Mál 44 2018

Mál 44/2018

Ár 2019, miðvikudaginn 29. maí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 44/2018:

A,

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 17. desember 2018 erindi kæranda, A, þar sem kvartað er yfir því að kærða, B lögmaður, hafi brotið annars vegar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn hvað varðar rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess og hins vegar 27. gr. laganna.

Kærðu var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfum dags. 19. desember 2018 og 11. janúar 2019. Greinargerð kærðu barst nefndinni þann 18. janúar 2019 og var hún send kæranda til athugasemda með bréfi dags. 21. sama mánaðar.

Með tölvubréfum kæranda til úrskurðarnefndar lögmanna, dags. 21. febrúar og 13. mars 2019, var þess krafist að C, formaður nefndarinnar, viki sæti í málinu á grundvelli ætlaðs vanhæfis hennar. Tilgreind krafa kæranda var tekin fyrir á fundi úrskurðarnefndar lögmanna þann 14. mars 2019 og henni hafnað. Var kæranda tilkynnt um þá niðurstöðu þann 15. mars 2019 þar sem fram kom að ekki yrði ráðið að vanhæfisástæður þær sem taldar væru í 1. – 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við um kröfu kæranda. Þá var tiltekið það mat nefndarinnar að ekki hefði verið sýnt fram á að öðru leyti að fyrir hendi væru aðstæður sem væru til þess fallnar að draga óhlutdrægni viðkomandi nefndarmanns í efa með réttu, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 37/1993.

Viðbótarathugasemdir kæranda vegna málsins bárust til nefndarinnar þann 18. mars 2019 og voru þær sendar til kærðu með bréfi næsta dag. Loks bárust viðbótarathugasemdir fá kærðu þann 29. mars 2019 og voru þær sendar til kærðu  með bréfi dags. 1. apríl sama ár þar sem tekið var fram að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu málsaðila og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

 

Samkvæmt málsgögnum mun kærandi hafa leitað til kærðu í ágústmánuði 2018 vegna máls sem hafði verið til meðferðar hjá D. Liggja fyrir um það efni tölvubréfasamskipti málsaðila frá 15. og 16. ágúst 2018 þar sem kærandi lýsti því meðal annars að hún þyrfti brýnt á lögmanni að halda auk þess sem gerð var grein fyrir málsatvikum í grófum dráttum. Þá bera gögn málsins jafnframt með sér að málsaðilar hafi átt með sér samtöl vegna málsins í þeim mánuði.

Fyrir liggur að málsaðilar áttu með sér fund þann 3. september 2018 þar sem kærða mun hafa veitt kæranda ráðgjöf vegna viðkomandi máls. Kærandi þakkaði kærðu fyrir greinargóðar upplýsingar sem veittar höfðu verið á þeim fundi í tölvubréfi þann 4. september 2018 auk þess sem óskað var eftir öðrum símafundi með kærðu vegna frekari ráðgjafar. Í svari kærðu þennan sama dag kom fram að bóka þyrfti viðtal vegna frekari ráðgjafar, að hún væri á leið erlendis og ætti því ekki lausan tíma fyrr en að liðnum tveimur vikum.

Í tölvubréfi kæranda til kærðu, dags. 8. september 2018, kvaðst kærandi afar þakklátur ef kærða gæti tekið að sér málið formlega þegar hún hefði tök á. Jafnframt því var í tölvubréfinu að finna frekari upplýsingar vegna málsins. Í svari kærðu, dags. 11. sama mánaðar, kom fram að sjálfsagt væri að aðstoða kæranda í málinu en að hún gæti ekki hafið vinnu við það fyrr en í lok septembermánaðar vegna nánar tilgreindra anna. Var kæranda veittur viðtalsfundur þann 28. september 2018 auk þess sem tiltekið var að greiða þyrfti inn á kostnað við málið og því sérstaklega lýst að innborgun á lögmannsstofu kærðu væri að fjárhæð 50.000 krónur.

Kærandi þakkaði kærðu fyrir svarið í tölvubréfi þann 11. september 2018. Óskaði kærandi jafnframt eftir í tölvubréfinu að fá áætlaðan kostnað ef hægt væri vegna þjónustunnar. Kvaðst kærandi í framhaldinu ætla að gera áætlun um hvernig þjónustan yrði greidd. Kærða svaraði tölvubréfi þessu þann 12. sama mánaðar en þar sagði meðal annars eftirfarandi:

..ég áætla vinnu við að ganga frá kvörtun til E og samskipti við stofnunina vegna þess um kr. 100.000 auk virðisaukaskatts, en kostnaður við málið ræðst síðan alltaf af skráðum tíma á málið hér á stofunni þar sem allur tími er skráður, þar á meðal við samskipti, símtöl, tölvupósta og fundi.

Aðilar áttu með sér fund vegna málsins þann 28. september 2018 en í tímaskýrslu kærðu greinir að á fundinum hafi meðal annars verið farið yfir gögn frá kæranda. Þá liggur jafnframt fyrir að gengið var frá umboði kæranda til kærðu á fundinum en það er meðal málsgagna. Samkvæmt umboðinu, sem dagsett er þann 28. september 2018 og ágreiningslaust er að kærandi undirritaði, var kærðu og nánar tilgreindum fulltrúa hennar veitt fullt og ótakmarkað umboð til að fara með mál kæranda gagnvart D vegna málefna dóttur kæranda auk meðferðar á stjórnsýslukæru til úrskurðarnefndar vegna málsmeðferðar D sem og vegna forsjár- lögheimilis-, umgengni- og meðlagságreinings. Þá tók umboðið jafnframt til heimildar til að afla allra upplýsinga og gagna er varðað gætu málin sem og til að koma fram fyrir hönd kæranda vegna þeirra.

Þennan sama dag, 28. september 2018, greiddi kærandi 50.000 krónur inn á fjárvörslureikning lögmannsstofu kærðu sem átti að skoðast sem innborgun inn á þóknun í samræmi við fyrrgreind samskipti málsaðila.

Málsgögn bera með sér að aðilar hafi átt í samskiptum vegna málsins á tímabilinu frá 1. – 4. október 2018 en hinn síðastgreinda dag sendi kærandi til kærðu viðbótarathugasemdir sem fyrirhugað var að skyldu fylgja greinargerð þeirri til úrskurðarnefndar F sem kærða hafði tekið að sér að rita og senda fyrir hönd kæranda. Verður jafnframt ráðið af tímaskýrslu kærðu að hún hafi hafið vinnu við ritun viðkomandi greinargerðar þann 3. október 2018.

Fyrir liggur að aðilar höfðu bókað með sér fund þann 19. október 2018 vegna máls þess sem kærða sinnti í þágu kæranda. Áður, eða í tölvubréfi þann 11. október 2018, hafði kærandi óskað eftir afriti af greinargerð þeirri sem til stóð að kærða myndi beina til úrskurðarnefndar F. Kvaðst kærða myndi gera það í svari til kæranda þann sama dag. Ekki varð af fundi aðila þann 19. október 2018 vegna atvika sem lutu að kærðu en samskipti um annan fundartíma fóru fram á milli þeirra í framhaldinu líkt og málsgögn bera með sér. Þá óskaði kærandi eftir upplýsingum frá kærðu um hvar málið væri statt varðandi málskot til úrskurðarnefndar F í tölvubréfi þann 22. október 2018. Bera málsgögn jafnframt með sér að kærða hafi átt í samskiptum við félagsráðgjafa hjá G vegna málefna kæranda á greindu tímabili.

Meðal málsgagna er tilgreind greinargerð, dags. 17. október 2018, til úrskurðarnefndar F vegna máls nr. x/2018 sem kærða mun hafa unnið sem lið í hagsmunagæslu í þágu kæranda. Af greinargerðinni verður ráðið að kærandi hafi sjálfur lagt fram kæru í málinu þann 21. ágúst 2018 og að greinargerðin hafi því komið til fyllingar þeim sjónarmiðum sem fram höfðu komið í kærunni. Í greinargerðinni var jafnframt tiltekið að meðal fylgiskjala með henni væri greinargerð kæranda, sem aðilinn hafði sent til kærðu þann 4. október 2018 líkt og áður greinir.

Þann 24. október 2018 sendi kærða tölvubréf til starfsmanns úrskurðarnefndar F vegna fyrrgreinds máls nr. x/2018 fyrir nefndinni. Með tölvubréfinu fylgdi greinargerð sú sem hún hafði unnið í þágu kæranda vegna málsins. Bera gögn málsins með sér að úrskurðarnefnd F hafi móttekið tölvubréfið og viðkomandi greinargerð þennan sama dag.

Samkvæmt fyrirliggjandi tímaskýrslu kærðu vegna lögmannsstarfa í þágu kæranda varði kærða alls 11,55 klukkustundum í málið á tímabilinu frá 16. ágúst til og með 7. nóvember 2018. Samkvæmt tímaskýrslunni var tímagjald kærðu vegna verksins að fjárhæð 25.000 krónur auk virðisaukaskatts.

Samkvæmt gögnum málsins og málatilbúnaði aðila mun kærða hafa gefið út einn reikning á hendur kæranda vegna fyrrgreindra lögmannsstarfa. Var þannig gefinn út reikningur þann 2. nóvember 2018 að fjárhæð 217.000 krónur með virðisaukaskatti. Var tiltekið á reikningnum að hann tæki til vinnu lögmanns við kærumál hjá úrskurðarnefnd velferðarmála, ritun greinargerðar og funda. Þá tók reikningurinn til alls 7 klukkustunda „skv. vinnutímaskýrslu“ auk þess sem tiltekið var að tímagjald væri 25.000 krónur auk virðisaukaskatts. Til frádráttar kæmi innborgun kæranda inn á kostnað að fjárhæð 50.000 krónur frá 28. september 2018 og næmu því ógreiddar eftirstöðvar reikningsins að fjárhæð 167.000 krónur.

Í áðurgreindri tímaskýrslu kærðu greinir í færslu frá 6. nóvember 2018 að kærandi hafi komið á skrifstofu kærðu þann dag og gert athugasemdir við hinn útgefna reikning. Þá hafi kærandi jafnframt fengið afrit tímaskýrslu sem og hins útgefna reiknings.

Með tölvubréfi kæranda til kærðu, dags. 6. nóvember 2018, lýsti aðilinn yfir riftun á umboði til kærðu. Kærða staðfesti móttöku á riftuninni þennan sama dag og kvaðst fella málið niður á lögmannsstofu sinni. Mun kærða í framhaldinu hafa tilkynnt til úrskurðarnefndar F að hún gætti ekki lengur hagsmuna kæranda vegna viðkomandi máls fyrir nefndinni.

II.

Skilja verður málatilbúnað kæranda með þeim hætti að þess sé annars vegar krafist að úrskurðað verði að kærða eigi ekki kröfu á hendur kæranda samkvæmt reikningi sem gefinn var út þann 2. nóvember 2018 að fjárhæð 217.000 krónur, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Hins vegar sé þess krafist af hálfu kæranda að kærða verði látin sæta viðeigandi agaviðurlögum fyrir háttsemi sína, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Í kvörtuninni vísar kærandi til þess að henni sé beint að vanefndum, ólöglegu umboði og tilhæfulausum reikningi vegna starfa kærðu í þágu kæranda. Í viðbótarathugasemdum kæranda til nefndarinnar var jafnframt vísað til 1. – 3. gr. siðareglna lögmanna um ætluð brot kærðu.

Um þetta efni vísar kærandi í fyrsta lagi til þess að innihald og efni umboðs hafi ekki verið í samræmi við það sem samið hafi verið um í upphafi. Kveðst kærandi byggja á 1. mgr. 11. gr. og 1. og 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga því til stuðnings. Kærandi hafi þannig einungis samið um aðstoð kærðu við málskot til úrskurðarnefndar F en ekki vinnu við forræðismál, líkt og tiltekið sé í umboðinu, enda hafi ekkert forræðismál verið í gangi. Þá hafi vottar að umboðinu ekki verið viðstaddir þegar það var undirritað auk þess sem kærandi þekki ekki til þeirra.

Í öðru lagi vísar kærandi til þess að hann hafi greitt kærðu 50.000 krónur við undirritun umboðs þann 28. september 2018. Hafi krafan verið sú að kærða myndi ekki byrja á neinni vinnu fyrr en sú greiðsla hefði borist til lögmannsstofu hennar. Þrátt fyrir það taki reikningur kærðu til vinnu fyrir þann tíma. Hafi ekki verið um slíkt samið á milli aðila.

Í þriðja lagi byggir kærandi á að kærða hafi sýnt af sér vanefndir við rækslu lögmannsstarfa í hans þágu. Þannig hafi verið haft samband við kærðu frá þriðja aðila fyrir hönd kæranda þann 24. október 2018 en þá hafi kærða ekkert verið búin að gera í málinu. Kærða hafi þannig ekki verið búin að senda málskotið til úrskurðarnefndar F auk þess sem hún hafi farið undan í flæmingi og sagst hafa sent viðkomandi greinargerð þann 17. sama mánaðar í pósti. Hafi fengist þau svör hjá úrskurðarnefnd F að engin gögn hefðu borist frá kærðu þrátt fyrir að frestur til svara hafi runnið út tveimur til þremur vikum áður.

Í fjórða lagi vísar kærandi til þess að greinargerð sú sem kærða hafi unnið hafi verið illa ígrunduð. Kærandi hafi áður sent kærðu greinargerð þann 4. október 2018 þar sem sjónarmiðum hafi verið lýst. Byggir kærandi á að í greinargerð kærðu hafi lítið komið fram af því sem kærandi hafi lagt áherslu á að greinargerðin ætti að bera með sér. Samkvæmt því ríki mikið ósætti um vinnubrögð kærðu í málinu.

Í fimmta lagi byggir kærandi á að tímaskýrsla kærðu sé efnislega röng að öllu leyti sem og sá reikningur sem gerður hafi verið á grundvelli hennar.

Kærandi byggir í sjötta lagi á að kærða hafi haldið öllum gögnum eftir. Samkvæmt því hafi hún hvorki sent né afhent kæranda þau afrit sem kærandi hefði látið kærðu í té vegna starfans.

Þá kveðst kærandi gera athugasemdir við verklag kærðu og hörku við innheimtu reiknings, þar á meðal með hótun um málsókn á hendur kæranda. Vísar kærandi til þess að kærða hafi margsinnis sagt ósatt um það að hún hefði þegar sent greinargerð til úrskurðarnefndar velferðarmála þegar slíkt átti ekki við rök að styðjast. Jafnframt hafi kærða lagt óhóflegan kostnað á málið í kjölfarið. Þá hafi kærða sýnt kæranda hroka á allan hátt og lítilsvirðingu auk þess sem kærða hafi svarað fyrirspurnum kæranda seint og illa.

Í viðbótarathugasemdum kæranda til nefndarinnar var vísað til þess að aldrei hafi verið rætt um að kærða gæti áskilið sér þóknun vegna óformlegra samtala málsaðila í ágústmánuði 2008, þ.e. áður en kærandi leitaði formlega til kærðu vegna málsins. Hafi verið með öllu óviðunandi fyrir kærðu að innheimta þóknun fyrir þjónustu vegna samnings sem ekki hafði komist á.

Kærandi ítrekar jafnframt athugasemdir við vottun þess umboðs sem hún veitti kærðu og byggir á að kærðu hafi borið að tilkynna áður hverjir kæmu til með að votta það. Mótmælir kærandi því jafnframt að kærða eigi rétt til þóknunar fyrir ritun umboðsins enda hafi aldrei verið rætt um þann kostnað á milli aðila. Byggir kærandi á að kærðu hafi borið að tilkynna um kostnað og áætlun um hina fyrirhugðu vinnu en að á þessum tíma hafi málið ekki verið komið í þann farveg.

Kærandi bendir á að samkvæmt tímaskýrslu hafi þóknun kærðu vegna fundar þann 28. september 2018 verið að fjárhæð 60.000 krónur auk virðisaukaskatts sem standist ekki enda hafi fundurinn verið mun styttri. Þá hafi kærandi afhent kærðu ítarlega greinargerð þann 4. október 2018 og með því unnið alla þá grunnvinnu sem lögmenn þurfi almennt að sinna við upphaf máls. Hafi verið auðvelt fyrir kærðu að vinna beint upp úr því skjali auk þess sem fylgigögn hafi verið mjög aðgengileg og skipulögð. Þrátt fyrir það hafi málið dregist í meðförum kærðu.

Í viðbótarathugasemdum kæranda er jafnframt vísað til þess að samskipti kærðu við aðra ráðgjafa kæranda hafi verið tilkomin vegna sinnuleysis kærðu við að svara erindum kæranda.  Þá hafi mál kæranda dregist mjög í meðförum kærðu sem hafi valdið enn frekari skaða. Á endanum hafi kæranda verið nauðugur sá einn kostur að draga umboð kærðu til baka.

Kærandi byggir á að kærða hafi farið með rangt í símtali aðila þann 24. október 2018 þegar hún upplýsti að hún hefði sent greinargerð til úrskurðarnefndar F viku fyrr eða þann 17. sama mánaðar. Hafi kærandi fengið það staðfest þennan sama dag að engin slík greinargerð hefði borist nefndinni frá kærðu. Er á því byggt að færslur í tímaskýrslu kærðu frá þeim degi eigi sér ekki stoð enda séu þeir kostnaðarliðir sem þar greinir tilkomnir vegna vanefnda kærðu á að senda fyrrgreinda greinargerð innan þess tímaramma sem um hefði verið rætt og kærða sjálf hefði upplýst um. Er það mat kæranda að háttsemi kærðu að þessu leyti beri merki um alvarlegan siðferðisskort og fullkominn brotavilja lögmanns gagnvart umbjóðanda sínum, sbr. meðal annars 2. og 3. gr. siðareglna lögmanna.

Að endingu vísar kærandi til þess að á grundvelli fyrirliggjandi samskipta hafi verið talið að heildarkostnaður vegna lögmannsstarfa kærðu yrði að fjárhæð 100.000 krónur auk virðisaukaskatts og að einungis yrði unnið við greinargerð til úrskurðarnefndar F. Hafi kærða einhliða gert ráð fyrir að til frekari lögmannsstarfa gæti komið við ritun fyrirliggjandi umboðs í málinu. Kærandi hafi hins vegar staðið í þeirri trú að kærða myndi sinna störfum sínum af alúð og heiðarleika, en slíkt hafi ekki orðið raunin. Telur kærandi að kærða hafi ekki haft tíma til starfans vegna anna við önnur verkefni sem hafi leitt til vanrækslu vegna þess verks sem hún hafi tekið að sér í þágu kæranda.

III.

Skilja verður málatilbúnað kærðu fyrir nefndinni með þeim hætti að þess sé krafist að öllum kröfum kæranda verði hafnað.

Kærða vísar til þess að í kvörtun sé tiltekið að henni sé beint að vanefndum, ólöglegu umboði og tilhæfulausum reikningum. Vegna þess áréttar kærða að hún hafi tekið að sér að gera greinargerð fyrir kæranda til úrskurðarnefndar F og að það hafi verið gert. Engin vanefnd sé þar af leiðandi til staðar. Jafnframt því hafi umboð vegna verksins verið undirritað af kæranda á skrifstofu kærðu og það vottað annars vegar af starfsmanni í hlutastarfi og hins vegar af lögfræðingi sem sé með aðsetur í sama húsnæði. Samkvæmt því hafi umboðið ekki verið ólöglegt auk þess sem það hafi ekki verið nýtt í lögmannsstörfum fyrir kæranda nema sem fylgiskjal með greinargerð til áðurgreindrar úrskurðarnefndar. Þá hafi aðeins einn reikningur verið gerður á kæranda frá lögmannsstofu kærðu fyrir unnum tímum og hafi sú reikningsgerð verið í samræmi við gefnar upplýsingar um lögmannskostnað í upphafi.

Kærða bendir á að kærandi hafi leitað fyrst til hennar í lok ágúst 2018 og óskað eftir ráðgjöf vegna málsmeðferðar barnaverndarmála. Hafi kæranda þá verið ráðlagt að annast fyrirsvar gagnvart úrskurðarnefnd F sjálf með tilliti til kostnaðar, en þá hafi samskiptin verið í formi tölvubréfa og símtala. Með tölvubréfi þann 8. september 2018 hafi kærandi óskað eftir fundi sem ákveðið hafi verið að halda á skrifstofu kærðu þann 28. sama mánaðar. Einnig hafi aðilar verið í tölvubréfasamskiptum 11. og 12. september 2018 þar sem kærandi hafi meðal annars óskað upplýsinga um áætlaðan kostnað af málinu sem kærða hafi veitt svör við, þar á meðal um hvernig staðið væri að tímaskráningu. Auk þess hafi kostnaður við ritun kæru/greinargerðar verið áætlaður 100.000 krónur auk virðisaukaskatts, en einnig hafi verið áréttað að öll samskipti yrðu skráð sem hluti af kostnaði við málið. Hafi þau reynst töluverð líkt og vinnutímayfirlit sýni. Þá hafi verið tekið fram að ekki yrði hafin vinna við málið, eða undirbúning fyrir ritun greinargerðar, fyrr en innborgun að fjárhæð 50.000 krónur hefði verið innt af hendi. Sú innborgun hafi verið greidd af kæranda þann 28. september 2018. Aldrei hafi því verið um það að ræða að litið hefði verið á þá innborgun sem umsamda þóknun fyrir málið í heild sinni.

Í málatilbúnaði kærðu er vísað til þess að hún hafi tekið að sér að gera greinargerð fyrir kæranda til úrskurðarnefndar F vegna kæru sem kærandi hafði þá þegar gert og laut einkum að atvikum málsins. Vegna þessa hafi verið áréttað af hálfu kærðu á fundum vegna málsins að greinargerð hennar myndi fela í sér lögfræðilegan rökstuðning vegna kærunnar enda málsatvikum þegar lýst í kæru. Til hafi staðið að ganga frá þeirri greinargerð í annarri viku októbermánaðar 2018 en það dregist af ýmsum ástæðum, aðallega sökum anna á lögmannsstofu kærðu en einnig vegna nýrra gagna og upplýsinga sem kærandi hafi komið á framfæri í fyrstu viku mánaðarins. Er vísað til þess að kærða hafi lokið við greinargerðina þann 17. október 2018 og hún send í pósti til nefndarinnar þann sama dag. Jafnframt því hafi kærða sent rafrænt eintak greinargerðarinnar til nefndarinnar í tölvubréfi þann 24. sama mánaðar.

Kærða vísar til þess að á þessum tíma hafi einnig verið um að ræða ítrekuð samskipti á milli málsaðila og annarra sem haft höfðu samband við kærðu fyrir hönd kæranda. Samkvæmt því hafi allar upplýsingar vegna málsins átt að liggja ljósar fyrir. Kveður kærða að samkvæmt upplýsingum frá kæranda hafi skilafrestur til úrskurðarnefndar F verið í annarri viku október, en gögn þess efnis hefðu ekki verið afhent kærðu. Engu að síður sé ljóst að greinargerðinni hafi verið skilað síðar en til hafi staðið, án þess þó að slíkt hefði haft áhrif á meðferð málsins hjá nefndinni eða valdið kæranda réttarspjöllum. Þá hafi málið átt eðlilegan framgang á lögmannsstofu kærðu, tímalega og faglega séð.

Kærða hafnar því að efni umboðsins hafi verið annað en samið hafi verið um í upphafi. Vísar kærða til þess að umboðið hafi tilgreint þau mál sem kærandi hafi vísað til auk þess sem það hafi verið vottað með eðlilegum hætti. Fyrirframgreiðsla kæranda hafi jafnframt aðeins verið innborgun inn á mál en ekki umsamin heildargreiðsla. Megi ljóst vera að innborgunarfjárhæð geti fráleitt talist í samræmi við hæfilega lögmannsþóknun í slíku máli, þar sem um hafi verið að ræða fundi, gagnayfirferð, töluverð samskipti og greinargerð til úrskurðarnefndar F.

Kærða hafnar því jafnframt að um vanefndir hafi verið að ræða af hennar hálfu. Bendir kærða á að unnið hafi verið við hið umsamda verk frá upphafsdegi, við innborgun 28. september 2018, verki skilað og greinargerðin móttekin sem hluti af viðkomandi máli fyrir úrskurðarnefnd F. Þá mótmælir kærða því að greinargerðin hafi verið illa ígrunduð enda sé þar að finna lögfræðilegan rökstuðning sem máli skipti auk tilvísana til greinargerðar og kæru kæranda sjálfs sem fylgt hafi með greinargerð kærðu.

Kærða byggir á að reikningur lögmannsstofu hennar sé í samræmi við vinnuskýrslu en þó þannig að reikningurinn hafi tekið til færri tíma en skráðir hafi verið og þannig veittur afsláttur af þóknun. Þá hafi kærandi ekki óskað eftir endursendingu málsgagna. Um það efni sé jafnframt á það bent að umrædd gögn hafi að mestu verið móttekin rafrænt eða í ljósriti. Þá kveðst kærða hafna því að hún hafi gefið rangar upplýsingar í málinu. Vísar kærða til þessa að hún hafi unnið við málið í um einn mánuð og að á þeim tíma hafi hún átt ítrekuð samskipti við kæranda líkt og málsgögn beri með sér. Sé það því rangt að kæranda hafi ekki verið sinnt eða svarað.

Í viðbótarathugasemdum kærðu til nefndarinnar var því alfarið mótmælt að umboð, sem kærandi hafi undirritað vegna málsins, hafi verið ógilt. Vísar kærða til þess að eðlilega hafi verið staðið að undirritun umboðsins sem kærandi jafnframt kannist við að öllu leyti. Samkvæmt því hafi kærandi undirgengist þá skyldu að greiða samkvæmt reikningum og vinnutímaskráningu kærðu.

Kærða mótmælir því jafnframt að ekki hafi verið heimilt að krefjast greiðslu fyrir upplýsingar veittar í símtali, enda komi það skýrlega fram í gjaldskrá lögmannsstofu hennar að skráðir séu tímar vegna meðal annars allra símtala og tölvubréfa. Er vísað til þess að samskipti við kæranda hafi verið hluti af veittri ráðgjöf þar sem meðal annars hafi verið ítarlega farið yfir málsatvik og málsmeðferð barnaverndarmála. Þó svo að ekki hafi verið búið að undirrita formlegt umboð á þessum tíma hafi kærandi sannanlega leitað til kærðu sem lögmanns og farið fram á upplýsingar. Hafi kæranda verið veitt ráðgjöf í símtali fyrir fyrsta fund aðila og sé því ekkert tilefni til að undanskilja þá vinnu lögmanns frá vinnutímaskráningu. Hvergi hafi það verið gefið út að ókeypis ráðgjöf væri veitt af hálfu kærðu eða lögmannsstofu hennar, þ.e. hvorki í síma né viðtölum, og hafi kærandi því á engan hátt getað gefið sér að sú lögmannsþjónusta væri gjaldfrjáls.

Varðandi mótmæli kæranda sem lúta að greiðslu fyrir gerð umboðs vísar kærða til þess að ljóst sé að lögmaður geti ekki gætt hagsmuna umbjóðanda síns án þess að geta sýnt fram á umboð sitt til starfans. Sé gerð umboðs þannig nauðsynlegur og eðlilegur þáttur í hagsmunagæslu í þágu umbjóðanda og beri að greiða fyrir þá þjónustu rétt eins og aðra þætti í þjónustu við umbjóðendur. Þá mótmælir kærða með öllu málatilbúnaði kæranda um tímalengd funda, viðmót og samskipti. Er á það bent að vinnutímaskráning hafi verið mjög nákvæm um vinnu í þágu kæranda og sé þar rétt með farið í öllum atriðum.

Kærða vísar til þess að vinna hafi þurft úr þeim gögnum sem kærandi hafi látið henni í té. Hafi aðilar fundað þann 28. september 2018 þar sem gögn hafi verið afhent. Þann 3. október 2008 hafi kærða hafið vinnu við að stilla upp greinargerð til úrskurðarnefndar F út frá þeim gögnum, en eftir það tímamark hafi verið bætt við frekari gögnum og upplýsingum eftir samskipti aðila. Eftir að öll gögn hafi legið fyrir hafi kærða unnið greinargerð til úrskurðarnefndar þann 10. október 2018. Vegna ófyrirséðra anna hafi ekki náðst að ljúka endanlega við greinargerðina fyrr en þann 17. sama mánaðar þegar hún hafi verið póstlögð. Þá hafi greinargerðin jafnframt verið send rafrænt til nefndarinnar þann 24. október 2018. Hafi málið þannig haft eðlilegan framgang á stofunni.

Varðandi kostnaðarliði í tímaskýrslu þann 24. október 2018 vísar kærða til þess að þeir skýrist alfarið af þeim ólíku samskiptum og erindum sem borist hafi þann dag frá fleiri aðilum sem haft hafi samband við lögmannsstofu kærðu. Hafnar kærða því alfarið að skráðir hafi verið vinnutímar margfalt fyrir nokkra liði. Beri tímaskýrslan þvert á móti með sér að vera nákvæm og vel útlistuð um þau verk sem unnin voru. Auk þess er ítrekað af hálfu kærðu að ekki hafi verið gerður reikningur fyrir öllum skráðum tímum.

Að endingu hafnar kærða öllum ávirðingum um meinta vanrækslu. Jafnframt mótmælir kærða öllum tilvísunum til ætlaðrar vanhæfni eða tímaskorts. Vísar kærða til þess að þótt hún starfi að mörgum og ólíkum málum, líkt og flestir aðrir lögmenn, sé því alfarið hafnað að störf í þágu annarra mála og málefna hafi haft nokkuð með málarekstur í þágu kæranda að gera.

Niðurstaða

Í máli þessu þarf í fyrsta lagi að taka afstöðu til þess hvort kærða hafi gerst brotleg við lög eða siðareglur lögmanna þannig að rétt þyki að beita agaviðurlögum og í öðru lagi að fjalla um fjárhagslegt uppgjör aðila vegna lögmannsstarfa kærðu.

 I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 18. gr. lögmannalaga ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Er slíkt enn fremur áréttað í 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna þar sem tiltekið er að lögmaður skuli leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna í samræmi við þá meginreglu 1. gr. að lögmanni ber að efla rétt og hrinda órétti og leggja svo til allra mála, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Þá er tiltekið í 12. gr. siðareglnanna að lögmanni, sem tekur að sér verkefni, beri að reka það áfram með hæfilegum hraða. Skal hann tilkynna skjólstæðingi sínum ef verkið dregst eða ætla má að það dragist.

Varðandi ætluð brot kærðu hefur kærandi í fyrsta lagi vísað til þess að fyrirliggjandi umboð vegna lögmannsstarfa sé og hafi verið ólöglegt þar sem efni þess hafi ekki verið í samræmi við verkbeiðni auk þess sem það hafi verið vottað með ólögmætum hætti. Í öðru lagi hefur verið vísað til ætlaðra vanefnda kærðu við ritun greinargerðar í þágu kæranda til úrskurðarnefndar F, þ.e. annars vegar vegna tafa á meðferð málsins hjá kærðu og hins vegar vegna efnis greinargerðarinnar sem hafi aðeins að takmörkuðu leyti tekið mið af þeim málatilbúnaði og upplýsingum sem kærandi hafi látið kærðu í té fyrir upphaf vinnunnar. Þá hefur kærandi í þriðja lagi vísað til þess að kærða hafi haldið eftir öllum gögnum þrátt fyrir beiðni kæranda um afhendingu þeirra auk þess sem hún hafi sýnt af sér hroka og lítilsvirðingu í garð kæranda jafnframt því að svara fyrirspurnum seint og illa.

Um þetta efni er þess í fyrsta lagi að gæta að ágreiningslaust er að kærandi veitti og ritaði undir umboð til kærðu þann 28. september 2018, svo sem nánar greinir í málsatvikalýsingu að framan. Var í umboðinu skilmerkilega tiltekið til hvaða aðila og verkþátta það tæki. Verður ekki annað ráðið af málsgögnum en að kærandi hafi veitt umboðið af fúsum og frjálsum vilja samkvæmt því efni sem í því greinir. Samkvæmt því er haldlaus með öllu sá málatilbúnaður kæranda að umboð það sem aðilinn veitti kærðu sé ólögmætt og/eða ógildanlegt. Þá liggur jafnframt ekkert annað fyrir í málinu en að umboðið hafi verið réttilega vottað, en hverju sem því líður er ljóst að kærandi hefur kannast við að hafa undirritað skjalið og þar með að hafa veitt kærðu umboð til þeirra verka sem þar voru tilgreind.

Í öðru lagi er til þess að líta að ágreiningslaust er að kærða tók að sér það verk í þágu kæranda, í september 2018, að rita og senda greinargerð til úrskurðarnefndar velferðarmála vegna máls sem þar var þá þegar til málsmeðferðar á grundvelli kæru sem kærandi hafði sjálfur lagt fram þann 21. ágúst 2018. Af málsgögnum verður ráðið að kærða hafi haft fullnægjandi gögn undir höndum til að geta unnið að greinargerðinni í fyrstu viku októbermánaðar 2018, en 4. þess mánaðar hafði kærandi sent til kærðu viðbótarathugasemdir sem óskað var eftir að komið yrði á framfæri við nefndina samhliða greinargerð þeirri sem kærða vann að.

Meðal málsgagna er tilgreind greinargerð, dags. 17. október 2018, til úrskurðarnefndar F vegna máls nr. x/2018 sem kærða vann í þágu kæranda í samræmi við það sem áður er rakið. Að mati nefndarinnar verður ekki annað ráðið af efni greinargerðarinnar en að hún hafi verið vel unnin auk þess sem tekið hafi verið á þeim lögfræðilegu þáttum sem gátu komið til skoðunar við úrlausn undirliggjandi kærumáls og til fyllingar kæru þeirri sem kærandi hafði áður lagt fram. Þá verður ekki annað ráðið en að öllum sjónarmiðum þeim sem kærandi hafði hreyft hafi verið komið á framfæri við nefndina enda fylgdu viðbótarathugasemdir þær sem kærandi hafði látið kærðu í té sem fylgiskjal með greinargerð kærðu auk þess sem sérstaklega var vísað til þeirra í greinargerðinni.

Ágreiningur er um það milli málsaðila hvort dráttur hafi orðið á vinnu kærðu en hún hefur fyrir nefndinni borið því við að vinnsla greinargerðarinnar hafi haft eðlilegan framgang og að hún hafi verið póstlögð til úrskurðarnefndar F þann 17. október 2018. Kærandi hefur hins vegar vísað til þess að greinargerðin hafi ekki enn verið búin að berast til viðkomandi úrskurðarnefndar þann 24. sama mánaðar og að hún hafi því óskað skýringa hjá kærðu á þeim drætti.

Hverju sem framangreindu líður þá liggur fyrir að greinargerð sú sem kærða vann í þágu kæranda var send í tölvubréfi til starfsmanns úrskurðarnefndar F þann 24. október 2018. Bera gögn málsins með sér að úrskurðarnefndin hafi móttekið tölvubréfið og viðkomandi greinargerð þann sama dag, en þá hafði málið ekki verið tekið til úrskurðar. Að mati nefndarinnar verður ekki annað ráðið af málsgögnum en að viðkomandi greinargerð hafi borist til nefndarinnar innan tímafresta og að hún, og fylgigögn hennar, hafi verið meðal málsgagna við úrlausn hins undirliggjandi máls. Samkvæmt því sé ekki unnt að leggja til grundvallar að kærandi hafi orðið fyrir réttarspjöllum vegna hinna ætluðu tafa kærðu við ritun greinargerðarinnar. Þá er það mat nefndarinnar að vinna kærðu hafi átt sér eðlilegan framgang án nokkurs óeðlilegs dráttar.

Hvað hið síðastgreinda atriði varðar verður að mati nefndarinnar ekki litið fram hjá því að ekkert í málsgögnum bendir til þess að kærða hafi sýnt af sér hroka eða lítilsvirðingu gagnvart kæranda eða að erindum hafi verið svarað seint og illa af hálfu kærðu. Þvert á móti benda málsgögn til þess að kærða hafi lagt sig fram um að svara erindum kæranda innan eðlilegra tímamarka. Gegn andmælum kærðu er jafnframt ekki unnt að leggja til grundvallar að hún hafi haldið eftir gögnum í eigu kæranda með ólögmætum hætti eftir að hinn síðargreindi lýsti yfir riftun á umboði þann 6. nóvember 2018. Verður þá einnig litið til þess að samkvæmt 1. mgr. 16. gr. siðareglna lögmanna er lögmanni rétt að halda í sínum vörslum skjölum og og öðrum gögnum, er hann hefur móttekið í tengslum við mál skjólstæðings síns, uns skjólstæðingur hefur gert lögmanni full skil á útlögðum kostnaði og þóknun samfara því máli samkvæmt útgefnum reikningi.

Með vísan til alls framangreinds er að áliti nefndarinnar ekki efni til að telja að kærða hafi brotið gegn lögum eða siðareglum lögmanna með þeirri háttsemi sem umþrætt er í máli þessu og kvörtun kæranda lýtur að.

II.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknað.

Þá segir í 15. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

Eins og áður greinir tók kærða að sér hagsmunagæslu fyrir kæranda vegna máls sem rekið var fyrir úrskurðarnefnd F. Ágreiningslaust er að í þeirri hagsmunagæslu fólst einkum ritun greinargerðar í þágu kæranda sem skyldi beint til viðkomandi nefndar til fyllingar kæru sem kærandi hafði áður lagt fram í eigin nafni.

Á grundvelli þeirra lögmannsstarfa kærðu í þágu kæranda gaf kærða út reikning þann 2. nóvember 2018 að fjárhæð kr. 217.000 með virðisaukaskatti. Var tiltekið á reikningnum að hann tæki til vinnu lögmanns við kærumál hjá úrskurðarnefnd F, ritun greinargerðar og funda. Þá tók reikningurinn til alls 7 klukkustunda „skv. vinnutímaskýrslu“ auk þess sem tiltekið var að tímagjald væri 25.000 krónur auk virðisaukaskatts. Þá var því lýst að til frádráttar kæmi innborgun kæranda inn á kostnað að fjárhæð 50.000 krónur frá 28. september 2018 og næmu því ógreiddar eftirstöðvar reikningsins að fjárhæð 167.000 krónur.

Samkvæmt fyrirliggjandi tímaskýrslu kærðu vegna lögmannsstarfa í þágu kæranda varði kærða alls 11,55 klukkustundum í málið á tímabilinu frá 16. ágúst til og með 7. nóvember 2018. Samkvæmt tímaskýrslunni var tímagjald kærðu vegna verksins hið sama og tiltekið hafði verið á fyrrgreindum reikningi. Ágreiningslaust er að kærða fékk afhent afrit tímaskýrslunnar á skrifstofu kærðu þann 6. nóvember 2018.

Eftir að kærandi hafði óskað eftir aðkomu kærðu að málinu beindi hann fyrirspurn til kærðu um áætlaðan kostnað vegna þjónustunnar. Í svari kærðu, dags. 12. september 2018, kom fram að kostnaður við að ganga frá greinargerð og samskipti við viðkomandi stjórnvald vegna þess væri um 100.000 krónur auk virðisaukaskatts en að kostnaður við málið myndi síðan alltaf ráðast af skráðum tímum á málið á lögmannsstofu kærðu þar sem allur tími væri skráður, þar á meðal samskipti, símtöl, tölvubréf og fundir.

Kærandi hefur á því byggt fyrir nefndinni að á grundvelli fyrrgreindra samskipta hafi hann talið að kostnaður vegna lögmannsþjónustu kærðu yrði að heildarfjárhæð 100.000 krónur auk virðisaukaskatts. Á þann málatilbúnað getur nefndin ekki fallist. Verður þá að líta til þess að í tölvubréfi kærðu var skýrt afmarkað að kostnaður vegna vinnu við ritun greinargerðarinnar sjálfrar og samskipti við þá stofnun sem hafði með mál kæranda að gera yrði um 100.000 krónur auk virðisaukaskatts. Þá var sérstaklega tiltekið í tölvubréfinu að auk þess myndi kostnaður við málið ráðast af skráðum tímum á málið, þar á meðal vegna samskipta málsaðila og funda þeirra. Verður tölvubréf kærðu ekki skilið með öðrum hætti en að sá kostnaður myndi leggjast aukalega á þá fjárhæð sem kærða hafi tilgreint sem áætlaðan verkkostnað vegna ritunar greinargerðar og samskipta við úrskurðarnefnd velferðarmála.

Að mati nefndarinnar var tímagjald kærðu, að fjárhæð 25.000 krónur auk virðisaukaskatts, ekki úr hófi. Þá verður ekki séð að tímafjöldi samkvæmt tímaskýrslu hafi verið umfram það sem vænta mátti miðað við það verkefni sem leggja verður til grundvallar að kærðu hafi verið falið að sinna. Þá liggur fyrir að málsaðilar áttu í reglulegum samskiptum frá ágúst- til októbermánaðar 2018 vegna málsins, þar á meðal um framvindu málsins, ráðgjöf, gagnaöflun auk þess sem kærða átti í samskiptum við aðra þriðju aðila á vegum kæranda.

Með hliðsjón af öllu framangreindu, gögnum málsins og að teknu tilliti til þess að kærða veitti kæranda afslátt samkvæmt hinum umþrætta reikningi, þar sem reikningsfært var fyrir 7 klukkustunda vinnu þrátt fyrir að tímaskýrsla kærðu hafi tekið til alls 11,55 klukkustunda, er það mat nefndarinnar að ekki séu efni til að lækka áskilda þóknun kærðu vegna starfa aðilans í þágu kæranda. Fái engu breytt í því samhengi þótt vinnuskýrsla kærðu hafi tekið til alls 2,40 klukkustunda áður en gengið var frá skriflegu umboði þann 28. september 2018 enda ágreiningslaust að kærða veitti kæranda ráðgjöf fyrir það tímamark auk þess sem veittur var afsláttur við gerð reiknings sem nam vinnu í 4,55 klukkustundir.

Samkvæmt því er það mat nefndarinnar að hæfilegt endurgjald fyrir lögmannsstörf kærðu í þágu kæranda sé 217.000 krónur með virðisaukaskatti. Þessi niðurstaða felur í sér að sú þóknun sem kærða áskildi sér vegna starfa í þágu kæranda var hæfileg. Samkvæmt því er hvorki efni til að fallast á kröfu kæranda um að reikningur kærðu verði felldur niður né að áskilið endurgjald hennar sæti lækkun.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærða, B lögmaður, hefur ekki gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Áskilin þóknun kærðu, B lögmanns, vegna starfa hennar í þágu kæranda, A, felur í sér hæfilegt endurgjald.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr lögmaður, formaður

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður

Kristinn Bjarnason lögmaður

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson