsmanns F ehf. og andspænis fulltrúa K ehf., sem setið hafi við hlið sinna skjólstæðinga, þ.e. fulltrúa hins kærða félags.

Kærði telur að ljóst megi vera að gífurlegir hagsmunir hafi verið undir í samningaferlinu. Fái aðilinn ekki með nokkru móti séð hvernig kærandi fái það út að sami aðilinn hafi getað gætt hagsmuna beggja aðila í samningsferlinu sem falið hafi í sér að ná fram sem hagstæðustum kjörum á yfirtöku verðmæta annars vegar og greiðslu fyrir slík verðmæti hins vegar. Hafi enda síðar komið í ljós að með tilkomu K ehf. hafi náðst fram umtalsverð lækkun á því tilboði sem kærandi hafi upphaflega lagt fram fyrir hönd F ehf. auk þess sem aðrar kröfur hefðu verið slegnar útaf borðinu. Jafnframt bendir kærði á að samkvæmt 11. gr. siðareglna lögmanna megi lögmaður ekki fara með hagsmuni tveggja eða fleiri aðila í sama máli þegar hagsmunir þeirra eru andstæðir eða veruleg hætta er á slíku. Þá skuli lögmaður jafnframt varast að taka sér nýjan skjólstæðing, ef hagsmunir hans og þeirra skjólstæðinga lögmannsins, sem fyrir eru, fá ekki samrýmst eða hætta getur verið á slíku. Gefi auga leið að umfang verkefnisins hafi verið með þeim hætti sem lýst sé í 11. gr. siðareglnanna.

Um þetta efni bendir kærði jafnframt á að af fyrstu samningsdrögum hafi verið ljóst að kærandi væri eingöngu að gæta hagsmuna F ehf. í samningsferlinu. Þannig hafi til að mynda verið lagt til í drögunum að samningurinn yrði skilyrtur af hálfu F ehf. með þeim hætti að jafnvel þótt ekki yrði af aðilaskiptunum myndu nánar tilgreind ákvæði eiga við um starfslok H og D hjá félaginu. Var þannig lagt til í því tilviki að H og D ættu að verða af kjarasamningsbundnum lágmarksréttindum sínum kæmi til starfsloka með þeim hætti sem tilgreint var í viðkomandi ákvæðum. Hafi K ehf. brugðist við drögunum á fyrsta formlega samningafundi þann 15. mars 2018 með því að lýsa því yfir að ef tilgreind ákvæði yrðu ekki felld út úr samningnum myndi kærði ganga frá samningaborðinun þar sem augljóst væri að viðræður gætu ekki haldið áfram í slíku umhverfi. Þá megi ljóst vera að engin lagastoð hafi verið fyrir slíkri samningsgerð. Samkvæmt framangreindu hafi vinna kæranda frá upphafi verið í þágu F ehf. en ekki hins kærða félags. Hafi kærandi staðið í þeirri trú að hann væri jafnframt að gæta hagsmuna kærða í málinu fái kærði jafnframt ekki séð hvernig samningsdrög hins fyrrgreinda hafi samrýmst þeirri skyldu sem kveðið er á um í 18. gr. laga nr. 77/1998, þ.e. um að lögmönnum beri að rækja í hvívetna af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna.

Kærði hafnar því að minnispunktar lögmanns hjá kæranda geti haft nokkra þýðingu sem sönnunargagn um að kostnaði við lögfræðiráðgjöf skyldi skipt jafnt á milli félaganna tveggja. Bendir kærði á að jafnframt verði að líta til þess að samningsdrög hafi tekið nokkrum breytingum í öllu ferlinu þar sem farið hafi verið yfir alla liði málsins í skriflegu samkomulagi, þar á meðal um með hvaða hætti greiðslum skyldi háttað milli félaganna. Hvergi hafi í þeim liðum verið fjallað um skiptingu greiðslna vegna vinnu við samningsgerð, líkt og eðlilegt hefði verið. Þá skjóti það ennfremur skökku við, hafi kærandi talið sig vera að vinna í þágu kærða, að í engu hafi verið gætt að því að uppfylla þær skyldur sem kveðið sé á um í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 og 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna, þ.e. annars vegar um að lögmönnum beri að gera umbjóðendum sínum ljóst eftir því sem unnt er hvert hæfilegt endurgjald fyrir störfin geti orðið og ef ætla megi að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni sem í húfi séu og hins vegar um að lögmanni beri að gera skjólstæðingi sínum grein fyrir því á hvaða grundvelli þóknun sé reiknuð. Byggir kærði á að þetta hafi aldrei verið gert.

Kærði vísar til þess að samningaviðræðum hafi formlega lokið hinn 19. mars 2018 með undirritun samnings. Í framhaldinu hafi kærði gert upp greiðslu vegna vinnu K ehf. Hafi kærði litið svo á að búið væri að ganga frá öllum kröfum í tengslum við samningsgerðina. Hafi fyrirsvarsmanni kærða og H því brugðið í brún þegar kærandi hafi gefið út reikning vegna ætlaðrar hagsmunagæslu tæpu hálfu ári síðar, þ.e. þann 31. ágúst 2018. Þá hafi kærði á þeim tíma haft réttmætar væntingar til þess að frekari kröfur yrðu ekki hafðar uppi á hendur félaginu vegna aðilaskiptanna. Í framhaldi þess hafi kærða hafnað kröfum kæranda á þeim grundvelli að greiðsluskylda væri ekki fyrir hendi.

Kærði byggir á að kærandi verði að bera hallann af þeim einhliða og óskiljanlega misskilningi, sem rekja megi til óformlegs samtals milli C lögmanns, G og H. Hvorki á þeim tíma né síðar hafi H haft umboð til að skuldbinda hið kærða félag auk þess sem viðræðurnar hefðu átt sér stað áður en D, stjórnarformaður kærða, kom að samningsferlinu. Jafnframt því hafi D einn verið bær ásamt þáverandi meðstjórnanda, L, til þess að skuldbinda félagið út á við og gæta hagsmuna þess gagnvart þriðja manni. Vísar kærði til þess að gera verði þá kröfu til kæranda, sem sérfróðs aðila, að hann gangi úr skugga um að einstaklingur hafi umboð til að skuldbinda viðkomandi áður en greiðslu sé krafist. Hafi það staðið kæranda nær að tryggja sér sönnun um að samningar hefðu tekist á milli aðila í þá veru sem kærandi byggi á. Telur kærði enn fremur að framganga C, fyrir hönd kæranda, hafi verið í engu samræmi við siðareglur lögmanna, sbr. einkum 2. gr., 2. mgr. 3. gr., 1. og 4. mgr. 8. gr., 9. gr., 2. mgr. 10. gr., 11. gr. og 34. gr. siðareglnanna.

Í samræmi við allt framangreint byggir hið kærða félag á að kröfur kæranda séu tilhæfulausar enda hafi ekki komist á skuldbindandi samningur á milli kæranda og þar til bærs aðila fyrir hönd kærða um þá vinnu sem hinn umþrætti reikningur taki til. Verði óformlegum viðræðum fyrir stofnun kærða ekki jafnað til skuldbindandi munnlegs samkomulags enda hafi H ekki verið í nokkurri aðstöðu, hvorki fyrr né síðar, til að binda kærða. Þá ítrekar kærði efni 2. mgr. 10. gr. og 11. gr. siðareglna lögmanna sem og ákvæði 18. gr. og 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998. Byggir kærði á að það hafi staðið kæranda nær að tryggja sér sönnun um að samningar hefðu tekist á milli kæranda og kærða í þá veru sem kærandi haldi fram.

Varðandi varakröfu um lækkun krafna kæranda byggir kærði á að reikningur og tímaskýrsla kæranda endurspegli ekki hæfilegt endurgjald fyrir þá vinnu sem unnin hafi verið, í skilningi 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998. Er á því byggt að reikningur kæranda hafi farið langt fram úr hófi miðað við þá vinnu sem innt hafi verið af hendi, sér í lagi þegar litið sé til þess að tillögur kæranda hafi í engu virst miða að því að gæta hagsmuna kærða í samningsferlinu. Þá sé til þess að líta að hvergi í samningaferlinu hafi verið gerð grein fyrir áætluðum verkkostnaði né á hvaða grundvelli þóknun yrði reiknuð en slíkt hefði verið eðlilegt í ljósi 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 og 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna.

Í viðbótarathugasemdum kærða var ítrekað að einhliða ritaðar minnispunktar lögmanna kæranda hefðu ekkert sönnunargildi í málinu auk þess sem óljóst væri með öllu við hvað þeir ættu að styðja. Þá væru framlögð gögn í málinu af hálfu kæranda í heild sinni svo ófullkomin að vandséð yrði hvernig taka mætti afstöðu til krafna hans nema með sönnunarfærslu í formi vitnaskýrslna fyrir dómi.

Kærði kveðst hafna því hvoru tveggja að 2. málsl. 1. mgr. 11. gr. siðareglna lögmanna hafi getað átt við um þá veigamiklu hagsmunaárekstra sem fyrir hendi hafi verið við skiptingu rekstrarins eða að samþykkt hafi verið að kærandi myndi gæta hagsmuna beggja aðila við skiptinguna. Sé fyrrgreind grein siðareglnanna undantekningarákvæði frá þeirri meginreglu sem fram komi í 1. málsl. hennar og þurfi lögmaður því í slíkum tilfellum að tryggja sér óyggjandi sönnun um að hann hafi heimild til beitingu hennar, telji hann sig hafa til þess samþykki aðila.

Kærði hafnar því að H hafi, á þeim tíma er hún starfaði fyrir G í F ehf., haft frumkvæði að því að óska eftir lögfræðilegri aðstoð frá kæranda. Er vísað til þess að H hafi verið starfsmaður hjá félaginu og ekki haft umboð til að skuldbinda það með nokkrum hætti. Þá fái kærði ekki séð á hvaða grundvelli kærandi byggi það að H hafi mátt gera sér grein fyrir því með vísan til fyrri starfa hver kostnaður af lögfræðilegri hagsmunagæslu við skiptingu svo umfangsmikillar starfsemi, sem fyrirhuguð var, kynni að vera.

Kærði mótmælir staðhæfingu kæranda um að K ehf. hafi ekki gætt hagsmuna kærða. Augljóst sé af fyrirliggjandi tölvubréfi L og ytri aðstæðum öllum að það félag hafi komið fram sem hagsmunagæsluaðili kærða. Breyti síðari aðkoma þess félags sem hluthafa í hinu kærða félagi engu í þeim efnum.

Varðandi það efni að kærandi hafi átt frumkvæði af tilvitnuðum samningsákvæðum bendir kærði á að samningsdrögin hafi verið send af hálfu lögmanns hjá kæranda, þ.e. með tölvubréfi þann 15. mars 2018. Samkvæmt því verði að teljast óumdeilt að tillagan hafi verið sett fram af hálfu kæranda og í þeim tilgangi að gæta hagsmuna síns skjólstæðings, F ehf., á kostnað kærða.

Þá kveðst kærði hafna því að nokkra þýðingu hafi í málinu að H hafi á sínum tíma verið ein af stofnendum hins kærða félags og að hún starfi þar undir titlinum forstöðumaður. Vísar kærði til þess að í starfsskyldum H felist meðal annars að sinna faglegri umgjörð starfseminnar og sjá um hið faglega starfa sem þar sé unnið. Sýni framlögð gögn af hálfu kæranda ekki fram á annað en að hún hafi einmitt verið að sinna slíkum starfsskyldum. Þá fái kærði ekki séð hvernig þakklætisvottur H eigi að fela í sér viðurkenningu á meintri hagsmunagæslu kæranda. Hafnar kærði því að sá þakklætisvotur hafi falið í sér nokkuð annað en almenna kurteisi, enda verði að teljast eðlilegt að gagnaðilar þakki hvorum öðrum fyrir samskipti og aðkomu að málum, þó tekist hafi verið á um andstæða hagsmuni.

Að endingu bendir kærði á að óumdeilt sé að hinar óformlegu viðræður milli G, H og C hafi átt sér stað áður en hið kærða félag var stofnað. Þegar af þeim ástæðum sé ljóst að kröfum kæranda verði ekki beint að kærða enda geti óskráð félag hvorki öðlast réttindi né tekið á sig skyldur, sbr. óskráðar meginreglur kröfuréttar og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 138/1994 taki félag við skráningu einungis við þeim skyldum sem leiða af stofnsamningi eða sem félagið hefur tekið á sig eftir stofnfund. Ljóst sé að í stofngögnum kærða sé ekki að finna neinar upplýsingar um að félagið eigi að taka við kostnaði sem kunni að hafa verið stofnað til fyrir hönd félagsins fyrir stofnun þess. Samkvæmt því sé ljóst að kærandi hafi á öllum stigum vitað eða mátt vita, sér í lagi sem sérfróður aðili á þessu sviði, að hann ætti ekkert lögmætt tilkall til greiðslna úr hendi kærða í tengslum við ætlaða undirbúningsvinnu við yfirtökuna, enda ekki um neinar slíkar greiðslur samið eftir stofnun félagsins.

Samkvæmt öllu framangreindu er það mat kærða að kærandi verði að bera hallann af því að hafa ekki tilkynnt kærða í upphafi þeirra samskipta að litið væri svo á að lögmannsstofan kæmi fram sem hagsmunagæsluaðili kærða við aðilaskiptin og að gjaldtaka væri fyrirhuguð vegna verksins og um fyrirsjáanlega fjárhæð hennar. Þá verði kærandi að bera hallann af því að hafa ekki tryggt sér í framhaldinu óyggjandi sönnun á því að til samningssambands hafi stofnast á milli aðila.

Niðurstaða

                                                                          I.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknað.

II.

Eins og sakarefni málsins hefur verið afmarkað fyrir nefndinni þá er ágreiningsefni málsaðila tvíþætt. Annars vegar lýtur ágreiningur í málinu að því hvort komist hafi á samningssamband á milli aðila og samkvæmt því hvort kærandi eigi rétt til endurgjalds vegna lögmannsstarfa úr hendi hins kærða félags. Hins vegar snýr ágreiningur aðila að fjárhæð endurgjaldsins, þ.e. verði lagt til grundvallar að komist hafi á verksamband á milli aðila.

Ágreiningslaust er að G og H leituðu til kæranda í lok febrúarmánaðar 2018 með beiðni um lögmannsþjónustu vegna fyrirhugaðrar skiptingar á rekstri F ehf. Á þeim tíma var G fyrirsvarsmaður viðkomandi félags, sem kærandi hafði áður sinnt lögfræðilegri ráðgjöf fyrir, en H starfsmaður þess. Mun þannig hafa staðið til í upphafi að H myndi eiga aðkomu að yfirtöku á hluta rekstrar F ehf., í gegnum nýtt félag sem þá var bæði óstofnað og óskráð. Jafnframt liggur fyrir að rætt var upphaflega um að kostnaði vegna þjónustu kæranda í tengslum við verkið yrði skipt á milli félaganna tveggja, þ.e. annars vegar F ehf. og hins vegar þess félags sem kæmi til með að taka yfir hluta rekstrarins.

Líkt og rakið er í málsatvikalýsingu að framan unnu lögmenn hjá kæranda við verkið frá 26. febrúar til 19. mars 2018 þegar samningur var undirritaður á milli F ehf. og B ehf. um aðilaskipti rekstrar. Þá liggur fyrir að lögmenn hjá kæranda sinntu ýmissi eftirvinnslu eftir undiritun samningsins, þ.e. allt til 7. maí 2018.

Fyrir liggur að hið kærða félag, sem tók yfir hluta rekstrar F ehf. með fyrrgreindum samningi, var stofnað hinn 9. mars 2018 og voru stofngögn þau, sem nánar er lýst í málsatvikalýsingu að framan, afhent til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra þann sama dag. Samkvæmt stofngögnum, sem ekki er efnislegur ágreiningur um, voru stofnendur hins kærða félags þrír, nánar tiltekið þau D, H og K ehf. Þá var þar tiltekið að stjórnarmenn væru tveir, þ.e. fyrrgreindur D sem formaður stjórnar og L sem meðstjórnandi og að firma félagsins ritaði meirihluti stjórnar.

Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög getur óskráð félag hvorki öðlast réttindi né tekið á sig skyldur. Þá er kveðið á um í 2. mgr. 10. gr. laga nr. 138/1994 að sé löggerningur gerður fyrir hönd félags áður en það er skráð beri þeir sem tekið hafi þátt í gerningnum eða ákvörðunum um hann óskipta persónulega ábyrgð á efndum. Við skráninguna taki félag við þeim skyldum sem leiði af stofnsamningi eða félag hefur tekið á sig eftir stofnfund.

Svo sem fyrr greinir var upphaflega rætt um eftir að leitað var til kæranda vegna verksins að kostnaði vegna lögmannsstarfa í tengslum við yfirtökuna yrði skipt til helminga á milli samningsaðila. Þegar þau samskipti áttu sér stað var hið kærða félag, sem var ætlað að taka yfir hluta rekstrar F ehf., ekki aðeins óskráð, heldur hafði það ekki verið stofnað. Ákvæði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 138/1994 taka ekki eftir orðanna hljóðan til aðstæðna sem þessara, enda ná þau til skuldbindinga, sem myndaðar eru í nafni slíks félags sem hefur þegar verið stofnað eftir reglum 3. gr. til 8. gr. þeirra laga en ekki hefur enn verið skráð.

Þar sem hið kærða félag hafði hvorki verið stofnað né skráð við upphafssamskipti þau sem sakarefni málsins varðar verður að leggja til grundvallar, samkvæmt fyrrgreindum heimildum, að sá aðili hafi hvorki verið bær á þeim tíma til að öðlast réttindi né til að taka á sig skyldur. Þá var í engu kveðið á um ætlaða skuldbindingu hins kærða félags gagnvart kæranda í fyrrgreindum stofngögnum frá 9. mars 2018. Samkvæmt því verður við úrlausn sakarefnisins að líta til þess hvort samningssamband hafi komist á milli aðila þessa máls eftir stofnun hins kærða félags eða hvort kærði hafi með öðru hætti tekið á sig hina umþrættu skuldbindingu eftir það tímamark.

Fyrir liggur að H, sem kom upphaflega að samskiptum við kæranda vegna beiðni um lögmannsaðstoð ásamt G fyrirsvarsmanni F ehf., var á meðal stofnaaðila kærða auk þess sem hún hóf störf hjá aðilanum eftir undirritun fyrrgreinds samnings um aðilaskipti rekstrar þann 19. mars 2018. Þeir aðilar sem höfðu hins vegar formlega heimild til að skuldbinda kærða eftir stofnun félagsins voru stjórnarmenn þess líkt og áður greinir, þ.e. þeir D og Tryggvi L.

Engra skriflegra gagna nýtur við fyrir nefndinni sem varpað gætu með beinum hætti ljósi á það hvort samningssamband hafi komist á milli kæranda og kærða eftir stofnun og skráningu hins síðargreinda aðila í marsmánuði 2018. Þannig liggur hvorki fyrir í málsgögnum umboð þar að lútandi né gögn sem bent gætu til þess að kærandi hafi gert kærða grein fyrir áætluðum verkkostnaði og á hvaða grundvelli þóknun yrði reiknuð, svo sem áskilið er í 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna.

Á hinn bóginn er ágreiningslaust að áðurnefnd H tók áfram þátt í samningaviðræðum vegna hinnar fyrirhugðu yfirtöku á rekstri F ehf. eftir stofnun hins kærða félags sem og samskiptum við lögmenn hjá kæranda vegna þess. Jafnframt liggur fyrir að áðurgreindir stjórnarmenn hins kærða félags tóku þátt í samningaviðræðunum við hlið H frá þeim tíma og áttu í samskiptum við lögmenn hjá kæranda og sátu samningafundi vegna málsins. Ágreiningur er hins vegar um það á milli málsaðila hvort að lögmenn hjá kæranda hafi komið að þeim samskiptum sem lið í hagsmunagæslu í þágu F ehf., líkt og á er byggt af hálfu hins kærða félags þannig að samningssamband hafi ekki komist á milli aðila þessa máls, eða sem lið í hagsmunagæslu beggja samningsaðila svo sem málatilbúnaður kæranda er reistur á.

Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna getur nefndin kallað aðila fyrir sig til skýrslugjafar eða munnlegs málflutnings. Í 1. mgr. 10. gr. málsmeðferðarreglnanna er kveðið á um að nefndin taki afstöðu til sönnunargildis framkominna yfirlýsinga og gagna, sem þýðingu hafa fyrir úrslit máls. Nefndin getur hins vegar vísað máli frá ef í því eru sönnunaratriði, sem örðugt er að leysa úr undir rekstri málsins, eða mál er að öðru leyti ekki nægilega upplýst, sbr. 2. mgr. 10. gr. reglnanna.

Eins og atvikum öllum er háttað og sakarefnið liggur fyrir nefndinni verður ekki fram hjá því litið að úrslit málsins, um það efni hvort komist hafi á samningssamband á milli kæranda og kærða eftir stofnun og skráningu hins síðargreinda, kann að verulegu leyti að geta ráðist af framburði aðila og vitna um málsatvik. Er þá ekki aðeins litið til þess hvað fyrirsvarsmenn og starfsmenn aðila að máli þessu, sem komu með beinum hætti að þeim samskiptum, undirliggjandi samningaviðræðum og lögfræðiþjónustu sem leiddu til samningsgerðar á milli hins kærða félags og F ehf. þann 19. mars 2019, kunna að geta borið fyrir um heldur jafnframt hvernig aðrir þriðju aðilar sem aðkomu höfðu að málinu upplifðu atvik að þessu leyti, þar á meðal fyrirsvarsmenn F ehf. og K ehf. sem kærði byggir á að hafi verið ráðgefandi í samningaferlinu fyrir hans hönd.

Svo sem áður greinir er heimild til skýrslugjafar fyrir nefndinni takmörkuð við málsaðila og þá sem skoðast sem fyrirsvarsmenn þeirra þegar lögaðilar, líkt og hér um ræðir, eiga í hlut. Samkvæmt því verða vitni ekki kvödd fyrir nefndina til að gefa skýrslu um málsatvik ólíkt því sem við á um í einkamálum sem rekin eru fyrir dómstólum, sbr. meðal annars VIII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt því og eins og málið liggur fyrir nefndinni verður að mati nefndarinnar að telja að í því séu slík sönnunaratriði að ekki verði úr þeim leyst með fullnægjandi hætti nema að undangenginni skýrslugjöf vitna um málsatvik.

Að því gættu er óhjákvæmilegt að vísa máli þessu frá nefndinni með vísan til 2. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.       

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er vísað frá nefndinni.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr lögmaður, formaður

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður

Kristinn Bjarnason lögmaður

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson