Mál 2 2019

Mál 2/2019

Ár 2019, fimmtudaginn 17. október, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2019:

A ehf.,

gegn

B

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 11. janúar 2019 erindi C lögmanns fyrir hönd kæranda, A, en í því er lýst ágreiningi kæranda við kærða, B, um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess vegna lögmannsstarfa í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Með bréfi úrskurðarnefndar til kærða, dags. 15. janúar 2019, sem kærandi fékk afrit af, var upplýst um að litið væri svo á að erindi kæranda sneri að ágreiningi um rétt til endurgjalds fyrir störf lögmanns eða fjárhæð þess samkvæmt 26. gr. laga nr. 77/1998. Með bréfinu var kærða veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins. Með bréfi kærða til nefndarinnar, dags. 25. janúar 2019, var staðfest að erindið hefði verið móttekið jafnframt því sem þess var óskað að nánar tilgreind skjöl sem hefðu borist aðilanum á íslensku yrðu þýdd og afhent honum á ensku. Þá var tiltekið að kærði myndi ekki bregðast frekar við fyrr en gögn málsins hefðu borist honum á ensku.

Með bréfi úrskurðarnefndar til kærða, dags. 14. febrúar 2019, var upplýst að þingmálið fyrir nefndinni væri íslenska og að samkvæmt því væri ekki unnt að verða við beiðni kærða um að skjöl málsins yrðu þýdd á ensku. Þá var því lýst í bréfinu að greinargerð kærða vegna málsins þyrfti að berast eigi síðar en þann 11. mars 2019. Í svörum kærða við fyrrgreindu erindi, dags. 11. mars 2019, ítrekaði aðilinn fyrri afstöðu varðandi þýðingu skjala og að ekki yrði aðhafst frekar vegna málsins fyrr en þýðing lægi fyrir.

Með bréfi úrskurðarnefndar til kærða, dags. 13. mars 2019, var ítrekað að skjöl málsins yrðu ekki þýdd af hálfu nefndarinnar. Þá var athygli vakin á efni 6. mgr. 9. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna um að ef aðili sinnti ekki tilmælum nefndarinnar um skriflega umsögn eða framlagningu annarra gagna gæti nefndin byggt úrlausn máls á framlögðum gögnum og öðrum upplýsingum sem hún sjálf aflaði um málið. Í svari kærða, dags. 26. mars 2019, var fyrri afstaða aðilans ítrekuð. Samkvæmt því hefur kærði hvorki lagt fram í málinu efnislegar athugasemdir né gögn.

 

Var málið að því búnu tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Málsatvikalýsing kæranda hefur ekki sætt andmælum af hálfu hins kærða félags og verður hún lögð til grundvallar auk þess sem byggt verður á þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir nefndina.

Af málsgögnum verður ráðið að D, lögmannsfulltrúi hjá kærða, hafi sett sig í samband símleiðis við kæranda þann 11. ágúst 2017 með beiðni um hugsanlega lögmannsþjónustu. Í málsgögnum liggur fyrir tölvubréf frá viðkomandi fulltrúa frá sama degi sem hún beindi til kæranda. Var tiltekið í tölvubréfinu að kærði ætti í málarekstri á Englandi við nánar tilgreint tryggingafélag og að það væri skilningur viðkomandi að engir hagsmunaárekstrar væru til staðar vegna aðkomu kæranda að málinu í þágu kærða. Í tölvubréfinu var jafnframt staðfest að kærði myndi vilja fá ráðgjöf frá kæranda vegna málsins vegna hugsanlegra vanefndaúrræða gegn tryggingafélaginu á Íslandi. Þá var óskað eftir að kærandi myndi láta kærða í té upplýsingar um hvort kærandi gæti tekið að sér verkið og hvert tímagjaldið væri. Að fengnum þeim upplýsingum kvaðst fulltrúi kærða ætla að senda allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn vegna málsins svo unnt væri að áætla kostnað og tímaramma vegna verksins.

Í tölvubréfi E lögmanns hjá kæranda til fulltrúa kærða þann sama dag var því lýst að engir hagsmunaárekstrar væru til staðar. Í tölvubréfinu var því jafnframt lýst hvert tímagjald eigenda og fulltrúa hjá kæranda væri. Þá var tiltekið í tölvubréfinu að kærandi væri reiðubúinn að yfirfara upplýsingar og gögn og gera kostnaðaráætlun á þeim grundvelli auk þess sem hægt væri að fara yfir málið á símafundi.

Gögn málsins bera með sér að fulltrúi kærða hafi sent málsgögn til kæranda í tölvubréfi þann 14. ágúst 2017. Meðal þeirra gagna var bréf F, sem tilgreindur var sem eigandi hjá hinu kærða félagi, til fyrrgreinds E hjá kæranda, dags. 14. ágúst 2017.  Í bréfinu var staðfest að kærði óskaði eftir lögfræðiráðgjöf frá kæranda varðandi hugsanleg vanefndaúrræði kærða gegn viðkomandi tryggingafélagi á Íslandi jafnframt því sem talin voru upp þau undirliggjandi gögn sem fylgdu með erindinu. Þá var lykilatriðum ágreiningsins lýst en tiltekið að einungis væri óskað eftir fremur almennri ráðgjöf frá kæranda á þessu stigi, þ.e. ráðgjöf um það hvort möguleiki væri á að grípa til aðgerða gegn gagnaðila kærða á Íslandi. Að fenginni slíkri ráðgjöf gæti þurft frekari aðkomu kæranda að málinu. Að endingu var því lýst að kærði vildi á þessu stigi takmarka hugsanlega þóknun við 3.000 evrur auk virðisaukaskatts og var óskað eftir kostnaðar- og tímaáætlun frá kæranda vegna verksins, sbr. nánar tiltekið eftirfarandi í bréfinu:

At this stage we would like to limit fees to, say, €3,000 plus VAT, assuming that it is possible for you to give the advice in the way requested. Please could you let us have an estimate of your cost, hopefully within the suggested limit above, and an estimate of when you would let us have your advice.

Í tölvubréfi E  lögmanns hjá kæranda til fulltrúa kærða þann sama dag, 14. ágúst 2017, kom fram að kærandi gæti tekið að sér verkið og ritað minnispunkta vegna réttarstöðunnar fyrir 3.000 evrur auk virðisaukaskatts. Þá var tiltekið að kærandi myndi senda kærða skriflegt álit sitt um réttarstöðuna fyrir vikulok en ef þörf væri á því fyrr væri óskað eftir að kærandi yrði látinn vita um það.

Í svari fulltrúa kærða til E lögmanns, dags. 15. ágúst 2017, var þakkað fyrir skjót svör og því lýst að F væri að íhuga tölvubréfið og að haft yrði samband eins fljótt og auðið yrði.

Í samræmi við fyrrgreint erindi kæranda frá 14. ágúst 2017 sendi C lögmaður hjá kæranda skriflegt minnisblað um réttarstöðu kærða gagnvart viðkomandi tryggingafélagi til fulltrúa kærða föstudaginn 18. sama mánaðar. Var jafnframt tiltekið að kærandi væri reiðubúinn að ræða efni minnisblaðsins á símafundi ef þess væri óskað.

C lögmaður ítrekaði fyrrgreint erindi til kærða í tölvubréfi þann 6. september 2017, auk þess sem óskað var eftir upplýsingum um hvort kærði hefði haft tök á að yfirfara minnisblaðið og í hvaða farveg ætti að beina málinu. Í svari fulltrúa kærða, dags. 11. sama mánaðar, var þakkað fyrir tölvubréfin frá 18. ágúst og 6. september 2017. Þá var því lýst að frekari framgangur hefði orðið í málarekstri gegn viðkomandi tryggingafélagi á Englandi og að kærði myndi vera í frekara sambandi við kæranda síðar í vikunni vegna minnisblaðsins.

Meðal málsgagna er að finna reikning sem gefinn var út af hálfu kæranda á hendur kærða vegna fyrrgreindrar lögmannsþjónustu. Nánar tiltekið var um að ræða reikning nr. 6.608, dags. 31. ágúst 2017, að fjárhæð 2.970 evrur auk virðisaukaskatts, eða alls 3.682,80 evrur. Var tiltekið á reikningnum að um væri að ræða þóknun vegna lögmannsþjónustu í tengslum við vanefndaúrræði gagnvart tryggingafélagi á Íslandi sem innt hefði verið af hendi í ágústmánuði 2017. Samkvæmt reikningnum tók hann til alls 11 vinnustunda á tímagjaldinu 270 evrur auk virðisaukaskatts. Meðal málsgagna er jafnframt að finna tímaskýrslu kæranda vegna verksins en hún ber með sér að verkið hafi verið unnið á tímabilinu 11. – 18. ágúst 2017.

Kærandi sendi tilgreindan reikning í tölvubréfi til fulltrúa kærða þann 12. september 2017 en hann mun jafnframt hafa verið sendur í hefðbundnum bréfpósti. Með tölvubréfi fulltrúa kærða til kæranda, dags. 19. september 2017, var óskað eftir símtali daginn eftir til að ræða reikninginn. Af málsgögnum verður ráðið að ekki hafi orðið af því samtali.

Kærandi ítrekaði hinn útgefna reikning og óskaði eftir greiðslu samkvæmt honum með tölvubréfum til kærða dagana 17. janúar og 13. mars 2018. Bera gögn málsins með sér að kærði hafi mótmælt greiðsluskyldu samkvæmt reikningnum gagnvart kæranda í símtali þann 16. apríl 2018 en í tölvubréfi E til fulltrúa kærða þann sama dag var óskað eftir upplýsingum um hvað þyrfti að liggja fyrir svo reikningurinn yrði greiddur.

Með tölvubréfi fulltrúa kærða til kæranda, dags. 30. apríl 2018, var greiðsluskyldu kærða samkvæmt hinum útgefna reikningi kæranda hafnað. Var nánar tiltekið í bréfinu gerð grein fyrir þeim samskiptum sem átt hefðu sér stað á milli aðila frá 14. ágúst til 19. september 2017. Lýsti kærði þeim sjónarmiðum sínum að af samskiptunum yrði ráðið að samningur hefði ekki komist á milli aðila á grundvelli kostnaðaráætlunar kæranda frá 15. ágúst 2017 enda hefði kærði ekki staðfest það fyrir sitt leyti. Þá hafi kærði ekki gefið kæranda fyrirmæli um að hefja vinnu við hina skriflegu ráðgjöf. Aðeins hafi þannig verið óskað eftir kostnaðar- og tímaáætlun vegna verksins. Í kjölfar áætlana kæranda hafi kærði staðfest það eitt að verið væri að íhuga þetta efni og að hann myndi hafa samband fljótlega aftur.

Kærandi hafnaði framangreindum sjónarmiðum kærða í tölvubréfi þann 2. maí 2018. Var í tölvubréfinu að finna lýsingu á samskiptum aðila frá 11. ágúst til 11. september 2017 og tiltekið að í ljósi þeirra væri hafið yfir vafa að kærði hefði óskað eftir þjónustu kæranda við ritun minnispunkta vegna réttarstöðunnar.  Af samskiptunum yrði þannig í fyrsta lagi ráðið að kærði hefði verið meðvitaður um að verið væri að vinna að hinum skriflegu minnispunktum, í öðru lagi að kærði hefði ekki upplýst kæranda um að enn væri til skoðunar hvort leita ætti til hins síðargreinda og í þriðja lagi að kærði hefði nýtt þjónustu þá sem kærandi hefði veitt til eigin hagsbóta. Samkvæmt því var óskað eftir að kærði myndi endurskoða fyrri afstöðu sína til málsins og að krafa á grundvelli reikningsins yrði greidd innan 14 daga.

Kærandi ítrekaði fyrrgreint efni í tölvubréfum til kærða dagana 15. maí, 26. júlí og 23. ágúst 2018. Í hinu síðastgreinda tölvubréfi var tiltekið að ef reikningurinn yrði ekki greiddur fyrir 1. september 2018 væri kæranda nauðugur sá einn kostur að leita réttar síns með lögformlegum leiðum gegn kærða.

Líkt og áður greinir beindi kærandi loks máli þessu til úrskurðarnefndar lögmanna með erindi sem móttekið var þann 11. janúar 2019.

II.

Kærandi krefst fyrir nefndinni aðfararhæfs úrskurðar um greiðsluskyldu kærða á reikningi kæranda nr. 6608 að fjárhæð EUR 3.682,80 með virðisaukaskatti. Þá krefst kærandi hóflegs málskostnaðar úr hendi kærða vegna málsins, sbr. 3. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Í erindi kæranda er því lýst að hið kærða félag hafi neitað að greiða reikning vegna verks sem hafi sannarlega verið unnið fyrir aðilann og fyrirsvarsmanni hans hafi verið kunnugt um að krafist yrði þóknunar fyrir.

Kærandi vísar til þess að þann 11. ágúst 2017 hafi D, fulltrúi á lögmannsstofu kærða, haft samband símleiðis við kæranda vegna beiðni um lögfræðiráðgjöf. Hafi tilgreindum fulltrúa verið ráðlagt að senda tölvubréf til kæranda vegna erindisins. Í kjölfar þess, eða þann 14. ágúst 2017, hafi kæranda borist tölvubréf með beiðni um lögmannsþjónustu og fyrirspurn um tímagjald stofunnar. Þá hafi verið staðfest að kærði stæði í málarekstri á Englandi gegn nánar tilgreindu tryggingafélagi á Íslandi vegna samninga sem gerðir hefðu verið á Englandi. Þrátt fyrir að samningarnir hefðu verið gerðir á Englandi væri óskað eftir ráðgjöf um möguleg vanefndarúrræði gegn tryggingafélaginu vegna skuldar félagsins við kærða að fjárhæð 250.000 bresk sterlingspund sem ætti rætur að rekja til þess að tryggingafélagið fylgdi ekki úrskurðarorði í tengslum við málarekstur aðilanna.

Í málatilbúnaði kæranda er vísað til þess að fyrrgreindu erindi hafi verið svarað samdægurs með staðfestingu þess efnis að það myndi ekki fela í sér hagsmunaárekstur fyrir lögmenn hjá kæranda að taka að sér málið jafnframt því sem yfirlit haft fylgt með tölvubréfinu yfir tímagjald aðilans.

Kærandi bendir á að þann 14. ágúst 2017 hafi borist gögn frá hinu kærða félagi, þ. á m. viðkvæm gögn, ásamt afriti af bréfi undirrituðu af lögmanni og einum af eigendum kærða, John Leathley, þar sem staðfest hafi verið að kærði óskaði eftir að kærandi tæki að sér að kanna möguleg vanefndaúrræði gegn viðkomandi tryggingafélagi á Íslandi. Er vísað til þess að orðalagið í bréfinu sé afdráttarlaust þar sem segi meðal annars: „I confirm that my firm would like to instruct your firm on possible enforcement action against ERIC in Iceland.

Vísað er til þess að kærandi hafi svarað fyrrgreindu erindi samdægurs, þann 14. ágúst 2017, þar sem staðfest hafi verið að unnt væri að veita ráðgjöf í samræmi við beiðni kærða fyrir fast verð að fjárhæð 3.000 evrur auk virðisaukaskatts. Þá hafi jafnframt verið tiltekið í svarinu að ráðgjöfin yrði send fyrir vikulok og að óskað væri eftir að kærði myndi láta vita ef það lægi þannig á málinu að ráðgjöf þyrfti að berast fyrr en lagt væri upp með. Bendir kærandi á að í svari kærða, dags. 15. ágúst 2017, hafi komið fram að F væri að íhuga tölvubréfið og að kærði myndi hafa samband aftur jafnskjótt og mögulegt væri.

Í málatilbúnaði kæranda er vísað til þess að aðilinn hafi sent tölvubréf til kærða þann 18. ágúst 2017 með minnispunktum um möguleg vanefndaúrræði gegn viðkomandi tryggingafélagi á Íslandi, í samræmi við áðurnefnd fyrirmæli, auk þess sem kærða hafi verið boðinn símafundur um efni þeirra. Hafi það tölvubréf verið ítrekað af hálfu kæranda þann 6. september 2017 jafnframt því sem óskað hafi verið eftir upplýsingum um í hvaða farveg kærði myndi vilja beina málinu. Hafi því erindi verið svarað af hálfu kærða þann 11. sama mánaðar þar sem D hafi þakkað fyrir tölvubréfið og minnispukta kæranda. Jafnframt því hafi kærði tiltekið að framgangur hefði orðið í undirliggjandi málarekstri og að kærði myndi hafa samband síðar í sömu viku vegna minnispunktanna. Lýsir kærandi því að engin frekari tölvubréf eða símtöl hafi borist frá kærða í framhaldinu.

Kærandi kveðst hafa gefið út reikning í samræmi við framangreint og sent til kærða. Í kjölfar þess hafi kærði farið fram á samtal í síma til þess að ræða reikninginn. Þar sem reikningurinn hafi ekki enn verið greiddur í ársbyrjun 2018 hafi verið vakin athygli kærða á því með tölvubréfum 17. janúar og 13. mars 2018. Af sama tilefni hafi loks farið fram símtöl og tölvubréfasamskipti á milli aðila þann 16. apríl 2018. Hafi kærði hreyft því þar fyrst að reikningurinn yrði ekki greiddur þar sem ekki hefði verið gefin heimild til þess að vinna verkið. Kveður kærandi þetta hafa komið verulega á óvart en að brugðist hafi verið við afstöðunni með tölvubréfi til D hjá kærða þar sem óskað hafi verið eftir upplýsingum um það hvort hún hefði einhverjar spurningar varðandi reikninginn eða hvort eitthvað vantaði frá kæranda til þess að gera upp skuldina. Loks hafi borist tölvubréf frá kærða þann 30. apríl 2018 þar sem ítrekað hafi verið að ekki hefði komist á samningur um tímagjald eða beiðni um að byrjað yrði á verkinu.

Kærandi kveðst hafa svarað fyrrgreindu tölvubréfi þann 2. maí 2018 þar sem tiltekið hefði verið að afstaða kærða kæmi gífurlega á óvart og að það væri hafið yfir allan vafa að óskað hefði verið eftir því að kærandi tæki að sér að taka saman minnispunkta um réttarstöðu í málinu í þágu kærða. Jafnframt hafi því verið lýst í tölvubréfinu hvernig öll samskipti hefðu bent til þess að kærði hafi verið meðvitaður um að unnið væri að minnispunktunum og að kærði hefði gegn betri vitund ekki upplýst um að enn væri verið að íhuga hvort kærandi ætti að koma að verkinu. Þá hafi kærði nýtt minnispunktanna frá kæranda til eigin hagsbóta.

Kærandi vísar til þess að hann hafi ítrekað reikninginn í tölvubréfum 15. maí, 26. júlí og 23. ágúst 2018. Hafi kærða verið veittur lokafrestur til að greiða reikninginn til 1. september 2018 í hinu síðastgreinda tölvubréfi.

Vísað er til þess að engin af tilraunum kæranda til að fá kærða til að gera upp skuld sína hafi borið árangur þrátt fyrir að greiðslufrestur hafi margsinnis verið framlengdur. Samkvæmt því sé kominn upp ágreiningur um greiðsluskyldu kærða og því skilyrði fyrir nefndina til að taka málið til umfjöllunar, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Að endingu vísar kærandi til þess að hann telji ekki nauðsynlegt að leggja fram þau skjöl og samninga sem útbúnir hafi verið í tengslum við verkefnið eða gögn sem kærandi fékk frá kærða vegna verkefnisins. Í því samhengi bendir kærandi á að mótmæli kærða lúti að greiðsluskyldunni sjálfri en ekki fjárhæð reikningsins.

III.

Líkt og áður er rakið hefur kærði kosið að gera ekki grein fyrir efnislegum sjónarmiðum sínum vegna máls þessa fyrir nefndinni.

Niðurstaða

                                                                          I.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknað.

Þá segir í 15. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skuli upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

II.

Eins og málið liggur fyrir nefndinni þarf annars vegar að taka afstöðu til þess hvort komist hafi á samningssamband á milli aðila og samkvæmt því hvort kærandi eigi rétt til endurgjalds vegna lögmannsstarfa úr hendi hins kærða félags. Verði talið að komist hafi á verksamband á milli aðila þarf hins vegar að taka afstöðu til fjárhæð þess endurgjalds sem kærandi hefur áskilið sér úr hendi hins kærða félags vegna hinnar veittu lögmannsþjónustu.

Um hið fyrrgreinda efni þá liggur fyrir, svo sem nánar er rakið í málsatvikalýsingu að framan, að fulltrúi kærða leitaði til kæranda þann 11. ágúst 2017 með beiðni um hugsanlega lögmannsþjónustu er lyti að íslenskum rétti. Var þegar upplýst þann sama dag af hálfu kæranda að engir hagsmunaárekstrar væru fyrir hendi sem kæmu í veg fyrir að aðilinn gæti veitt kærða ráðgjöf þá sem óskað væri eftir auk þess sem gerð var grein fyrir tímagjaldi lögmanna hjá kæranda.

Fyrir liggur að fulltrúi kærða beindi nauðsynlegum málsgögnum til kæranda í tölvubréfi þann 14. ágúst 2017 þannig að hinum síðargreinda væri fært að leggja mat á umfang vinnunnar og þar með áætlaðan kostnað og tímaramma vegna verksins. Meðal þeirra gagna sem kærði lét kæranda í té var bréf undirritað af F, sem tilgreindur var sem eigandi (e. Managing Partner) hjá hinu kærða félagi sem stílað var á E lögmann hjá kæranda. Líkt og nánar er rakið í málsatvikalýsingu að framan var staðfest í bréfinu að kærði óskaði eftir lögfræðiráðgjöf frá kæranda varðandi hugsanleg vanefndaúrræði kærða gegn viðkomandi tryggingafélagi á Íslandi, sbr. nánar tiltekið eftirfarandi í efni bréfsins: „I confirm that my firm would like to instruct yout firm on possible enforcement action against Eric in Iceland.“ Þá var í bréfinu að finna nákvæm fyrirmæli frá kærða til kæranda um það efni að hverju ráðgjöf hins síðargreinda ætti að lúta. Þá var að endingu tiltekið að kærði vildi á því stigi takmarka huganlega þóknun vegna ráðgjafar kæranda við 3.000 evrur auk virðisaukaskatts og var óskað eftir kostnaðar- og tímaáætlun frá kæranda vegna verksins, með þeim hætti sem tekið er beint upp í málsatvikalýsingu að framan.

Svo sem rakið er í málstavikalýsingu var staðfest þann sama dag að kærandi gæti tekið að sér verkið og veitt umbeðna ráðgjöf um réttarstöðuna innan þeirrar fjárhæðar sem kærði hafði óskað eftir, þ.e. fyrir 3.000 evrur auk virðisaukaskatts. Þá staðfesti kærandi að skrifleg ráðgjöf yrði veitt kærða um réttarstöðuna fyrir lok þeirrar sömu viku en ef að þörf væri á henni fyrr væri óskað eftir upplýsingum þar að lútandi. Í svari fulltrúa kærða kom það eitt fram að F væri að íhuga tölvubréfið og að haft yrði samband eins fljótt og auðið yrði.

Fyrir liggur að kærandi innti lögmannsþjónustuna af hendi og sendi skriflega ráðgjöf um þá réttarstöðu sem um hafði verið rætt til kærða í tölvubréfi föstudaginn 18. ágúst 2017. Þá var reikningur vegna verksins gefinn út þann 31. sama mánaðar, svo sem rakið er í málsatvikalýsingu að framan.

Eins og málið liggur fyrir nefndinni verður ekki litið til annarra þátta en hinna skriflegu samskipta, sem áður eru rakin, við mat á því efni hvort samningssamband hafi komist á milli aðila um lögmannsþjónustu kæranda í þágu kærða. Að mati nefndarinnar verður skýrlega ráðið af fyrirliggjandi samskiptum málsaðila, og þá einkum efni bréfs F dags. 14. ágúst 2017, sem beint var til kæranda þann sama dag, að kærði hafi óskað eftir ráðgjöf kæranda um það efni sem bréfið tók til þótt að í því hafi falist ósk um að þóknun vegna verksins yrði takmörkuð við 3.000 evrur auk virðisaukaskatts. Fyrir liggur að kærandi hafði gert kærða grein fyrir tímagjaldi lögmannsstofunnar áður, þ.e. í tölvubréfi þann 11. ágúst 2017, og þar með á hvaða grundvelli þóknun yrði reiknuð, sbr. 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna. Auk þess bera gögn málsins skýrlega með sér að kærandi hafi staðfest, eftir móttöku fyrrgreinds bréfs þann 14. ágúst 2017, að stofan gæti tekið að sér verkið og að það yrði unnið innan þeirrar kostnaðaráætlunar sem kærði hafði sjálfur óskað eftir.

Hér verður einnig að líta til þess að kærði gerði engar athugasemdir við kæranda eftir að hinn síðargreindi sendi til kærða hina skriflegu ráðgjöf, sem undanfarandi samskipti málsaðila höfðu tekið til, þann 18. ágúst 2017. Þvert á móti þakkaði fulltrúi kærða fyrir sendinguna í tölvubréfi þann 11. september 2017 og lýsti því jafnframt að framgangur hefði orðið í málarekstri gegn viðkomandi tryggingafélagi á Englandi og að kærði myndi vera í frekari sambandi við kæranda síðar í vikunni vegna hinnar skriflegu ráðgjafar. Af málsgögnum verður þannig ráðið að kærði hafi fyrst hreyft skriflegum andmælum vegna hins útgefna reiknings gagnvart kæranda í aprílmánuði 2018 eða rúmum átta mánuðum eftir að lögmannsþjónustan var veitt og reikningur vegna hennar gefinn út.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið sem og með hliðsjón af gögnum málsins verður ótvírætt ráðið að mati nefndarinnar að komist hafi á samningssamband á milli aðila um lögmannsþjónustu kæranda í þágu kærða vegna þess verkefnis sem hinn síðarnefndi aðili leitaði upphaflega til kæranda með þann 11. ágúst 2017. Samkvæmt því er með engu móti unnt að fallast á sjónarmið, sem kærði hreyfði gagnvart kæranda í undanfara þess að málinu var beint til nefndarinnar, um að kærði hafi ekki gefið kæranda fyrirmæli um að hefja vinnuna, að aðeins hafi verið óskað eftir kostnaðar- og tímaáætlun frá kæranda vegna verksins og í kjölfar þeirra upplýsinga hafi kærði staðfest það eitt að verið væri að íhuga þetta efni.

Varðandi hið síðastgreinda efni verður að líta til þess að viðkomandi tölvubréf kærða, dags. 15. ágúst 2017, var sent sem svar við tölvubréfi kæranda frá 14. sama mánaðar þar sem kærandi staðfesti að hann tæki að sér verkið, að skrifleg ráðgjöf yrði veitt í sömu viku á grundvelli þeirrar þóknunar sem kærði hafði óskað eftir og að ef óskað væri eftir ráðgjöf fyrr þyrfti kærandi að fá upplýsingar um slíkt. Samkvæmt því verður efni tölvubréfs fulltrúa kærða frá 15. ágúst 2017 ekki skilið á annan veg en að tilgreind skoðun eða íhugun F á efni tölvubréfsins væri takmörkuð við tímaramma verksins.

Samkvæmt öllu framangreindu er það álit nefndarinnar að af gögnum málsins verði ráðið að komist hafi á samningssamband á milli aðila um lögmannsþjónustu kæranda í þágu kærða.

Um hið síðargreinda efni, þ.e. áskilið endurgjald, þá liggur fyrir að gefinn var út reikningur af kæranda þann 31. ágúst 2017 að fjárhæð 3.682,80 evrur með virðisaukaskatti. Á reikningnum var því lýst að hann væri tilkominn vegna lögmannsþjónustu í alls 11 klukkustundir í tengslum við vanefndaúrræði gagnvart tryggingafélagi á Íslandi sem veitt hefði verið í ágústmánuði 2017 og að tímagjald væri að fjárhæð 270 evrur auk virðisaukaskatts. Fyrir liggur jafnframt í málsgögnum tímaskýrsla kæranda vegna verksins en hún ber með sér að verkið hafi verið unnið á tímabilinu 11. – 18. ágúst 2017.

Eins og áður greinir þá gerði kærandi kærða grein fyrir því í upphafi samskipta aðila hvert tímagjald eigenda og fulltrúa hjá kæranda væri. Þá liggur fyrir að í bréfi kærða til kæranda, dags. 14. ágúst 2017, var sérstaklega óskað eftir að ráðgjöf á því stigi yrði takmörkuð við þóknun að fjárhæð 3.000 evrur auk virðisaukaskatts. Í svari kæranda þann sama dag var staðfest að unnt væri að veita hina umbeðnu þjónustu á því verði. Er fyrirliggjandi reikningur kærða í málinu að öllu leyti í samræmi við þau samskipti málsaðila enda fjárhæðir, hvort heldur sem litið er til áskilins tímagjalds eða heildarfjárhæðar vegna hinnar veittu þjónustu samkvæmt reikningnum, innan þeirra marka sem kærandi hafði lýst og kærði hafði óskað sérstaklega eftir.

Með hliðsjón af öllu framangreindu og að virtum þeim gögnum sem lögð hafa verið fram í málinu, þ. á m. tímaskýrslu kærða sem virðist greinargóð um það sem gert var hverju sinni og innan þess ramma sem kærði hafði sérstaklega óskað eftir, er það mat nefndarinnar að hæfilegt endurgjald fyrir lögmannsstörf kæranda í þágu kærða sé 3.682,80 evrur með virðisaukaskatti. Þessi niðurstaða felur í sér að sú þóknun sem kærandi áskildi sér vegna starfa sinna í þágu kærða var hæfileg. Samkvæmt því eru ekki skilyrði til annars en að fallast á kröfu kæranda fyrir nefndinni með þeim hætti sem greinir í úrskurðarorði.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.       

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði B, greiði kæranda, A ehf., 3.682,80 evrur.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr lögmaður, formaður

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður

Kristinn Bjarnason lögmaður

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson