Mál 17 2019

Mál 17/2019

Ár 2019, miðvikudaginn 18. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2019:

A,

gegn

B lögmanni og C lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 30. ágúst 2019 erindi kæranda, A, þar sem kvartað er yfir háttsemi kærða, B lögmanns og C lögmanns, og ætluðum brotum þeirra gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Kærðu var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi, dags. 2. september 2019, og barst hún þann 19. sama mánaðar. Var kæranda send greinargerð kærðu til athugasemda og bárust þær úrskurðarnefnd þann 7. október 2019. Kærðu voru upplýst um athugasemdir kæranda með bréfi, dags. 8. október 2019. Hvorki kom til frekari athugasemda né gagnaframlagningar af hálfu málsaðila og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt gögnum málsins mun kærandi hafa leitað til kærðu um lögmannsaðstoð í nóvembermánuði 2016 vegna ætlaðs tjóns af völdum umferðarslyss sem hann hafði lent í þann 27. september sama ár. Meðal málsgagna er umboð, dags. 11. nóvember 2016, sem kærandi veitti hinum kærðu lögmönnum til að annast alla hagsmunagæslu vegna málsins. Var tiltekið í umboðinu að í því fælist heimild til hverskonar ráðstafana sem kærðu teldu nauðsynlegar, þar á meðal til að fá öll gögn sem sem málið varðaði hjá þriðju aðilum, annast samskipti sem og til að höfða mál ef nauðsynlegt væri.

Ágreiningslaust er að áður en kærandi leitaði til kærðu hafði krafa verið höfð uppi af hans hálfu í ábyrgðartryggingu ökumanns og hafði bótaskylda verið viðurkennd af hálfu D hf. Þá liggur fyrir að kærðu tilkynntu um slysið til tryggingafélagsins E hf. þar sem kærandi mun hafa verið með slysatryggingu. Meðal málsgagna er að finna stöðuyfirlit yfir tryggingar kæranda hjá tilgreindu tryggingafélagi auk undirliggjandi skilmála þar að baki.

Um nánari aðkomu kærðu að hagsmunagæslu í þágu kæranda vegna slyssins og efnis undirliggjandi tryggingaskilmála að því er máli skiptir fyrir úrlausn sakarefnisins vísast til málatilbúnaðar aðila fyrir nefndinni, sem síðar greinir.

Með bréfi tryggingafélagsins E til kæranda, dags. 26. september 2018, var vísað til fyrrgreinds slyss sem kærandi hafði lent í þann 27. september 2016 sem og til efnis undirliggjandi tryggingaskilmála varðandi rétt til örorkubóta. Var um hið síðargreinda efni meðal annars vísað til þess að skilyrði fyrir greiðslu örorkubóta væru þau að slysið hefði leitt til varanlegs tjóns sem komið hefði fram innan árs frá slysdegi og að slíkt væri staðfest af lækni innan þriggja mánaða frá því tímamarki, eða eigi síðar en 15 mánuðum frá slysdegi. Þá var sérstaklega tiltekið að kærandi hefði verið upplýstur um þau skilyrði í bréfi, dags. 15. nóvember 2016, og að tímafrestir hefðu runnið sitt skeið þann 27. desember 2017, þ.e. án þess að krafa hefði verið höfð uppi af hálfu kæranda í trygginguna.

Ágreiningslaust virðist að kærandi hafi leitað til annars lögmanns um hagsmunagæslu vegna málsins fyrir lok þess en nánari tímasetning þeirra skipta liggur ekki fyrir nefndinni.

Lýtur ágreiningur í málinu að því hvort kærðu hafi borið að hafa uppi kröfu fyrir hönd kæranda í viðkomandi slysatryggingu, hjá tryggingafélaginu E.

II.

Kærandi krefst þess í málinu að viðurkennd verði mistök hinna kærðu lögmanna vegna þeirra atvika sem kvörtunin taki til sem og það tjón sem af háttseminni hafi hlotist. Þá verður að skilja málatilbúnað kæranda með þeim hætti að þess sé krafist að kærðu verði látin sæta viðeigandi agaviðurlögum vegna ætlaðra brota gegn lögum nr. 77/1998 um lögmenn og siðareglum lögmanna. sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Í kvörtun kæranda er vísað til þess að hún lúti að því að hinir kærðu lögmenn hafi verið of seinir að innheimta bótakröfu fyrir hönd kæranda á hendur tryggingafélaginu E.

Nánar tiltekið vísar kærandi til þess að kærðu hafi tekið að sér hagsmunagæslu í hans þágu, samkvæmt umboði dags. 11. nóvember 2016, vegna slyss sem kærandi hafi lent í þann 27. september sama ár. Hins vegar hafi frestur til að krefjast bóta úr viðkomandi tryggingu hjá E vegna slyssins runnið út 27. desember 2017 án þess að kærðu hefðu gert reka að því að halda fram slíkri kröfu í þágu kæranda. Þá hafi E hafnað greiðslu bóta á þeim grundvelli með bréfi, dags. 26. september 2018.

Í viðbótarathugasemdum kæranda til nefndarinnar vísar aðilinn til þess að nefndin hafi skýra lögsögu í málinu á grundvelli laga nr. 77/1998. Meðal annars með vísan til 18. gr. laganna hafi hinum kærðu lögmönnum borið að gera kröfu um bætur fyrir hönd kæranda samkvæmt skilmálum undirliggjandi slysatryggingar hjá E innan þeirra fresta sem þar hafi verið mælt fyrir um, þ.e. í síðasta lagi sjö mánuðum eftir að slysið varð í tilviki biðtímabóta og innan 24 mánaða í tilviki örorkubóta. Bendir kærandi á að ef kærðu hafi ekki þekkt þessa fresti hafi þau ekki átt að taka að sér verkefnið, sbr. 8. gr. siðareglna lögmanna.

Kærandi bendir á að kærðu hafi tilkynnt um slysið til tryggingafélagsins á Íslandi þann 14. nóvember 2016. Samkvæmt því telur kærandi ljóst að kærðu hefðu átt að fylgja þeirri tilkynningu eftir með kröfugerð í trygginguna. Þá telur kærandi að kærðu rugli saman mati á örorku annars vegar og kröfu um bætur á grundvelli örorku hins vegar. Alltaf hafi verið mögulegt að gera kröfu um bætur þó að endanlegt örorkumat hafi ekki legið fyrir á þeim tíma sem um ræðir. Samkvæmt því fer kærandi fram á að nefndin finni að vinnubrögðum kærðu.

III.

Kærðu krefjast þess aðallega að kvörtun kæranda verði vísað frá nefndinni en til vara að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Þá krefjast kærðu í öllum tilvikum málskostnaðar úr hendi kæranda með vísan til 3. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Varðandi aðalkröfu sína benda kærðu á að kröfur kæranda lúti að því að viðurkennd verði ætluð mistök þeirra og ætlað tjón kæranda af þeim sökum. Vísa kærendur til hlutverks nefndarinnar eins og það sé afmarkað í lögum nr. 77/1998, siðareglum lögmanna og reglum um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Byggja kærðu á að samkvæmt tilgreindum heimildum sé það ekki hlutverk nefndarinnar að viðurkenna ætluð mistök lögmanna eða ætlað tjón skjólstæðinga þeirra. Af þeim sökum, og þar sem kvörtuninni sé ekki beint að brotum á lögum eða siðareglum lögmanna, beri að vísa málinu í heild sinni frá nefndinni.

Verði málinu ekki vísað frá nefndinni krefjast kærðu þess að kröfum kæranda verði hafnað. Um það efni vísa kærðu til þess að kærandi hafi leitað til þeirra þann 11. nóvember 2016 vegna umferðarslyss sem hann og kona hans höfðu lent í þann 27. september 2016. Á þeim tíma hafi legið fyrir viðurkenning á bótaskyldu frá D tryggingum hf. úr ábyrgðartryggingu ökumanns. Í kjölfar þess hafi kærðu aflað læknisvottorða og upplýsinga frá kæranda og konu hans um möguleg frekari réttindi þeirra til bóta vegna slyssins. Þá hafi kærðu tilkynnt um slysið til E á Íslandi þann 14. nóvember 2016 þar sem kærandi hafi upplýst um að hann væri með gilda slysatryggingu.

Kærðu vísa til þess að þau hafi verið í reglulegum samskiptum við lækni kæranda sem hafi loks talið í árslok 2018 að tímabært væri að gera lokamat vegna slyssins. Fyrirhugað hafi verið að gera örorkumat á kæranda, samkvæmt matsbeiðni, þann 7. mars 2019. Þeim matsfundi hafi hins vegar verið frestað þar sem ekki hafi verið talið að kærandi hefði náð stöðugleikapunkti líkt og áskilið sé í 1. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá hafi kærandi skipt um lögmann og því liggi ekki fyrir upplýsingar um hvernig mál hans gegn D tryggingum hf. standi. Kona kæranda hafi hins vegar þegar fengið greiddar bætur úr ábyrgðartryggingu ökumanns.

Kærðu benda á að í tryggingaskilmálum E sé að finna skilyrði þess að fá greitt úr tryggingunni. Er vísað til þess að til þess að fá greiddar örorkubætur þurfi örorka hins tryggða að liggja fyrir innan árs frá slysdegi. Til þess að fá greiddar slysabætur þurfi örorka að vera komin fram innan árs og varanleg örorka hins tryggða að vera metin 50% án örorku sem hafi verið til staðar fyrir slysið.

Vísað er til þess að kærandi hafi ekki verið í föstu starfi fyrir slysið og því liggi ekki fyrir vottorð læknis um óvinnufærni til atvinnurekanda. Kærandi hafi ekki skilað skattframtali árin 2014 – 2015 en samkvæmt skattframtali ársins 2016 hafi heildartekjur hans árið 2015 verið að fjárhæð 1.800.000 krónur, eða að jafnaði 150.000 krónur á mánuði fyrir störf hans í þágu félags í eigin eigu sem nú sé gjaldþrota. Samkvæmt staðgreiðsluskrám fyrir árið 2016 hafi heildarlaun hans það ár verið 145.650 krónur. Samkvæmt því hafi samantekin laun kæranda á síðustu 33 mánuðum fyrir slysið verið að meðaltali 81.686 krónur á mánuði sem samsvari á bilinu 30-33% af meðaltali lágmarkslauna þess tímabils. Byggja kærðu á að við hafi því blasað að örorka kæranda vegna slyssins gæti aldrei náð 50% þrátt fyrir að hann væri talinn óvinnufær, en þess utan hefði kærandi áður fengið metna örorku sem komið hefði til frádráttar samkvæmt reglum skaðabótaréttar.

Benda kærðu á að kærandi hafi lent í nokkrum slysum í gegnum tíðina sem hafi valdið honum stoðkerfisvanda, þ.e. nánar tiltekið á árunum 1992, 1995, 1999 og 2005. Þannig hafi varanleg örorka kæranda verið metin 15% á árinu 1993. Vegna síðastnefnda slyssins hafi varanleg örorka kæranda verið metin á árinu 2008. Hafi matsmenn þá talið að í ljósi fyrri slysasögu kæranda, þeirrar staðreyndar að hann hefði ekki talið fram til skatts í langan tíma fyrir slysið og að engar upplýsingar hafi legið fyrir um tekjubreytingar frá tímanum sem slysið varð, að varanleg örorka hans vegna þess slyss væri engin.

Kærðu vísa til þess að einkenni kæranda eftir slysið 2016 hafi verið keimlík þeim sem hann hafi lýst í örorkumati 2008 auk þess sem tekjusaga hafi verið afar stopul. Ekki hafi reynst unnt að meta örorku kæranda fyrr en þegar tvö og hálft ár voru liðin frá slysi. Hafi kærðu því metið sem svo að þar sem örorka kæranda hafi ekki verið komin fram innan árs frá slysinu, sbr. upplýsingar frá lækni hans, og þar sem ljóst hafi verið að hún gæti ekki talist vera 50% að kærandi ætti ekki, með vísan í skilmála tryggingarinnar, rétt á greiðslu bóta úr slysatryggingu E. Taka kærðu fram að þau hafi ekki átt nokkurn þátt í því að kærandi valdi sér hina umdeildu tryggingu, sem sé langsótt að geti skilað bótum vegna örorku, þar sem tímamörk í ábyrgðarskilmálum henti almennt ekki því verklagi sem notast sé við hér á landi við mat á örorku.

Kærðu benda á að í tryggingaskilmálum komi fram skilyrði þess að fá greiddar betri biðtímabætur úr slysatryggingunni. Séu forsendur tryggingagreiðslu að eðlileg líkamleg eða andleg hæfni hins tryggða sé skert á atvinnusviði eða utan þess vegna slyssins, án áhrifa sjúkdóma eða kvilla um 100% í þrjá mánuði frá slysdegi og um minnst 50% í sex mánuði frá slysdegi. Vísa kærðu til þess að ekki hafi verið forsendur til að meta örorku kæranda á þessum tíma þar sem hann hafi ekki verið í fastri vinnu. Auk þess hafi ekki legið ljóst fyrir hversu mikil aukning hafi orðið á einkennum hans frá einkennum vegna fyrri sögu um stoðkerfisvanda. Hafi kærðu metið það sem svo, í ljósi tryggingaskilmála, að kærandi ætti ekki rétt til greiðslu bóta úr tryggingunni.

Kærðu vísa til þess að kæranda hafi verið gert ljóst að búið væri að kanna rækilega mögulegan rétt hans samkvæmt tryggingaskilmálum auk þess sem kæranda hafi verið gerð grein fyrir því að ákvæði um að örorka yrði að vera komin fram innan eins árs samræmdist ekki þeirri framkvæmd sem almennt væri viðhöfð hér á landi við mat á örorku. Hafi kærðu boðist til þess að láta á málið reyna fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum, þar sem E heyri undir x lögsögu, en jafnframt upplýst að slík vinna myndi hafa í för með sér kostnað. Kærandi hafi þá ekki viljað ganga lengra með málið. Að lokum hafi kærandi skipt um lögmann.

Kærðu leggja áherslu á að farið sé með upplýsingar sem fram koma um hagi kæranda sem trúnaðarupplýsingar. Þörf hafi hins vegar verið á að draga fram þessa hluti til að verjast ásökunum í kvörtun og með því sýna fram á hvaða upplýsingar hafi legið fyrir er kærðu unnu málið og tóku ákvarðanir í því.

Í samræmi við framangreint byggja kærðu á að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni og um orsakatengsl á milli meints tjóns hans og starfa kærðu í hans þágu. Beri því að hafna kröfum kæranda.

Niðurstaða

                                                                          I.

Rétt þykir að fjalla fyrst sérstaklega um frávísunarkröfu kærðu en samkvæmt 3. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna skal nefndin vísa frá máli ef það lýtur að réttarágreiningi sem ekki fellur undir valdsvið nefndarinnar.

Um þá kröfu er í málatilbúnaði kærðu vísað til þess að það falli utan valdsviðs nefndarinnar að leggja mat á ætlaða bótaskyldu þeirra gagnvart kæranda og ætluðu tjóni af þeim sökum. Beri þegar af þeirri ástæðu að vísa kvörtun kæranda frá nefndinni.

Um frávísunarkröfu kærðu er til þess að líta að úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt lögum nr. 77/1998 um lögmenn en valdsvið nefndarinnar er afmarkað í V. kafla laganna. Nánar tiltekið er valdsvið nefndarinnar annars vegar bundið við ágreining milli lögmanns og umbjóðanda hans um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Hins vegar getur sá sem telur að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna lagt kvörtun á hendur lögmanninum fyrir nefndina, sbr. 27. gr. laganna. Um hlutverk nefndarinnar er jafnframt fjalla í 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna en þar segir:

„Hlutverk úrskurðarnefndar lögmanna er:

  1. að fjalla um ágreining milli lögmanns og umbjóðanda hans um þóknun lögmannsins, þ.e. rétt hans til endurgjalds fyrir störf sín og um fjárhæð endurgjaldsins, enda sé ágreiningnum skotið til nefndarinnar af öðrum hvorum málsaðila eða báðum;
  2. að fjalla um kvörtun á hendur lögmanni frá aðila vegna háttsemi, sem kann að stríða gegn lögum eða siðareglum LMFÍ;
  3. að fjalla um erindi sem stjórn LMFÍ sendir nefndinni skv. 3. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna.

Í samræmi við þær heimildir sem hér hafa verið raktar fellur það utan valdsviðs nefndarinnar að taka til skoðunar hvort kærðu beri skaðabótaskyldu gagnvart kæranda vegna þeirra atvika sem kvörtun í málinu tekur til sem og hvort kærandi hafi orðið fyrir tjóni vegna hinnar ætluðu bótaskyldu háttsemi. Þegar af þeirri ástæðu verður að vísa tilgreindum kröfum kæranda á hendur kærðu frá nefndinni með þeim hætti sem í úrskurðarorði greinir.

Á hinn bóginn er það mat nefndarinnar að í erindi kæranda til hennar hafi jafnframt falist kvörtun hans á hendur hinum kærðu lögmönnum vegna ætlaðra brota þeirra gegn lögum og siðareglum lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Var sá skilningur jafnframt staðfestur í viðbótarathugasemdum þeim sem kærandi lagði fram undir rekstri málsins. Heyrir sá ágreiningur ótvírætt undir valdsvið nefndarinnar eins og það er afmarkað í fyrrgreindu lagaákvæði, sbr. einnig 3. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar. Samkvæmt því verður málið tekið til efnisúrlausnar um það efni.

II.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 18. gr. lögmannalaga ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Er slíkt enn fremur áréttað í 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna þar sem tiltekið er að lögmaður skuli leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna í samræmi við þá meginreglu 1. gr. að lögmanni ber að efla rétt og hrinda órétti og leggja svo til allra mála, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku. Þá skal lögmaður ekki taka að sér verkefni, sem hann veit eða má vita að hann er ekki fær um að sinna af kunnáttu og fagmennsku, nema verkið sé unnið í samstarfi við hæfan lögmann á viðkomandi sviði, sbr. 3. mgr. 8. gr. siðareglnanna.

Kvörtun í málinu lýtur að því að kærðu hafi gert á hlut kæranda með því að hafa ekki lagt fram kröfu í slysatryggingu kæranda hjá tryggingafélaginu E, vegna umferðarslyss sem kærandi hafði lent í þann 27. september 2016, innan tímafresta samkvæmt skilmálum tryggingarinnar. Hafi kærðu verið falið að annast hagsmunagæslu í þágu kæranda vegna málsins og þar með að hafa uppi kröfur á hendur viðkomandi tryggingafélagi. Þar sem kærðu hafi látið það ógert hafi þau gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríði gegn lögum og siðareglum lögmanna, sbr. fyrrgreind ákvæði.

Kærðu kveðast hins vegar hafa tekið að sér hagsmunagæslu í þágu kæranda vegna slyssins og að þau hafi tilkynnt um slysið til viðkomandi tryggingafélags þann 14. nóvember 2016. Ekki hafi hins vegar verið uppfyllt skilyrði samkvæmt undirliggjandi skilmálum til að setja fram kröfu um örorku- eða biðtímabætur í trygginguna innan tímafresta. Hafi það jafnframt verið mat kærðu, í ljósi atvika og stöðu kæranda, að efnislegur réttur væri ekki fyrir hendi fyrir kröfu og greiðslu úr tryggingunni. Hafi kærandi verið upplýstur um það mat kærðu. Þá hafi kærandi ekki viljað leggja málið fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum vegna þess kostnaðar sem því hefði fylgt. Í framhaldi af því hafi kærandi leitað til annars lögmanns um hagsmunagæslu vegna málsins.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er ágreiningslaust að kærðu tóku að sér að gæta hagsmuna kæranda vegna þess bótamáls sem kærandi leitaði til þeirra með á árinu 2016, sbr. umboð dags. 11. nóvember 2016. Liggur þannig fyrir að kærðu tilkynntu viðkomandi tryggingafélagi þann 14. nóvember 2016 um slys það sem kærandi hefði lent í tæpum tveimur mánuðum fyrr. Í framhaldi þeirrar tilkynningar munu kærðu hafa átt í samskiptum við lækni kæranda og matsmann auk þess sem gagna mun hafa verið aflað, þar á meðal vegna fyrri slysa sem kærandi hafði lent í.

Hvað ágreiningsefnið varðar er til þess að líta að ekkert liggur fyrir um í málinu að kærandi hafi í reynd átt rétt til örorku- og/eða biðtímabóta úr slysatryggingunni hjá E vegna hins ætlaða tjóns sem hann rekur til umferðarslyssins frá 27. september 2016. Jafnframt því virðist ágreiningslaust að ekki voru komin fram skilyrði til kröfugerðar vegna slíkra bótakrafna, samkvæmt undirliggjandi tryggingaskilmálum, innan þeirra tímafresta sem tryggingin kvað á um. Þannig mun hvorki hafa legið fyrir innan tímafresta staðfesting læknis á varanlegri andlegri eða líkamlegri skerðingu kæranda vegna slyssins né þá, eðli málsins samkvæmt, hver skerðingin væri í reynd líkt og áskilið var í skilmálum tryggingarinnar.

Um þetta efni er þess jafnframt að gæta að kærðu hafa lýst því í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni að kæranda hafi verið gerð grein fyrir því mati þeirra að hann ætti ekki rétt til greiðslu bóta úr tryggingunni þrátt fyrir rækilega könnun á mögulegum rétti hans samkvæmt tryggingaskilmálum. Jafnframt því hafi kærandi ekki þegið boð kærðu um að láta reyna á málið fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum á grundvelli kostnaðarsjónarmiða. Verður að mati nefndarinnar að leggja málatilbúnað kærðu að þessu leyti til grundvallar við úrlausn málsins enda hefur kærandi hvorki andmælt honum né með nokkru móti leitast eftir að hnekkja honum, eftir atvikum með framlagningu gagna.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið sem og með hliðsjón af atvikum öllum og þeim takmörkuðu gögnum sem lögð hafa verið fyrir nefndina, verður ekki talið að leitt hafi verið í ljós í málinu að kærðu hafi gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Þá er ekki annað fram komið í málinu en að kærðu hafi verið fær um að sinna því verkefni sem þau tóku að sér í þágu kæranda af kunnáttu og fagmennsku, sbr. 3. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna. Með vísan til þeirrar niðurstöðu verður kröfu kæranda á grundvelli 27. gr. laga nr. 77/1998 hafnað.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu kæranda, A, um að viðurkennd verði mistök kærðu, B lögmanns og C lögmanns, við hagsmunagæslu í þágu kæranda og ætlað tjón af þeim sökum, er vísað frá nefndinni.

Kærðu, B lögmaður og C lögmaður, hafa í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr lögmaður, formaður

Dagmar Arnardóttir lögmaður

Kristinn Bjarnason lögmaður

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson